Leita í fréttum mbl.is

Hvert stefnir Ísland? Eru fjármálafyrirtækin að éta útsæðið?

Ég er í þeim sporum að horfa á þróunina á Íslandi utan frá.  Er ekki í hringiðunni og upplifi því ekki það þunglyndi og neikvæðni sem Íslendingar sem ég hitti hér í Danmörku tala um.  Eiginlega er ég feginn að hitta ekki fleiri en raun ber vitni.

Allir þeir Íslendingar sem ég tala við, segja mér sömu söguna.  Ástandið fer versnandi hjá a.m.k. verulegum hluta þjóðarinnar.  Skiptir ekki máli hvort talað er um sæmilega efnað fólk eða sauðsvartan almenning.  Ástandið er ekki gott.  Nema náttúrulega hjá fjármálafyrirtækjunum sem tókst að safna sér upp vel yfir 30 milljörðum í hagnað á fyrstu 6 mánuðum ársins.  Þegar afkomutölur þeirra eru skoðaðar, þá er eins og haustið 2008 hafi bara verið afbrigðileg dýfa á afkomulínuritinu.  A.m.k. þá er það með ólíkindum, að hrunið sé að skapa afsprengjum hrunbankanna meiri hagnaði en hrunbönkunum tókst að búa til á árunum 2003-2007.  Kannski að einhverjir heimspekingar eða siðfræðingar sjái þetta sem efni í rannsóknarverkefni.

Hvert mun þetta leiða?  Ég hef svo sem spurt þeirrar spurningar fyrr og svarað henni áður.  Þetta er að leið til þess, að hluti þjóðarinnar er að komast á vergang, ef hann er ekki þegar kominn í þá stöðu.  Ég heyri of mörg dæmi af fólki sem hefur reynt allt sem það getur til að semja við fjármálafyrirtækin og náð samningum, bara til þess að komast að því, að starfsfólkið sem það samdi við hafði ekki umboð til að semja.  Ég hef heyrt allt of mörg dæmi af fólki sem hefur misst húsnæðið ofan af sér (of vegna óverulegra skulda) en situr samt uppi með drjúgan hluta skuldanna, vegna þess að fjármálafyrirtækin buðu lágmarksupphæð á nauðungarsölu svo fólk losnaði ekki af króknum.  Síðan hef ég heyrt allt of margar sögur af fólki sem er á flækingi á milli húsnæðis eða býr jafnvel í hjólhýsi vegna þess að leigubraskarar eru að mata krókinn.  Oft eru þessir leigubraskarar handbendi þessara sömu fjármálafyrirtækja sem tóku húsnæðið af fólki.

Söfnun húsnæðis kostar pening

Hvað munu fjármálafyrirtækin geta tekið yfir mikið af íbúðarhúsnæði áður en það fer að kosta þau of mikið?  Höfum í huga að af 30 m.kr. húsnæði þarf að greiða 25-30 þús.kr. í fasteignagjöld á mánuði 10 mánuði ársins.  Greiða þarf hitunarkostnað og halda húsnæðinu við.  Eða ætla fjármálafyrirtækin að selja fólki húsnæði síðar sem er orðið ónýtt, vegna þess að það var ekki kynnt eða því haldið við.  Þá þarf starfsmenn í eftirlit með húsnæðinu.  Húsnæði sem ekki er búið í verður frekar fyrir skemmdum, vegna þess að enginn er til að hlusta á þakplötuna losna eða rúðuna brotna.

Hver verður svo ávinningur fjármálafyrirtækjanna af þessu?  Hann verður ekki mikill nema þeim takist að skapa fasteignabólu.  Hækki ekki verð á húsnæði verulega og ég er að tala um 25-30% áður en eignin er seld, þá eru fjármálafyrirtækin ekki að hafa nóg út úr þessu.  Svo einfalt er það.  Er það kannski þess vegna sem greiningardeildirnar eru alltaf að tala um væntanlega hækkun húsnæðisverðs?

Færri geta keypt

Sú hlið sem er betur og betur að koma í ljós, er að færri og færri eru að komast í gegn um greiðslumat.  Kannski eins gott, svo sama vitleysa byrji ekki aftur.  Lausnin á því er bara ein.  Að verð húsnæðisins lækki og það verulega.  Verð á húsnæði og greiðslubyrði lána verður að vera í samræmi við greiðslugetu kaupenda.  Alls staðar í heiminum hefði fasteignaverð lækkað við slíkar aðstæður, en ekki í fjármálaparadísinni Íslandi.  Eða ætti ég að segja, paradís fjármálafyrirtækjanna.

Ég skil vel að fjármálafyrirtækin verða að hagnast til að geta haldið áfram að starfa, en ef stór hluti viðskiptavina fjármálafyrirtækjanna er á vonarvöl, hvert ætla fjármálafyrirtækin þá að sækja tekjur sínar?

Meðan ég var í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna, þá sótti ég heim fjóra bankastjóra, þ.e. Steinþór Pálsson hjá Landsbankanum, Birnu Einarsdóttur hjá Íslandsbanka og síðan hitti ég bæði Finn Sveinbjörnsson og Höskuld Ólafsson hjá Arion banka.  Á öllum þessum fundum lögðum við hjá HH áherslu á að markmið samtakanna væri að treysta viðskiptasamband viðskiptavinanna við viðskiptabankann sinn.  Þetta var 2009 og 2010.  Við hvöttum bankanna til að gera allt sem þeir gátu til að koma til móts við viðskiptavini sína, þannig að viðskiptasambandið gæti haldist.  Ég er ekki viss um að allir hafi verið að hlusta.

Hvert stefnir Ísland?

En að fyrirsögninni:  Hvert stefnir Ísland?

Ja, eins og þetta lítur út frá mínu sjónarhorni, þá er þjóðin að skiptast í tvo mjög ólíka hópa.  Annan sem hefur það gott, m.a. vegna þess að hann var/er með rétt sambönd innan fjármálakerfisins og síðan hinir sem virðist vera hægt að koma fram við eins og það lægsta sem til er.  Fróðlegt viðtalið við þingmann Framsóknar sem sýnt var í Ísland í dag á Stöð 2 fyrir rúmri viku.  Hefði útvalinn einstaklingur, sem hefði farið í gegn um 110% leið sértækrar skuldaaðlögunar, lent í því að fá 5,8 m.kr. bakreikning vegna þess að 2 mánuðir fóru í vanskil?  Nei, ég efast stórlega um það.  En það fær almúginn sem má missa sig.  Þó þessi almúgi hafi verið þingmaður.  En þetta er því miður ekkert einsdæmi, eins og þingmaðurinn greindi frá.

Færri standa undir vextinum

Jæja, áfram með hvert stefnir.  Hópurinn sem á nóg, hann heldur bara áfram með líf sitt, en hinn hópurinn hann mun festast í kviksyndi.  Þegar hefur talsverður hluti fjölskyldna misst heimilið sitt.  Aðrar eru inni í íbúðum sínum upp á náð og miskunn, en greiða húsaleigu sem er hærri en mánaðarlegar greiðslur lánanna sem þær réðu ekki við voru áður.  Það sem verra er, að hátt í 50 þúsund fjölskyldur eru í vandræðum með eða geta ekki staðið undir mánaðarlegum útgjöldum.  Vanskil eru mikil, þó reynt sé að telja okkur trú um að þau séu að minnka, þá held ég að það sé ekki rétt.  Fjárnámum fjölgar og fjármálafyrirtækin virðast vera himinn lifandi, er þau eru árangurslaus.  Þannig er nefnilega hægt að halda kröfunni lifandi í mun lengri tíma, en ef farið er í gjaldþrot. 

Það er einmitt þessi þróun sem er mest ógnvekjandi fyrir framtíðina.  Sá sem er með árangurslaust fjárnám á bakinu, hann fær ekki lán (nema gera upp fjárnámskörfuna sem hann myndi gera ef hann hefði efni á).  Sá sem ekki fær lán er óvirkur á fjárfestingamarkaði.  Kaupir sér hvorki bíl né húsnæði.  Getur heldur ekki gengist í ábyrgð fyrir fyrirtæki eða verði hluti af atvinnusköpun.  Það er þetta sem er að drepa Ísland í dag.  Fólkið sem á að vera drifkrafturinn í nýjabrumi atvinnusköpunar, það er búið að gelda það fjárhagslega.  Á hvorki peninga til að leggja í nýsköpun og atvinnuuppbyggingu né er lánshæft.

Hvernig ætla stjórnvöld og fjármálafyrirtækin að bregðast við þessu?  Stjórnvöld þurfa að stuðla að atvinnusköpun, en ef stór hluti þeirra sem ættu að standa að þessari atvinnusköpun geta það ekki, vegna þess að þeir eru enn í rústabjörgun heimilis, þá er úr vöndu að ráða.  Og gagnvart fjármálafyrirtækjunum, þá verða þau að viðhalda tekjustreyminu og hagnaðinum.  En hvaðan eiga tekjurnar að koma?  Bara aukin verðmætasköpun í þjóðfélaginu gerir það.

Ég vona að einn daginn átti fjármálafyrirtækin sig á því, að leitin eftir skammtímahagnaði mun bitna á vaxtarmöguleika þeirra til framtíðar.  Þetta á ekki bara við þau íslensku, heldur virðist þessi fíkn fjármálaaflanna í skammtímahagnað vera algeng um allan heim.  Raunar er hún plága.  Allt er gert til að ná í eitt cent í viðbót, þó að það þýði að menn éti útsæðið.   Það er sýn mín á stöðuna á Íslandi í dag.

Marklaus samningstilboð og fleiri trix

Margt fleira er fjármálafyrirtækjunum ekki til framdráttar.  Fyrir utan hve langan tíma þau hafa tekið sér í að leysa mál viðskiptavina sinna, þá nota þau alls konar trix til að hreinlega eyðileggja möguleika á samningum.  Vinsælasta trixið er að láta umboðslaust starfsfólk semja við viðskiptavininn. Þekki ég dæmi um að fólk og fyrirtæki hafi fengið fjölmörg "tilboð" frá fjármálafyrirtæki um lausn mála, bara til þess eins að lánanefnd fjármálafyrirtækisins hafi dregið tilboðið til baka.  Hvers slags viðskiptasiðferði er það, að leggja fram samning án þess að hafa umboð til að leggja samninginn fram? Til hvers eru fyrirtækin að senda umboðslaust starfsfólk til að semja við viðskiptavinina?  Slíkt er bara hrein sadismi.  Önnur útgáfa er að láta marga fást við málefni sama viðskiptavinar og passa sig á því að engin samskipti séu (að því virðist) milli starfsmannanna.  Þannig getur einn starfsmaður boðið viðskiptavininum áhugaverðan samning, en síðan setur hinn starfsmaðurinn þessum sama viðskiptavini óaðgengileg skilyrði sem þá um leið fella fyrri samninginn. Nú málefni þingmannsins, sem ég nefni að ofan, er síðan enn ein útfærslan.  Enginn sveigjanleiki.  Reitt er höggs af fullum þunga.

Ég hvatti einu sinni til mannúðar.  Hún er eitt af þessum grunngildum sem gufaði upp í hruninu.  Núna nánast 5 árum síðar, þá virðist hún enn týnd.

Svo merkilegt er að fyrir einu ári skrifaði ég færslu nánast sama efnis, Hin endurreista bankastarfsemi á Íslandi.  Þar fjallaði ég líka um þessa sérkennilegu aðferðarfræði bankanna.  Því miður virðist lítil breyting hafa orðið.  En skilaboð mín til fjármálafyrirtækjanna eru þau sömu og þá:

Ég held að hollast sé fyrir bankana að muna, að ánægður viðskiptavinur er líklegri til að vera áfram í viðskiptum en sá sem er óánægður.  Uppgjörsmál vegna hrunsins verða því að innifela í sér gagnkvæman ávinning en ekki að annar sé keyrður í þrot og hinn taki til sín allan hagnaðinn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

er ekki spurníngin sú hvort þetað er ekki orðið of seint að alt umburðarlindið sé farið úr samfélaginu bara af græðgi sé einga góða leiða leið útúr þessu en sjáum til menn virðast ekki vera að tala saman hvorki ríkistjórninn, verkalfl. lífeyrissj, bankar og fl. ráðandi öfl í þjófélaginu eru að byggja upp spreingju sem mun springa þá og þegar bara af því menn géta ekki talað saman og náð niðurstöðu af hverju veit ég ekkier astæðan sú að ástandið sé svo slæmt að ekkert sé hægt að gera éf trúi því ekki en ef menn gera ekkert kemur skellurin því leingur sem beðið er þeimmun vera verður það

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 31.8.2013 kl. 08:47

2 identicon

Sæll Marinó.

Að venju hollar hugrenningar hjá þér. Ekki ættla ég að mæra bankana aðrir sjá um það.

Ólíklegt er að húsnæðisverð lækki í bráð, byggingarkostnaður er um kr 300.000 pr/ m2 sem er hærra en stórt hlutfall notaðra eigna selst á. Opinbert regluverk, lóðarskortur og uppsöfnuð þörf eykur þennan kostnað á næstu árum.

Lausnin er ekki lækkun húsnæðisverðs heldur frekar aukning kaupmáttar fólks. Lagfæra þarf gengisskráningu krónunnar, vandamálið er að alltof margar krónur eru í kerfinu þannig að erfitt er að hafa stjórn á fjármálakerfinu , helst sýnist mér að skipta þurfi út krónunni svipað og Lilja Móses hefur kynnt.

Meiri kaupmáttur=hærra gengi, lægri vextir, lægri skattar og auðvita hærri laun!

Jónas Jónsson (IP-tala skráð) 31.8.2013 kl. 09:07

3 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Góður pistill eins og venjulega. Það er margt skrýtið í gangi hér á Íslandi sem maður skilur ekki - þó maður virkilega reyni.

Sumarliði Einar Daðason, 31.8.2013 kl. 09:28

4 identicon

Það virðist því miður ekki vera tilefni til mikillar bjatsýni á Íslandi á næstunni. Þó fólk þurfi alltaf húsnæði til að búa í þá á það ekki að vera fangelsi. Undarlegt að ég minnist ekki að neinn stjórnmálaflokkur hafi í kosningarbaráttunni  talað fyrir lyklafrumvarpinu né að leggja auðlegðarskattinn á lífeyrissjóðseignir.  Það er þungur áróður núna í gangi fyrir raforkusteng til evrópu, hærra raforkuverð og enn því enn meiri álögur á almenning en kaupið hækkar ekki nema hjá sumum.

Grímur (IP-tala skráð) 31.8.2013 kl. 09:53

5 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Góður pistill Mrino. Ég er á sama róli og Sumarliði, það er svo margt sem maður skilur ekki í þessu þjófélagi, og svo virðist sem lög séu að engu höfð í hnum ýmsu málum! Mér finnst það skrítin kenning að húnæðisverð verði að hækka vegna þess að byggingakostnaður sé svo hár eins og fasteignasalar ofl seigja í fjölmiðlum, af hverju á ekki frekar byggingarkostnaður að lækka? Hér á landi er búið að keyra allan kostnað upp úr öllu valdi, sama í hvaða nafni hann er, hann er síst minni en hjá nágrannaþjóðum okkar, en launin hér eru miklu lægri, jafnvel 50% - 60% lægri. Hvernig gengur þetta upp? Maður sem ég þekki vinnur á lyftara hjá stóru framleiðslufyrirtæki í Danmörk, hann er með10050.000 í Íslenskum króum á mánuði fyrir 8 tíma vinnu 5 daga vikunnar!!. Annaðhvort þurfa atvinnurekendur svona mikið fyrir sjálfa sig hér á landi eða þeir kunna ekki með atvinnurekstur að fara. Hvernig á maður að skilja þetta?? KV. Bláskjár.

Eyjólfur G Svavarsson, 31.8.2013 kl. 14:34

6 identicon

Sögulega samhengið segir að við stefnum á að gefa auðlindir okkar til fárra en arður af þeim til almennings er frumforsenda góðra lífskjara hér á landi.

Flowell (IP-tala skráð) 31.8.2013 kl. 17:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband