Leita í fréttum mbl.is

Hagfræðingur sendir Hagsmunasamtökum heimilanna tóninn

Þórólfur Matthíassyni, hagfræðingi, virðist eitthvað uppsigað við Hagsmunasamtök heimilanna.  Honum er rauna svo uppsiga við þau, að hann reynir að hefja sig yfir þau og tala niður til okkar sem höfum lagt allar okkar frístundir og fórnað talsvert af vinnutíma okkar til að vinna í sjálfboðavinnu fyrir bættum hag heimilanna.  Í pistli í Fréttablaðinu fer hann mikinn.  Hann byrjar pistilinn á eftirfarandi orðum:

Stjórn samtaka sem kenna sig við hagsmuni heimilanna hefur tekið sér umboð til að krefjast flatrar niðurfærslu húsnæðislánanna.

Um þetta má segja tvennt.  Samtökin heita Hagsmunasamtök heimilanna.  Við höfum fullan rétt á að nota þetta heiti og þurfum ekki að fá leyfi eins eða neins til þeirrar nafngiftar.  Annað er að við tókum okkur ekkert umboð.  Stjórnin er kjörin af félagsmönnum á löglega boðuðum aðalfundi.  Samtökin eru öllum opin.  Tillagan var borin upp á aðalfundi og þar var stjórn veitt heimild til að ljúka útfærslu hennar og koma á framfæri.

Næst segir hagfræðiprófessorinn:

Tvennt er við framgöngu þessara talsmanna heimilanna að athuga. Í fyrsta lagi myndi sú aðgerð sem þeir leggja til duga þeim skammt sem eru í mestum vanda. Því fólki verður að mæta með sértækum úrræðum, afskriftum lána eða öðrum róttækum lausnum hvað svo sem líður almennri niðurfærslu lána.

Greinilegt er að prófessorinn bregst frumskyldu sinni sem fræðimanns.  Hann kynnir sér ekki það mál sem hann er að fjalla um.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa barist fyrir því í mjög langan tíma að farið verði út í almenna leiðréttingu á skuldum heimilanna, svo ekki þurfi eins margir að leita í þau sértæku úrræði sem eru í boði. Er til of mikils ætlast af manni sem situr sem sérfræðingur í nefnd sem hefur eftirlit með framkvæmd laga nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishruns, að hann viti hvað er að gerast í þjóðfélaginu í kringum sig.  Ef prófessorinn hefði haft fyrir því að skoða málflutning Hagsmunasamtaka heimilanna, þá vissi hann að samtökin hafa í heilt ár sagt að úrræði sem hingað til hafi verið innleidd dugi ekki, þar sem of mörgum verði með þeim beint í gegn um þau úrræði sem hann hefur í nefndarvinnu sinni haft það hlutverk að hafa eftirlit með.  Ég veit ekki betur, en að það hafi verið ein helsta niðurstaða nýútkominnar skýrslu eftirlitsnefndarinnar að of hægt gengi að vinna úr málum fólks og eingöngu 128 einstaklingar hafi komist í gegn um nálarauga fjármálafyrirtækjanna.

Trúir hagfræðiprófessorinn virkilega, að það sé þjóðfélaginu til góða að stórir hópar hafi verulegar skertar tekjur til ráðstöfunar eftir að búið er að greiða af skuldum?  Trúir hagfræðiprófessorinn virkilega að gæði lánasafna fjármálafyrirtækja séu  það mikil að þau muni lifa á því innheimtuhlutfalli sem þau búa við?  Í nýjustu skýrslu AGS segir að innheimtuhlutfallið sé 35% af kröfuupphæð.

Áfram heldur hagfræðiprófessorinn:

Í öðru lagi eru meiri líkur en minni á að aðgerðin skaði efnahagsreikninga heimilanna. Hafa ber í huga að efnahagsreikningur heimilis er mun óræðari stærð en efnahagsreikningur fyrirtækis. 

Og þessu til skýringar segir hann: 

Sú aðgerð sem hin svokölluðu hagsmunasamtök heimilanna hafa farið fram á felur í sér lækkun á skuldum heimilanna. Afleiðing niðurfærslunnar kæmi fram sem lækkun á eignum lífeyrissjóðanna sem aftur kæmi fram sem lækkun á lífeyrisskuldbindingum. Jafnframt myndi staða Íbúðalánasjóðs versna og ríkissjóður yrði að leggja honum til aukið fjármagn. 

(Yfirlæti prófessorsins gagnvart þeim sem vilja ekki viðurkenna forsendubrestinn sem varð nær ákveðnum toppi, þegar hann segir  "hin svokölluðu hagsmunasamtök heimilanna". Ætli manninum líði betur við það að gera lítið úr markmiðum og heiti samtakanna?)

Hér klikkar prófessorinn aftur í grundvallarreglum fræðisamfélagsins.  Hann kastar fram kenningu um að afleiðingin af niðurfærslunni komi fram sem lækkun á eignum lífeyrissjóðanna, en sannar hana ekki.  Mig langar að afsanna hana:

1)  Ef gæði lánasafna Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna verða meiri eftir þá aðgerð sem Hagsmunasamtök heimilanna leggja til, hvernig getur hún leitt til lækkunar á eignum lífeyrissjóðanna.  Samkvæmt upplýsingum frá Landssamtökum lífeyrissjóða, þá eru um 10% sjóðfélaga lána í vanskilum eða frystingu.  Gefum okkur að þessi tala skiptist jafnt á milli.  Næst skulum við skoða hvernig lánþegar fóru að því að halda hinum 90% í skilum.  Ein leið var að draga úr neyslu, önnur að greiða ekki af lánum annars staðar og sú þriðja að taka út séreignarlífeyrissparnað.  Séreignarsparnaðurinn gaf fólki tekjur upp á 42 milljarða, þar af runnu um 24 milljarðar til þeirra sem tóku út og afgangurinn til ríkis og sveitarfélaga.  Nú veit ég ekki hve stór hluti af þessum 24 milljörðum fóru í að greiða af lífeyrissjóðslánum eða lánum Íbúðalánasjóðs, en gefum okkur að það hafi verið helmingurinn í sömu hlutföllum og upphæð lánanna eru, þ.e. 25% í lán lífeyrissjóðanna og 75% í lán Íbúðalánasjóðs.  Það þýðir að 3 milljarðar af séreignarlífeyrissparnaði hafa runnið aftur til lífeyrissjóðanna í formi afborgana lána.  Miðað við eðlilega greiðslubyrði lána, þá nemur þetta líklegast um 29% af afborgunum ársins (lánin eru 175 milljarðar og 90% í skilum. Greiðslubyrðin er á að giska 5.500 kr. á hverja milljón á mánuði eða alls 10,4 milljarðar á ári og 29% af þeirri tölu gera 3 milljarða og 14 milljónir).  Mér sýnist því að láti lántakar lán lífeyrissjóðanna sitja á hakanum á næsta ári sem nemur þessu hlutfalli, þá verði langleiðina 40% af lánum lífeyrissjóðanna annað hvort í frystingu eða vanskilum.  Vissulega eiga lífeyrissjóðirnir veð að baki lánunum, en þar sem sjóðirnir eru oft síðari veðhafar, þá mun lækkun fasteignaverðs fyrst bitna á veðum lífeyrissjóðanna.  Eignir þeirra í formi sjóðfélagalána munu því rýrna mjög hratt.  40% af 175 milljörðum eru 70 milljarðar.  Það er dágóð summa.  Hvað ætli tap á 70 milljörðum muni leiða til mikillar skerðingar á lífeyri?  Rétt tæp 4%. 

2) Störfum mun fækka, þannig að færri greiða í lífeyrissjóði.  Atvinnulaus einstaklingur greiðir vissulega í lífeyrissjóð, en það gerir ekki sá sem er utan vinnumarkaðar.  Færri einstaklingar standa því undir uppbyggingu sjóðanna, sem þýðir að styttra verður í að sjóðirnir þurfa að ganga á eignir sínar til að greiða út lífeyri. 

3)  En þetta er ekki búið enn.  Eignir Íbúðalánasjóðs hafa rýrnað mikið að undanförnu og munu rýrna ennþá meira á næstu árum, ef ekkert er gert.  Þetta kallar á hærri framlög ríkis og þar með skattgreiðenda til sjóðsins.  100 milljarða framlag, sem er líklegast það sem sjóðurinn þarf í dag, er skattahækkun upp á einhver 20 - 25 prósent. Lífeyrisþeginn mun því missa einhvern hluta af lífeyrinum, kannski 5% eða jafnvel meira.  Hinn kosturinn er að Íbúðalánasjóður endursemji við lánadrottna sína.

4)  Lífeyrissjóðirnir eiga þegar eitthvað af íbúðarhúsnæði sem keypt hefur verið á nauðungarsölum eða tekið upp í uppgjör.  Eignaverð hefur farið lækkandi upp á síðkastið, en fasteignamat íbúðarhúsnæðis var um 2.800 milljarðar í árslok 2008.  Markaðsverð á þeim tíma var talsvert yfir þeirri tölu, en til einföldunar skulum við nota 2.800 milljarða sem viðmiðunartölu.  10% lækkun á húsnæðisverði þýðir því 280 milljarða lækkun.  Miðað við 60% veðsetningu 2008, þá verðmæti veðsins um 168 milljarðar.  Nú veit ég ekki hvert er verðmæti þess íbúðarhúsnæðis sem lífeyrissjóðirnir eiga, en það fer greinilega lækkandi í hverjum mánuði. 

5)  Þá eru það lán fyrirtækja.  Það vill nefnilega svo til að lífeyrissjóðirnir lána líka til fyrirtækja.  Í lok júlí hljóðuðu þessi lán upp á 140 milljarða. Eftir því sem ástandið í þjóðfélaginu versnar, þá aukast líkur á vanskilum þeirra.  Ef eitthvað er að marka tölur AGS, þá er verulegur hluti lána fyrirtækja í vanskilum.  Líklegast í kringum 50%, ef ekki allt að 75%.  Notum lægri töluna og þá fáum við út að 70 milljarðar af lánum lífeyrissjóðanna til fyrirtækja eru í vanskilum.  Veðin eru í fasteignum, en ef verð á íbúðarhúsnæði er í frjálsu falli, þá á ég ekki til orð yfir verð á atvinnuhúsnæði.  (Hægt er að fá skrifstofuhúsnæði á besta stað í bænum fyrir vel innan við 1.000 kr. fermetrann.)

Þegar allt þetta er tekið saman, þá er tap lífeyrissjóðanna og sjóðfélaga/lífeyrisþega margfalt meira, ef ekki er farið í þessar leiðréttingar, en ef leiðréttingaleiðin er farin.  Ég hvet líka hagfræðiprófessorinn til að kynna sér hugmyndir HH um að skerðingin verði ENGIN hjá þeim sem ekki eiga möguleika á að vinna hana upp, og hækki hlutfallslega eftir því sem lengra er í að sjóðfélaginn komist á lífeyristökualdur.  Ekki má síðan gleyma því að mjög margir lífeyrisþegar eru lántakar og fyrir þá þýðir leiðréttingin á höfuðstólnum lækkun greiðslubyrði til langframa.

Annars er ákaflega merkileg villa (vonandi ritvilla) í síðari hluta setningarinnar um lækkun eigna, en þá segir prófessorinn:  

sem aftur kæmi fram sem lækkun á lífeyrisskuldbindingum

Ég vona innilega að hér hafi flýtirinn gert prófessornum grikk, því það er ekkert samhengi á milli lífeyrisskuldbindinga og eigna.  Lífeyrisskuldbindingar hreyfast ekki í takt við eignir.  Það er aftur geta lífeyrissjóðanna til að standa undir skuldbindingunum sem breytist með breytingu á eignum.

Næst fjallar prófessorinn um eitthvað sem á ekkert skylt við tillögur HH og sé ég enga ástæðu til að eyða tíma í það, þ.e. kröfur bankanna á ríkið.  Tillögurnar eru nefnilega um grunn að þjóðarsátt og munu því ekki verða að veruleika nema sátt sé um þær.

Næsta atriði skil ég ekki:

Ef bankarnir fá ekki bætur úr ríkissjóði þurfa þeir að auka vaxtamun. Hvaða leið sem yrði farin af hálfu ríkissjóðs og fjármálastofnana yrði ekki komist hjá neikvæðum áhrifum á ráðstöfunartekjur þeirra einstaklinga sem upprunalega átti að bæta. Sagt með öðrum orðum: Tekjuöflunarmöguleikar heimilanna og mannauður þeirra myndi minnka.

Nú skulum við rifja upp að prófessorinn situr í eftirlitsnefnd sem skoðar m.a. ákveðinn þátt í starfsemi bankanna.  Hefur hann hvergi rekist á það í starfi sínu eða bara lesið um það að bankarnir fengu ríflega afslætti af lánasöfnunum, þegar þau voru flutt frá gömlu kennitölunni til þeirrar nýju.  Samkvæmt tölum AGS voru þetta 420 milljarðar.  Inn í þeirri tölu var gert ráð fyrir 137 milljörðum vegna gengistryggðra lána, sem Hæstiréttur hefur nýtt að fullu með dómum sínum 16/6 sl.  Þá standa eftir 293 milljarðar og hugmyndir HH ganga út á að um 70 milljarðar af þeirri upphæð verði notuð í að leiðrétta verðtryggð lán.  Vissulega gætu fjármálafyrirtækin tapað einhverju af framtíðartekjum vegna gengistryggðra lána, þar sem ekki er gert ráð fyrir að þau beri lægstu óverðtryggðu vexti Seðlabanka Íslands, en fylgi í stað lægstu verðtryggðu vöxtum með þaki á verðbætur.  Ég er aftur sannfærður um að bætt innheimtuhlutfall geri gott betur en að vinna það upp.

Þá eru það lokaorð prófessorsins, fyrir utan síðustu setninguna:

Flöt niðurfærsla húsnæðislána myndi því ekki aðeins lækka skuldir heimilanna, hún myndi einnig hafa mikil neikvæð áhrif á eignahliðinni. Efalítið yrði staða sumra heimila örlítið skárri eftir niðurfærslu en var áður. En fyrir mörg önnur heimili yrði niðurstaðan neikvæð. Flöt niðurfærsla húsnæðislána er því ekki fallin til að bæta stöðu heimilanna í landinu, þvert á móti. 

Nú er ég viss um að prófessorinn er að reikna í raunvöxtum, enda hagfræðingur.  Ég veit að reiknilíkön hagfræðinnar vilja taka heildargreiðsluflæði líftíma aðstæðnanna og núvirðisreikna.  En gallinn er að óvissuþættirnir eru svo margir, að núvirðið getur tekið margar niðurstöður.  Mitt sérsvið er aðgerðarannsóknir.  Ég lærði að nota hagfræðilíkön og setja inn í þau ólíkar forsendur um þróun á því tímabili sem er til skoðunar.  Okkur var uppálagt að skoða bestu lausn og verstu lausn og safn punkta þar á milli.  Fullyrðing Þórólfs Matthíassonar fengi falleinkunn í mínu fagi, þar sem hún er algjörlega ósönnuð, ekki studd neinum rökum og engin næmnigreining er gerð á henni. Ég tel mig hafa afsannað fullyrðinguna, þó ég sýni vissulega ekki næmnigreiningu á niðurstöðum mínum, en valdi að taka líklegustu niðurstöðu hverju sinni og síðan rauntölur.

Þá er það lokasetningin:

Og eftir stæði að vandi þeirra heimila sem ekki geta greitt af skuldum sínum nú væri enn óleystur. 

Nú erum við sammála, en þó bara upp að vissu marki.  Málið er að verði farið að hugmyndum HH eða einhverri útfærslu á þeim, þá hefur þeim heimilum fækkað mjög mikið sem ekki geta greitt af skuldum sínum.  Til þess var leikurinn gerður, ekki til að bjarga öllum.  Slíkt er ekki gerlegt með almennum aðgerðum og nauðsynlegt að grípa til sértækra, m.a. þeirra sem Þórólfur Matthíasson hefur af kostgæfni og fagmennsku (að ég best veit) haft eftirlit með.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ágætis greining - leiðir:

18% niðurfelling er augljóslega ekki nóg ein og sér.

Marínó - ég hef nefnt nokkrum sinnum hér þá hugmynd að umbreyta Íbúðalánasjóði, í umsýslustofnun fyrir húsnæðislán.

Fára þangað lánin úr bönkunum - og að þeim sem eru í greiðsluvandræðum, væri boðið að sjóðurinn taki lánin og núlli en eigi í staðinn húsnæðið.

Þetta verði 5 eða t.d. 10 ár, leiga verði greidd en skv. mati á greiðslugetu.

Síðan, að afloknu tímabilinu - fái viðkomandi tækifæri að kaupa til baka fyrri eign út á nýtt lán eða fá leigusamning skv. markaðsleigu.

-------------

Ég hugsa þetta geti alveg virkað.

Fólk muni sækja um þetta fyrirkomulag.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 17.10.2010 kl. 00:35

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Einar, nauðsynlegt er að kanna allar leiðir til að koma lánakerfinu aftur í samt horf.  Árni Páll var með þessa hugmynd í fyrra en var laminn til baka með hana.

Marinó G. Njálsson, 17.10.2010 kl. 00:41

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Viðbrögðin við tillögum HH eru bein skilaboð til fólks um að nú verði að fylla miðbæðinn af tunnum og bareflum. Ég hef fram að þessi ekki hvatt til mótmæla, en nú er mælirinn fullur.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 17.10.2010 kl. 00:58

4 identicon

Skömm okkar er mikil fyrir að eiga svokallaða fræðimenn sem eru ekkert annað en ótýndir sendlar auðvaldsins. Þeir snattast mest þessa dagana með skilaboð um að ránið skuli standa. Auðvitað eru rökin engin og þá er bara persónulegt skítkast eftir.

Því miður eru það bara venjuleg vinnubrögð hér á landi síðastliðin 20 ár.

 Að sama skapi eiga HH allan heiður skilinn, hafa málefnalega bent á ránið sem hér var framið og komið með tillögur til úrlausnar. HH hefur tekist að fá nokkur félagasamtök með sér og það gefur okkur smá von.

Marinó, þegar skítkastið er byrjað þá veit maður að stutt er í árangurinn því mótrökin eru engin. Skömm okkar er mikil af því en því miður hefur það sýnt sig síðustu 20 árin að þannig hefur þetta bara verið og er greinilega enn.

Ljóst er almenningur á þessu landi á sér aðeins einn raunverulegan málsvara í HH. Mesta rán í sögu þessa lands var framið haustið 2008 þegar innistæður voru bættar mörg hundruð milljarða umfram lög á kostnað skattgreiðenda fyrir um 2% þjóðarinnar. Nú á svo að bæta um betur og láta lántakendur greiða fyrir uppvakninginn sem lagði grunninn að þessu ráni. Um það verður auðvitað aldrei nein sátt. 

Hafi HH og þú Marinó bestu þakkir fyrir vel unnið starf!

sr (IP-tala skráð) 17.10.2010 kl. 01:18

5 Smámynd: Offari

Ég er hlyntur þessum hugmyndum Hagsmunasamtakana þótt í raun telji ég að það þurfi að gera enn meir til að koma hagkerfinu aftur í gang.  Ég er skuldlaus og hef því eingöngu þann hag af þessu að húsið mitt (sem ég var að kaupa af íbúðalánasjóð) heldur verðgildi sínu.

Þó svo að ég tapi einhverjum lífeyrir þá vil ég það frekar en að senda reikning inn í framtíðina ef að Íbúðlánasjóður fer í þrot. Það er alltaf verið að tala um að verja eignarréttinn en þessir lánasamningar eru ein mesta eignaupptaka sem gerð hefur verið.  Fólk átti tölvert í þessum eignum fyrir hrun en er núna með neikvæða eignastöðu hversvegna er þeirra eignaréttur ekki varinn?

Offari, 17.10.2010 kl. 01:22

6 Smámynd: Haraldur Hansson

Í vikunni þurfti RÚV að bera til baka frétt sem var hönnuð til að sýna ágæti aðgerða stjórnarinnar. Það var vegna tengsla viðmælanda við Vg, annan stjórnarflokkinn.

Í færslunni segir réttilega "prófessorinn bregst frumskyldu sinni sem fræðimanns". Því miður er það ekki einsdæmi að menn misnoti stimpil háskólasamfélagsins til að klæða pólitískan boðskap í fræðibúning. Annað dæmi er Stefán Ólafsson og umfjöllun hans um bótaþega í vikunni.

Þórólfur bara hlýtur að vera Samfylkingarmaður, því hann berst af svo mikill hörku gegn þjóðinni. Fyrst á erlendri grundu í Icesave málinu í vor og nú í þessu máli. Það rímar fullkomlega við stefnu Samfylkingarinnar sem gengur út á að skap sundrung og óöryggi hvar sem því verður við komið.

Samt er iðulega talað við þessa tvo á RÚV sem fræðimenn og álitsgjafa, en ég minnist þess ekki að þær fréttir hafi verið dregnar til baka. Hefur þó oft verið meira tilefni til en á Árskógssandi í vikunni. Það eru fleiri undir þessa sök seldir og svona menn eru hættulegir.

Haraldur Hansson, 17.10.2010 kl. 01:42

7 Smámynd: Haraldur Hansson

Smá viðbót, svona í framhjáhlaupi. Ég velti stundum fyrir mér þessari spurningu:

Hver er hinn akademíski metnaður Háskóla Íslands?

Frá hruni hefur maður hvað eftir annað séð fræðimenn HÍ (og fleiri íslenskra háskóla) gefa álit sem eru ekkert annað en hápólitísk skilaboð.

Á háskóli, sem tekur sig alvarlega, að sætta sig við að starfsmenn hans skreyti sig með starfstitlum sínum og nafni háskólans og noti það sem gæðastimpil á hinar "fræðilegu" skoðanir sínar? Væru pólitískar málpípur eins og Þórólfur enn á launaskrá hjá virtum erlendum háskóla ef þeir hefðu sýnt af sér sömu hegðan annars staðar? Hvar er eiginlega metnaður skólans?

Haraldur Hansson, 17.10.2010 kl. 01:51

8 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Marinó G. Njálsson, 17.10.2010 kl. 00:41

---------------------

Hugmynd Árna Páls var ekki alveg hin sama. En, hann talaði um kaupleigu samning gegn markaðsleigu + 20 eða 30%. 

Það var ekki raunhæft.

Ég er að tala um leigu, sem taki mið af greiðslugetu - enda er hún fyrst og fremst til að fá einhverjar tekjur - annars vegar - og - hins vegar - viðhalda því sem prinsippi að við slíkar aðstæður eigi fólk að greiða það eitthvað a.m.k. er það ræður við.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 17.10.2010 kl. 02:19

9 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Haraldur Hansson, 17.10.2010 kl. 01:51

------------------
Frábær spurning - þ.e. einmitt galli HÍ eins og stj.kerfisins, að um leið og þú ert kominn á jötuna verður þér ekki svo glatt komið þaðan aftur.

Þeir hafa í reynd engar hvatningu til að vera annað en þ.s. þeir eru, þ.s. starfsöryggið er algert.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 17.10.2010 kl. 02:21

10 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Offari, 17.10.2010 kl. 01:22

------------------------

Þ.e. reyndar unnt að fara þessa leið, þá er ég ræði í neðangreindri færslu. Villt - hefði ýmsar afleiðingar, en einnig alveg garanterað að virkar:

Það er reyndar til önnur aðferð við skuldaniðurfellingu - ef einhver þorir að fara hana!

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 17.10.2010 kl. 02:24

11 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Hólmfríður Bjarnadóttir, 17.10.2010 kl. 00:58

---------------------

Því miður Hólmfríður - en Samfó er ekki lengur vinstri flokkur. Hann er ekki einu sinni miðjuflokkur.

Lestu þig til um skoðanir formanns Íhaldsflokksins, Jón Þorláksson rámar mig að hann hafi heitið, rétt áður en hann rann saman við Frjálslynda flokkinn gamla, og varð að Sjálfstæðisflokki.

Þ.e. lýgilega mikill samhljómur milli hans skoðana, og þeirra er stjórna í dag - þ.e. ég er að segja að Samfó komi fram sem hægri sinnaður íhaldsflokkur.

Fjármálaelíturnar virðast hafa flykkst um hann. Árangur út af fyrir sig, að ná þeim. En, verðið er - að tapa sál sinni sem flokkur.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 17.10.2010 kl. 02:28

12 identicon

Það vill stundum gleymast í þessari umræður að fjármálakerfið stundaði hér svikamillu á mjög háu stigi eins og kemur fram í Rannsókarskýrslu Alþingis og í dóm Hæstaréttar um ólögleg gengislán.

Allur afsláttur af lánasafni sem nýju bankarnir fengu eiga að fara í að LEIÐRÉTTA skuldir almennings. Ef meira vantar á að skattleggja bankana sérstaklega fyrir restinni.

Á Íslandi virðast gilda allt aðrar leikreglur þegar komið er að vöxtum á lánum. Hér var stunduð ólögleg lánastarfsemi og það hefur þótt sjálfsagt að verðtyggja öll lán og á sama tíma fær fjármálamarkaðurinn í skjóli stjórnvalda að haga sér eins og verstu glæpamenn á kostnað almennings

Sigurður Pálsson (IP-tala skráð) 17.10.2010 kl. 10:59

13 Smámynd: Sigurður Hrellir

RÚV virðist hafa sérstakt dálæti á umræddum prófessor. Í Morgunútvarpinu á Rás 2 sl. mánudag sagði hann m.a.:

"Það að tala um að efnahagsreikningar heimilanna séu laskaðir og að það séu mjög margir með neikvætt eigið fé, þá er verið að tala út frá mjög gölluðum tölum. Ég vil ekki að við séum að leggjast yfir efnahagsreikninga heimilanna og mála skrattann á vegginn út frá þeim vegna þess að það eru gallaðar tölur. Ég vil heldur að við horfum á rekstrarreikning heimilanna og spyrjum. Ef að heimili ræður ekki við að nota það sem kemur inn í tekjum til þess að borga gluggaumslögin, þá þurfum við að hugsa málið og spyrja hvernig stendur á því, og umboðsmaður skuldara er einn af þeim aðilum sem getur gert það og getur hjálpað til."

Þórólfur virðist alveg horfa fram hjá því að fjölmargt heilbrigt og hraust fólk lætur ekki bjóða sér slíkar klyfjar og kýs fremur að forða sér úr landi. Ef svo stór hluti tekna fólks eftir skatta á að renna í að halda bankakerfinu gangandi er næsta víst að engin ástæða verður til bjartsýni.

Í tíma og ótíma líkir hann niðurfærslu skulda við lottóvinning og segir að þannig gangi þjóðfélagið ekki. Mér finnst það ódýr rök hjá manni sem hlotið hefur prófessorsnafnbót. Honum virðist fyrirmunað að reikna út þann kostnað sem hlýst af því að fólk hætti að borga og forði sér úr landi.

Sigurður Hrellir, 17.10.2010 kl. 11:08

14 Smámynd: Axel Pétur Axelsson

Það eru allir fanir að sjá í gegnum lyga og blekingavélar fjórSpillingarinnar. Fyrst kemur frétt, talað við sömu sérfræðingana sem bulla sömu okkur er á mótivitleysuna, finna einhvern sem mælir með ráninu og alls ekki tala við nokkurn sem er á móti eins og HH. Takið eftir að HH hefur ekki komið fram á RÚV í fyrstu bylgju frétta, aðeins nokkrum dögum seinna þegar búið er að tryggja skoðanamyndun.

Fólk nennir ekki þessu röfli lengur. Ræningjarnir vilja ekki skila ránsfengnum sem eru engin ný vísindi í afbrotafræði. Nú fer að koma að þeim tímamótum í þessu máli að samningaumleitanir við ræningjana bera ekki árangur og senda þarf "borgaralegu sérsveitina" til að grípa inn í málið og endurheimta ránsfenginn.

Axel Pétur Axelsson, 17.10.2010 kl. 11:59

15 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Gott svar hjá þér Marinó við frekar dapurri grein hjá Þórólfi Matthíassyni.

Þórólfur Matthíasson sem titlar sig hagfræðing fer enn og aftur yfir strikið. Pólitísk afstaða yfirtekur fræðin og eru skrif hans eftir því, hann rökstyður ekki neitt af því sem hann segir, hann kemur með fullyrðingar sem standast ekki skoðun og hann gerir sig sekan um að lítilsvirða þá sem hann skrifar um. Á þessum nótum setja menn ekki fram sitt mál ef þeir vilja vera taldir til fræðimannasamfélagsins.

Þetta er því miður ekki í fyrsta skiptið sem þessi maður gerist sekur um slík skrif, reyndar eru þau að verða nokkuð regluleg hjá honum og spurning hver virðing háskólasamfélagsins er þegar hann fær óáreittur að tjá sig með slíkum hætti í nafni þess.

Þvi miður er hann ekki einn um slík skrif. Fleiri "fræðimenn" gerast sekir um þau. Þessir menn eru á launum hjá þjóðinni, þeir eru ekki í sjálboðavinnu.

Hagsmunasamtök heimilanna eiga heiður skilinn fyrir það starf sem þau hafa unnið. Ekki eru starfsmenn þar að þiggja laun úr sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar, þeirra vinna er öll sjálboðavinna.

Því miður virðast hugmyndir HH ekki eiga upp á borðið hjá ráðamönnum og alls ekki hjá fjármálastofnunum þó hver heilvita maður sjái að þeirra lausnir séu ekki síst til hagsbóta fyrir þær stofnanir, jafnvel hægt að segja að tilvist þeirra standi eða falli eftir því hvort leið HH verði farin eða ekki.

Ég vil leifa mér að trúa því að fræðimannasamfélagið sé ekki allt á sömu línu og Þórólfur Matthíasson. Ég vil leifa mér að trúa því að hann og skoðanabræður hanns séu þar í miklum minnihluta.

Því miður heyrist lítið í þeim fræðimönnum sem eru sammála hugmyndum HH, skýringarnar gætu hugsanlega verið fjölmiðlarnir. Við vitum að Baugstíðindin og ekki síður fréttastofa RUV hafa mikið dálæti á Þórólfi Matthíassyni og eru þessir miðlar duglegir að fá hann og skoðanabræður hanns í viðtöl og birta greinar þeirra!

Það er spurning hvort HH á ekki við ofurefli að stríða, það er erfitt að berjast við stjórnvöld, fjölmiðla og hluta fræðimannasamfélagsins á sama tíma.

Því er spurning hvort ekki sé rétt að hætta samstarfi við stjórnvöld og láta dómstóla um málið. Vissulega er sáttaleiðin best en til að hún gangi verða allir aðilar að vera sammála um að leysa málið. Svo virðist ekki vera að hálfu stjórnvalda.

Gunnar Heiðarsson, 17.10.2010 kl. 14:29

16 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Er ekki einfaldlega komin upp sú staða að fólk sem vill ekki að hægt sé að láta heilli þjóð blæða fyrir forsendubrest skapaðann að mestu leiti af gerðum fjármálafyrirtækja taki sig saman og myndi afl. Ég sé ekki annan kost í stöðunni en að fólk með svipaða afstöðu og hefur komið fram í málflutningi HH og vill ennfremur reisa landið aftur til lífvænlegrar búsetu taki sig saman og myndi breiðfylkingu sem hefur það að stefnu sinni að ná þessum málum fram innan stjórnsyslunar með stofnun stjórnmálaafls. Ef þessi hrina funda sem að nú stendur yfir ber ekki árangur sé ég ekki annan kost og myndi óska þess að það afl væri leitt af jarðbundnum einstaklingum sem viljá í raun bæta ástand allra en ekki bara sjálfs sín. Ég sé ekki orðið margt annað í stöðunni

Jón Aðalsteinn Jónsson, 17.10.2010 kl. 14:58

17 identicon

Sæll Marinó,

Takk fyrir góða svargrein og frábært starf - þessi barátta er sennilega rétt að hefjast, ef rétt er að stjórnarflokkarnir ætli enn að láta samtryggingarsveit okurs og sérviskuhagfræði valta yfir sig og heilbrigða skynsemi

Í fyrsta lagi ættu stjórnvöld að huga að stöðu fjármálaþjónustu sem atvinnugreinar, og reyna að forða henni frá stærri vanda, nú ekki skortur á gjaldeyri, heldur skortur á trausti og viðskiptavild tugþúsunda viðskiptavina

Í öðru lagi þurfa þau að rifja upp ummæli og óvilhöll heilræði prófessor Stieglitz, nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, ráðgjafi ríkisstjórna og sérfræðingur AGS/IMF ef ég man rétt, en hann mælti eindregið með og röstuddi almenna niðurfærslu husnæðislána heimilanna, og og og: sagði augljóst að landsmönnum/heimiliseigendum hefði verið seld gölluð vara!

Í þriðja lagi er ljóst að þetta ógeðfellda hörmulega samfélagslega einelti sem samkór hagsmunasamtaka okurs og vítisvéla í smásölu fjármálaafurða hérlendis, hefur nú fengið að gala fölsku nóturnar sínar skammlaust undanfarna daga í ruv og víðar án eðlilegra mótbára og augljóst þar á bæ hve  fagmennska er fljót að fljúga út um gluggann þar - félagsmenn OKURVÉLA: Bjarni Þórðar, Guðmundur Ólafs, Þórólfur Matt, Vilhjálmur fjárfestir, Gylfi así leppalúð, Guðmundur staurblindi í rsí, Hrafn gilitrutt sb lífeyrissjóða, einnig tvíburarnir Þorsteinn Páls og Ólafur Stef, ritstj. sem báðir virðast hafa háskólapróf í tröllslegu einsýni sem aðeins sér aðra hlið á allri mynt og betrekkir hjá sér í hólf og gólf setningar og frasa trúarjátningar

Það er hárrétt sem sagt er hér að ofan: háskólasamfélagið er að virka þegar kemur að brýnum hagsmunamálum almennings almannahag almannaheill, virðast allt of tengd þessu samtryggingarbulli hér sem beinlínis hamlar nú endurreisn og skynsamlegri þóun hagkerfisins 

Hvað er verið að púkka upp á þetta lið endalaust sem sér ekki bjálkann í eigin auga meðan bendir á flísarnar í augum allra annarra?

Mitt mat er að minnsta kosti að þetta leikrit samtryggingarkerfis efri stéttarinnar og sjálftökuliðsins í félagsskap launafólks og lífeyrissjóðum almennings, sé búið að sýna alltof oft - fólk nennir þessu bulli ekki lengur - allir sem eitthvað þekkja til í nágrannalöndum

Þess vegna er spurt: Stefnir þetta lið á almenn uppþot með upplausn og samsvarandi landflótta yngri kynslóða landsmanna?

Einsýnið er þannig í málflutningi og söng þeirra sem nú hafa tekið sig til undanfarna daga og kyrjað allar fölsku nóturnar sínar - og kyrja enn

Sjá nánar grein jge á lúgu_eyju: Leiðrétting húsnæðislána: Öll með á nótunum? Og (vonandi fljótlega) grein send í FRBL á föstud: Best rammfalskt?

HH eru fyrstu og einu almennu hagsmunasamtök heimilanna, sambærileg við hagsmunasamtök atvinnugreina, og löngu tímabært að fái rekstrarfé úr ríkissjóði eða drög verði lögð að almennu gjaldi (t.d. 1000 kr á nef pr. ári) til að heimilin njóti sammgjarnrar og eðlilegrar jafnstöðu á við önnur samtök að þessu leyti í hagsmunabaráttu.

Mbkv og áfram með smjörið!

jónas gunnar einarsson

jónas gunnar einarsson (IP-tala skráð) 17.10.2010 kl. 18:32

18 Smámynd: Þórdís Björk Sigurþórsdóttir

Svokallaður hagfræðingur sem álítur sjálfan sig „hot shit"!

Þórdís Björk Sigurþórsdóttir, 17.10.2010 kl. 20:59

19 identicon

Sæll Marinó

Þetta er virkilega góð greining hjá þér.  Þetta með hann Þórólf er reyndar farið að verða svolítið sérstakt. Maður er að verða vitni að vinnubrögðum hjá þessum prófessor og deildarstjóra hagfræðideildar HÍ sem eru ekki manni í hans stöðu sæmandi.  Fullyrðingar og upphrópanir um stór mál sem eru ekki varin með neinum rökum.

Þetta sama gerðist ma á Útvarpi Sögu ekki alls fyrir löngu. Í viðtali þar fullyrti Þórólfur að hér á landi yrði góður hagvöxtur á næstu árum, hann hafðu aftur á móti engin rök fyrir þessari fullyrðingu, sagði bara að það væri jafn víst og að sólin kæmi upp á morgun. Þegar aðgangsharðir fréttamenn á Sögu gengu á hann og báðu um rök fyrir fullyrðingunni gekk Þórólfur út í fússi.  Verst að það sé hvergi hægt að heyra þetta viðtal.

Stofanir eins og Háskóli Íslands eiga að gera þá kröfu til starfsmanna sinna að þeir séu faglegir í umfjöllun sinni (ef menn átta sig ekki á því sjálfir).

Halldór (IP-tala skráð) 17.10.2010 kl. 22:03

20 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Marinó og aðrir sem hér skrifa. Mig langar að varpa fram dálítið róttækri hugmynd að útfærslu á niðurfærslu húsnæðislána sem mér þætti vert að Hagsmunasamtök Heimilanna tækju til athugunar:

Með neyðarlögunum svoköluðu var Íbúðalánasjóði veitt heimild til að yfirtaka húsnæðislán fjármálafyrirtækjanna, sú heimild hefur hinsvegar aldrei verið nýtt en það eina sem til þarf er að félagsmálaráðherra setji um það reglugerð. Ef ILS myndi yfirtaka lánasöfnin yrði hægt að leiðrétta þau skv. tillögum Hagsmunasamtakanna án þess að þyrfti að bera það undir aðra en ríkisstjórnina, og án þess að það káfi upp á eignarréttinn margumtalaða því sanngjarnt endurgjald kæmi fyrir lánasöfnin eða ca. helmingur nafnverðs sem er það sama og bankarnir fengu þau á. Fyrir ríkið myndi þessi tilfærsla ekki kosta neitt því á móti kæmi verðmæt eign en húsnæðislán eru örugg fjárfesting séu þau rétt metin og restin af útfærslunni er bara bókhaldsatriði. Með þessu myndi ILS fá svigrúm til að dreifa þeirri niðurfærslu sem þegar er komin á raunvirði lánasafna bankanna, jafnt yfir á alla húsnæðislántakendur í landinu, og það hefði eingöngu áhrif á efnahagsreikning ILS en ekki annara. Það væri svo athyglisvert að reikna útkomuna þegar mismuninum af 45% niðufærslu bankanna og t.d. 18% niðurfærslu að tillögu HH, yrði jafnað yfir á þau lán sem fyrir voru hjá ILS. Ég hef nefninlega grun um að niðurstaðan yrði sú að þörfin fyrir endurfjármögnun ILS yrði lítil sem engin. (Læt þig vita þegar ég verð búinn að setja það upp í Excel :)

Þessi aðferðafræði væri mögulega einfaldasta leiðin til að leysa úr þessu því þá væri hægt að forðast alla þá flóknu hagsmunaárekstra sem virðast nú vera að koma í veg fyrir að hægt verði að ráðast í leiðréttingu.

Bestu kveðjur.

Guðmundur Ásgeirsson, 17.10.2010 kl. 22:08

21 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég setti ofangreinda hugmynd upp í reiknilíkan, og komst að þeirri niðurstöðu að bein fjárútlát ríkisins þyrftu ekki að vera nema 30 milljarðar kr.

Guðmundur Ásgeirsson, 18.10.2010 kl. 01:29

22 Smámynd: Billi bilaði

Hroki þessa meinta prófessors er yfirgengilegur.

Ég vaknaði upp við viðtalið við hann í síðustu viku á Rás 2, og slökkti fljótlega. Það var ekki nokkur leið að hlusta manngarminn drulla svona yfir þjóðina.

Billi bilaði, 19.10.2010 kl. 00:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 1680018

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband