Leita í fréttum mbl.is

Ferðaþjónustuaðili ræður erlenda leiðsögumenn í stað innlendra

Mér var bent á það í gær að stórir íslenskir ferðaþjónustuaðilar ráða í stórum stíl erlenda leiðsögumenn til starfa hér á landi.  Flestir eru þeir án nokkurrar reynslu af leiðsögn hér á landi og jafnvel án nokkurrar reynslu yfirhöfuð af leiðsögn.  Sá sem sagði mér af þessu nær ekki upp í nef sér af hneykslan.

Nú ganga á annan tug þúsunda Íslendinga atvinnulausir.  Í þeim hópi er eru m.a. leiðsögumenntað fólk.  Mér finnst dapurlegt að loksins, þegar stefnir í að illa launaðir íslenskir leiðsögumenn (já, laun leiðsögumanna eru líelegur brandari) geti haft þokkalegt að gera, þá er hrúgað inn í landið erlendum leiðsögumönnum.  Vissulega er vandamálið að ekki allir íslenskir leiðsögumenn sætta sig ekki við þá aumu taxta, sem eru í boði.  Munurinn á þeim og útlendingunum, er þó að þeir þekkja landið.  Því er mikilvægt að þeir séu við hljóðnemann.  Mikilvægt er að ferðamaðurinn fái á tilfinninguna að fagfólk skipuleggi og annist það í ferðum um landið, en ekki fúskarar. 

Á Spáni gildir sú regla, að innfæddur leiðsögumaður verður að vera í öllum ferðum.  Fyrir nokkrum árum fórum við hjónin til Barcelona og jafnvel í rútunni frá flugvellinum inn að hótelunum sat innfæddur leiðsögumaður með.  Þannig eru reglurnar á Spáni.  (Án þess að hafa það á hreinu, þá býst ég við að leiðsögumaðurinn mætti vera hvaðan sem er af EES-svæðinu, svo fremi sem hann hafi sérmenntað sig í leiðsögn á Spáni.)

Sá sem menntar sig í leiðsögn hér á landi lærir ótrúlega margt um land og þjóð.  Mæli ég með leiðsögunámi, þó ekki væri nema til þess að öðlast þessa þekkingu.  Sjálfur er ég menntaður frá Leiðsöguskólanum í Ferðamálaskólanum í Kópavogi.  (Hann er hluti af Menntaskólanum í Kópavogi.)  Á þessu eina námsári, sem námið tekur er farið í sögu lands og þjóðar frá landnámi til þessa dags, bókmenntir og listir, byggingarlist, handverk, flóru Íslands (plöntur og gróður), fánu Íslands (dýralíf), þróun atvinnulífs, þróun efnahagslífs, þróun stjórnskipunar, jarðfræði, veðurfar, norðurljósin, þjóðmenningar m.a. þjóðminjar og þjóðsögur, þróun byggðar, sérstaklega fjallað um einstaka staði út frá framansögðu, fjallað um heilu landsvæðin í samhengi og svona mætti lengi telja.  Hafi erlendir leiðsögumenn þekkingu á þessum atriðum, þá er besta mál að láta þá leiðsegja útlendingum hér á landi, en hafi þeir það ekki, þá eru þetta hrein og klár vörusvik.  Hvað veit þýskur krakki, blautur bak við eyrun úr námi í Þýskalandi, um þjóðsögur á Íslandi, hætturnar sem leynast undir fótunum, túngarðinn á tæplega 3m dýpi í Þingvallavatni, flutning fólks úr Heimaey að morgni 23. janúar 1973, laugar á Vestfjörðum, afrek og bernskubrek Grettis, söguslóðir Njálssögu og svona mætti lengi telja?  Eða að þó hann sé franskur, svissneskur, austurrískur, pólskur, tékkneskur, ítalskur eða spánskur.

Afleiðingin af því að "leiðsögumaðurinn" er reynslulaus eða lítill, er sú að álagið á bílstjórana eykst gríðarlega.  "Leiðsögumaðurinn" er oftast "mállaus", þ.e. getur hvorki bjargað sér á íslensku né ensku.  Hann getur því ekki séð um samskiptin við hótel og matsölustaði, skilur ekki hvað stendur á skiltum, getur ekki einu sinni lesið landakort með góðu móti, veit varla hvar staðir eru sem ætlunin er að heimsækja.  Afleiðingin fyrir bílstjórann er að hann fær ekki sinn hvíldartíma lögum samkvæmt.  Þá eru dæmi um að slíkir "leiðsögumenn" hengi sig á íslenska leiðsögumenn sem aumkuna sig yfir þá.  Loks má ekki gleyma því, að ekki kemur tekjuskattur eða útsvar til ríkis og sveitarfélaga vegna þessara aðila.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Stefánsson

Hvers vegna er ekki fagfólk á öllu Landinu, ekki er það til í Vestmanneyjum.    

Vilhjálmur Stefánsson, 8.5.2011 kl. 23:02

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Vilhjálmur, í fyrrasumar sá bekkjarsystir mín úr Leiðsöguskólanum um leiðsögn í Eyjum.  Hugsanlega eru ekki allir leiðsögumenn í Eyjum með próf, en hún hefur það a.m.k.

Marinó G. Njálsson, 8.5.2011 kl. 23:06

3 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Ef þetta verður raunin þá er það staðreynd að gæði ferða til Íslands undir leiðsögn minka til muna. Í kjölfar minnkandi gæða fylgja venjulega kröfur um lægri kostnað og það hefur aftur í för með sér að mun fleiri ferðamenn þarf til að endar náist saman hjá ferðaþjónustuaðilum en annars. Sem sagt, slæm þróun í alla staði fyrir Ísland sem ekki þolir allan þann ágang  og fjölda sem venjulegar sólarstrendur standa auðveldlega undir. - Ferðaþjónustuaðilar á Íslandi eru mjög skammsýnir ef þeir ætla að fylgja þessari þróun.

Svanur Gísli Þorkelsson, 8.5.2011 kl. 23:08

4 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Sjálfsagt að gera kröfu um, sérmenntun í leiðsögn hérlendis. Samtök leiðsögumanna, þurfa að vekja athygli á þessu.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 8.5.2011 kl. 23:23

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Setja kröfu á að Spænsku skilyrðin verði fest í lög, ekki spurning.  Ekki bara sem tryggingu fyrir atvinnu og fagmennsku heldur af respekt fyrir þeim gestum sem borga hönd og fót til að koma hingað.

Svona vinnubrögð hljóta að vera einsdæmi í heiminum. Það er svo margt arfavitlaust við þetta  að maður veit ekki hvar á að byrja.  Ef þetta er eingöngu spurning um kostnað, þá er betur heima setið. Kynning landsins fer ekki síst fram hjá þeim sem hingað sækja, þegar heim kemur. Fólk er örugglega til í að greiða eilítið meira fyrir fulla og sanna upplifun. Annað er ripoff.

Atvinnulausir eru skikkaðir til að taka þá vinnu sem að þeim er rétt, eins ætti að skikka fyrirtæki til að taka fólk af innlendum markaði á meðan atvinnuleysið er slæmt.  Þetta mun líka stuðla að fagflótta héðan, eins og þessar tugirþúsundir, sem farnar eru, séu ekki nóg.

Jón Steinar Ragnarsson, 9.5.2011 kl. 03:18

6 identicon

Ríkið verður að tryggja það að leiðsögumenn þekki landið og geti tjáð sig.  Það verður að tryggja að reynsla ferðamanna verði sem best.

Ég veit nú samt ekki betur en að íslenskar ferðaskrifstofur eru með íslenska leiðsögumenn í Berlín. 

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 9.5.2011 kl. 16:38

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

á spáni er leiðsögn alvarlegur hlutur, 4 ára háksólanám.. á íslandi er þetta námskeið.. ég hef leiðsögumannaréttindi á íslandi

Óskar Þorkelsson, 9.5.2011 kl. 19:19

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Námskeið er nú furðulegt heiti á 30 eininga námi.  Hvort námið er 1 ár eða 4 ár, þá er þetta skipulagt nám.  Spánverjar settu sínar reglur m.a. til að tryggja fleiri störf í ferðaþjónustu.   Ætli við höfum efni á því að láta þau störf renna til ófaglærðra einstaklinga, sem vita lítið sem ekkert um landið.  Einstaklinga sem gera ekkert annað en að lesa upp úr erlendum handbókum um Ísland.  Þetta er ekki sú kynning sem við viljum að útlendingar fái af landinu.

Ég tek það fram, að ég er leiðsögumaður, en hef hvorki lagt mig eftir þeim störfum sem hér um ræðir né heldur stendur það til.  Bara svona áður en einhver fer að halda öðru fram, eins og lesa mátti milli línanna í frétt Eyjunnar um þessa færslu.

Marinó G. Njálsson, 9.5.2011 kl. 19:36

9 Smámynd: Börkur Hrólfsson

Félag leiðsögumanna hefur í meira en þrjátíu ár barist fyrir löggildingu á starfinu, en án árangurs. Það er umhugsunarefni, að SAF (Samtök aðila í ferðaþjónustu) hefur verið helsti þrándur í þeirri götu.

Það eru félagar í SAF, sem ráða, eða samþykkja ,,ómenntaða útlendinga" sem leiðsögumenn/fararstjóra í ferðir sem eru skipulagðar hérlendis.

Þrátt fyrir ákvæði 9.1 í kjarasamningi leiðsögumanna:

9.1. Menntunarkröfur.

Ferðaskrifstofur sem aðilar eru að þessum samningi gera kröfu um að leiðsögumenn hafi lokið leiðsögumannaprófi á Íslandi. Ferðaskrifstofur leitast við að ráða einungis menntaða leiðsögumenn til starfa. Ferðaskrifstofum er heimilt að ráða annað fólk til starfa ef fáanlegir leiðsögumenn uppfylla ekki skilyrði sem krafist er (t.d um tungumálakunnáttu eða nauðsynlega sérþekkingu).

OG að lokum segir í sömu grein:

Félagar í Félagi leiðsögumanna hafa forgang til vinnu við leiðsögn hjá ferðaskrifstofum sem eru aðilar að samningi þessum og ferðaskrifstofur innan SA og SAF hafa forgang til vinnu félagsmanna innan Félags leiðsögumanna.

Það er líka umhugsunarefni, að verkalýðsfélögin skuli grafa undan starfsemi hvers annars, eins og verkalýðsfélög rútubílstjóra gerðu, þegar þau niðurgreiddu ,,enskunámskeið, sérsniðið fyrir rútubílstjóra", til að auðvelda samskifti rútubílstjóra við útlendingana.

En kannski er ekki við öðru að búast, ef hugsunarháttur líkt og verkalýðsforinginn fyrir austan hefur, er algengur. En hann sagði: ,,Laun Íslendinga verða aldrei eins og á norðurlöndunum", og samþykkti að Íslendigar fengju 30% lægri laun en Færeyingar á Norrænu. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/05/09/laegri_laun_fyrir_somu_vinnu/

Börkur Hrólfsson, 9.5.2011 kl. 21:32

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Börkur segir allt sem segja þarf.  Menn eru einfaldlega að brjóta kjarasamninga með þessu hátterni.

Marinó G. Njálsson, 9.5.2011 kl. 22:23

11 Smámynd: Vilhjálmur Stefánsson

Marinó, ég vona að það verði skylda að hafa lærða Leiðsögumenn í Hópferðabifreiðum,það gengur ekki upp að hafa eithverja sem fara með staflausa vitleisu og tæplega mælt á nema Íslensku og tæplega það....

Vilhjálmur Stefánsson, 9.5.2011 kl. 23:05

12 Smámynd: Óskar Þorkelsson

þetta er ekkert annað en námskeið Marínó á íslandi.. þetta er kvöldnámskeið sem tekur nokkra mánuði.. alls ekkert auðvelt námskeið en námskeið engu að síður og alsl ekki sambærilegt við það nám sem spánverjar ganga í gegnum.

Börkur er með þetta :)

Óskar Þorkelsson, 10.5.2011 kl. 09:11

13 identicon

Þetta er þróunin í þessari grein eins og svo mörgum öðrum,ég er smiður og þar er látið átölulaust að sveitakallar frá austur-evrópu starfi hér á landi réttindalausir og búið að viðgangast lengi,ef ekkert er að gert þá er þetta komið til að vera og öll fagmennska þynnist út.

Kristján Jón Blöndal (IP-tala skráð) 10.5.2011 kl. 10:42

14 Smámynd: Vilhjálmur Stefánsson

Sammála Kristjáni Ef menn frá austur Evrópu eða Asíu segjast vera matreiðslu menn fá þeir vinnu strags,við Íslendingar gleipum þessar sögur frá þeim.Eru Íslendingar með minnmáttarkend?Tökum höndum saman og verjum Fagstéttir okkar.Við leggjum á okkur mentun í þeim fögum sem við veljum okkur,og það ber að virða.Burt með alt fúsk.

Vilhjálmur Stefánsson, 10.5.2011 kl. 16:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 1680018

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband