Leita í fréttum mbl.is

Hvernig er Ísland í dag?

"Svona er Ísland í dag" er eitthvað sem við látum okkur um varir hnjóta af alls konar ástæðum.  En hvernig er Ísland í dag og hver er ástæðan?

Nýtt embætti, umboðsmaður skuldara, virðist vera það sem mestu skiptir fyrir marga landsmenn.  Þangað leitar fólk mest megni vegna þess að nokkrir "fjármálasnillar" misstu tökin á starfinu sínu.  Í staðinn fyrir að fyrirtækin sem þeir unnu hjá (og sumir vinna hjá nýju kennitölunni) leiðrétti mistökin sem snillarnir gerðu, þá skal hné fylgja kviði og fólk gert eignalaust.  Er þetta ekki merkilegt?  Ef ég starfa hjá heildsölu og geri mistök, t.d. sel viðskiptavini gallaða vöru sem kostar viðskiptavininn háar fúlgur, þá er líklegast að heildsalan leiðrétti mistökin.  En vinni ég hjá fjármálafyrirtæki og geri rækilega í buxurnar gagnvart viðskiptivini mínum, þá koma Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn og reyna að sannfæra viðskiptavininn um að ekkert réttlæti sé í öðru en að hann þrífi skítinn upp, láti mig fá nýjar buxur og hærri laun, auk þess á viðskiptavinurinn að taka á sig allan afleiddan kostnað af því að ég hafi gert í buxurnar, svo sem þrif á húsnæði fjármálafyrirtækisins, að hylma yfir gjörninginn, greiða mér bætur fyrir álitshnekkinn, borga sálfræðihjálp og svo framvegis.  Fjármálafyrirtæki eru nefnilega verndaðir vinnustaðir.  Geri þau eitthvað af sér, þá eru þau vernduð fyrir því að taka afleiðingunum.  Já, svona er Ísland í dag!

Umboðsmaður skuldara er í þeirri sérkennilegu stöðu að koma á samningum milli viðskiptavina fjármálafyrirtækja og fyrirtækjanna um það hve mikið fjármálafyrirtækið fær að innheimta af kröfum sem hækkuðu upp úr öllu valdi vegna áðurnefndu mistaka.  Vissulega voru ekki öll fjármálafyrirtækin beinir gerendur, en ekkert þeirra afþakkaði ávinninginn.  Hvernig sem á það er litið, þá eru fyrirtækin að reyna að innheimta fé sem er m.a. tilkomið vegna þess að mistök starfsmanna fjármálafyrirtækja þykja eðlileg í þessu þjóðfélagi og þau má alls ekki leiðrétta.  Sum þessara fjármálafyrirtækja eru meira að segja, að reyna að innheimta kröfur sem eru ekki einu sinni til í bókhaldi þeirra.  Þau voru nefnilega svo heppin að fá þær á mikið niðursettu verði.  En, eins og ég nefndi áður, þá gilda einar reglur um fjármálafyrirtæki og aðrar um önnur fyrirtæki á samkeppnismarkaði.  Fjármálafyrirtæki mega nefnilega hafa samráð um það að innheimta sem mest.  Því datt fyrirtækjunum, sem keyptu vöruna á niðursettu verði ekki í hug að slá af verði hennar.  Nei, helv.. viðskiptavinurinn skal greiða upp í topp, skítt með það þó við hefðum gert mistök.  (Auðvitað eru það "við" vegna þess að sama fólk vinnur hjá nýju kennitölunni og þeirri gömlu.)  Já, svona er Ísland í dag!

Viðskiptasiðferði fjármálafyrirtækja hvarf út í buskann í kringum einkavæðingu og hefur ekki fundist.  Það er talið af, þó viðskiptavinir fyrirtækjanna hafi ekki gefið upp alla von um að það snúi til baka.  Með viðskiptasiðferðinu hvarf einnig sanngirni, réttsýni og jafnræði, þ.e. jafnræði allra.  Nú er þetta eins og í Animal Farm, að allir eru jafnir, en sumir eru jafnari en aðrir.  Sumir fá nefnilega eðilega, sanngjarna og réttláta skuldaleiðréttingu og heil ósköp til viðbótar, meðan almenningur fær nánast ekkert sem ekki var hvort eð er tapað fyrir fjármálafyrirtækið og því bar samkvæmt alþjóðlegum bókhaldsstöðlum að afskrifa. Já, svona er Ísland í dag!

Stór hluti fyrirtækja er svo illa staddur, að hann á líklegast bara um tvennt að ræða:  Að kasta sér í faðm fjármálafyrirtækjanna eða hætta starfsemi.  Detti einhverjum eitthvað annað í hug, þá er líka eins gott að samkeppnisaðili sé ekki kominn í faðm bankanna.  Hann fær nefnilega syndaaflausn, fyrirgefið, skuldaaflausn og getur því keppt við allt önnur rekstrarskilyrði.  Mér fannst t.d. góður brandarinn hjá starfsmanni byggingavörurfyrirtækis haustið 2009, þegar ég hrósaði fyrirtækinu hvað það væri orðið samkeppnishæft í verði.  "Já, svona er það þegar við erum komnir í eigu ..banka."  Eftir að eitt olíufélag fór í faðm bankans síns, þá sáu tvö í viðbót sig tilneydd til að gera það sama, því annars voru þau ekki samkeppnishæf.  Hvað fær eigendur þessara fyrirtækja til að kasta frá sér eign sinni og láta bankann taka hana yfir?  Líklegast hafa þeir vitað, að mölduðu þeir í móinn, þá færi bankinn bara einhverja aðra leið til að taka fyrirtækið yfir.  Skilvirkast er að loka yfirdrættinum og síðan öllum öðrum lánalínum.  Fyrirtæki sem lendir í þessu, lifir ekki vikuna.  En skuldir fyrirtækjanna höfðu hækkað vegna mistakanna sem ég nefndi áður.  Af hverju mátti ekki leiðrétta mistökin og lækka skuldir fyrirtækjanna þannig?  Nei, það er ekki hægt.  Illa fenginn eða ekki, þá er kröfuréttur fjármálafyrirtækja, svo einkennilegt sem það er, varinn af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.  Það er a.m.k. mat fjármálaráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra og allra þingmanna stjórnarflokkanna og þess vegna væri verið að brjóta á stjórnskrárvörðum rétti fjármálafyrirtækjanna að fá þau til að skila hinum illa fengna ávinningi.  Já, svona er Ísland í dag!

Nú þykir einhverjum sem ég sé ósanngjarn í garð fjármálafyrirtækjanna.  Sum þeirra tóku ekki þátt í einu eða neinu og önnur voru ekki einu sinni til þegar allt hrundi.  Ég man ekki eftir einu einasta fjármálafyrirtæki, sem sagði:  "Ég tek ekki þátt í þessu!" eða "Ég þigg ekki verðbæturnar sem leggjast á lánin vegna græðgi bankamanna."  Ekki sagði Íbúðalánasjóður þetta, ekki sögðu lífeyrissjóðirnir þetta og ekki einu sinni litlu sparisjóðirnir sem stóðu kreppuna af sér.  Nei, allir tóku með glöðu geði við arðinum, gróðanum af afglöpum bankamannanna, vegna þess að þannig er það sem fjármálafyrirtæki vinna.  Þeim er alveg sama hvernig hækkun lánanna er tilkomin, heiðarlega eða ekki, þeir taka öllum hækkunum opnum örmum.  Og hefur þeim dottið í hug að skila einhverju?  Já, af um 5-700 ma.kr. hækkun verðtryggðra lána frá seinni einkavæðingu til dagsins í dag (nenni ekki að reikna þetta nákvæmlega), þá ætla Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðirnir að skila í mesta lagi 50 mö.kr.  Restinni ætla þeir að halda, þó svo að þeir viti að þessar hækkanir eru tilkomnar vegna vísvitandi, óheiðarlegra aðgerða annarra fjármálafyrirtækja til þess einmitt að hækka lánin.  Kannski er ekki öll upphæðin komin til vegna þessa, en mun meira en þessir skítnu 50 ma.kr. sem á að skila.  Já, svona er Ísland í dag!

Þar sem viðskiptasiðferðið hvarf, þá verð ég að ganga út frá því að innan fjármálafyrirtækjanna ríki siðleysi.  Það lýsir sér m.a. í því að í staðinn fyrir að bankarnir þrír lækki lán viðskiptavina sinna til samræmis við hið niðursetta verð, sem þau voru yfirtekin á, þá hreyfist höfuðstóllinn bara upp á við.  Ok, höfuðstóll áður gengistryggðra lána lækkaði hjá flestum, en það eru líka einu mistökin sem hafa verið leiðrétt, en ekki fyrr en Hæstiréttur kvað upp úr um það.  Og meira segja þó hann hafi gert það, þá tregðast ennþá sum fjármálafyrirtækin við.  Þau ætla nefnilega að láta reyna á það hvort önnur kommusetningin í einni línu breyti niðurstöðu málsins.  En ég var að tala um siðleysið.  Það er siðlaust, að krefja viðskiptavin um 10 m.kr. fyrir lán sem bankinn tók yfir á 5 m.kr.  Raunar er það ekki bara siðlaust, það er glæpsamlegt. Já, svona er Ísland í dag!

Halda nýju bankarnir virkilega að fólk gleymi þessari framkomu í þess garð?  Verið getur að í augnablikinu séu ekki aðrir kostir en að eiga viðskipti við kvalara sinn, en geti lítill sparisjóður í Þingeyjasýslu dregið til sín í viðskipti stóran hóp Reykvíkinga, hvernig ætli þetta verði þegar ný innlánsstofnun opnar dyr sínar á höfuðborgarsvæðinu.  Þá mun fólk muna eftir því hvernig bankarnir fóru með (viðskipta)vini sína og drífa sig eitthvað annað með viðskiptin.  Ætli það sé Ísland framtíðarinnar!

Annars er ég þannig gerður, að ég vil ekki gefa upp alla von um að nýju bankarnir sjái villu síns vegar.  Arion banki segist ekki eiga neitt eftir og kannski er það rétt.  Tölur í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankanna gefa annað í skyn, að ég tali nú ekki um hagnaður bankans.  Vandi bankanna er að trúverðugleiki þeirra er enginn.  Glitnir, Landsbanki Íslands og Kaupþing sáu um að fórna honum á altari græðginnar ásamt ýmsu öðru sem var fúslega fórnað á kostnað viðskiptavina.  Ekki hafa þeir heldur gert margt til að ávinna sér trúverðugleika.  Núna tæpum þremur árum frá hruni telja þeir að góður hagnaður sé styrkleikamerki, þegar hann ber aftur vott um siðleysi í augum almennings.  Græðgi.  "Sértu velkomið, 2007!" var það fyrsta sem mér datt í hug, þegar bankarnir birtu hagnað sinn.  Fór eitthvað af honum í samfélagsleg verkefni?  Nei, vitaskuld ekki.  Hann á að renna til eigendanna.  Já, svona er Ísland í dag!

Nú stjórnvöld eru síðan kapituli út af fyrir sig.  Fyrst var það ríkisstjórn Geirs H. Haarde, sem gat ekki sinnt nema einu verki í einu, þ.e. björgun bankanna.  Engum þar á bæ datt í hug að sporna þyrfti við aukningu atvinnuleysis.  Þá koma þriggja mánaðastjórn VG og Samfylkingar með stuðningi Framsóknar.  Hún einbeitti sér að endurreisn bankanna.  Aftur fórst gjörsamlega fyrir að sporna við auknu atvinnuleysi.   Svo koma núverandi ríkisstjórn.  Enn var það endurreisn bankanna og samningar um hana og mál tengd hruninu.  Ekkert bólaði enn á þvi að reynt væri að sporna við aukningu atvinnuleysis.  Hafa menn ekki heyrt minnst á "multi-tasking"?  Mér skilst að fjögur störf hafi orðið til fyrir atbeinan ríkisstjórnarinnar á Vestfjörðum!  Já, heil fjögur störf.  Þremur árum eftir hrun eru menn að hugleiða það að byggja spítala sem við munum aldrei hafa efni á að reka.  Nýbúið er að opna tónlistar- og ráðstefnuhús, sem stendur ekki undir sér, fyrir starfsemi sem er haldið uppi af ríkissjóði.  Hvar er atvinnuuppbyggingin sem átti að fara í gang haustið 2009?  Vissulega hefur atvinnuleysi minnkað samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar, en gleymum því ekki að nokkrir tugir þúsunda hafa flutt úr landi, gríðarleg fjölgun hefur orðið í háskólum og síðan hafa sumir verið svo lengi atvinnulausir, að þeir eru dottnir út af skrám!  Já, svona er Ísland í dag!

Ég skil vel að þörf hefur verið á því að loka fjárlagagatinu.  Lántökur ríkissjóðs fóru úr 20 ma.kr. í 2.000 ma.kr. á 60 sekúndum og af þessum lánum þarf að greiða vexti.  Í staðinn fyrir að hirða allan hagnað af nýju kennitölum fjármálafyrirtækjanna sem keyrðu allt í kaf, þá fá þau að halda honum en almenningur er skattpíndur eins og hægt er og þegar ekki er hægt að ganga lengra í þá áttina, þá er velferðarkerfið skorið við nögl.  Þannig hefur ríkinu tekist að gera fleiri atvinnulausa og fært kostnað af einum lið fjárlagafrumvarpsins yfir á annan.  Málið er að atvinnulífið borgar fyrir þann lið!  Hugmyndir sem byggjast á atvinnusköpun, laða að erlenda fjárfestingu, gera rekstrarumhverfi fyrirtækja betra með því að nýju bankarnir skili til þeirra afslættinum sem þeim var svo rausnarlega veittur, og fleira í þá áttina eiga að því virðist ekki upp á pallborðið.  Kannski óttast menn að árangurinn verði góður og þá geti menn hætt að tala hve allt er erfitt.  Í hagfræði er til ákaflega skemmtileg formúla um samspil framboðs og eftirspurnar.  Hún sýnir áhrif á eftirspurn, ef krónunum er fækkað sem hægt er að nota í neyslu.  Ég hvet fjármálaráðherra til að kynna sér virkni hennar.  Ég hvet hann líka til að skoða hver efnahagsleg áhrif gætu orðið að því að skikka bankana þrjá með lagasetningu að skila orðalaust og án tafa 80% af þeim afslætti sem þeir fengu til viðskiptavina sinna eins og þessi afslættir voru skilgreindir og reiknaðir út í skýrslu Deloitte LLP í London og staðfest var og yfirfarið af Oliver Wyman.  Samkvæmt tölum ráðherrans sjálfs, þá eru þetta á bilinu 1.200 til 1.500 ma.kr. og þar af segjast bankarnir vera búnir að nýta 620 ma.kr.  Ef skuldir eru lækkaðar um 600 - 900 ma.kr. til viðbótar, þá er ég viss um að atvinnulífið muni glæðast og störfum fjölga og fjárlagagatið minnka og velta aukast og velferðarkerfið styrkjast og bankastarfsemi eflast og, og, og...  Svona gæti Ísland verið á morgun!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll Marinó; æfinlega !

Í hnotskurn; nákvæmlega, er staða mála - ekki að furða, þó sumir fái hland fyrir hjartað, tækju Kínverjar - sem aðrir fjarlægir, upp á því, að reyna að koma Íslendingum á fætur, á ný - og fjarlægja það lið, sem niðurnítt hefir okkur, árin löng - og eiga samt, að teljast samlandar okkar (Stjórnsýsla; sem og svokallað Banka kerfi).

Með beztu kveðjum; sem jafnan, úr Árnesþingi, utanverðu /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 22.9.2011 kl. 20:59

2 identicon

Punktur

mbk.

Benedikt. (IP-tala skráð) 22.9.2011 kl. 21:08

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Þetta er nákvæmlega það sama og ég sé.

Þú gætir notað kjarnann í þessari grein fyrir ræðu 1. október.

Hrannar Baldursson, 22.9.2011 kl. 21:20

4 Smámynd: Dexter Morgan

Minnstu nú ekki á umboðsmann sluldara ógrátandi. Þetta apparat var búið að eyðileggja, áður en það komst á koppinn, þökk sé viðskiptaráðherra sem ætlaði að koma einkavini og flokksfélaga að kjötkatlinum. Þessi kona sem þarna er í forsvari er máttlaus strengjabrúða í höndum stjórnvalda (ÁPÁ). Svo auglýsir þessi stofnun "þjónustu" sína eins og hver önnur pylsusjoppa eða vídeóleiga. Alveg eins og verið sé að reyna að lokka "viðskiptavini" til lags við sig. Það er skömm að þessu. En, eins og æfinlega, góður pistill hjá þér Marinó.

Dexter Morgan, 22.9.2011 kl. 21:36

5 identicon

 Það er engu við þetta að bæta.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 22.9.2011 kl. 21:56

6 identicon

Þessi pistill er summan af því sem flestir Íslendingar hugsa. Ránið sem fangelsismatur bankana framdi var nógu slæmt, ég verð verulega vonsvikin ef færri en 100 bankamenn/fjárrónar sitja ekki í steininum áður en yfir líkur.

Ránið sem stjórnvöld hafa staðið að síðan er algerlega ófyrirgefanlegt, ránið þegar stjórnvöld með opin augun um bjartan dag seilast í vasa fólks og rýr það aleigunni.

Handvirk gengisskráning og misgengi verbóta og launa hreinsar upp ævisparnað venjulegra Íslendingaog færir aurin þeim er síst skildi. Þetta er engin tilviljun, þetta er gert með ráðnum hug.

Það verður aldrei fyrirgefið, við þekkjum andlitin og kunnum nöfnin.

Jónas Jónsson (IP-tala skráð) 22.9.2011 kl. 22:50

7 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Mjög góð færsla Marinó,

núna er bara eftir að neyða þá til að gera þetta!

Gunnar Skúli Ármannsson, 23.9.2011 kl. 19:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 1681233

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband