30.9.2011 | 15:21
Greiddi alltaf það sem var rukkað, en vangreiddi!
16. september 2010 féll dómur í Hæstarétti í máli nr. 471/2010 Lýsing gegn Guðlaugi Hafsteini Egilssyni. Í því máli komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að vextir áður gengistryggðra lána skuli taka mið af hvort heldur er hagstæðara fyrir viðskiptavininn verðtryggðum eða óverðtryggðum vöxtum Seðlabanka Íslands, skv. 10. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Það sem meira er, svo virðist sem Hæstiréttur ætlist til að vextirnir gildi frá lántökudegi og jafnt um greiðslur sem hafa átt sér stað og þær sem eftir eru. Niðurstaða réttarins hentaði vel í hinu sérvalda máli sem þarna var til meðhöndlunar, en í mjög mörgum tilfellum þá skilur endurútreikningur lána samkvæmt forskrift dómsins lántaka með hærri greiðslubyrði, hærri skuldabyrði eða hvorutveggja.
Í DV í dag er frétt um mann sem sviptur var bíl sínum. Fram að endurútreikningi SP-fjármögnunar á láni mannsins (í samræmi við túlkun fyrirtækisins á dómi Hæstaréttar), þá átti maðurinn, sem alltaf hafði greitt þær rukkanir sem komu frá SP-fjármögnun, að hafa vangreitt af láninu! Hvernig getur greiðandi hafa vangreitt, ef hann hefur alltaf greitt það sem farið var fram á? Það skil ég ekki, en þannig túlka fyrirtækin dóm Hæstaréttar og þannig túlkun tókst efnahags- og viðskiptaráðherra að þvinga í gegn um Alþingi í desember sl.
Hæstarétti varð á
Ég hef sagt það áður og get alveg sagt það aftur: Hæstarétti varð á í úrskurði sínum 16. september 2010. Hann gerði ótrúleg mistök, en það var lögð fyrir hann gildra og vörnin var gjörsamlega gagnslaus.
Í umræðunni hafa menn haft það á orði, að framið hafi verið mannréttindabrot vegna þess máls sem Hæstiréttur dæmdi í. Hafa menn skýrt það þannig, að Lýsing hafi handvalið málið sem fór fyrir Hérðasdóm Reykjavíkur, með því hafi verjandinn líka verið handvalinn og dómarinn. Hvernig komast menn að þessari niðurstöðu?
Stefnt var upphaflega í máli Lýsingar gegn Guðlaugi Hafsteini Egilssyni fyrri hluta árs 2010 og var búið að úthluta málinu dómara hjá Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem fyrirtaka átti að eiga sér stað. Lýsing ákvað aftur að draga málið út úr dómi, þ.e. hætta við málarekstur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Dómarinn, sem fékk málinu úthlutað upphaflega, var Arnfríður Einarsdóttir. Þegar dómar Hæstaréttar féllu 16. júní 2010 um ólögmæti gengistryggingarinnar var talið mikilvægt að fá hratt og vel skorið úr um vexti lánanna. Einhverra hluta vegna tók Lýsing að sér að finna mál og leggja það fyrir dóm. Fyrirtækið ákvað að halda ekki áfram með mál sem voru á dagskrá, heldur var ákveðið að endurvekja mál sem dregið hafði verið til baka. Þ.e. mál var handvalið af fyrirtækinu frekar en að tilviljun væri látin ráða eða að samkomulag væri gert um það að valið yrði mál sem gæti tekið á ágreininginum frá sem flestum sjónarhornum. Lögmaður stefnda hafði enga reynslu af gengistryggðum málum og aldrei mér vitanlega tekið þátt í umræðu áhugafólks um þessi mál. Þannig tókst Lýsingu að velja mál með lögmann án reynslu. Lítið mál hefði verið að velja mál sem Björn Þorri Viktorsson rak fyrir umbjóðanda og þannig verið hægt að fá baráttu tveggja reynslubolta. Nei, í staðinn var valinn einhver sem auðvelt var að ráða við, eins og kom á daginn. Þá er það Héraðsdómur Reykjavíkur. Þar ákvað dómstjóri að senda málið aftur til þess dómara sem skipaður var á það í upphafi. Hvort sem það var viljandi eða ekki hafði Lýsingu því tekist að handvelja mál sem var slæmt sem fordæmi, lögmann hins stefnda og dómara málsins.
Hvers vegna var mál Guðlaugs Hafsteins Egilssonar ekki gott sem fordæmisgefandi mál? Ég hef útskýrt það áður, en ástæðan er tvíþætt:
1. Lánið var tekið 21. nóvember 2007 og því sýndu mismunandi vaxtaútreikningar alltaf að krafan á hendur skuldara mundi lækka sama hvaða vaxtaforsendur, sem komu til greina, yrðu valdar.
2. Málið var uppgjörsmál og því kæmi framtíðargreiðslur ekki inn í ákvörðun dómstóla.
Ég hef aldrei fett fingur út í niðurstöðu héraðsdóms. Hún var hvort eð er bara aðgöngumiðinn að Hæstarétti. Aftur á móti hef ég aldrei náð að skilja niðurstöðu Hæstaréttar og lít svo á að hann hafi verið leiddur í gildru.
Dómstólar eiga að jafnaði ekki að taka á öðrum kröfum en gerðar eru fyrir dómi. Í þessu tilfelli voru það aðalkrafa og varakröfur stefnanda og ein krafa stefnda. Ekki má gleyma því, að um uppgjörsmál var að ræða og því þurfti rétturinn ekkert að velta fyrir sér hvað tæki við á næstu mánuðum. Hæstiréttur féll í gildruna sem spennt var og dæmdi því að því virðist afturvirka breytingu vaxta sem hefur haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir lántaka, sbr. sagan sem DV segir í dag.
Var í skilum en vangreiddi
Fram að hruni bankanna fyrir þremur árum, hafði ég nánast alltaf greitt alla greiðsluseðla fjármálafyrirtækja á réttum tíma. Ég man eftir einu láni frá LÍN árið 1991 sem komst í 60 daga vanskil og kannski tvisvar eða þrisvar fóru lán í 30 daga vanskil. Ég er m.a. með þinglýsta pappíra frá einum banka, þar sem segir í þeim að þar sem lánið sé í skilum (í október 2008), þá geti ég fengið þá skilmálabreytingu sem hið þinglýsta skjal fjallar um. Í dag þremur árum síðar, þá segir þessi sami banki, að ég hafi vangreitt af láninu fram að október 2008 og skuldi honum nokkrar milljónir vegna þessarar vangreiðslu. Ég velti því fyrir mér hvort dómarar Hæstaréttar, þau Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson sem dæmdu í máli nr. 471/2010, telja að það hafi verið ætlun þeirra með niðurstöðu sinni. (Ég er til í að ræða það mál við hvert þeirra sem er undir fjögur augu, ef þau vildu vera svo væn að hafa samband.) Hvernig má það vera, að ég, sem missti ekki úr eina einustu greiðslu af lánum teknum árin 2004 og 2005, hafi vangreitt svo nemur milljónum af þessum lánum og fjármálafyrirtæki eigi bakreikning á mig vegna þessa?
Höfuðstóll lækkar en greiðslur hækka
Í öðrum tilfellum hef ég séð dæmi um að lántaki hafi vissulega ofgreitt og höfuðstóll lánsins hafi því verið lækkaður, en mánaðargreiðslubyrðin hafi hækkað um tugi þúsunda, þ.e. greiðslur eftir endurútreikning eru umtalsvert hærri en þær voru fyrir endurútreikning. Heildargreiðslur til lánveitandans á lánstímanum verða því umtalsvert hærri samkvæmt túlkun fjármálafyrirtækja (og Árna Páls Árnasonar) á dómum Hæstaréttar, en ef fólk hafði haldið áfram að greiða af stökkbreyttum höfuðstóli lána sinna. Niðurstaðan er að Hæstiréttur og Alþingi hafa fest í sessi forsendubrestinn sem vanhæf fjármálafyrirtæki ollu í undanfara hrunsins.
Braut Hæstaréttar gegn dómum Evrópudómstólsins um neytendarétt?
Í ritgerð nokkurra nemenda í lögfræði við Háskólann að Bifröst, þá kemur fram að Evrópudómstóllinn hefur nokkrum sinnum úrskurðað að staðbundnum dómstólum hafi borið að víkja frá kröfum, sem hafðar eru uppi fyrir dómi í, þar sem ekki sé gætt nægilega neytendaréttar. Nú geri ég ekki ráð fyrir að dómarar Hæstaréttar liggi yfir öllum dómum Evrópudómstólsins, en málið dómar Evrópudómstólsins eru samt fordæmisgefandi fyrir Ísland vegna þátttöku okkar í EES. Því ber Hæstarétti að hafa niðurstöður þeirra í huga, þegar hægt er að jafna saman aðstöðu málsaðila. Þegar annar málsaðili er neytandi, þá eru það skýr skilaboð Evrópudómstólsins, að dómstólar (sama hvert dómstigið er) eiga að taka tillits til neytendaréttar, þó svo að slíkar málskröfur séu ekki hafðar uppi.
Í einu af þeim málum sem dómstóllinn úrskurðaði um brot á neytendarétti var um mjög tæknilegt atriði að ræða. Í umræddu máli, þá var fjármálafyrirtæki staðsett í Barcelona en neytandinn átti heimili í bæ í nokkur hundruð kílómetra fjarlægð. Niðurstaða Evrópudómstólsins var að brotið hefði verið á rétti neytandans með því að taka dómsmálið fyrir í Barcelona, þ.e. varnarþingi fjármálafyrirtækisins, en ekki í heimabæ neytandans, sem var hans varnarþing. Með þessu hafi neytandinn verið beittur misrétti í málsmeðferðinni og honum í reynd gert óhægt um vik að verja sig. Þetta atriði var samt ekki ástæðan fyrir því að málinu var skotið til Evrópudómstólsins!
Neytendaréttur var borinn til grafar hér á landi í september í fyrra. Fyrst var það dómur Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 og síðan voru það dómar Héraðsdóms Reykjavíkur í málum X93/2009 og X97/2009. Ég skil hvorki af hverju við höfum neytendalöggjöf né hvers vegna við höfum lög um samningsrétt. Í þeim tilfellum undanfarin ár, þegar neytendur hafa reynt að bera þessi lög sér til varnar, þá hafa dómstólar nær undantekningarlaust litið framhjá þeim eða leitað uppi lögskýringar sem eru neytandanum andstæðar. Sorglegt, en því miður allt of satt.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.12.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 423
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 37
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Klíkuklúbbar sjálftökuliðsins sjá um sig og sína !
Hvar er fólkið sem var kosið til valda fyrir það að standa með venjulegu fólki ?
Hvar er fólkið sem segist vera jafnaðarmenn og vilja vernda ,,norrænt velferðarþjóðfélag" ?
Jú, allt er þetta fólk að velta sér upp úr því að vera komið með völdin, en láta fjármálafyrirtækin gera það sem þeim listir !
Venjulegt fólk mun aldrei gleyma svikum samfylkingarinnar og vinstri grænna við venjulegt fólk, sem hefur bara haldið áfram að borga þrátt fyrir að búið er að dæma því í vil !
Venjulegt fólk þarf að vakna upp og hugsa upp á nýtt allt varðandi stjórnmál !
Við þurfum enga háskólalærða drullusokka , sem hafa notað sína menntun til að komast inn hjá klíkuklúbbum svo þeir geti tekið þátt fjármálagjörningum gegn venjulegu fólki !
Marinó !
Kærar þakkir fyrir skrif þín !
JR (IP-tala skráð) 30.9.2011 kl. 17:07
„Það hefur orðið mikill eignabruni, ekki samt hjá venjulegu fólki,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra á flokksráðsfundi VG í Reykjavík
Hvers vegna ætti eitthvað að vera gert ef viðhorfið er svona.
mbk
Benedikt
Benedikt Egilsson (IP-tala skráð) 30.9.2011 kl. 20:26
Staðreynd 1: Lögmaður Lýsingar er Sigurmar K. Albertsson.
Staðreynd 2: Viðskiptafélagi Sigurmars er Brynjar Níelsson formaður Lögmannafélags Íslands. Brynjar hefur tjáð skoðun sína á hvaða vextir taka við þegar gengistrygging er dæmd ólögmæt.
Staðreynd 3: Eiginkona Brynjars er Arnfríður Einarsdóttir, dómarinn sem dæmdi mál Guðlaugs í héraðsdómi.
Staðreynd 4: Eiginkona Sigurmars er Álfheiður Ingadóttir varaform. efnahags-og skattanefndar Alþingis og leiddi umræðu um breytingu vaxtalaga í nefndinni í kjölfar þessa dómsniðurstöðu Hæstaréttar.
Staðreynd 5: Málið var handvalið af Lýsingu (Sigurmar?) til flutnings eins og þú bendir á Marinó.
Staðreynd 6: Gísli Baldur Garðarsson, lögmaðurinn sem bar ábyrgð á málfutningi máls nr. 471/2010 fyrir Hæstarétti, er nátengdur Gylfa Magnússyni, þáverandi viðskiptaráðherra, sem hafði tjáð sig opinberlega um hver æskileg niðurstaða í málinu ætti að vera. Nefnt hefur verið að þeir séu uppeldisbræður.
Staðreynd 7: Hópur lögfræðinga og fróðra manna fundaði með lögmönnunum sem fluttu málið fyrir héraðsdómi áður en það fór fyrir Hæstarétt og á þeim fundi var samdóma niðurstaða allra að fara með fleiri kröfur fyrir Hæstarétt en raunin varð.
Áreiðanlegar heimildir herma að um það hafi verið samið fyrirfram að Guðlaugur myndi aldrei greiða krónu í málskostnað, sá kostnaður yrði borinn af Lýsingu hvernig sem niðurstaðan yrði.
Ef allt þetta löglærða fólk sefur vært á næturna gef ég ekki mikið fyrir siðferðismat þeirra.
Erlingur Alfreð Jónsson, 30.9.2011 kl. 20:38
Erlingur, ég held að það sé búið að hrekja að Sigurmar og Brynjar séu viðskiptafélagar. Þeir hafi vissulega unnið í sama húsnæðinu, en um óskyldan rekstur hafi verið að ræða og þeir aldrei unnið saman að neinum málum.
Ég var á þessum fundi sem haldinn var með Jóhannesi, lögmanni Guðlaugs. Ég verð að viðurkenna, að ég varð fyrir vonbrigðum með framhaldið og þó ég hafi verið kallaður aftur að málinu, þá var það um hádegi daginn áður en munnlegur málflutningur fór fram í Hæstarétti og um seinan var að gera nokkuð.
Þú mátt bæta við að það var álit viðstaddra, að Gísli Baldur Garðarsson hafi verið að frumlesa skjalið sem innihélt munnlega málflutninginn, þegar hann flutti hann. Stærsta klúðrið í þessu máli varð þó hverjar voru dómskröfur fyrir héraðsdómi, þar sem þær réðu því hvaða dómskröfur voru skoðaðar af Hæstarétti.
Marinó G. Njálsson, 30.9.2011 kl. 21:52
Hvað þarf fólk að vera gamalt til að fara hugsa út fyrir klíkuklúbba ???
Það er sama hvert nafnið er allt er þetta fólk hámenntað og sumir með gráður !!!
Til að skrifa rétta orðið þá skulum við setja það hér, glæpamenn !!!
Þeir sem dansa um götur og tauta í sifellu við stjórnum núna , samfylkingarfólk og vinstri grænir , bjóða upp á alla þessa glæpamenn !!
JR (IP-tala skráð) 1.10.2011 kl. 01:53
Við skulum þá nefna hlutina eins og þeir gera sjálfir. Í stað viðskiptafélaga ætti að standa samstarfsaðili og vísa ég þá í heimasíðu Lagastoðar, fyrirtækis Sigurmars, sem frumheimild. Fólk dæmir þá sjálft hvorft því finnist munur vera þar á. Þeir eru alla vega báðir sagðir með tölvupóstfang (hja)lagastod.is, hvernig sem uppgjörum, skattaskilum og öðrum viðskiptatengslum er háttað.
Erlingur Alfreð Jónsson, 1.10.2011 kl. 14:16
Þú ert ekki lögmaður, Marinó, en telur þig samt vita betur og geta túlkað lögin betur en dómarar Hæstaréttar. Einhverjir myndu kalla það hroka, en látum það liggja á milli hluta í bili.
En af hverju heldur þú að Björn Þorri hefði fengið einhverja aðra niðurstöðu, hefði hann verið verjandi? Er hann ekki nýbúinn að tapa dómsmáli Guðmundar Andra, talsmanns "samtaka lánþega"?
Anna (IP-tala skráð) 1.10.2011 kl. 23:26
Anna, það senst ekki neytendarétt í íslenskum lögum og heldur ekki í Evrópurétti að hægt sé að breyta fullnaðarkvittunum í kvittanir fyrir hlutagreiðslu. Með dómnum opnaði Hæstiréttur tæknilega séð fyrir það að Orkuveita Reykjavíkur sendi öllum viðskiptavinum sínum viðbótargreiðsluseðla fyrir hvern og einn gjalddaga frá því að viðskiptavinur stofnaði til viðskipta við fyrirtækið.
Marinó G. Njálsson, 2.10.2011 kl. 11:33
Hvernær skilar afborgun sér á skuldabréf og hvenær gerir hún það ekki. Það er alveg ljóst að samkvæmt konungstilskipun frá 9. febrúar 1798 þá er það
" skylda lánardrottins, þegar skuldunautur borgar allan höfuðstól skuldabréfs, að skila honum aftur bréfinu með áritaðri kvittun, eins á hann, þegar nokkuð er afborgað af höfuðstólnum, að hafa við höndina frumrit skuldabréfsins, og vera skyldur til, í nærveru skuldunauts eða umboðsmanns hans, að rita bæði á bréfið sjálft það, er afborgað er, og að gefa auk þess sérstaka kvittun fyrir því."
Þessi regla hefur verið virt í yfir 200 ár og það er margt sem að byggt á henni.
Með lögum nr 151/2010 var vikið frá þessari reglu og sú merkilega staða er í íslenskum rétti er að 2 reglur gilda um afborganir skuldabréfa! Framangreind regla frá 1798 og svo regla sem að kemur fram i lögum nr 151/2010. Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir er hvort að við getum yfir höfuð treyst því að þær afborganir sem að við greiðum skili sér a skuldabréfið. Ég hef meðal annars spurt Lýsingu að þessu og ekki fengið neitt svar. Lánastarfsemi snýst ekki bara um það að lána peninga og fá þá aftur greidda með vöxtum, heldur snýst hún líka um það lántakandi geti treyst því að lánveitandi geri það sem að hann á að gera samkv. tilskipun frá 9 febrúar 1798. Inngrip löggjafans i samninga milli aðila er yfirleitt mjög óheppilega og lög nr. 151/2010 er gott dæmi um það
Helgi Njalsson (IP-tala skráð) 2.10.2011 kl. 12:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.