5.10.2011 | 01:23
Svör um verðtryggingu
Rakel Sigurgeirsdóttir ritaði færsluna Stefnumót við stjórnvöld á bloggið sitt. Bloggari að nafni Jón Bragi Sigurðsson setur þar fram nokkrar spurningar og leitaði Rakel til mín og nokkurra annarra að svar þeim. Brást ég glaður við þeirri beiðni og setti inn svar sem birtist hér fyrir neðan. Fyrst vil ég þó birta spurningar Jóns Braga:
1. Ég hef beint þeirri spurningu til Hagsmunasamtaka Heimilanna hvað þau vilja að komi í stað verðtryggingar en ekki fengið nein svör. Viljið þið sem krefjist afnáms verðtryggingar hærri vexti í staðinn, neikvæða vexti eða...?
2. Og Rakel, verðtrygging er engin trúarbrögð fyrir mig frekar en fyrir þig eða HH. Hins vegar er ég það gamall að ég man eftir því hvernig hlutirnir voru áður en verðtryggingin var tekin upp. Þá var stolið af mér sparimerkjum og öðrum sparnaði og gefið þeim sem skulduðu. Viljum við það ástand aftur?
3. P.s. Hvenær var það sem laun voru verðtryggð?
4. Það er alla vega ágæt byrjun að vita hvers vegna verðtryggingu var komið á í upphafi. ..aðalástæðan var sú að hindra að stolið væri peningum frá þeim sem áttu sparifé og gefið þeim sem skulduðu. Vextir voru neikvæðir þannig að verðbólgan át upp lánin og sparifé.
Hér er svo innleggið mitt:
Jón Bragi, þegar þú áttir sparimerki, þá var nánast ekkert til sem hét hagstjórn á Íslandi. Karlarnir af kajanum sáu um að reka lífeyrissjóðinn sinn og hér var óðaverðbólga í kjölfar áralangrar verðstöðvunar viðreisnarstjórnarinnar. Olíuverð hafi allt í einu rokið upp úr öllu og síldin hafði horfið nokkrum árum fyrr. Landið treysti á fiskveiðar og þegar ekki tókst að selja fiskinn nægilega háu verði, þá var gengið fellt um 5, 10 eða 15% jafnvel nokkrum sinnum á ári. Ert þú að jafna efnahagsástandinu núna við það ástand þegar sparimerkin þín brunnu upp? Fermingapeningarnir mínir (og líklegast Rakelar þar sem við fermdumst sama árið) brunnu líka upp í óðaverðbólgu, en mér dettur ekki í hug að vilja halda í verðtrygginguna vegna þess að þeir hurfu í verðbólgubáli ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar og Ólafs Jóhannessonar.
Verðtryggingu var komið á til að stöðva eignabruna allra. Bæði launafólks og fjármagnseigenda. Síðan var launafólkinu hent út og fjármagnseigendurnir hafðir áfram inni. Frá þeim tíma hefur Ísland haft tvo gjaldmiðla, þ.e. verðtryggða krónu og óverðtryggða krónu. Fjármagnseigendur hafa í ríku mæli átt verðtryggðar krónur, en við hin höfum mátt sætta okkur við óverðtryggðar.
Verðtrygging átti að vera tímabundið fyrirbæri og meðan óðaverðbólgan væri við líði. Verðtrygging átti líka að stuðla að lækkun nafnvaxta lána, en það hefur hún ekki gert ef við lítum á verðbætur sem vexti. Afsökunin er sú að við búum við svo lélega mynt. En verðtryggða krónan er mjög sterk mynt. Hún er ein sterkasta mynt í heimi. Sá sem hefur átt hana frá setningu Ólafslaga hefur náð að breyta 100 kr. árið 1980 (nýjar krónur) í 5.466 kr. í dag. Ég er ekki með gengisþróun nema aftur til maí 1988 og þá hafði 100 kr. frá janúar 1980 hækkað í 1.555 kr. og fyrir það fengust 20 GBP eða 37,4 USD. Fyrir 5.466 kr. fást í dag tæplega 30 GBP eða 46,2 USD, þannig að verðtryggða krónan er 50% öflugri gjaldmiðill en GBP og 23,5% öflugri en USD.
Hvað á að koma í staðinn fyrir verðtryggingu? Í fyrsta lagi hefur enginn talað um að afleggja eigi verðtryggingu. Eingöngu er talað um að afleggja verðtryggingu á lánum heimilanna. Í öðru lagi, þá líður nágrannaþjóðum okkar alveg ágætlega og engri þeirra hefur dottið í hug að íþyngja þegnum sínum með verðtryggðu neytendalánum eða húsnæðislánum. Við förum ekki fram á neitt annað en það sem nágrannar okkar hafa, þ.e. óverðtryggð neytendalán og húsnæðislán með óverðtryggðum föstum, breytilegum eða fljótandi vöxtum, þar sem ávöxtunarkrafa húsnæðislána sé til að byrja með ekki hærri en 6% og fari síðan lækkandi niður í hámark 4%. Þetta er það sem við viljum. Við teljum að þetta muni stuðla að stöðugleika, þar sem fjármálafyrirtæki og fjárfestar verða ekki lengur varðir fyrir tjóni óstöðugleikans, heldur þurfi að takast á við afleiðingar óstöðugleikans alveg eins og við hin. Þá verður best fyrir alla að viðhalda stöðugleika og því munu allir verða þátttakendur í því að viðhalda honum.
Það er ótrúlegur misskilningur að vaxtastig á hverjum tíma eigi að tryggja jákvæða raunvexti. Ef svo væri, þá væru bankarnir ekki að bjóða 0,55% vexti á innstæðureikingum. Nei, fyrir langtímafjárfesti er markmiðið að fá jákvæða raunvexti á líftíma fjárfestingarinnar. Hvergi í heiminum, nema á Íslandi gera fjárfestar kröfu um jákvæða raunvexti sama hvað dynur á án þess að þurfa að hafa fyrir því. Það á ekki að vera auðvelt mál að ná góðri ávöxtun á hverju einasta ári. Menn eiga að þurfa að hafa fyrir því, alveg eins og foreldrar þurfa að hafa fyrir því að búa börnum sínum gott líf. Það er bara hinn ofdekraði íslenski fjárfestir sem heldur því fram að góð raunávöxtun eigi að koma áreynslulaust.
Þú spyrð hvenær laun voru verðtryggð. Þú segist hafa misst sparimerkin þín í óðaverðbólgu og veist ekki hvenær laun voru verðtryggð. Ég veit ekki hvort hægt er að taka þig alvarlega eða hvort minni þitt sé valkvætt. Laun voru verðtryggð frá 1979 fram á vor 1983 er þau voru aftengd verðtryggingu um það leiti sem ársverðbólgan fór yfir 130%. Þá fór í gang gríðarleg eignarupptaka og stór hópur húsnæðiseigenda tapaði öllu. Þáverandi ríkisstjórn bar ekki gæfu til að leysa það mál farsællega, þannig að mjög mörg heimili fóru í gjaldþrot eða það tók þau 10, 15 og jafnvel 20 ár að vinna sig út úr vandanum.
--
Svo mörg voru þau orð. Greinilegt er að mikil misskilningur er í gangi varðandi áhrif af afnámi verðtryggingarinnar. Einnig má sjá að óðaverðbólga sem rann sitt skeið fyrir ríflega 20 árum er föst í hugum þeirra sem eldri eru. Já, sparifé brann upp á áttunda áratugnum og verðbólga hélst há allan þann níunda, en síðan hefur aðeins eitt tímabil keyrt úr hófi hvað verðbólgu varðar, þ.e. frá apríl 2008 til september 2009 en allan þennan tíma var verðbólga yfir 10% á ársgrunni. Merkilegt er samt til þess að vita, að bæði á níunda áratugnum og núna á nýrri öld, þá er stærstur hluti sparifjár landsmanna sem geymt er í bönkum óverðtryggður á smánarvöxtum. Þess fyrir utan er almenningur almennt ekki með sparifé sitt á verðtryggðum reikningum. Stærsti hluti sparnaðar almennings er í fasteignum eða í lífeyrissjóðum. Hvorugt er verðtryggt, þó svo að lífeyrissjóðirnir reyni það. Nú hváir einhver og telur lífeyrisréttindi verðtryggð. Þau eru það ekki. Það er eingöngu ávöxtunarkrafan sem miðar við 3,5% raunávöxtun, en síðan verða sjóðirnir að breyta réttindaávinningi og lífeyrisgreiðslum í samræmi við afkomu án tillits til þess hvert markmiðið er.
Verðtryggingin er að brenna upp sparnað stórs hluta almennings, ekki verja hann. Verðtryggingin er að færa peninga frá almenningi til fjármagnseigenda. Vissulega er hluti þessara fjármagnseigenda félagar í lífeyrissjóðum, en þeir hafa enga tryggingu fyrir því að verðbæturnar sem þeim er gert að greiða skili sér til þeirra.
Eins og ég segi að ofan, þá á eiga fjárfestar ekki að búa við "örugga" fjárfestingu. Þeir eiga að vinna jafn hörðum höndum fyrir ávöxtun sinni og launamaður á kajanum vinnur fyrir sínum launum. Enginn fjárfestir á að vera varinn sjálfkrafa fyrir tjóni sem óstöðugleiki veldur, þar sem þá er honum sama um óstöðugleikann og gæti hreinlega stuðlað að honum. Fjárfestir sem er á tánum fyrir ógnum og tækifærum í umhverfinu er líklegri til að standa sig vel, en sá sem heldur að ávöxtun komi fyrirhafnarlaust. Verðtrygging er áskrift að værukærð fjárfestans fyrir utan að skekkja hina almennu ábyrgðarskiptingu sem alls staðar er milli fjárfestis og lántaka. Báðir hagnast í góðu árferði og báðir taka á sig tjón í slæmu. Viðskipti verða að veita báðum ásættanlega niðurstöðu til lengdar, en ekki tryggja öðrum allt á kostnað hins. Þess vegna er verðtryggingin gjörsamlega klikkað viðskiptamódel.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.11.): 3
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 32
- Frá upphafi: 1679976
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 31
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Ef ég tek eina miljón að láni til fimm ára hef ég borgað af því láni 1.350.000 kr í lok lánstíma m.v. 5% verðbólgu.
Ef ég hins vegar ætla að safna þeirri sömu upphæð á sama tíma, þarf ég að vera búinn að leggja inn 952.000 kr í lok söfnunartímans.
Þannig að ef ég tek lán þá kostar það mig 360.000 kr. en ef ég safna sömu upphæð þá græði ég einungis 48.000 kr.
Hvað verður um mismuninn?
Þessir útreikningar eru fengnir úr reiknivél banka og notast við þau kjör sem hann býður.
Gunnar Heiðarsson, 5.10.2011 kl. 04:21
Efnahagshrunið til þess að allur skaði af verðtryggðum lánum féll á lántakendur. Vandi lánveitenda er hins vegar mikill því stór hluti verðtryggðra lána tapaðist sem hefur haft mikil áhrif á rekstrargrundvöll fjármögnunarfyrirtækja.
Við hrunið var varað við þessari stöðu. Það getur ekki verið efnahagslega skynsamlegt að setja stóran hluta skuldara í vanda. Bent var á að skuldarar þyrftu að fá að njóta afskrifta ríkisins á lánapökkum gömlu bankanna þegar þeir voru færðir í þá nýju. Auðvitað áttu stjórnvöld að sjá til þess að skaðinn af hruninu yrði jafnaður út að stórum hluta á lánveitendur. Þessu hafnaði ríkisstjórnin og tók einarða afstöðu með fjámögnunarfyrirtækjum - sló skjaldborg utan um þau. Þar með brást eitthvað í þjóðfélaginu, kannski það sem kalla má óskrifaðan samfélagssamning almennings og fjármögnunarfyrirtækja ...
Þetta er í raun það sem nú veldur úlfúð og styrjaldarástandi í þjóðfélaginu og því lýkur ekki fyrr en breytingar verða gerðar á stöðu skuldara. Það gerist ekki nema með því að upptaka á eigin fé skuldara í formi verðbóta verði leiðrétt aftur í tímann.
Svo horft sé líka til framtíða þá þarf að afnema þarf verðtryggingu á íbúðarlánum almennt. Hún getur ekki verið þjóðhagslega hagkvæm.
Í lokin verð ég að segja að mér þykir athugasemd Gunnars Heiðarssonar stórmerkileg.
Sigurdur Sigurdarson (IP-tala skráð) 5.10.2011 kl. 09:18
Gunnar, þú veist alveg svarið. Þetta heitir VAXTAMUNUR og er það sem fjármálafyrirtæki lifa á. Þetta er bara enn ein sönnun þess að ekki borgar sig að spara meðan maður er með skuldir.
Marinó G. Njálsson, 5.10.2011 kl. 09:25
Ef Jóhanna og Steingrímur hækka álögur, á áfengi og tóbak, í forvarnarskini fyrir ungviðið, að við það þurfi allur almenningur að bæta fjámagseigendum það upp með hækkun höfuðstóls verðtryggðrar innistæðu í banka, er náttúrlega fullkomlega galið, því það hafa engin verðmæti orðið til, og að sama skapi hækka allar verðtryggðar skuldir heimilanna í landinu.
Þetta er verðtryggingin í hnotskurn,algjört froðuhagkerfi, sem hrundi eins og spilaborg.
Siggi T. (IP-tala skráð) 5.10.2011 kl. 11:57
Línan hefur verið gefin, verðtryggingu verður ekki vikið til hliðar.
Stjórnvöld sendu óskeikulan talsmann sinn á vettvang. Þórólfur Matthíasson útskýrði kosti verðtryggingarinnar í morgunþætti Rásar 2. Sagði að við ættum ekki alla okkar vegi, brýr og byggingar í dag ef engin væri verðtryggingin.
Þar höfum við það.
Haraldur Hansson, 5.10.2011 kl. 12:50
Það vill til Haraldur að fáir trúa lengur því sem Þórólfur segir. Hans málflutningur byggist fyrst og fremst á fullyrðingum án rökstuðnings. Þeirri aðferð telur hann sig geta beitt í krafti titil síns.
Það sem vekur þó ugg er að undirstofnun hagfræðideildar Háskólans, þar sem Þórólfur er æðsti stumpur, skuli fá það verkefni að skoða hvort hægt sé að afnema verðtrygginguna og hvaða kostir og ókostir eru við þá gerð.
Gunnar Heiðarsson, 5.10.2011 kl. 19:36
Auðvitað veit ég að þetta er vaxtamunur, Marinó, en þetta sýnir kannski best að verðtryggingin skilar sér illa eða ekki til þeirra sem vilja leggja sinn sparnað í banka.
Verðtryggingin er fyrst og fremst fyrir banka og fjármálafyrirtækin og eigendur þeirra.
Gunnar Heiðarsson, 5.10.2011 kl. 19:41
Það mætti nokkrum atriðum við hið vel framsetta svar Marinós. Ég var á þessum tíma að læra rekstrarfræði og var því með athyglina á þessum hlutum. Ég man enn hve ég heillaðist af framsetningu kennara af því sem hann kallaði "lífstré þjóðar", en það var fjárstreymið um alla vinni-, viðskipta- og þjónustuþætti þjóðfélagsins. Líkti hann því við blóðrásina í manninum, að ef blóð flæddi ekki eðlilega um alla hluta líkamans, færi af stað eitrunarferlisem smitað gæti út um allan líkamann og slíkt ferli gæti endað með því að fjarlægja þyrfti líffæri eða útlim.
Þá, eins og nú, voru fjármálastofnanir alltof margar fyrir svona lítinn markað, og stjórnendur þeirra skildu greinilega ekki mikilvægi þess að halda jafnvægi á fjármálamarkaði. Gallinn við umræðuna í okkar samfélagi er sá, að stjórnvöldum er kennt um verðbólgu, dýrtíð og spennu í þjóðfélaginu. Aðal hvataaðilar slíks ástands eru bankar og lánastofnanir, þar sem þeir deila út fjármagni, án hugsunar um hvaða áhrif slík dæling hefur á flæði fármagns um samfélagið. Þrisvar frá stofnun lýðveldis okkar, hafa stjórnendur bankanna keyrt efnahag þjóðarinnar í öngstræti, vegna þekkingarleysis á eðlilegu og uppbyggilegu fjárstreymi um þjóðfélagið. Síðasta afrekið, og það stærsta, varð núna í hruninu 2008. Stjórnvöld rústuðu hins vegar möguleikum þjóðarinnar til að standa af sér fávisku bankamanna, með fátkenndum hræðsluviðbrögðum, sem alþingismenn hafa magnað af óvitaskap en ekki illri meiningu.
Hvað varðar vetðtrygginguna, horfa menn stíft á eignatilfærsluna, sem er raunveruleg. Það sem hins vegar er sorglegt, þegar skoðað er, að útlánatp lífeyrissjóða og banka er það mikið, í gegnum árin, að þar glataðist nánast öll verðtryggingin. Það var því ekki nóg að verðtryggingin væri völd að eignatilfærlsu frá skuldurum til lífeyrissjóða og lánastofnana. Þegar verðtryggingin fór aftur út úr reikningshaldi lánastofnana, sem töpuð útlán, kom hún fram sem tap hjá lánastofnunum sem lækkuðu skattgreiðslur þeirra til samfélagsreksturs.
Guðbjörn Jónsson, 6.10.2011 kl. 11:43
Marinó, ég hef verið ósammála þér nokkuð oft undanfarið en fyrir þessa grein (og fyrir greinina um lífeyrissjóðina nýlega) verð ég að hrósa þér alveg sérstaklega.
"Enginn fjárfestir á að vera varinn sjálfkrafa fyrir tjóni sem óstöðugleiki veldur, þar sem þá er honum sama um óstöðugleikann og gæti hreinlega stuðlað að honum. Fjárfestir sem er á tánum fyrir ógnum og tækifærum í umhverfinu er líklegri til að standa sig vel, en sá sem heldur að ávöxtun komi fyrirhafnarlaust."
Hér hittirðu naglann svo rækilega á höfuðið að aðdáunarvert er. Tær snilld (án kaldhæðni )!!
Þetta lýsir í tveimur setningum öllu því sem er athugavert við verðtrygginguna og af hverju fjárfestar berjast svona fyrir því að halda henni. Hún gefur þeim nefnilega frábæra ávöxtun, algerlega fyrirhafnalaust og án áhættu.
Maelstrom, 10.10.2011 kl. 17:29
Takk fyrir þetta, Maaelstrom. Ég á þetta til
Marinó G. Njálsson, 10.10.2011 kl. 18:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.