Leita í fréttum mbl.is

Árið 2010 gerði lítið annað en að dýpka kreppuna

Heilum tveimur árum og nokkrum mánuðum betur frá því að bankarnir hrundu með stæl og lítið hefur þokast við að bjarga landsmönnum úr rústunum.  Myndirnar fyrir neðan lýsir best því sem gert hefur verið og bætti um betur á síðasta degi þingsins, þegar Alþingi ákvað að setja lög til að vernda lögbrjótana og staðfesta eignaupptökuna.

rescueplan_1050981.jpg

 

640rescuedmortgagecartoonwasserman2007_1050983.jpg

Árið byrjaði þó með því að tendraður var logi vonar í brjóstum þeirra sem tekið höfðu gengistryggð lán.  Áslaug Björgvinsdóttir,settur héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, kvað upp þann úrskurð 12. febrúar að gengistrygging bílaláns væri brot á 13. og 14. gr. laga 38/2001 um vexti og verðbætur.  Þetta kom mér ekkert á óvart, þar sem ég hafði ári fyrr nefnt fyrst þann möguleika á þessari síðu.  Hæstiréttur staðfesti svo dóm Áslaugar með dómum sínum 16. júní og þá hélt maður að réttlæti væri til hér á landi, en það var öðru nær.

Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlit fengu allt í einu í magann yfir því að fyrirtækin sem brutu landslög gætu tapað á því að fara að lögum.  Í snarhasti var hnoðað saman tilmælum til fjármálafyrirtækja um það að þau ættu ekki bara að brjóta landslög, heldur einnig tilskipanir ESB.  Skilaboðin voru skýr og hafa verið það síðan:  Fjármálafyrirtækin skulu varin með oddi og egg út í rauðan dauðann.  Réttur viðskiptavina þeirra skal fótum troðinn svo lengi sem núverandi stjórnendur Seðlabankans og FME, að maður tali ekki um núverandi ríkisstjórn hefðu eitthvað um það að segja.

Það hefur verið nánast hjákátlegt að hlusta á efnahags- og viðskiptaráðherra tala um að fjármálafyrirtækin eigi að skila því sem oftekið var og bera síðan fram frumvarp á Alþingi, þar sem eignarupptakan er fest í lög.  Ég verð að viðurkenna, að ég skil ekki núverandi ríkisstjórn.  Eins og ég man atburðarásina, þá lögðu þrír bankar hagkerfið í rúst.  Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og fréttum í öllum fjölmiðlum meira og minna allt árið, þá byggði starfsemi Glitnis, Landsbanka Íslands og Kaupþings á fölsunum, svikum, prettum, lögbrotum og svona mætti lengi halda áfram.  Afleiðingarnar voru hrun krónunnar, hærri verðbólga en hér hefur sést lengi og stökkbreyting á höfuðstóli lána þeirra sem voru svo vitlausir að taka lán á undanförnum árum og áratugum.  Í staðinn fyrir að stjórnvöld stæðu nú fyrir því að fórnarlömb fjármálafyrirtækjanna fengju hlut sinn bættan, þá hafa stjórnvöld tekið upp hanskann fyrir fjármálafyrirtækin.  Það er þetta sem fékk forsvarsmann fyrirtækis til að gefa því nafnið Nábítar, böðlar og illir andar ehf. og senda síðan frá sér eftirfarandi áramótakveðju (sem fékkst ekki birt á SkjáEinum):

nabitar.jpg

Ég sat í sýndarnefnd á vegum forsætisráðuneytisins þar sem fara átti yfir stöðu mála.  Nefndin gekk undir nafninu "sérfræðingahópur" og var það ótrúlega furðuleg nafngift.  Hópurinn vann gott starf, en þegar kom að því að skrifa skýrslu um störfin, þá mátti ekki hvað sem er fara þangað inn.  Nær allur texti frá mér var t.d. klipptur út og hætti ég að nenna að leggja eitthvað til málanna í skýrsluna.  Ákvað í staðinn að skila séráliti, þar sem gerð var ítarlegri greining á stöðunni (þó hún hafi ekki verið mjög ítarleg) og reyndi líka að skoða hvernig mismunandi lausnir gætu nýst fólki í fjárhagsvanda.  Sérálitið fékk enga umræðu í fjölmiðlum og forsætisráðuneytið ákvað að stunda ritskoðun með því að birta það ekki samhliða "skýrslu" nefndarinnar.  Óþægileg umræða skyldi sko ekki birtast á vef ráðuneytisins.

Sjónarspilið og bullið, sem þá tók við, var með ólíkindum.  Eftir "langar og strangar" viðræður féllust fjármálafyrirtækin á að "afskrifa það sem annars væri hvort eð er tapað" eins og Arnar Sigurmundsson, formaður Landsamtaka lífeyrissjóða, tókst með hrekjum að koma úr sér.  Þetta voru nokkurn veginn orðrétt sömu orð og ég sagði við hann nokkrum vikum fyrr og hann mótmælti hástöfum.  Tap lífeyrissjóðanna yrði allt of mikið, ef farið yrði að kröfum Hagsmunasamtaka heimilanna.  Úrræðin sem skrifað var upp á í Þjóðmenningarhúsinu í byrjun desember eru þau furðulegustu "ekki-úrræði" sem ég hef séð.  Í fyrsta lagi var skrifað upp á að sértæk skuldaaðlögun héldi áfram.  Úrræði sem 128 manns höfðu farið í gegn um á því eina ári sem það hafði staðið til boða.  Þetta gerir 10 manns á mánuði.  Með þessum hraða munu bankarnir ljúka við skuldaaðlögun þeirra 40.000 einstaklinga sem á þurfa að halda rétt fyrir næstu aldamót.

Á komandi ári mun reyna á það fyrir Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólnum hvort stjórnvöldum, FME, Seðlabankanum, Hæstarétti og nú síðast Alþingi hafi verið stætt á því að hunsa gjörsamlega rétt lántaka með viðbrögðum sínum vegna gengistryggðra lána.  Getur það staðist að þegar ákvæði um gengistryggingu er dæmt ólöglegt, þá geti það leitt til þess að greiðslubyrði lánanna hækki um tugi prósenta.  Getur það staðist, að lántaki skuldi lánveitanda vegna eldri gjalddaga.  Getur það staðist að lántaki skuldi lánveitanda vegna uppgreiddra lána.

Vandi almennings er að Alþingi er handónýt stofnun.  Það skortir sjálfstæðan vilja en vinnur nær eingöngu eftir fyrirmælum að ofan.  Þegar ég segi að ofan, þá er það úr ráðuneytunum eða frá flokksformönnunum.  Á þessu eru vissulega heiðarlegar undantekningar og vil ég þar nefna þingmenn Hreyfingarinnar sem hvert um sig hefur haldið sinni sjálfstæðu hugsun, flestir þingmenn Framsóknar þora að tjá sig án þess að horfa annað hvort fyrst til Sigmundar Davíðs eða Jóhönnu og svo náttúrulega villikettirnir í VG með Lilju Mósesdóttur í broddi fylkingar.  En það er með villikettina, að þeir leika lausum hala og fara sínar leiðir, rétt er það, en alltaf skulu þeir vera í réttum fjölda heima þegar á reynir.

Í mínum huga er það lífsnauðsynlegt fyrir Alþingi að þar verði tekin upp ný vinnubrögð.  Skilja þarf á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins.  Ein leið er að auka vægi embættis forseta Íslands og gera forsetann að ígildi forsætisráðherra.  Önnur er að kjósa forsætisráðherra óháð Alþingi.  Þriðja leiðin er að ráðherrar sitji ekki á þingi. Verði leiðir eitt eða tvö farnar, þá held ég að skoða eigi að kjósa til þings á tveggja ára fresti, líkt og gert er í Bandaríkjunum, helming þingmanna í hvert sinn.  Með því væri ríkisstjórn hvers tíma veitt aðhald.  Hún gæti ekki treyst því að halda þingmeirihluta í lengur en tvö ár í einu.  Slíkt mun vonandi kalla á betri vinnubrögð og meiri samvinnu þvert yfir flokkalínur.  Eins og þetta hefur verið undanfarna áratugi, þá er nánast hægt að tala um menntað einræði frekar en almennt þingræði.

En ég var víst að tala um árið sem er að líða.  Okkur er sífellt talin trú um að það versta sé yfirstaðið.  Bráðabirgðatölur frá Hagstofunni sögðu í byrjun árs að kreppunni væri "tæknilega lokið", þar sem hagvöxtur hafði mælst yfir núllinu.  Svo kom náttúrulega í ljós að það var rangt.  Hagtölur eru varasamur mælikvarði á hlutina, þar sem þær eru síbreytilegar.  Plús 4% hagvöxtur getur átt það til að breytast í 4% samdrátt á nokkrum mánuðum.  Tölur um atvinnuleysi er mælt á einn hátt hjá Vinnumálastofnun en annan hjá Hagstofu.  Mismunandi deildir Seðlabankans birta sambærileg gögn á ósamanburðarhæfan hátt.  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir yfirleitt allt aðra sögu um stöðu fjármálafyrirtækjanna, en fjármálaráðuneytið, FME og Seðlabanki.  Mín skoðun er að árið 2010 var versta kreppuárið til þessa.  Ástæðan er að svo lítið hefur gerst.  Einstaklingar, heimili og fyrirtæki eru ennþá föst í spennutreyju óvissunnar varðandi fjárhagsstöðu sína.  Fasteignamarkaðurinn er nánast botnfrosinn. Lítið hefur gerst í atvinnumálum og þó svo að atvinnuleysi hafi ekki aukist, þá hefur það heldur ekki minnkað sem neinu nemur.  Fátækt hefur líklega ekki verið meiri í 50-60 ár.  Raðirnar hjá góðgerðarsamtökum lengjast sífellt.  Fólksflutningur í landi nemur 10 manns á dag.  Það þýðir að jafnaði 2,5 íbúðir losna á hverjum degi eða um 900 á ári.  Þær bætast í hóp þeirra 4-5.000 á nýbyggingarsvæðum sem standa auðar og allra hinna sem ekki hefur tekist að selja.

Rétt fyrir jól bárust þær fréttir frá Hagstofunni, að verðbólga væri komin niður í 2,5%.  Loksins náðust verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.  Ætli menn hafi tekið þessu fagnandi og byrjað að tala um afnám verðtryggingarinnar?  Nei, það gerðu menn ekki.  Í staðinn var bent á, að við næstu mælingu verður búið að fiffa útreikninginn, þannig að hann sýni ekki of háa tölu.  Annað sem heyrðist var að nú væru vextir orðnir of lágir.  Með svona lága verðbólgu, þá væru nafnvextir (þ.e. verðbætur plús raunvextir) orðnir svo lágir að fjárfestar myndu leita annað.  Ég hef verið talsmaður þess, að setja þak á vextir ríkisskuldabréfa.  Þau mega einfaldlega ekki bera hærri vexti en 5% nafnvexti en þó aldrei meira en 1,5% raunvexti.  Núna er rétti tíminn til að hrinda þessu í framkvæmd.  Ef það er ekki nógu há ávöxtun fyrir lífeyrissjóðina, þá er þeim velkomið að fara með peningana sína í óörugga ávöxtun eins og skuldabréf banka og sparisjóða, hlutabréf fjármálafyrirtækja og fleira þess háttar.

Ýmislegt bendir til þess að íslenska hagkerfið sé að ná botninum.  Spurningin er hvort að þetta sé botn sem veitir viðspyrnu eða þess vegna bara sylla sem gefur hagkerfinu færi á að hreyfast upp á við.  Ég ætla ekki að telja hversu oft menn hafa í bjartsýniskasti (þar á meðal ég) talað um að nú fari hlutirnir að lagast bara til þess að upplifa vonbrigði.  Núverandi ástand mun ganga yfir, það er alveg öruggt.  Vonandi hefst batinn á árinu 2011, en þá verður líka margt að breytast.  Stærstu breytingarnar eru að stjórnvöld og fjármálafyrirtæki verða að skilja skuldavanda einstaklinga, heimila og fyrirtækja og leysa málin á forsendu lántaka en ekki á forsendu fjármálafyrirtækjanna.  Stjórnvöld og lífeyrissjóðirnir verða að gera alvöru úr þeirri atvinnuuppbyggingu sem búið er að tala um frá því í nóvember 2008.  Alþingi verður að breyta starfsháttum sínum til samræmis við niðurstöðu þingmannanefndar um rannsóknaskýrsluna.  Sérstakur saksóknari verður að fara að skila frá sér til dómsstóla stóru málunum, þar sem höfuðpaurar hrunsins eru sóttir til saka.  Ríkisstjórnin verður að leita nýrra leiða til tekjuöflunar, sem ekki bitnar á skattpíndum og skuldsettum fyrirtækjum og heimilum landsins.  Ríkisstjórnin verður líka að sýna og sanna, að hún sé að hlusta á almenning í landinu og beri hag hans fyrir brjósti.  Svo væri ekki verra að boðað yrði til kosninga.

Að lokum bara þetta:

Ég þakka árið sem er að líða og óska ykkur farsældar á nýju ári.  Megi það boða bjartari tíð og blóm í haga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þau eru stórfurðuleg ummæli fjármálaráðherra í Kryddsíldinni áðan, að skuldabaggar fyrirtækjanna séu erfið efnahagslífinu.  Þetta er enn eitt dæmið um hvernig hlutunum er snúið á hvolf.  Nákvæmlega það eina sem er erfitt efnahagslífinu er stökkbreyting lána vegna lögbrota, svika og pretta fjármálastofnana í aðdraganda hrunsins og vegna gengishraps krónunnar.  Ef þetta er leiðrétt, eins og svo ítrekað hefur verið bent á að þurfi að gera, þá færist þjóðfélagið í samt lag.  Það getur vel verið að nýju bankarnir þrír standi höllum fæti eftir það, en svo verður bara að vera.  Ísland stendur ekki og fellur með bönkunum heldur að allir aðrir lifi af.

Marinó G. Njálsson, 31.12.2010 kl. 17:03

2 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Takk Marínó.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 31.12.2010 kl. 18:15

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Góð færsla.

Það er búið að taka lán sem munu dýpka kreppuna til lengri tíma, en að sjálfsögðu lagast hlutirnir á endanum. Bara ekki af sjálfu sér.

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það liðna,

Hrannar

Hrannar Baldursson, 31.12.2010 kl. 18:29

4 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Marinó,

 takk fyrir allt starfið í þágu okkar hinna, gleðilegt ár og þökk fyrir þau liðnu.

Gunnar Skúli Ármannsson, 31.12.2010 kl. 20:49

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þakka góðan pistil Marinó.

Gleðilegt ár og þakka þína góðu og miklu vinnu síðastliðið ár.

Gunnar Heiðarsson, 31.12.2010 kl. 23:38

6 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Gleðilegt ár Marinó og þakka þér alla pistlana sem þú hefur skrifað hérna og allt það starf sem þú hefur unnið fyrir heimilin!

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 1.1.2011 kl. 00:56

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Marínó.

Þetta með sýndarnefndina.

Þannig var nú það, sagan þekki slík dæmi áður, og ekki var það nú þannig að þú værir ekki varaður við.

Breytir samt ekki að þú afhjúpaðir margar lygar.

Hafðu þökk fyrir það.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.1.2011 kl. 01:08

8 Smámynd: Billi bilaði

Takk fyrir þína elju, og gleðileg ár.

Billi bilaði, 1.1.2011 kl. 02:48

9 identicon

Sæll Marinó og gleðilegt byltingarár. Það hlaut að koma að því að þú áttaðir þig á sýndarmennskunni í kringum 'sérfræðinganefndina'. Nú skulum við einfaldlega einbeita okkur að því, ásamt þjóðinni, að koma aulunum í ríkisstjórninni frá völdum

Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 1.1.2011 kl. 10:40

10 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Gleðilegt ár Marinó, þakka þér fyrir alla greinargóðu pistlana.

Magnús Sigurðsson, 1.1.2011 kl. 11:02

11 Smámynd: Einar Guðjónsson

Góð yfirlitsgrein hjá þér, gleðilegt ár.

Einar Guðjónsson, 1.1.2011 kl. 12:32

12 identicon

Takk fyrir þetta og gleðilegt ár. Þú er maður ársins í huga okkar í fjölskyldunni!

Steini (IP-tala skráð) 1.1.2011 kl. 13:14

13 identicon

Góð grein einsog jafnan áður. Árið 2011 gætti orðið fyrsta raunverulega kreppuárið. Kreppunni var slegið á frest, þar til nú.

Bjorn Jonasson (IP-tala skráð) 1.1.2011 kl. 15:02

14 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Björn, ég get alveg tekið undir þetta með þér.  Ítrekaðar rangar áherslur  stjórnvalda og fjármálafyrirtækja eru því miður að gera ástandið sífellt alvarlegra.

Marinó G. Njálsson, 1.1.2011 kl. 15:21

15 identicon

Góður pistill.

Á meðan lán fólks hækka vegna þessarar óværu sem verðtryggingin er, í hvert skipti sem ríkisstjórnin setur fram sínar "aðgerðir", t.d hækkanir á sköttum á bensín, áfengi, tóbak osfrv. að þá fer þetta bara í hring.

Það verður að afnema þetta. Lánin hafa hækkað um milljónir og ekki í neinum tengslum við hækkanir launa og kaupmátt og það. Komin er upp reikniskekkja í bókhaldið og ríkisstjórnin og lífeyrissjóðirnir neita að sjá vandann og hvað verður að gera.

Lífeyrissjóðirnir hafa tapað milljarðatugum ef ekki hundruðum á bankahlutabréfum og braskinu í kringum útrásina, þannig að auðvitað er gott fyrir þá að fá milljarða inn með þessari reikniskekkju. En það er algjörlega ótækt!!!!!

Óska þér annars gleðilegs árs Marinó og þakka þér fyrir þitt óeigingjarna starf á liðnu ári.

Kveðja

Einar.

Einar (IP-tala skráð) 1.1.2011 kl. 18:46

16 Smámynd: Hjalti Tómasson

Þakka þér Marinó fyrir dugnað þinn og góða yfirsýn yfir stöðuna.

Ég hef ekki alltaf verið sammála greiningum þínum en ég skal með glöðu geði viðurkenna að oftar en ekki hef ég þurft að endurskoða mínar skoðanir eftir að hafa lesið pistla þína því þrátt fyrir allt þá nær þekking mín í þessum efnum ekki alltaf að fylgja eftir skoðunum mínum eins og þær kvikna fyrst í huga mínum.

Óska þér og þínum alls hins besta á nýju ári og megi rödd þín heyrast sem víðast.

Hjalti Tómasson, 2.1.2011 kl. 14:03

17 identicon

Gleðilegt ár Marínó. Ég vil þakka þér fyrir frábæra pistla, ljós í myrkri oft á tíðum.

Baráttukveðja, 

Jóna Ingibjörg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 2.1.2011 kl. 18:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 1680018

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband