Leita í fréttum mbl.is

Bréf til ríkisskattstjóra

Í framhaldi af færslu minni í fyrrakvöld (sjá NBI tapar málum fyrir Hæstarétti þar sem varnaraðili mætti ekki - Hefur áhrif á skattframtalið) um að forinnskráðar upplýsingar frá fjármálafyrirtækjum um áður gengistryggð lán séu rangar sendi ég eftirfarandi tölvupóst til ríkisskattstjóra:

Berist til ríkisskattstjóra

Ágæti viðtakandi

Ég vil beina kvörtun til ríkisskattsstjóra þess efnis að forinnfærðar upplýsingar frá fjármálafyrirtækjum séu yfir höfuð rangar.  Í þeim er ekki tekið tillit til dóma Hæstaréttar frá 16/6/2010 um að gengistrygging sé ólögleg verðtrygging og því sé fyrirtækjunum óheimilt að reikna höfuðstól lána eins og um lán með gengistryggingu sé að ræða.  Hæstiréttur staðfesti þennan skilning minn í dómum 30/2011 og 31/2011 sem kveðnir voru upp 8/3/2011.  Gera á þá skýlausu kröfu til fjármálafyrirtækjanna að þau sendi ríkisskattstjóra réttar upplýsingar um stöðu lánanna, gjaldfallnar greiðslur síðasta árs og vexti þeirra.  Einnig skulu fjármálafyrirtækin taka tillit til laga nr. 151/2010 um vexti og að lán skuli ekki teljast í vanskilum, þó ekki hafi verið greitt af þeim í samræmi við upprunalegan lánasamning.

Jafnframt krefst ég þess að frestur til að skila framtali lengist, svo fjármálafyrirtækjunum gefist færi á að leiðrétta upplýsingarnar og framteljendur hafi eðlilegan tíma til að yfirfara upplýsingarnar eftir að þeim hefur verið skilað inn réttum. Ég get verið kærður fyrir skattalagabrot sendi ég skattayfirvöldum inn framtal með upplýsingum sem ég veit að eru rangar.  Með staðfestingu minni við innslátt á auðkennislykli mínum, þá gef ég til kynna að í framtalinu séu réttar upplýsingar.  Þar sem fjármálafyrirtækin sendu ekki inn réttar upplýsingar og ekki er hægt að ætlast til þess að ég viti hvaða tölur eru réttar, þá er ég að brjóta lög við innsendingu framtalsins.  Af þessari ástæðu krefst ég þess að skattstjóri krefji fjármálafyrirtækin um réttar upplýsingar, þær verði færðar inn í skjal sem framteljendur geta síðan fært yfir í framtalið og hafi hæfilegan tíma til verksins.

Hafa skal í huga að það getur varðað við 248 gr. almennra hegningalaga að gefa upp rangar upplýsingar líkt og fjármálafyrirtækin gera.  Finnst mér vel athugandi fyrir skattayfirvöld að kanna hvort fjármálafyrirtækin hafi brotið gegn þessu ákvæði.  Dómarnir frá 16/6/2010 voru mjög skýrir og dómarnir frá 8/3/2011 eru það líka.  Í þeim síðari er NBI hf. snupraður fyrir að reyna að innheimta gengistryggt lán sem slíkt og bankanum bent á að krafa hans eigi sér ekki stöð í lögum.  Það sama á við um forinnskráðar upplýsingar frá fjármálafyrirtækjunum um áður gengistryggð lán.  Þær eiga sér ekki stoð í lögum og eru því tilraun grófrar fölsunar á upplýsingum sem gefa skal upp til skatts.

 

Virðingarfyllst

Marinó G. Njálsson

Nú er bara að bíða og sjá.  Mér finnst það liggja í augum uppi að þeir sem eru með áður gengistryggð lán og lán sem falla undir ákvæði laga nr. 151/2010 eru að brjóta skattalög með því að senda skattframtöl inn með upplýsingum fjármálafyrirtækja eins og þær standa núna (tek að vísu fram að ég veit ekki hvernig tölurnar eru frá Íslandsbanka).  Þessir lántakar geta því bakað sér refsiábyrgð með því að skila framtölum sínum inn með óbreyttum tölum.  Skattinum er örugglega ekki heimilt að sjá í gegn um fingur sér með þetta, fyrir utan að forsendur fyrir útreikning vaxtabóta rjúka út í veður og vind.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heyr, heyr.  Takk fyrir að standa vaktina...

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 16.3.2011 kl. 01:59

2 Smámynd: Magnús Ágústsson

Takk Takk

Magnús Ágústsson, 16.3.2011 kl. 09:23

3 Smámynd: Þórdís Björk Sigurþórsdóttir

Og smá viðbót:

Kæri Skattstjóri

Það sama á við um fjármögnunarfyrirtækin, það er ekki tekið tillit til dóma Hæstarétta. Þar að auki er forskráð skuld á framtali við fyrirtækin hjá þúsundum einstaklinga að hluta til stolinn virðisaukaskattur, skattur sem almenningur greiddi en var aldrei skilað í ríkissjóð. Ef fyrirtæki gefa ekki út sölunótur segir það sig sjálft að skattinum var ekki skilað. Og þennan stolna skatt hafa fyrirtækin rukkað fólk um tvö-þrefalt (með gengistryggingu og síðar óverðtryggðum vöxtum).

með kveðju

Þórdís 

Þórdís Björk Sigurþórsdóttir, 16.3.2011 kl. 11:30

4 identicon

Þetta á ekki að koma á óvart, þessir þjófar láta alla dóma sem vind um eyru þjóta, þeir haga sér efti sínum siðareglum, en þer ættu að vera kennslugrein í viðskiptasiðfræði um hvernig ekki á að stunda viðskipti

Geir Birgir Guðmundsson (IP-tala skráð) 16.3.2011 kl. 12:18

5 Smámynd: Elle_

Ekkert kemur lengur á óvart sem bankar og fjármálafyrirtæki landsins gera.  Enda komast þeir upp með nánast hvað sem þeir vilja gegn almenningi með vernd bankaríkisstjórnarinnar.  En gott framtak, Marinó. 

Elle_, 16.3.2011 kl. 17:07

6 identicon

Það verður fróðlegt að sjá svarið frá skattstjóra við þessu bréfi. Ef hann svarar. Takk Marinó fyrir að benda á þetta.

HA (IP-tala skráð) 18.3.2011 kl. 00:39

7 identicon

Sæll Marinó

Þó ég klappi fyrir þeirri hugmyndafræði þinni að "rétt skal vera rétt" þá verð ég samt að benda á að ef fólk setur endurreiknaðar upphæðir inná skattaskýrsluna sína þá getur það haft áhrif til LÆKKUNAR vaxtabóta.

Nú hefur endurreikningur það í för með sér að vaxtagjöld flestra stórhækkar (með afturvirkninni og/eða hækkun á vaxtaprósentu) en skuldir lækka vegna lækkunar á höfuðstól.

Skv. reglum um útreikning vaxtabóta ber að miða við þá tölu sem lægst er af 1) raunveruleg vaxtagjöld 2) 1.200.000.- 3) 7% af eftirstöðvum skulda. Þetta þýðir að vaxtagjöld umfram 1.200.000.- falla niður sem andlag til útreiknings vaxtabóta og koma ekki að gagni. Því "græða" fæstir af auknum vaxtagjöldum í gegnum endurreikning þegar kemur að vaxtabótum. Jafnframt er til í dæminu að lækkun höfuðstóls veldur því að 3. reglan "kikki" inn til lækkunar.

Nú...frá leyfilegum vaxtagjöldum dregst síðan 8% af launum.

Þá kemur skerðing vegna eignar. Hún byjrar strax við 6m og verður 100% við 10,4m. Og vegna þess að höfuðstóll lækkar í kjölfar endurreiknings þá er alls ekki ólíklegt að það muni hækka fólk í skerðingarmörkum og jafnvel þurrka út vaxtabæturnar hjá fólki sem lendir illa í því, t.d. ef þú ert 100% fjármagnaður í erlendu og ferð úr nettó eign minni en 6 milljónir í yfir 10....bæ bæ vaxtabætur.

Ég er t.d. einn af þeim sem myndi koma illa út...með meira en 1,2m í vaxtagjöld og allar hreyfingar til lækkunar höfuðstóls leiða beint til skerðingar vaxtabóta.

Einsog ég hef sagt áður...lífið í skjaldborginni er dásamlegt.

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 18.3.2011 kl. 13:30

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Magnús, ég átta mig svo sem á þessu öllu og veit að hin og þessi þök gera það í raun og veru að verkum að skatturinn fær nægar upplýsingar í flestum tilfellum.  Á hinn bóginn máttu ekki gleyma því að það er mikilvægt fyrir skattinn að fá eins réttar upplýsingar frá framteljendum og hægt er.  Eins er það mín lagalega skylda að veita skattinum eins réttar upplýsingar og ég get mögulega gert.  Stór hluti framtekjenda eru sjálfstæðir rekstraraðilar og einhverjir þeirra eru með gengistryggð lán.  Afkoma reksturs þeirra veltur á því hvernig lánin eru reiknuð.  Miðað við útreikning fjármálafyrirtækjanna, þá reksturinn í flestum tilfellum skila tapi, sem lækkar skatttekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga.  Hvernig sem þetta allt snýr, þá er einfaldlega betra að fjármálafyrirtækin skili réttum upplýsingum.

Marinó G. Njálsson, 18.3.2011 kl. 14:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 1680031

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband