Leita í fréttum mbl.is

SFF hefur áhyggjur af álögum á fjármálakerfið

Hræðilegt er að heyra af hinum illu hugmyndum ríkisstjórnarinnar að leggja 10,5% launaskatt á aumingja fjármálafyrirtækin.  Ég kemst bara nærri því við að lesa viðtalið við Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF), sem birt er á visir.is.  Hann hefur svo miklar áhyggjur af því, greyið karlinn, að samkeppnisstaða bankanna versni og nóg borgi þeir nú líka til ríkisins.  Æ, æ, æ.  Ég meina bankarnir þrír högnuðust bara, já bara, um litlar 42.000 m.kr. á fyrstu 6 mánuðum ársins og þeir eru sko ekki aflögufærir um meira en þeir þegar greiða.  Það voru bara 115 m.kr. á dag, sem náttúrulega skiptist í þrennt.  Sko, Arion banki greiðir t.d. 242 m.kr. af 10.000 m.kr. hagnaði í sérstakan bankaskatt sem standa á undir tjóninu sem Kaupþing olli.  (242 m.kr. eru innan við 9 daga hagnaður.)   Mig minnir að tjón af Kauðþingi hafi verið meira en 1.000.000 milljónir eða voru það 6.000.000 milljóna.  Með þessu áframhaldi verður Arion banki búinn að greiða um tjónið niður á 2.066 árum miðað við lægri upphæðina og að bankinn greiði 242 m.kr. hálfsárslega.  (Um 12.400 ár ef hærri upphæðin er tekin.)

Ég velti því oft fyrir mér í hvaða veruleika Guðjón Rúnarsson lifir.  Höfum í huga að þetta er maðurinn sem skrifaði umsögn um frumvarp að lögum um vexti og verðbætur árið 2001 og varaði við því að yrði frumvarpið óbreytt að lögum, þá yrði ólöglegt að veita gengistryggð lán.  Hann hylmdi yfir með fjármálafyrirtækjunum í fleiri, fleiri ár og þrætti út í rauðan dauðann að lánin væru ólögleg, en samt varaði hann sjálfur við því að slík lánveiting yrði ólögleg væri ákvæðið sett í lög.  En þetta er kannski dæmigert fyrir starfsemi fjármálafyrirtækja:  Ekki að láta lögin flækjast fyrir manni, þegar gróði er handan við hornið.  A.m.k. sannaðist það í þessu máli.

Þessi skattur er svo sem hvorki góður né vondur, en mér finnst eðlilegast að refsa bara þeim sem haga sér illa.  Þarna verður Guðjón að beina umvöndunum sínum til stóru strákanna og stelpunnar sem hafa hækkað launakostnað hjá sér á hvern starfsmann langt umfram það sem hinir minni þola.  Ríkisstjórnin er bara að bregðast við hegðun sem ekki er talin ásættanleg.  Ef bankarnir kynnu sér hóf og sýndu samfélagslega ábyrgð, þá þyrfti ekki að nota skattkerfið til að leiðbeina þeim.  Um það snýst málið.  Þeir sem misbjóða þjóðarsálinni geta átt von á því að hún bíti frá sér.

Brilliant skattur á bankana

Annars er ég með aðra hugmynd að skatti á bankana þrjá:

Leiði endurmat lánanna, sem þeir fengu með verulegum afslætti frá gömlu kennitölunni sinni, til þess að virði þeirra hækkar í bókum bankanna, skal skattleggja þetta endurmat um 95%.  Einnig skulu greiðslur (afborganir og vextir) sem eru umfram það sem orðið hefði, ef staða lánanna væri eins og hún var bókfærð í stofnefnahagsreikningi, skattleggjast um 95%.  Þó skulu engar tölur tvítaldar.  Bönkunum verður heimilt að draga frá skattstofninum sannanlegar afskriftir sem þeir hafa veitt eða töp sem þeir verða fyrir af þessum lánum, en í staðinn koma þær tölur ekki til frádráttar annars staðar í reikningum þeirra.

Þessi skattur gefur bönkunum í reynd tvo kosti:  1.  Borga skattmann 95% af því sem rukkað er inn umfram yfirtökuvirði lánanna, þ.e. það sem bankarnir greiddu gömlu kennitölunni (og þar með kröfuhöfum hennar) fyrir lánasöfnin.  2.  Skila afskriftunum sem fóru fram í gömlu bönkunum til lántaka eins og lýst er í skýrslu Deloitte LLP, yfirfarið var af Oliver Wyman og samþykkt af slitastjórnum gömlu bankanna og fulltrúum kröfuhafa.

Telji bankarnir að þessi skattur sé ósanngjarn, þá hvet ég bankastjórana að setja sig í okkar spor eru svo kallaðir viðskiptavinir þeirra.  Okkur finnst ekkert sanngjarnt við það að lánin okkar hafi fyrst hækkað upp úr öllu valdi vegna gerða (og aðgerðarleysis) vanhæfra stjórnenda, stjórnarmanna og eigenda gömlu bankanna og svo þegar gömlu bankarnir reyna að leiðrétta skaðann, þá séu nýju bankarnir að drepast úr græðgi og neiti að láta afskriftir gömlu bankanna ganga til okkar.  Ég hef nokkrum sinnum bent á að það hefur fallið dómur í máli svipaðs eðlis, þ.e. rafverktaki fékk afslátt á ljósum sem hann setti upp hjá viðskiptavini og rukkaði viðskiptavininn upp í topp án afsláttar.  Dómstóll skikkaði rafverktakann til að láta afsláttinn ganga til viðskiptavinarins.  Í mínum huga er enginn munur á þessum málum, þ.e. út frá lögunum.  Í báðum tilfellum er vara keypt með afslætti, í báðum tilfellum er viðskiptavinurinn svikinn um að njóta afsláttarins og niðurstaða dómstólsins í máli rafverktakans ætti því að vera fordæmisgefandi fyrir nýju bankana.

Samkvæmt skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankakerfisins, afskrifuðu gömlu bankarnir milli 1.800 og 2.120 ma.kr. af eignum sem færðar voru yfir í nýju bankana áður en þær voru færðar yfir.  Efnahags- og viðskiptaráðherra og SFF hafa upplýst okkur auman almúgann að bankarnir séu búnir að nota 620 ma.kr. af þessu.  Það þýðir að 1.180 - 1.500 ma.kr. eru eftir.  Ef þeir velja að innheimta það allt í topp (eins og þeir hafa verið að reyna), þá gæfi það litlar 1.121. til 1.425 ma.kr. í tekjur fyrir ríkið.  Þá upphæð mætti nota til að greiða upp drjúgan hluta af skuldum ríkissjóðs, sem hann, nota bene, tók á sig vegna afglapa stjórnenda og eigenda gömlu bankanna.  Ef bankarnir velja að rukka bara það sem þeir greiddu fyrir, þá mun efnahagslífið taka kipp, fólk mun fá trú á að réttlæti sé til, bankarnir munu hugsanlega hljóta fyrirgefningu fyrir ósvífni sína og fækka mun í hópi þeirra sem telja að þetta þjóðfélag sé ekki hollt fyrir börnin þeirra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Svei mér þá er þú ert ekki bara búinn að finna lausnina á skuldavanda bæði heimila og ríkissjóðs, á einu bretti.

Marinó sem fjármálaráðherra! ;)

Guðmundur Ásgeirsson, 23.9.2011 kl. 04:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 1681233

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband