Leita í fréttum mbl.is

Vandi Orkuveitunnar er vandi Íslands í hnotskurn - Stjórnlaus króna er málið

Ég hef oft minnst á það, að hrun krónunnar sem varð í undanfara og kjölfari hruns fjármálakerfisins, sé stærsta vandamál íslenska hagkerfisins.  Þetta sést t.d. berlega í vanda Orkuveitu Reykjavíkur, bágri stöðu íslenskra fyrirtækja, skuldavanda íslenskra heimila, fáránlega klikkaðri stöðu margra sveitarfélaga í landinu og svo að sjálfsögðu erfiðri stöðu ríkissjóðs.  Staðreyndin er nefnilega að ef við þurrkum út áhrifin af hruni krónunnar, þá hverfur stærsti hluti vandans.  Vissulega má segja að krónan hafi verið of sterkt skráð og því hafi hún þurft leiðréttingar við, en léleg hagstjórn á árunum fyrir hrun sá til þess að krónan fékk að haldast svona sterk.

Hvað væri öðruvísi, ef krónan hefði ekki hrunið?  Mig langar að gera tilraun til greiningar.  Ég er viss um að mér yfirsést eitthvað og tel annað með sem lesendur eru ekki sammála um.

1.  Gengisbundin lán væru 40 - 60% lægra skráð í íslenskum krónum, en fjármálafyrirtækin hafa viljað halda á lofti undanfarin ár.  Þar með hefði  greiðslubyrði þeirra haldist óbreytt og viðráðanleg fyrir flesta.  Engum hefði dottið í hug að efast um lögmæti þeirra.  Þar með hefði sparast ótrúlega mikill tími einstaklinga og fyrirtækja sem hefur farið í þennan slag um "erlend lán".  Efnahagur Orkuveitu Reykjavíkur væri bara í góðum málum, fjármögnunarleigur væru ekki í hópi erkióvina bíleigenda, Álftanesbær væri í góðum málum og þyrfti ekki að sameinast Garðabæ, greiðslubyrði gengistryggðra húsnæðislána væri í dúr og moll við greiðsluáætlun og ég væri nánast óþekktur ráðgjafi um upplýsingaöryggismál.

2.  Verðbólga hefði haldist innan við 5% á ári frá september 2007 til dagsins í dag.  Og meira að segja líklegast innan við 3% stóran hluta tímans.  Þetta hefði þýtt hóflega hækkun verðtryggðra skuldbindinga landsmanna.  Húsnæðislán hefðu hækkað um innan við 10% frá ársbyrjun 2008 í staðinn fyrir þau rúmlega 30% sem reyndin er.  Óánægja landsmanna með verðtrygginguna væri því hverfandi enda yfir litlu að kvarta.

3.  Efnahagur bankanna hefði ekki blásið jafnmikið út og raun bar vitni.  Stór hluti bólgnunar á efnahagsreikningi bankanna varð vegna falls krónunnar, en ekki vegna útlánaaukningar í nýjum lánum.

4.  Erlendar skuldir þjóðarbúsins væru ekki eins ógnvænlegar í krónum talið og þær eru í dag.  Vissulegu hefðu þær hækkað eitthvað vegna lána sem stjórnvöld hafa þurft að taka.  Upphæð sem er 4.000 ma.kr.  í dag væri t.d. ekki nema í kringum 2.000 ma.kr.

5.  Icesave-skuld Landsbankans væri um 600 ma.kr. í staðinn fyrir 1.200 ma.kr., en á móti væru eignir bankans líka helmingi minni.  Reikningurinn sem Icesave samningurinn snýst um, væri á bilinu 20 - 120 ma.kr. en ekki 40 - 240 ma.kr.

6.  Hrun bankanna hefði ekki orðið eins svakalegt í íslenskum krónum og þar með skuldir þeirra við erlenda kröfuhafa.  Hugsanlega hefði ríkissjóður átt fleiri kosti og Seðlabankinn líka.

7.  Kostnaður ríkissjóðs af endurreisn fjármálakerfisins hefði ekki orðið eins mikill.  Helgast það af því að gæði lánasafna bankanna hefði verið betra, þ.e. færri lán í vanskilum eða með greiðslubyrði umfram greiðslugetu lántaka.

8.  Minna hefði verið gefið út af "ástarbréfum" og þar með hefði gjaldþrot Seðlabanka Íslands orðið mun minna umfangs.  Endurreisn SÍ hefði kostað ríkissjóð verulegar upphæðir, en líklegast innan við 200 ma.kr.

9.  Efnahagsaðstoð AGS hefði orðið mun minni að umfangi í íslenskum krónum talið og líklegast líka í erlendri mynt.  Það þýðir lægri vaxtabyrði ríkissjóðs.

10.  Heimilin og fyrirtækin hefðu haft meiri fjármuni til að nota í neyslu, veltu og fjárfestingar.  Vissulega hefði húsnæðisverð lækkað, en það hefði bara hjálpað til við að halda aftur af verðbólgunni.

11.  Þrátt fyrir að ríkissjóður hefði tapað einhverjum tekjustofnum vegna hruns bankanna, þá hefði þörfin fyrir hækkun skatta verið mun minni og sama gildir um niðurskurð.  Þar sem margar aðgerðir stjórnvalda frá hruni hafa leitt af sér meiri harðindi, þá hefði stöðug króna hjálpað mikið til við að forða slíku.

12.  Vissulega hefði þurft kröftuga stjórnun á gjaldeyrismálum þjóðarinnar, þar sem hér á landi er mikið fjármagn í erlendri eigu sem gjarnan vill út.  En stöðug króna hefði aukið trúverðugleika hagkerfisins og þar með dregið út flótta fjármagns úr landi.

Á neikvæðu hliðinni, þá hefði ekki dregið eins mikið úr innflutningi og verðmæti útflutnings ekki aukist í íslenskum krónum.  Við værum því enn að kljást við óhagstæðan gjaldeyrisjöfnuð.  Fjármálakerfið hefði líklegast ekki fengið þennan harða skell, sem það gjörsamlega þurfti á að halda.  Hugsanlega hefði ríkisstjórn Geirs H. tekist að bjarga einhverjum banka og þar með haldið að ástandið væri ekki eins alvarlegt og það var.  Staða okkar væri nær því sem er að gerast í Írlandi, Portúgal og á Spáni.

Þetta eru vissulega vangaveltur um veröld sem var eða hefði geta orðið.

En aftur að OR.  Já, menn fóru geyst þar og talsvert fram úr sér.  Menn gleymdu að huga að aðskilnaði milli almenningsveitu og orkuöflunar fyrir stóriðju.  Farið var í gæluverkefni með litlu eigin fé.  Málið er bara að þetta hefði allt bjargast, ef bara við hefðum verið með einhvern annan gjaldmiðil en krónuna.  Gjaldmiðil sem ekki hefði skoppað eins og korktappi í ólgusjó.

Stærstu hagstjórnarmistök síðari ára var að binda ekki krónuna við einhvern annan gjaldmiðil árið 2001.  Örmyntin krónan hafði og hefur ekki enn burði til að lifa sjálfstæðu lífi, a.m.k. með þá efnahagsstjórn sem Íslendingar hafa mátt búa við.  Hún hefur raunar aldrei haft þá burði.  Í árdaga ævi sinnar var hún jafnsterk dönsku krónunni og allt fram til 1920 að farið var að skrá hana sjálfstætt.  Síðan erum við búin að sníða tvö núll aftan af og samt er ein dönsk króna yfir 21 íslensk króna.  Virði íslensku krónunnar er í dag innan 0,05% af upphaflegu virði hennar fyrir hátt í öld.  Hún hefur tapað tapað árlega 8,2% af virði sínu!  Frá myntbreytingu er rýrnunin 10,3% árlega, en ef við látum duga að skoða rýrnunina til 31.12.2007, þá er árleg rýrnun (miðað við danska krónu) 9,6%.  Verr tókst sem sagt til við að halda genginu stöðugu frá 1981 til áramóta 2007/8, en frá 1920 í gegn um heimskreppu og stríð til ársins 1981!

Ef sama þróun hefði haldið áfram 2008-10 og var frá 1981, þá væri danska krónan 16,59 íslenskar krónur, þ.e. 34,7% hækkun í staðinn fyrir 76,7% hækkun.  Munurinn á því gengi og gengi dagsins í dag (1 DKK = 21,773 IKR) er 31,2% en það tekur ekki nema um 3 ár að vinna það upp.

Getuleysi stjórnvalda og Seðlabanka (og Landsbanka fyrir stofnun SÍ) til að hafa stjórn á krónunni er vandamálið.  Menn geta falið sig bak við, að hún hafi bjargað einhverju eftir hrun, en gleyma því þá í leiðinni að vangeta stjórnvalda og Seðlabanka til að hafa stjórn á henni var orsök hrunsins, sem og óábyrg háttsemi fjármálakerfisins í undanfara hrunsins.  Halda menn að stjórnvöld eða Seðlabankastjórnendur framtíðarinnar reynist þeir töframenn að halda krónunni stöðugri í ólgusjó alþjóðagjaldeyrismála?  Ég hef enga trú á því.  Framtíð myntmála Íslands verður fjarri íslensku krónunni.

Hvað gerist þangað til?  Svarið kom fyrir helgi:  Gjaldeyrishöft.  Og eftir að þeim líkur verður tekin upp ný mynt, Evra.


mbl.is Áætlun um fjármögnun OR rædd á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

  Orkuveitan getr bara hækkad gjaldskra sina og serstaklega gagnvart nagranna sveitafelagum.

    Their eiga bara ad velta gjaldeyrisahættunni yfir a neytendur, einsog er gert med bensinid. En their hafa nu ekki verid serlega klokur tharna i OR, fyrirtækid var rekid einsog vogunarsjodur an thess their hafi gert ser grein fyrir thvi.

grettirsterki1 (IP-tala skráð) 29.3.2011 kl. 09:01

2 Smámynd: Sigurjón Jónsson

sæll Marínó og takk fyrir góða pistla og elju í baráttunni við peningaveldið.

Ég er þó ekki sammála þér um að Evran sé góður gjaldmiðill fyrir okkur. Ég tel að við verðum að hafa okkar eigin gjaldmiðil og að styrkur hann endurspeglist í framleiðslugetu þjóðfélagsins og framtíðar möguleikun til framleiðslu.

Ég er búinn að fylgjast með fjármálum ríkisins í 40 ár og er löngu sannfærður um að þar liggi okkar vandi. það er alveg sama hver er við völd í fjármálaráðuneytinu, ef menn kunna ekkert með peninga að fara og hafa líka vald til að prenta peninga þá fer illa.

Og þannig hefur þetta verið undantekningalaust frá því að við tókum upp íslenska krónu.

Seðlabankastjóri talar núna um að krónan muni styrkjast því hún sé í sögulegu lágmarki. Ég hef aldrei heyrt eins fáranleg rök eins og þessi, maðurinn hefur augljóslega ekkert vit á tölum

Krónan er í frjálsu falli eins og hún hefur alltaf verið og þess vegna er hún í sögulegu lágmarki eins og hún mun vera áfram þangað til að stjórn næst á efnahagsmálum þjóðarinnar.

Á meðan ríkið heldur áfram að auka eyðslu sína, og Seðlabankinn að keyra á okurvöxtum þá mun krónan halda áfram að falla.

Það er einfaldlega enginn annar kostur.

Þegar vextir eru hærri en hagvöxtur þá verður verðbólga til langs tíma litið. Núna erum við með negativan hagvöxt og þá ættu vextir að vera við 0%.

Varðandi Orkuveituna þá liggur beint við að hún verður einfaldlega að hætta við allar framkvæmdir og selja þessar túrbínur sem þeir eiga ónotaðar. Það er gjörsamlega galið af fyrirtæki sem á ekki peninga til að greiða af lánunum sem það er þegar með að fara að steypa sér út í frekari skuldsetningu. Þeir hafa augljóslega ekki lært neitt á þeim bæ ennþá.

Sigurjón Jónsson, 29.3.2011 kl. 14:29

3 Smámynd: Andrés Kristjánsson

Það væri gaman að taka saman fyrir hversu mikið sveitarfélög, heimili og fyritæki tóku erlend lán þrátt fyrir að þéna í íslenskri krónu.  Menn líta alltaf í krónubréfin sem ruku út í þennslunni en gleyma sinni eigin stöðutöku gegn gjaldmiðlinum.  Vandamálið er ekki krónan slík heldur það sem við gerðum með hana.  Við keyrðum á þrýstingi gegn gjaldmiðlinum með öllum erlendu lánunum.

Ef við getum sett ef við allar ákvarðanir í hrunadansinum þá hefði ekki orðið hrun.

  1. 90% íbúðarlánaloforð 2003.
  2. skattalækkun 2003
  3. körfulán 2001
  4. Kárahnjúkavirkjun 2003
  5. Hellisheiðarvirkjun 2003
  6. Icesave útibú England 2007
  7. Icesave útibú Holland 2008
  8. krónubréf 2005
  9. Einkavæðing bankanna 2001
  10. Og svo fleira.............

Andrés Kristjánsson, 29.3.2011 kl. 14:34

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurjón, ég er ekki að segja skoðun mína á hvort evran sé góð eða ekki heldur hvaða gjaldmiðill ég held að verði tekinn upp.  Lilja Mósesdóttir benti á á fundi um daginn að líklegast væri sænska krónan heppilegust, þar sem hagsveiflur eru svipaðar í báðum löndum.  Ég er talsmaður þess að farið sé varlega í að velja mynt og áður en til þess kemur fari fram ýtarleg greining á kostum og göllum hverrar myntar.

Andrés, ég sé ekki hvað hugmyndir um 90% lán sem áttu að koma til framkvæmda árið 2007 skipta máli.  Ég held að greining á því máli muni leiða í ljós að undir lágu allt önnur atriði sem vógu mun þyngra.  Vil ég þar nefna reglur Seðlabanka Íslands um útreikning á áhættugrunni vegna eiginfjár sem settar voru í júní 2003, þ.e. þegar Basel II var í raun innleitt hér á landi, og síðan breyting á þessum reglum 2. mars 2007.  Ég skil ekki tregðu manna til að líta á þessar reglur sem uppskrift að blöðrumyndun í fjármálakerfinu. Kaldhæðnin er að áhrif Kárahnjúkavirkjunar voru mun minni en áhrifin af þessum reglum.  Kárahnjúkavirkjun var hátt í 300 ma.kr. framkvæmd á 3 árum eða svo, meðan áhrifin af breyttum áhættugrunni voru ekki undir 500 ma.kr. bara fyrsta árið og síðan 700 - 1.000 ma.kr. á ári eftir það.  Þar af fóru 350 ma.kr. í fasteignamarkaðinn. 

Marinó G. Njálsson, 29.3.2011 kl. 14:57

5 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Ég held að 90% lánshlutfall til fasteignalána skipti engu máli. Það sem skapaði fasteignabóluna var að bankarnir og Íbúðalánasjóður lánuðu algjörlega fyrirhyggjulaust.

Það var ekkert spurt um hvort menn gætu borgað af lánunum eða hvort verktakar væru með kaupendur að eignunum.

Bankarnir og Íbúðalánasjóður voru á sama báti í þessu og eiga mesta sök á hvernig þessi húsnæðisbóla fór.

Ég er búinn að vera viðloðandi byggingabranann í 35 ár mitt fyrirtæki kemur vel undan kreppunni. Við einfaldlega byggðum ekki nema að hafa kaupanda og þetta varð aldrei neitt vandamál, og er ekki enn.

Sigurjón Jónsson, 29.3.2011 kl. 15:32

6 identicon

Mér finnst ég lesa út úr innslaginu hjá Andrési ákveðinn misskilning varðandi það að taka "erlent" lán sé stöðutaka gegn krónu. Það er akkúrat öfugt....að taka erlent lán er stöðutaka MEÐ krónunni í þeim skilningi að sá sem það gerir hefur trú á að gengi hennar verði nokkuð stöðugt gagnvart erlendum gjaldmiðlum yfir líftíma lánsins.

Svo geta menn rifist um hvort það hafi verið skynsöm skoðun eða ekki en þá bið ég menn að íhuga...sá sem tekur verðtryggt lán hefur væntanlega þá trú að verðlag á Íslandi verði nokkuð stöðugt. Er mikil skynsemi á bakvið þá skoðun ?

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 29.3.2011 kl. 15:50

7 identicon

1981 voru tvö núll tekin af krónuni. Ef það hefði ekki verið gert, þá þyrftum við að borga 16.200 kr. fyrir eina evru í dag. Já, hún er stöðug íslenska krónan. Þessari þjóð er ekki viðbjargandi. 

V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 29.3.2011 kl. 20:03

8 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Marinó,

mjög góð færsla að venju,

smá athugsemd, bandaríski dollarinn hefur rýrnað um 99,5% frá 1913. Þá er reyndar átt við kaupgetu hans innanlands í USA. Gildi hans gagnvart öðrum gjaldmiðlum fer því eftir rýrnun hinna á sama tíma. Það er áhugaverð spurning hvers vegna gjaldmiðlar rýrna stöðugt. 

Gunnar Skúli Ármannsson, 29.3.2011 kl. 21:59

9 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Marínó - tenging getur ekki virkað, við þær aðstæður sem ríktu á sl. áratug.

  • En, tenging er í reynd fastengisstefna.
  • Ég sé ekki nokkurn möguleika á því, að nokkur fastgengisstefna hefði geta haldið á sl. áratug - vegna þess:
  1. Ríkið á sl. áratug, gerði sitt besta til að kynda undir frekar en að kæla hagkerfið.
  2. Það skapaði verðbólgu, sem Seðlabankinn á sl. áratug sá aðeins ein möguleg viðbrögð við, þ.e. frekari hækkun vaxta.
  3. Stöðugt hækkandi vextir, síðan framkölluðu enn meira innstreymi fjármagns að utan, því krónan varð stöðugt meira aðlaðandi í augum skammtíma fjárfesta.
  4. Þetta ítti genginu stöðugt upp.
  • Þetta hefði ekki nokkur fastgengis-stefna geta staðið af sér.
  • Þ.e. því tómt mál, að dreyma um - hve gott hefði verið ef krónan hefði verið tengd.
  • Reyndar hefði fræðilega verið unnt að setja á höft - til að loka af innstreymi fjármagns - sem hefði verið eini fræðilegi möguleikinn til að verjast frekari innstreymi fjármagns, meðan ofurvextirnir ríktu enn og þannig frekari hækkun gengis krónu. Og því, að verjast hruni fræðilegrar fastgengisstefnu.

Varðandi fall bankanna:

Fyrir hrun náði landsframleiðsla á mann hæst 62þ.$ en árið 2010 var hún 36.700$ á haus skv. CIA Factbook.

  • Þetta er lækkun um 40%.
  • Í því ljósi, er fall gengis krónunnar alls ekki of mikið.
  1. Ég get ekki séð, hvernig í ósköpunum unnt hefði verið að verja kjör almennings, við svo mikið tjón á verðmætaframleiðslu hagkerfisins.
  2. En, munum að þ.e. ekki "trivial" gæði að krónan sneri viðskiptahalla yfir í hagnað, en skuldir Ísland væru a.m.k. 40% hærri sem hlutfall af landsframleiðslu, ef ekki hefði komið til sá viðsnúningur halla yfir í hagnað, sem fall gengis krónu framkallaði.
  3. Ég er þess fullviss, að í fræðilegu dæmi, að einhvern veginn hefði verið skellt á höftum á krónuna rétt fyrir hrun, og þannig gengisskráning varin - þá hefði þurf að skella á innflutningshöftum, eins og á milli 1946-1959.
  4. En, mín skoðun er, að helsta ástæða þess að skuldatryggingaálag Ísland hefur lækkað mjög verulega, síðan fyrri hluta árs 2009 annars vegar og hins vegar að það tókst að komast hratt yfir það tímabil að erlendir aðilar kröfðust fyrirframgreiðslu fyrir afhendingu vöru; hafi einmitt verið viðsnúningurinn yfir í afgang á útflutningsverlsun, því sá hagnaður hefur einmitt þau áhrif að róa aðila sem eru í viðskiptum við Ísland og að sjálfsögðu finnst erlendum mörkuðum með skuldatryggingar það traustvekjandi að auki að landið sé að safna peningum með þeim hætti fremur en skuldum.
  5. Þetta tel ég persónulega vera megin ástæðu þess, að borið saman við Ísland hefur skuldatryggingaálag Ísland lækkað mikið á sama tíma og fyrir Portúgal hefur það hækkað stöðugt.

Tvöfaldur halli = tvöföld áhætta.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 29.3.2011 kl. 22:33

10 Smámynd: Elle_

Ítarleg og fræðandi færsla, Marinó.  Samt varð ég döpur þegar þú nefndir evruna í lokin.  Hví evru?  Hví ekki dollar, sterkasta gjaldmiðil heims?: Um 70% af heildinni sem þýddi minni ólgusjó eins og ég skil það.

Elle_, 30.3.2011 kl. 00:15

11 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég skil ekki hvað fólk er tilbúið að skilja þessi síðustu orð mín, sem minn vilja.  Svo er ekki.  Ég hef ekki tekið afstöðu, en þetta er það sem núverandi stjórnvöld vilja og vinna baki brotnu að.

Marinó G. Njálsson, 30.3.2011 kl. 00:19

12 Smámynd: Elle_

OK, ég vissi að stjórnvöld vildu það, Marinó, og var í alvöru ekki að segja að þú vildir það þó það kannski hefði getað skilist þannig.  Og var að vísu ekki búin að lesa commentin heldur.  Skil alls ekki hvað stjórnvöld vilja með evru.  Það er orðið nánast eins og óskiljanleg trú.

Elle_, 30.3.2011 kl. 00:26

13 Smámynd: Andrés Kristjánsson

Virkjanagerð ein og sér á tímabilinu 2003-2007 kostaði rúmma 400 milljarða.  Kárahnjúkavirkjun telur 75% af því.  Stækkun Grundartanga og bygging álvers á Reyðarfirði kostuðu 150 milljarða.  Það fer engin að segja mér að 550 milljarða fjárfesting hafi ekki haft gríðarleg áhrif í hinni miklu þennslu sem fyrir var.  Heildarfjárfesting atvinnulífsins á þessu tímabili var 1500 milljarðar.

Seðlabankinn mætti þessum framkvæmdum með miklum hækkunum á stýrivöxtum.  Við það myndaðist mikill áhugi á krónubréfum sem voru kominn í 500 milljarða þegar hrunið reið yfir og stýrivextir komnir í 18%.  Engin áhrif?

90% kosningaloforð Framsóknarmanna hafði mikil áhrif á fasteignamarkaðinn.  Í raun var ríkið að lofa fjáraustri á fasteignamarkað sem tók kipp í kjölfarið.  Einkabankarnir mótmæltu þessu enda ætluðu þeir sér að bjóða uppá viðbótarlánin.  Þeir fóru síðan í beina samkeppni við ríkið og buðu fyrst uppá 90% og seinna meir 100% lán.  Þegar 10 mánuðir voru í hrun voru útlán bankanna 3 í 209 milljöðrum og hlutfall erlends gjaldmiðils í lánunum 58%.

Skipulögð atlaga gegn krónunni og hrun hennar.  Það er ekki krónan sem eyðir okkur heldur við sem eyðum krónunni.  Þegar ég tala um óbeina stöðutöku Íslendinga gegn krónunni þá er ég að tala um lánatökur í erlendum gjaldmiðli.  Ef skuldir líkt og skuldaþennslan í hruninu eru í erlendum gjaldeyrir þá myndast gríðalegur þrystingur á krónuna.  Þegar Seðlabankinn reyndi kæla niður efnahaginn þá sniðgengu menn hann og tóku "ódýrari" erlend lán og héldu áfram að skulda.  Þetta er einföld spurning um framboð og eftirspurn það er ákveðið mikið af gjaldeyri sem atvinnulífið skapar, ef fleiri aðilar keppast um meiri og meiri gjaldeyri þá verður hann dýrari ergo krónan fellur.

Stóra stöðutakan 10 mánuðum fyrir hrun hjá bönkunum þrem.

  1. Fateignaviðskipti 209 milljarðar 59% í erlendum gjaldeyri
  2. Framleiðsla 198 milljarðar  81% í erlendum gjaldeyri
  3. Landb, fiskveið, skógr.  165 milljarðar 77% í erlendum gjaldeyri
Til við bótar eru 7 aðrar viðskiptagreinar sem bera lán uppá 462 milljarða og er hlutfall erlends gjaldmiðils frá 30% og upp í 70%. Sjá í rannsóknarskýrslu bindi 2 bls 98 tafla 8



 

Andrés Kristjánsson, 30.3.2011 kl. 11:05

14 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Andrés, ég vil benda þér á að upplýsingar þínar um virkjunarkostnað eru alveg út úr kortinu.  Bygging Kárahnjúkavikjunar kostaði með öllu um 130 ma.kr.  Heildarkostnaðurinn við virkjun, línur og álver var um 300 ma.kr.

Þú getur reiknað þig í alls konar stærðir og gefið þér forsendur.  Hagfræðingar hafa bent á (og það getur þú fundið ef þú googlar) að þennsluáhrif framkvæmdanna fyrir austan hafi verið mun minni en vegna útlánaaukningar fjármálakerfisins á Reykjavíkursvæðinu.  Síðan er spurning hvort hægt er að kenna álveri og virkjun um að hópur manna fylltist mikilli bjartsýni og byggði langt umfram eftirspurn á Reyðarfirði og Egilsstöðum.  Þeir hefðu ekki getað það nema vegna þess að fjármálakerfið veitt lán til framkvæmdanna.

Það er kjaftæði að hugmyndir um 90% lán í áföngum hafi haft mikil áhrif á fasteignamarkaðinn.  Til er mjög áhugaverð greining á þróun íbúðaverðs og útlána fjármálafyrirtækja.  Það er mjög mikil fylgni milli þessara tveggja þátta, þ.e. íbúðaverð fer upp þegar lán bankanna aukast og niður þegar bankarnir halda að sér höndum.  Í hvert sinn sem bankarnir halda að sér höndum eykst hlutur ÍLS.  Að halda því fram að hugmynd um að lána árið 2007 allt að 90% af fasteignamati og að hámarki 18 m.kr. hafi orðið til þess að fjögurra herbergja íbúð með fasteignamat upp á 15 m.kr. hafi hækkað úr 20 m.kr. í 30 m.kr. haustið 2004, er algjört rugl, eða að 200 fm raðhús að fasteignamati 24 m.kr. hafi hækkað úr 32 m.kr. í 44 m.kr. frá september 2004 fram í september 2005, stenst ekki skoðun.  

Ég veit að fjármálafyrirtækin hafa verið dugleg við að kenna Framsókn um, en staðreyndin er að þau drógu hækkanirnar áfram ekki ÍLS.

Marinó G. Njálsson, 30.3.2011 kl. 13:01

15 Smámynd: Andrés Kristjánsson

Það er hárrétt hjá þér að á verðlagi 2007 hafi kárahnjúkavirkjun, stífla og aðrennslisgöng kostað um 133 milljarða.  Hún var fjármögnuð með Yenum og Sviss frönkum þeir endurfjármögnuðu lánin eftir þó nokkuð gengistap í BNA dollurum. 

Sá kostnaður er c.a 3.2 milljarðar dollara.  Álverið sjálft einn milljarður dollara og virkjunin 2.2 milljarðar eða í krónum í dag um 377 milljarðar. 

Svartshengi og Hellisheiðarvirkjun 800 milljónir dollara og stækkun Grundartanga 560 milljónir dala eða 156 milljarðar .

Samanlagt á verðlagi í dag 533 milljarðar (mjög íhaldsamt mat á Kárahnjúkavirkjunþar sem ég hef bara séð kostnað vegna stíflu og aðrennslisganga gefin upp (2.05 milljarðar dollara).

Andrés Kristjánsson, 30.3.2011 kl. 15:21

16 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Andrés, nú ert þú með útúrsnúninga.  Þá getum við líka sagt að húsin sem keypt voru á gengistryggðum lánum hafi ekki kostað 50 m.kr. heldur 130 m.kr. eða bíllinn sem kostaði 2 m.kr. hafi í reynd kostað 3,6 m.kr.  Mér finnst rök þín heldur döpur, svo ekki sé meira sagt.

Marinó G. Njálsson, 30.3.2011 kl. 15:45

17 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Marínó - ég er persónulega alveg orðinn afhuga hugmyndum, um að taka upp annan gjaldmiðil hérlendis, sem leið til einhvers konar framtíðar lausnar fyrir Ísland.

Þá meina ég, burtséð frá hvaða gjaldmiðil - sem ekki er okkar eigin.

Vandinn sem við hittum á er alltaf sá sami - stjórnunarlegs eðlis.

Ég sé ekki, að annar gjaldmiðill miðað við reynslu landanna í vanda innan Evrunnar, skili betri niðurstöðu fyrir almenning. 

Þessi mynd af vef FT.com er áhugaverð. En, meginmunurinn á því að hafa anna gjaldmiðil - felst ekki í stöðugleika því óstöðugleiki hérlendis hverfur ekkert með gjaldmiðilsskiptum enda heldur óstöðugleiki þess sem undirbyggir okkar hagkerfi áfram eftir sem áður - né því að verðbólga hverfi en verðbólga sem myndast fyrir eftirspurnarþrýsting verður jafn mikil eftir sem áður enda var mikill munur á milli einstakra aðildarlanda Evrusvæðis einmitt á verðbólgu á sl. áratug - né sýnist mér sérlega líklegt að bankalán hérlendis til húsnæðiskaupa myndu verða að ráði ódýrari en ég bendi á að ávöxtunarkrafa lífeyriskerfisins myndar raungólf ávöxtunarkröfu hér þannig að bankar eftir sem áður geta ekki boðið lægra en þá raunávöxtunarkröfu + kostna; nei megninmunurinn virðist mér fyrst og fremst sá að þegar kreppa skellur á og gengisfelling myndi verða hér þá sleppum við við slíka en það þíðir ekki að það verði ekki vandræði með lán því þó ekki verði gengisfelling þá er kreppan alveg eins djúp eftir sem áður hagkerfistjón það sama þannig að í reynd verður sama lífskjaraskerðing fyrir rest og því svipuð aukning vandræða og ef lán hefðu hækkað því þú ert ekkert betur settur að fá í staðinn launalækkun jafnvel þó að launin lækki smám saman dreift yfir einhverra ára tímabil.

Martin-Wolf-column-charts

Taktur eftir þróun launa annars vegar og hins vegar þróun viðskiptahalla.

Írland - þar hefur samfelld launalækkun meira eða minna verið síðan um mitt ár 2008, enda eru þeir cirka búnir að framkvæma sambærilega aðlögun í dag og Ísland framkv. á einum degi með stórri gengisfellingu.

Á Grikklandi og í Portúgal, virðist ekki ganga að ná samstöðu um slíkt launalækkunarferli, enda sést að þó laun hafi lækkað nokkuð, þá dugar það hvergi nærri til að afnema viðskiptahallann. Hann er þó minni hjá báðum löndum en þegar kreppan hófst. Mér skilst að launalækkun í Grikklandi sé um 20% síðan fyrir kreppu, en mun meiri lífskjaraskerðing mun þurfa að fara fram ef hagkerfið á að snúa yfir til sjálfbærs búskapar sem er að sjálfsögðu ekki viðskiptahalli ofan í skuldir er hlaupa brúttó á 500% af þjóðarframleiðslu, þ.e. mun hærri brúttó en skuldir Íslands.

Að Spánn er enn með viðskiptahalla, er klár veikleiki. Laun þurfa sennilega að lækka þar meir, einnig en fram að þessu.

-------------------

En punkturinn er sá, að engum er greiði gerður með því að lifa um efni fram - það á jafnt um þjóðir sem einstaklinga - viðvarandi viðskiptahalli er ekkert annað en lán sem þjóð tekur í dag út á verri lífskjör seinna.

Þ.e. að börnin þeirra muni hafa það verra.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 30.3.2011 kl. 16:20

18 Smámynd: Andrés Kristjánsson

Þetta er allt rétt hjá mér.  Landsvirkjun gerir upp í dollurum ef virkjun kostar 2.2 milljarða $ þá heimfærir maður það á núgildi til að fá kostnað í krónum.  Skuldir Landsvirkjunar voru í árslok 2010  2.674 milljónir $ langstærstur hluti þessara skulda tengjast framlvæmdunum fyrir austan. Það er ekki hægt að segja að skuldir vegna Kárahnjúkavirkjunar séu 1.160 milljónir $ og 1.514 milljónir $ sé gengistap og annar kostnaður.

Gengistryggðu lánin bera með sér gengisáhættu fyrir þann sem það tekur.  Stofnkostnaður er alltaf í þeim gjaldmiðli sem notaður er til að greiða lánið.  Hitt fellur sem vaxtakostnaður, gengishagnaður eða gengistap.

Ég læt þetta duga af minni hálfu

kveðja

Andrés Kristjánsson, 30.3.2011 kl. 19:49

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Með fullri virðingu, Andrés, þá getur þú ekki endurreiknað kostnaðinn við verkið út frá stöðu lánanna í dag.  Þetta er svo mikið bull, að það tekur engu tali.  Virkjunin kostaði 130 ma.kr. og það var upphæðin sem var greidd á sínum tíma og fór inn í hagkerfið, til verktaka og erlendra aðila.  Þó lán Landsvirkjunar hafi hækkað, þá hækkar ekki veltan vegna virkjunarinnar á þeim árum sem hún var byggð.

Marinó G. Njálsson, 30.3.2011 kl. 20:30

20 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Síðan skil ég ekki hvað þú ert að blanda skuldum Landsvirkjunar inn í þess umræðu.  Fókusinn er út og suður hjá þér, fyrir utan að þú nærð engri tenginu við efni færslunnar.

Marinó G. Njálsson, 30.3.2011 kl. 20:32

21 Smámynd: Andrés Kristjánsson

Áhugavert ég kom með 10 atriði um "ef" við hefðum ekki gert hitt og þetta þá hefði ekki hrunið komið.  Allt hlutir sem áttu þátt í hruni gjaldmiðilsins.

Ef krónan hefði ekki hrunið hvar stæðum við þá er útgangspunktur í greininni þinni.

29.3.2011 kl. 14:34 

Þú síðan tókst tvo punkta út 90% lánin og Kárahnjúkavirkjun slepptir hinum 8. Kanski kom ég við gamla Framsóknar hjartað?   En það eru fleiri en ég sem benda á þessa tvo hluti ásamt hinum sbr rannsóknarskýrslan.

29.3.2011 kl. 14:57 

Þú velur þér það að hafna þeirri staðreynd að Landsvirkjun gerir upp í Dollurum.  Ef fyritæki gerir upp í einum gjaldmiðli umfram annan þá er allur kostnaður þess settur upp í þeim gjaldmiðli.  Sem dæmi kostnaður Kárahnjúkavirkjunar er 2.2 milljarðar Dollarar, það var stofnkostnaður ekki staða láns.

Auðvitað eykst ekki velta í krónum vegna framkvæmda á virkjun en virði krónunnar er ekki alltaf sú sama sem hlutfall af landsframleiðslu eða kaupmætti.  Árið 2007 var landsframleiðsla 1279 milljarðar síðan þá, lok 2010, hefur hún dregist saman um rúmm 10% ,  þrátt fyrir það er landsframleiðslan 1540 milljarðar krónur.  Vísitalakrónunnar var 111 árið 2007 en er 205 í dag.  133 milljarðar í dag segja okkur ekkert.

30.3.2011 kl. 20:30 

Megin argumentið mitt var aftaka krónunnar en ekki hvernig krónan tók okkur af lífi eins og sumir vilja meina.   Ég tók þetta allt saman. Í svari: 30.3.2011 kl. 11:05  

En þú getur svo sem alveg haldið áfram að tala niður til mín, þetta er þín síða. 

Andrés Kristjánsson, 31.3.2011 kl. 00:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.11.): 11
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 234
  • Frá upphafi: 1679942

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 212
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband