Leita í fréttum mbl.is

Guðmundi Gunnarssyni svarað

Guðmundur Gunnarsson, stjórnarmaður í lífeyrissjóðnum Stafir, birtir eftirfarandi ummæli á bloggsíðu sinni á Eyjunni:

Þú ættir að lesa pistilinn aftur Marínó og þú ættir að kynna þér betur afstöðu verkalýðshreyfingarinna til hárra vaxta.

Þú ert búinn að bera ómerkilegar sakir á saklaust fólk, verið með innistæulaust persónuníð um starfsfólk stéttarfélaganna.

Öll stéttarfélögin hafa árum saman barist við það að tekið væri á efnahagsástandinu ogþannig að það væri hægt að ná niður vöxtum og skapa stöðugleika.

Þú ættir að kynna þér hvað verðtrygging er í raun og veru, en það er ljóst af skrifum þínum að þú hefur ákaflega takmarkaða þekkingu á því sem þú skrifar um þau mál.

Þetta var svar við athugasemd minni við pistli Guðmundar. Nú mætti halda að ég hafi verið að fjalla um háa vexti eða minnst á neikvæðan hátt á starfsfólk verkalýðsfélaganna eða verið að fjalla um verðtrygginguna.  Nei, ég var að fjalla um hvað hafði komið fram á ráðstefnunni í Hörpu sl. fimmtudag og benda honum á að hann hafi farið með rangt mál, þar sem hann segir í færslu sinni:

Ég var ákaflega undrandi á fréttamati RÚV í gærkvöldi þar sem fram kom að helsta atriði ráðstefnunnar í gær um stöðu efnahagsmála hefðu verið að krónan væri bjarghringur Íslands, auk þess að fyrirlesarar væru furðu lostnir yfir því að íslendingar vildu skipta henni út fyrir Evru.

..Ég veit það núna að svo var og það voru Mr. Wolf og Krugman sem dásömuðu krónuna ekki aðrir.

Hvernig hann fær út allt sem hann segir, m.a. um persónuníð, út frá athugasemd minni skil ég ekki, en hún hljóðar svona:

Hvernig getur þú, Guðmundur, sem ekki sast ráðstefnuna lagt [mat] á fréttamat þeirra sem sátu ráðstefnuna? Ég sat ráðstefnuna og glósaði nokkuð vel hvað menn sögðu. Þú nefnilega snýrð þessu á hvolf. Það voru tveir sem sögðu að við hefðum verið betur sett án krónunnar, en allir aðrir, já, allir aðrir sögðu að það að vera með krónuna hafi komið okkur til góða.

Rauði þráðurinn á ráðstefnunni var: afnema verðtrygginguna (meira að segja Gylfi A sagðist ekki vera sérstakur varðhundur hennar), við erum betur sett með krónuna en evru, ganga þarf hraðar og lengra fram í afskriftum og koma þarf fjárfestingum á fullt.

Margir, bæði innlendir og erlendir ræðumenn, lokuðu augunum fyrir því að endurreisnin hefur kost almenning fót og arm í lækkuðum kaupmætti, atvinnuleysi, stökkbreytingu lána, o.s.frv. Mér tókst að fá Julie Kozack til að hálf biðjast afsökunar á því að hafa skautað yfir það.

Hrunið orsakaðist ekki af því að við höfðum krónuna. Hrunið varð vegna þess að fjármálakerfið var fullt af fólki (bæði hér á landi og erlendis) sem hélt að það væri svo snjallt að það þyrfti ekki að sýna varúð og sýndi því af sér afglapahátt.

Hvergi er í þessum texta hnjóðsorð um starfsmenn stéttarfélaganna, persónuníð, "ómerkilegar sakir á saklaust fólk" eða fjallað um verðtrygginguna sjálfa.  Ég fjalla um skoðanir sem komu fram hjá frummælendum á ráðstefnunni í Hörpu og bæta síðan við ábendingu um að orsakir hrunsins eru mannanna verk.

Nú ef Guðmundur skyldi vera að vísa til eldri ummæla minna og noti tækifærið til að hnýta í þau, þá hef ég ALDREI verið með persónuníð um starfsmenn stéttarfélaganna.  Ég kannast raunar ekki við að hafa nokkru sinni minnst á nafngreinda starfsmenn stéttarfélaga.  Skora ég á Guðmund að benda á þessi ummæli mín.

Kannski er Guðmundur að vísa til ummæla minna um að áður en verðtryggingin kom inn, þá hafi "karlar af kajanum" haft umsjón með ávöxtun lífeyrissjóðanna.  Þetta er ekki gagnrýni á þá sem stóðu í þessu, heldur ábending um að "karlar af kajanum" eru ekki best til þess fallnir að sinna slíku starfi.  Ég er að benda á þá brotalöm sem var í starfsemi lífeyrissjóðanna, ekki stéttarfélaganna, á þessum árum.  Kannski er Guðmundur líka að benda á gagnrýni sem ég hef beint að Gylfa Arnbjörnssyni, en hann fer ekki fyrir neinu stéttarfélagi svo ég viti til og hann er ekki starfsmaður stéttarfélags.  Hann er örugglega aðili að stéttarfélagi, en mér vitanlega er ekki í stjórn neins.  Hann er forseti ASÍ, en ASÍ er ekki stéttarfélag.  ASÍ er samtök stéttarfélaga og raunar eru félögin ekki beinir aðilar ASÍ heldur eru þau aðilar að landssamtökum sínum og síðan eru landssamtökin aðilar að ASÍ.  Á þessu eru sjö undantekningar og um þau félög hef ég aldrei fjallað í pistlum mínum.  Sýndu mér nú, Guðmundur, hvar ég hef farið með persónuníð um starfsmenn stéttarfélaga.  Ég bíð spenntur.

Hvað er verðtrygging?

Varðandi ábendingu Guðmundar um að ég eigi að kynna mér verðtrygginguna og um hvað hún er í raun og veru, þá vill svo til að ég veit ýmislegt um verðtrygginguna.  Gott væri að Guðmundur skýrði út um hvað hún er í raun og veru að hans mati. 

Svo ég rifji upp, þá var verðtryggingunni ætlað á sínum tíma að verja sparnað, lán og laun fyrir því að brenna upp á báli verðbólgunnar.  Nákvæmlega það er verðtrygging.  Verðtryggingu var ætlað að viðhalda verðmæti sparnaðar, lána eða launa í samræmi við breytingar á verðlagi samkvæmt samræmdri vísitölu.  Verðtrygging er líka sjálfvirk aðferð fyrir fjárfesta að viðhalda verðmæti eignasafna sinna.  Hún er sjálfvirk aðferð til að skapa misvægi milli tekna fólks og útgjalda.  Hún er sjálfvirk leið til að færa eignir fólks frá því til kröfuhafa.  Hún er loks sjálfvirk leið til að leggja allan kostnað af verðsveiflum á lántakann, en gera lánveitandann alveg stikkfrí gagnvart því að viðhalda efnahagslegum stöðugleika. En þetta er líklegast ekki skilningurinn sem "varðhundar verðtryggingarinnar" vilja að haldið sé á lofti.

Verðtryggingu var ætlað stórt hlutverk.  En henni var ekki ætlað að stuðla að endalausri eignatilfærslu frá almenningi til fjármagnseigenda.  Minnst þrisvar hafa orðið slíkar kollsteypur í íslensku efnahagslífi, síðan verðtryggingin var tekin upp, að nánast öll eignamyndun fólks í húsnæði þess hefur horfði.  (Ég geri grín af því að í hvert sinn sem mín hógværu námslán (ég fékk um 1.400.000 kr. í námslán árin 1985 til 1988) komast niður í 1.700.000 kr., þá kemur verðbólguskot sem skýtur þeim upp í 2.200.000 kr.  Eftir að hafa greitt af lánunum í 20 ár, þá skulda ég ennþá álíka tölu og þegar ég byrjaði að greiða af þeim.)  Já, ég veit alveg út á hvað verðtrygging gengur.

Nú segir vafalaust einhver að verðtrygging sé mikilvæg fyrir lífeyrissjóðina.  Það er kjaftæði.  Ekkert samhengi er milli þess að vera með markmið um 3,5% raunávöxtun og að þjóðfélagið þurfi að vera verðtryggt.  Slíkt er bara þægileg útskýring þeirra sem vilja halda í verðtrygginguna.  Fyrir utan að 3,5% raunávöxtunin er bara viðmiðunartala, eins og sést á því að fjölmargir lífeyrissjóðir hafa skert réttindaávinning sjóðfélaga á undanförnum árum, m.a. á árunum fyrir hrun, þegar uppsveiflan var á fullu.

Mig langar að benda á staðreynd sem þeir sem mæra verðtrygginguna í balk og fyrir viðrast ekki átta sig á: 

3,5% raunávöxtun er hægt að ná án verðtryggingar og verðtrygging tryggir ekki 3,5% raunávöxtun. 

Greinilegt er að Guðmundur er að gagnrýna hugmyndir mínar, Hagsmunasamtaka heimilanna og fleiri um afnám verðtryggingar.  Hann bara gerir eins og margir aðrir og sleppir seinni hluta setningarinnar.  Við viljum nefnilega afnema verðtryggingu af lánum til heimilanna.  Aldrei hefur verið amast við því að aðrir geti verið með verðtryggðar fjárskuldbindingar.  Við segjum að þeir einir eigi að vera með verðtryggðar skuldbindingar sem eru með verðtryggðar tekjur.  Sömu reglur eiga að gilda um þá, sem taka verðtryggð lán, og fjármálastofnanir.  Viðkomandi þarf að geta náð verðtryggingarjöfnuði innan eðlilegra vikmarka, þ.e. munurinn á verðtryggðum skuldbindingum og tekjum má aðeins vera innan þessara vikmarka.  Þannig var þetta þegar verðtryggingu var komið á með Ólafslögum.  Bæði tekjur og lán voru verðtryggð.  Síðan var annarri hlið jöfnuðarins kippt í burtu, eftir það báru lántakar kostnaðinn af hagsveiflum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til að lífvænlegt verði á Íslandi verður. ég endurtek verður, að afnema verðtrygginguna.

Verðtryggð lán en óverðtryggð laun eru glæpur gegn þjóðinni, óréttlæti sem verður að linna, ef ekki með góðu þá með illu.

Ein hugmynd um hvernig hægt væri að hætta með verðtrygginguna er að miða við áramótin 2007/8 og endurreikna verðbætur þannig að þær hætti alveg á 5 árum (vægi þeirra minki um 20% á ári) reiknaðar fullar verðbætur en þær skertar um 20% á ári (20%, 40%, 60% unns þær falla alveg niður að 5 árum liðnum)

Jónas Jónsson (IP-tala skráð) 31.10.2011 kl. 15:28

2 identicon

Það þarf ábyggilega ekkert mikið til að framkalla smá panik hjá Guðmundi svo hann hrökkvi í nauðvörn af ótta við að einhver sé að fara að fletta ofan af drullunni í stöfum lífeyrissjóði.

Þeir voru öðrum duglegri við að moka sparifé launamanna inn í N1 ruglið, og helst án nokkurra nothgæfra veða eða í samræmi við starfsreglur sjóðsins.

http://ragnar73.blog.is/blog/ragnar73/entry/1184335/

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 31.10.2011 kl. 18:28

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Er þetta Guðmundur Gunnarsson, form. Rafiðnaðarsambandsins?

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.10.2011 kl. 20:54

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gunnar, hann er fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambandsins.

Marinó G. Njálsson, 31.10.2011 kl. 20:59

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þessi viðbrögð eru þá "eðlileg", komandi frá honum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.10.2011 kl. 21:48

6 identicon

Ég hélt alltaf hérna áður fyrr að Guðmundur væri nokkuð heill en bloggið hans hefur afhjúpað hann, það er mín skoðun.

Skrif hans einkennast af því að hann hefur ALLTAF rétt fyrir sér og þeir sem eru ósammála honum eru gasprandi bjánar. Kannski er bara stuttur í honum þráðurinn.

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 31.10.2011 kl. 21:58

7 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Guðmundur Gunnarsson er ekki talsmaður launþega, hann VAR formaður Rafiðnaðarsambandsins, en hefur látið af því embætti, sem betur fer fyrir rafvirkja landsins.

Guðmundur stóð sig ágætlega sem formaður Rafiðnaðarsambandsins allt til vors 2007, þegar Samfylkingin komst í ríkisstjórn. Þá þurfti hann að velja hvoru megin hann stæði og hann valdi flokkinn. Því miður hafði hann ekki kjark til að stíga til hliðar í Rafiðnaðarsambandinu fyrr en nú í sumar, þegar ljóst var að honum yrði að öðrum kosti gert að fara þaðan.

Því hefur Guðmundur ekkert leifi til að tala sem talsmaður launafólks og hefur í raun ekki haft það síðan vorið 2007.

Því miður hefur Gylfi Arnbjörnsson ekki farið sömu leið og Guðmundur, þó hann sé í sömu sporum. Hann þráast enn við sem forseti ASÍ. Gylfi glataði sínu trausti vorið 2007, eins og Guðmundur og af sömu ástæðu.

Báðir þessir menn nýttu sér verkalýðshreifinguna sér til framdráttar í pólitík. Gylfi er enn að.

Flokkapólitík á ekkert erindi inn í verkalýðshreyfinguna, en tengsl krata þar inn eru þó ótrúlega mikil.

Það er annars undarlegt að báðir þessir menn eru eldheitir ESB sinnar. Evrópsk verkalýðsfélög telja þó að þeirra versta ógæfa sé einmitt ESB og regluverk þess!

Það er undarlegt að báðir þessir menn eru eldheitir ESB sinnar, en samt verja þeir báðir verðtrygginguna út í eitt!

Hvernig er hægt að taka mark á mönnum sem segja að svart sé hvítt!!

Gunnar Heiðarsson, 31.10.2011 kl. 22:52

8 Smámynd: Jón Svan Sigurðsson

Þessi ummæli hans Guðmundar dæma sig sjálf. Þa vita það allir sem vilja vita það að þessi ummæli um Marinó eru fáranleg.

Jón Svan Sigurðsson, 1.11.2011 kl. 08:41

9 identicon

Alltaf kann ég jafnvel við það hvað þú ert málefnalegur og rökfastur í málflutningi þínum, athugasemd Guðmundar var uppfull af órökstuddum fullyrðingum og skætingi, þú fellur ekki í sömu gryfju heldur svarar honum á málefnalegan hátt og rökstyður mál þitt vel.

Sigurbergur (IP-tala skráð) 1.11.2011 kl. 09:52

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

GG: Þú ættir að kynna þér hvað verðtrygging er í raun og veru, en það er ljóst af skrifum þínum að þú hefur ákaflega takmarkaða þekkingu á því sem þú skrifar um þau mál.

Marinó við ættum kannski að skora á hann nafna minn að útskýra almennilega fyrir okkur verðtrygginguna, fyrst hann telur sig skilja hana svona miklu betur en aðrir. Ekki veitti okkur af eða hvað?

Guðmundur Ásgeirsson, 1.11.2011 kl. 12:23

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég sá í þættinum "Bubbi og Lobbi" á ÍNN að Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur, færði fyrir því ágæt rök að verðtryggingin væri hvorki alslæm né algóð.

Meira að segja er hún bara ágæt í sumum tilfellum. Þetta sýndi hann t.a.m. með línuriti yfir tiltekin lán og bar þessa tvo kosti saman.

Það er alls ekki sjálfgefið að óverðtryggð lán séu hagstæðari.

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.11.2011 kl. 13:29

12 identicon

Hugmyndin um verðtryggingu er verjanleg í sjálfu sér ef lán og laun eru hvorutveggja verðtryggð.

Það að hafa eingöngu lán verðtryggð en ekki laun, hefur verið notað nú eftir hrun til að "ræna" óhemju miklum fjármunum frá almenningi og færa í hendur fjármagnseigenda.

Þetta er gert með fullri vitund og vilja stjórnvalda og gerir notkun verðtryggingar ónothæfa.

Hún er tæki til eignaupptöku íbúða landsmanna.

Jónas Jónsson (IP-tala skráð) 1.11.2011 kl. 13:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband