Leita í fréttum mbl.is

Erlendar skuldir þjóðarbúsins - Þrjár snjóhengjur upp á 3.600 - 4.400 milljarða

Umræðan um erlendar skuldir þjóðarbúsins skutu enn og aftur upp kollinum í liðinni viku.  Greiningardeild Arion banka fór þá yfir stöðu mála og sérstaklega skuldabókhald Seðlabankans í greiningu sinni "Skuldum við meira en við höldum?".  Ég veit ekki hvort sérfræðingar í greiningardeild Arion banka eru reglulegir lesendur bloggfærslna minna, en ég hef ítrekað fjallað um flest það sem fram kom í Markaðspunktunum frá sl. fimmtudegi, m.a. í athugasemdakerfi Eyjunnar og á facebook nokkrum dögum áður en þeir birtu greiningu sína.

Hverjar eru erlendar skuldir þjóðarbúsins?

Ég hef nokkrum sinnum reynt að skilgreina hverjar þessar skuldir þjóðarbúsins eru (sjá greinar sem vitnað er í neðst í pistlinum).  Hef ég þar í grunninn stuðst við skilgreiningar Seðlabanka Íslands, en alltaf verið gagnrýninn á hve íhaldssamur Seðlabankinn hefur verið í skilgreiningum sínum.  Sem betur fer er Seðlabankinn að gefa eftir í íhaldssemi sinni og viðurkennir í dag ýmsar skuldir, sem haldið var utan skulda þjóðarbúsins til að byrja með.  Mér finnst þó enn vanta upp á að hann dragi fram alvarleika stöðunnar.

Seðlabankinn flokkar eignir og skuldir þjóðarbúsins í grófum dráttum sem hér segir.

  • Beinar fjárfestingar, þ.e. eigið fjármagn og lán frá tengdum félögum, á Íslandi fyrir skuldir en erlendis fyrir eignir;
  • Markaðsbréf, þ.e. hlutabréf, skuldabréf og peningabréf - innlend á skuldahliðinni en erlend á eignahliðinni;
  • Afleiður (sem mælast ekki);
  • Aðrar eignir/skuldir, sem skiptast í:
    • Langtímalán
    • Skammtímalán, mest viðskiptaskuldir/-kröfur, stutt lán og innstæður
  • Gjaldeyrisforði (á eignahliðinni)

Út frá þessari flokkun reiknar Seðlabankinn að erlendar skuldir þjóðarbúsins séu 13.505 milljarðar, en erlendar eignir 4.215 milljarðar, þ.e. mismunur upp á 9.290 milljarða króna.  Hluti þessara skulda er vegna innlánsstofnana í slitameðferð, eins og Seðlabankinn nefnir það, en það á líka við um eignirnar.  Skráning Seðlabankans nær hins vegar bara til erlendra eigna þessara stofnana og síðan innlendra skuldaskjala, en ekki er gerð tilraun til að greina hverjir eru aðrir fjárhagslegir hagsmunir þeirra innanlands.  Þessir hagsmunir eru að mínu mati það mikilvægir, að þá verður að taka með, þegar kemur að því að greina áhrif raunverulegrar skuldastöðu á gjaldeyrisforða þjóðarinnar.

Staðan samkvæmt Seðlabanka Íslands

Skoðum því næst hvaða tölur Seðlabankinn er með á hverjum stað og hvernig þær skiptast á milli annars vegar þrotabúanna og hins vegar annarra.  (Tölur eru miðaðar við stöðuna í lok 2. ársfjórðungs 2012.) 

Liður

2012 Q2 Alls

Þrotabú

Aðrir

Erlendar eignir, alls

4.214.608

1.631.739

2.582.869

 Bein fjárfesting erlendis

1.526.728

726.013

800.715

   Eigið fjármagn

748.853

 

 

   Lán til tengdra félaga

777.875

 

 

 Erlend markaðsverðbréf

859.349

248.749

610.600

   Hlutafé

568.237

21.994

546.243

   Skuldaskjöl

291.112

226.755

64.357

     Skuldabréf

102.740

 

 

     Peningabréf

188.372

 

 

 Afleiður

0

 

0

 Aðrar fjáreignir en forði

976.911

656.977

319.934

   Viðskiptakröfur

22.442

 

22.442

   Lán

550.239

438.511

111.728

   Seðlar og innstæður

404.230

218.466

185.764

   Aðrar eignir ó.t.a.

0

 

0

 Gjaldeyrisforði

851.620

 

851.620

Erlendar skuldir, alls

13.504.665

9.865.618

3.639.047

 Bein fjárfesting á Íslandi

1.623.984

 

1.623.984

   Eigið fjármagn

226.971

 

226.971

   Lán frá tengdum félögum

1.397.013

 

1.397.013

 Innlend markaðsverðbréf

2.259.951

1.459.908

800.043

   Hlutafé

38.413

 

38.413

   Skuldaskjöl

2.221.538

1.459.908

761.630

     Skuldabréf

2.189.697

 

 

     Peningabréf

31.841

 

 

 Afleiður

0

 

0

 Aðrar erlendar skuldir

9.620.730

8.405.710

1.215.020

   Langtímalán

1.215.981

247.670

968.311

   Skammtímaskuldir

8.404.749

8.158.040

246.709

     Viðskiptaskuldir

45.028

 

45.028

     Stutt lán

2.148.209

2.140.515

7.694

     Innstæður/Skuldir vegna innlána

1.266.046

1.097.806

168.240

     Aðrar skuldir ó.t.a.

4.945.466

4.919.719

25.747

Hrein staða við útlönd

-9.290.057

-8.233.879

-1.056.178

 Áhættufjármagn, nettó

432.568

748.007

-315.439

 Skuldabréf, lán o.fl. nettó

-9.722.625

-8.981.886

-740.739

   Seðlabankinn

632.435

 

632.435

   Hið opinbera

-759.040

 

-759.040

   Innlánsstofnanir

154.380

 

154.380

   Aðrir geirar

-9.750.400

-8.981.886

-768.514

Þetta er langur listi, en hann er nauðsynlegt að skoða til að skilja hvað af skuldum þjóðarbúsins skipta máli fyrir gjaldeyrisforða landsins til skamms tíma. 

Áhrif erlendra eigna á gjaldeyrisforðann

Stór hluti erlendra eigna hefur óveruleg áhrif á gjaldeyrisforðann til skamms tíma og jafnvel lengri tíma.  Seðlabankinn getur, miðað við núverandi löggjöf, ekki þvingað eigendur þeirra til að selja þær og koma með gjaldeyrinn til landsins.  Auk þess er eigendum erlendra eigna heimilt að færa eignir sínar til án þess að skila inn gjaldeyrinum milli sölu á núverandi eign og kaupa á nýrri.  (Er minn skilningur á gjaldeyrishöftunum.) Mér sýnist þetta eiga við um 1.415 - 1.600 milljarða af þeim 2.583 milljörðum af erlendum eignum sem eru í eigu annarra en þrotabúa innlánsstofnana í slitameðferð.    Vissulega þarf að skila vaxtagreiðslum og arðgreiðslum samkvæmt lögum um gjaldeyishöftin, en það eru smápeningar. 

Af þeim 985-1170 milljörðum sem eftir eru, taldi gjaldeyrisforðinn 850 milljarða í lok 2. ársfjórðungs, þannig að aðeins 135-320 milljarðar af erlendum eignum þjóðarbúsins eru peningar  sem við gætum kallað handfært fé í erlendri mynt, auk gjaldeyrisforðans sjálfs.  (Þar af eru 185 erlendar innstæður sem óljóst er hvernig er hægt að nota.) Nú erlendar eignir þrotabúanna upp á 1.632 milljarða hafa engin eða óveruleg áhrif á gjaldeyrisforðann, þar sem þær ganga upp á móti erlendum skuldum sem eru margfalt hærri og koma því aldrei til landsins.

Erlendar skuldir 

Ekki þurfum við að hafa áhyggjur af öllum erlendum skuldum, en við þurfum samt að hafa áhyggjur af hærri upphæð en Seðlabankinn lætur í veður vaka.

Það er rangt að draga línuna þannig að áhyggjurnar þurfi eingöngu að snúast um hreina stöðu þjóðarbúsins við útlönd án innlánsstofnana í slitameðferð, þ.e. 1.056 milljarða.  Ástæðan er sú að þrotabúin eiga miklar innlendar eignir sem þurfa að ganga til kröfuhafa, en þeir eru að stórum hluta erlendir.  Vegna þess að þrotabúin eru taldir innlendir aðilar, þá eru ekki allar þessar eignir taldar upp þar sem þær ættu líklegast að vera. 

Vissulega telur Seðlabankinn skuldaskjöl (innlend markaðsverðbréf) að verðmæti 1.460 milljarða kr. til skulda þjóðarbúsins, en miðað við þá skilgreiningu að skuldaskjöl séu skuldabréf og peningabréf, þá er greinilegt að stórar upphæðir vantar.  Stærstar eru eignarhlutur þrotabúanna í nýju bönkunum, líklegar (uppsafnaðar) framtíðararðgreiðslur frá nýju bönkunum og síðast en ekki síst hluti þrotabúanna í betri heimtum af lánum, en gengið var út frá í uppgjöri.  Svo er spurning hvort skuldabréf Landsbankans til Landsbanka Íslands sé inni í skuldaskjölunum hjá SÍ.  Fljótt á litið gætu þessar ótöldu innlendu eignir numið á bilinu 1.200 - 2.000 milljarðar.  Hvort að allt þetta fari úr landi án þess að komi gjaldeyrir fyrir, er óljóst á þessari stundu (t.d. gætu erlendir aðilar keypt nýju bankana), en þetta eru samt upphæðir sem fyrr en síðar vilja að stórum hluta fara úr landi.  Þegar við bætum þessari upphæð við fjárhæð skuldaskjalanna, þá gerir þetta á bilinu 2.660 til 3.460 milljarðar króna að frádregnu svo því sem rennur til innlendra kröfuhafa þrotabúanna.

Af öðrum erlendum skuldum en innlánsstofnana í slitameðferð, þá reiknast mér til að langtímalán og þolinmótt fjármagn sé um 2.600 milljarðar af þeim 3.640 milljörðum sem þær telja. Eftir standa þá um 1.000 milljarðar, auk afborgana og vaxta af langtímalánunum, sem vilja fara úr landi þegar til skamms tíma er litið.  Þetta er að stærstum hluta snjóhengjan, svo kallaða, auk óverulegra viðskiptaskulda og styttri lána. 

Snjóhengjurnar eru þrjár

Mönnum hefur verið tíðrætt um snjóhengjuna, þ.e. fjármagn í eigu erlendra aðila sem er fast hér á landi.  Þetta voru í upphafi aðilar sem tóku m.a. í þátt í vaxtaskiptasamningum eða ætluðu að hagnast á háu vaxtastigi hér á landi.  Þessi snjóhengja hefur verið metin á bilinu 600 - 1.000 milljarðar eftir því hver hefur verið að reikna.  Ég met hana út frá tölu Seðlabanka Íslands vera um 970 milljarða (30/6/2012).

En það eru tvær aðrar snjóhengjur og er hvor um sig stærri en sú sem mesta athygli hefur fengið.  Þetta eru annars vegar skuldaskjöl þrotabúanna sem eiga að renna til kröfuhafa þeirra, þegar uppgjör fer fram og hins vegar eignir þrotabúanna í nýju bönkunum og greiðslur sem þaðan eiga eftir að berast.  Fyrri upphæðin er 1.460 milljarðar króna, eins og áður er getið, og hin á bilinu 1.200 - 2.000 milljarðar eftir því hve arðgreiðslur munu verða miklar á komandi árum. Fyrri upphæðin þarf að komast úr landi fljótlega, en síðari upphæðin gæti dreifst á nokkuð mörg ár.

Allar hanga þessar snjóhengjur yfir þjóðarbúinu.  Allar gera þær ekkert annað en að stækka, þar sem eignirnar að baki þeim bera vexti, verðbætur og safna arði.  Til að greiða þær höfum við til ráðstöfunar það sem ég kallaði að ofan handbært fé.  Gjaldeyrisforðinn sjálfur er allur tekinn að láni og því er ekki hægt að nota hann í þetta.  Því miður.  Hann þarf að nota í að greiða skuldir vegna hans sjálfs!  Þá er eftir að nefna viðskiptajöfnuð við útlönd, a.m.k. í þau skipti sem hann er jákvæður.  Handbæra féð er bara notað einu sinni og því þurfum við að treysta á árlegan gjaldeyrisjöfnuð og sagan segir okkur að hann er frekar neikvæður en jákvæður.

Vandinn er gríðarlegur

Samkvæmt mínum útreikningum vilja allt að 4.400 milljarðar króna af óþolinmóðu fé fara úr landi.  Þá er ég að tala um fé sem lokaðist inni í landinu vegna hruns bankakerfisins eða er ætlað að greiða erlendar skuldir þrotabúanna.  Auk þess þarf að greiða skammtímaskuldir og vexti og afborganir af langtímalánum sem að stærstum hluta eru lán ríkissjóðs hjá AGS og ýmsum þjóðum sem mala gull á lánveitingunni.

Hafi einhver verið í vafa um að vandinn væri stór, þá held ég að útreikningar mínir ættu að eyða þeim vafa.  Hvort heldur sem fjárhæðin í snjóhengjunum er 3.600 milljarðar eða 4.400 milljarðar skiptir ekki máli.  Þó hún væri "bara" 1.500 milljarðar, þá væri vandinn samt gríðarlegur. Upphæðin í erlendum gjaldeyri sem við öflum á ári til að greiða þetta er svo lítil að hún dugar ekki til að greiða vextina, hvað þá eitthvað meira.  (Þá er ég að tala um afgang af utanríkisviðskiptum, árlegan gjaldeyrisjöfnuð.)

Vandinn er svo stór að engar töfralausnir eru til.  A.m.k. eru engar lausnir sem munu láta erlenda kröfuhafa Íslands ganga brosandi frá borðinu.  Menn hafa fleygt ýmsu fram, en flest það sem nefnt er, líkist fremur smáskammtalækningum, þar sem hluti vandans er meðhöndlaður en að tekið á öllum vandanum.  Útgönguskattur sem endurspeglar í raun að eigendur fjármagnsins afsala sér hluta eigna sinna, skiptigengi með sömu áhrifum, skipti á gjaldmiðli, eignarnám á kröfum í þrotabúin og sitthvað fleira.  Allt hefur þetta verið nefnt, en stjórnvöld halda bara að vandinn leysist af sjálfu sér.  Eitt er alveg víst, að hann leysist ekki með frekari lántökum og hann leysist ekki með því að bjóða þeim, sem hér eiga peninga bundna, betri ávöxtun eða hærri arð í þeim tilgangi að þeir geymi peningana sína lengur.  Allt sem hækkar skuldina eykur á vandann.

Í næsta pistli mun ég velta fyrir mér betur hvað væri hægt að gera.

Eldri skrif um sama efni

Bara til upprifjunar, þá eru hér nokkrar af þeim færslum sem ég hef ritað um efnið:

28.4.2009: Fundur um skuldastöðu þjóðarbúsins hjá FVH

22.5.2009: Staða bankakerfisins 30. september 2008 segir annað

13.7.2009: Icesave er slæmt, en ekki stærsta vandamálið

14.7.2009: 31. mars voru heildarskuldir 4.483 milljarðar

15.7.2009: Tölur Seðlabankans geta ekki staðist

6.8.2009: Ókleifur hamar framundan

4.12.2009: Erlendar skuldir og staða krónunnar

2.5.2011: Stórhættuleg hugsanaskekkja varðandi erlendar skuldir - Ekki er hægt að treysta á erlendar eignir til að greiða erlendar skuldir

4.6.2011:  Gott að Seðlabankinn nær áttum - Hærri endurheimtur lána hækka skuldir enn meira

Verð að viðurkenna að ég gerði bara einfalda google leit og því er þetta líklegast ekki tæmandi listi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk, Marinó, fyrir þessa greinargóðu samantekt.

Fyrir nokkru skiptumst við Vilhjálmur Þorsteinsson á skoðunum um erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins.

Fljótt á litið sýnist mér vera himinn og haf á milli niðurstöðu hans og þinnar.

Vonandi gefur Vilhjálmur sér tíma til að endurskoða fyrri útreikninga sína - eða hrekja þína.

Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 14.10.2012 kl. 17:46

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Takk fyrir þetta, Gunnar.

Satt best að segja, þá væri það betra fyrir þjóðarbúið að Vilhjálmi tækist að benda á hugsanaskekkju  í málflutningi mínum.  Ég held samt að það verði ekki.  Og þó eitthvað sé ofreiknað hjá mér, þá verður hengjan sem eftir er alveg yfirþyrmandi.

Ég held að stærstu mistökin séu að líta á skuldavandann sem málið.  Mínar áhyggjur snúa að greiðsluvanda til skamms tíma.  Hann er ógnvænlegur.

Marinó G. Njálsson, 14.10.2012 kl. 17:57

3 identicon

Sorglegt að einkaaðilar þurfi að upplýsa fólk um staðreyndir sem ráðamenn reyna að fela eða flækja með "rannsóknum" sem komas að fyrirfram ákveðnum niðurstöðum.

Jóhannes Björn (IP-tala skráð) 14.10.2012 kl. 18:23

4 identicon

http://www.althingi.is/altext/140/s/pdf/0958.pdf

Marinó. Á slóðinni hér að ofan er m.a. að finna greingargerð með frumvarpi um tengd mál. I greinargerð (væntanlega) Seðlabanka Íslands með frumvarpinu segir m.a. svo um aðferðafræði SÍ:

i. Aðferðafræði.

Í uppgjöri greiðslujafnaðar er gerður greinarmunur á eignum af tvennum toga, kröfum á innlenda aðila annars vegar og kröfum á erlenda aðila hins vegar. Bú fallinna fjármálafyrirtækja eiga verulegar eignir og verður andvirði þeirra í lausu fé ráðstafað til kröfuhafa. Fé sem verður til vegna sölu innlendra eigna og bíður þess að verða ráðstafað til erlendra

kröfuhafa myndar erlenda skuld þjóðarbúsins. Fé sem verður til vegna sölu erlendra eigna og er að lokum greitt til innlendra kröfuhafa myndar erlenda eign þjóðarbúsins. Þannig er ekki gerður greinamunur á gjaldmiðli krafna heldur því hvort innlendur eða erlendur aðili þarf að reiða féð af hendi. Þótt hrein skuld þjóðarbúsins sem líklegt er að verði til við uppgjör búanna sé í sjálfu sér ekki mikil í sögulegu samhengi getur eigi að síður skapast veruleg

endurfjármögnunarhætta í ferlinu. Í sumum tilfellum er hægt að jafna eignum á móti skuldum. Þannig á t.d. Seðlabankinn lausar eignir á móti innstæðum búanna í Seðlabankanum. Ráðstöfun innstæðnanna til kröfuhafa skapa engan greiðsluvanda. ÞVÍ ER HÆGT AÐ HORFA FRAM HJÁ ÞESSUM EIGNUM OG SKULDUM. Er það gert hér á eftir og víkur greiningin að því leyti frá efnistökum í skýrslunni Hvað skuldar þjóðin? sem vikið var að hér að framan, en í henni var staða Seðlabankans greind sérstaklega. Gögn sem stuðst er við miðast við september 2011 þó tekið sé tillit til útgreiðslna sem fóru fram á síðasta ársfjórðungi ársins 2011.

Spurning:

Er það rétt sem hér stendur með stórum stöfum?

Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 14.10.2012 kl. 19:35

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gunnar, ef menn undanskilja hvorutveggja, þá er það alveg hægt.  Málið er að menn gleymi sér ekki og telji eignir Seðlabankans stundum með eða telji innstæður þrotabúanna stundum með.  Annar möguleiki er að SÍ freistist að nota eignirnar til annars en að greiða út innstæður.  Nákvæmast er að undanþiggja ekkert, heldur telja rétt fram debet og kredit.  Að vera með svona talnaleikfimi kallar bara á að menn misfari með upplýsingarnar.

Marinó G. Njálsson, 14.10.2012 kl. 19:53

6 Smámynd: Tryggvi Gunnar Hansen

takk fyrir þessa vinnu og tilraun til að sjá hvað er að gerast í sambandi við bankana.. sem ég hef kallað lengi á og hver á þá núna og alla þá sögu sem þarf að skoða.  En er þá ekki um leið spurt hvað eiga útlendingar mikinn skammt af íslandi fyrir og eftir hrun? bara ein spurning af nokkuð mörgum ..ennfremur á hvaða kjörum fengu þessi bankaþrotabúasérfræðngar eignir þessar? og á hvaða kjörum á að "gefa þeim frelsi" þegar rætt er um snjóhengjur þessar? Og semsagt hvað eiga þeir að hafa uppúr krafsinu? Þessir held ég að hafi skipulagt þetta bankafall sjálfir og hafa gert víðar... tel þetta allt vera eitt og sama fyrirtækið á bakvið tjöldin sem sjái um slíkt.. og viðurgerningar og fleira gott... fjarstýrendur stjórnanna

Tryggvi Gunnar Hansen, 15.10.2012 kl. 04:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 84
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband