Leita í fréttum mbl.is

Varamaður í bankaráði Landsbankans hf. sendir launþegum tóninn

Andri Geir Arinbjarnarson heitir maður.  Hann er ágætlega menntaður og í góðu starfi.  Hann er líka mikilsmetinn bloggari, álitsgjafi og síðast en ekki síst varamaður í bankaráði Landsbanks hf. (áður NBI hf.).  Í nýlegri færslu sendir hann launþegum þessa lands heldur kalda kveðju.  Réttlátar launahækkanir þeirra munu draga kreppuna á langinn!  Launþegar landsins eiga að sætta sig við skert kjör svo hægt sé að nota gjaldeyrinn, sem þessir sömu launþegar taka þátt í að skapa, í að greiða m.a. erlendum kröfuhöfum hlutdeild í hagnaði Landsbankans hf. af óvægnum innheimtum bankans af stökkbreyttum lánum viðskiptavina bankans.

Ég setti athugasemd inn á bloggið hans, þar sem ég mótmæli þessari framsetningu hans og vil ég birta hana hér:

Ég veit um eina leið sem gerir fyrirtækjum kleift að standa undir þessum hækkunum án þess að veita þeim út í verðlagið. Hún er ákaflega einföld og varamaðurinn í bankaráði Landsbankans hf (áður NBI hf.), Andri Geir Arinbjarnarson, gæti kannski talað fyrir henni í bankaráðinu. Fjármálafyrirtæki hraði úrvinnslu beinu brautarinnar, þau leiðrétti strax og afturvirkt ólöglega teknar afborganir áður gengistryggðra lána og bjóði fyrirtækjum betri kjör í viðskiptum sínum við bankann. Með þessu myndi sparast verulega í rekstrarkostnaði fyrirtækjanna, sem gæfi þeim svigrúm til að gera betur við starfsfólk sitt. Síðan gæti varamaðurinn líka talað fyrir því í bankaráðinu, en mér skilst að hann sitji alla fundi bankaráðsins, að bankinn virði dóma Hæstaréttar, neytendaréttarákvæði laga og Evrópuréttar, stjórnarskrárvarinn rétt fólks og fyrirtækja og að ég tali nú ekki um siðareglur bankans sjálfs.

Mér finnst þú, Andri Geir, gleyma því að vandi íslensks hagkerfis er fjármálafyrirtækjum að kenna, ekki almenningi og framleiðslufyrirtækjum, ríkisstofnunum, sveitarfélögunum eða aðilum í ferðaþjónustu. Nei, vandi þjóðarbúsins er því að kenna, að Landsbanki Íslands hf., Kaupþing banki hf., Glitnir banki hf. og fleiri illa rekin fjármálafyrirtæku settu hér upp einhverja svæsnustu svikamyllu sem um getur á heimsvísu. Meðan þessi svik hafa ekki verið leiðrétt, þá verður enginn rekstrargrundvöllur hvorki fyrir heimili né atvinnurekstur.

Mér finnst það ósvífið af varamanni bankaráðs kennitöluflakkara að kenna eðlilegum kjarabótum um að endurreisnin verði ekki eins auðveld, þegar Landsbankinn hf. (áður NBI hf.), Arion banki hf. og Íslandsbanki hf. hafa það í hendi sér að laga ástandið. Þú gefur í skyn, Andri Geir, að fólk eigi að sætta sig við skert kjör (sem eru bein afleiðing af svikum, lögbrotum, prettum og blekkingum fjármálafyrirtækjanna) vegna þess að annars gæti það ruggað bátnum. Mér finnst að þú ættir að sýna ögn meiri auðmýkt. Fattar þú ekki að fólk býr hér við fátækt? Kaupmáttur launa hefur lækkað um hátt í 30% á frá því í ársbyrjun 2008, m.a. vegna hátterni fjármálafyrirtækjanna. Og nýju fjármálafyrirtækin, sem eru ekkert annað en kennitöluflakkarar, eiga að vera stikkfrí, vegna þess að þau eru komin með nýja kennitölu. Sveiattan!

Eins og ég segi í inngangsorðum mínum, þá fá kröfuhafar Landsbanka Íslands hf. hlutdeild í hagnaði af betri innheimtum bankans af stökkbreyttum lánum.  Líklegast rennur öll sú hlutdeild upp í Icesave, en þó er það ekki víst.  Samningurinn milli fjármálaráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins annars vegar og erlendra kröfuhafa hins vegar er ekki opinber og við vitum því ekki hvaða leynileg ákvæði eru þar.  Samkvæmt upplýsingum sem komu frá Arion banka um daginn, þá renna 80% af betri heimtum lána til erlendra kröfuhafa en 20% til bankans sjálfs.  Bankinn þiggur sem sagt 20% innheimtuþóknun frá erlendum kröfuhöfum.  Halda menn virkilega að bankinn muni leggja sig í líma við að semja við fólk og fyrirtæki, þegar hann getur makað krókinn á þennan hátt.  Í fjölmiðlum hafa birst fréttir um að starfsmenn Landsbankans hf. fái kaupauka tengda betri heimtum.  Satt best að segja finnst mér það viðbjóðslegt, að fjármálafyrirtæki sem reist eru á rústum fyrirtækja sem lögðu þjóðfélagið bókstaflega í rúst, séu svo ósvífin að vinna frekar með hagsmuni erlendra kröfuhafa að leiðarljósi, en hagsmuni viðskiptavina sinna.  Og allt vegna þess, að þannig leggist þeim til auka hagnaður.  Sveiattan, þið ættuð að skammast ykkar!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Marinó" Alltaf góður.Þetta er ömurlegt, og verst að ekkert hefur breyst!

Eyjólfur G Svavarsson, 7.5.2011 kl. 14:44

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Góður!!

Gunnar Heiðarsson, 7.5.2011 kl. 16:25

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Feginn er ég að hafa flutt burt. Það virðist ekkert vera að lagast í hugsunarhætti þessara manna.

Hrannar Baldursson, 7.5.2011 kl. 21:20

4 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Andri Geir er maður sem trúði innilega á atgervi Sigga Einars og Lárusar Welding. hann trúir því innilega að Davíð Oddson sé vondur og að allt sem illa hefur farið hvað varðar íslenska banka er með einum eða öðrum hætti honum að kenna. 

Andri Geir telur að  íslenska þjóðin hafi síðan miskilið  illa ransókarskírslu alþingis og að bankahrunið hafi í reynd verið  íslenkri stjórnsýslu að kenna  (og vitanlega Davíð líka) Hann trúr því að bankamenn hafi verið saklaus fórnarlöb bankahrunsins.

Andri Geir  var alveg sannfærður um að himnarnir hryndu ef ekki yrði skrifað undir Icesave 1, 2 og 3.

Andri Geir mælir landsframleiðslu á íslandi í evrum og ber hana svo samn við ladsframleiðslu í noregi í nosrskum krónu.

Er þetta ekki orðið gott 

Guðmundur Jónsson, 7.5.2011 kl. 21:52

5 Smámynd: Elle_

Andri Geir hefur oft sent alþýðu landsins viðbjóðslega kaldar kveðjur lengu.  Hann stendur með peningaöflunum sem rændu okkur blóðugt og hafa enn ekki orðið að bæta fyrir þjófnaðinn, verndaðir af ríkisstjórn peningaafla.  Hann hefur sem dæmi barist af hörku lengi fyrir að koma yfir okkur kúguninni ICESAVE, já ICESAVE 1 + 2 + 3 + + og ber að varast orð mannsins.  Hann er alls ekki trúverðugur.  Maður sem sjálfur býr í Bandaríkjunum og ætlar okkur hrollvekjuna sem við skuldum ekki.  Maður sem sjálfur sat í stjórn ICESAVE bankans.  Hann hefur líka skrifað ítrekað fyrir hækkun bensíns í landinu eins og það sé nú of ódýrt.  Hann er ótrúlega ósvífinn, það mikið er víst.  Fer samt voða fínt í það og manni getur líkað vel við hann þangað til maður skilur um hvað hann snýst.  Eins og úlfur í sauðargæru.  Viltu ekki halda þig utan við okkar peningamál, Andri Geir??

Elle_, 7.5.2011 kl. 23:00

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Elle, hann situr sem varamaður núna, ég veit það svo sem ekki með vissu, en held alveg örugglega að hann hafi ekki verið í stjórn bankans áður.

Ég þekki Andra Geir frá Stanford árum mínum og treysti honum mjög vel til góðra hluta.  Ég er ekki alltaf sammála skoðunum hans, en mér dettur ekki í hug að láta það trufla álit mitt á honum sjálfum.  Mér finnst alltaf mikilvægt að greina á milli skoðana og einstaklingsins.

Marinó G. Njálsson, 7.5.2011 kl. 23:07

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hér er önnur athugasemd sem ég setti inn hjá Andra Geir:

Andri Geir, ég átta mig mjög vel á þessu með gjaldeyrisforðann og gjaldeyristekjurnar. Ætli ég hafi ekki verið með fyrstu mönnum til að vekja athygli á þessu. En það er hvernig þú stillir þessu upp. Kjarasamningarnir munu setja allt á annan endann. Málið er að kröfur fjármálafyrirtækjanna eru fyrir löngu búnar að setja allt á annan endann.

Ég hef á undanförnum dögum talað við menn í atvinnulífinu sem eru að kikkna undan oki fjármálafyrirtækjanna. Þeir skilja ekki aðgangshörku bankanna þriggja. Þeir skilja heldur ekki laga- og dómatúlkun bankanna. Þeir fatta ekki af hverju þeir eru ennþá krafðir um að greiða lánin eins og dómar Hæstaréttar 16. júní hafi ekki fallið. Þeir skilja ekki af hverju bankarnir hleypa fyrirtækjum þeirra ekki inn á beinu brautina. Þeir skilja ekki af hverju hægt er að semja við suma, þannig að fyrirtækin þeirra verða nánast skuldlaus meðan öðrum er vísað út í hafsauga. Og skuldlausu fyrirtækin þau fá samkeppnislegt forskot sem gerir endanlega út af við hin.

Ef bankarnir létu 70% af afslættinum sem þeir fengu frá gömlu kennitölunni sinni renna til lántaka, þá gæti atvinnulífið rétt úr kútnum af sjálfu sér. Það gæti hæglega borið þær sanngjörnu launakröfur launþegahreyfinganna. Og það gæti farið í nauðsynlegar fjárfestingar. Nei, í staðinn þá vilja fjármálafyrirtækin gína yfir allt og öllu. Þetta er hrein og klár eignaupptaka og þetta er kúgun.

Svo beina brautin virki, þá verða fjármálafyrirtækin að taka tillit til þess, að launþegar eiga eftir að fá sína leiðréttingu. Mér heyrist af mönnum í atvinnulífinu, að fyrirtækin eigi ekki að hafa neitt svigrúm til kauphækkana, samþykki þau að fara inn á “beinu brautina”. Allt sem ekki fer í reksturinn miðað við forsendur um síðustu áramót eða hver þessi viðmiðunarpunktur er, á að fara til bankanna, þrátt fyrir að það sé mun meira en nemur afborgunum á bókfærðu virði skuldanna.

Framsetning færslu þinnar er að mínu mati óvirðing við launafólk í landinu, þar sem sanngjarnar kröfur þess um kjarabætur áttu að vera hættulegar þjóðfélaginu, þegar í reynd fjármálafyrirtækin eru stærsta ógnin við uppbyggingu samfélagsins.

Marinó G. Njálsson, 7.5.2011 kl. 23:22

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þá sú þriðja:

Það kemur þessum kjarasamningum ekkert við, að beita þurfi innflutningshöftum á næstu árum. Slíkt er búið að vera fyrirséð frá því um leið og menn fóru að reikna raunverulega skuldastöðu þjóðarbúsins í tengslum við Icesave 1 samningana. Fyrsta bloggfærslan mín um það efni er frá því 13.7.2009, en þá höfðum við Haraldur Líndal átt á nokkrum dögum bæði fund með fjárlaganefnd og efnahags- og skattanefnd. Fjárlaganefnd hlustaði vel á orð okkar, en efnahags- og skattanefnd fannst við vera stela frá þeim tíma sem betur væri varið í annað. Í færslu 15.7.2009 þá segi ég m.a.:

“Þessi sýn Seðlabankans getur ekki gengið nema tvennt komi til: Gert er ráð fyrir að gjaldeyrishöft og innflutningshöft verði viðvarandi allan tímann.”

Andri Geir, þú tókst þátt í umræðunni hjá mér fyrir nærri tveimur árum og hefur sjálfur talað um þessa hluti. Þess vegna finnst mér það nánast vera högg undir beltisstað að kjarasamningar verði einhver vendipunktur til hins verra.

Ekki má gleyma því að Gunnr, sem hefur verið mjög virkur í athugasemdakerfinu hjá mér, hefur varað við þessu frá því strax eftir hrun. Staðreyndir málsins eru að meðan við höfum ekki alþjóðlega viðurkenndan gjaldmiðli, þá erum við í djúpum skít og þurfum að búa bæði við gjaldeyrishöft og innflutningshöft.

Marinó G. Njálsson, 7.5.2011 kl. 23:23

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Og sú fjórða:

Gísli, er ég fastur í 2008 krísunni? En hún hefur ekki verið leyst og meðan hún er ekki leyst, þá er hún ennþá til staðar. Bankarnir hrundu af tveimur ástæðum: Vegna lausafjárkreppu og vegna gjaldeyriskreppu. Þeir hefðu líklegast komist upp með allt svindlið, ef þeir hefðu ekki sogast inn í lausafjárkreppuna, sem síðan var að hluta orsakavaldur gjaldeyriskreppu sem síðan jók á lausafjárkreppuna. Gjaldeyriskreppan er ennþá til staðar.

Á margan hátt höfum við búið við gjaldeyriskreppu hér á landi í mjög mörg ár, líklegast af og til frá stríði. Okkur tókst að veiða okkur út kreppunni með jöfnu millibili, en í hvert sinn sem tekjur af fiskveiðum hafa dregist saman, þá hefur gjaldeyriskreppa skollið á. Nú er svo komið að mikil aukning á tekjum af fiskveiðum er hætt að vera nóg. Neysla í erlendri mynt hefur einfaldlega verið of mikil og við höfum smátt og smátt safnað upp óviðráðanlegum skuldum í útlöndum. Þessar skuldir verða aldrei greiddar niður meðan krónan er gjaldmiðill. Eina von okkar til að losna við þær, meðan við erum með krónuna sem gjaldmiðil, er að þær verði felldar niður. Er einhver með símanúmerið hjá Parísarklúbbnum?

Marinó G. Njálsson, 7.5.2011 kl. 23:23

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Larus, ég leyfi ekki svona komment hér, svo ég fjarlægði það.

Marinó G. Njálsson, 8.5.2011 kl. 11:26

11 identicon

Bankar níða af fólki fé,
fer af gríðar sögum,
vexti tíðum vaða í hné,
en virðast hlíða lögum.
(k.r)

Helga Björk Magnúsd. Grétudóttir (IP-tala skráð) 8.5.2011 kl. 12:43

12 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Mér finnst alveg óþarfi að taka svo ílla í þ.s. Andri Geir var að segja þarna, en eins og Lilja sagði í Silfinu þá verður gengi krónunnar að vera lágt, meðan skuldir okkar eru eins miklar og þær eru.

Okkar tekjur á Íslandi=gjaldeyristekjur - kostnaður af gjaldeyrisskuldum.

  • Þú virðist vera að leggja til innflutningshöft.
  • Í einni athugsaemd þinni.
  • Við getum auðvitað valið að taka eldsneyti út fyrir sviga - sett höft á þann innflutning og skömmtun til einstaklinga t.d. 30l. per mánuð.
  • Svokallaður trúverðugur gjaldmiðill breytir þessu í engu, en ég bendi á að tiltekin 3. lönd hafa tapað sínum trúverðugleik innan Evrusvæðis, vegna skuldavandræða og sérstaklega á það við Portúgal að vandræðin eru einungis búin til af því að landið hefur flutt inn meira en það flytur út samfellt í um liðlegann áratug.
  • Það er því ljóst af dæmi Portúgals sérstaklega, að það skiptir máli að passa upp á jöfnuðinn gagnvart útlöndum. Að vera innan Evru eða svokallaðs trúverðugs gjaldmiðils, tekur ekki þá þörf á brott.
  • Og ef þér tekst samt ekki að stýra skútunni þannig að mál haldist innan ramma, þá lenda mál í vandræðum + tiltrú tapst. Gjaldmiðillinn er ekkert útslita-atriði um tíltrú.
  • Tiltrú verður til, með því að eiga fyrir sínum skuldum. Með því að skapa auknar tekjur, svo þær minnki. Með því síðan að reka hagkerfið ofan við núll og helst aldrei undir.
  • Þá um leið, kemur tiltrú á okkar gjaldmiðli. Þ.s. ekki er mögulegt, slík trú er fjarstæða, er að flytja inn tiltrú. Einhvern veginn virðist Gunnr. hafa tekist að sannfæra þig um slíkt. En norksa krónan hefur auðvitað tiltrú vegna þess, að norksur útflutningur er mjög öflugur.
  • Því miður verður það mikill barningur að vinda ofan af þeim vanda sem enn er til staðar - líklega þarf krónan að verðfalla um 50%.
  • Grimmur veruleiki, en eins og Lilja benti á eru aflandskrónur + fjármagn sem leita vill út út bönkunum milli 5-600ma.kr. Síðan bætist að auki við krónubréf. Þetta verður þjóðin að taka á sig með einhverjum hætti.
  • Einfaldasta leiðin væri sú, að afnema vísitöluna eða frysta hana, semja við krónubréfahafa um að breita krónubréfum í skuld sem borguð verði síðan, síðan láta krónuna verðfalla meðan mál ná jafnvægi. Þá um leið verðfalla skuldir - sem bætir kjör skuldugra til lengri tíma litið, en þ.s. er mikilvægara umfang krónueigna innan hagkerfisins raunminnkar niður í viðráðanlegar fyrir hagkerfið stærðir. Auðvitað, þarf að gera ráð fyrir stórri launahækkun yfir línuna til að jafna þetta út t.d. 25%, 10% árið eftir. Svo þarf að bremsa niður verðbólguna sbr. þ.s. gert var smám sana eftir þjóðarsáttarsamninga.
  • Eftir þessi ósköp, ætti að nást jafnvægi. En, auðvitað þá þarf að vera búið að ákveða hvernig síðan á að haga hlutum. Valkostir eru þá:
  1. Flot.
  2. Tenging v. annan gjaldmiðil.
  3. Tenging v. körfu.

-------------------

Svona til gamans, vegna þess að þú sagðir einnig, að við þurfum nýjan gjaldmiði:


Til gamans sveifla Evru vs. Dollar sl. 365 daga = 19,75%!

  • Þegar tekinn er hæsta vs. lægsta staðan, fæst 19,75% heildarsveifla.


Kv.

Einar Björn Bjarnason, 8.5.2011 kl. 16:56

13 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Einar Björn, flettu í gegn um það sem ég hef skrifað um þessi mál og segðu mér svo hvar ég fer með rangt mál.

Jú, mér finnst ákaflega mikilvægt að mótmæla því að kjarasamningar valdi krísu sem er búin að vera hér í minnst 3 ár.  Að þetta komi frá varamanni í bankaráði Landsbankans hf. er ennþá alvarlegra, en bankinn situr á gríðarlegum afslætti sem hann fékk frá Landsbanka Íslands hf.  Eins og ég bendi á, þá gæti ýmislegt færst til betri vegar, ef bankarnir skiluðu þó ekki væri nema 70% af afslættinum til lántaka.

Ég legg hvergi til innflutningshöft, heldur bendi á að þau verði ekki umflúin.  Innflutningshöft eru þegar í gangi.  Hingað til lands fær enginn að flytja eitt eða neitt nema Seðlabankinn samþykki að viðkomandi innflytjandi megi greiða fyrir vöruna (nema greitt sé með kreditkorti).  Það heitir að innflutningshöft séu við líði.

Marinó G. Njálsson, 8.5.2011 kl. 18:52

14 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Marinó G. Njálsson, 8.5.2011 kl. 18:52

Lengi getur vont versnað - slæm krísa getur orðið verri krísa. Þannig skil ég ábendingu Andra.

Marínó, þessi afsláttur er tapað fé nú þegar, þ.e. því ekkert eða nær ekkert eftir, til að skila til launþega.

Bankana þarf að gera upp aftur - Ísland er enn statt í alvarlegri bankakrísu. Þ.s. þ.s. ábending AGS frá 3. skýrslu sem ég sendi þér ef þú manst eftir því, þess efnis að 46% lána skv. bókfærðu virði væru í vanskilum 63% ef miðað er við kröfuvirði. Þ.s. mjög vafasamt er að eignir skv. skráðu virði myndu í reynd seljast nærri skv. því virði sbr. ef tekin væri svokölluð "fair valuation" þá sýnist mér að bankarnir skv. upplýsingum AGS séu gjaldþrota - þó þeir hafi fengið fulla heimild til að starfa, halda þeirri lígi fram að þeir skili hagnaði eins og bankarnir lugu að okkur um hagnað fyrir hrun.

Þetta er consitent við þeirra hegðun einnig, að gefa ekkert eftir - að koma fram við lánþega af fullkominni hörku jafnvel hörku sem í reynd skaðar þeirra langtímahagsmuni, en slík hegðun verður rökrétt þegar stofnun er raunverulega að þikjast vera gjaldfær er það ekki í reynd en þá verður skammtímahugsun af slíku tagi ríkjandi.

Ég er ekki sammála því að innflutningshöft séu óumflýjanleg - þú getur alltaf þess í stað fellt gengið og þannig komist hjá þeim. 

Þetta eru einfaldlega vakostir A eða B. Ég sé ekki að það sé klárlega skárra fyrir almenning, að velja B, því í staðinn færðu haftakerfi sem fylgir ótrúeg spillingarhætt því þá ertu með leifakerfi. Á 6. áratugnum fylgdi því sú spilling, að kunningjar þeirra sem sátu í nefndinni gátu fengið greiðlega leifi, sem þeir seldu áfram - líklega skipti kunninginn utan nefndar hagnaðinum með kunningjanum innan nefndar. A.m.k. urðu nokkrir þeir sem komu nærri því kerfi á sínum tíma grunsamlega ríkir. 

Svo mín skoðun er að, af tvennu íllu sé skárra að stilla launum lágum og forðast slíkt haftakerfi. Það sé í reynd ekki verra fyrir almenning þegar allt er skoðað í samhengi.

"Hingað til lands fær enginn að flytja eitt eða neitt nema Seðlabankinn samþykki að viðkomandi innflytjandi megi greiða fyrir vöruna (nema greitt sé með kreditkorti).  Það heitir að innflutningshöft séu við líði."

Svo margir hafa kreditkort, að vart er sanngjarnt að kalla þetta innflutningshöft. En eiginleg höft, ganga mikið - mikið lengra en þetta, sem snýst um að passa upp á að gjaldeyrir leki ekki úr landi.

Hinn bóginn, þarf kannski nú þegar að fara að skoða, hvort farin séu að þróast kunningjatengsl innan Seðlabanka, þannig að starfsmenn fái mútur til að líta framhjá eða vera ekki þverir fyrir þegar farið er fram á að fá gjaldeyri af reikningi. 

En þarna getur samt verið skammt á milli skrefa, það er eiginlega ábendingin hans Andra, að við séum nærri því að haftakerfið stigmagnist.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 8.5.2011 kl. 19:39

15 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Einar Björn, hvernig getur þú sagt:

þessi afsláttur er tapað fé nú þegar, þ.e. því ekkert eða nær ekkert eftir, til að skila til launþega.

Lestu ekki fréttir af ársuppgjörum bankanna?  

Innflutningshöftin eru á fyrirtækin í landinu.  Þau versla ekki inn með greiðslukortunum sínum.

"None-performing loans" eru stærsti vandi bankakerfisins í dag, vegna þess að bankarnir hafa allt of lengi þrjóskast við að fara að dómum Hæstaréttar.  Þeir sendu meira að segja rangar upplýsingar til skattsins um stöðu áður gengistryggðra lána heimilanna.  Hvernig ætli staða lána fyrirtækjanna sé?

Marinó G. Njálsson, 8.5.2011 kl. 21:38

16 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Þú ert að meina þessi svokallaði hagnaður af því að uppreikna lánin. Hillingar eins og svokallaður hagnaður bankanna fyrir hrun.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 9.5.2011 kl. 01:13

17 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Það er ekki nóg að lesa fréttir af  ársuppgjörum bankanna maður þarf líka að skilja þær.

500 miljónir í hagnaði eins bankans koma til af því að  hann fékk 1000 miljón kr gengistryggt lán úr gamlabankanum á 50% afslætt. það lán var 500 mlijónir í uppgjöri bankans 2009. 2010 var lánið í skilum og  það var því fært upp 1000 miljónir í bókum bankans. 

Þarn verða eingin verðmæti til heldur varður bara "löglegt "að greiða arð af hagnaðinum sem er eini tilgangurinn með þessu.

þetta er í reynd bara snúningur númer tvö þarna er bara verið að ræna bankann aftur og það sem er skondnast, líklega eru þetta  sömu mennirnir og rændu hanni í fyrra skiptið.

Guðmundur Jónsson, 9.5.2011 kl. 08:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 1681262

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband