12.11.2011 | 00:02
Fortíðin sýnir að eitthvað hefur áunnist, en flest er óbreytt - Hugleiðing um lög nr. 107/2009
Ég var að fletta í gegn um tveggja ára gamlar færslu hér á síðunni minni og verð að viðurkenna að ansi margt hefur áunnist, þrátt fyrir allt. Fyrir tveimur árum héldu stjórnarþingmenn og ráðherrar því statt og stöðugt fram að allar lækkanir sem bankarnir veittu væru til að sýna gjafmildi þeirra, þar sem lántakar yrðu að standa í skilum. Í dag dettur engum stjórnmálamanni að segja þetta, ekki einu sinni æðsta varðmanni "erlendra kröfuhafa", Árna Páli Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra. En fyrir tveimur árum sigaði hann "ráðgjöfum" sínum (sem ráðnir voru án auglýsinga) á okkur almúgann og þeirra skilaboð voru skýri:
Þið skuldarar stofnuðuð til þessara skulda og þið verðið að standa í skilum hvað sem það kostar.
Nú er annar þessara "ráðgjafa" orðinn starfsmaður Samtaka fjármálafyrirtækja og get ég ekki séð að hann hafi skipt um lið, bera vinnustað.
Kristrún Heimisdóttir sagði í byrjun nóvember 2009 að 600 milljarðar kr. sem fram kom í skýrslu AGS að væri afskriftarþörf fjármálafyrirtækjanna, ætti bara að fara til þeirra sem bönkunum tækist að draga í gegn um sértæka skuldaaðlögun. Reyndin er að bankarnir vilja ekki að fólk fari í gegn um sértæka skuldaaðlögun. Þeir vilja ýta þeim í gegn um 110% leiðina.
Það sem hefur ekki breyst, er að bankarnir sem lögðu þjóðfélagið á hliðina eru dómarar í eigin sök. Þeir eru líka túlkendur laga og neita að taka tillit til athugasemda viðskiptavina sinna um að þeir fari með rangt mál.
Lög nr. 107/2009
Annað sem ekki hefur breyst eru lögbrotin sem felast í úrræðum bankanna. 23. október 2009 samþykkti Alþingi í miklum asa lög nr. 107/2009. Um frumvarpið sagði ég í færslu Málið er ekki tilbúið - Óvirðing við lántakendur og meinti það. 32 þingmenn samþykktu lögin, einn þingmaður (Þór Saari) sagði nei, tveir voru með leyfi og 28 voru fjarverandi. Meðal þeirra sem samþykktu lögin eru ýmsir sem ekki eru stoltir af því atkvæði sínu í dag. Þór sagði við mig, að hann hefði greitt atkvæði gegn því af því að Hagsmunasamtök heimilanna hefðu mótmælt því. Aðrir þingmenn Hreyfingarinnar voru fjarverandi, en einnig formaður félags- og tryggingamálanefndar, Guðríður Lilja Grétarsdóttir, sem bendir til þess að hún hafi ekki geta stutt þennan óskapnað.
En þar með var ekki málinu lokið. Niðurstaðan hefði getað orðið ásættanleg, ef reglurnar sem fjármálafyrirtækin máttu sammælast um hefðu verið góðar. Öðru var nær. Reyndar vill svo til að reglurnar voru að mestu tilbúnar löngu áður en frumvarpið varð að lögum, eins og lesa má í færslunni Verklagsreglur fjármálafyrirtækja um sértæka skuldaaðlögun, en þar er einmitt tengill yfir á drög að verklagsreglunum. Þar vekur athygli að drögin eru með dagsetningunni 12. október 2009, en það er fjórum dögum áður en félags- og tryggingamálaráðherra, Árni Páll Árnason, lagði frumvarpið á þingskjali 69 fyrir Alþingi og 11 dögum áður en frumvarpið varð að lögum. Hver ætli hafi ráðið innihaldi laganna, fjármálafyrirtækin eða Alþingi? Er ég hræddur um að Alþingi hafi í þessu máli, eins og allt of mörgum öðrum, virkað eins og framlenging á stjórn Samtaka fjármálafyrirtækja.
Í bráðabirgðaákvæði laganna er ákvæði um skipan starfshóps til að meta árangurinn af framkvæmd laganna. Hann áttu að skipa fulltrúar allra þingflokka, sérfræðingar og fulltrúar hagsmunaaðila. Frómt er frá því að segja, að félags- og tryggingamálaráðherra beið í fyrsta lagi í marga mánuði að skipa hópinn og í honum sátu eingöngu fulltrúar þingflokka. Klassísk aðferð vanhæfra stjórnvalda til að koma í veg fyrir óþægilegar spurningar. Hreyfingin sneri á Árna Pál og bað mig um að vera fulltrúa sinn í hópnum og þáði ég það. Þó ég segi sjálfur frá, þá held ég að með því hafi Árna Páli verið reddað, þar sem á einu bretti fékkst inn í hópinn fulltrúi Hreyfingarinnar, sérfræðingur og fulltrúi hagsmunaaðila. Ég held að lögin hafi ekki verið hugsuð þannig.
Starfshópurinn hélt marga fundi og kom með fullt af ábendingum. Allt of fáar þeirra rötuðu inn í skýrslu hópsins og svo var hann bara lagður niður. Líklegast voru spurningar okkar orðnar of erfiðar fyrir ráðuneytið.
Verklagsreglurnar og lögin
Lögin voru á margan hátt ótrúlega vitlaus og skil ég ekki enn hvers vegna þeim hefur ekki verið breytt af fenginni reynslu. Margt í þeim var ekki svo vitlaust, t.d. hafa þau ákaflega göfugt hlutverk og markmið eða eins og segir í 1.gr.:
Markmið laga þessara er að hraða endurreisn íslensks efnahagslífs í kjölfar banka- og gjaldeyrishrunsins haustið 2008 og að jafnvægi komist á virði eigna og greiðslugetu annars vegar og fjárskuldbindinga einstaklinga, fyrirtækja og heimila hins vegar. Lögin kveða á um leiðir og viðmið til að ná því markmiði.
Ekki er ég sammála því að lögin kveði á um leiðir og viðmið til að "jafnvægi komist á virði eigna og greiðslugetu annars vegar og fjárskuldbindinga einstaklinga, fyrirtækja og heimila hins vegar". Þau fyrst og fremst kveða á um leiðir til að staðfesta að fjármálafyrirtæki eru ekki ábyrg gerða sinna, heldur eiga viðskiptavinirnir að bera allan skaðann þegar fjármálafyrirtæki drulla upp á bak.
Verklagsreglurnar hunsa þetta atriði um að "jafnvægi [eigi að] kom[a]st á virði eigna og greiðslugetu annars vegar og fjárskuldbindinga einstaklinga, fyrirtækja og heimila hins vegar" og fylgja í staðinn hinni leiðinni að allt sem lántakinn á skal hann greiða bankanum og svo skulda allt hitt sem hann getur ekki borgað nema að hann sé svo skuldugur að bankinn geti bara ekki rukkað hann um meira.
Verklagsreglurnar gera meira en að kreista út úr lántökum allt sem hægt er að kreista. Þær brjóta freklega gegn ákvæði 2. gr. laganna, þar sem segir:
Í samningi milli kröfuhafa og skuldara um eftirgjöf skulda eða breytingu á skilmálum skuldabréfa og lánssamninga skal fyrst og fremst horft til þess að laga skuldir að greiðslugetu og eignastöðu viðkomandi einstaklings eða heimilis. Skal miðað að því að hámarka gagnkvæman ávinning samningsaðila af því að gefa eftir tapaðar kröfur og komast hjá óþarfa kostnaði og óhagræði.
Takið sérstaklega eftir orðunum:
Skal miðað að því að hámarka gagnkvæman ávinning samningsaðila af því að gefa eftir tapaðar kröfur og komast hjá óþarfa kostnaði og óhagræði.
Ég hef ekki ennþá orðið var við það fjármálafyrirtæki sem reynir að "hámarka gagnkvæman ávinning samningsaðila af því að gefa eftir tapaðar kröfur". 110% leiðin er t.d. hreint og beint brot á þessum lögum. Landsbankinn er eini bankinn með tilboði sínu frá því í vor (18 mánðum eftir að lögin voru sett) hefur haft í heiðri:
Í samningi milli kröfuhafa og skuldara um eftirgjöf skulda eða breytingu á skilmálum skuldabréfa og lánssamninga skal fyrst og fremst horft til þess að laga skuldir að greiðslugetu og eignastöðu viðkomandi einstaklings eða heimilis.
Sértæk skuldaaðlögun og 110% leiðin eru báðar skýrt brot á þessu ákvæði. Sú fyrri fellir ekkert niður, heldur frestar bara hlutum og hin síðari tekur ekkert tillit til greiðslugetu. Enn frekar, þá hunsa fjármálafyrirtækin almennt þetta með greiðslugetuna (nema Landsbankinn í úrræðum sínum fyrir aðrar skuldir).
Hvenær ætla nýju bankarnir að skilja að þeir eru reistir upp af rústu fyrirtækja sem gengu í skrokk á samfélaginu? Hvenær ætla þeir að skilja, að þó telji sig eiga fulla greiðslu inni hjá lántökum, þá eru lántakar ekki sammála því? Og það sem meira er: Hæstiréttur Íslands tók undir með lántökum í máli nr. 340/2011, þ.e. Icesavedómnum. Nánar um það í næstu færslu.Flokkur: Skuldamál heimilanna | Breytt 6.12.2013 kl. 01:05 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 43
- Frá upphafi: 1680025
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 39
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.