2.3.2011 | 11:20
Fjármálafyrirtæki í klemmu
Nú þegar endurútreikningar á áður gengistryggðum lánum eru farnir að streyma frá fjármálafyrirtækjum, þá kemur í ljós að fyrirtækjunum líður ekki öllum vel með aðferðafræðina. Ég hef, allt frá því að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur féll 23. júlí 2010 um að endurreikna skuli lán með lægstu óverðtryggðu vöxtum Seðlabanka Íslands, haldið því fram að það væri andsnúið neytendaverndartilskipun ESB og 36. gr. laga nr. 7/1936 að krefja neytendur um hærri vexti fyrir tímabil, þar sem þeir stóðu í fullum skilum við fjármálastofnun samkvæmt útsendum greiðsluseðlum. Ég spurði strax hvernig yrði með þá sem gerðu upp lán sín fyrir hrun krónunnar eða seldu eignir sínar og þar sem nýr eigandi tók yfir áhvílandi lán.
Með breytingum, sem samþykktar voru fyrir jól, á lögum nr. 38/2001 er gert ráð fyrir að endurreikna skuli öll lán og þau gerð upp við greiðanda lánsins á hverjum tíma. Það þýðir að hafi einn einstaklingur verið greiðandi að láni frá 2005 - 2007 og annar tekið við láninu í byrjun árs 2008, þá verða til tvö uppgjör. Fyrra uppgjörið er vegna áranna 2005 - 2007 og hitt vegna tímans eftir það. Fyrir þá sem þekkja þróun vaxta og gengis á þessum tíma er ljóst að einstaklingurinn sem greiddi skilvíslega af láninu á fyrra tímabilinu hann skuldar fjármálafyrirtækinu umtalsverðar upphæðir, en hin sem tók síðan við láninu og hefur greitt skilvíslega af því á inni umtalsverðar upphæðir.
Hvernig getur einstaklingur sem stóð í skilum á árunum 2005 - 2007 skuldað fjármálafyrirtæki háar upphæðir? Þetta vefst fyrir fleirum en mér. Samkvæmt frétt RÚV hefur sú ákvörðun verið tekin hjá SP-fjármögnun og Avant, dótturfyrirtækjum NBI ehf., að ekki verði gerðar kröfur vegna endurútreikninga á viðskiptavini sem eru í þessari stöðu. Hafi þessi ákvörðun verið tekin, þá er ljóst að fyrirtækin eru að mismuna viðskiptavinum sínum. Hver er munurinn á því að einstaklingur sé ennþá að greiða af láninu sínu og sé ekki lengur að því? Hvers vegna er einn einstaklingur krafinn um umframgreiðslu fyrir tímabilið 2005-2007 (svo dæmi sé tekið) meðan annar er ekki krafinn um það? Í mínum huga gengur það ekki upp. Það er raunar óskiljanlegt að SP-fjármögnun og Avant telji sig geta gert mismunandi kröfur vegna sama tímabils.
Fjármálafyrirtækjunum er nokkur vorkunn með þess stöðu sína. Segja má að fyrirtækin eigi tvo kosti:
A. Að endurreikna öll lán í samræmi við ákvæði laganna og senda lántökum, núverandi og fyrrverandi, uppgjör samkvæmt niðurstöðu útreikninganna. Þá lenda þeir í þeirri stöðu, sem lýst er í frétt RÚV, að einstaklingur sem stóð í skilum en er ekki lengur greiðandi að láni, getur verið krafinn um viðbótargreiðslu þar sem lögin kveða á um að vextir hækki afturvirkt (og líka hugsanlega vegna þess að gengi gjaldmiðla á gjalddaga var lægra en lántökugengi). Hvernig getur það passað við neytendaverndarsjónarmið að rukka einstakling þremur árum síðar um aukagreiðslu sem þessa? Efast ég um að það fari vel í Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og EFTA-dómstólinn.
B. Þar sem kostur A er líklegasta ávísun á kæru til ESA eða EFTA-dómstóls, þá hafa a.m.k. þessi tvö fjármálafyrirtæki líklegast séð þann kost vænstan að krefja viðkomandi ekki um "vangreiðslurnar". Með þessu er verið að meðhöndla endurútreikninga fyrir tiltekið tímabil mismunandi eftir því hvort lántakinn/greiðandinn er að greiða á báðum tímabilum eða bara hinu fyrra. Með þessu eru fjármálafyrirtækin að brjóta það samkomulag sem skrifað var upp á í desember um að meðhöndla mál viðskiptavina sinna á sambærilegan hátt. Ég skil ekki hvers vegna aðili I á að standa skil á "vangreiðslum" fyrir 2005 - 2007 vegna þess eins að hann er ennþá að greiða af láninu, en aðili II á ekki að gera það, þar sem einhver annar tók yfir greiðslur á láninu í ársbyrjun 2008. Eða ef við lítum á þetta út frá tveimur lánum upp á sömu upphæð, að fjármálafyrirtækið fái X krónur í sinn hlut af öðru láninu, en ber Y krónur í kostnað af hinu.
Eins og áður segir, þá taldi ég strax það ekki standast neytendaverndarsjónarmið að hægt væri að hækka vexti afturvirkt á gjalddagagreiðslum sem inntar voru af hendi í samræmi við útsenda greiðsluseðla. Að vextir hækki framvirkt er allt annað og því mótmæli ég ekki.
Nú hugsar einhver að lántaki geti einfaldlega valið að halda láninu óbreyttu sem gengistryggðu láni. En í þessu tilfelli er það ekki kostur. Í fyrsta lagi, þá er um eitt lán að ræða og varla er hægt að breyta því hluta tímans. Verði það leyft, þá eru fjármálafyrirtækin að nokkru leiti búin að fallast á tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna um að ekki verið hróflað við lánum fyrir 1.1.2008. Í öðru lagi er gengistrygging ólögleg verðtrygging. Um það var úrskurðað 16. júní í tveimur dómum og margoft síðan. Þá ákvað Hæstiréttur 16. september fyrirkomulag vaxta og hefur hann staðfest það nokkrum sinnum eftir það. Í þriðja lagi, þá heimilaði breytingin á lögum nr. 38/2001 að lánum yrði breytt í "lögleg erlend lán", en það verður ekki gert aftur í tímann, að ég best veit og tekur því ekki á því hvernig meðhöndla skal lánið fram að þeirri dagsetningu að láni er breytt.
Mig langar að rifja upp í þessu samhengi málflutning Hagsmunasamtaka heimilanna fyrir þingnefnd í nóvember, þegar frumvarp til breytinga á lögum nr. 38/2001 voru til umræðu. Var það síðasta opinbera verkefni mitt fyrir HH (a.m.k. í bili) að mæta á fund þingnefndarinnar. Málflutningurinn HH gekk út á tvennt: 1) að leitað yrði til ESA um álit stofnunarinnar á því hvort frumvarpið stæðist neytendaverndartilskipun ESB sem innleidd var í 36. gr. laga nr. 7/1936; 2) að afturvirkni vaxta og endurútreikningur lána næði eingöngu aftur til 1.1.2008, hvorki yrði hnikað við höfuðstóli eða afborgunum fyrir þann tíma. Nefndin ákvað að hunsa báðar þessar ábendingar, því er nú verr.
Ég hef aldrei geta skilið þá hundalógíu, að brotlegur aðili eigi að fá bætur fyrir brot sitt. Vaxtadómar Hæstaréttar og breytingarnar á lögum nr. 38/2001 gera það aftur. Jóna Ingibjörg Jónsdóttir veltir þessu og neytendavernd fyrir sér í pistli á Eyjublogginu. Er hann holl og góð lesning. Ef neytendavernd virkar, þá verður neytandi ekki krafinn um hærri greiðslu aftur í tímann til að bæta lögbrjóti vegna tjóns sem lögbrotið olli lögbrjótinum. Ég tek undir með Jónu Ingibjörgu, þegar ég segi:
Ef lán á um 5% vöxtum hefðu ekki staðið til boða, þá hefðu lánin ekki verið tekin. Að halda því fram, að maður hefði í staðinn tekið lán með 15 - 21% vöxtum er rökleysa svo ekki sé dýpra tekið í árinni.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.11.): 3
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 32
- Frá upphafi: 1679976
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 31
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Takk fyrir þessa samantekt...
Vil nota tækifærið og benda á enn eitt vandamálið við afturvirknina.
Allt frá árinu 2003 bauð Glitnir/Íslandsbanki uppá svokallaða lánatryggingu frá Sjóvá með lánum sínum. Þetta var nokkurskonar líftrygging og gegn því að taka trygginguna fékk lántaki afslátt af vöxtum af láninu sínu. Í árskýrslunni 2003 er þetta kynnt sem nýjung sem "dregur úr vaxtakostnaði" lántaka.
Ég grennslaðist fyrir um hvernig meðferðin á vaxtaafslættinum yrði við endurútreikning.
Svarið var afdráttarlaust. Ekki verður tekið tillit til þegar fengins vaxtaafsláttar við endurútreikning heldur miðað við vexti Seðlabankans í samræmi við lög nr. 151/2010. Þetta þýðir í raun og veru að bankinn krefur lántaka um endurgreiðslu á þegar fengnum vaxtaafslætti og stingur honum á sig.
Ég benti þeim á þetta og fékk svarið að ef ég væri ekki sáttur þá gæti ég einfaldlega valið að halda láninu óbreyttu.
Einsog það sé einhver kostur ?!?
Ég kærði málið til Umboðsmanns Skuldara. Svarið frá þeim var: "í fljótu bragði sýnist okkur þú verða að sæta þessum endurútreikningi. Ástæða þess er sú að í lögum nr. 151/2010 virðist hvergi vera tekið tillit til þess hvernig vextir voru ákveðnir ef lánið var gengistryggt í erlendum gjaldmiðli."
Umboðsmaður bætir síðan við "önnur sjónarmið geta átt við" og bendir á "Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki".
Íslandsbanki er ekki búinn að birta endurútreikning sinn og er það mjög áhugaverð staða mv. að nú er að verða komin vika síðan þeir áttu að gera það skv. lögunum og allir stóru bankarnir eru búnir að því.
Ég hugsa að ég útbúi kæru til nefndarinnar þegar bankinn er loksins búinn að tosa upp um sig sokkana. Það er hægt að hafa smá skemmtun úr þessu.
Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 2.3.2011 kl. 12:31
Já, það eru lausir endar um allt. Síðan má benda á rökstuðning héraðsdóms um daginn, þar sem Arion banki var ekki talinn vera aðili að máli nema að huta, þar sem lánið sem um ræddi hafði fyrst verið í eigu Kaupþings og síðan Seðlabankans áður en Arion tók það yfir.
Marinó G. Njálsson, 2.3.2011 kl. 12:41
Ég biðst fyrirfram afsökunar á orðbragðinu, en ég myndi ekki einu sinni skeina mér á svarbréfi frá "umboðsmanni skuldara".
Hann (hún) er agent frá bönkunum og hefur það eina hlutverk að hámarka endurheimtur bankanna frá fórnarlömbum sínum.
Sigurður #1 (IP-tala skráð) 2.3.2011 kl. 13:42
Þetta er "mesh". Fín umfjöllun.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 2.3.2011 kl. 18:23
Þetta er góð umfjöllun. Hvaða þingnefnd var það sem ekki vildi leita til ESA?
Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 2.3.2011 kl. 23:36
Sælir hvernig datt Árna PÁli í hug þegar hann setti þessi lög að taka Seðlabankavexti af láni sem var búið að greiða af allan tímann eins og ég gerði t.d. mitt lán var komið í ca 2,300.000.- fór niður í 1.191.257 kr.
Seðlabankavextir teknir frá töku lánsins sem var í upphafi 1.564,767-kr er núna í 1.191.257.-kr lækkar um 1.034.490.-kr .Marinó mig langar að setja hér inn tölur frá19-11-2009 smá málsgrein frá Avant ég fór í Jöfnun. Vitnað í málsgrein frá Avant. Miðað við sölugengi gjaldmiðla í ofangreindri myntkörfu þann 19-11-09 voru eftirstöðvar samningsfjárhæðarinnar kr.2.393.894 og þar af voru vanskil 0? spurning Marinó þar sem ég hef mikla trú á þér og okkar Samtökum
getur þú eitthvað ath fyrir mig hvort og hvernig þetta er rétt reiknað út? En ef ekki er ekki einhver hjá hjá HH sem gæti þá gert það fyrir mig,
Með fyrir fam þakkir fyrir allt það sem þú hefur gert fyrir samtökin.
kveðja Gunnlaugur Gunnlaugsson, gug@internet.is.
Gunnlaugur Gunnlaugsson., 3.3.2011 kl. 03:12
Sæll Marinó og takk fyrir góðann pistil.
Hafði samband við Landsbankann um daginn og þeir tjáðu mér að eins og er standi það ekki til boða að halda láninu óbreyttu sem gengistryggðu láni. SÍ á víst eftir að samþykkja það þar sem gjaldeyrishöft gilda í landinu. Komi ekki svar frá SÍ fyrir 25.mars nk. mun Landsbankinn ekki bjóða þessa leið. Væntalega gildir þetta um hina bankana líka.
undrandi (IP-tala skráð) 3.3.2011 kl. 10:44
Gunnlaugur, ég á í mestu vandræðum með að fá útreikningana á mínum lánum ganga upp og hef átt í löngum og miklum samskiptum við fjármálafyrirtæki út af því. Athugaðu hvað annað hvort Guðmundur Andri hjá Samtökum lánþega getur gert fyrir þig eða þeir hjá spara.is.
Marinó G. Njálsson, 3.3.2011 kl. 20:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.