Leita í fréttum mbl.is

Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa

Í tilefni þess að þrjú ár eru frá þjóðnýtingu Glitnis:  Almenningur óskar eftir sannleikanum varðandi hrunið, aðdraganda þess og eftirmála

29. september 2008 vaknaði þjóðin upp við þá frétt að þá um nóttina hefði Glitnir verið tekinn yfir af ríkissjóði  (og Seðlabanka Íslands).  Hlutafé bankans hafði verið fært niður um 75%.  Nokkrum dögum áður hafði farið í gang atburðarrás sem ekki marga óraði fyrir hvernig myndi enda.

Vinnuvikan sem hófst 29. mars 2008 og sú sem fylgdi á eftir eru líklegast tvær æsilegustu vikur sögu efnahags þjóðarinnar.  Þessa daga fór fullorðið fólk að sofa með hnút í maganum og vaknaði með ógleði og ennþá verri magaverki.  Var íslenskt þjóðfélag að hrynja?  Hvað mun gerast næst?  Ráðum við við ástandið?  Ráða stjórnvöld við ástandið?

Ég var einn af þeim sem áttaði mig ekki á hvað hafði gerst og hvers vegna ríkisstjórnin samkvæmt ráðgjöf frá Seðlabankanum fór þá leið að nánast þjóðnýta Glitni.  Skrifaði ég færslu hér, þar sem ég spurði:  Var sleggju beitt þar sem hamar hefði dugað?  Ég veit ekki enn hvort hamar hefði dugað, vegna þess að ég veit ekki enn hvað gekk í raun og veru á bak við tjöldin þessa afdrifaríku helgi og hvað hafði í raun gerst innan stjórnsýslunnar, hjá Fjármálaeftirliti, Seðlabanka Íslands og bönkunum þremur mánuðina á undan.  En ég trúi því í dag, að það sem var gert þessa aðfaranótt 29. september 2008 hafi verið gert í þeirri trú stjórnvalda og Seðlabanka að ekkert annað væri í stöðunni.  Þar með er ég hvorki að segja að svo hafi verið né að svo hafi ekki verið.  Ég veit það ekki vegna þess að því er að hluta haldið leyndu fyrir þjóðinni.

Skýrsla RNA er ófullkomin

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis upplýsir ýmislegt, en inn í hana vantar nánast alveg sjónarhorn eins málsaðila, þ.e. bankanna.  Hún er líka gríðarlega löng og þó maður lesi bara yfirlitskafla, þá er efnið svo þungt og tormelt að það er ekki fyrir venjulegan einstakling að skilja hlutina.  Efni hennar er, mér liggur við að segja, fyrir innvígða og innmúraða eða einstaklinga sem geta leyft sér þann munað að setja tíma í að lesa hana orð fyrir orð, teikna upp ferla, tengingar, ferð fjármuna, samband ákvarðana o.s.frv.  Ég viðurkenni fúslega, að barátta mín fyrir hagsmunum heimilanna hefur verið í forgangi og því hefur mér gengið hægt að vinna mig í gegn um Skýrsluna.

Ég er heldur ekki viss um að Skýrslan segi allan sannleikann.  Raunar held ég að stórlega vanti á hann.  T.d. vantar hreinlega játningar bankamanna á því sem þeir gerðu.  Skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða maðurinn á gólfinu (gjaldkeri, ráðgjafi, þjónustufulltrúi), millistjórnendur, efri stjórnendur, æðstu stjórnendur og stjórnarmenn.  Flestar sögur tengdar þessu fólki eru annað hvort ósagðar eða hálf sagðar.  Síðan er það þáttur eigenda og stærstu viðskiptavina.  Þeirra sögur hafa verið að birtast í bútum eftir því sem fjölmiðlafólk nær að grafa upp eitt og eitt mál, en við þekkjum ekki heildarmyndina.  Hver fékk hvað?  Hver átti hvað?  Hvert fóru peningarnir?  Hvar eru peningarnir?  Hvers vegna var þessi flétta sett á svið eða hin?

Sannleikurinn er sagna bestur

"..sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa" (Jóh. 8:32) er líklegast ein frægasta tilvitnun í Nýja testamenntið án þess að menn átti sig á því að um Biblíu tilvitnun sé að ræða.  Ég er þeirrar trúar, að sannleikurinn muni gera marga menn frjálsa undan því oki sem á þeim hvílir vegna þáttar þeirra í aðdraganda hrunsins og einnig eftirmálum. 

Sá hópur fólks, sem ég hef unnið með, hefur ekki farið fram á neitt annað en að fá að vita sannleikann og njóta réttlætis, jafnræðis og sanngirnis.  Við höfum haft það að leiðarljósi að vinna með sannleikann og tala sannleikann, en við getum það ekki alltaf ef hann er hulinn fyrir okkur.  Þess vegna hef ég gætt mig á því að vitna aldrei í neinar tölur eða fara með þær, nema að ég hafi opinberar heimildir fyrir þeim.  Ég hef aftur aldrei geta treyst því fullkomlega að opinberar tölur séu réttar, vegna þess að allt of oft eru þær birtar í ákveðnum tilgangi og hann er ekki alltaf að segja rétt og satt frá.

Ég hef verið óhræddur við að segja sannleikann þegar hann hefur ekki stutt málflutning minn eða Hagsmunasamtaka heimilanna.  Ég hef meira að segja lent í orðaskaki við mína félaga, þegar ég hef ekki viljað birta slíkar upplýsingar jafnvel þó auðvelt hefði verið að birta þær ekki.  Bara nýlegt dæmi er þegar ég gaf það út að útreikningar fjármálafyrirtækja á verðtryggðum lánum væri réttur samkvæmt þeim forsendum sem fjármálafyrirtækin gæfu sér.  Ekki voru allir sáttir við þá niðurstöðu, en hún var sannleikanum samkvæmt og þess vegna birti ég hana.  Ég hef alltaf viljað viðurkenna það sem vel er gert og umorðalaust gangast við mistökum. Hrósa ber þeim sem hrós eiga skilið.

Rangfærslum mótmælt

Á móti hef ég verið óhræddur við að hnýta í það, þegar menn reyna að hagræða sannleikanum.  Ég hef gagnrýnt Geir H. Haarde, Árna Mathiesen, Björgvin G. Sigurðsson, Gylfa Magnússon, Gylfa Arnbjörnsson, Árna Pál Árnason, Steingrím J. Sigfússon, Jóhönnu Sigurðardóttur, félaga mína í "sérfræðingahópi" um skuldavandaheimilanna, þingmenn, bankastjóra og nú síðast framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja.  Ég hef meira að segja komið upp í pontu á fundi og leiðrétt misskilning í málflutningi félaga minna í Hagsmunasamtökum heimilanna.  Ástæðan er einföld:  Í þessu máli, þ.e. um hrunið, aðdraganda þess og eftirmála, er svo mikilvægt að komið sé fram af heiðarleika og hreinskilni.

Sannleiksnefnd gerir meira en nokkrir refsidómar

Í október 2008 stakk ég upp á því að stofnuð væri sannleiksnefnd í anda þess sem gert var í Suður-Afríku.  Alvarleiki málanna hjá okkur er ekki nándar nærri eins mikill hjá þeim, en samt fannst mönnum það ekki rétt.  Sett var á fót rannsóknarnefnd á vegum Alþingis.  Gögn hennar gætu verið lokuð í 120 ár, ef ekki lengur.  Ég skil ekki alveg hvaða lærdóm framtiðar kynslóðir eiga að draga af gögnum, þegar þau verða opnuð almenningi.  Við þurfum upplýsingarnar núna, þar sem það er núna sem við þurfum að læra.

Satt best að segja, þá vil ég frekar fórna því að einhverjir gerendur í aðdraganda hrunsins sleppi við refsingu en að missa af því að heyra sannleikann.  Þó ég hafi óbilandi trú á góðum vini mínum, Ólafi Þór Haukssyni, þá hef ég ekki sömu trú á getu dómskerfisins að fást við málin.  Ekki vegna þess að dómarar landsins séu ekki hæfir faglega, heldur vegna þess að málin eru óendanlega flókin og sakborningar munu örugglega kaupa þá bestu mögulegu vörn sem fáanleg er hér á landi.

Rétt svör óskast

Ekki þarf Ólaf Þór til að fá sannleikann um sum mál.  Fjármálaeftirlitið, fjármálaráðuneytið, efnahags- og viðskiptaráðuneytið og fjármálafyrirtækin (gömul og ný) búa yfir hafsjó upplýsinga sem gætu varpað ljósi á ýmislegt.  Bara mál málanna í dag, þ.e. hver afskrifaði hvað hjá hverjum.  Hvað fengu nýju bankarnir mikinn afslátt af útlánum gömlu bankanna, hvernig skiptist hann á milli hópa, hvernig hefur hann verið nýttur og hvað er eftir?  Hver er skýring á hinum mikla mun sem er á tölum Seðlabanka Íslands og þeim sem bankarnir halda á lofti?  Af hverju eru afskriftir í reikningum bankanna í engu samræmi við afskriftir sem efnahags- og viðskiptaráðherra hefur tvisvar birt í svari til þingmanna?

Síðan er ég með langan lista af spurningum sem ég vildi líka fá svarað.  Hér eru örfá atriði:

  • Hver voru boð og bönn AGS í tengslum við meðferð útlána gömlu og nýju bankanna?
  • Hvers vegna ráðherrar, þingmenn og fjöldinn allur af öðrum aðilum kýs að halda sannleikanum frá okkur?
  • Hvers vegna Lýsing valdi uppgjörsmál sem dregið hafði verið úr dómi sem prófmál vegna vaxta áður gengistryggðra lána og hvers vegna hvorki héraðsdómi né Hæstarétti voru boðnir allir þeir kostir sem voru mögulegir um niðurstöðuna?
  • Hvers vegna Alþingi fékk ekki allar nauðsynlegar upplýsingar áður en það samþykkti lög nr. 151/2010?
  • Hvers vegna Alþingi ákvað að hunsa vilja neytenda um að leita til EFTA áður en lögin voru samþykkt?
  • Hvers vegna Hæstiréttur hefur neitað héraðsdómi um að leita til EFTA-dómstólsins í nánast hvert sinn sem þess er óskað?
  • Hvers vegna ríkisstjórn Íslands hefur tekið upp hanskann fyrir kröfuhafa gömlu bankanna gegn hagsmunum almennings?
  • Hvers vegna þingmenn geta ekki hagað sér almennilega og unnið saman að nauðsynlegum verkefnum?
  • Hvers vegna menn sitja í sætum sínum um allt þjóðfélag þrátt fyrir að hafa logið, misbeitt valdi sínu eða sýnt fáránlegt vanhæfi?
  • Hvers vegna þingmenn sem skrifa upp á drengskaparheiti brjóta það til að þóknast formanni sínum?
  • Hvers vegna það er óvanalegt að formaður stjórnarandstöðuflokks vinni að hagsmunum þjóðarinnar?
  • Hvers vegna meira skiptir hver leggur fram mál á Alþingi en hvert málið er?
  • Hvers vegna Frjálsi/Drómi drepur allt í Dróma sem þeir snerta í staðinn fyrir að drepa það úr Dróma eins og Fenrisúlfurinn gerði?
  • Hvers vegna Lýsing er ekki með í samkomulagi fjármálafyrirtækja og stjórnvalda?
  • Hvers vegna bankarnir halda að 110% leiðin sé góð fyrir viðskiptavini sína?
  • Hvers vegna enginn hefur verið sóttur til sakar fyrir refsivert brot á vaxtalögum með því að bjóða gengistryggð lán?
  • Hvers vegna stjórnvöld hafa ekki gefið út kæru á alla helstu stjórnendur og stjórnarmenn í gömlu bönkunum?
  • Hvers vegna fjármálafyrirtækin eru ósnertanleg?
  • Hvers vegna fjármálafyrirtækin eru spurð oftar um atriði sem tengjast rétti viðskiptavina þeirra, en viðskiptavinirnir?
  • Hvers vegna lög frumvarp að lögum nr. 151/2010 var annað hvort samið af fjármálafyrirtækjunum eða a.m.k. fór í yfirlestur þeirra áður en það var lagt fyrir Alþingi?
  • Hvers vegna ábendingar neytenda eða þær sem eru neytendum hagstæðar eru nær undantekningarlaust hunsaðar af nefndum Alþingis, en ekki ábendingar sem eru þeim óhagfelldar?
  • Hvers vegna hafa íslenskir dómstólar ekki virt neytendarétt í íslenskum lögum og evrópurétti þegar mörg fordæmi eru fyrir því í dómum Evrópudómstólsins, að það sé skylda dómstóla að taka til skoðunar atriði sem vernda neytandann, þó svo að ekki sé gerð krafa um það í máli?
  • Hvers vegna dómari í Héraðsdómi Suðurlands mat efnahagshrunið haustið 2008 ekki vera nóg til að segja að forsendubrestur hafi orðið?
  • Hvers vegna eignaréttur kröfuhafa er ríkari eignarétti húseiganda?
  • Hvers vegna fjármálafyrirtæki og stjórnvöld telji það sjálfsagðan hlut að lántakar séu réttlausir gagnvart þeim miklu svikum, blekkingum, lögbrotum og prettum sem lýst er í fjölmörgum skýrslu að hafi átt sér stað fyrir hrun?

Ég gæti haldið endalaust áfram og er ég viss um að aðrir eiga lengri lista.  Mergur málsins er:

Ég vil fá að vita sannleikann! 

Mér er sama hversu hræðilegur sannleikurinn er, ég vil fá að vita hver hann er.  Þegar ég hef fengið að vita sannleikann, þá á ég mun auðveldara að halda áfram með lífið.  Ég verð þá vonandi kominn í þá stöðu geta breytt því sem ég vil breyta, sætt mig við það sem ég get ekki breytt og haft betri þekkingu til að greina þar á milli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mætum sem flest í mótmælin á laugardaginn og minnum Steingrím og Jóhönnu á að hrunstjórnin var rekin svo þau tvö gætu varið hagsmuni ALMENNINGS í landinu, ekki erlendra kröfuhafa og glæpamanna í bankakerfinu.

Þessi tvö hafa svikið bókstaflega ALLT sem þau hafa staðið fyrir síðustu áratugi á þingi, og tímabært að minna þau á hvert þau sóttu umboð sitt.

Mætum öll á laugardaginn.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 29.9.2011 kl. 08:57

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þú ert því miður ekki nógu markviss í spurningunum og sumar hverjar eru einfaldlega þess eðlis að aldrei mun koma svar við þeim. Raunar er það þannig að þú verður nokkurn vegin að vita hvert svarið er áður en þú berð upp spurninguna, að minnsta kosti að það geti orðið svar.

Þessi er slæm: „Hvers vegna þingmenn geta ekki hagað sér almennilega og unnið saman að nauðsynlegum verkefnum?“ Ég hef þá trú að allir þingmenn vilji landi og þjóð vel, hins vegar greinir þeim á um leiðir. Núverandi ríkisstjórn hefur mistekist flest og stjórnarandstaðan hefur ekki reynst sennileg í málflutningi sínum. VG hefur unnið með Samfylkingunni að inngöngu landsins í ESB og stendur fast við aðlögunarviðræðurnar þrátt fyrir andstöðu almennra flokksmanna. Ættu aðrir flokkar að vinna með ríkisstjórninni að inngöngu í ESB bara til þess að sýn að þeir geti „hagað sér almennilega“?

Aftur á móti má spyrja í sama dúr hvers vegna nokkrir stjórnarmenn ákváðu fyrir stuttu að segja sig úr stjórn HH? Gátu þeir eða stjórnin ekki hagað sér almennilega og unnið saman að nauðsynlegum verkefnum ...?

Berum spurningna saman við aðra sem er hnitmiðuð og góð: „Hvers vegna Lýsing valdi uppgjörsmál sem dregið hafði verið úr dómi sem prófmál vegna vaxta áður gengistryggðra lána og hvers vegna hvorki héraðsdómi né Hæstarétti voru boðnir allir þeir kostir sem voru mögulegir um niðurstöðuna?“ Líklegt svar er að Lýsing gat þarna búist við „hagstæðum“ dómi.

Munum að það sem einum þykir réttlætismál kann öðrum að þykja lítið varið í. Ekki falla í þá gryfju að halda að allri geti verið sammála um öll „réttlætismál“.

Þó manni sé mikið niðri fyrir er enn meiri ástæða til að vanda sig. Hvers vegna stelur sumt fólk? Svarið er afar flókið og gætu verið jafnmörg þeirra sem taka að sér að svara. Raunar er líklegast að enginn svari þessari spurningu.

Það sem ég hef lesið úr skýrslu RNA staðfestir það sem þú segir, hún er ófullkomin. Það vantar t.d. játningar. Það leiðir hugann að umræðunni um svokallaða sannleiksnefnd sem þú nefnir. Líklega hefði það verið mjög skynsamleg leið.

Ég vona að þú misvirðir ekki þessa athugasemdir mína. Ég hef áður sagt að ég ber mikla virðingu fyrir baráttu þinni og yfirburða þekkingu. Hér gildi því hið fornkveðna að vinur er sá er til vamms segir.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 29.9.2011 kl. 10:27

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður, ég er ekki stjórnarmaður í HH og var því hvorki áheyrandi né þátttkandi í umræðunni.  Hitt veit ég að annar þeirra sem sagði sig úr stjórninni gerði það vegna ágreinings við aðra stjórnarmenn um stefnu samtakanna, stefnu sem er samþykkt á aðalfundum þeirra og framfylgt af stjórn.  Hann gagnrýndi líka vinstri slagsíðu í stjórninni, en málið er að allir geta boðið sig fram til stjórnarstarfa og hefur mér vitanlega aldrei verið reynt að koma í veg fyrir þátttöku manna eftir stjórnmálaskoðunum.

Hinn stjórnarmaðurinn hafði verið lengi frá vegna slyss sem hann lenti í, en vissulega notaði hann sömu skýringu.

Þetta kom fram í yfirlýsingum beggja aðila sem birtust í fjölmiðlum.  Engu var haldið leyndu svo ég viti til, enda sömdu þeir sínar yfirlýsingar sjálfir.

Ekki halda að ég viti ekki svörin við mörgum af þessum spurningum.  Ég vil bara heyra viðkomandi aðila svara þeim af hreinskilni.  Fá svörin "from the horses mouth" eins og Kaninn segir.

Ég ber virðingu fyrir skrifum þínum, Sigurður, og athugasemdum, enda ert þú einn af þeim sem ert alltaf málefnalegur í þínum málflutningi, hvort það er um ferðamennsku, náttúruvá, efnahagsmál eða bara mál líðandi stundar. 

Marinó G. Njálsson, 29.9.2011 kl. 11:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 1680033

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband