21.11.2010 | 00:43
Windows 25 ára
Hver hefði trúað því að örverpið sem sýnt var almenningi fyrir 25 árum yrði að því sem það er í dag? Ekkert fer á milli mála að Windowsstýrikerfið er vinsælasta stýrikerfið í dag. Útbreiðsla þess er gríðarleg og tungumálaútgáfur nánast óteljandi. En fyrstu skref þess lofuðu ekki góðu.
Ég hafði nýlokið námi mínu í tölvunarfræði við Háskóla Íslands, þegar Windows kom á markað. Það keyrði ofan á DOS eins og við keyrum forrit í dag innan Windows. Þetta var sem sagt bara hvert annað forrit. Apple hafði sett Lísu (LISA) á markað tveimur árum fyrr og vakti hún að sjálfsögðu athygli okkar háskólanema. Fór menn í hálfgildings pílagrímsferðir upp í Radíóbúð á horni Skipholts og Nóatúns. Þar stóð Lísan á borði upp á 2. hæð og nálguðust menn hana eins og guðum líka veru.
Windows 1.0 og raunar allt fram að 3.0 var aftur eins og fyrirburi. Hafði ekki sömu burði og Lísan. En þegar forritin komu eitt af öðru þroskaðist Windows með. Gísli J. Johnsen í Kópavogi og Skrifstofuvélar á Hverfisgötunni höfðu á þessum tíma umboð fyrir Microsoft hugbúnað hér á landi. Fyrstu árin var eingöngu hægt að fá Windows hjá þeim, en svo fór kerfið að koma með vélum annarra framleiðenda. Sumarið 1987 fékk ég sumarstarf hjá tölvudeild Hans Petersen hf. sem var til húsa inn af ljósmyndavöruverslun fyrirtækisins í Austurveri við Háaleitisbraut. Þar seldum við Tandon tölvur, harða diska og jaðartæki. Tandon var mjög sérstakur karl og krafðist þess að með vélunum færi þeirra eigin útgafa af DOS. Með því fylgdi Windows, fyrst útgáfa 1.1 og síðan skyndilega útgáfa 1.3. Gallinn við þessar útgáfur, líkt og margt annað er varðaði tölvur á þessum tíma, var að ekkert af þessu skildi íslenska stafi. Mönnum hafði tekist að koma með viðbætur í DOS, en Windows birti bara engilssaxneska starfrófið.
Ég fékk það verkefni að breyta þessu, þ.e. fá Word, Notepad og önnur forrit til að nota íslenska stafi á réttan hátt. Útgáfa 1.3 varð fyrir valinu. Áður hafði ég patchað lykilborðsrútínur, minniskubba skjákorta og jafnvel prentara. Félagar mínir hjá tölvudeild HP, bræðurnir Hans Pétur og Sigurður Jónssynir, höfðu lært hvernig ætti að gera þetta, en þar sem það var svo leiðinleg vinna, þá var ég gerður að vinnudýri. Microsoft var ekki hrifið af því verið væri að patcha Microsoft forrit en lét það samt viðgangast með lágmarks stuðningi. Þegar Windows kom á markað var í reynd lagt blátt bann við slíkri pötchun, en þar sem við vorum með allt frá Tandon, þá litum við svo á að við hefðum meira frelsi.
Í nútíma tölvuumhverfi þá er næstum fáránlegt að tala um að forrit skilji ekki nýtt tungumál. En staðreyndin er að baki hverju tungumáli eru ólíkar reglur. Varðandi íslenskuna er það dauða komman á hástöfum, ý, þ og ð. Við vorum svo heppin að séríslenskir stafir komust strax inn í svo kallaða ASCII töflu. Þar deildum við að vísu sætum með nokkrum spænsku táknum og þar sem hinn spænskumælandi heimur er mun stærri en hinn íslenskumælandi, þá kom allur búnaður til landsins með n-tilda og fleiri slíkum táknum. Hér þurfti því að taka alla minniskubba skjákorta (PROM) og skipta þeim út fyrir endurforritaða minniskubba (EPROM). En það var ekki nóg. Segja þurfti tölvunni að þegar stutt var á dauða kommu, þá ætti bendillinn ekki að færast á skjánum heldur bíða eftir næsta innslætti. Loks þurfti að kenna tölvunni að sækja réttan staf í stafatöflu skjákortsins til að birta á skjánum, en áður en það var hægt varð að vera búið að breyta tákninu í viðeigandi íslenskan staf. Tölvunni sjálfri var alveg sama hvernig táknið leit út, þar sem allt var þetta vistað sem 0 og 1 á harða diskinn.
Windows var aðeins flóknara en DOSið, þar sem nú voru stafir ekki lengur sóttir í EPROM-ið. Í þetta verk réðst ég í ágúst 1987 og lauk því á tveimur dögum eða svo. Teiknaði íslenska stafi inn í stafatöflu Windows, fékk forritið til að skilja hvernig íslenskt lyklaborð hagaði sér og fékk það til að birta rétta stafi á skjánum. Þannig var það Tandon Windows sem varð fyrsta Windowsið til að skilja íslensku.
Microsoft komst fljótlega að því að Windows yrði að geta skilið alls konar tungumál, en ekki bara þau algengustu. Því var það í útgáfu 2.0 að tungumálareklar fylgdu með fyrir íslensku og önnur minni málsvæði.
Hausti 1991 byrjaði ég að skrifa um upplýsingatæknimál fyrir Morgunblaðið og fjallaði ég þá meðal annars um Windows 3.1 og Windows NT fljótlega eftir að þessi stýrikerfi komu út. Windows 3.0 kom út á vordögum 1990 og þótti ekki nógu gott. Gaf Microsoft eiginlega strax út yfirlýsingu um að útgáfa 3.1 myndi sjá dagsins ljós fljótlega. En Microsoft hefur sjaldan verið fyrir það að standa við tímasetningar og því dróst að útgáfa 3.1 kæmi. Í pistli eftir mig sem birtist í viðskiptablaði Morgunblaðsins 9. apríl 1992, er fjallað um 3.1, sem hafði verið kynnt á COMDEX tölvusýningunni í Las Vegas nokkrum dögum fyrr. Þar segir ég m.a.:
Windows umhverfið er fyrir löngu orðið staðall fyrir tölvur byggðar á Intel-örgjörvanum, þannig að nú er ekki lengur talað um IBM-samhæfðar tölvur heldur Windows samhæfðar tölvur.
Þegar Windows 3.0 kom út sögðu margir að nú hefði Microsoft loksins komið með notendaskil, sem gerðu gluggavinnslu jafn sjálfsagða á Pésum eins og hún er á Mökkum. Og það gekk eftir. Með Windows 3.0 ruddi Microsoft veginn fyrir hugbúnaðarfyrirtæki að koma með staðlað gluggaumhverfi. Umhverfi, sem allir gætu sætt sig við og vissu að mundi ná nægilegri útbreiðslu til að það borgaði sig að aðlaga hugbúnað sinn að. Nú er svo komið að allir helstu framleiðendur hugbúnaðar hafa annað hvort þegar komið með Windows-útgáfur af forritum sínum eða eru að koma með þær.
Einn stór munur var á Windows 3.0 og Windows 3.1 og um það segi ég í greininni:
Microsoft lætur ekki staðar numið þó Windows 3.1 sé komið á markaðinn. Næsta útgáfa, Windows 4.0, er væntanleg um mitt næsta ár og líka stýrikerfisútgáfa af forritinu, sem nefnd hefur verið Windows NT. Raunar er sú nýjung á Windows 3.1 pakkanum, að forritið er sagt vera stýrikerfi. Með þessu er Microsoft bara að staðfesta grun undirritaðs, að Windows32 (eldra þróunarnafn á Windows NT) væri ætlað að koma í staðinn fyrir gamla DOSið og fullkomna þar með færsluna úr stýrikerfi, sem notendur elskuðu að hata, yfir í kerfi sem jafnvel hörðustu gagnrýnendur PC-tölva geta verið ánægðir með.
Nú Windows 4.0 kom ekki ári síðar, heldur varð að bíða eftir Windows 95. Annað sem breytist heldur ekki, að DOSið hvarf ekki, heldur var það alltaf keyrt upp fyrst og síðan Windows ofan á. Windows Vista var fyrsta tilraunin til að losna við DOSið og sú breyting fullkomnuð með Windows 7.
Windows NT kom út mánuði síðar. Það merkilega við NT er að stýrikerfið var byggt á OS/2 3.0 stýrikerfinu sem Microsoft og IBM unnu að í sameiningu. Er þetta í eina skiptið svo ég viti til, sem Microsoft notaði vinnu IBM við þróun Windows. Ástæðan fyrir þessu er að slitnað hafði upp úr samstarfi fyrirtækjanna. IBM vildi að OS/2 væri þróað fyrir RISC örgjörva fyrirtækisins meðan Microsoft hélt tryggð við x86 arkitektúrinn. Vissulega ætlaði Microsoft að koma með útgáfu af NT fyrir önnur umhverfi, en það gekk aldrei almennilega upp.
En Bill Gates hafði þegar framtíðarsýn fyrir Windows og fjallaði ég lítillega um hana í sérblaði Morgunblaðsins um tölvur sunnudaginn 7. mars 1993. Þar segi ég m.a.:
Á starfsmannasamkomu í október síðastliðnum opinberaði Bill Gates, aðaleigandi Mircosoft, framtíðarsýn sína. Þar talaði hann um margmiðlun, textavarp með öflugum gagnabanka, hlutbundin stýrikerfi og veskistölvur (ekki reiknivélar heldur tölvur). Markmið hans var ekki að umbreyta Microsoft eða tölvuiðnaðinum, heldur hvernig fók nær í upplýsingar. Hluti af framtíðarsýn hans verður varla að veruleika fyrir en eftir einn til tvo áratugi. Þetta er það sem hann kallaði "Upplýsingar við fingurgómana" (Information at Your Fingertips)...
..Allt verður þetta byggt í kringum hugbúnað frá Microsoft. Windows verður notað í einu formi eða öðru í alls konar tækjum af öllum stærðum og gerðum; tölvur, sem skilja ritað mál og talað, lófatölvur, fistölvur, borðtölvur, sjónvarpstölvur og veggtölvur.
Óhætt er að segja að þessi framtíðarsýn Bill Gates hafi ræst. Alls konar tæki keyra núna á Windows. Símar eru orðnir af lófatölvum sem gera notandanum kleift að ekki bara nálgast upplýsingar, heldur vinna með þær. Ég hef séð ísskápa sem eru með Windows viðmót, öryggiskerfi sem keyra ofan á Windows og svona mætti lengi telja áfram. Nú textavarpið með gagnabanka er einfaldlega leitarvélar á internetinu.
Afmælisbarnið hefur náð þroska langt umfram það sem foreldrar áttu vona á, þegar króginn kom í heiminn. Ferðin með því í gegn um árin hefur ekki alltaf gengið vel og ennþá er það óútreiknanlegt í hegðun. Ófáar stundir hafa farið í að bölva því, endurræsingar, vírusar, enduruppsetningar, glötuð gögn og glataðar vinnustundir eftir system krass. Bláir skjáir með torkennilegum skýringum, restore points, hæggengar tölvur og allt þetta. En ekkert fer á milli mála, að Windows er ein merkasta afurð sem sett hefur verið á markað með fullri virðingu fyrir Apple. Ekkert forrit tengir eins marga um allan heim saman. Maður getur talað við Kínverja og hann skilur "Windows-málið", sama á við um Norðmanninn eða Þjóðverjann. Windowska, ef ég má nota það, er bæði tungutak og aðferðafræði sem hefur orðið til og mun bara ná sterkari tökum á heiminum eftir því sem tíminn líður.
Ég óska afmælisbarninu, þá sérstaklega foreldrunum, til hamingju með tímamótin og vona að því farnist vel í framtíðinni. Jafnframt vona ég að hegðun þess í framtíðinni taki mið af þroska sínum og það hætti unggæðingslegum kjenum og tiktúrum.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 41
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Sæll Marinó,
Það var gaman að lesa þennan pistil og hann vakti margar minningar hjá gömlum tölvugrúskara! Ég keypti fyrsta leysiprentarann (Kyocera) af Hans Pétri 1988 eða þar um bil og man að ég var í einhverjum vandamálum með stafasettið og skrifaði einhvern stubb sem ég gat notað og sendi hann til HP;) Seinna skipti ég á þessum prentara og Tandon prentara sem ég notaði fram til 1996 eða 97 þegar hann bókstaflega hrundi enda búið að prenta mikið með honum!
Keypti mér tölvu sumarið 1990 og hún kom með Windows 3.0. Áður hafði ég séð Windows 2.1 (held ég) á tölvu kunningja míns en heldur fannst mér það bágborið. Setti upp nokkur netkerfi fyrir austan með Windows 3.1 for Workgroups og það gekk alveg þokkalega ef ég man rétt.
Nú fer ég af og til á .NET notendafundi (user group meeting) sem eru haldnir í kaffiteríunni í Microsoft byggingu 41 í Redmond. Þegar maður er að villast þarna í MS hverfinu þá verður manni oft hugsað til þessara gömlu dos og windows forrita sem maður var að brasa með í gamla daga;) A.m.k. sér maður hvar þessir aurar enduðu sem maður borgaði fyrir MS forritin!!!;)
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 21.11.2010 kl. 02:09
Það er villa í þessu hjá þér. Það er þannig að DOS var lagt af með Windows ME, sem kom eftir Windows 98. Microsoft ákvað að byggja Windows XP á Windows 2000, en það kerfi er byggt á Windows NT 4 og í raun fyrsta tilraun Microsoft til þess að búa til notendavænt kerfi byggt á NT kjarnanum.
Windows Vista og Windows 7 eru síðan það sem hefur komið úr þeim ákvörðunum hjá Microsoft. Þannig að DOS er horfið fyrir talsvert löngu síðan úr Windows kerfunum.
Windows 2000 og Windows XP eru með dos herma, sem er ekki það sama og raunverulega dosið. Windows Vista og Windows 7 eru ekki með þessa herma sýnist mér, en gæti þó haft rangt fyrir mér í því.
Jón Frímann Jónsson, 21.11.2010 kl. 02:53
Fróðlegur pistill hjá þér Marínó, skrifaður af þekkingu og janfvel væntumþykju fyrir Windows ... sem maður á ekki að venjast um það alræmda en þó vinsæla stýrikerfi. Ég man eftir því að á árunum í kringum 1990 skrifaði einhver „tölvugúrú“ í Morgunblaðið á þá leið að sannir karlmenn skrifuðu skipanir í Dos en bara aumingjar eða kellingar notuðu mús eins og Makkinn bauð upp á. Þetta var dálítið fyndin yfirlýsing en ég man ekki hvort hún var sett fram í alvöru eða til að gera grín af okkur Makkafólkinu. Ummælin hafa síðan setið í hausnum á mér og hafi þau verið skrifuð í alvöru væri gaman að vita hvort höfundurinn hafi breytt um skoðun á þeim árum sem liðin eru.
Sigurdur Sigurdarson (IP-tala skráð) 21.11.2010 kl. 09:16
Sæll Marinó. Það er gaman að rifja upp gömul kynni. Fyrsta tölvan sem ég eignaðist, sennilega um 1987 eða 8, var ekki með Windows heldur allt unnið í DOS rótinni. Að vísu fékk ég aðstoð við að búa til skel á rótina og þaðan komst maður inn á þau forrit sem í tölvunni voru, t.d. var átti ég töflureikninn Simphony. Fyrsta Windows forritið sem ég kynntist var 3,1 og hvílik bylting! Síðan hef ég notað nánast allar útgáfur fyrir utan Vista, en ég hoppaði alfarið yfir það.
Gunnar Heiðarsson, 21.11.2010 kl. 09:37
Jón Frímann hefur rétt fyrir sér Marínó. Öll Windowskerfi eftir ME hafa verið byggð á NT.
Axel Þór Kolbeinsson, 21.11.2010 kl. 13:54
Mín mistök að hefja DOSið til of mikilla virðinga.
Marinó G. Njálsson, 21.11.2010 kl. 14:37
DOS á alla virðingu skilið. MS-DOS 6.22 er síðasta stýrikerfisútgáfa frá Microsoft sem stóð undir væntingum. Markaðsdeildin hefur fengið of frjálsar hendur síðan þá.
Axel Þór Kolbeinsson, 21.11.2010 kl. 16:10
Sæll Jón,
Allar útgáfur af Windows sem byggja á NT kjarnanum (NT kernel) koma með DOS console forriti, cmd.exe sem hefur margar af DOS skipununum, en það eru ákveðnar takmarkanir þegar kemur að batch skrám. Gamla góða command.com skelin er líka í windows\system32 ;) En þetta "dos" er bara forrit sem getur sent skipanir til stýrikerfisins. MS-DOS var undirliggjandi stýrikerfi fyrir allar útgáfur af Windows fram að NT.
Ef ég man rétt þá réð DOS ekki við NTFS skráakerfið og MS fór aldrei í að byggja DOS til að ráða við það. Þess vegna var NT byggt sem stýrikerfi frá grunni sem gat notað gömlu FAT32 skrákerfið frá DOS (er ekki viss um hvort NT notaði nokkurn tíma FAT16) DOS réð ekki við löng skráanöfn og eldri windows útgáfurnar (fyrir NT kjarna) voru með DLL sem breytti þessu þannig að Windows gat stutt löng skráanöfn. Windows geymdi töflu með upplýsingum um DOS nafnið og "langa" nafnið. Þetta sést ennþá í NT - þú getur séð það í cmd.exe með DIR *.* /X og í forritum er hægt að nota GetShortPathName() til að finna stutta nafnið.
Gamla NT stýrikerfið var mjög stabílt, en var með mun lélegri stuðning við notendamót. Ég man t.d. eftir þegar ég var að vinna í Hróarskeldu 98-99 að við vorum með eina NT Workstation tölvu en restin var 95. NT tölvan hrundi nánast aldrei;) en hún var aðeins með stuðning fyrir 16 liti! Það var því svolítið mál fyrir okkur að vera að forrita notendaviðmóti í henni því við sáum ekki hvað við vorum að gera;) Niðurstaðan varð sú að yfirforritarinn, sem vann eingöngu með kóða, fékk NT tölvuna en við tveir sem vorum meira í notendaviðmótinu notuðum Win95. Ég man líkað við vorum í vandræðum með prentaradrivera fyrir NT tölvuna.
Afsakið allar sletturnar;)
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 21.11.2010 kl. 21:36
skemmtileg upprifjun:). Það var mikið áfall fyrir mig á sínum tíma að sjá DOS leggjast af og ýmislegt sem maður sýslaði þar var þá ekki lengur til staðar, lengi vel setti ég alltaf upp FAT32 partition til að geta haldið áfram að nota DOS forritin mín í viðhald.
Nú er ég með unattended install disk með slipstream af hinu og þessu, smelli honum í og legg mig:).
Nú nota ég Windows í hljóðvinnslunni, Pro Tools keyrir betur á Winows í dag heldur en á Makka . Hver hefði trúað því fyrir örfáum árum:).
Þaðvantar samt ýmislegt upp á og mikil tilbreyting væri að þurfa ekki að patcha þessar vélar fram og til baka fyrir ólíkan hugbúnað, allavega í vissri grunnvinnu. Þetta er samt allt að koma.
Gunnar Waage, 23.11.2010 kl. 04:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.