Leita í fréttum mbl.is

Hvassar umræður sem vonandi skila einhverju

Ég tek heilshugar undir skilning forsætisráðuneytisins að umræður hafi verið hvassar í gærkvöldi.  Einnig mætti tala um afneitun.  Ég vona bara að þetta hafi verið mikilvægt skref til lausnar á þeim brýna vanda sem við búum við.

Í síðustu færslu minni, þá ræði ég tilgang tillagna Hagsmunasamtaka heimilanna.  Mig langar að birta hana aftur hérna en í styttri útgáfu.  Jafnframt hvet ég fólk til að kynna sér talnaefnið sem Steingrímur J. Sigfússon notaðist við í sínum inngangi.

Mér finnst gæta mikils misskilnings að markmið tillagna Hagsmunasamtaka heimilanna sé að bjarga þeim verst stöddu.  Það er ekki markmið þeirra.  Markmið tillagna samtakanna um leiðréttingu á höfuðstóli lána er að fækka í hópi þeirra sem þurfa á sértækum úrræðum að halda.

Skoðum nokkrar tölulegar staðreyndir:

  • Skuldsetning heimilanna hefur farið úr 25% af ársráðstöfunartekjum árið 1980 í um og yfir 300% í árslok 2008.  Frá árslokum 2004 til ársloka 2008 fór skuldsetningin úr 877 milljörðum í 2014 milljarða, aukning upp á 130% á fjórum árum.
  • Samkvæmt tölum bankanna, sem birtast í skýrslu eftirlitsnefndar með úrlausnum fjármálafyrirtækja, kemur fram að mjög fáir hafa fengið úrlausn sinna mála í gegn um sértæka skuldaaðlögun og greiðsluaðlögun.  Eins og staðan var samkvæmt álagningar skrá, þá voru 20.412 heimili í landinu með yfirveðsettar eignir miðað við fasteignamat.  Alls nam yfirveðsetningin 125 milljörðum króna. 
  • Samkvæmt tölum lífeyrissjóðanna hafa 49.000 manns nýtt sér að taka út séreignarlífeyrissparnað og samkvæmt tölum fjármálaráðuneytisins höfðu fyrr í ár 42 milljarðar verið teknir út.
  • Vanskil í fjármálakerfinu hefur aukist mikið.  Samkvæmt upplýsingum í skýrslu AGS eru 65% lána að kröfuvirði óvirk (e. non-performing loans), þ.e. ekki er verið að greiða af þeim og hefur ekki verið gert síðustu 90 daga.  Ef bókfært virði er notað, þá er hlutfallið 45%.
  • Hjá stóru bönkunum þremur eru milli 80 - 85% lána í skilum, sem þýðir að 15-20% lána eru 45% af bókfærðu virði og 65% af kröfuvirði.  Hjá lífeyrissjóðunum munu vanskil vera "lítil" eða 10% (með frystingu).
  • Einn stóru bankanna sagðist "bara" hafa verið með 20 uppboð í síðustu viku.  Nái hann þessum fjölda vikulega allt árið, þá gerir það "bara" 1040 uppboð.
  • Yfir 1.500 íbúðir eru þegar komnar í eigu fjármálafyrirtækja, þ.m.t. Íbúðalánasjóðs.
  • Á fundi 8. september um fátækt kom fram að árið 2009 gátu 36.900 fjölskyldur ekki mætt óvæntum útgjöldum.  Þessi tala er núna komin vel yfir 40.000 fjölskyldur.  48.500 fjölskyldur voru sagðar eiga í vandræðum.

Nú vil ég spyrja hverjir eru verst staddir?  Hvenær telst einstaklingur til þeirra verst stöddu?

Mér finnst mikilvægt að bjarga þeim verst stöddu, en tilgangur tillagna Hagsmunasamtaka heimilanna var ekki að koma með endanleg bjargræði fyrir hina verst stöddu.  Samtökin telja að þau úrræði séu til staðar í formi t.d. greiðsluaðlögunar og sértækrar skuldaaðlögunar.  Vissulega þurfi að skerpa á þeim úrræðum, draga úr skrifræði, flækjustigi og fækka hindrunum á vegi fólks.  Það er lítill vandi að vísa til þess að ástandið hafi verið orðið slæmt hér í upphafi árs 2008.  Það lagar ekki ástandið að segja að hrunið eitt verði ekki dregið til ábyrgðar.  Staðreynd málsins er að bankakerfið vann skipulega að því frá 2004 að skuldsetja heimili landsins og það tókst.

Tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna eru ekki meitlaðar í stein.  Þær eru hugsaðar sem viðræðugrundvöllur með mjög ákveðin undirtón.  Á fundi hagsmunaaðila og stjórnmálamanna í gær komu fram hugmyndir að breytingum.  Fleiri hugmyndir hafa komið fram sem er vert að skoða.  Mest um vert er að menn komi ekki að borðinu með það hugarfar að eitthvað sé ekki hægt.

Nú skora ég á þá sem hafa með þessi mál að gera, að taka höndum saman við að finna lausn.  Lausn sem telst sanngjörn og réttlát.  Lausn sem mun gera almenningi kleift (og af vilja) að viðhalda sambandi sínu við viðskiptabankann sinn.  Lausn sem mun koma hjólum hagkerfisins aftur í gang.  Lausn sem mun hjálpa okkur að standa vörð um velferðarkerfið og þá ímynd sem við viljum að Ísland hafi.  Lausn sem kemur í veg fyrir að hér sjóði allt upp úr.


mbl.is Fólk á aldrinum 25-40 ára skuldar mest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég legg til að þú reynir að fá upplýsingar um vanskil hjá öðrum fyrirtækjum sem tengjast rekstri heimilis til að fá betri mynd. Gerum ráð fyrir að þegar aðili er komin í vandræði að hann hætti síðast að borga af húsnæði sínu.

Hver eru þá vanskil vegna kreditkorta og yfirdrátta?

Hver eru vanskil einstaklinga hjá Orkuveitunni og öðrum orkufyritækjum. Hver eru vanskil hjá símafyrirtækjum (heimasími), hver eru vanskil vegna fasteignagjalda. Hver eru vanskil húsgjalda vegna húsfélega.  Og ekki síst hver eru vanskil einstaklinga hjá tryggingafyrirtækjum vegna brunabótatrygginga, jafnvel heimilistrygginga.

Með upplýsingum um ofangreindar tölur þá er glögglega hægt að sjá hverjir eru á leiðinni í þrot. Ég myndi halda að vanskil þarna séu fyrsta vísbending.


Hafið þið tekið saman kostnað gjalþrota einstaklings fyrir samfélagið. En kostnaðurinn er meiri en niðurfelling íbúðalána. Gjaldþrot snertir alla ofangreinda fleti sem skilar sér út í samfélagið með hærra verði á þessum þjónustum/vörum.

Ég hef gróflega reiknað þetta og sýnist gjaldþrotið kosta samfélagið margfalt meira en flöt leiðrétting.

Ríkið virðist gleyma að hugsa þetta út frá almanna forsendum, út frá heildarmyndinni og fókuserar á hagsmuni einstakra hópa.

DD (IP-tala skráð) 14.10.2010 kl. 15:18

2 Smámynd: Sigurður Ingólfsson

Þakka þér og ykkur hjá HH fyrir að vera tengiliður ríkisstjórnarinnar við almenning í landinu. Ekki er nægilegt að heyra tunnusláttinn og ólætin í fjarska.

Sigurður Ingólfsson, 14.10.2010 kl. 15:37

3 Smámynd: Edda Karlsdóttir

Sæll Marinó! Takk fyrir þrotlausa vinnu í þágu almennings í landinu. Mikið er rætt þessa dagana um lífeyrissjóðina og að það muni skerða mikið greiðslur til félaga og er þá heildartalan sett fram. Þetta hlýtur þó að deilast á einhver ár og marga einstaklinga.  Hvernig lítur þetta þá þegar upp er staðið, er fólk að tala um fáeinar krónur á mánuði sem ekki skipta nokkru máli eða hvernig lítur dæmið út. Það væri gaman að heyra hvort þið hjá HH hafið eitthvað farið í saumana á þessu. kv.Edda

Edda Karlsdóttir, 14.10.2010 kl. 16:44

4 Smámynd: Gunnar Waage

Þörf ábending hjá DD

Gunnar Waage, 14.10.2010 kl. 18:16

5 identicon

Hver er munurinn á því að lífeyrisgreiðslur skerðist vegna leiðréttingar á lánum eða að kostnaður við að lifa eykst? Hvort sem er þá borgar almenningur.

Lífeyrisþegar þurfa líka að borga orkureikninga, símareikninga, fasteignagjöld, tryggingar o.s.frv. Ef ekki verður leiðrétt þá fer hækkun bara þangað þar sem færri standa í skilum á sínum rekstrarútgjöldum.

DD (IP-tala skráð) 14.10.2010 kl. 19:23

6 Smámynd: Vignir Ari Steingrímsson

maður hefur það á tilfinningunni að "ég tel að skoða þurfi hvort hægt sé að" Jóhanna sé að slá allar hugmyndir af borðinu.

og manni finnst eins og að það sé ekki skoðaðir allir fletir varðandi kostnað samfélagsinns ef hér verður meiriháttar greiðslu þrot en eingöngu einblínt á kostnað fjármagnseigenda í dæminu ..en samt ekki hverju þeir gætu tapað ef allt fellur og enginn getur borgað. 

Vignir Ari Steingrímsson, 14.10.2010 kl. 20:00

7 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir að berjast áfram með skynsemi og almannaheill að leiðarljósi. Það er sárt að sjá hvernig ráðamenn snúa út úr og þykjast fátt skilja. Ég á bágt með að trúa að þetta fólk sé jafntómt og veruleikafirrt og það lítur út fyrir að vera.

Enn sýna fulltrúar Hagsmunasamtaka heimilanna baráttuþrek, þrautseigju og kjark. Mikið vildi ég óska að ráðamenn hefðu slíka mannkosti til að bera.

Hrannar Baldursson, 14.10.2010 kl. 20:12

8 identicon

Sæll og takk fyrir að standa vaktina.
Þú virðist halda ró þinni og það er mjög gott.

Ég hef tekið sérstaklega eftir því undanfarna daga hvernig orðræðan skiptir litum eftir því hvort menn eru á því hvort að það eigi að 'gefa eftir skuldir' eða leiðrétta forsendubrest. Þetta er orðið mjög áberandi varðandi ákveðna fréttamenn sem taka hreinlega afstöðu með fréttafluttningum með hvaða orð eru notuð. Maður heyrir það strax á fyrstu setningunni. Þetta á líka auðvitað við þegar leitað er til 'sérfræðinga' sem oftast eru hagfræðingar. Undanfarna daga hafa svo verið dregnir að borðinu nær eingöngu þeir sem líta á leiðréttingu lána galna.. nei, þeir nota orðið skuldaniðurfelling. Hvað  heitir það að fagmáli þegar skuldir hlaðast upp fyrir tilstuðlan rangra mælinga?  hvað er fræðilega orðið yfir andstæðu niðurfellingar?
Þetta hefur auðvitað verið mjög áberandi en undanfarna daga hróplegt og beinlínis leiðandi umræða, líka frá ríkisfjölmiðlinum.
að lokum, þarf ekki að fara að huga að stefnuskrá HH fyrir komandi kostningar?
kv,

vj (IP-tala skráð) 14.10.2010 kl. 20:34

9 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ólafur Arnarson í grein sinni Allt í plati... segir heimili um 80.000.

Það myndi þíða að skv. því sem þú segir Marinó sé helmingur heimila í þeirri stöðu að mega ekki við áföllum!

Ólafur Arnarson telur eftirfarandi rétt:

---------------------------------

Hvað kostar það þjóðarbúið ef 20% heimila verða gjaldþrota?

  • "Í landinu eru alls tæplega 80 þúsund heimili,"
  • "þannig að við erum að tala um 16 þúsund heimili,"
  • "Ef við gerum ráð fyrir að 80 prósent þessara heimila eigi sitt húsnæði myndu fjármálastofnanir og lífeyrissjóðir fá í fangið tæplega 13 þúsund íbúðir."
  • "Meðalíbúðin kostar í dag eitthvað um25-30 milljónir, þannig að verðmætið hleypur á bilinu 325-390 milljarðar."
  • "Íbúðalánasjóður er með bestu veðin – er nánast undantekningalaust á 1. veðrétti – og fengi því nánast allt sitt, en sæti uppi með svo sem eins og einn Kópavog og kannski Garðabæ með, sem hann getur ekki með góðu móti selt eða gert sér að tekjulind."
  • "Bankarnir fengju eitthvað í sinn hlut en lífeyrissjóðir eru gjarnan á 2. og 3. veðrétti með sitt og þyrftu því að borga upp lán ÍLS og bankanna til að tryggja kröfur sínar, en tapa þeim ella. Þetta myndi þýða stórkostleg fjárútlát hjá lífeyrissjóðunum og óvíst um endurheimtur vegna þess að markaðsverð húsnæðis hefur hrapað."
  • "Hvaða áhrif hefði svo þessi eignatilfærsla á húsnæðisverð í landinu? Í einu vetfangi væru 13 þúsund íbúðir komnar í eigu fjármálastofnana og lífeyrissjóða. Markaðsverð fasteigna myndi hrynja enn frekar en orðið er."
  • "Jafnvel ráðdeildarsama fólkið, sem eignaðist sérhæðina sína í vesturbænum með óverðtryggðum lánum á óðaverðbólgutímum og horfir út um gluggann sinn í gegnum blúndugardínurnar til að hneykslast á unga fólkinu, sem steypti sér í verðtryggðar eða jafnvel gengistryggðar skuldir til að koma þaki yfir höfuðið, er orðið eignalaust."
  • "Þegar hengja 13 þúsund óseldra íbúða hangir yfir húsnæðismarkaðinum verða allar íbúðir verðlausar – þær verða óseljanlegar. Þá gagnast fólki lítið að eiga sína íbúð skuldlausa og hafa ekki einu sinni keypt flatskjá eins og óreiðukálfarnir."

    Hvað hefur þetta í för með sér?
  • "Allar tryggingar banka, fjármálastofnanna og lífeyrissjóða fyrir útlánum hrapa í verði þegar íbúðarhúsnæði á Íslandi verður óseljanlegt. Þá erum við ekki að tala um 220 milljarða, eins og talið er að 18 prósent afskriftir húsnæðislána muni kosta. Nei, við getum margfaldað þá tölu með tveimur eða þremur."
  • "Og það eru aðeins beinu áhrifin. Erfiðara er að leggja mat á óbeinu áhrifin. Hvernig ætli veltan í hagkerfinu þróist þegar húsnæðismarkaðurinn botnfrýs til lengri tíma?"
---------------------------------

Ég bendi að auki á hættuna á stórfelldum uppþotum - en ef manngrúinn sem var á Austurvelli hefði ákveðið að labba inn í þinghús hefði lögreglan einungis geta beitt táragasi því ekkert minna hefði dugað - og þá hefði komið paník, fólk hefði troðist undir - munum að þarna var nokkur fj. barna - jafnvel látið lífið.

Gerist þetta næst? Mun síðan koma ljótleiki í hlutina, daginn eftir með líkhús borgarinnar full - sjúkrahús teppt af meiddum - þannig að mótmælendur fari að kveikja í opinberum byggingum með eldsprengjum? Götuvígi verði reist? Bílar brenndir? Hústökur fari fram þ.s. fólk taki hús sín til baka og vígbúist þar?

Á hvaða tímapunkti myndu löggæslan brotna niður?

Hvað myndi stjórnleysi og gripdeildir kosta fyrir hagkerfið?

Hvað ef nær engir ferðamenn koma næsta sumar?

O.s.frv.

Nei samanborið við hætturnar - eru 220 milljarða skítur og kanell!

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 14.10.2010 kl. 20:56

10 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Góð grein Marínó. Það er einmitt mikilvægt núna að allir sem hafi getu og vilja leggi hönd á plóginn hvað lausnir varða.

Sjálf hef ég gagnrýnt HH fyrir að taka kannski EKKI málefni þeirra verst stöddu og finnst því þetta nýtilkomna markmið HH skondið. Ég veit líka hitt að það þurfa að vera almennar lausnir og sértækar lausnir og HH eru að koma æ sterkari inn. En eins og þú segir þá eru tillögur ykkar ekki meitlaðar í stein og ættu því ekki að valda fjaðrafoki.

Auðvitað þurfa að koma til fleiri úrræði en þau sem beint snerta skuldir vegna íbúðarlána. En það flokkast væntanlega á annan hátt. Þess vegna þurfa fleiri að koma saman til að ná heildarlausnum.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 14.10.2010 kl. 22:43

11 identicon

Takk fyrir að berjast í þessu. Ég er efins um stjórnvöld, þau eru algjörlega getulaus og virðast fyrst og fremst hugsa um afskriftir handa auðmönnum.

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 14.10.2010 kl. 22:54

12 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Svo ég útskýri "fleiri" hér að ofan, þá þurfa fyrirtæki eins og Orkuveitan, tryggingarfélögin ofl. að taka á sig niðurfellingu skulda líka. Þarna ætti Umboðsmaður skuldara að leika stórt hlutverk. Eins að semja við LÍN sem er orðin mörgum fjötur með því að gjaldfella heildarlán einstaklinga upp á jafnvel tugi milljóna vegna greiðsluerfiðleika þeirra á undanförnum tveim árum. Hér þarf að grípa strax í taumana.

Semsé - það er í mörg horn að líta og margir sem hafa með þau mál að gera að rukka inn gjaldfallnar skuldir einstaklinga (og fyrirtækja). Það þarf að skoða alla króka og kima í þessari heildarmynd og von mín er sú að t.d. umboðsmaður skuldara hafi heimildir til að fara í þessi horn.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 14.10.2010 kl. 22:57

13 identicon

Lísa, málið snýst um að minnka skaðann. Með almennri leiðréttingu þá gerist síst þörf á úrlausnum á öðrum vettvangi (OR, tryggingafélög, LÍN o.s.frv.). Málið er að ef engin leiðrétting á sér stað þá munu afskriftir þurfa að eiga sér stað í meira mæli á öllum þessum stöðum vegna þeirra hópa sem geta ekk greitt OG þann hóp sem hefur misst GREIÐSLUVILJANN.

Kostnaðurinn á heildina litið er meiri og víðtækari og að lokum skilar reikningnum til almennings.

DD (IP-tala skráð) 14.10.2010 kl. 23:15

14 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

DD - þar sem þú varst að tala um verst setta hópinn og tiltókst sjálfur öll þau vanskil sem bentu á hverjir eru verst settir, þá langar mig að benda þér á eitt. Það er ekkert eitt úrræði sem virkar í þeim vanda sem steðjar að heimilum. Þeir verst settu geta hvorki greitt af lánum (leiðréttum eða ei) fyrr en atvinnumarkaðurinn tekur við sér. Leiðrétting lána þeirra mun ekki létta þeim byrgðina vegna annarra vanskila í kjölfar t.d. atvinnumissis. Það mun vissulega minnka skaðann. En það eru yfir 40 þús atvinnulausir síðast þegar ég vissi og þar er ekki dulið atvinnuleysi í tölunum. Almenn leiðrétting dugar hér ekki til, það er þörf á frekari úrlausnum.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 15.10.2010 kl. 09:43

15 identicon

Lísa, þú hlýtur að átta þig á því að ef leiðrétting á lánum dugar ekki viðkomandi þá hefur hann að líkindum farið offörum í fjárfestingum sínum og ætti kanski skilið að fara á hliðina.

Sá hópur þarf að lifa í raunverleikanumo og taka ábyrgð á sínum ákvörðunartökum. Ég held það yrði heldur aldrei almenn sátt um það að bjarga fólki sem var óábyrgt í sínum fjármálum.

HH hafa heldur aldrei talað um að bjarga hverjum einasta manni.
 

DD (IP-tala skráð) 15.10.2010 kl. 10:31

16 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Er óábyrgt að missa atvinnuna vegna bankahrunsins? Hafa staðið í skilum alla sína hunds og kattartíð þar til þá?

Ég held að þú vitir ekkert um hvað þú ert að tala DD. Bara einn af þessum með stóru orðin en ekkert á bakvið þau.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 15.10.2010 kl. 17:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband