Leita í fréttum mbl.is

Fyrirséð í mörg ár

Loksins átta bandarísk stjórnvöld sig á vanda sínum.  Ekki er hægt að halda endalaust áfram að taka lán fyrir útgjöldum alríkisstjórnarinnar.

Fyrir umheiminn er þetta grafalvarlegur hlutur, þar sem hökkt í bandarísk hagkerfinu getur valdið heimskreppu dýpri en þeim sem við höfum séð hingað til.  Niðurstaðan verður örugglega sú að hækka þakið, en það leysir ekki vandann.  Menn munu bara halda áfram að eyða um efni fram þar til nýja þakinu er náð.  Alríkisstjórnin þarf að fara í gríðarlegan niðurskurð í útgjöldum og skattahækkanir.  Eins og venjulega munu útgjöld til hermála sleppa undan niðurskurðarhnífnum, þ.e. þau sem skipta máli.  Menn munu vafalaust finna einhverja herstöðvar sem hægt er að loka, en stóru tölurnar verða ekki snertar, þ.e. herreksturinn í Írak og Afganistan.  Ekki vegna þess að Bandaríkjamenn vilja ekki fara þaðan burtu, heldur vegna þess að stærsti og öflugasti þrýstihópurinn í Bandaríkjunum er hergagnaframleiðendur.

Í 60 minutes fyrir nokkrum misserum var fjallað um þessa væntanlegu stöðu.  Þar komust menn að þeirri niðurstöðu, að innan skamms tíma hefði alríkisstjórnin ekki efni á neinu öðru en vöxtum og útgjödlum til menntamála og heilbrigðismála.  Síðan hafa útgjöld til heilbrigðismála hækkað mikið vegna Medicare og Medicaid laganna.  Þó svo að þau útgjöld séu dropi í hafi miðað við það sem sett er í öryggismál, bæði innanlands og utan, þá mun sú krafa verða ofan á að framlög til heilbrigðismála verði skert og viti menn, það verður gert.

Timothy Geithner hefur áður staðið frammi fyrir erfiðum ákvörðunum, þá sem seðlabankastjóri New York.  Þá tókst honum að bjarga vogunarsjóðakerfinu, illu heilli, þegar hann greip til þess ráðs að bjarga LTCM vogunarsjóðnum árið 1998, en hann hrundi á fáum dögum í kjölfar rússnesku kreppunnar.  Nú hafa þessir sömu vogunarsjóðir í reynd lagt alríkisstjórn Bandaríkjanna að velli með því að soga til sín um 1.000 milljarða dollara af skattpeningum almennings (mest fengið að láni) í gegn um bankabjörgunina, fleiri hundruð milljarða í tengslum við björgun AIG (ekki séð fyrir endann á því máli), hundruð milljarða dollara frá seðlabönkum allan heim sem fór í að afskrifa eitruð lán og svona mætti lengi telja.  Á sínum tíma var sagt að LTCM hafi verið of stór til að falla, en eftir því sem ég hef skoðað málið betur (og hef ég kafað talsvert ofan í það), þá hefði það orðið vogunarsjóðunum góð lexía ef þeir hefðu tekið á sig fallið af LTCM í staðinn fyrir að Seðlabanki New York steig inn í.  Rétt er að LTCM féll með hávaða og látum, en öllum öðrum var bjargað.

Geithner getur ekki látið Seðlabanka Bandaríkjanna bjarga sér, líkt og hann sjálfur bjargaði vogunarsjóðunum.  Eina lausnin er niðurskurður.  Þar sem allur niðurskurður þarf að fara í gegn um Bandaríkjaþing, þá munu repúblikanar koma í veg fyrir niðurskurð til hermála, en krefjast niðurskurðar í velferðarmálum.  Demókrata munu vilja hafa þetta á hinn veginn.  Eina sem almenningur sér, er lakari lífsgæði og það verður Obama kennt um.  Kaldhæðnin í þessu, er að klandrið sem repúblikanar komu bandarísku þjóðinni í, verður til þess að þeir komast aftur til valda, vegna þess að demókratar þurfa að kljást við vandann með óvinsælum aðgerðum.

Ég hef nokkrum sinnum skrifað um þessi mál hér á þessari síðu og því kemur staða mála mér ekki á óvart.  Þetta hefur verið fyrirséð í mörg ár.  Hver forsetinn á fætur öðrum hefur hunsað viðvörunarmerkin.  Oftast í þeirri vona að halda völdum í Hvíta húsinu.  Skiptir ekki máli í hvorum flokknum forsetinn hefur verið, menn hafa dottið í eyðslufyllerí síðasta árið í embætti í tilraun sinni að halda forsetaembættinu innan flokksins.  Hernaðarbrölt síðustu rúmlega 20 ára hefur síðan kostað þjóðina gríðarlegar upphæðir og ber þar hæst persónuleg hefnd Bush yngri vegna niðurlægingar föður síns í embætti.

En það eru ekki bara vogunarsjóðirnir sem hafa grætt á þessu.  Kínverjar hafa líka hagnast vel.  Er svo komið að þeir, ásamt olíuútflutningsríkjunum við sunnan verðan Persaflóa, eru þeir aðilar sem fá stærstan hluta bandarískra fjárlaga til sín í formi vaxta og afborgana lána eða nýrra skuldabréfa.  Þessi staða er í senn hryggileg og ógnvænleg en um leið ber með sér vissa kaldhæðni.  Gömlu erkióvinirnir (Kínverjar) munu leggja Bandaríkin að velli með kapí­talisma en ekki hervaldi.


mbl.is Skuldir sliga Bandaríkin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð grein eins og allar sem þú hefur skrifað. Þetta er bara tímasprengja.

Kveðja, Sigurður

Sigurður Kristján Hjaltestesd (IP-tala skráð) 16.5.2011 kl. 18:49

2 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Þessi þáttur 60 min sem þú vitnar í og fleiri svipaðir eru í reynd hluti af langri sögu slíkra þátta.  Alveg síðan ég byrjaði að fylgjast með þessu fyrir 30 árum síðan hafa reglulega komið upp umræður um grafalvarlega og ósjálfbæra skuldastöðu Bandaríkjanna,  þessarar auðugustu og valdamestu þjóðar jarðar.

Í kring um aldamótin sá ég einmitt einn svona þátt þar sem japanska heimsveldið átti að vera að eignast öll bandaríkin.  Núna rúmum tíu árum síðar þegar japanska heimsveldið er nýbúið að setja heimsmet í lengstu kreppu sögunnar og BNA orðnir enn ríkari og enn valdameiri en áður eru það kínverjar sem eru að safna skuldaviðurkenningum á verðmæti í bandaríkjunum.

Guðmundur Jónsson, 16.5.2011 kl. 18:54

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það merkilegasta við þessa stöðu er að ef allar skuldirnar yrðu greiddar upp, þá yrðu engir peningar eftir í heiminum. Og þá myndu samt sem áður standa eftir ógreiddar eftirstöðvar.

Guðmundur Ásgeirsson, 16.5.2011 kl. 20:16

4 identicon

Marínó

Þú segir að þau útgjöld  til Medicare og Medicaid séu dropi í hafi miðað við það sem sett er í öryggismál.  Það er alls ekki rétt.  Útgjöldin(2011) til varnarmála eru áætluð 895 milljarðar $, en útgjöld til Medicare og Medicaid 788 milljarðar $.  Að auki er töluvert fé sett í Homland Security og held það sé ekki inn á varnarmálapakkanum.  Gert er ráð fyrir að útgjöld til heilbrigðismála verði meiri en til varnarmála strax árið 2013.  Svo vil ég benda þér á að fjárveitingarvaldið liggur hjá þinginu ekki forsetanum og þinginu hafa demókratar að mestu ráðið undanfarna áratugi.  Stóra vandamálið eru stjórnlaus útgjöld Bandaríska ríkisins og það verður ekki leyst með meiri sköttum heldur með lækkun útgjalda.

 Kalli

Kalli (IP-tala skráð) 17.5.2011 kl. 02:00

5 identicon

Góð greining hjá þér Marinó, þótt ég sé oft ekki sammála þér. Þekki vel til í USA. Það mætti bæta við hlutverki fjárfestingarrisanum Goldman Sachs enda er fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna nánast rekið af Goldman Sachs enda kom fyrri fjármálaráðherra Henry Paulson beint þaðan úr forstjórastóli enda þarf ekki mikið innsæi að sjá hver hefur í raun hagnast á þessu öllu og öflugum keppinautum er komið fyrir kattarnef og Paulson og félagarnir úr Goldman Sachs eru höfuðpaurarnir á bak við 2008 "björgunaraðgerðina" þar sem skuldir bankanna voru "þjóðnýttar" en gróðinn einkavæddur með að minsta kosti 700 miljarða $. Án þess að ríkið komi að.

Gunnr (IP-tala skráð) 17.5.2011 kl. 04:06

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

En tók einhver eftir þessu fyrir fréttaflóðinu af handtöku yfirmanns IMF? Fyrir utan okkur grúskarana hér á blogginu það er að segja. Ég held svei mér þá að trixið hafi heppnast, að fela þetta með reyknum af Obama/Osama aftökunni og svo hverfur reykurinn á bakvið fjölmiðlasirkus út af gömlum hórkarli.

Orð dagsins: Assangination.

Varðandi skuldakreppu Grikklands Bandaríkjanna þá er núna komið í ljós að svartálfurinn Timmy Geithner ætlar að beita bókhaldsbrellu til að fleyta vandamálinu áfram og reiknar með að það dugi til 2. ágúst næstkomandi. Brellan felst í því að hætta "tímabundið" að greiða inn í lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna. Auðvitað er þetta bara eins og að taka yfirdrátt á yfirdráttinn og mig grunar að "tímabundið"sé aðeins dulmál fyrir það sem verður í raun og veru varanlegt.

Ég spái því að í sumar munum við sjá loddaraskapinn ná áður óþekktum hæðum á meðan reynt verður að þekja vandamálið með sífellt fleiri lögum af verðlausum pappír. Alveg eins og í Fukushima er það augljóst fyrir opineygða áhorfendur, að þetta er búið spil strax hér og nú, eftir það er það aðeins tímaspursmál hvenær sú staðreynd verður orðin of augljós til að halda áfram í afneitun.

Guðmundur Ásgeirsson, 17.5.2011 kl. 20:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 1680018

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband