9.6.2011 | 21:54
Mótormax 4 - Landsbankinn 3, tæpara gat það nú ekki verið
Ég er bæði hissa og ekki yfir niðurstöðu Hæstaréttar í dag. Fyrst og fremst er ég þó hissa að dómur sé kominn 3 dögum eftir að málflutningi lauk.
Í færslu um daginn, þá velti ég því fyrir mér af hverju ákveðið var að endurflytja mál fyrir fullskipuðum rétti. Ég gaf upp nokkrar mögulegar skýringar, þ.e.
A. Hæstiréttur er orðinn pirraður á endalausum málferlum vegna gengistryggðra lána.
B. Hæstiréttur ætlar að fjalla um túlkun á stjórnarskránni.
C. Ætlunin er að kveða úr um vexti lánanna.
D. Breyta á fyrri niðurstöðu um lögmæti gengistryggingar.
E. Breyta á fyrri niðurstöðu um vexti lánanna.
Ég verð að viðurkenna, að ég sleppti viljandi einni skýringu, sem ég hef aftur tjáð mig um í hópi félaga minna, og mér sýnist sem hún hafi verið raunin
F. Niðurstaða 5 manna dóms breytti fyrri dómum.
Samkvæmt því sem kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld, þá voru þeir þrír sem mynduðu minnihluta réttarins í dag í 5 manna dómi þegar málið var flutt í hið fyrra skipti fyrir Hæstarétti. Miðað við að málið var flutt fyrir 7 manna dómi sl. mánudag, þ.e. fyrir þremur dögum, þá er ljóst (að mínu mati) að dómarar voru ekki að taka afstöðu í málinu á þessum rúmlega tveimur sólarhringum frá því málflutningi lauk. Þriggja manna minnihlutinn myndaði þriggja manna meirihluti áður.
Meirihlutinn bendir á í sínu áliti að rétturinn hafi áður dæmt um ólögmæti sambærilegra lánasamninga í málum 30/2011 og 31/2011:
Þá er til þess að líta að Hæstiréttur hefur í dómum sínum 8. mars 2011 í málum nr. 30/2011 og 31/2011 tekið afstöðu til þess að lánssamningar, sem höfðu að geyma sömu skilmála og fram koma í lánssamningnum í þessu máli, hafi verið um skuldbindingar í íslenskum krónum. Samkvæmt þessu verður að líta svo á að hér sé um að ræða lán sem ákveðið var í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.
Þeir dómar féllu 2/1, þ.e. Garðar Gíslason og Árni Kolbeinsson mynduðu meirihluta og Jón Steinar Gunnlaugsson minnihluta. Núna mynda Garðar og Jón Steinar minnihluta ásamt Markúsi Sigurbjörnssyni. Hvers vegna hefur Garðar skipt um skoðun? Er það vegna þess að í málum 30/2011 og 31/2011 var ekki munnlegur málflutningur og hann fékk ekki rökstuðning lögmanns Landsbankans, eins og hann fékk núna? Mér finnst Garðar þurfa að skýra út hvers vegna hann skiptir um skoðun.
Ljóst er að forseti réttarins, Ingibjörg Benediktsdóttir, hefur ekki getað hugsað sér að rétturinn skipti um skoðun á ekki lengri án þess að hann væri fullskipaður. Ég veit ekki hverjir þeir tveir dómarar voru sem bættust við frá 5 manna dómnum, en ef marka á fréttir Stöðvar 2 í kvöld, þá virðast þeir hafa ráðið niðurstöðunni.
Hvaða skilaboð hefði hin niðurstaðan gefið? Í fyrsta lagi að Hæstiréttur gæti ekki ákveðið sig, þ.e. að ekki er hægt að treysta því að rétturinn dæmi á sama hátt í sambærilegum málum. Í öðru lagi að fyrri niðurstöður réttarins um gengistryggð lán væru ekki fordæmisgefandi fyrir sambærileg mál. Í þriðja lagi, að fjármálafyrirtækin ættu endilega að halda áfram með sín málaferli, þar sem sannfærandi málflutningur gæti snúið dómurum.
Merkilegast við þessa niðurstöðu í dag, er að þetta snýst meira og minna um sömu málsgrein í lánasamningnum:
..um fjölmyntalán til 5 ára að jafnvirði kr. 150.000.000, - Krónur eitthundrað og fimmtíu milljónir 00/100, í neðanskráðum myntum og hlutföllum: CHF 25% JPY 15% USD 35% EUR 25%. Fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðast þó ekki fyrr en einum virkum bankadegi fyrir útborgunardag lánsins.
Meirihlutinn segir að þar sem upphæð skuldar í hverri mynt verði ekki ákveðinn fyrr en síðar, þá sé augljóslega um ólöglega gengisbindingu að ræða, en minnihlutinn segir að þar sem tiltekið sé að um fjölmyntalán sé að ræða sé augljóslega um löglegt lán að ræða. Báðir aðilar koma með frekari rökstuðning, en það er samt túlkunin á ofangreindum texta í lánasamningnum sem virðist skipta mestu máli. Ég get ekki annað en spurt mig: Hvernig er hægt að túlka ofangreinda texta á svona gjörólíkan hátt? Spyr sá sem ekki veit.
Afleiðingarnar
Ég held að menn átti sig ekki alveg á afleiðingum dómsins. Hér segir Hæstiréttur beint út, að öll lán þar sem höfuðstóll er tilgreindur í krónum er krónulán og ekkert annað. Eins og rétturinn bendir á, þá gefur Landsbankinn ekki viðhlítandi skýringu á því hvers vegna upphæðin er tilgreind í krónum hafi átt að lána erlendar myntir. Það er sem sagt ekki hægt að fela sig á bak við hlutföll, heldur verður að gefa upp upphæð í erlendri mynt til þess að um löglegt lán í erlendri mynt sé að ræða.
Næst þarf að láta reyna á hvort lán sem sótt var um í íslenskum krónum, höfuðstóllinn er tilgreindur í erlendri mynt, en útgreiðsla og afborganir fara fram í íslenskum krónum, eru lögleg lán í erlendri mynt eða enn eitt form á gengistryggðu láni.
Lánið ekki í erlendri mynt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 1
- Sl. sólarhring: 82
- Sl. viku: 276
- Frá upphafi: 1680564
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 35
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Sæll Marinó,
Ég hef ekki fylgst nógu vel með þessu, en ég hélt að megin röksemdin með eða á móti ólöglegri gengistryggingu væri hvort lánið hefði komið til útgreiðslu í íslenskum krónum eða í erlendum gjaldeyri. Fyrra fyrirkomulagið með ísl. krónum væri ólögleg gengistrygging, en hið síðara ekki. Þetta virðist ætla að standa í lögfræðingum og dómurum að finna út um þetta mál. Það hlýtur að vera neikvætt fyrir bæði lánþega og lánardrottna, þar sem hvorugur aðilinn er að fá hreinar línur um hvað er löglegt og hvað er ekki löglegt.
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 9.6.2011 kl. 22:18
Arnór, það er nánast ómögulegt að vita hvaða túlkun er ofan á hjá hvort heldur dómstólum eða fjármálafyrirtækjunum. Héraðsdómur Suðurlands dæmdi t.d. lán löglegt meðan Hæstiréttur dæmdi sams konar lán ólöglegt. Ég skil vel að þú sért ruglaður á þessu öllu, ekki það að ruglið hjá ykkur í USA sé eitthvað minna.
Marinó G. Njálsson, 9.6.2011 kl. 22:21
Þetta er mjög áhugavert...
Þórður Björn Sigurðsson, 9.6.2011 kl. 22:31
Það er makalaust að fylgjast með þessum farsa. Minnihluti dómsins virðist vilja setja skilin á milli orðanna gengistryggingar (ólögleg) og fjölmyntaláns ("lögleg") en horfa að mestu framhjá framkvæmd lánveitingarinnar.
Ef bankinn er að lána gjaldeyri, af hverju er hann þá að nefna íslenskar krónur á skuldabréfinu? Hann hafði með öðrum orðum alla möguleika á að útfæra skuldbréfið rétt en gerir það ekki (það eitt og sér finnst mér vera tilefni til lögreglurannsóknar en það er svo annað mál).
Ég fagna auðvitað niðurstöðunni, en ég get ekki sagt að hún veki með manni traust á réttinum. Ætli megi ekki gera ráð fyrir því í framhaldinu, að heppni/óheppni muni ráða því hverja af þessum dómurum fólk fær á málin sín og niðurstöðurnar ólíkar eftir því.
Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 9.6.2011 kl. 22:31
Benedikt, það er nefnilega punkturinn, þetta með heppnina og óheppnina. Ekki er hægt að treysta því að dómarar séu sjálfum sér samkvæmir, sbr. Garðar Gíslason í þessu tilfelli. Hann tekur 180 gráðu beygju.
Marinó G. Njálsson, 9.6.2011 kl. 23:07
Sælir Marinó og takk fyrir gott blogg.
það sem á eftir að fara með í dómsali er að bankarnir áttu ekki þessa erl mynt sem þeir voru að bjóða. Gengisskekkjan í bönkunum í dag er vegna þess að þeir flokkuðu lán erl en voru ekki með fjármögnun á móti í öðru en Íslensku. Hefðu bankarnir lánað jafn mikið í erl mynt eins og þeir fengu lánað hefði bankarnir ekki verið með þessa gengisskekkju sem er of miklar eignir í "erlendri mynt" en skuldir (innistæður) í ísl mynt.
Jón Þór Helgason, 10.6.2011 kl. 00:01
Guðbjörn Jónsson setti þessa athugasemd inn á Facebook innleggið mitt:
Mér finnst þessi dómur athyglisverður og þarfnast nokkurrar yfirlegu. Ég velti fyrir mér hvernig dómarar geti komist að þeirri niðurstöðu að eitt skuldabréf, geti haft inni að halda lán í mörgum myntum. Í fyrsta lagi þarf að koma fram í formi skuldabréfsins upphæð lánsins, ritað bæði í tölustöfum og skrifstöfum. Öll skuldabréfaform sem notuð eru hér á landi hafa einungis EINN reit fyrir upphæð lánsins, þannig að einungis EIN mynt getur verið á hverju skuldabréfi. Ég tel nauðsynlegt að leggja mun meiri þunga í að benda á það mikilvæga atriði að skuldabréf geti ekki annað en verið lán í þeirri mynt sem skráð er í hina lögformlegu reiti lánsupphæðar, sem einungis er einn á hverju skuldabréfi. Hvernig væri að Hagsmunasamtök heimilanna eða Samtök skuldara, gerðu fyrirspurn um þessi atriði til Dómstólaráðs, innanríkisráðherra og Dómarafélagsins? Ef dómari skilur ekki að hvert skuldabréf getur einungis innihaldið lán í einni mynt, hlýtur að þurfa að bregðast við þeim greindarskorti á viðeigandi hátt. Það er óásættanlegt að dómskerfi heils lands sé tekið í gíslingu vegna sniðgöngu við svo augljósa og ófrávíkjanlega þætti, sem það er að öll skuldabréf, hér á landi, eru einungis með eina löggildingu fyrir upphæð þeirra myntar sem lánuð er. Hin lögformlega nákvæmni, vegna túlkunar á útgáfu skuldabréfa, er svo mikil að meira að segja er ákvæði um það hvernig skuli skera úr, ef upphæð í reit tölustafa og upphæð í reit skrifstafa, er ekki sama upphæðin.
Marinó G. Njálsson, 10.6.2011 kl. 00:28
Marínó það er eitt atriði sem ég tók eftir hjá þér í þessum texta.
Næst þarf að láta reyna á hvort lán sem sótt var um í íslenskum krónum, höfuðstóllinn er tilgreindur í erlendri mynt, en útgreiðsla og afborganir fara fram í íslenskum krónum, eru lögleg lán í erlendri mynt eða enn eitt form á gengistryggðu láni.
Ég held að dómu hæstaréttar um bílalánið tók af allan vafa þarna því í texta með dómsorði er sagt að til þess að menn hafi verið að höndla með erlent lán þá þurfi að nota erlenda mynt "beint" m.ö.o viðkomand lántakandi þarf að hafa gjaldeyrisreikning sem hann fær lánsupphæðina greidda inná og afborganir hanns að sama skapi þurfa að fara í gegnum slíkan reikning. Þá eru aðilar að nota erl gjaldmiðil beint.
Í ljósi þessa tel ég engu skipta hvað stendur í lánasamning aðila svo framarlega sem gjaldeyrin er ekki notaður "beint" þá er um ólöglegan lánasamning að ræða.
Guðmundur (IP-tala skráð) 10.6.2011 kl. 09:59
Guðmundur, það hefur samt ekki reynt á þetta atriði að höfuðstóllinn sé tilgreindur í erlendri mynt þó allt annað sé í reynd í íslenskum krónum.
Annars er mikið fjallað í fjölmiðlum um "tap" Landsbankans. "Tap" Landsbankans felst í glötuðu tækifæri til að auðgast á þegar afskrifuðum lánum. Gleymum því ekki að NBI hf. (nú Landsbankinn hf.) tók yfir gengisbundin lán fyrirtækja með miklum aflætti. Lán að bókfærðu virði 1.241 ma.kr. í Landsbanka Íslands hf. voru færð niður í 705 ma.kr. við flutning yfir í NBI hf. Þetta er yfir 47% afslattur. Mestar líkur eru því á, að NBI hf. hafi fengið lán Mótormax á innan við 140 m.kr. líklegast í kringum 100 m.kr. Bankinn er því ekki að tapa krónu vegna niðurstöðu Hæstaréttar. Hann er aftur, eins og það snýr við mér, að missa af tækifæri til ótrúlega ósvífinnar auðgunar með því að krefjast vel yfir 100 m.kr. meira fyrir lán en hann greiddi fyrir það.
Marinó G. Njálsson, 10.6.2011 kl. 13:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.