Leita í fréttum mbl.is

Mótbárur sendar fjármálastofnun - endurbirt færsla

Vegna nýfallins dóms Hæstaréttar nr. 464/2012 langar mig að endurbirta tæplega ársgamla færslu, en hún er með mótbárum mínum við endurútreikning Landsbankans hf. á áður gengistryggðum lánum, sem ég var með hjá bankanum.

Mótbárur sendar fjármálastofnun

Fjármálafyrirtækin eru orðin ansi ágeng í innheimtum sínum og knýja þá sem ekki viðurkenna útreikninga sína til að gangast undir þá.  Eina sem lántakar geta gert fyrir utan að fara í dómsmál, er að hafa uppi mótbárur, þ.e. mótmæla því að krafa á hendur þeim sé réttileg.  Hér fyrir neðan eru mótbárur sem ég sendi Landsbankanum í dag og er öðrum frjálst að nota þær aðlagaðar að sínum þörfum.  Tekið skal fram að textinn er lítillega breyttur frá þeim sem ég sendi.

Mótbárur

Með þessum pósti er ég að halda uppi mótbárum við kröfu Landsbankans hf. og hafa mótbárurnar skjalfestar með mínum tilvísunum til kröfuréttar.  Í bók Páls Hreinssonar Viðskiptabréf segir m.a. um mótbárur:

Mótbárur skuldara gagnvart framsalshafa má flokka í þrennt.  Í fyrsta lagi mótbárur um að krafa á hendur skuldara sé falin niður.  Í öðru lagi mótbárur er lúta að stofnun viðskiptabréfakröfunnar, þ.e. að hún hafi verið ógild frá upphafi.  Í þriðja lagi geta mótbárur varðað efni kröfunnar.. 

Mínar mótbárur falla undir fyrsta liðinn og lúta fyrst og fremst að því að krafa hafi að hluta verið fallin niður þar sem sá hluti hafi verið að fullu efndur eða eins og Páll Hreinsson segir:

Í þennan flokk mótbára [um að viðskiptabréfakrafa sé niður fallin] fellur að sjálfsögðu sú mótbára að krafa sé greidd sbr. tilskipun frá 9. febrúar 1798..

Ég tek að sjálfsögðu fram að ég lít ekki á það að ég hafi verið í vanskilum.  Samkvæmt kröfurétti hef ég fullan rétt á að greiða ekki það sem ég tel ekki vera rétt krafa enda mótmælti ég útreikningunum.  Vanefnd myndast þegar réttileg krafa er ekki greidd með réttilegum hætti og án galla.

Ástæðan fyrir því að ég tel kröfu ykkar ekki rétta er svo sem vel þekkt, en langar mig að rifja það upp með tilvísunum í kröfurétt.  Í bókinni Kaflar úr Kröfurétti Ólafs Lárussonar segir m.a.:

Kröfuhafinn á heimtingu á því, að skuldarinn efni að fullu þær skyldur sem krafan leggur honum á herðar.  Til fullra efnda heyrir það að þær fari fram á réttum stað og á réttum tíma.  Ef fullar efndir eiga sér stað, er skyldu skuldarans þar með lokið og kröfuhafinn getur þá einskis frekar af honum krafist.

Og síðar í bókinni segir:

Við framsalið öðlast nýi kröfuhafinn (framsalshafi) allan þann rétt sem fyrri kröfuhafi (framseljandi) átti á hendur skuldara og að jafnaði öðlast hann ekki annan rétt gegn skuldara en framseljandi átti.

Og enn segir í þeirri ágætu bók:

Þegar krafa er liðin undir lok er greiðsluskyldu skuldarans lokið.  Ef kröfuhafinn færi í mál við skuldarann út af slíkri kröfu og skuldarinn hefði uppi þá vörn að krafan væri úr gildi gengin myndi skuldarinn verða sýknaður af kröfu sækjandans.

Nú í bókinni Kröfuréttur I eftir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Eyvind G. Gunnarsson segir:

Greiðsla skuldara til kröfuhafa leiðir því aðeins til brottfalls skyldu skuldara og þar með til loka kröfuréttinda, að greitt sé í samræmi við ákvæði samnings eða lagareglna.  Til réttra efnda af hálfu skuldara heyrir m.a. að hann inni greiðslu sína af hendi á réttum stað og réttum tíma.  (Neðanmáls: Til viðbótar því, að krafa sé greidd á réttum stað og tíma, heyrir það til réttra efnda á kröfu, að innt sé af hendi greiðsla sú sem greiða átti, hún hafi þá eiginleika til að bera sem um var samið, og að hún sé greidd til kröfuhafa eða einhvers sem heimild hefur til að taka við greiðslunni fyrir hans hönd.) (Leturbreyting er mín)

Og loks vil ég vitna í:

Það heyrir til réttra efnda kröfu í gagnkvæmu skuldarsambandi í fyrst lagi að hún sé greidd á réttum stað og réttum tíma.  Í öðru lagi að kröfuhafi hljóti þá réttarstöðu, sem af samningi leiðir, þ.e. hann öðlist þær heimildir yfir greiðslunni, sem samningur hans og skuldara gerir ráð fyrir.  Í þriðja lagi að greiðslan sé gallalaus, þ.e. að raunverulegum eiginleikum hennar sé ekki áfátt.

Það hefði svo sem verið nóg, að vera bara með fyrstu tilvitnunina, en gaman er að vitna í fleiri til að sýna hversu sterkur réttur minn er samkvæmt kröfurétti.  Ég vil hafa það á hreinu að ég tel að kröfur á mig vegna þess tíma sem kröfurnar voru í höndum Landsbanka Íslands hf. hafi verið að fullu efndar.  Við framsal "öðlast nýi kröfuhafinn (framsalshafi) allan þann rétt sem fyrri kröfuhafi (framseljandi) átti á hendur skuldara og að jafnaði öðlast hann ekki annan rétt gegn skuldara en framseljandi átti" eins og segir að ofan.  Landsbankinn hf. á því engar kröfur á mig sem Landsbanki Íslands hf. átti ekki við framsal kröfunnar.  Landsbankinn hf. (Nýi Landsbankinn hf./NBI hf.) lét þinglýsa í skilmálabreytingu í október 2008 að ég fengi þá skilmálabreytingu vegna þess að ég var í skilum.  Er mér ómögulegt að skilja hvernig Landsbankinn hf. geti átt ríkari rétt á mig núna í nóvember 2011 en hann átti í október 2008.  Ég hef því alltaf mótmælt rétti ykkar til að reikna lánin eins og þið gerið.  Þess vegna neita ég því að um vanskil hafi verið að ræða, þar sem ég fékk aldrei í hendur rétta greiðslukröfu.

Ég mun því gera fyrirvara á bæði skuldabréf og geri hér fyrirvara við útreikninga ykkar á meintum vanskilum, enda tel ég ekkert af þessu standast íslenskan kröfurétt.

Dómstólar eiga bara einn kost

Svo mörg voru þau orð.  Það er mín skoðun og allra lögfræðinga sem ég hef rætt við, að dómstólar eigi bara einn kost í stöðunni, þegar reynir á endurútreikninga fyrir dómi.  Þ.e. að hafna endurútreikningi á þegar greiddum gjalddögum.  Jón Finnbjörnsson við Héraðsdóm Reykjavíkur gerði það raunar í máli nr. X-77/2010 Arion banki gegn Agli ehf. þar sem hann segir:

Þá er ekki heimilt að reikna á ný afborgun af vöxtum og höfuðstól, ef hún hefur verið greidd að fullu á réttum gjalddaga eins og krafist var.

Því miður hefur Hæstiréttur dregið lappirnar með að taka á þessu atriði, þó hann hafi fengið til þess mörg tækifæri.  Rétturinn hunsar með því fjölmarga úrskurði Evrópudómstólsins um að honum beri að hafa í huga betri rétt neytenda, þrátt fyrir að hann hafi ekki verið reifaður fyrir dómi.

Nú tek ég það fram, að ég er ekki löglærður og þekki því ekki alla króka og kima lögfræðinnnar.  Einnig fékk ég Viðskiptabréf Páls Hreinssonar bara í hendur á laugardag og keypti hina tvær síðdegis í gær.  Ég er því ekki  búinn að lesa þær spjaldanna á milli og gæti því hafa yfirsést eitthvað sem vinnur gegn mér og öðrum lántökum í þessu máli.  Þætti mér vænt um að fá ábendingar um slíkt, því hafa skal það sem sannara reynist.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú er mikið rætt um að ekkert sé að vanbúnaði að fara að reikna þessi lán að nýju.

Nýjasti dómur Arion og Borgarbyggð sé svo skýr að það liggi alveg fyrir hvernig beri að reikna þessi lán og gera það hið fyrsta.

Ég get alls ekki tekið undir það, enn hefur ekki reynt á neytendarétt varðandi það hvort heimilt sé að setja inn ný vaxtakjör í stað þeirra er voru felld út með gengistryggingunni.

Ég held að það sé alveg á hreinu að það standist ekki neytendarétt (sem er reyndar alveg óþekktur réttur á Íslandi) að setja inn vaxtakjör sem eru miklu miklu og margfalt hærri en það sem samið var um.

Þetta mun aldrei fást staðist þegar á reynir, og ég mun hafna öllum endurútreikningi á mínu láni sem inninalda seðlabankavexti sem eru í dag ca 4 sinnum hærri en þau vaxtakjör sem ég skrifaði undir.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 26.10.2012 kl. 19:20

2 identicon

Ég held að þetta sé rétt hjá Sigurði #1. Neytendur eiga að öllum líkindum betri rétt en þann sem fékkst viðurkenndur í máli Borgarbyggðar gegn Arion.

Er Borgarbyggð neytandi í skilningi laga? 

Dómur Evrópudómsstólsins í máli C-618/10 virðist líka kristaltær. Ef samningur er efnanlegur þó svo að hlutar hans dæmist ógildir þá ber lánveitanda að standa við hann ef það er ósk lántakanda.  Hver á að sjá um að farið sé eftir dómum ECJ á Íslandi?     

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 26.10.2012 kl. 20:08

3 identicon

Ég hef heldur hvergi séð umræðu eða fréttir af þessum dómi sem LÍN tapaði í Danmörku. Hvað gerist ef allir skuldarar flýja úr landi og þurfa ekki að greiða verðbætur og jafnvel lægri vexti, auk greiðslu sem miðast við gengi síðan 2008.

larus (IP-tala skráð) 26.10.2012 kl. 20:46

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður #1 ég er fullkomlega sammála þér í því að ekki stenst að hægt sé að breyta vöxtunum og því munum við á endanum sjá samningavexti haldast á a.m.k. neytendalánum.

Hvað varðar dóm C-618/10 þá er hann nokkuð skýr um að þó einu ákvæði sé hent út þá skal virða samninginn sé það á annað borð mögulegt.  Hvað varðar áður gengistryggð lán, þá er hann það.

Lárus, dómurinn í Danmörku var um allt aðra hluti og ég held að hann sé of metinn.  Með honum var málinu fyrst og fremst vísað til Íslands, en jafnframt hafnað kröfu LÍN í dönskum krónum.  Álíti íslenskur dómstóll að verðtrygging haldi, þá reikna ég með að það standi.  Vissulega var öllum kröfum LÍN hafnað en málinu var jafnframt vísað heim.  Hvort að það sé gott að miðað sé við gengi árið 2008, veit ég ekki.

Marinó G. Njálsson, 26.10.2012 kl. 21:35

5 identicon

Lánaformin eru mismunandi. Lán greidd út í krónum og endurgreidd í ísl krónum geta ýmisst talist ólögleg eða ekki. Árna Páls lögin tóku á þessu og sögðu að öll lán sem tekin voru til húsnæðiskaupa og greidd út í ísl krónum skulu endurreiknuð. Drómi og íslandsbanki að hluta hafa ekki viðurkennt þessi lán sem ólögleg en endurreiknað á grundvelli Árna Páls laganna. Viðbúið er að lánastofnanir muni láta reyna á hvort ekki finnist þráður í hverju láni fyrir sig til að þurfa ekki að endurreikna. Sama gerðist með fjármögnunarleigusamninga Lýsingar þar fundu menn tvinna til að hanga á. Hvað verðum um þetta. Er ekki staðreyndin að þúsindur fjölskyldna geta setið uppi með erlent lán og því tapað verulega ef Árna Páls lögin halda ekki

SAS (IP-tala skráð) 27.10.2012 kl. 08:47

6 identicon

Sæll Marínó, já, það er rétt hjá þér að dómurinn sé líklega ofmetinn, eins og hann er. Málið er aftur á móti að t.d. hér í Noregi hafa þeir sem skulda meðlag á Íslandi, ekki þurft að greiða vexti og verðbætur á rukkanir frá Íslandi. Ástæðan er sú að NAV (félagsmálabatteríið) sér um innheimtu fyrir innheimtustofnunina, vill ekki innheimta vexti því það er ekki "hefð" fyrir því í Noregi að innheimta vexti af meðlögum, og þeir geta ekki innheimt verðbætur því þær eru ekki til í norskum lögum.

Punkturinn hjá mér var kannski meira um það hvað/hvernig innheimtustofnanir ætla að fara að því að innheimta ef þær koma með kröfur til erlendra dómstóla sem verður alltaf vísað aftur til íslands.

Annars vona ég að það fari að komast skriður á dómsmál sem svarar spruningunni hvort verðbætur á lán standist lög.

larus (IP-tala skráð) 27.10.2012 kl. 10:10

7 identicon

Ég held reyndar að neytendalánin séu vaxtalaus í dag, og að eina spurningin sem er ósvarað sé frá hvaða degi þau eru vaxtalaus.

Evrópudómstóllinn hefur á mjög skýran hátt skorið úr um að lánasamningur geti hvel haldið gildi sínu þótt vaxtaákvæði sé fellt úr gildi með dómi, og ekki komi til greina að setja inn ný vaxtaákvæði.

Þar sem Hæstiréttur hefur margítrekað það að samningsvextir séu órjúfanlegir gengistryggingunni og geti ekki haldist óbreyttir, þá er í raun búið að fella þessi vaxtakjör út, og neytendavernd ESB heimilar ekki að setja inn ný vaxtaákvæði í staðinn.

= Þessi lán hljóta bara að vera vaxtalaus.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 27.10.2012 kl. 10:58

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

SAS, þess vegn ahef ég sagt að ekki megi afnema Árna Páls lögin í heild, þar sem með því veltur það á eyðublaðinu sem dregið var út úr bunkanum hvort lán teki á sömu forsendu telst löglegt eða ólöglegt.  Mér finnst nefnilega mestu máli skipta á hvaða forsendu lánið var tekið, þ.e. hvernig hljóðaði uppsóknin, en ekki hvaða form af lánasamningi var notað við að útbúa lánið.  Lántakinn réð engu þar um og hann á að njóta vafans.

Sigurður #1, ECJ hefur beinlínis sagt að þar fari Hæstiréttur með rangt mál.  Vissulega ekki í íslensku máli.  Enginn vandi er að segja að 30% höfuðstólsins taki japanska vexti, 30% svissneska og 40% evruvexti.  Þetta er gert í samningum um allan heim, þó lánsfjárhæðin sé í pundum eða dollurum.

Marinó G. Njálsson, 27.10.2012 kl. 12:42

9 identicon

Það er samt niðurstaða Hæstaréttar að þeir vextir komi ekki til greina.

Ertu þá að gera ráð fyrir að fjármálafyrirtækin leiti til ECJ um að hrinda þessari niðurstöðu Hæstaréttar, og krefjast að fá samningsvextina inn aftur?

Sömu fjármálafyrirtæki og kröfðust þess að samningsvextir gætu ekki staðið óbreyttir án gengistryggingar?

Að fjármálafyrirtækin leiti til ECJ til að snúa niðurstöðu sem þau sjálf kröfðust á sínum tíma?

Ég er ekki að sjá að Hæstiréttur muni sjálfur snúa frá þessu margítrekaða fordæmi, og núna allt í einu telja að samningsvextir geti alveg staðið óbreyttir, þvert á alla fyrri dóma dómsins.

Neibb, þessi lán geta ekki endað öðruvísi en vaxtalaus, eftir að samningsvextir voru ógildir að kröfu fjármálafyrirtækjanna sjálfra.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 27.10.2012 kl. 13:04

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Já, Sigurður #1, og það var líka niðurstaða Hæstaréttar í máli 471/2010 að reikna mætti vexti afturvirkt.  Hæstiréttur var blekktur í því máli og hann verður einfaldlega að leiðrétta þau mistök sem hann gerði þá.  Staðreyndin er að hann mátti ekki hrófla við vöxtunum þrátt fyrir þessi rök.  Til að snúa því, þarf líklegast að fá að beina spurningu um það efni til EFTA dómstólsins, nokkuð sem Hæstiréttur hefur ekki viljað gera hingað til.

Marinó G. Njálsson, 27.10.2012 kl. 14:04

11 identicon

Ég held að þetta sé nú bara ekki rétt hjá þér Marinó,

Í því máli var fallist á fjórðu varakröfu stefnanda og þar segir:

"Á riftunardegi hafi krafa stefnanda numið 3.327.002 krónum og sé þá tekið tillit til vangreiðslu stefnda á tímabilinu frá 24. desember 2007 til 24. febrúar 2009 án vaxta 70.383 krónur. Bifreiðin TP 969 hafi síðar verið seld fyrir 2.800.000 krónur og sé sú fjárhæð að frádregnum sölulaunum 107.652 krónum og viðgerðarkostnaði 161.290 krónum samtals 2.431.058 krónur. Niðurstaðan sé þá samtals 795.944 krónur sem sé stefnufjárhæð fjórðu varakröfu auk vaxta frá riftunar- og gjaldfellingardegi þann 11. ágúst 2009."

http://haestirettur.is/domar?nr=6843

Ég get hvergi í þessum dómi séð neitt um afturvirka vexti, þannig að það hefur þá aldrei verið nein stefnubreyting í þeim efnum.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 27.10.2012 kl. 16:09

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þú mátt ekki gleyma því, Sigurður, að dómsmál 471/2010 var einstaklega óheppilegt mál til að nota.  Það var egnd gildra fyrir Hæstarétt og hann féll í hana.

Varðandi vextina segir m.a.:  "Vegna þessa er óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiði til þess að líta verði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð."

Og um fjórðu varakröfu þá segir líka: "Fjórða varakrafa stefnanda um að miðað verði við að samningsfjárhæðin beri óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands byggir á því að samningurinn geri ráð fyrir skyldu til greiðslu vaxta. Samkvæmt 3 gr. vaxtalaga skuli greiða vexti ef það leiðir af samningi, lögum eða venju. Í 7. gr. samningsins og í sérstökum samningsskilmálum sé sérstaklega vísað til vaxta. Skylda til greiðslu vaxta sé því fyrir  hendi í samningnum en óljóst við hvaða vexti eigi að miða. Samkvæmt 4. gr. vaxtalaga skuli þá miða við vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. sömu laga."

Það vill svo til að ég á alla útreikninga vegna málsins hjá mér og veit því að alveg hvernig vextirnir voru reiknaðir afturvirkt.  Ég var beðinn um að yfirfara útreikningana til að sjá hvort rétt væri reiknað miðað við gefnar forsendur.  Trúðu mér að vextir voru endurreiknaðir afturvirkt. Vangreiddir vextir eru inni í tölunni 3.327.002 kr.  Orðaval héraðsdóms er aftur skringilegt þegar haft er í huga að vextirnir eru inni í tölunni.

Marinó G. Njálsson, 27.10.2012 kl. 16:50

13 identicon

Ekki dettur mér í hug að rengja þig um það Marinó að þú hafir þessa útreikninga undir höndum, og afturvirkir vextir séu þa inni í þessari upphæð.

En ertu viss um að dómurinn hafi vitað af því, að inni í þessari tölu væru vextir aftur í tímann?

Mér þykja það heldur betur tíðindi ef Hæstiréttur hefur virkilega látið sér detta það í hug að hækka vexti á lánum aftur í tímann, því aldrei hef ég getað lesið það út úr þessum dómi.

Enda hefur Hæstiréttur margsinnis ítrekað að seðlabankavextir fáist ekki reiknaðir aftur í tímann, heldur eingöngu til framtíðar.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 27.10.2012 kl. 19:15

14 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður #1, Hæstiréttur hefur mér vitandi aðeins tvisar sagt þetta, þ.e. í dómi 600/2011 og nýjasta dóminum 464/2012.  Héraðsdómur greindi aftur frá þessu í dómi frá 30. apríl 2010 NBI gegn Þráni.  Hæstiréttur nánast vísvitandi sniðgekk niðurstöðu héraðsdóms í því máli og dæmdi á formsástæðu en ekki efnis.

Ef þú ert með fleiri dóma fyrir 15. febrúar 2012, þá væri gott að vita af þeim.

Marinó G. Njálsson, 27.10.2012 kl. 19:53

15 Smámynd: Sigríður Hanna Jóhannesdóttir

Einhver; eru öll gengistryggð lán sem fengu endurútreikning á sínum tíma þá ólögleg?  Ég meina; viðkomandi banki endurreiknaði og þar með viðurkenndi að lánið værði ólöglegt?

Sigríður Hanna Jóhannesdóttir, 27.10.2012 kl. 20:37

16 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Nei, þau eru ekki öll ólögleg, en fóru í endurútreikning vegna ákvæða í Árna Páls-lögunum.  Þess vegna vil ég að Árna Páls-lögunum verði bara breytt en þau ekki felld úr gildi.

Marinó G. Njálsson, 27.10.2012 kl. 20:44

17 identicon

Mér finnst ýmislegt benda til þess að Íslandsbanki ætli sér ekki að endurreikna. Ég er með bréf frá bankanum sem segir að "Að mati Íslandsbanka taka dómarnir frá 15. febrúar og 18. október til ólögmætra gengistryggðra lána".

Nú eru þeirra lán ekki með ólögmæta gengistryggingu skv. dómi frá í sumar.

Við erum því með þá skrítnu stöðu uppi að "lögmæt" erlend lán hafi verið endurreiknuð með ólögmætum hætti og að lántakar verði bara að sætta sig við það eða að reyna að spila út þeirri flóknu stöðu fyrir dómstólum uppá eigin spýtur.

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 27.10.2012 kl. 22:58

18 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég reikna með, Magnús, að lögum nr. 151/2010 eða öllum heldur 38/2001 verði breytt þannig að ekki megi taka vextina upp frá lántökudegi.  Síðan verður að hafa í huga að lög 151/2010 náðu eingöngu til lána sem mynda stofn til vaxtabóta.  Síðan er ég ekki viss hvort Íslandsbanka lánin hafi farið fyrir Hæstarétt eða bara héraðsdóm.

Marinó G. Njálsson, 27.10.2012 kl. 23:07

19 identicon

Ég hefði viljað senda fjórfalda kröfu á bankann "minn"

1) Kröfu þar sem ég reikna lánið vaxtalaust

2) Kröfu þar sem ég reikna m.v. greiðsluáætlun (hlutfallstölu kostnaðar)

3) Kröfu þar sem ég reikna vexti (prósentu) af réttum (ógengisttengdum) höfuðstól

4) Kröfu þar sem ég reikna með Veritas aðferðinni

Er þessi nálgun gerleg?

Skunkur (IP-tala skráð) 28.10.2012 kl. 00:15

20 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Ég hef verið að velta fyrir mér þessari yfirfærslu skulda frá Gömlubönnunum yfir í þá nýju.

Það hefur komiðítrekað fram að yfirfærslan fór fram á 30-50% gengi skuldabréfa.

Var ekki brotin Jafnræðisreglan við þessa yfirfærslu, þ.e. skuldarar fengu ekki tækifæri á að kaupa skuldir sínar á ofangreindum forsendum?

Eggert Guðmundsson, 28.10.2012 kl. 21:29

21 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að við uppgjör bílalánasamninga, hvaða nafni sem þeir nefnast á samningsskjölum, skuli kynntur heildarlántökukostnaður á upphaflegri greiðsluáætlun látinn gilda. Við samningsgerð voru báðir aðilar meðvitaðir um að þar væri heildarkostnaður lánsins uppgefinn og sættust á hann með samningi. Þess vegna eigi að takmarka innheimtu þessara samninga við þá upphæð enda mælir 14.gr. neytendalánalaga svo fyrir. Slíkt væri einfaldasta leiðin til að ljúka uppgjöri slíkra samninga, þó svo að Seðlabankavextir yrðu settir á slíka samninga frá einhverjum tímapunkti, þá tækju einungis einstakar mánaðargreiðslur þar með breytingum í samræmi við hið nýja vaxtaviðmið, en samningi lyki þegar kynntum heildarlántökukostnaði væri náð, óháð fjölda gjalddaga.

Þá kann einhver að spyrja: Hvað um íbúðalánin?  Ég get ekki svarað því þar sem ég þekki ekki ákvæði slíkra lánasamninga, en finnst þó freistandi að segja að greiðsluáætlun verði látin gilda á sama hátt, sé hún á annað borð til staðar.

Vissulega er freistandi hugsun að öll gengistryggð lán, bílalán jafnt sem íbúðalán, yrðu vaxtalaus eins og Sigurður #1 heldur fram. Mér finnst þó ótrúlegt að slík verði niðurstaðan.  Vil ég þar benda á dóm ECJ C-76/10 þar sem lánveitandi gleymdi að gefa upp árlega hlutfallstölu kostnaðar við samningsgerð, og í kjölfarið var lán neytandans úrskurðað vaxtalaust.  Því segi ég að þar sem árleg hlutfallstala var gefinn upp við lántöku sé hún leiðbeinandi, og jafnframt takmarkandi, þáttur við innheimtu lánssamnings. Þó veit ég um lögfræðing sem er ekki fullkomlega sammála mér í þessari túlkun.

Erlingur Alfreð Jónsson, 29.10.2012 kl. 02:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 87
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband