Leita í fréttum mbl.is

Vörslusviptingar og dómar Hæstaréttar 16/6/2010

Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður, skrifar pistil á Pressunni um vörslusviptingar.  Þar fer hann yfir að það sé réttur fjármögnunarleigu að vörslusvipta umráðamann bifreiðar bifreiðinni ef vanefndir verða á samningi.  Ég ætla ekki að ræða um allt sem Brynjar fjallar um en verð þó að ræða tvö atriði. 

Brynja vitnar m.a. til tveggja dóma Hæstaréttar nr. 92/2010 og 153/2010 frá 16. júní 2010 og segir dómana ekki fordæmisgefandi fyrir "leigusamninga", þar sem þeir hafi snúist um ágreining vegna gengistryggingar.  Orðrétt segir Brynjar:

Ákvæði samningsins um gengistryggingu var vikið til hliðar en önnur ákvæði héldu gildi sínu.

Þetta er bara ekki rétt og er sorglegt að Brynjar skuli snúa á þennan hátt út úr dómunum.

Hæstiréttur tók á nokkrum álitaefnum í dómum sínum.  Eitt þeirra var hvort um lán eða leigu væri að ræða.  Fer rétturinn nokkuð ítarlega í þetta atriði og kemst að þeirra niðurstöðu að um lánssamninga væri að ræða en ekki leigu samninga.  Þar með ógildir rétturinn í reynd öll ákvæði samninganna sem snúa að leigu, leigukjörum o.s.frv.  Hann víkur til hliðar þeim atriðum samninganna er varðar þessi atriði.

Ég hef ekki þekkingu til að vita hvort þetta skiptir máli varðandi rétt til vörslusviptinga, en þetta atriði sýnir eitt og sér, að Brynjar fer ekki með rétt mál.

Brynjar lýsir því í grein sinni að grundvallarforsenda bílasamnings sé að staðið sé í skilum.  (Hann notar annað orðalag.)  Það mál sem varð til þess að Samtök lánþega leituðu til innanrikisráðherra sneri að rétti einstaklings til greiðsluskjóls með mál viðkomandi var í meðferð hjá umboðsmanni skuldara.  Fjármögnunarleigufyrirtæki hafði ákveðið að hunsa lög sem kváðu á um þennan rétt lántakans og vörslusvipta viðkomandi þann bíl sem viðkomandi hafði keypt á láni frá fyrirtækinu.  Með því að komast í greiðsluskjól, þá hverfur skuldin ekki.  Lánafyrirtækið það fær sína vexti eftir sem áður, a.m.k. þar til niðurstaða er komin í mál viðkomandi hjá umboðsmanni skuldara.  En hér sýnir lánafyrirtækið einstaka ósvífni og hyggst taka bifreið af einstaklingi, þrátt fyrir að einstaklingurinn sé að nýta sér lög sem augljóslega víkja ákvæðum samnings um greiðslur til hliðar.

Þannig að mér sýnist Brynjar klikka á þeim þætti.  Það voru ekki dómar Hæstaréttar sem ógiltu ákvæði um rétt til vörslusviptingar (a.m.k. tímabundið), heldur eru það lög um greiðsluaðlögun nr. 101/2010.  Í 11. gr. laganna er fjallað um frestun greiðslna á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.  Þar segir m.a.:

Þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn hefst tímabundin frestun greiðslna, sbr. þó 3. mgr.  Á meðan á frestun greiðslna stendur er lánadrottnum óheimilt að:

a. krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum,

b. gjaldfella skuldir samkvæmt samningsbundnum heimildum,

c. gera fjárnám, kyrrsetningu eða löggeymslu í eignum skuldarans eða fá þær seldar nauðungarsölu

..

Já, ég fæ ekki betur séð en fjármögnunarleigunni sé óheimilt að nýta sér vörslusviptingarákvæði samninganna, þar sem óheimilt er að gjaldfella skuldina samkvæmt samningsbundnum heimildum eða að gera löggeymslu í eignum skuldarans.  Nú er vörslusvipting eitt form löggeymslu og forsenda vörslusviptingar er gjaldfelling.  Úps, hvorugt er heimilt meðan viðkomandi umráðamaður er í greiðsluskjóli.  (Auðvitað verður hártogast um það hvort bifreiðin sé eign viðkomandi.)

Ef við leggjum nú saman þann hluta dóma Hæstaréttar sem fjalla um að leigusamningar séu lánssamningar og að bæði er óheimilt að gjaldfella skuld og gera löggeymslu í eign skuldara, þá fæ ég ekki betur séð en að vörslusviptingar hjá einstaklingi í greiðsluskjóli skv. lögum nr. 101/2010 séu óheimilar.  Það er því fjármögnunarleigan sem er að brjóta lög með vörslusviptingunni, en ekki umráðamaður bifreiðarinnar með því að víkja sér undan vörslusviptingunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég er með mál í höndunum þar sem SP hefur um hríð reynt að innheimta samning sem var búinn til einhliða án þess að nokkurn tíma hafi verið leitað eftir undirskrift. Vissulega kunna lögmætar eftirstöðvar viðskipta málsaðilanna að vera að einhverju leyti óuppgerðar, en ágreiningur er hinsvegar uppi um hver skuldi í raun hverjum og hversu mikið. Því miður eru mál sem þessi langt frá því að vera einsdæmi.

Þegar fölsunin uppgötvaðist var auðvitað hætt að greiða af samningnum. Nokkrum hótunarbréfum seinna barst erindi frá CreditInfo um að meintar "vanefndir" hafi verið færðar í vanskilaskrá. Því næst barst tilkynning um riftingu hins falsaða samnings og innköllun bifreiðar í eigu viðkomandi sem á hvíla engin þinglýst veðbönd. Það er auðvitað það eina rétta að rifta samningi sem er ólöglegur, en hinsvegar vakti krafa um að viðkomandi láti af hendi eign sína talsverða furðu.

Í millitíðinni fór viðkomandi einstaklingur í greiðsluskjól á meðan umsókn um greiðsluaðlögun bíður afgreiðslu. Skömmu seinna kom svo símtal frá Vörslusviptingum-LMS ehf. þar sem skorað var á viðkomandi að semja um meinta skuld og því hótað að annars yrði fjölskyldubíllinn tekinn ófrjálsri hendi. Þar sem viðmælandinn reyndist ekki hafa starfsleyfi til að starfrækja leyfisskylda innheimtuþjónustu í atvinnuskyni var þessu ósvífna símtali vísað til föðurhúsanna og nú 7 vikum seinna bólar enn ekki á neinum kranabílum fyrir utan heimili viðkomandi. 

Málið tók hinsvegar nánast grátbroslega stefnu um mánaðamótin eftir umrædda tilraun til fjárkúgunar og gertækis, þegar inn um bréfalúguna barst greiðsluseðill. Viti menn, þar var um að ræða innheimtu á næsta gjalddaga hins falsaða samnings, sem átti þó að vera búið að rifta samkvæmt fyrra bréfi þar að lútandi. Um þarnæstu mánaðamót á eftir barst svo greiðsluseðill númer tvö frá því að meintum samningi átti að hafa verið rift. Það mætti halda að í Sigtúni 42 og á Tangarhöfða 9 sé að finna rifur á veruleikanum þar sem allt verður að þversögn.

Guðmundur Ásgeirsson, 3.9.2011 kl. 12:53

2 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Guðmundur:  Ég held að hugtakið sem ég myndi nota um þessi fyrirtæki væri að þau væru í "Alternate universe";)  Fúskið er svo ofboðslegt í fjármálageiranum á Íslandi, var og er því miður enn.

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 3.9.2011 kl. 16:53

3 identicon

Eygló Harðar Alþingismaður hefur ritað pistla þar sem hún rekur að bílar sem voru á svokölluðum kaupleigusamningum séu í raun rangt skráðir hjá umferðarstofu sem eign fjármögnunarfyrirtækjanna.

Fyrirtækin hafi aldrei fært þessa bíla sem eign í sitt eigið bókhald, hafi aldrei keypt þessa bíla og reyndar ekkert komið nálægt þeim viðskiptum.

 Hæstiréttur hefur svo úrskurðað að þessir samningar séu ekki til sem leigusamningar, heldur hafi þessi fyrirtæki bara veitt lán.

 Fyrirtækin eiga því ekkert í þessum ökutækjum þótt umferðarstofa þráist við að leiðrétta rangar skráningar á eignarhaldi ökutækjanna.

Þess vegna er það ekkert annað en þjófnaður þegar fyrirtækin senda vörslusviptingarfyrirtæki heim til fólks að sækja ökutæki án dómsúrskurðar.

 Þjófnaður er sakamál, og því lögreglumál og alveg fráleitt að lögreglan vísi því frá sér þegar óskað er eftir lögregluaðstoð þegar fólk tilkynnir bílaþjófnað.

Sigurður (IP-tala skráð) 3.9.2011 kl. 19:44

4 identicon

Viðbót:

Ögmundur svarar Brynjari afskaplega vel hérna og sópar burtu röksemdum Brynjars að það sé einhver réttlæting eða vörn að það sé ódýrara og hagkvæmarar fyrir fjármálafyrirtækin að sleppa dómsúrskurðinum.

En það var einmitt eitt atriðið sem Brynjar notað sem afsökun fyrir fjármálafyrirtækin að það yrði svo dýrt fyrri þau að fara að lögum og fá dómsúrskurð fyrst.

http://mbl.is/frettir/innlent/2011/09/03/ogmundur_svarar_brynjari_2/

Sigurður (IP-tala skráð) 3.9.2011 kl. 19:50

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það er svo margt í málflutningi Brynjars Níelssonar sem mér sýnist ekki standast nema út frá mjög þröngu sjónarhorni.  Svo þröngu raunar, að það þarf virkilega að leggja sig fram til að fá það útsýni og um leið verður maður að útiloka allt annað sem mælir gegn því.  Þarna verður formaður Lögmannafélagsins sekur um það sem kallað er Tunnel vision (þó ekki með vísan til sjúkdómsins), þ.e. sér bara takmarkaðan hluta heimsins og hunsar allt annað.

Marinó G. Njálsson, 4.9.2011 kl. 14:40

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sigurður: Varðandi hina röngu eigendaskráningu, þá átti ég óformlegt samtal við lögfræðing Umferðarstofu þar sem ég útskýrði stöðuna fyrir henni. Tilgangurinn var ekki að fá neina afstöðu stofnunarinnar í málinu, heldur að forvitnast um hvaða möguleikar væru til að leiðrétta þetta í opinberum skrám. Svarið var á þá leið að samkvæmt venjubundnu ferli þyrfti að berast eigendaskiptatilkynningar frá þegar skráðum eiganda, sem sagt fjármálafyrirtækjunum sem eru aðilar að bíla"samningunum". Ég benti auðvitað á að miðað við fordæmi sögunnar væru litlar líkur á að það myndu þau gera ótilneydd, og lögmaðurin virtist átta sig á hvað ég var að fara með því en hafði lítil svör til að veita í svona óformlegu spjalli, nema að benda á þann möguleika að höfða einkamál. Nú er alveg ljóst að þeir sem eru í erfiðri stöðu vegna stökkbreyttra lána eru ekki líklegir til að hafa mikla burði til að halda úti málarekstri. Eftir stendur að þetta verður ekki leiðrétt með almennum hætti nema með einhverskonar stjórnvaldsákvörðun sem fyrirskipar það og frumkvæðið til þess virðist því miður vera af skornum skammti.

Annað sem hefur verið ranglega skráð eru gengistryggðu lánin í bókhaldsskýrslum bankanna, sem er í raun margfalt stærra afbrot. Þau voru allt fram að dómsuppkvaðningu um gengistryggingu, skráð samkvæmt fyrirmælum Seðlabanka Íslands í bókhaldsskýrslur bankanna sem erlendar eignir, og rötuðu sem slíkar inn í samtölur um erlenda stöðu þjóðarbúsins í opinberum þjóðhagsskýrslum. Lestu þetta aftur og veltu þessu aðeins fyrir þér. Já opinberlega uppgefin erlend staða íslenska þjóðarbúsins var fölsuð um fleiri hundruð milljarða, þar sem aldrei var um að ræða raunverulegar erlendar eignir helur krónulán til aðila sem voru að mestu leyti innlendir eða a.m.k. íslenskir með pósthólf í Luxembourg. Á móti þessum "erlendu eignum" tóku bankarnir á sig erlendar skuldbindingar, þar á meðal IceSave, og allt það lausafé sem þannig var aflað í ófölsuðum gjaldeyri endaði í "Money Heaven" sem er mögulega að finna á bresku jómfrúareyjum. Gaman væri að vita hvort þessi bókhaldsaðferð er ennþá við lýði, fyrirmælin voru allavega ennþá á vef Seðlabankans síðast þegar ég gáði í ágústmánuði.

Guðmundur Ásgeirsson, 5.9.2011 kl. 01:51

7 identicon

Sæll Guðmundur, varðandi ranga eigendaskráningu hjá umferðarstofu þá efast ég um að stjórnvöld geti beinlínis skipað þessum fyrirtækjum að breyta skráningunni.

Nema t.d. að dómur hafni kröfu um vörslusviptingu á þeim forsendum að fyrirtækið eigi ekkert í bílnum og að hann sé ranglega skráður á fjármögnunarfyrirtækið eftir að Hæstiréttur úrskurðaði að þessi bílar væru ekkert á kaupleigu, heldur aðeins á venjulegu láni.

Þetta er eflaust ein ástæðan að þessi fyrirtæki vilja ekki dómsúrskurð, því þau vita að þau myndu aldrei fá hann, en þau vita líka að það hefur engar afleiðingar að sniðganga þessi lög og stela einfaldlega bílunum.

Það sem þarf að gera, er að það verður að hafa einhverjar afleiðingar fyrir þessi fyrirtæki þegar þau brjóta lög í landinu.

Hingað til hafa yfirvöld veitt þessum fyrirtækjum frítt spil til að haga sér eins og þau vilja, og þau gera nákvæmlega það sem þeim dettur í hug, þegar þeim dettur í hug því það virðist enginn þurfa að taka ábyrgð á því, og það hefur engar afeliðingar, hvorki fyrir fyrirtækin sjálf né stjórnendur þeirra.

Þessi fyrirtæki virðast gera hagað sér eins og einhver fríríki í ríkinu, hafin yfir öll lög og reglur í landinu.

Ég hef sagt það áður að ég tel hann Gunnar Andersen bera mikla ábyrgð á þessu ástandi, þessi maður slær aldrei á neina putta og virðist skipta sér sem allra minnst af þessum fyrirtækjum.

Sjálfum finnst mér það ekkert langsótt að hann þori því ekki, t.d. vegna þess að innan bankanna eru menn sem vita hvað Gunnar var sjálfur að aðhafast í Landsbankanum á sínum tíma og ekkert víst að það sé allt komið upp á yfirborðið varðandi hans störf þar.

En einnig hefur núverandi ríkisstjórn marg líst því yfir að fjármálafyrirtæki verða ekki látin bera neinn skaða af dómsmálum sem almenningur kann að vinna gegn þeim, og það gefur þeim auðvitað enn meira skjól, þegar það er nánast komin ríkisábyrgð á glæpina.

Varðandi falsaða stöðu bankanna í erlendum eignum þá virðist það vera rétt að Seðlabankinn hafi tekið beinan þátt í að falsa þessa eignastöðu og þetta hefur m.a. Gunnar Tómasson lengi bent á og skrifað um, bæði til þingmanna og eins inni á Eyjunni og blogginu hjá Agli Helga.

En það er ekki bara Seðlabankinn, FME og ríkisstjórnin, heldur virðast skattayfirvöld vera alveg ófáanleg til að taka til rannsóknar meint VSK skattsvik bílalánafyrirtækjanna, en það virðist vera algerlega upplýst að t.d. SP fjármögnun hafi staðið í stórfelldu svindli á VSK kerfinu, og líklega öll fyrirtækin.

Ekki bara VSK á bílunum sjálfum, heldur rukkuðu þau líka VSK á þykjustu viðgerðum á bílum sem þau tóku af fólki, viðgerðum sem aldrei fóru fram og áttu sér aldrei stað.

Það er marg búið að benda á þetta, en það fæst enginn til að rannsaka þessi brot.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 5.9.2011 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 1678196

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband