Leita í fréttum mbl.is

Kynslóðatilfærsla lífeyriskerfisins er frá þeim YNGRI til þeirra ELDRI!

Ég get ekki að því gert, að það fer voðalega í taugarnar á mér, þegar Gylfi Arnbjörnsson, Arnar Sigurmundsson og fleiri varðmenn lífeyrissjóðakerfisins byrja með grátkórinn sinn um að amma gamla eigi að greiða verði lífeyrissjóðirnir krafðir um að taka þátt í lækkun á skuldum heimilanna.  Vilhjálmur Bjarnason, fjárfestir, tók síðan undir með kórnum í Silfri Egils í dag. Rök þeirra eru í grófum dráttum að leiðrétting lána upp á 200-250 ma.kr. sé stærsta eignatilfærsla í sögu lýðveldisins, að lífeyrissjóðirnir hafi orðið fyrir svo miklum skaða að bæta yrði þeim sem núna eru að taka lífeyri tjón þeirra, ef frekar yrði bætt á tjónið og síðan hjá Vilhjálmi í Silfrinu, að menn hafi gengið út frá því að kaup lífeyrissjóðanna á bréfum Íbúðalánasjóðs (og forvera hans) væri áhættulaus fjárfesting.

Málið er að hvernig sem á allt er litið, þá eru það yngri sjóðfélagar sem eru að taka á sig tjónið sem lífeyrissjóðirnir urðu fyrir í hruninu og ekki bara í hruninu heldur eru yngri sjóðfélagar líka að taka á rangar forsendur sjóðanna í gegn um tíðina sem hafa í reynd leitt til þess að eldri sjóðfélagar hafa ekki safnað fyrir þeim réttindum sem þeir eru ýmist að fá greidd út eða verið er að lofa að þeir fái greitt út þegar þeir hefja töku lífeyris.  Í þessari færslu (sem ég er búinn að ganga með í maganum nokkuð lengi og hefur verið tilbúin í nokkra daga) fer ég yfir það sem ég tel vera mesta eignatilfærsla sem er í gangi á Íslandi í dag og ennþá stærri sem er framundan.  Stóra málið er að yngri sjóðfélagar eru að tapa mun hærri upphæðum í kerfinu en þeir eldri.

Ómaklegt að etja saman kynslóðunum

Mér finnst þessi aðferð að etja saman kynslóðunum vera ómakleg og röng.  Það nefnilega vill svo til að fæstir sem eru að taka lífeyri í dag, ef nokkur, ávann sér að fullu þann lífeyri sem viðkomandi er að fá.  Já, náði ég athygli ykkar.

Fæstir sem eru að taka út lífeyri í dag eiga fulla innistæðu fyrir honum í sjóðnum sínum!

Þetta vita Gylfi, Arnar, Vilhjálmur Egils og allir forystusauðir lífeyrissjóðakerfisins.  Ég ætla ekki að kenna þeim um að svo sé, en ég vil bara að þeir hætti að fela sannleikann fyrir fólkinu í landinu. 

Eina leiðin til þess að hægt sé að greiða fólki út þann lífeyri sem búið er að lofa því í mörg ár, er að ganga á innstæður þeirra sem yngri eru.  Eðlilegast væri náttúrulega að laga réttindi allra sjóðfélaga að stöðu sjóðanna, en þá myndu m.a. Gylfi, Arnar og Vilhjálmur missa spón úr sínum aski.  Ekki að það muni skipta þá máli, en það mun skipta fjölmarga aðra máli.  Þess vegna er farin sú leið að telja fólki trú um að réttindaávinningur þeirra sé meiri en sjóðirnir standa undir.  Þá er ég ekki að tala um að ávöxtun sjóðanna hafi ekki verið næg, heldur eru það aðrir þættir og mun ég skýra það út hér fyrir neðan.

Hækkun iðgjalda..

Ekki eru nema tæp 6 ár frá því sett voru lög um að lágmarksiðgjöld í lífeyrissjóði hækkuðu úr 10% í 12%.  Með kjarasamningum sem tóku gildi 1. janúar 2005 var framlag launagreiðenda hækkað úr 6% í 7% og tveimur árum síðar hækkuðu þau úr 7% í 8%.  Ástæðan fyrir þessari hækkun var fyrst og fremst til að bæta tryggingafræðilega stöðu sjóðanna, en lengri ævi og fjölgun öryrkja hafði skekkt stöðu sjóðanna.  Með öðrum orðum, greiðslur í samtryggingasjóði höfðu ekki staðið undir þeim réttindum, sem sjóðsfélögum hafði verið lofað á þeim tíma sem þeir greiddu iðgjöld sín og launagreiðendur mótframlagið.

Líklegast er bannað að segja það sem ég ætla að segja núna.  Staðreyndin er sú, að þeir allir sem taka lífeyri núna úr samtryggingasjóðum eða munu byrja töku hans á næstu tveimur áratugum munu ekki hafa unnið fyrir öllum réttindum sínum með greiðslu í lífeyrissjóðinn sinn.  Skekkjan er minni eftir því sem lengra líður milli lífeyristöku og gildistöku ákvæðisins um 8% framlag launagreiðandans.  En framundan er frekari skekking, því samkomulag hefur náðst um að lágmarksiðgjald í lífeyrissjóði hækki í 15,5% á árunum 2014 - 2020.  Látum það þó að mestu liggja á milli hluta í þessari umfjöllun.

..til að mæta hærri lífaldri og fjölgun öryrkja

Við hækkun framlags launagreiðenda úr 6 í 8% varð 20% hækkun á inngreiðslu.  Henni var, eins og áður segir, ætlað að mæta hækkuðum aldri og fjölgun öryrkja.  Staðan var einfaldlega sú að tryggingafræðileg staða sjóðanna var neikvæð og auka þurfti inngreiðslur í þá til að standa undir þeim löforðum sem höfðu verið gefin.  Ekki ætla ég að agnúast út í það. Frekar fagna því að ég geti með mínu framlagi í minn lífeyrissjóð tekið þátt í velferðarkerfinu og stutt við þá sem eldri eru og lokið hafa starfsævi sinni eða þurft að fara af vinnumarkaði vegna slysa eða sjúkdóma.  Mér finnst aftur rétt að vekja athygli á því, að þessu 20% framlagi er til að byrja með fyrst og fremst ætlað að leiðrétta minni inngreiðslur á árum áður en nauðsynlegt hefði verið miðað við þá þróun sem átt hefur sér stað.  Í skýrslu sem Samtök atvinnulífsins gáfu út árið 2006 og fjallar um lífeyriskerfið frá ýmsum hliðum segir m.a.:

Í greinargerð sem lögð var fram af hálfu ASÍ í viðræðum um endurnýjun kjarasamninga aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins kvað hins vegar við nokkuð annan tón þar sem áherslan var lögð á aðsteðjandi vanda lífeyrissjóðanna vegna aukinnar örorkutíðni og lengri meðalævi (sem er eitt og sér að sjálfsögðu gleðiefni). Megin niðurstaða skýrslunnar var að iðgjöld þyrftu að hækka um allt að 2% ef takast ætti að halda gildandi lífeyrisloforðum óbreyttum.

Með öðrum orðum þá hafði lífeyriskerfið á þeim tíma ekki efni á að greiða út þann lífeyri sem það var að greiða út nema ganga á rétt annarra sjóðfélaga.  Ef jafnvægi átti að vera á milli réttinda sem fólk stóð í góðri trú um að það hafði áunnið sér og þeirra réttinda sem það hafði í raun og veru áunnið sér út frá tryggingafræðilegum útreikningum, þá var bara um eitt að ræða:  Þeir sem voru og myndu greiða í sjóðina þurftu að leggja meira fram, svo þeir sem hættir voru að greiða eða áttu stutt eftir af starfsævinni gætu fengið það sem þeim hafði verið lofað.  Þannig var hægt að verja eldri réttindi allra, en í staðinn tóku yngri sjóðfélagar að sér að vera einhvers konar velgjörðar menn hinna eldri.

Kaupmáttaraukning skekki líka myndina

En þetta er ekki allt.  Bjarni Þórðarson, tryggingarstærðfræðingur, er sá sem líklegast veit mest um stöðu lífeyrissjóðanna.  Í skýrslu SA er vitnað í umsögn hans og þar segir:

Var vitnað til útreikninga Bjarna Þórðarsonar, tryggingastærðfræðings, sem komst að þeirri niðurstöðu að ef kaupmáttur yxi að jafnaði um 1% á ári myndu lífeyrisloforð til manns sem greiddi frá 20 til 67 ára aldurs í samtryggingarlífeyrissjóð, verða 6% hærri en innistæða væri fyrir og 12% ef kaupmáttaraukningin væri 2%. Þar til viðbótar væri vandi sjóðanna enn stærri ef kaupmáttur yxi hraðar á síðari hluta starfsævinnar en á þeim fyrri. Mikil kaupmáttaraukning síðastliðinn áratug hefur þannig orðið til þess að auka vanda lífeyriskerfisins.

Þ.e. kaupmáttaraukning í gegn um tíðina hjá þeim, sem núna eru að taka lífeyri eða munu byrja á næstu árum, veldur því að við sem enn erum að greiða í sjóðina þurfu enn frekar að greiða fyrir hluta þess lífeyris sem þetta fólk hefur fengið, er að fá eða mun fá til æviloka.  Yngra fólkið á að greiða fyrir það eldra.

18,7% skerðing á réttindaávinningi

Og síðan er það rúsínan í pylsuendanum.  Enn úr skýrslu SA:

Hækkun iðgjalds í lífeyrissjóðina, úr 10% í 11% samtals frá árinu 2005 og í 12% frá árinu 2007, sem ákveðin var með gerð kjarasamninga árið 2004, var almennt ekki ætlað að auka rétt sjóðsfélaga til lífeyris heldur að gera þeim kleift að standa undir núverandi lífeyrisloforðum. Almenn hækkun iðgjalds um 1% án breytinga á reglum sjóðanna um ávinnslu réttinda hefði því birst þeim eins og 10% kauphækkun og hefði því engan vanda leyst heldur þvert á móti aukið hann. Óhjákvæmilegt var því að draga úr ávinnslu réttinda samhliða hækkun iðgjaldsins og það gerðu flestir sjóðirnir. Sem dæmi um útfærslu má taka Lífeyrissjóð verzlunarmanna sem árið 2005 lækkaði réttindastuðul úr 1,65 í 1,5, sem felur í sér að 11% iðgjald skapaði sama rétt og 10% iðgjald gerði áður. (Leturbreyting MGN)

Sem sagt fólk vinnur sér inn sömu réttindi fyrir 11% iðgjald og það gerði áður fyrir 10% iðgjald.  En skertust þá réttindi þeirra sem áður greiddu 10% iðgjald?  Nei, þau héldust óbreytt, þannig að þeir sem hafa greitt hærra iðgjaldið hafa verið að nota huta af launatekjum sínum (iðgjald launagreiðanda er náttúrulega ekkert annað en launatekjur) til að bæta þeim sem ekki eru búnir að greiða nóg upp það sem á vantaði.  Í dag er það svo komið að sá sem greiðir 12% í t.d. Lífeyrissjóð verzlunarmanna verður að sætta sig við réttindastuðulinn 1,341 sem er 18,7% lækkun.  Já, hægst hefur á lífeyrissöfnun þeirra sem eru að greiða í sjóðina um 18,7% m.a. svo þeir sem eldri eru missi ekki rétt sem þeim var lofað en í reynd ekki áunnið sér.  Þetta er hin óhjákvæmilega leið til að "draga úr ávinnslu réttinda".  Er ekki tilveran dásamleg?

Tilfærsla á milli kynslóða

Segja má að þessi breyting á lífeyrissjóðunum og sú sem stefnt er að árið 2014-2020 sé mjög skýrt dæmi um tilfærslu milli kynslóða.  Frá yngri kynslóðunum til þeirra eldri.  Og þessi tilfærsla er ekkert smáræði.

Fái þeir sem eru að greiða í sjóðina núna 18,7% minni réttindi fyrir það sem þeir greiða í lífeyrissjóðina, en þeir sem fóru á ellilífeyri fyrir ársbyrjun 2005, þá liggur beinast við að þessi 18,7% sé verið að nota a.m.k. að hluta til að bæta þeim upp mistök fyrri ára. 

Upphæðin skiptist gróft séð í tvennt.  Annars vegar að leiðrétta eigin ávinning greiðenda, hins vegar að leiðrétta fyrir fá sem eru byrjaðir að taka lífeyri eða ná ekki að leiðrétta sína réttindaávinnslu.  Ég er 51 árs, þannig að það tekur nokkur ár fyrir mig að leiðrétta fortíðina.  Aftur á móti sá sem er 30 ára, hann er hugsanlega búinn að greiða alla sína starfsævi 12% í lífeyrissjóð.  Á hverju ári hafa því 18,7% af iðgjöldum hans farið til að greiða lífeyri þeirra sem eru að fá úr sjóðunum í dag og hjálpa við að leiðrétta skekkjuna hjá þeim eru að nálgast lífeyrisaldur. 

Gefum okkur að helmingur af iðgjaldagreiðendum séu þannig að greiða þessi 18,7% til eldri kynslóð, fjórðungur sé að greiða helming tölunnar og síðasti fjórðungurinn sé bara að leiðrétta sjálfan sig.  Miðað við að iðgjöld ársins 2010 voru hátt í 80 ma.kr., þá hleypur kynslóðatilfærslan á líklegast 10-12 ma.kr. ef ekki meira.  Já, þeir sem eru 55 ára og yngri eru (samkvæmt þessum grófu útreikningum) að greiða árlega 10-12 ma.kr. af lífeyrisiðgjöldum sínum svo þeir sem eru 67 ára og eldri fái meiri lífeyri en þeir hafa unnið sér fyrir, þó þeim hafi verið talin trú um annað. (Tekið fram að ekki er verið að varpa neinni sök á eldri sjóðfélaga.  Þeir vissu ekki betur en að þeirra lífeyrissöfnun stæði undir loforðunum sem þeim voru gefin.)

Háar upphæðir færast á milli

Hvernig sem er á allt litið, þá eru háar upphæðir að færast á milli kynslóðanna.  Miðað við 10 ma.kr. á ári fyrir 12% iðgjald og helming þess fyrir 11%, þá hafa þegar 60 ma.kr. farið frá yngri sjóðfélögum til þeirra eldri.  Haldist réttindastuðullinn óbreyttur við hækkun iðgjalda í 15,5% og sú hækkun komi í 0,5% þrepum á ári, þá verður tilfærslan orðin 27,5 ma.kr. á ári árið 2020 og uppsafnað ársloka 2020 alls 220 ma.kr. eða ríflega 11% af núverandi eignum lífeyrissjóðanna.  Á þessum áratug einum er gert ráð fyrir að yngri sjóðfélagar leggi þeim eldri til 180 ma.kr. svo ekki þurfi að skerða lífeyri þeirra til samræmis við raunverulegan réttindaávinning þeirra.

Gera verður ráð fyrir að réttindastuðullinn hljóti að hækka á árunum 2014 til 2020.  Annað væri hreint og klárt rán, ef 55% hækkun iðgjalds (úr 10 í 15,5%) gæfi enga hækkun á réttindastuðlinum.  Hugsanlega ætla menn bara að vinna upp lækkunina 2005 og 2007, en verði það lendingin, þá munu sjóðfélagar árið 2020 ávinna sér sömu réttindi og þeir sem greiddu inn fyrir 1. janúar 2005, en greiða fyrir það 55% hærra iðgjald.  Hækki réttindastuðullinn í samræmi við hækkun úr 12% í 15,5%, þá yrði stuðullinn hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna 1,73.  Ef aftur á móti stuðullinn frá 2004 upp á 1,65 væri hækkaður sem nemur hækkun iðgjaldsins til 2020, þá endaði hann í 2,56 sem er 47,8% hærri stuðull!  Verði þetta ofan á, þá hefur réttindaávinningur þeirra sem greiða í lífeyrissjóði frá og með 1. janúar 2020 skerst um 32,4% miðað við þá sem greiddur fyrir 1. janúar 2005.  Nú finnst mér líklegt að markmiðið með því að færa iðgjaldið upp í 15,5% sé bara að hækka réttindastuðulinn aftur upp í 1,65 og verði það niðurstaðan, þá nemur skerðingin hvorki meira né minna en 35,6%.

Óhjákvæmileg aðgerð

Ég tek það skýrt fram, að ég er ekki að mæla með því að þetta verði ekki gert.  Langt í frá.  Ég vil gjarnan að þeir sem eru búnir að ljúka sinni starfsævi, hvort heldur vegna aldurs eða örorku geti lifað mannsæmandi lífi.  Raunar finnst mér velferðarkerfið hafa margoft brugðist þessu fólki og verulegt svigrúm er að bæta það sem miður hefur farið.

Ég velti því aftur fyrir mér hvort þetta hafi verið kynnt nægilega vel.  Var yngra fólkið spurt að því hvort það vildi skerða lífeyrisréttindi sín miðað við inngreidd iðgjöld um hátt í 36% til að vega upp mistök þeirra sömu manna og sömdu um þessa breytingu?  Var yngra fólkið spurt að því hvort það vildi fórna rúmlega þriðjungi af sínum lífeyri svo eldri sjóðfélagar þyrftu ekki að taka á skerðingu, þar sem menn misreiknuðu sig?  Ég efast um það. 

Tilfærslan er í öfuga átt við fullyrðingar Arnars, Gylfa og Vilhjálms fjárfestis

Séu þær upplýsingar skoðaðar, sem ég hef hér farið í gegn um, þá skýtur það skökku við, að Arnar Sigurmundsson, Gylfi Arnbjörnsson, Vilhjálmur Bjarnason, fjárfestir, og fleiri hafi haldið því fram, að þátttaka lífeyrissjóðanna í því að leiðrétta forsendubrest verðtryggðra lána feli í sér tilfærslu frá eldri kynslóðunum til þeirra yngri.  Staðreyndin er sú, að yngri kynslóðirnar eru að óska eftir því að dregið verði úr tilfærslunni frá þeim til þeirra eldri.

Miðað við það sem ég hef farið í gegn um að ofan, þá finnst mér nánast hjákátlegt að lífeyrissjóðirnir vilji ekki taka þátt í því að leiðrétta lán heimilanna, eins og óskað hefur verið eftir.  Mér finnst það fáránlegt þegar menn á borð við Gylfa Arnbjörnsson og Arnar Sigurmundsson koma fram og segja það ekki hægt, vegna þess að þá þurfi að skerða greiðsluna til ömmu gömlu, eins og þeim er svo tíðrætt um.  Greiðslur sem ekki er innistæða fyrir og yngra fólkið er að hlaupa undir bagga með að borga. Einnig er fáránlegt að verið sé að tala um eignatilfærslu frá þeim eldri til þeirra yngri, þegar þeir eldri eiga ekki inneign í sjóðunum fyrir því sem greitt er til þeirra.  Svo um tilfærslu sé að ræða, þá þarf sá sem fært er frá að eiga það sem fært er.

Á næstu 9 árum, að þessu meðtöldu, þá munu núverandi greiðendur í lífeyrissjóði öðlast mun minni réttindi fyrir inngreidd iðgjöld en kom í hlut þeirra sem á sama tíma eru að fá greitt úr sjóðunum.  Miðað við iðgjaldgreiðslur ársins 2010 munu þeir sem eru að greiða leggja um 200 ma.kr. í sjóðina án þess að njóta þess.  Já, 200 milljarða króna, hvorki meira né minna.  Bætist sú tala ofan á um 80 ma.kr. sem þannig hafa farið án réttindaávinnings á síðustu 7 árum.  Þetta eru háar upphæðir og í hítina á eftir að bætast á hverju ári meðan núverandi samtryggingakerfi er við líði eða að lífaldur fólks lækki verulega.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef yngir kynslóðin er að greiða gamlar syndir af röngum útreikningum á þá að bæta við auknum álögum á þá yngri með því að lífeyrissjóðirnir taki þátt í skuldaleiðréttingu?

Hvernig væru útreikningarnir fyrir lífeyrissjóðina ef afskriftirnar myndu bætast við?

Hvernig liti það út fyrir einstakling sem greiðir í dag í lífeyrissjóð?

Stefán (IP-tala skráð) 29.1.2012 kl. 14:59

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Einfalt, Stefán, allir taka á sig þá skerðingu sem þarf til að stilla sjóðina rétt, þó þannig að þeir elstu skerðist minnst.  Þetta er eina rétta leiðin í staðinn fyrir að láta launafólk framtíðarinnar greiða endalaust fyrir syndir fortíðarinnar.

Þú gleymir því, að þegar er verið að skerða þann sem greiðir í lífeyrissjóð í dag.  Hann er síðan líklegast að ávinna sér meiri réttindi en rekstur sjóðanna stendur undir.  Grundvallaratriðið er að sjóðirnir séu rétt stilltir, þannig að réttindi séu í samræmi við raunverulegan réttindaávinning, en ekki rangt reiknuð loforð í fortíðinni.  Síðan getum við farið í að skoða hvernig hægt er að leiðrétta fortíðina og hvaða gjaldi það skal greitt.

Marinó G. Njálsson, 29.1.2012 kl. 15:15

3 identicon

Marinó, ég gleymdi engu.

Ég var að spyrja hvort þú hefðir reiknað út hvað það kostar einstaklinga í hærri framlögum og lægri lífeyrisréttindum í framtíðinni ef lífeyrissjóðir myndu taka á sig þessar afskriftir.

Spurning um að þjóðnýta lífeyrissjóðina og láta Tryggingasjóð um að greiða einfaldlega öllum 173.000 á mánuði eins og hann gerir í dag.

Stefán (IP-tala skráð) 29.1.2012 kl. 15:31

4 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Kaldur Marinó, rífur bannhelgina. Má ég bæta því við að iðgjöld munu aldrei standa ein undir eftirlaunum landsmanna og gera ekki í dag, það verður eitthvað annað að koma til. Ég hef leyft mér að nefna auðlindagjald sem ábót á launaskatt.

Það yrði þá þannig að lífeyrissjóðirnir yrðu teknir eignarnámi inn í eftirlaunasjóð Íslands eins og Stefán leggur til hér að ofan með auðlindarentu og launaskatt að tekjulind. Það er ekkert óraunhæft að auðlindarenta geti orðið 100 MA á ári.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 29.1.2012 kl. 15:59

5 identicon

Lífeyriskerfið tapaði 900-1000 milljörðum (sbr. Guðmund Ólafsson hagfr.) vegna rangra áhvarðana fyrir og í hruninu.  Það liggur í hlutarins eðli að þetta eru að mestu fé eldri sjóðfélaga, það er óhjákvæmilegt að skerða lífeyrisréttindi þeirra frá því sem nú er og umfram réttindi yngri félaga.

Tilfærsla réttinda milli kynslóða er ekki eithvað sem greiðendur í sjóðina eiga að taka á sig.

Jónas Jónsson (IP-tala skráð) 29.1.2012 kl. 17:46

6 identicon

Ef við gefum okkur að vinnandi menn á Íslandi, hætti að greiða 12% af launum til lífeyrissjóða (8o milljarða samtals skv. að ofan) en greiði þess í stað 10% af laununum í skatt ætlaðan til lífeyrisgreiðslna, þá væru það um 66 milljarðar. Nú þegar kemur fé frá tryggingastofnun og er væntanlega fjármagnað af skattfé sem er um 50 milljarðar. Þá höfum við samtals 116 milljarða til að greiða þessum 45.000 aðilum sem  þiggja lífeyri http://www.tr.is/tryggingastofnun/frettir/nr/1274

Þetta myndu gera um 200.000 á mánuði til hvers. Ekkert voða stór upphæð, en við erum líka ekkert voða rík þjóð.  Semsagt,lífeyrir greiddur af skattfé (smá skattalækkun  í leiðinni) og svo  afnumin með öllu skylda manna til að greiða í lífeyrissjóði. (Gróft áætlað, allar leiðréttingar eru vel þegnar)

Í staðinn erum við laus við áþján þessa falska sparnaðarkerfis sem lífeyrissjóðirnir eru, gætum lagt af verðtryggingu, fært stökkbreytingu lánanna til baka þannig að þeir sem vilja geta lagt sinn sparnað í húsin sín, aðrir keypt hlutabréf eða lagt sitt fé í lífeyrissjóði,ríkisskuldabréf, eða bara hvað sem mönnum dettur í hug.

Svo yrði bara að biðja Guð um gott veður og ríkisstjórnir sem reka þjóðarbúið verðbólgu og hallalaust í framtíðinni ;-)

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 29.1.2012 kl. 17:58

7 identicon

Segi sem fleiri, takk Marinó fyrir að rjúfa bannhelgina.  Það er margt um þetta mál að segja og einhvern tíma hljóp á mig réttlætisæði og ég leyfði mér í því kasti að segja bara satt og skrifaði þá þetta ljóð:

BLÓÐ-KYN-SLÓÐ
- í ríki jötu sinnar -

Með rana í blóð-tökum
frá mæðrunum, feðrunum
- óverðtryggðu ránunum -
blóð-tökurnar sjálfar
upp á víxla framtíðanna
barnanna – barnanna

... sitja þau nú sælleg
stríðsins öldu börnin
í ríkisins glottandi geiflu
um að öllum þótti þeim
vænt um hana...bólguna
- óverðtryggðu ránanna -

... sitja þau nú sælleg
í rana slóða blóð-takanna:
Ríkis-verð-tryggðu jötunnar
í fjár-sældar bólgu efri áranna
... meðan blóðið rennur
um kyn - frá kyni til kyns.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 29.1.2012 kl. 19:06

8 identicon

Hér þarf heiðarlegt og sanngjarnt uppgjör ... til allrar framtíðar ... allra hér á þessu guðsvolaða landi.  Er það virkilega til of mikils mælst???? 

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 29.1.2012 kl. 19:13

9 identicon

Það verður fróðlegt að sjá hvað stendur í rannsóknarskýrsunni um lífeyrissjóðina (og hvað stendur ekki í henni)

Verður þetta enn einn kattarþvotturin eða segja menn sannleikan, sannleikan sem mörgum kann að svíða?

Jónas Jónsson (IP-tala skráð) 29.1.2012 kl. 19:37

10 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Hvaða grillur ganga menn með þegar þeir segja að auðlindarenta geti staðið undir amk. 100 milljarða greiðslum á ári? Rétta orðið yfir þetta er þjóðnýting, ekki auðlindarenta.

Annars lítur þetta lífeyrissjóðamál þannig út að það fer að verða gáfulegra að kaupa sér tryggingu og leggja restina fyrir á bankareikning, til elli áranna. Ég er alveg sammála þér Marínó að það er komið að ákveðnum skilum í lífeyri og sjúkratryggingu, eins og þú ert að koma inn á beint og óbeint. Við höfum jafnframt ekki lengur efni á að stinga hausnum í sandinn og þurfum að koma þessari verðtryggingu burt eða að öðrum kosti setja hana á tekjuhlið launþegans einnig.

Sindri Karl Sigurðsson, 30.1.2012 kl. 00:40

11 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sindri: næst þegar banki hrynur á Íslandi er ekki víst að innstæðurnar verði að fullu tryggðar, hvað þá á ábyrgð ríkisins.

Guðmundur Ásgeirsson, 30.1.2012 kl. 06:55

12 identicon

... smá leiðrétting ...

" Rök þeirra eru í grófum dráttum að leiðrétting lána upp á 200-250 ma.kr. sé stærsta eignatilfærsla í sögu lýðveldisins, að lífeyrissjóðirnir hafi orðið fyrir svo miklum skaða að bæta yrði þeim sem núna eru að taka lífeyri tjón þeirra, ef frekar yrði bætt á tjónið og síðan hjá Vilhjálmi í Silfrinu, að menn hafi gengið út frá því að kaup lífeyrissjóðanna á bréfum Íbúðalánasjóðs (og forvera hans) væri áhættulaus fjárfesting".

... Pétur Blöndal tryggingastærðfræðingur og alþingismaður reiknaði út... að verðbólgan hefði fært verðmæti að andvirði 150 nýrra skuttogara frá sparifjáreigendum til lántakaenda á árunum 1970 - 1980 ...

... Skuttogari í dag er um 3 ma... samtals 450 ma eignatilfærsla með hjálp óverðtryggðar verðbólgu ...

... til að bregðast við því... var verðtrygging sett á ...


... annars gott framtak hjá þér Marinó að reyna að útskýra lífeyrissjóðakerfið fyrir leikmönnum ...

Jóhann Gunnarsson (IP-tala skráð) 30.1.2012 kl. 07:01

13 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Nei og innistæðan á ekki að vera á ábyrgð ríkisins. Það á ekki að færa vitleysuna á milli vasa og hvað þá á milli vasa kynslóða.

Sindri Karl Sigurðsson, 30.1.2012 kl. 08:19

14 Smámynd: Sandy

Ég verð nú að segja að sá maður sem ég þekki ,og er að byrja að taka lífeyri í dag fær ekki nema tæpar þrjátíu þúsund á mán, og hefur þó greitt í sinn lífeyrissjóð frá upphafi lífeyrissjóða. Þetta er þó staðreynd. Ég hef að vísu ekki reiknað út hversu mikið á mán hann hefði fengið ef hann hefði haft verðtryggða bók allan þennan tíma og iðgjöldin verið lögð inn á hana, kæmi mér ekki á óvart þó það hefði verið töluvert hærri upphæð.

Sandy, 30.1.2012 kl. 10:48

15 identicon

Menn eiga að geta valið, annað hvort greiða þeir í lífeyrissjóð eða lokaða bók í Seðlabanka Íslands með föstum verðtryggðum vöxtum!

Karl J. (IP-tala skráð) 30.1.2012 kl. 12:35

16 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ástæðan fyrir því að sá sem er að taka út núna er ekki að fá eins mikið og viðkomandi bjóst við er oftast óraunhæfar væntingar, önnur ástæða er skerðingar sem sjóðirnir hafa framkvæmt.  Ef aftur á móti ekki hefði verið farin sú leið, sem ég lýsi í færslunni, þá hefði skerðingin orðið mun meiri og þrjátíu þúsund kallinn kannski bara orðið tuttugu þúsund, án þess að ég hafi reiknað það út.

Marinó G. Njálsson, 30.1.2012 kl. 13:27

17 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mér barst athugasemd í tölvupósti frá Ragnari Þór Ingólfssyni og vil ég bæta henni við hér:

Las yfir greinina þína sem tekur á flestu því sem ég hef bent á varðandi réttindaávinnsluna.  Hef einnig bent á eftirfarandi í greinum mínum sem mætti bæta við ef menn vilja ganga lengra.

1.  Réttindatöflunni (lífeyrissjóður verslunarmanna) var breytt þann 1. Janúar 2011 þannig að meðaltal jafnrar réttindaávinnslu var lækkað úr 1.341 kr miðað við 10.000 framlag í 1.293.  Sjá, Viðauka samþykkt. http://www.live.is/media/utgefid-efni/vidauki2011.pdf

Ég gagrnýndi þetta harðlega á sínum tíma enda fór þetta algjörlega undir radar og staðfesti endanlega fyrir mér að þeir yngri ættu að borga brúsann. Fékk dræm viðbrögð.

2.  Áhættan er öll á þeim sem yngri eru.

a)  Langvarandi tryggingafræðileg neikvæð staða sjóðanna veldur því að hluti iðgjalda þeirra sem greiða í kerfið eru notuð til að greiða út lífeyri þeirra sem taka út. Sem aftur skekkir stöðuna enn meira.
Með lagasetningunni des.  2008 um breytingar á skyldutryggingum lífeyrisréttinda voru tryggingafræðileg vikmörk aukin til  muna eða í 15% (tímabundið) sem var ekkert annað en gróf tilfærsla á milli kynslóða. Þrátt fyrir skerðingar eftir hrun standa flestir sjóðir með neikvæðum hætti sem er einnig hægt að flokka sem tilfærslu þegar sjóðirnir færa þá ekki niður í 0% vikmörk eða neðar þegar réttindi eru skert á annað borð.

b) Mikil söfnun á sér stað innan kerfisisns og sú gríðarlega áhætta á eignabólum sem myndast við það eitt að iðgjöld standi undir útgreiðslum áratugum saman. Framtíðar lífeyrisþegar muna því taka á sig mest alla markaðsáhættuna þegar sjóðirnir þurfa að losa eignir til að standa við skuldbindingar sínar og er miklar líkur á töluverðum eignabruna vegna þessa sérstaklega ef tekið er tillit til stærðar lífeyriskerfisins og smægðar markaðarins sem þeir eru lögbundnir til að binda eignir sínar í.

c)  Vandamálið framtíðarinnar verða enn stærri þegar eignasamsetning sjóðanna er skoðuð með hliðsjón af ávöxtunarkröfu þeirra. Í árslok 2010 voru eignir lífeyrissjóðanna í fasteignalánum almennings og skuldabréfum útgefnum af ríki og sveitarfélögum 1.155 millarðar af meintum 1.900 milljarða eignum kerfisins.
Kerfið byggir þar af leiðandi eignir sínar og háa ávöxtunarkröfu að stærstum hluta á skuldum og skuldbindingum almennings þ.e. yngri, enn yngri og ófæddum sjóðfélögum.

Það má því ætla að ávöxtunarkrafa kerfisins sem er, 3,5% raunávöxtun, á hendur almenningi í landinu séu rúmir 40 milljarðar á ári plús verðbætur.  Stendur almenningur undir þessari vaxtabyrgði??? Þetta er fyrir utan fjárfestingaþörf sjóðanna vegna mismunar á inn- og útstreymi.

d) Það má ætla að stærð sjóðanna muni að lágmarki hafa tvöfaldast þegar kemur að því að útgreiðslur verða hærri en iðgjöld. Hverjir geta losað kerfið við allar þessar eignir á því verði sem þeir þurfa að losa þær á?

Marinó G. Njálsson, 30.1.2012 kl. 13:41

18 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Miðað við upplýsingarnar frá Ragnari, þá vanmat ég frekar tilfærsluna en að ofmeta hana.

Marinó G. Njálsson, 30.1.2012 kl. 13:42

19 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Þessi lýsing hjá Ragnari er sú sem ég hef óttast um nokkurn tíma. Það er varhugavert að setja þetta stórt hlutfall tekna í hendur niðurnjörvaðra sjóða eins og lífeyrissjóðirnir eru. Bara það að lögbundin 3,5% ávöxtunarkrafa + verðbætur er nóg til að sjá að stefnt er í feigðarför. Hvar er fjárfesting þessara sjóða í framtíðartekjum okkar sem byggja þessa sjóði? Jú í okkar eigin sköttum, það er það eina sem hægt er að handstilla til að fá út rétta útkomu.

Nær væri að nýta fjármuni sem bundnir eru í kerfinu í að byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf, þó að það kosti. Það þarf að eyða peningum til að afla þeirra.

Sindri Karl Sigurðsson, 30.1.2012 kl. 15:04

20 identicon

Sæll,

Mig langar til að spyrja þig ,hvort þú getir fundið greinar eftir Stefán Ólafsson prófessor ég finn þær ekki,það er eins og þær séu horfnar af netinu...ég reyndar klaufsk að leita a google. Á meðan hann var i stjórnarandstöðu skrifaði hann margar greinar um þjófnað aldarinnar þ..e að við sem borguðum i lífeyrissjóð á árunum 7o til 2ooo,eða kannaki var það til 98...þá borguðum við skatt af lífeyrissjóðsgreiðslum okkar og svo er tekið aftur eftir breytingu kringum aldamótin...þetta kallaði hann tvísköttun og mér reiknaðist til að ég borgi nú tæplega 8o% skatt....ég er hreyfihömluð eftir bílslys..ég vil fá þennan pening sem hreint og beint er stolið af mér..viltu segja mér hvar ég finn þessar greinar og er þetta ekki hárrétt hjá mér? Eg er ein af þeim sem lenti i tvísköttun sem er þjófnaður...rétt? kv.Sigríður Ragnheiður. hvað get ég gert,? til að fá þetta leiðrétt? 

Sigríður Ragnheiður Jónsdóttir (IP-tala skráð) 7.2.2012 kl. 11:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 1679976

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband