14.11.2012 | 20:14
Einelti - Sagan sem ég ætlaði aldrei að segja
Um þessar mundir er mikil umræða í þjóðfélaginu um einelti. Er það gott. Ég skrifaði þessa færslu fyrir mörgum mánuðum og hún er búin að vera lengi í smíðum. Raunar stóð ekki til að birta hana, en hér er hún.
Einelti er skelfilegur hlutur, þó vissulega gangi það misjafnlega langt. Allt of stór hluti þjóðarinnar á sögu af því að hafa lagt í einelti eða verið fórnarlamb þess. Sjálfur leið ég einelti nokkurn veginn frá því ég fór að tala og fram á fullorðins ár. Ástæðan var málhelti, gormælgi, þ.e. ég gat ekki sagt r.
Ég heiti Marinó og gat ekki sagt nafn mitt rétt fyrr en ég var 26 ára gamall. Þess vegna var ég alltaf Maddi nema þegar ég varð að gefa upp hitt nafnið, sem var þá yfirleitt Maginó. En 26 ára gamall fór ég í talkennsluna sem ég hefði átt að fara í 3 ára, 6 ára eða öll hin árin en gerði ekki. Enn þann dag í dag hugsa ég gormælt og verð oft að vanda mig áður en ég segi sum orð og sniðganga önnur.
Eineltið sem ég lenti í var bæði sárt og niðurbrjótandi, þó það hafi vafalaust verið saklaust miðað við það sem aðrir hafa þurft að ganga í gegn um. Auðveldasta leiðin til að fá mig til að þegja, var að einhver hermdi eftir mér. Það var gert í tíma og ótíma. Í tímum í skólanum, á fundum í félögum, á böllum, í frístundastarfi og nefnið það bara. Ef ekki hefði verið fyrir eineltið vegna gormælginnar hefði ég örugglega tekið þátt í ýmis konar starfi á mínum unglingsárum, sem ég tók ekki þátt í. Gefist tækifæri sem ég fékk ekki. En ég passaði mig að halda mig innan hópsins, þar sem ég taldi mig öruggan. Og í hvert sinn sem ég hætti mér út fyrir hann, þá bjó ég mig undir árásina sem ég vissi að kæmi og hún lét sjaldnast bíða lengi eftir sér. Ég held ég megi segja, að eina ókunna fólkið sem lét mér líða vel í návist sinni á þessum árum, voru nokkrir krakkar á Seyðisfirði sem ég átti kvöldstund með sumarið 1977 eða 8. Og ástæðan? Jú, á Seyðisfirði bjó maður sem var svo illa málhaltur að fólk hafði skilning á vandanum.
Erfiðasti tíminn var líklega menntaskólaárin. Þar voru fjölmargir einstaklingar, sem eru margir hverjir virtir þjóðfélagsþegnar í dag, sem töldu það heilaga skyldu sína að minna mig á það helst daglega að ég gæti ekki sagt nafnið mitt rétt. Meira að segja kennari við skólann tók þátt í þessum einkennilega leik. Þetta snerist upp í það, að eðlilegt þótti að hafa mig að skotspæni. Ekki bara út af málheltinni heldur bara öllu sem mönnum datt í hug. Menntaskólaárin voru vissulega góð ár, en þeim fylgdi samt nýtt sár á nánast hverjum degi og þó maður hafi stundum verið ónæmur fyrir stungunum, þá vissi maður aldrei nema næsta yrði verri en þær sem á undan komu. Og í hverjum mánuði datt mönnum eitthvað nýtt í hug og það þurfti ekkert að koma gormælginni við. Ég var einfaldlega samþykkt skotmark.
Ég vissi svo sem alveg hvernig ég gat snúið á suma kvalara mína. Ég vann þá í íþróttum, ræðukeppnum, kosningum um embætti í skólanum og hverju því sem var að slá þeim við. Enginn hafði mig heldur undir í rökræðum. Það sem ekki brýtur mann, styrkir mann, segir einhvers staðar. Hugsanlega, en spurningin er ekki hver styrkur þinn er í dag vegna óvæginna árása fyrri ára, heldur hver hefði styrkur manns getað orðið hefði maður nýtt þau tækifæri sem buðust en þorði ekki að nýta vegna óttans við laumulega árás lítilmenna. Svo má ekki gleyma tækifærunum sem manni buðust ekki vegna þess að ekki þótti boðlegt fyrir "elítuna" að málhaltur maðurinn væri í starfinu. Ég er alveg klár á að margt rann mér úr greipum vegna þess að ég var ekki boðlegur, þar sem ég gat ekki sagt err.
Kaldhæðin er, að það var ekki fyrr en ég fór í nám í Bandaríkjunum, sem ég áttaði mig á því að til var líf án þessa eineltis. Það var líka á milli skólaáranna í Bandaríkjunum að ég skráði mig í talkennslu og vann að mestu leiti á talgallanum. Já, það var sumarið 1987 og fólk í kringum mig minntist aldrei á það. Aldrei. Ekki einn einasti maður nefndi það við mig. Jú, einhverjir gerðu það 5 eða 6 árum síðar og þá fannst mér eins og þeir gerðu það í eftirsjá vegna þess að eineltistilefnið var horfið!
Ég vann mig út úr þessu, en finn við að skrifa þennan texta að stutt er í særindin og gremjuna. Það sem verra er, ekki er langt síðan ég hitti manneskju sem kallaði mig Maginó. Komin á fimmtugsaldur, þá var þroskinn ekki meira en þetta hjá þessari manneskju. Ég lenti oft í þessu milli þrítugs og fertugs og velti því þá fyrir mér, hvers vegna ég væri að búa í þessu þjóðfélagi. Fólki er bara ekki sjálfrátt, þegar því líður illa. Lausnin er þá að upphefja sig á kostnað annarra.
Vegna minnar reynslu passaði ég upp á að börnin mín fengju strax viðeigandi talþjálfun. Ég hef líka gefið mig á tal við gormælta einstaklinga og hvatt því til að fara í talþjálfun. Þeir hafa alltaf tekið ábendingu minni vel, en fólk í kringum þá sagt það vera óþarft. Bara svo það sé á hreinu. Það er aldrei óþarfi að fjarlægja þann þátt úr lífi einstaklings sem dregur úr sjálfstrausti viðkomandi og gefur öðrum tækifæri til að níðast á honum. Þeir sem leggja aðra manneskju í einelti, leita alltaf af veikasta blettinum hjá viðkomandi og hamast á honum, þar til eitthvað lætur undan.
Mín aðferð til að flýja eineltið var að yfirgefa svæðið, ef það var mögulegt. Slíkt er ekki alltaf hægt. En þó ég hafi aldrei verið laminn eða á annan hátt gengið í skrokk á mér, þá voru sárin mörg og djúp á sálina. Og ekki má gleyma varanlegu áhrifunum, sem eru þau, að fáir komast að mér í dag og ég umgengst nánast ekkert þá sem ég þekkti á þessum árum. Ekki endilega vegna þess að þeir væru beinir gerendur, heldur vegna þess að þeir voru annað hvort hlutlausir áhorfendur eða bara hluti af umhverfi sem mig langar ekkert að tengja mig lengur við.
Bara svo allt sé á hreinu, þá hef ég ekki áhuga á að skipta á því lífi sem ég lifi í dag og einhverju öðru sem mér hefði hugsanlega boðist. Allt hefur sinn tilgang og engin er rósin án þyrna. Ég er ekkert viss um að einhver önnur braut hefði boðið upp á færri þyrna, þeir hefðu bara verið öðruvísi. En þessi reynsla mín hefur mótað mig og mótar það hvernig ég el upp börnin mín og kem þeim til varnar, þegar mér finnst þau vera beitt órétti. Því miður hef ég ekki alltaf brugðist nógu skjótt við.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 1
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 52
- Frá upphafi: 1681299
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Frábær færsla Marinó. Þakka þér fyrir að deila reynslu þinni með okkur.
Lilja Mósesdóttir (IP-tala skráð) 14.11.2012 kl. 21:32
Tek ofan fyrir þér, Marinó. Sjálfsagt og gott að segja frá svona lífsreynslu - það hjálpar þeim sem yngri eru og örvænta.
Baldur McQueen (IP-tala skráð) 14.11.2012 kl. 21:37
Magnaður pistill. Takk fyrir að deila þessu með okkur.
Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 14.11.2012 kl. 22:06
Hugrakkur ertu og betri maður fyrir vikið (væntanlega hefurðu meiri hæfileika en aðrir að finna fyrir samúð en sumir eftir að hafa gengið gegnum þetta) . Það segir mikið um manneskju hvernig hún bregst við því sem er "öðruvísi" mál, hvort sem það er gormæli, stam eða bara útlensk manneskja sem talar "brotið" mál, hvort hún er umburðarlynd og hjálpleg eða óþolinmóð og kvikindisleg. Mér finnst reyndar ekkert að því að vera gormæltur þannig séð...(eina sem er að er vissulega þetta með að það gefur"höggstað" á manni) Hef átt ættingja út í sveit sem voru gormæltir og það þótti ekkert tiltökumál í gamla daga þar og öllum var sama, sumir bara töluðu svona þar(og þegar þeirra er minnst er hermt eftir hvernig þeir töluðu en alls ekki á niðrandi hátt því fólki fannst þetta bara skapa karakter), ég held reyndar að þetta gæti mögulega einhvern veginn öðruvísi að vera í bændasamfélagi en borg, veit ekkert um það og gæti verið að bulla, ætla að fleygja þessu fram sem illa rökstuddri kenningi en ég fékk þá tilfinningu eins og það sé kannski meira umburðarlyndi fyrir mismundandi "talformum" og "sérvisku" máls útí afskekktari byggðum þar sem lengra er milli manna og hafa skapast mismunandi talmáti frekar en í þéttbýli? Í borg fylkja hópar sér meira saman og það verður oft lægsti samnefnari ýmissar múghegðunnar sem á að ráða og þeir sem passa ekki í hana er "gott" að skjóta niður sér til framdráttar (kannski er svona líka til í sveit og öfugt við borgina hvað varðar aðra faktora sem þykja ekki ásættanlegir þar miðað við borgina?) p.s. Það var þáttur t.d. á rás1 í fyrra um flámæli og þar sem kom fram að börn úr sveit komu flámælt í borgina og það var reynt að venja þau af því http://www.dv.is/blogg/lifandi-mal/2012/1/15/uppraeting-flamaelisins/
Ari (IP-tala skráð) 14.11.2012 kl. 22:35
Ari, í borgarsamfélaginu var þessu tekið öðruvísi. Þekki ég því miður of marga sem voru með smávægilega talgalla, en það var nóg til að þeir voru hafið út undan. Valdir síðastir í liðið í leikjum. Mannskepnan getur verið ótrúlega grimm.
En mín saga átti ekki að verða að einhverju fjölmiðlaveðri, heldur hafa margar sögur komið fram um sérstaklega ungar stúlkur sem hafa lent í grimmu einelti. Um daginn var grein um Gísla á Uppsölum og eineltið sem hann lenti í. Einelti hefur verið með þjóðinni lengi og tími er kominn til að uppræta það.
Marinó G. Njálsson, 14.11.2012 kl. 22:49
Þarfur pistill og getur örugglega hjálpað mörgum Marínó. Til þess er auðvitað leikurinn gerður og það þarf kjark til. Til hamingju með að þora.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.11.2012 kl. 23:01
Good man! Þú lætur ekki beygja þig úr því sem komið er. Átt líka þakkir skildar fyrir alla þína vinnu í þágu annarra - sem þú hefur sjálfsagt ekki fengið mikið fyrir. Gangi þér allt í haginn!
Guðmundur Kjartansson, 14.11.2012 kl. 23:27
Þakkir fyrir að deila þessu með okkur - það þarf mikið hugrekki til að gera slíkt:
Hólmfríður Bjarnadóttir, 14.11.2012 kl. 23:45
Frábær grein hjá þér. Þú getur allt, fyrst þú getur sagt frá þessari sáru reynslu. Gangi þér allt í haginn.
Jón Ragnar Björnsson (IP-tala skráð) 15.11.2012 kl. 00:47
Smáborgarinn ræður miklu á Íslandi því smásálirnar eru svo margar og þær óttast um sinn hag og framtíð og reyna því oft að fela vanmátt sinn og veikleika með því að hópa sig saman eins og hýenur til að ráðast á einstakling sem er minnimáttar eða á einstakling sem gengur of vel í lífinu eða er duglegur til vinnu sem dæmi. Einelti er lúmsk árás á lífsgæði fólks bæði sálar og efnislega fyrir viðkomandi einstakling Það er mikill vinna að greina einelti í hverju máli fyrir sig svo vel sé en lokaniðurstaðan er oftast sú sama þ.a.s einstaklingurin sem fyrir eineltinu verður missir af miklum lífsgæðum eins og áður segir sem áttu að vera honum sjálfsögð allt frá fæðingu sama hversu sterkur hann var eða er á yfirborðinu.
Það er aðdáunarvert að lesa hjá Marinó hvernig hann notar lífsreynslu sína til að venda börnin sín. Það er sannað mál að einelti getur haldið áfram á milli kynslóða þ.a.s börn einstaklings sem hefur orðið fyrir einelti geta orðið fyrir einelti að því að nærsamfélagið heldur því gangandi mann fram af manni að því að engin tók í taumanna af þeim sem gerðu ekki neitt vegna óttans að verða fyrir barðinu á hýenunum.
Baldvin Nielsen
B.N. (IP-tala skráð) 15.11.2012 kl. 00:52
Marinó, þetta er frábærlega flottur pistill hjá þér og áreiðanlega góður stuðningur við þá sem hafa búið við eða búa við sömu aðstæður. Ég stamaði sem barn en var reyndar aldrei strítt á því. Sennilega vegna þess að Stebbi eldri bróðir minn var svo herskár (bully) í skólanum. En ég man alveg eftir óþægindum af því að ætla að segja frá einhverju spennandi og það komu út úr mér bara fyrstu atkvæði þeirra orða sem ég ætlaði að segja.
Þar fyrir utan var ég með drómasýki sem barn. Það er afbrigði af flogaveiki. Það lýsir sér þannig að ég steinsofnaði hér og þar. Var jafnvel á gangi og datt niður sofandi. Þess vegna bara á gangi úti á túni. Þetta var eins og maður væri skotinn í hausinn. Ég var kannski að sækja kýr til mjalta og datt niður og svaf vært um stund. Stebbi bróðir hefur sagt mér að heimilisfókið hafi grunað mig um uppgerð: Að ég væri að koma mér undan verkum með því að detta í svefn þegar ég átti að sinna bústörfum. Ég man ekki eftir að þetta hafi gerst á skólatíma. En þetta var afskaplega óþægilegt og á þessum árum vissu fáir hvað drómasýki var. Svo eltist af mér bæði stamið og drómasýkin.
Á gamals aldir fékk pabbi flogaveikisköst í svefni sem áreiðanlega voru afbrigði af drómasýki. Oftar en einu sinni varð honum til lífsbjargar að Auðjón hafði lært í júdó-námi hjálp við viðlögum og náði að nudda pabba til lífs.
Jens Guð, 15.11.2012 kl. 00:54
Sæll Marinó,
Ég tek heilshugar undir þetta hjá þér! Ég átti við nákvæmlega sama vandamál að stríða og var lagður í einelti af því þegar ég var í skóla. Enginn talaði um þetta við mig og ég var sennilega orðinn 11 eða 12 ára þegar ég sjálfur áttaði mig á því hvað var að. Unglingsárin voru erfið, en einhvern veginn tókst mér, með hjálp gamals segulbandstækis, að finna út úr þessu sjálfur þegar ég var 17 ára og laga þetta. Það tók mig ekki nema 10 daga eða svo að þjálfa mig í þessu og þar með var þetta búið! Á þeim tíma sem við vorum að alast upp var ekkert gert í svona hlutum. Talþjálfun var fyrir heyrnarlausa og þar með basta. Eins og þú segir er oft stutt í gremjuna og sárindin og ég forðaðist flest það fólk sem var með mér í skóla meðan ég bjó á Íslandi! Ég forðaðist samræður eins og ég gat og varð þegjandalegur. Hef líkið skánað í samræðulistinni með árunum;)
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 15.11.2012 kl. 01:58
Sæll aftur,
Ætlaði að bæta við að einelti er eitthvað sem ég læt ekki líðast í kringum mig! Fyrir rúmu ári var dóttir mín í einhverjum eineltis-stellingum gagnvart bekkjarsystur sinni og við tókum það föstum tökum alveg á nóinu eins og sagt er og hún upplýst um að slíkt væri gersamlega ólíðandi athæfi! Hún hefur lent í smá einelti í skólanum en það hefur jafnan verið tekið föstum tökum. Þetta hafa alltaf verið strákar og ég hef nú grun um að það sé hvolpavitið frekar en einelti, a.m.k. eftir því sem hún segir söguna;)
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 15.11.2012 kl. 02:03
Sæll Marínó
Ekki laust við að hafi fallið tár hér í morgunsárið danska. Ég man vel þessa daga og hef oft hugsað til þín og hvernig þér hlaut að hafa liðið. En það er sannarlega öðruvísi að heyra það svona beint frá þér. Ef maður bara hefði vitað þá hvernig þér leið - en þannig er mannlífið, enginn veit hvað annar hugsar og tilfinningar bera menn ekki á yfirborðinu.
Sjálfur gerði ég eflaust mitt, allt er það fallið í sjálfgerða gleymsku núna (en rifjast kannski upp þegar líður á daginn), en ég bið þig innilegrar afsökunar á þeim sársauka sem ég hef valdið þér.
Brynjólfur Þorvarðsson, 15.11.2012 kl. 07:00
PS við vissum alltaf að þú myndir vinna kosninguna, þú varst einfaldlega langbesti frambjóðandinn, en ég tók þátt og það var að rifjast upp fyrir mér hvers vegna hugmyndin spratt í bekknum og ég var ginningarfíflið sem lét til leiðast.
Brynjólfur Þorvarðsson, 15.11.2012 kl. 07:09
Takk, Binni. Afsökun meðtekin. Já, þið voruð afkastamiklir í "hinum" bekknum.
Marinó G. Njálsson, 15.11.2012 kl. 07:28
Snilld!
Sigurður Þorsteinsson, 15.11.2012 kl. 09:19
Mig langar til að láta þess getið að íslenskukennarinn minn í menntaskóla, Ólafur heitinn Briem, sagði að umrætt err sé upprunalegt err í íslensku.
Mér tókst að ná því með æfingunni og kenndi seinna börnunum mínum. Dóttir mín hreifst mjög af þessu. Hún starfar nú sem málvísindamaður.
Marinó og Arnór kunnu sem sagt alltaf að segja err.
Spurning með hina.
Ann Karen Ína (IP-tala skráð) 15.11.2012 kl. 09:54
Frábært hjá þér að skrifa þetta og leyfa öllum að sjá hvernig hægt er að fara með fólk út af litlum galla, aldrei hefur hvarflað að mér að þú værir með málgalla, þó hef ég heyrt þig tala en ekki heyrt neitt skrítið við það. Ég var alin upp við að vera fordómalaus og að allir væru mismunandi, kannski þessvegna leita ég ekki eftir göllum í fari fólks, hver og einn hefur sinn sjarma, það er mitt mottó. Minn stærsti galli var hversu stór ég hef alltaf verið (!.86 fullvaxin) það var mörgum uppspretta til endalausra uppnefna og athugasemda, mér tókst að láta það vinna með mér og er þakklát fyrir alla mína sentimetra. Gangi þér vel þú ert hetja
Ásdís Sigurðardóttir, 15.11.2012 kl. 12:01
Það er nú málið eins og kemur fram hér, að þeir sem eru gerendur, þeim líður líka illa þegar þeir fullorðnast og átta sig á því hvað var í gangi. Ég þekki til slíks, einn drengur í bekknum okkar varð fyrir svona einelti, þó ég yrði aldrei vör við það sjálf. En þegar við fórum að hittast þegar við vorum orðin fullorðin, þá kom í ljós skömminn þeirra yfir meðferðinni á þessum skólabróður, það er passað vel upp á að hann mæti og allir bera hann á höndum sér. Þó það sé auðvitað notalegt fyrir hann, þá er samt skaðinn skeður á sálinni. En það fer enginn óhaggaður út úr svona aðstæðum.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.11.2012 kl. 12:08
Flott grein!
Það eru allt of margir, ég þar með talinn, sem hafa þurft að ganga í gegnum helvíti á jörð bara vegna þess að þeir eru aðeins öðruvísi. Í mínu tilfelli var það fitusöfnun sem hefur orðið til þess að ég hef þurft að þola einelti og almennt virðingarleysi í gegnum alla skólagöngu og á vinnumarkaði.
Ég er sem betur fer búinn að vinna í mínum málum og farinn að geta aftengt mig tilfinningalega frá atburðunum þá eru sárin mjög djúp og auðvelt að opna þau aftur og ákveðið óöryggi og mikil vörn gagnvart öðrum verður alltaf til staðar. Það sem gerist og maður þarf að passa að heltaki mann ekki eru hugsanir um það sem maður fór á mis við sökum eineltis og óréttlætið sem felst í því að enginn hefur þurft að svara til saka fyrir ofbeldið.
Mér finnst talað of léttúðlega um einelti í þessari umræðu sem er í gangi í þjóðfélaginu því þetta er ekkert annað en andleg og í sumum tilfellum líkamleg nauðgun því þetta er hegðun sem er ekki samþykkt af hálfu þolanda. Gallinn við þessa tegund af nauðgun er hins vegar sá að hún er ekki jafn myndræn og kynferðisleg nauðgun og því geta fáir sett sig í spor þolandans nema þeir sem hafa prófað að vera þolendur sjálfir.
Ég legg til að í tilfelli barna verði farin sama leið og Svíar fóru og það er að gera foreldra lagalega ábyrga (fjársektir og mögulega fangelsi) fyrir ofbeldisfullri hegðun barna sinna. Á meðan ekki eru viðurlög við þessari tegund af ofbeldi gagnvart börnum á Íslandi þá kemur þetta til með að viðgangast áfram. Ég tel fulla þörf á þessu úrræði því foreldrar gerenda eru iðulega í afneitun og á meðan afneitunin er til staðar þá helst ástandið óbreytt (jafnvel svo árum skiptir) eða versnar eins og það gerði í mínu tilfelli.
Bjarki Guðlaugsson (IP-tala skráð) 15.11.2012 kl. 13:06
Ég var búin að kommenta um þetta á dv.is og endurtek það Marínó að mér þykir þú frábær að segja frá þessu. Einelti verður að linna og það eina sem getur hjálpað til að stoppa það í raun er að þegja ekki, heldur tala um það opinskátt , eins og þú hefur nú gert og ég vona að fleiri komi fram sem hafa lent í þessum fjanda. Einnig væri fínt ef gerendur stigu fram og bæðust fyrirgefningar opinberlega. Það er eins og sumt fólk telji það vera í lagi og sitt hlutverk, að svipta annað fólk tilverurétti sínum.Það er meira en nóg pláss fyrir okkur öll á jörðinni , með þeim kostum og göllum sem við höfum, nóg pláss
En hér er það sem ég skrifaði á dv.is :
http://www.dv.is/frettir/2012/11/14/marino-segir-fra-omurlegu-einelti/
Hjördís Vilhjálmsdóttir, 15.11.2012 kl. 14:24
Takk fyrir að deila Marinó :)
Mikið óskaplega er ég glöð að hafa kynnst þér og fleira súpergóðu baráttufólki síðustu árin :)
Vel mælt.
Andrea Ólafs (IP-tala skráð) 15.11.2012 kl. 16:22
Kaldhæðin er, að það var ekki fyrr en ég fór í nám í Bandaríkjunum, sem ég áttaði mig á því að til var líf án þessa eineltis. Það var líka á milli skólaáranna í Bandaríkjunum að ég skráði mig í talkennslu og vann að mestu leiti á talgallanum. Já, það var sumarið 1987 og fólk í kringum mig minntist aldrei á það. Aldrei. Ekki einn einasti maður nefndi það við mig.
Kærar þakkir fyrir að skrifa þetta, Marinó. En ég tók eftir þessu sama strax í Bandaríkjunum, hvað ungmenni þar voru ekki að kalla á eftir fólki í þessum eineltisstíl. Það var 7 árum fyrr en þú fórst. Svo kom ég aftur til Íslands með son minn, alinn upp við ensku, og viti menn, hrikalegt einelti hófst gegn honum í 1. sinn, jú, hann talaði eðlilega ´öðruvísi´. Ætli þetta sé ekki íslenskt? Vona að fólk reiðist ekki, en í alvöru?
Elle_, 15.11.2012 kl. 18:52
Og svo er líka svo mikið af góðum commentum að ofanverðu.
Elle_, 15.11.2012 kl. 19:38
Marinó. Ég þakka þér innilega fyrir þennan frábæra pistil. Þakka líka fyrir frábærar reynslusögu-athugasemdir annarra hér að ofan.
Þú og allir aðrir sem hafa átt við svipaðar eineltishörmungar að glíma, eiga allan minn stuðning og hlýhug. Ég hef að einhverju marki skilning á einelti. Það er nauðsynlegt að tala um þessar staðreyndir!
Ég átti yndislega norska móður, sem aldrei hafði tækifæri til að læra íslenskuna nógu vel. Hún var skynsöm og góð, en fékk ekki tækifæri til eins eða neins á Íslandi. Það þótti sumum gaman að gera grín að því hvernig hún talaði, og kunnu ekki að meta hana.
Hún var einfaldlega ekki metin sem skyldi, af fólkinu sem hún kom til á Íslandi. Hjartahlýrri og betri manneskju hef ég ekki kynnst í þessu lífi, heldur en vanmetinni móður minni.
Hún þótti ekki nógu fín, af sumum á Íslandi, og var brotin niður af þeim sem töldu sig vera "fínir".
Það er sárt að rifja þetta upp. Hún dó þegar ég var 18 ára.
Á Íslandi hefur fengið að viðgangast, og verið viðurkennt með aðgerðarleysi, kerfisstýrt og samfélagslegt veiðileyfi á þá sem ekki eru innfæddir, eða í réttu klíkunni, og ekki passa inn í fullkomnunar-kerfisramma stjórnsýslunnar.
Til dæmis:
Ef þú átt foreldra sem ekki kunna íslensku, þá "má" gera grín að því.
Ef þú ert svikinn um talþjálfun, þá "má" gera grín að því.
Ef þú ert lesblindur og með athyglisbrest/ofvirkni, og aðra ó-viðurkennda sjúkdóma, af stórbrenglaða heilbrigðis-kerfinu, þá "má" gera grín að því.
Og í framhaldi af því "má" leggja foreldra ó-greindra ADHD-einstaklinga í einelti. (Skólakerfið sér um þann þátt eineltisins)!
Og það "má" stimpla ykkur sem aumingja, og brjóta réttarstöðu ykkar niður, og samfélags-stimpla ykkur sem óvelkomna aumingja, og kerfisviðurkennd og sjálfsögð eineltisfórnarlömb "fullkomnu" innbyggjaranna og svikakerfisins!
Þetta er að sjálfsögðu helsjúkt eineltis-drottnunar-klíku-samfélag, hér á þessari Íslands-mafíueyju glæpa-hrægamma-bankastofnana-klíku-dómaraveldis!
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 15.11.2012 kl. 21:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.