Leita í fréttum mbl.is

Fjármálafyrirtækin viðurkenna að hafa reynt að hafa a.m.k. 120 ma.kr. ólöglega af heimilunum

Samtök fjármálafyrirtækja segja að lán heimilanna hafi verið færð niður um 143.9 milljarða króna frá bankahruni.  Þetta kemur fram í frétt á mbl.is.  Flott, ef satt væri!  Það er rétt að lánin hafa lækkað sem þessu nemur, en 119,6 milljarðar af þessari tölu er ekki vegna góðmennsku fjármálafyrirtækjanna heldur vegna þess að þau voru staðin að lögbroti.  Þetta er sem sagt sú tala sem FME, SÍ og stjórnvöld leyfðu fjármálafyrirtækjunum að innheimta ólöglega af heimilum landsins.  Þessu til viðbótar hafa fyrirtækin síðan lækkað skuldir um ríflega 24 ma.kr.

Já, góðmennska fjármálafyrirtækjanna gagnvart heimilum landsins hljóðar upp á 24 ma.kr.  Ekki er það nú ofrausn. Þessir 24 ma.kr. skiptast þannig að 18,7 ma.kr. er vegna þess að fjármálafyrirtækin ætla að afskrifa lán umfram 110% veðhlutfall, þ.e. þau ætla að afskrifa lán án veða.  Þetta er það sem heitir sokkinn kostnaður.  Tæpir 5,6 ma.kr. hafa síðan verið afskrifaðir vegna sértækrar skuldaaðlögunar.

Ætli fjármálafyrirtækin séu öll að tapa á þessu?  Lífeyrissjóðirnir hafa fært lán sín niður um 200 m.kr. sem er vel innan allra skekkjumarka, en telst þó bein afskrift.  Íbúðalánasjóður hefur þegar fært niður 1,6 ma.kr. sem lendir vissulega á skattborgurum, en talan er langt innan þeirra marka sem blásið var út sl. haust að aðgerðin myndi kosta sjóðinn.  Þá eru það bankar og önnur fjármálafyrirtæki.  Sparisjóðirnir eru með þremur undantekningum búnir að fá verulegan afslátt af útistandandi skuldum sínum.  Tapi þeirra vegna afskrifta/niðurfærslu/leiðréttinga hefur því þegar verið mætt.  Þá standa eftir bankarnir þrír: Arion banki, Íslandsbanki III. og Landsbankinn.  Allir fengu þeir verulegan afslátt af lánasöfnum heimilanna við flutning þeirra frá hrunbönkunum.  120 ma.kr. var náttúrulega illa fengið fé með lögbrotum og því ekki lögmæt krafa.  Eftir standa þá líklegast vel innan við 22 ma.kr. sem auðveldlega að rúmast innan þess afsláttar sem bankarnir fengu.  Það sem meira er, að bankarnir munu eiga nokkuð drjúgan hluta eftir af afslættinum.

Hver er fréttin?

Fréttin hér ætti að vera:

Samkvæmt útreikningum fyrirtækja innan Samtaka fjármálafyrirtækja, þá hafa fyrirtækin þegar leiðrétt lán viðskiptavina sinna um 119,6 ma.kr. vegna lögbrota sem fólust í gengisbindingu lána.  Enginn hefur verið dreginn til ábyrgða vegna þessarar grófu tilraunar fyrirtækjanna til að hafa af viðskiptavinum þeirra þessa fjármuni.  Þá hafa fyrirtækin ákveðið að afskrifa 18,7 ma.kr. af þegar töpuðum kröfum, þ.e. kröfum utan veðbanda, og 5,6 ma.kr. af kröfum sem hvort eð er myndu tapast eða voru þegar tapaðar, þ.e. ýmist eða bæði utan grieðslugetu eða utan veðbanda.  Með þessum aðgerðum tekst fyrirtækjunum samt að búa til gríðarlegan hagnað með því að skila ekki til viðskiptavina sinna nema hluta þess afsláttar sem fyrirtækin fengu frá Glitni, Kaupþingi og Landsbanka Íslands þegar lánasöfnin voru færð yfir.


mbl.is Lán lækkuð um 143,9 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og ekki gleyma því Marinó að þessir "snillingar" koma til með að þurfa að færa þetta enn frekar niður þegar kemur í ljós að Hæstiréttur fór á snið við lög þegar hann dæmdi að gengislánin skyldu bera okurvexti í stað þess að bera enga vexti.

Það verður gaman að sjá hvaða PR brellu þeir nota þá.

Arnar (IP-tala skráð) 31.8.2011 kl. 17:36

2 identicon

Hvað skyldu þessi lán hafa hækkað mikið við hrun krónunnar?

Hverjir voru aftur aðalleikendurnir í falli krónunnar?

Hvaða kennitöluflakkarar fengu þessi lán með góðum afslætti?

Afsakiði meðan ég æli!

Séra Jón (IP-tala skráð) 31.8.2011 kl. 19:51

3 identicon

Jamm ... þú gleymir einu Marino ... vöxtum.

Af 120 milljörðunum eru vextir og hagnaður .. allt upptækt ef ríkisstjórnin svo kýs. Hef það frá saksóknaraembættinu að hagnaður af ólögmætri athöfn sé upptækur af því opinbera.

Svo .... af hverju ... eru fjármálafyrirtækin ekki að skila þessum ólögmæta ávinning til bónda og biðukollu ?

Ef krafan var skráð sem eign liggur í augum uppi að hún hefur ávaxtað sig eða verið nýtt .... svo hver var hagnaðurinn af sýndareigninni ?

Og ekki heyrist múkk í Mávinum né Andarsyni. Vill Steingrímur ekki peninga í kassann sem eru fengnir sem ávöxtun á ólögmætum kröfum ?

Ég hef ákaflega takamarkaða trú á að flatjarðarfræðingarnir hafi ekki haft tök á að búa til pening úr 120 milljarða eign.

Hlynur Jörundsson (IP-tala skráð) 31.8.2011 kl. 22:37

4 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Ég vona ða Marinó fyrtist ekki þó ég fari útfyrir efnið. En ég kann þér bestu þakkir fyrir langa baráttu þína og skrif. Þau eru auðskilin og þau hafa staðist fyrir dómi.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 31.8.2011 kl. 23:12

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þessi tala, 120 milljarðar, er álíka mikið og framúrkeyrslan á fjárlögum síðasta árs.  120 milljarðar er líka svipað og nýju bankarnir hafa grætt frá því að þeir voru stofnaðir utan um eignasöfn sem keypt voru á hálfvirði. Sem þýðir að allt sem er ekki afskrifað niður í helming bætist við hagnað bankanna, ofan á þessa áður fengnu 120 milljarða.

Það sem bankarnir hafa raunverulega afskrifað fyrir heimilin er hinsvegar minna en Harpan kostaði. Og þeir gerðu það ekki nema vegna þess að þeir voru neyddir til þess.

Pælið í því þegar þið rífið umslagið utan af næsta innheimtuseðli.

Guðmundur Ásgeirsson, 1.9.2011 kl. 03:05

6 identicon

Fín greining Marinó, eins og svo oft áður.

En gleymdu því ekki að setja þessar tölur svo allar í samhengi við þá staðreynd, að STJÓRNVÖLDIN í landinu, ákváðu sem allra skjótast að þrýsta á "nýju bankana", sem n.b. voru endurreistir með fjárframlögum og ábyrgðum ríkisins, strax eftir bankahrunið að leggja fram 200 milljarða til að "kaupa ónýtar eignir peningamarkaðssjóðanna", enda þurfti þar að leggja fram fé til bjargar fjármagnseigendum og nokkrum pólitíkusum, sem höfðu veitt þesssum sömu sjóðum nafn sitt og persónulegar ábyrgðir sem stjórnarmenn skv. ákvæðum hlutafélagalaga.  Þetta kemur vel fram í fundargerð stjórnar Glitnis banka hf., þar sem tekin var ákvörðun um þessi óbeinu ríkisframlög, en stjórnarmenn þar voru nægjanlega klókir, til þess að láta þess getið að ávkörðunin hefði verið tekin vegna þrýstings frá þáverandi forsætis-, fjármála- og viðskiptaráðherrum (Geir Haarde, Árni "dýri" Matt, og Björgvin G Sigurðsson).

Allt verður þetta svo hjákátlegt, þegar haft er í huga hvað sú mikla barátta Hagsmunasamtaka heimilanna, Samtaka Lánþega og þeirra örfáu lögmanna sem staðið hafa vaktina, hefur í raun litlu skilað, þrátt fyrir góðan málsstað sem byggir auk þess á gildandi lögum.  Kórrétt að baráttan um gengistryggðu lánin hefur skilað heimilunum 120 milljörðum,en allt skv. dómsniðurstöðum Hæstaréttar!

Niðurstaðan er einfaldlega sú, að hér eru í gangi mestu eignatilfærslur sem átt hafa sér stað frá því að land byggðist, allt í skjóli ríkjandi stjórnvalda og spilltra hagsmunaaðila (ASÍ, SA, LÍÚ svo dæmi séu nefnd, að ógleymdri "Íslensku Mafíunni", lífeyrissjóðunum).

Furðulegt, hvað þjóðkjörnir fulltrúar eru bíræfnir í því að troða rétt af umbjóðendum sínum (heimilin í landinu og þjóðin) í þágu spilltra og gráðugra valdaafla sem stýra úr bakherbergjunum og borga svo þetta sama lið inn á þing, með illa fengnu fé.  Allt blasir þetta við, en enginn gerir neitt raunhæft í málinu, því miður.

E.t.v. berst hjálpin frá Brussel, ef ESA og þá í framhaldinu EFTA dómstóllinn virða Evrópureglur um neytendavernd í svörum sínum.

Hafðu þökk fyrir ötula baráttu Marinó og málefnalegan málflutning.

4runner (IP-tala skráð) 1.9.2011 kl. 08:18

7 identicon

Eitt skil ég ekki varðandi þessa 110% leið, það er raunverulegar afskriftir umfram 110%. Af hverju á það að kosta ríkið eitthvað hvort sem það eru bankarnir eða ÍLS. Skv. alþjóðlegum lögum og reglum um fjármalastofnanir (Basel) þá ber stofnunum að setja til hliðar pening vegna niðurfærslu á kröfum umfram veð, það er allt yfir 100 % veðsetningu. Þannig að í raun kostar þetta ríkið ekki neitt.

Og ég velti fyrir mér hvort það hafi ekki verið afsökun til almennings að veita ÍLS þessa milljarða í tengslum við 110% þegar því var ekki hjá komist hvort sem farið var í afskriftir eða ekki að veita ÍLS þennan pening. Fjármálastofnunin hefur þá hreinlega ekki átt fé til að setja til hliðar í niðurfærslu. Þetta finnst mér liggja ljóst fyrir.

Og sama finnst mér um þessa frétt sem þú vísar í, þetta hefur ekki kostað þessar stofnanir neitt því þetta er fé sem þær áttu á niðurfærslureikningi hvort eð er. Jú nema afskriftin færir þessi lán enedanlega úr bókum stofnanna. Og þær eiga meira til á þessum reikningi myndi ég halda, öll þessi lán á bilinu 100-110% veðsetningu.

DD (IP-tala skráð) 1.9.2011 kl. 21:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 87
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband