Leita í fréttum mbl.is

Hvað lærdóm getum við dregið af hruninu?

Ég hef oft velt því fyrir mér hver ætti að vera lærdómur okkar Íslendinga af hruninu.  Er svo sem ekki kominn að neinni endanlegri niðurstöðu, en sífellt bætast fleiri kubbar í myndina.  Í þessari færslu ætla ég að fjalla um einn vinkil sem er hve auðvelt var/er að koma peningum undan og láta aðra sitja uppi með tjónið.

Sumir segja að helsti lærdómur af hruninu sé að best sé að haga sér óskynsamlega, skuldsetja sig upp í rjáfur og ekki sýna neina ráðdeild.  Að besta sé að "grípa hvert tækifæri til að skuldsetja sig og huga að afleiðingunum eftir á", eins og Þórður Snær Júlíusson, viðskiptablaðamaður á Fréttablaðinu komst að orði í grein í blaðinu um daginn.

Mig langar að taka hinn pólinn í hæðina, þ.e. reyna að skilja hvernig væri hægt að sporna við þeirri þróun sem varð hér fyrir hrun.

Skattahagræði í útlöndum

Margoft hefur verið bent á að hluti vanda okkar var endalaus færsla fjármagns úr landi.  Eina stundina var aðaleigandi Flugleiða félag á Íslandi, en þá næstu var það í raun félag í Hollandi án þess að félagið á Íslandi hafi fengið krónu greitt og hvað þá að króna hafi runnið í ríkiskassann.  Á sama hátt voru félög sem áttu stóra hluti í öllum helstu fyrirtækjum landsins að endingu skrásett í skattaparadísum um allan heim meðan íslenska eignarhaldsfélagið var skúffa með 500.000 kr. hlutafé. Lára Hanna Einarsdóttir lýsir þessu vel í færlsunni Bankaleynd og skattsvik.

Ef við viljum eitthvað læra af hruninu, þá er það að koma í veg fyrir að arður af íslenskri starfsemi fari óskattlagður úr landi.  Fari arðurinn skattlagður úr landi, þá skiptir það engu máli hvert hann fer og hvernig hann er notaður.  Lykilatriðið er að peningar sem verða til hér á landi renni í sanngjörnu hlutfalli til uppbyggingar samfélagsins.

Ég tel að breyta þurfi skattalöggjöf á þann hátt, að allur arður, sama hverjum hann er greiddur, sé skattlagður samkvæmt íslenskum skattalögum.  Þetta þýðir að breyta þarf tvísköttunarsamningum, þannig að skattur af fjármagnstekjum verði eftir í því landi sem fjármagnstekjurnar verða til.  Ef þetta fyrirkomulag kemst á um allan heim, þá hætta skattaskjól að gegna sínu hlutverki, þar sem fjármagnstekjur verða sjaldnast til í þeim, heldur eru fjármagnstekjur fluttar til fyrirtækja í þeim löndum til að forðast eðlilegar greiðslur til heimalandsins.

Nú æmtir einhver og segir:  "En hvað með rekstrarkostnað þess sem fékk arðinn eða tap af öðrum fjárfestingum?"

Við þessu er einföld lausn.  Hægt verður að fá hluta fjármagnsskattsins endurgreiddan að uppfylltum ströngum skilyrðum.  Án þess að ætla fara ýtarlega út í það hérna, þá væri það að sönnur væru færðar á tap, að viðkomandi félag gerði grein fyrir atriðum sem valda tapinu, að eignarhald félagsins væri vel skilgreint og þannig tengjanlegt við raunverulega einstaklinga, að félagið væri ekki skúffa.

Eiginfjárkrafa hjá eignarhaldsfélögum

Einn merkilegasti hluti uppljóstrana í tengslum við hrunið er hin víðtæka notkun eignarhaldsfélaga sem eru ekkert nema skúffur.  Þessi félög voru stofnuð með lágmarkshlutafé, en gátu samt stofnað til viðskipta upp á tugi milljarða.  Hvernig getur það gengið að eignarhaldsfélag með 500.000 kr. hlutafé getur keypt hlutafé í Kaupþingi að verðmæti 2 ma.kr.?  Eða eignast hluti í Glitni fyrir tvöfalda þá upphæð?  Hvernig geta svo þessi félög skuldsett sig upp í rjáfur upp á 4 - 8 þúsund falt eigið fé sitt, eins og ekkert sé?  Loks hvernig geta þessi félög greitt eigendum sínum arð sem er upp á margfalt upprunalegt framlag, þó svo að ekkert liggi fyrir um hvernig standa eigi við skuldbindingar félagsins?  Auðvitað ætti þetta ekki að vera hægt, en þetta er hægt samkvæmt íslenskum lögum.

Já, samkvæmt íslenskum lögum geta eignarhaldsfélög með nánast ekkert eigið fé (500 þús.kr. er ekkert til að tala um) skuldsett sig upp á þess vegna milljónfalt hlutafé sitt, bara ef lánveitandinn treystir félaginu.  Þetta á náttúrulega ekki að vera hægt.  Áhættureglur fjármálafyrirtækja eiga að banna þetta og þar sem reynslan sýnir okkur að bankarnir voru á kafi í svindlinu, þá þurfum við lög sem koma í veg fyrir þetta.

Ljóst er að eignarhaldsfélag með 500.000 kr. í hlutafé er ekki líklegt til að standa undir vöxtum af einu sinni 10.000.000 kr. láni án þess að það hafi reglulegar og öruggar tekjur.  Arður er t.d. ekki öruggar tekjur og því ekki reglulegar tekjur.  Arður ræðst af hagnaði sem einhver annar hefur af rekstri sínum.  Sala eigna er heldur ekki öruggar tekjur, þar sem eignaverð getur verið ákaflega kvikt.  Því er ljóst að eignarhaldsfélag með 500.000 kr. hlutafé og ekkert annað eigið fé hefur þann eina tilgang að fría eiganda sinn ábyrgð.  Þess vegna ættu lög að banna óhóflegar lánveitingar til slíkra félaga.  Setja ætti lög sem segja til um að lánveiting til lögaðila geti ekki verið umfram ákveðið margfeldi af eiginfé lögaðilans.  Hvort þessi tala er 10, 50 eða 100 skiptir ekki megin máli, en ekki umfram 100.  Aftur skulum við hafa í huga, að bankarnir fjórir (Straumur með) voru ekkert að hugsa um hvort lánin fyrir hlutabréfunum fengjust greidd aftur.  Lausnin var, jú, alltaf að stofna nýtt eignarhaldsfélag sem keypti af hinu fyrra á hærra verði.

Með svona reglu hefði veri komið í veg fyrir óhóflegar lántökur flestra eignarhaldsfélaga fyrir hrun.  Öll hin fjölmörgu sýndarviðskipti með hlutafé í bönkunum hefðu ekki orðið að veruleika, þar sem félög eins og Stím hefðu þurft að leggja fram milljóna tugi í hlutafé til að geta keypt þau bréf í Glitni sem það svo átti að hafa gert.

Samhliða þessu ætti að gera það refsivert að brjóta lögin.  Vandinn við allt of mikið af lögum um fjármálafyrirtæki, að ekki er hægt að kalla nokkurn mann til ábyrgðar, þar sem gjörningurinn fór fram í nafni lögaðila og maður stingur ekki Kaupþingi í steininn!

Viðskiptavild og aðrar óefnislegar eignir í reikningum

Setja á skýr ákvæði um hve hátt hlutfall viðskiptavild getur verið af eiginfé lögaðila.  Þak á viðskiptavild gæti t.d. verið 5 - 10%.  Allt umfram það er óraunhæft, þó ég sé viss um að einhver telji sig geta rökstutt hærri viðskiptavild, þá eru slíkar óefnislegar eignir ákaflega erfiðar í mati.

Fyrir hrun var ekki óalgengt að sjá óefnislegar eignir upp á marga tugi prósent af eiginfé.  Sterling, svo dæmi sé tekið, fór frá því að vera verðmetið á 4 ma.kr. í 20 ma.kr. á nokkrum mánuðum bara út á óefnislegar eignir.   Allt var líklegast gert til að geta fengið hærra lán og þannig búið til hagnað fyrir viðskiptafélaga.

Markaðsverðmæti hlutafélaga á grunnum verðbréfamarkaði er ekkert að marka.  Ein sala upp á örfáa hluti gat breytt markaðsvirði um tugi prósenta á augabragði.  Slíkt stenst ekki nokkur rök, enda kom í ljós að ekki var innistæða fyrir markaðsvirðingu eigna í reikningum eigenda hlutabréfa.  Markaðsvirðið var einfaldlega óefnisleg eign sem ekkert bjó að baki.  Hverfa þarf frá markaðsvirðisbókhaldi að því marki, að til þess að færa megi eign upp samkvæmt virði á markaði, þá þurfa ákveðin lágmarks viðskipti að hafa átt sér stað á því gengi.  Fyrirtæki með 10 milljón hluti, þar sem virði hluta hækkar um 10 kr. á mánuði í 24 mánuði, má ekki færa upp á nýtt gengi í bókhaldi nema minnst 20% hluta (eða eitthvert annað heppilegt hlutfall) hafi skipt um hendur á hinu nýja gengi eða þaðan af hærra.  (Einnig mætti ákveða að tiltekið hlutfall skráðra eigenda hefðu keypt og selt á nýju gengi til að forðast að hringekja fárra aðila myndi falskt gengi.)  Við sölu er að sjálfsögðu allur söluhagnaður færður sem slíkur í bókhaldinu.

Þak á útgreiðslu arðs

Sögurnar af óhóflegum arðgreiðslum á árunum fyrir hrun eru margar.  Merkilegast þykir mér þegar 500 þ.kr. hlutafélögin eru að greiða 500 - 1.000 milljarða út til eigenda sinna, þrátt fyrir að skuldir séu ennþá stjarnfræðilegar.  Þetta á ekki að vera hægt.

Hér áður fyrr var fyrirtækjum skylt að leggja í varasjóð.  Hvað varð um þá skyldu?  Hún var a.m.k. ekki í hávegum höfð hjá velflestum eignarhaldsfélögunum og fjárfestingafélögunum sem bankarnir töðuðu hvað mest á við hrunið.

Væri myndin önnur, ef ekki mætti greiða meiri arð út árlega en nemur 15% af eiginfé og annað yrði að leggja í varasjóð til að standa undir skuldbindingum?  Einnig mætti miða við hlutfall af inngreiddu hlutafé. 

En 15% af 500 þ.kr. er bara 75 þ.kr.  Já, einmitt.  Hugmyndin er að tryggja hag lánadrottna, en ekki lántaka, þannig að áður en greiddur er út of mikill arður, þá sé tryggt að til sé greiðslugeta í eignarhaldsfélaginu til að standa undir skuldbindingum, að ósýnilegur eigandi geti ekki greitt sér út óhóflega arð og síðan sett skuldugt félag á hausinn, ef illa árar, þó svo að hagnaður fyrri ára hefði dugað til að greiða tapið af mögru árunum.

En eigið fé hækkar með meira virði eigna.  Vissulega, en með reglunni frá því áðan um að markaðsvirði hækkar eingöngu eftir að nægilega margir hafa viðurkennt hærra gengi hlutabréfanna, þá er komið í veg fyrir að falskt eiginfé myndist hjá eignarhaldsfélaginu.  Og með reglunni þar á undan um lán til félags geti ekki farið yfir ákveðið margfeldi á eiginfé, þá var dregið að einhverju leiti úr skuldsetningunni.

Einnig legg ég til að hægt verði að endurkrefja þiggjanda arðs um hann allt að 10 ár aftur í tímann.  Þannig gæti þrotabú gert kröfu á þann sem setti eignarhaldsfélagið í þrot um að viðkomandi (hvort sem um er að ræða einstakling eða annað félag) endurgreiði, segjum 50% af arði fyrri ára allt að 10 ár aftur í tímann.  Hafi viðkomandi ekki efni á því, þá er það bara gjaldþrotamál.  Sé um félag að ræða, þá getur að þrotabúgert kröfu á þann sem fékk arð frá því, o.s.frv.  Þetta þýðir að ekki dugar að fela eignarhald í mörgum lögum af eignarhaldsfélögum.  Að lokum kemur að hinum raunverulega eiganda sem hefur líklegast stundað að skuldsetja 500 þ.kr. félag í topp til þess eins að búa til sýndarhagnað sem hægt var að greiða út í arð, færa eignirnar úr litla félaginu yfir í annað lítið félag, en skilja skuldirnar eftir og setja svo skulduga félagið í gjaldþrot.  Þetta er trikk sem allir auðmenn í heiminum hafa lært vegna þess að lögin eru svo vitlaus að leyfa þetta.

Menn umgangast markaðinn sem Monopoly-spil

Sá lærdómur sem við getum dregið hvað helstan af hruninu er að fjárfestar umgangast  markaðinn sem Monopoly-spil.  Ef vel gengur þá vinna þeir spilið, en ef illa gengur, þá var bara um sýndartap að ræða sem þeir bera enga ábyrgð á.  Þeir vita aðgefið verður upp á nýtt fljótlega og þá fá þeir að vera með í nýju eignarhaldsfélagi.  Með smá heppni gengur betur næst, nú annars endurtaka þeir bara leikinn.

Monopoly-spilið heldur áfram eins lengi og bankinn lánar.  Bankinn lánar eins lengi og hann getur, þar sem hann veit að hagnaður hans felst í því að utanaðkomandi aðilar láti blekkjast og kaupi hluti á óraunhæfu gengi fyrir raunverulega peninga.  Nóg er að blekkja nokkra aðila til þátttöku svo góður hagnaður fáist.  Fyrir hrun voru það nánast bara lífeyrissjóðirnir sem voru blekktir á þennan hátt og síðan gamalt fólk sem búið var að nurla saman peningum til elli áranna.

Ég veit um fjölmörg dæmi af fólki sem hélt sig vera orðið ríkt, þar sem það átti hlutabréf í bönkunum fyrir nokkra tugi eða nokkur hundruð milljónir.  Þegar það vildi selja, þá var reynt að telja því hughvarf, þar sem með því hefði það tekið raunverulega peninga út úr hringstreyminu.  Raunverulega peninga sem hefði þurft að skipta út með sýndarpeningum frá bankanum.  Með því hefði orði óæskilegt útstreymi peninga úr kerfinu.  Þess vegna var lögð mikil vinna í að halda raunverulegum peningum inni í kerfinu, en hlutabréf sem gengu kaupum og sölum með sýndarpeningum þau urðu að vera kvik.

Lærdómurinn sem við eigum að draga af hruninu

Það er þetta sem við þurfum að læra af hruninu, þ.e. að skilja hvenær viðskipti eru sýndarviðskipti og hvenær þau eru raunveruleg viðskipti.  Að einhver Jón hafi keypt sér dýrari bíl en hann hafði kannski efni á og tekið hærra lán en efni stóðu til skiptir ekki máli, þar sem lánið hans Jóns var bara upp á 7-8 m.kr. eða kannski bara 4-5 m.kr.  Höfum í huga að Jón greiddi lánið sitt til baka með raunverulegum peningum sem hann aflaði sér í sínu starfi.  Séra Jón aftur keypti Ranger Rover á 15 m.kr., fékk sýndarpeninga að láni og greiddi til baka með sýndarpeningum sem hann lét eignarhaldsfélagið sitt greiða sér af sýndararðinum sem kom til vegna sýndarhagnaðarins sem varð til vegna sýndarhækkunarinnar á hlutabréfunum sem hann átti í þykjustunni í Monopoly-spilinu sem hann var í með bankanum.  Þegar Jón gat síðan ekki greitt af láninu, þá kom bankinn og hirti bílinn af honum þó hann væri búinn að borga 90% af virði bílsins.  Bankinn tapaði því ekki á Jóni, en öðru gegndi með séra Jón.

Þegar séra Jón gat ekki greitt af bílnum, þá lengdi bankinn í sýndarláninu vegna þess að tæki hann bílinn til sín, þá yrði bankinn að selja bílinn til að tapa ekki á honum.  Og hver átti að kaupa?  Bankinn hafði búið til peninga fyrir séra Jón, þannig að séra Jón var að nota peninga bankans til að borga bankanum.  Séra Jón lagði ekkert inn í flæðið.  Nei, hann tók út.  Eins og áður sagði, varð bankinn að finna einhvern "aula" til að kaupa, svo hann tapaði ekki á vitleysunni.  Þannig losnaði séra Jón af hringekjunni og hoppaði frá borði með ókeypis bíl, ókeypis hús og ókeypis ofurhagnað. 

Málið er bara að hringekjan hætti að snúast áður en allir séra Jónarnir náður að hoppa af og hrunbankarnir sitja uppi með 1.800 ma.kr. tap af séra Jónunum sem þeir fengu með sér í blekkingarleikinn.  Meðal þeirra eru mörg þekkt nöfn sem ég ætla ekki að nefna, en flestir þeirra lifðu í vellystingum í nokkur ár og eiga digra varasjóði á Cayman eða í Lux sem þeir geta dregið á það sem eftir er ævinnar.  Að koma í veg fyrir að svona hringekjur séra Jóna fari aftur af stað er lærdómurinn sem við eiga að draga af hruninu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

Nákvæmlega það sem ég hef verið að velta fyrir mér. Málið er að svikamyllan er gerð lögleg með stofnun fyrirtækis, sem tekur á sig allt tapið eftir að búið er að búa til sápukúlupeninga, sem renna í vasa eigenda sem arður eftir háar lántökur, en verða síðan greiddar af samfélaginu, þar sem ekkert getur í raun verið ókeypis, til lengri tíma litið. Ábyrgðarleysi er lykilorðið hérna.

Hrannar Baldursson, 1.4.2012 kl. 05:43

2 identicon

Þú hugleiðir  í færslunni "Hvernig væri hægt að sporna við þeirri þróun sem varð hér fyrir hrun" og nefnir mörg dæmi þess "hve auðvel það var/er að koma peningum undan og láta aðra sitja uppi með tjónið".

Að lestri færslunnar loknum  er erfitt að verjast þeim hugsunum að hægt hefði verið að fyrirbyggja "hrunið" að miklu leiti og að enn sé ekki búið að gera nógu mikið til að sagan geti ekki endurtekið sig.

Agla (IP-tala skráð) 1.4.2012 kl. 08:20

3 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Á meðan eftirlitsaðilar taka ekki í taumana mun ekkert breytast.  Nú eru fyrrum forsvarsmenn SP-Fjármögnunar hf. komnir af stað aftur með sama  bílasamningslánafyrirkomulagið í sama kaupleigubúningi og Hæstiréttur úrskurðaði sem lánasamning, bara nú undir starfsleyfi MP-banka.

Eftirfarandi texti er tekinn af heimasíðu Lykils, fjármögnunarþjónustu MP banka sem kynnir bílasamningaform sitt (rauðar litabreytingar í textanum eru mínar):

ÞÚ LEIGIR, LYKILL Á

Þú velur þér bíl, tæki eða ferðavagn sem þig langar í og hefur síðan samband við Lykil eða lætur bílasala hafa samband. Lykill leigir þér bílinn, tækið eða ferðavagninn í fyrirfram umsaminn tíma. Á leigutímanum er Lykill skráður eigandi en þú skráður umráðamaður og ert skattalegur eigandi. Að leigutíma loknum eignast þú bílinn, tækið eða ferðavagninn.

ÓVERÐTRYGGÐUR EÐA VERÐTRYGGÐUR - ÞITT ER VALIÐ

Þú getur valið að hafa bílasamninginn óverðtryggðan með breytilegum vöxtum, einnig býðst þér að fá bílasaminginn með breytilegum verðtryggðum vöxtum. Ef bíllinn er umhverfisvænn þá er samningurinn án stofngjalds.

LYKILATRIÐIN
  • Allt að 75% fjármögnun
  • Óverðtryggðir vextir 8,95%
  • Verðtryggðir vextir 7,95%
  • Jafnar greiðslur á samningstíma 
  • Samningstími allt að 7 ár
  • Engin stimpil- eða þinglýsingargjöld af bílasamningi
  • Stofngjald 2,00%-3,50%
  • Aldur bíls og samningstími samanlagt allt að 10 ár
  • Hægt er að gera bílaskipti á samningstímanum eða sameina eldri samning við nýjan
  • Þú eignast bílinn að samningstíma loknum
  • Ekkert uppgreiðslugjald er á bílasamningi
  • Umhverfisvæn fjármögnun er í boði fyrir bílasamning

Hægt er að yfirtaka bílasamning og er yfirtakan framkvæmd með nýjum samningi á nýjan aðila með lágmarks kostnaði.

Ofangreint samningsform kallast víst kaupleiga, sem Hæstiréttur lýsti svo í dómi nr. 92/2010:

"Varð því að líta svo á að S[innsk: SP-Fjármögnun] hefði í raun veitt Ó lán til kaupa á bifreið,sem S hefði kosið í orði kveðnu að klæða í búning leigusamnings. Var því lagt til grundvallar að um lánssamning í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu hefði verið að ræða."

Ég bendi á eftirfarandi í kynntum einkennum samningsins: 

  • Eignarhald sem færist á lántaka í samningslok er skilmáli í neytendalánasamingi vegna afborgunarkaupa, en á ekki við í leigusamningi. 
  • Jafnar greiðslur á samningstíma munu aldrei gerast, því greiðsla mun sveiflast með breytingum á vöxtum, sem umsamið er að séu breytilegir!  Heildarlántökukostnaður mun því breytast frá því sem kynnt er við samningsgerð.
  • Engin stimpil- eða þinglýsingargjöld af bílasamningi þýðir að farið er framhjá lögum um neytendalán þar sem lánveitandi kýs að líta á samninginn sem leigusamning. 
  • Yfirtaka sem framkvæmd er með gerð nýs samnings á nýjan aðila er ekki yfirtaka á gildandi samningi. 

Þetta eru því villandi viðskiptahættir sem eru ólögmætir en Neytendastofa og FME gera ekkert!

Það sem þarf að breytast er gjörbreytt hugarfar starfsfólks og stjórnenda eftirlitsstofnana.  Þangað til heldur vindmyllubardaginn áfram.

Erlingur Alfreð Jónsson, 1.4.2012 kl. 19:53

4 Smámynd: Billi bilaði

Heyr, heyr.

Vandinn er bara sá að 38% virðast ætla að kjósa sjallana skv. nýjustu fréttum, þannig að ekki borgar sig að halda niðri í sér andanum á meðan maður bíður eftir því að meirihluti þingmanna sjái réttlætið í þessu og komi þessu í lög.

Billi bilaði, 2.4.2012 kl. 23:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband