Leita í fréttum mbl.is

Virðisaukaskattssvik fjármögnunarleiga? - Stóru fiskarnir sleppa en þeir litlu eru gripnir

Þórdís B. Sigurþórsdóttir er hluti af stórum hópi fólks sem barist hefur ötullega gegn spillingu í þjóðfélaginu.  Mest hefur barátta hennar beinst gegn, vægt til orða tekið, einkennilegra viðskiptahátta þeirra fyrirtækja sem lánuðu ógrynni fjár til viðskipta með bifreiðar, þ.e. hin svo kölluðu fjármögnunarfyrirtæki eða fjármögnunarleigur.  Þessi veg ferð hennar hefur leitt hana um sífellt furðulegri slóðir gjörninga sem ekki er hægt að kalla neitt annað en stórfelld undanskot frá skatti og sinnuleysi opinberra aðila til að rannsaka þessa háttsemi.

Í nýjasta pistli sínum fer hún mjög ítarlega yfir þá háttsemi sem átti sér stað hjá líklegast öllum fjármögnunarleigunum.  Ferlið var í flestum tilfellum eins og hér segir:

  1. Áhugasamur kaupandi finnur bíl hjá bílasala sem honum líst á.
  2. Gengið er frá kaupunum með láni frá fjármögnunarleigu, sem greiðir fyrir bifreiðina.
  3. Gefið er út skuldabréf á kaupandann, sem verður samt ekki eigandi bifreiðarinnar, heldur er það fjármögnunarfyrirtækið.
  4. Bílasalinn gefur út reikning á fjármögnunarfyrirtækið og í samræmi við íslensk lög er gefinn upp virðisaukaskattur á reikningnum.  Fjármögnunarfyrirtækið færir greiddan virðisaukaskatt sem innskatt í bókhaldinu sínu og notar til frádráttar útskatt sem það krafði aðra um fyrir viðkomandi uppgjörstímabil.
  5. Þrátt fyrir ákvæði lánasamnings gefur fjármögnunarfyrirtækið ekki út reikning á kaupandann og því verður ekki til útskattur hjá fjármögnunarfyrirtækinu.  Á einhvern stórfurðulegan hátt hverfur virðisaukaskatturinn af bifreiðinni við sölu hennar til lántakans.
  6. Við uppgjör á virðisaukaskatti, þá tiltekur fjármögnunarfyrirtækið innskattinn vegna bifreiðakaupa á virðisaukaskattsskýrslunni sinni, en gerir EKKI grein fyrir útskattinum sem varð við sölu bifreiðarinnar til lántakans.

Velta má því fyrir sér hvernig stendur á því að fjármögnunarfyrirtækin hafi ekki gefið upp á virðisaukaskattsskýrslum sínum útskatt vegna þeirra bifreiða sem fyrirtækin höfðu milligöngu um sölu á.  Kannski var það, að þessi viðskipti byrjuðu öll í upphafi sem rekstrarleiga á bifreiðum og tækjum, þ.e. bifreiðar og tæki voru leigð til fyrst fyrirtækja og síðar einstaklinga.  Virðisaukaskatturinn var því rukkaður af leigugreiðslunni, enda átti fjármögnunarfyrirtækið ennþá bifreiðina/tækið.  Síðan breyttist það, að eingöngu var um fjármögnun á kaupum, en verkferlið hélst óbreytt.

Fyrir nokkrum dögum var stjórnarformaður fyrirtækis dæmdur í 12 mánaða fangelsi, þar af 3 óskilorðsbundið, fyrir að standa ekki skil á vörslusköttum að fullu.  Upphæðin sem hann hafði ekki staðið skil á var um 12 m.kr. (ef ég man rétt) sem gerði alls 48 m.kr. með öllu (að mig minnir).  Ef jafnræði ríkir í þjóðfélaginu (sem ég efast stórlega um), ættum við að sjá á næstu mánuðum ákærur á hendur stjórnarformönnum allra fjármögnunarfyrirtækjanna og framkvæmdastjórum vegna skattalagabrota.  Samkvæmt útreikningum Þórdísar gæti umfang þessara brota num hátt í 9 milljörðum króna á því tímabili sem hún tiltekur.  Bætum tvöfaldri sekt ofan á (eins og lög heimila), þá gerir þetta ríflega 25 milljörðum kr.  Deilum þessu í fjóra hluta og þá fáum við ríflega 6 milljarða á hvert fyrirtæki.  Hafi 48 m.kr. gefið 12 mánuði, þá ættu 6 milljarðar að gefa eitthvað lengri tíma.

Það er svo sem ekkert markmið, að menn fái fangelsisdóma fyrir afbrot sín.  Mestu máli skiptir að almenningur sér látinn líða fyrir hugsanleg skattalagabrot fjármögnunarfyrirtækjanna. Tæpir 9 milljarðar er allur niðurskurður í velferðarkerfinu á þessu ári og hinu síðasta.  Þetta jafngildir vaxtabótum ársins og er þriðjungur af áætluðum vöxtum vegna Icesave á þessu ári.  Ekki það að ég haldi að þessi fjárhæð verði nokkru sinni innheimt.  Í fyrsta lagi skortir allan vilja hjá opinberum aðilum að skoða þessi brot.  Eftirlitsaðilar kasta þessu á milli sín eins og heitum bolta.  FME virðist t.d. vita gagnslaust þegar kemur að lögbrotum fjármálafyrirtækja á öðrum lögum en sérlögum um rekstur þeirra (og þar gengur jafnvel illa).  Hlutverk FME er m.a. að tryggja að fjármálafyrirtæki fari að lögum.  Í öðru lagi, þá eru tvö fyrirtækjanna, sem stóðu í þessari lánastarfsemi, farin á hausinn, þ.e. Glitnir og Avant.  Í þriðja lagi, þá er ljóst að þó svo að einhver vilji væri fyrir því að sækja þessi mál, þá er geta kerfisins til að sækja að stóru fiskunum nánast engin.  Kerfið er hannað til að fanga litlu fiskana, en láta þá stóru sleppa.  Þetta sést vel í fjölda mála, þar sem kerfið hefur ráðist gegn fjárvana einstaklingum og dregið mál þeirra fyrir dómstóla meðan stóru fyrirtæki virðast ósnertanleg.

Athugasemd sett inn 21.2.2011 kl. 18:30

Mér barst eftirfarandi ábending/athugasemd/leiðrétting frá Kjartani Georgi Gunnarssyni, framkvæmdastjóra SP-fjármögnunar.  Set ég hana óbreytta inn, eins og samdist um okkar á milli:

Sæll Marinó

Í pistli í bloggi þínu tekur þú ansi stórt upp í þig um fjármögnunarfyrirtæki og talar um að Þórdís Björk Sigurþórsdóttir hafi barist ötullega gegn spillingu í þjóðfélaginu.  Þú kemst að þeirri niðurstöðu að „þessi vegferð hennar hefur leitt hana um sífellt furðulegri slóðir gjörninga sem ekki er hægt að kalla neitt annað en stórkostleg undanskot frá skatti....“  Þetta eru stór orð og grafalvarleg.  Þarna ert þú ekki að setja þetta fram í spurningaformi, heldur ert þú að staðhæfa að fjármögnunarfyrirtæki stundi „stórkostleg undanskot frá skatti“.  Eins og ég sagði við þig þegar ég rakst á þig í lobbýinu á Grand Hotel fyrir fund Landsbankans ættir þú að kynna þér á hvern hátt bílalánaviðskipti ganga fyrir sig áður en þú ferða að skýra það út fyrir alþjóð.  Það er rétt sem þú segir í lið 1. „Áhugasamur kaupandi finnur bíl hjá bílasala sem honum líst vel á“.  Það er augljóslega ekki hægt að finna neitt að þeirri fullyrðingu.  Síðan heldur þú áfram í lið 2. „Gengið er frá kaupunum með láni frá fjármögnunarleigu , sem greiðir fyrir bifreiðina“.  Þarna er strax komin ónákvæmni þar sem þessi ályktun stemmir ekki við það sem fram kemur í lið 3. „Gefið er út skuldabréf á kaupandann, sem verður samt ekki eigandi bifreiðarinnar, heldur er það fjármögnunarfyrirtækið.“  Ef kaupandi gefur út skuldabréf verður hann eigandi bifreiðarinnar.  Þá er enginn reikningur gefinn út á fjármögnunarfyrirtækið heldur er afsal gefið út á kaupandann.  Ef hins vegar er um bílasamning að ræða gera aðilar, þ.e. fjármögnunarfyrirtækið og leigutakinn („kaupandinn“) með sér kaupleigusamning þar sem fjármögnunarfyrirtækið kaupir bílinn og leigir til leigutaka.  Þá er reikningur stílaður á fjármögnunarfyrirtækið sem verður eigandi bílsins enda greiðir það kaupverðið.  Þarna ferð þú að fabúlera með að “í samræmi við íslensk lög er gefinn upp virðisaukaskattur á reikningnum”.  Ef þú hefðir fyrir því að kynna þér íslensk lög áður en þú ferð að básúna fyrir alþjóð hvernig þessi viðskipti ganga fyrir sig myndir þú vita að viðskipti með notaða bíla bera að jafnaði ekki virðisaukaskatt.  Sölureikningur sem fjármögnunarfyrirtæki gefur út með kaupleigusamningum um notaða bíla ber engan virðisaukaskatt og því er ekki um neinn útskatt að ræða.  “Þú vílar hins vegar ekki fyrir þér að tala um “að á einhvern stórfurðulegan hátt hverfi virðisaukaskatturinn af bifreiðinni við sölu hennar til lántakans.”  Allt tal um “stórkostleg undanskot frá skatti” eru í besta falli sögð af vanþekkingu. Þótt þú hafir sagt af þér sem stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna eru margir sem hlusta á skoðanir þínar og því myndi ég í þínum sporum temja mér að gæta hófs í umfjöllun um málefni og forðast sleggjudóma.  Höfum hugfast að orðum fylgir ábyrgð.

Ég treysti því að þú komir leiðréttingu um þetta á framfæri í bloggi þínu, þar sem ég dreg það ekki í efa að þú viljir hafa það er sannara reynist.

 

Bestu kveðjur

Kjartan


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Sæll Marinó Þetta en ansi venjuleg aðferð en líka ansi ólögleg. Fólki bregður ekki lengur við svona fréttir, en auðvitað ætti að taka á þessi svindli, það er klárt!.

Eyjólfur Jónsson, 14.2.2011 kl. 15:35

2 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Það sem er innskattað við kaup á að útskatta við sölu/leigu. Þetta er ekki flókið.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 14.2.2011 kl. 21:11

3 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Ég þekki lítið sem ekkert inn á þessi leiguviðskipti, þetta var aðeins að byrja þegar ég flutti frá Íslandi svo ég þekki þetta lítið.  Er ekki útskattað þegar leigan er reiknuð? 

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 14.2.2011 kl. 23:08

4 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Eftir því sem ég veit best þá fengu stjórar þessara fjármögnunarfélaga eins og aðrir í fjármálaheiminum , greidda bónusa sem tóku mið af afkomu félaganna. Ef afkoman er fegruð með því að stela virðisaukaskatti og þeir sem fegruðu afkomuna fá greidda bónusa fyrir gerðir sínar , þá eru þeir bæði þjófar og þjófsnautar og eiga að sjálfsögðu að fá sína refsingu.

Sigurjón Jónsson, 15.2.2011 kl. 10:55

5 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Sæll hér ræður mafía og hún ver sýna stóru þjófa en níðist á litla manninum með allt kerfið á bakviðsig!

Sigurður Haraldsson, 15.2.2011 kl. 10:57

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Tveir aðilar höfðu samband við mig í dag og sögðu mér sömu söguna.  Virðisaukaskattsskýrslur voru rétt út fylltar, en það var bara framkvæmd bókhaldslaga sem ekki var rétt.  Gott að menn voru ekki að svíkja undan skatti, heldur klúðruðu bara því að gefa út reikninga og svo þegar reikningarnir voru gefnir út, þá voru þeir ekki rétt fram settir.

Það sem ég skil ekki er þetta:  Af hverju gátu menn ekki bara sagt það fyrir ári eða 17 mánuðum þegar þeir voru fyrst spurðir?  Af hverju var ekki hægt að skýra út bókhaldsbrot viðkomandi fyrirtækis og segja "okkur varð á"?

Það er því áréttað, að virðisaukaskattsskýrslurnar voru rétt gerðar og skatturinn greiddur.  Formfestan klikkaði og ekki voru gefnir út reikningar.  Mér finnst það nú allverulegur ágalli á færslu bókhalds, svo ekki sé meira sagt.

Marinó G. Njálsson, 15.2.2011 kl. 20:41

7 identicon

Sæll Marinó, takk fyrir þetta. En það voru aðeins örfáir reikningar gefnir út (hjá SP) af mörg þúsund eftir að haft var sambandi við RSK.  Avant gaf út enga (en sendi fáeinum afrit í pósti þar). Íslandsbanki Fjármögnun gaf heldur ekki út neina reikninga og segist aldrei hafa gefið út reikninga. Lýsing aftur á móti gaf út reikninga. Höfum mörg dæmi um það.

kv.þórdís

Þórdís (IP-tala skráð) 15.2.2011 kl. 21:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 6
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 1680048

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband