9.10.2010 | 14:45
Áhrif tillagna HH á lífeyrissjóðina
Á Eyjunni er færsla þar sem verið er að fjalla um tillögur HH (sjá HH: Gríðarleg eignaupptaka ef húsnæðisskuldir verða ekki færðar niður). Ein athugasemd er frá Nafnlausum Kjósanda og er hún eftirfarandi:
Af aurum verða menn apar, auðsáhrif fasteignabólunar gerðu það að verkum að stórir hópar héldu að þeir væru orðnir "ríkir" og slógu lán út á þennan "auð".
Raunveruleiki er að það var engin innistæða fyrir þessum "auð", það langversta er að ungt fólk var vélað af bönkum til að taka gríðarleg lán og það eru þessi hópur sem á að hjálpa og sú skerðing á að bitna eingöngu á bönkunum, þeir hinir sem áttu eignir fyrir fasteignabónuna er engin vorkunn, margir blinduðust af innistæðulausu "auðsáhrifunum" og tóku út þenna "auð" sem þeir vilja nú að Lífeyrissjóðir og skattgreiðendur beri ábyrgð á.
Um 200.000.000.000Kr af eignum lífeyrissjóðanna eru til íbúðarlána og vilja HH að 36.000.000.000Kr verði teknar af lífeyrisþegar.
Um 750.000.000.000Kr eru í útlánum hjá Íbúðalánasjóð og vilja HH að 135.000.000.000Kr verði sendar á skattgreiðendur til að borga.
Ef um 171.000.000.000Kr lenda á lífeyrisþegum og skattgreiðendum þá þíðir að aðeins 49.000.000.000Kr lenda á bönkunum og þeirra "afslætti" við tilflutning úr gömlu í nýja banka.
Niðurstaðan er sú að HH vilja að 18% snilldar leikur þeirra lendir 77% á skattgreiðendum og lífeyrisþegum.
Það þarf ekki að ræða nánar þessar tillögur HH svo vitlausar eru þær!
Mér finnst alveg með ólíkindum hvað er hægt að snúa út úr því sem sagt er eða verið með stór orð sem byggja á vanþekkingu. Vil ég því skýra hér út hvernig Hagsmunasamtök heimilanna sjá fyrir sér að tillögur samtakanna hafi áhrif á lífeyrissjóðina.
Lífeyrissjóðirnir eiga eitthvað um 1.835 milljarða. Af þessari tölu eru um 60% um þessar mundir í verðtryggðum útlánum eða um 1.100 milljarðar. Sjóðfélaga lán standa í um 175 milljörðum, þau eru ekki öll húsnæðislán, þó þau séu öll með veði í húsnæði. 15,5% af 175 gerir 27 milljarðar. Lán Íbúðalánasjóðs sem falla undir tillögur HH nema um 450 - 500 milljörðum, 15,5% af þeim tölum eru á bilinu 70 - 80 milljarðar. Tillögur HH gera ráð fyrir að eigendur Íbúðabréfa, húsnæðisbréfa og húsbréfa taki á sig þessa lækkun, ekki ÍLS eða skattgreiðendur. Eigendur þessara bréfa eru lífeyrissjóðir (um 65%), bankar og önnur fjármálafyrirtæki og fjárfestar. Hlutur lífeyrissjóðanna af þessari tölu er því á bilinu 45 - 50 milljarðar. Alls gera því tillögurnar ráð fyrir að á lífeyrissjóðunum lendi 72 - 77 milljarðar, en þetta samsvarar um 4% af eignarsafni lífeyrissjóðanna. Þá er það sem kemur á móti hjá lífeyrissjóðunum:
1) Lífeyrissjóðirnir keyptu lánasöfn heimilanna sem veðsett höfðu verið í nokkrum seðlabönkum á allt að 50% afslætti, en eru að rukka þau upp í topp. Þarna eru þeir búnir að búa sér til hagnað upp á tugi, ef ekki á annan hundarð milljarða króna. Það er, að mati HH, ótrúlegt siðleysi hjá sjóðunum að ætla halda þessum hagnaði hjá sér og hunsa stöðu skuldara.
2) HH leggur til að breytingar á réttindaávinningi taki tillit til breytingar á eignasafni þeirra og skuldbindingum til lengri tíma. Nú er þessi tími 2 ár, en samtökin leggja til að hann verði lengdur í 10 ár. Mun gefa sjóðunum lengri tíma til að jafna sig á áfallinu, sem hrunið olli, án þess að skerða lífeyrisgreiðslur. Þetta mun líka þýða að þróun til hækkunar mun ekki verða eins skörp og hún var á árunum fyrir hrun.
3) HH leggja til endurskoðun á raunávöxtunarmarkmiðum/-kröfum sem gerðar eru til lífeyrissjóðanna.
4) HH leggja til að skerðing sem verður ekki hægt að komast hjá, verði framkvæmd þannig, að hún komi harðast niður á þeim sem hafa mesta möguleika á að vinna hana upp á þeim tíma sem eftir er af starfsævinni og bitni ekkert á þeim, sem eiga enga möguleika á að vinna skerðinguna upp. Þetta þýðir að lífeyrisþegar verða ekki fyrir neinni skerðingu. Allt tal um að þetta bitni á ömmu gömlu er því kjaftæði. Hafi lífeyrissjóðirnir ekki heimild til að framkvæma hlutina svona, þá verður einfaldlega að breyta þeim lögum og samþykktum sem koma í veg fyrir það.
5) Samtökin leggja til að hluti vaxtabóta sem annað hvort ætti að endurgreiða í ríkissjóð eða hefði fallið til væri ekki farið í þá aðgerð sem samtökin leggja til, renni til annars vegar lífeyrissjóðanna og hins vegar nokkurra smærri sparisjóða sem hafa ekki leitað aðstoðar ríkisins, en gætu komist í rekstrarvandræði veiti þeir þann afslátt sem hér um ræðir. Einnig leggja samtökin til að hluti verðbóta á innstæður yfir 50 m.kr. fyrir tíma tímabilið frá 1.1.2008 til 6.10.2008 verið endurgreiddur og notaður í þessum tilgangi.
6) Loks má ekki gleyma því að innstæður lífeyrissjóðanna í bankakerfinu voru tryggðar upp í topp með setningu neyðarlaganna, þrátt fyrir að þær hafi bara verið tryggðar upp að 3 m.kr. fram að því. Þetta var að hluta gert á kostnað skattgreiðenda og að öðru leiti á kostnað lántaka.
Nú hver er hinn kosturinn í stöðunni? Samkvæmt skýrslu AGS, þá eru 63% lána í lánakerfinu það sem þeir kalla "non-performing loans", þ.e. ekki er greitt af þeim. Segja má að lántakar þessara lána séu í greiðsluverkfalli. Ég veit ekki hve stór húsnæðislána eru í þessum hópi. Þetta eru öll lán útlánakerfisins, þ.e. það sem AGS vísar til sem Iceland: Financial Sector. Verið er að innheimta lánasöfn upp á 3.800 milljarðar, en sagt er að bókfært verð þeirra sé um 1.600 milljarðar. Í sjálfu sér kemur þetta ekki beint við verðmæti eignasafna lífeyrissjóðanna, þar sem þetta er utan við þau. En áhrifin eru hins vegar þau að 63% af 3.800 milljörðum eru lán sem ekki er verið að greiða af eða um 2.400 milljarðar. Eftir standa 1.400 milljarðar, sem er þokkalegt hlutfall af 1.600 milljörðum, en þegar AGS skoðar lánin á bókfærðu virði, þá fær sjóðurinn út að 45% eru "non-performing loans". Hátt í helmingur þjóðarinnar og fyrirtækja eru því í greiðsluverkfalli. Þetta leiðir til þess að sífellt meira af íbúðarhúsnæði endar í eigu kröfuhafa. Í árslok 2008 var fasteignamat íbúðarhúsnæðis um 2.800 milljarðar. Markaðsverð var talsvert hærra, en látum liggja á milli hluta hvert það var. 10% lækkun á húsnæðisverði skilar sér því í a.m.k. 280 milljarða rýrnun á verðmæti. Íbúðalánasjóður hefur á sínum bókum útlán upp á 795 milljarða, þar af eru um 150 milljarðar íbúðalán sem sjóðurinn tók yfir eftir hrun á einhverjum afslætti og 250 milljarðar eru lán til sveitarfélaga, framkvæmdaraðila og annarra en einstaklinga vegna lögheimilis. 10% lækkun á húsnæðisverði rýrir því verðmæti veðanna, sem ÍLS hefur um hátt í 80 milljarða. Þessi lækkun hefur verið mun meiri á síðustu mánuðum og 2 árum og meira er í pípunum, nema við náum að snúa þróuninni við. Gefum okkur að þessi lækkun verði 30%. Það gerir því í reynd 30% rýrnun á veðunum að baki þessum 795 milljörðum og getur því fræðilega valdi ÍLS tjóni upp á 240 milljarða, sem annað hvort lendir á skattgreiðendum eða lánadrottnum ÍLS, m.a. lífeyrissjóðunum. HH er að leggja til, að í staðinn fyrir að fara inn í þessa framtíðarsýn, þá taki lánadrottnar ÍLS strax á sig þá lækkun sem lagt er til að ÍLS veiti einstaklingum, sem fengið hafa lán hjá sjóðnum til kaupa á lögheimili. Með því verði hægt að spyrna við fótum varðandi lækkun fasteignaverðs og verja tryggingarnar sem allir lánveitendur eiga fyrir útlánum sínum í þessum málaflokki.
Ég gæti haldið lengi áfram að fjalla um hlutverk lífeyrissjóðanna. Það sem ég vil bara minna á, að á sama tíma og ég er neytandi í þjóðfélaginu, lántaki og skattgreiðandi, þá er ég sjóðfélagi og framtíðar lífeyrisþegi. Sem skattborgari, þá er búið að leggja á mig auknar álögur og ríkissjóður hefur skuldsett sig upp á 1.300 milljarða, sem skattgreiðendur þessa lands þurfa að greiða á næstu árum. Sem neytandi, þá borga ég fyrir sífellt hærra vöruverð. Sem lántaki, þá á ég að bera afleiðingar þess að nokkrir kjánar héldu að þeir væru sniðugri en allir aðrir businessmenn í heiminum. Sem framtíðarlífeyrisþegi, þá hafa misvitrar ákvarðanir stjórnenda lífeyrissjóðanna mögulega skert framtíðarlífeyri minn um 10 - 15%. Sem sjóðfélagi, er mér talið trú um af lífeyrissjóðunum, að leggi ég einn fugl inn í nægtabúr lífeyrissjóðanna, þá ætli þeir að láta mig hafa 0,12 eða 0,18 fugla á ári, þegar ég kemst á lífeyristökualdur. Með fullri virðingu fyrir lífeyrissjóðunum, þá vil ég frekar að þeir hjálpi mér núna að halda húsinu mínu, þannig að mér dugi 0,115 eða 0,173 fuglar á ári, þegar þar að kemur. Fyrir utan það, að vit vitum ekkert hverjum við verðum búin að klúðra til viðbótar þegar þar að kemur.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.11.): 3
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 32
- Frá upphafi: 1679976
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 31
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Marínó, af hverju svararðu ekki gagnrýninni sem snýr að fasteignabólunni? Þeir sem keyptu fasteignir þegar bólan var að ná hámarki og við toppinn, þ.e. á árunum 2007-2008, og áttu lítið eigið fé, þeir eiga enga kröfu á að þeim séu veittar tugmilljóna afskriftir. Þeir máttu vita að um bólu var að ræða. Þessar fjárfestingar flokkast bara undir heimsku og græðgi og sýndarmennsku. Og þótt höfuðstóll verði leiðréttur þá er fasteignamat langt yfir markaðsvirði þessara eigna eins og það væri ef hér væru alvöru lifandi markaður og verð tæki mið af kaupmættinum. Opinbert markaðsverð fasteigna er sennilega 30% of hátt. Þess vegna spyr ég, afhverju að loka fólk inni í ofveðsettum eignum sem tekur það alla ævi að eignast eitthvað í? Er það til að verja hagsmuni stórra fasteignafélaga að ekki má gera róttækar aðgerðir til lækkunar á leiguverði? Eða hvernig stendur á að Ríki og sveitarfélög og Námsmannasamtök fara fremst í leigu okrinu? Lausnin á skuldavandanum felst ekki í eignatilfærslum, heldur uppstokkun á kerfinu og það hlýtur að kalla á fjölbreyttari búsetuúrræði.
Heimilin í HH eru greinilega ekki leiguíbúðir.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 9.10.2010 kl. 15:45
Jóhannes, það erueinhverjir dagar síðan að ég svaraði þessum spurningum þínum, enda ertu ekki búinn að spyrja nema þrisvar.
Marinó G. Njálsson, 9.10.2010 kl. 16:23
Þakka þér fyrir vandaða úttekt Marínó. Hvað varðar spurningu Jóhannesar þá virðist þarna vera um viðhorf hjá honum að ræða sem erfitt gæti reynst að leiðrétta.
Ef það er skoðun Jóhannesar að ábyrgð hins upplýsta geranda í málinu liggi hjá lántakendum, þá veit ég ekki hvernig hægt er að komast að þeirri niðurstöðu.
Lánveitendur bera mjög mikla ábyrgð gagnvart lántakendum. Það er t.d. ekki almennra lántakenda að taka í taumana þegar að veðhlutfall er orðið allt of hátt.
Of háu húsnæðisverði má meðal annars annars kenna um þáttum sem en eru til staðar og engar blikur eru en á lofti þeim til leiðréttingar.
Sem dæmi er notkun á vísitölu neisluverðs við útreikning á verðbótum einn helsti hvatinn til óeðlilegrar hækkunar á húsnæðismarkaði. Þetta gefur auga leið.
Um leið hefur það ekki verið stefna stjórnvalda fram að þessu að koma upp neinum leigumarkaði. Lántakendum verður ekki heldiur kennt um það.
Á endanum er það hinni sérfróði og upplýsti lánveitandi sem ber höfuðábyrgðina. Almenningi var talið trú um að allt væri í lagi, 90-100% veðhlutfall var afgreitt af stjórnvöldum.
Það er því fullkomnlega rangt að lántekendur getiu sjálfum sér um kennt. Það eru alltaf undantekningar en yfir heilina litið þá hefur þú kolrangt fyrir þér samkvæmt viðskiptareglum í hinum siðmenntaða heimi.
Gunnar Waage, 9.10.2010 kl. 16:44
Það hefur þá farið fram hjá mér Marinó, enda hef ég ekki tekið þátt í þessari umræðu lengi. Ég hafði lengi vissa samúð með þeim málflutningi sem þú hefur haldið fram en núna finnst mér kröfurnar vera útúr kú. Að ætla sér að ná fram leiðréttingum á vísitöluokrinu allt aftur til ársins 2001 gengur ekki upp. Forsendubrestur er eitt en ætla sér að ná fram allsherjar leiðréttingum á öllu vaxta og vísitöluokri áratug aftur í tímann skilar engu.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 9.10.2010 kl. 16:45
Jóhannes, það er hvergi talað um 2001. Viðmiðið er 1.1.2008. Ég veit ekki hvaðan þú hefur hitt.
Marinó G. Njálsson, 9.10.2010 kl. 16:49
Gunnar Waage, þetta sem þú segir, heitir að vera í afneitun. Við því á ég ekkert svar
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 9.10.2010 kl. 16:52
Tek undir það, er ekki alveg að skilja Jóhannes.
Gunnar Waage, 9.10.2010 kl. 16:53
Þakkir fyrir góða og upplýsandi grein. En hvert verður nú framhaldið? Forsætisráðherra segir að stjórnin sé opin fyrir slíkum hugmyndum og nú verði að semja við lífeyrissjóði, banka og aðra hagsmunaaðila. Hvað heldur þú að gerist næst?
Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 9.10.2010 kl. 16:53
Er ég í afneytun?
Færðu þá rök fyrir því.
Gunnar Waage, 9.10.2010 kl. 16:53
En Marínó, þið viljið bæði fá fullar afskriftir og að fólk haldi eignunum. Voru menn ekki að mótmæla svoleiðis vinnubrögðum gagnvart útrásarvíkingunum?
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 9.10.2010 kl. 16:57
Hér er búið að leiðrétta grundvallarmiskilning hjá þér Jóhannes. Farið er fram á leiðréttingu aftur til janúar 2008. Þar skeikaði um 7 ár.
Spurning hvort þú sért ekki bara sáttur núna?Gunnar Waage, 9.10.2010 kl. 17:01
Hrafn, við hjá HH erum í biðstöðu gagnvart ríkisstjórninni. Okkar tími fer í að kynna tillögur okkar fyrir þingflokkunum og síðan öðrum hagsmunaaðilum. Ég hef tekið eftir því að margir eru að tjá sig um eitthvað sem við erum ekki að leggja til eða snúa vísvitandi út úr. Ef við hefðum haft efni á því stjórnarmenn HH (við erum jú öll í sjálfboðavinnu við þessi störf og verðum að afla tekna fyrir útgjödlum heimilanna), þá hefði fylgt tillögum okkar 100 síðna greinargerð, ef ekki lengri, með ítarlegum útreikningum og greiningu á áhrifum, skýringarmyndum o.s.frv. Við erum höfum kíkt á alls konar hluti og velt um öllum hugsanlegum steinum. Greiningarnar sem við hefðum viljað gera krefjast þess líka að hafa aðgang að upplýsingum, en því miður er eins og hernaðarleynd sé yfir ýmsu hjá bæði hinu opinbera og að ég tali nú ekki um bönkunum.
Ég var að lesa viðtalið við Göran Lind, sérfræðing Sveriges Riksbank í bankakreppum, í DV í gær. Hugmyndafræði okkar hjá HH er nákvæmlega sú sama og hann segir að virki best, þ.e. "að taka áfallið inn í reikninginn og afskrifa strax" og hann heldur áfram: "að með því að afskrifa strax væru miklu meiri líkur á því að koma hjólum markaðarins af stað aftur". Þettaer það viðhorf sem við höfum haldið á lofti frá stofnun samtakanna og mörg af okkur héldu á lofti jafnvel áður en neyðarlögin voru sett.
Marinó G. Njálsson, 9.10.2010 kl. 17:39
Jóhannes, við viljum ekki fullar afskriftir. Hvaðan færðu slíka vitleysu? Við viljum að óréttlát hækkun höfuðstóls lánanna sé leiðrétt. ÉG veit ekki hvað þú hefur tíma til að lesa, það sem ég hef ritað, en ég hef bent á (og síðast í pistli í gær) að aðför bankanna og eigenda þeirra að krónunni hafi verið gróf markaðsmisnotkun gerð í þeim eina tilgangi að verða sér út um hagnað. Það sem þeir gerðu var ekkert frábrugðið því, þegar menn hagræða úrlistum í íþróttakappleik og láta alla halda að allt sé í lagi, en koma svo með öfgakennt veðmál á hin hagræddu úrslit á síðustu stundu.
Marinó G. Njálsson, 9.10.2010 kl. 17:44
Þakka samantektina Marinó.
Jóhannes Laxdal, þú ættir að gefa þér tíma til að fletta blogginu hjá Marinó og lesa skrif hanns um þessi mál síðustu tvö ár. Einnig getur þú farið á fréttamiðlana og leitað uppi fréttagreinar um Hagsmunasamtök heimilanna yfir sama tímabil og hvaða tillögur þeir hafa komið með. Þegar þú hefur lokið þessu ertu mun færari um að tjá þig um þessi mál.
Gunnar Heiðarsson, 9.10.2010 kl. 19:43
Sæll Marinó,
Í sambandi við það sem Jóhannes sagði "Þeir máttu vita að um bólu var að ræða." þá hefur mér skilist á þeim hagfræðingum og efnahagsspekúlöntum sem ég hef sé ræða þessi mál, m.a. Alan Greenspan, að eðli svona bóla (e. bubbles) er að þær eru ekki eftirtektarverðar fyrr en þær springa. Menn taka ekki eftir þeim fyrr en allt er komið í óefni. Þess vegna springa efnahagslegar bólur alltaf. Ég held því að það sé því ekki raunhæft að halda því fram að lántakendur (á Íslandi eða annarsstaðar) hefðu mátt vita að um bólu var að ræða. Hér í USA var ekki farið að tala um "housing bubble" svo ég muni eftir fyrr en síðla árs 2007 eða snemma árs 2008. Þar sem við höfðum ákveðið að flytja 2007 þá vorum við með nefið talsvert niðri í þessu og náðum að selja með hámarksverði seinnipart September 2008. Þegar við komum hingað til Port Angeles og fengum internet samband var Ísland komið á hausinn!
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 9.10.2010 kl. 22:09
Sæll Arnór,
Alltaf gaman að fá innlegg frá þér, þar sem þú kemur með þetta gestsauga inn í umræðuna.
Þú settir inn um daginn athugasemd þar sem þú talaðir um líftíma krafna og meðhöndlun þeirra. Ég sendi þetta áfram á Ögmund, en fróðlegt væri að fræðast betur um þetta. Ég held nefnilega, að tími sé kominn til að koma í veg fyrir að almenn lausafjárkrafa verði að fjárnámskröfu í fasteign. Hvernig stendur t.d. á því að skuld við verslun getur orðið til þess að húsnæði er boðið upp? Lausafjárkrafa á ekki að geta leitt til nauðungarsölu. Svo einfalt er það. Það eiga að vera takmarkanir á því hve lág krafa getur hljóðað upp á, sem leiðir til nauðungarsölu á húseign. Sé t.d. skattskuld upp á 50.000 kr., þá á skatturinn við fjárnám, einfaldlega að geta tekið lausafé (t.d. sjónvarp) sem nemur kröfunni. Með þessu mun nauðungarsölum örugglega fækka mikið. Réttarstaða kröfuhafa er alveg ótrúlega sterk í íslenskum rétti svo jaðrar við öfga.
Marinó G. Njálsson, 10.10.2010 kl. 01:30
Sæll Marinó
Gott að fá enn einu sinnu útskýringar og útreikninga. Ekki síst vegna áhrifanna á lífeyrissjóðina. Þó lífeyrissjóðakerfið okkar sé af mörgum talið mjög gott, þá er það ekki ósnertanlegt frekar en önnur mannanna verk. Mér sýnist að um mjög varfærnar breytingar sé að ræða sem geri þó mikið gagn og geti verið til góðs fyrir alla aðila þegar til lengri tíma er litið.
Ég fagna því mjög að stjórnvöld séu nú loks að vakna til vitundar um hve brýn nauðsyn er á því að leiðrétta þann hrikalega forsendubrest sem heimilin í landinu hafa orðið fyrir.
Það er ekki nóg að mótmæla, það verður að benda á raunverulegar lausnir eins og HH er að gera. Tunnur á Austurvelli eru svo ágætar til að vekja athygli á lausnunum
Hólmfríður Bjarnadóttir, 10.10.2010 kl. 03:16
Sæll Marinó,
Alveg sammála hvað varðar kröfur og rétt kröfuhafa, sem nær hreinlega út yfir gröf og dauða á Íslandi! Það þarf líka að vera einhverskonar þak á því hvað er hægt að leggja á þessar kröfur af innheimtuaðilum. Mig rekur minni í eitthvað sem ég missti í innheimtu þar sem höfuðstóll var rétt um eða innan við 10 þúsund. Krafan frá lögfræðistofunni hljóðaði upp á eitthvað um 45 þúsund með áföllnum vöxtum, dráttarvöxtum, lögfræðikostnaði, pappírskostnaði, póstkostnaði og hver veit hvað. Það bara nær ekki nokkurri einustu átt að krafa geti fjór- eða fimmfaldast við það eitt að vera send í innheimtu! Rakst á þessa síðu á vef sýslumanna um fjárnám: http://www.syslumenn.is/allir/fullnustugerdir/adfarargerdir Þarna kemur vel fram hversu gífurlega sterkur réttur kröfuhafa er. Hjó sérstaklega eftir þessu:
"Ef gerðarþoli mætir ekki í fyrirtöku vegna fjárnáms?
Mæti gerðarþoli ekki við fyrirtöku fjárnámsbeiðnar þrátt fyrir boðun er samt sem áður unnt að gera fjárnám í eignum hans ef einhverjar eru. Eigi gerðarþoli ekki eignir eru tveir möguleikar. Annars vegar að gerðarþoli sé boðaður aftur til sýslumanns með aðstoð lögreglu. Lögreglu er skylt að veita sýslumanni atbeina sinn við að boða gerðarþola til gerðarinnar eða færa hann til hennar ef boðun er ekki sinnt skv. 3. mgr. 24. gr. laga 90/1989. Hins vegar getur sýslumaður farið ásamt gerðarbeiðanda eða lögmanni hans og reynt að hitta gerðarþola fyrir á heimili hans eða annars staðar sem líklegt er að hann hittist fyrir."
Þetta er hreinlega ekki eðlilegur framgangur og að mínu mati bara nær engri einustu átt á 21. öld! NB að fjárnámskröfur geta verið fáránlega lágar! Man að pabbi gamli var boðaður vegna fjárnáms einhverntíma á níunda áratugnum venga 21 krónu skuldar við ríkistútvarpið;) Kannski var það eitthvað meira, man það ekki, en fáránleikinn var algjör!
Ég rakst á þennan link þegar ég var að skoða "Collection Agencies" á google: http://www.ftc.gov/bcp/edu/pubs/consumer/credit/cre18.shtm
(google leit: http://www.google.com/search?hl=en&source=hp&biw=1250&bih=535&q=collection+agencies&aq=1&aqi=g10&aql=&oq=collection&gs_rfai=CTUTVXnOxTL6SHqGYoATt9cDJDQAAAKoEBU_QMMfP)
Hérna er það svo að þessar "Collection Agencies" fyrirtæki taka að sér innheimtu krafna gegn gjaldi - föstu eða prósentu. Þessar stofnanir eru ekki endilega lögfræðistofur og lúta nokkuð ströngum reglum (sjá link að ofan). Ef þær geta ekki innheimt þá geta þær, eða skuldareigandi, ákveðið að fara með skuldina fyrir dóm til að reyna að fá skuldina greidda. Það er svo niðurstaða dómsins sem sker úr um hvað framhaldið er. Hérna er linkur á Wikipedia um lög um "Fair Dept Collection Practices": http://en.wikipedia.org/wiki/Fair_Debt_Collection_Practices_Act
Hér er linkur á "Collection Agencies Services": http://www.collectionagencyservices.net/ og FAQ á http://www.cardreport.com/credit-problems/collection-faq.html
Munurinn held ég að felist aðallega í því hér þarf DÓM til þess að hægt sé að ganga að eigum. Þ.e. skuldareigandi (sem getur verið upphaflegur skuldareigandi eða innheimtuaðili, en þeir kaupa stundum skuldir af upprunalega skuldareigandanum) þarf að hafa höfðað innheimtumál fyrir dómstóli og UNNIÐ það mál áður en hægt er að ganga að einu eða neinu hjá skuldaranum. Jafnvel eftir það, þá eru undantekningar á því hvað er hægt að ganga að, sem ég held að komi fram FTC síðunni að ofan.
Það er svolítið skrítið að hér í USA þar sem manni finnst einhvernvegin að neytendaréttur ætti að vera lægra settur en á Íslandi, þá virðist sem að það sé alveg þveröfugt!
Hér erum við að tala eingöngu um skuldir sem verða til vegna kaupa. Skuldir til opinberra aðila hér geta sætt ströngum viðurlögum og refsingu. Ég veit t.d. að skuldir vegna barnameðlaga í Texas, ef þær eru í vanskilum í 6 mánuði eða meira, eða ekki er samið með einhverjum hætti á 6 mánaða fresti, þá á viðkomandi yfir höfði sér fangelsisdóm, sem er á alríkissviði svo það hjálpar ekki viðkomandi að flytjast útfyrir Texas. Það sem meira er að í Texas er fangelsisdómur fyrir skuld á meðlagi talið til hegningarlagabrota (e. felony - held það geti þýtt hengingarlög, ekki alveg með þessar skilgreiningar á hreinu enda ekki lögfræðimenntaður;) og getur því haft áhrif á viðkomandi alla æfi, t.d. með tilliti til vinnu (þeir sem hafa dóma fyrir hegningarlagabrot geta t.d. ekki sótt um störf sem kennarar) Bara það að lenda í vanskilum með meðlög í Texas þýðir að þeir hirða ökuskírteinið af viðkomandi! Skattheimtan (IRS) er heldur ekki þekkt fyrir að hafa nokkurn einasta húmor gagnvart skuldurum;)
Þú fyrirgefur að þetta varð í lengra lagi hjá mér! Mér finnst það afskaplega sérkennilegt að hér þar sem "peningar ráða öllu", þá virðist lagalega vera meiri virðing fyrir skuldurum hér heldur en á Íslandi!
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 10.10.2010 kl. 08:56
Sæll Marinó..er ekki besta tillagan að þetta skiptist jafnt á þrjá aðila..það er ríkissjóð..Lífeyrissjóðina og bankanna..segjum svo að verið sé að tala um 120 milljarða..þá slkiptist þetta í 40 milljarða á þessa þrjá..er það ekki sanngjarnasta leiðin??
Ægir Óskar Hallgrímsson, 10.10.2010 kl. 10:34
Arnór, takk fyrir mjög gott og ítarlegt svar. Ég áframsendi þetta á Ögmund og Einar Árnason, aðstoðarmann hans.
Ægir, sanngjarnast væri að föllnu bankarnir þrír borguðu þetta allt og sérstaklega Kaupþing. Ég held raunar að lífeyrissjóðirnir ættu að fara í skaðabótamál við Kaupþing, Glitni og Landsbanka Íslands vegna þeirra blekkinga sem þeir voru beittir síðustu árin fyrir hrun.
Marinó G. Njálsson, 10.10.2010 kl. 12:57
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 9.10.2010 kl. 15:45
---------------------
Þetta kallast eftirá speki - eins og - Arnór Baldvinsson, 9.10.2010 kl. 22:09 - bendir á sbr. dæmigerða mannlega hegðun, þá er markaðurinn oftast nær blindur gagnvart bólum.
Þess vegna kemur fram þessi óskynsama hegðun að fólk er að fjárfesta alveg upp á topp bólu - síðan að fá það beint í andlitið.
Ef til vill er þetta heimska, en þá er þetta hin dæmigerða mennlega heimska.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 10.10.2010 kl. 13:44
"Tillögur HH gera ráð fyrir að eigendur Íbúðabréfa, húsnæðisbréfa og húsbréfa taki á sig þessa lækkun, ekki ÍLS eða skattgreiðendur"
Getur þú útskýrt hvernig lækkun á eignum eigenda íbúðarbréfa stenst eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar? Hvaða bætur eiga fjárfestar að fá og lenda þær ekki á skattgreiðendum? Er tryggt að þessi aðferð hafi engin áhrif á lánstraust Íslands erlendis þannig að ekki verði vaxtahækkun á erlendum lánum ríkissjóðs, sem lendir á skattgreiðendum? Er einnig tryggt að þessi aðgerð hafi engin áhrif á fjármögnunargetur og kostnað fyrir Íbúðarlánasjóð í framtíðinni, þannig að ekkert muni falla á næstu kynslóð?
Ef ég skil þetta rétt, eiga fjárfestar að taka á sig skellinn og halda áframa að dæla inn peningum til að fjármagna Íbúðarlánasjóð á sömu kjörum og fyrr ? Eða leggið þið til að Íbúðarlánasjóður verði lagður niður eða skipti um kennitölu?
Ég átta mig ekki alveg á, hvernig þetta dæmi á að ganga upp fyrir næstu kynslóð?
Andri Geir Arinbjarnarson, 10.10.2010 kl. 13:45
Marinó G. Njálsson, 9.10.2010 kl. 17:39
--------------------------
Takk fyrir góða yfirlitsgrein.
En, hvernig í ósköpunum er hægt að halda bankakerfinu gangandi með "non performing loans" - "book value" 45% en sem eru rukkuð skv.virði "63%".
Mér þætti vænt um, að þú myndir koma með einhverjar hugsanir í þá átt, hvernig hægt er að vinna bankakerfið úr þeim vanda.
Ég hef sagt þér frá hvað sérfræðingur í bankamálum á fundi vikunni undan þeirri síðustu sagði okkur framsóknarmönnum, þ.e. hans niðurstaða væri - að nauðsynlegt sé að endurreisa bankakerfið í annað sinn.
Af því að þú minnist á Göran Lind þá held ég að "non performing loans" sé hærra hlutfall á Íslandi í dag, heilt yfir litið bankakerfið, en var í Svíþjóð á 9. árat. er þar var gengið til geagngerrar endurskipulagninra þeirra bankakerfis.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 10.10.2010 kl. 13:49
Andri, það er allt í lagi að lesa það sem hefur verið skrifað. Svörin liggja þar. Það heitir að ná markmiðum fram með samningum.
Ertu að hafa áhyggjur af lánstrausti Íslands í þessu samhengi? ÍLS er á barmi gjaldþrots. Ætti það ekki að vera meira áhyggjuefni, en hvort eigendur 35% Íbúðabréfa, Húsbréfa og Húsnæðisbréfa, sem eru í litlu mæli erlendir aðilar, en að mestu leiti íslenskir fagfjárfestar, m.a. bankarnir þrír, þurfi að taka á sig 15,5% skerðingu á verðbótum. Mér finnst þetta öfugsnúnar áhyggjur, ef ég á að segja eins og er.
Ekki leggjum við til að ÍLS skipti um kennitölu, en það er svo sem líka leið sem víða er notuð. Það getur vel verið að einhverjir fjárfestar hugsi sig tvisvar um áður en þeir kaupi ný Íbúðabréf, en þeir geta þá bara keypt skuldabréf bankanna í staðinn. Ef ég man rétt var tapið á þeim langt í 100% og þeir skiptu líka um kennitölu!
Mér finnst virðingarvert að hafa áhyggjur af fagfjárfestum, en er ekki meira um vert að hafa áhyggjur af heimilum landsins.
Marinó G. Njálsson, 10.10.2010 kl. 13:55
Marinó,
Eitt til. Hvað með fjárfestingarsjóði sem bankarnir og aðrir eru að auglýsa á fullu og margir sparifjáreigendur hafa sett sinn sparnað í. Þessir sjóðir eru að mestu fjármagnaðir í ríkistryggðum bréfum þ.a.m. bréfum Íbúðarlánasjóðs.
Fara þessir sjóðir ekki sömu leið og gömlu peningamarkaðssjóðir gömlu bankanna? Er ekki rökrétt að selja þessi bréf strax áður en skellurinn kemur, enda virðist það næsta pottþétt að HH fái sitt fram hjá Jóhönnu?
Það er ekki bæði haldið og sleppt!
Andri Geir Arinbjarnarson, 10.10.2010 kl. 13:56
Einar, það er einmitt grein um þetta á vefsíðu Hagsmunasamtaka heimilanna. Ólafur Garðarsson tók hana saman.
Andri, ég hef fulla trú á því að allir þessir sjóðir munu vinna upp tapaða ávöxtun á skömmum tíma. En fyrst þetta er svona afleit hugmynd, hvernig væri nú í staðinn fyrir að blása allt út af borðinu að hjálpa okkur við að koma með lausn sem virkar. Okkar tillögur eru tillögur og þær eru ekki meitlaðar í stein. Finnum lausn í sameiningu í staðinn fyrir að vera bara fúll á móti.
Marinó G. Njálsson, 10.10.2010 kl. 14:00
Andri Geir Arinbjarnarson, 10.10.2010 kl. 13:45
---------------------------
Andri - lykilatriði fyrir framtíðar lánstraust Íslands, er endurreisn hagvaxtar.
Þetta allt saman togar landið niður og minnkar mjög - mjög mikið möguleikan til hagvaxtar.
Ef létt er undan fyrirtækjum og almenningi, þá getur það aukið hagvaxtargetu ef til vill frá 0,5% upp í 1%.
Ef ekkert verður að gert, held ég að stefni í að hagvöxtur næsta árs verði einungis milli 0-0,5%.
Ég er því að tala um að lifta honum í 1% - 1,5%.
Það virkar ekki mikið - en þetta umfram 0,5-1% mun telja á hverju ári þaðan í frá og flýta fyrir hagkerfislegri endurreisn, og þar með bæta skuldastöðu og lánstraust landsins.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 10.10.2010 kl. 14:01
Marinó,
Þið ætlið sem sagt að knýja fram samninga við fjárfesta á þeim grundvelli að Íbúðarlánasjóður sé í raun gjaldþrota og að ríkið komi honum ekki til bjargar. Þessi leið mun hafa áhrif á lánstraust Íslands og samstarfið við AGS. Þetta mun einnig tefja fyrir að gjaldeyrishöftin verði aflétt. Þannig að það er ekki öruggt að halda því fram að þetta hafi engin áhrif á skattgreiðendur eða lántakendur í framtíðinni.
Ég er fyrst og fremst að hafa áhyggur af næstu kynslóð og hvernig hún ætlar að koma þaki yfir sig, sú kynslóð á engan þátt í hruninu ólíkt foreldrum þeirra, sem ég hef minni samúð með.
Andri Geir Arinbjarnarson, 10.10.2010 kl. 14:07
Allt í lagi, en áttu hlekk á hana, - þegar ég nota leit á síðunni, kemur margt upp sem inniheldur hans nafn, en ég er ekki alveg klár á undir hvaða lið, þið vistið slíkar greinar.
KV.
Einar Björn Bjarnason, 10.10.2010 kl. 14:08
Andri Geir Arinbjarnarson, 10.10.2010 kl. 14:07
--------------------------
Andi - það er ekki hægt annað en að tala á því, að okkar helstu fjármálastofnanir eru galdÞrota - þó þær fái að starfa þrátt fyrir það.
Meðan ekki er tekið á þeim vanda, hleðst hann upp - og mun eytra allt hagkerfið og möguleika þess til framtíðarvaxtar.
Það skiptir meira máli - þ.e. aðalfókusinn verður að vera á að endurreisa getu til vaxtar.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 10.10.2010 kl. 14:10
Marinó,
Kaldhæðni örlaganna er að HH hefur sett upp fullkomið spekúlanta tækifæri fyrir fjársterka aðila.
Seljið bréf Íbúðarlánasjóðs núna og kaupið þau til baka eftir aðgerðir á afslætti áður en þeir vinna upp tapið.
Andri Geir Arinbjarnarson, 10.10.2010 kl. 14:12
Einar,
Ég er ekki ósammála að staðan er erfið. Ég er einfaldlega að benda á aðrar hliðar á sama máli. Það er nefnilega engin töfralausn til.
Fyrir hinn almenna sparifjáreigenda, er ansi margt sem bendir til að best sé að selja öll bréf núna og geyma sparnað í seðlum í bankahólfi þar til staðan skýrist.
Andri Geir Arinbjarnarson, 10.10.2010 kl. 14:16
Andri Geir Arinbjarnarson, 10.10.2010 kl. 14:16
------------------
Þ.e. alveg rétt - einmitt þess vegna má alls ekki losa um gjaldeyrishöft á næsta ári, eins og Seðlabankinn var að íhuga hef ég heyrt. En, eins og aðstæður eru, myndu þá allir sem eiga hreyfanlegt/færanlegt fé fara með það úr landi - og krónan myndi sökkva eins og steinn.
Við tæki þá ástand sem á hagfræðimáli kallast "Stagflation":
En, eins og Már sagði um daginn á fundi, þá getur féð sem bankinn á - á gjaldeyristeikningum dugað til 2015.
Þ.e. sá tími sem við höfum til að snúa málum við - en ef það tekst ekki þá er það einnig árið sem óhjákvæmilega Ísland verður greiðsluþrota.
-----------------
En gjaldeyrishöfin má ekki afnema nema að fyrst sé búið að búa til ástæðu fyrir fjármagnið að vera - þ.e. hagstæðari en nú er útlit fyrir væntingar um framtíð.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 10.10.2010 kl. 14:39
Andri Geir, það er gott að hafa áhyggjur af næstu kynslóð. Hennar möguleikar voru rústaðir af stjórnendum og eigendum bankanna árunum fyrir hrun. Þau fjöldagjaldþrot og nauðungarsölur sem eru framundan, eru þegar búin að rústa möguleika næstu kynslóðar. Okkar tillögur eru einmitt til þess gerðar að endurvinna traust milli lánveitenda og lántaka. Í dag treystir enginn bönkunum. Enginn. Eldra fók er að taka peningana sína út í stórum stíl og setja undir kodda eða í öryggishólf. Fólk þorir ekki að taka lán hjá þeim. Kynntu þér tillögur okkar í þaula og þú munt komast að því að við erum einmitt að reyna að byggja hér upp nýtt lánaumhverfi og koma á sátt.
Marinó G. Njálsson, 10.10.2010 kl. 15:38
Andri Geir, ég hef ekki séð eina einustu tillögu frá þér í þessu máli, nema að fólk eigi að fara í gjaldþrot. Komdu með tillögu og sjáum hvort hægt sé að nota hana. Það er alveg ótrúlega ódýrt að gagnrýna hugmyndir annarra og þora svo ekki að koma með tillögu sjálfur. Nóg skrifar þú á blogginu þínu.
Marinó G. Njálsson, 10.10.2010 kl. 15:40
Marinó,
Hvað varð um allar þær aðgerðir sem eru útlistaðar af stjórnvöldum í skjölum til AGS? Það er ekki hægt að bjarga öllum frá gjaldþroti. Gjaldþrot er ákveðin leið og oft eina leiðin fyrir marga. Hins vegar þarf að uppfæra gjaldþrotalögin hér á landi eins og gert hefur verið í nágrannalöndunum.
Nú þegar stjórnvöld hafa tekið upp ykkar tillögur er mjög mikilvægt að halda uppi umræðu og gagnrýni á þær. Það er mín lýðræðisleg skylda að halda upp gagnrýni á stjórnvöld og þeirra aðgerðir hver svo sem er við völd og hversu "góðar" eða "slæmar" þessar aðgerðir eru. Þannig virkar lýðræðið.
Mitt hlutverk er ekki að ganga á band ykkar og þar með missa sjálfstæði mitt til að gagnrýna. Þetta er mikilvægt atriði sem því miður fáir gera sér grein fyrir á Íslandi.
Ég óska ykkur hins vegar alls hins best og get auðvita séð margt gott í ykkar innleggi. Ég hef hins vegar ekki áhyggjur af skuldurum landsins, þeir hafa öfluga talsmenn og umboðsmann, nokkuð sem sjúklingar hafa ekki. Þar hef ég meiri áhyggjur.
Andri Geir Arinbjarnarson, 10.10.2010 kl. 17:18
Marínó - fann loks greinina.
En hún segir ekki mikið og svara því fáum spurningum.
Svo ég verð eiginlega að vinda spurningunni aftur til þín um það hvort þú ert sammála því - að önnur endurskipulagning þurfi sennilega að fara fram.
Ég held að þetta þurfi að gera og sennilega nauðsynleg aðgerð svo hægt sé að framkvæma slíkar lækkanir sem sananrlega eru nauðsynlegar fyrir hagkerfið - þ.e. fólkið og fyrirt.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 10.10.2010 kl. 17:28
Andri Geir Arinbjarnarson, 10.10.2010 kl. 17:18
---------------------
Andri - sú upptalning er mjög merkileg.
Því ég kannast alls ekki við nærri allt þ.s. þar kemur fram - dularfullt.
Hafa stjv. verið að gabba AGS?
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 10.10.2010 kl. 17:30
Gott og vel, Andri Geir, þú hefur þinn rétt til að gagnrýna, en ég hefði kosið að með hefðu fylgt hugmyndir að því hvernig mætti bæta tillögurnar.
Annars hafa aðilar haft samband við okkur hjá HH, fólk sem er á lífeyrisaldri eða við það að fara á lífeyrisaldur og það vill afþakka 4% af lífeyri sínum, ef það gæti orðið til þess að bæta ástandið í þjóðfélaginu.
Ekki dettur okkur í hug að hægt sé að bjarga öllum frá nauðungarsölum eða gjaldþroti, ef hægt er að færa tölurnar niður um 80- 90%, það væri stórsigur.
Ein hlið á tillögum okkar, er að koma hjólum atvinnulífsins af stað aftur. Við sjáum fram á að velta gæti aukist og þar með skatttekjur ríkisins og sveitarfélaga. Um leið og skatttekjurnar aukast verður hægt að verja velferðarkerfið. Þú verður því að líta á, það sem við erum að leggja til, sem tilraun til að verja velferðarkerfið. Ég hef miklar áhyggjur af heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Mér finnst þetta vera röng nálgun hjá Álfheiði Ingadóttur, fyrrverandi heilbrigðisráðherra (því hún er höfundur tillagnanna, ekki Guðbjartur) að fara í þennan grimma niðurskurð á landsbyggðinni. Að færa alla læknisþjónustu inn í tvo kjarna sem eru svo líklega ekki í stakk búnir til að veita hana. En þetta er öllur Ella og við ræðum hana síðar.
Marinó G. Njálsson, 10.10.2010 kl. 17:52
Viðhorf til þeirra sem komast í vanskil eru í heildina tekið, afar neikvæð hér á landi. Það virðist nær engu skipta hvernig ástatt er í þjóðfélaginu, vanskilafólk er álitið annars flokks af megin hluta þjóðarinnar.
Ég þekki þetta vel á eigin skinni, en hef þó sjálf ásamt bónda mínum, borið höfuðið hátt og neitað að láta slíkt buga mig eða gjaldfella mína persónu. Við vorum í hópi þeirra fjölmörgu sem fórum á hausinn á 9. áratugnum þegar verðtryggingin var sett á í óðaverðbólgu og algjör forsendubrestur varð á lánakjörum heimila og fyrirtækja.
Þá voru ekki til nein hagsmunasamtök heimila eða skuldara. Vanskilafólkið var bara óreiðufólk og átti það fyllilega skilið að gengið væri að því af fullri hörku og vel það. Það eru einhver fjöldi leiða í kirkjugörðum landsins frá þessum árum, sem eru tilkomin vegna sjálfsvíga fólks í fjárhagsvanda, vanda sem stjórnvöld höfðu komið á með vanhugsuðum og fruntalegum aðgerðum.
Aðfarir að fólki sem skuldar, geta verið með ólíkindum harðar og miskunnarlausar. Það hefur ekki breyst frá 9. áratugnum. Gjaldtaka innheimtuaðila er svimandi há og ég tek undir Arnóri Baldvinssyni að það er fáránlegt að heimilt sé að hefjast fjárnáms fyrir skuld sem nemur í upphafi nokkrum þúsundköllum.
Það er virkilega þarft verkefni að fara rækilega í gegnum vinnubrögð fjármálastofnana og annarra innheimtuaðila gagnavart einstaklingum, heimilum og minni fyrirtækjum í landinu.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 10.10.2010 kl. 17:58
Andri...liggur það ekki alveg ljóst fyrir að það er alveg sama hvað verður gert..einhver mun tapa...við getum einnig snúið þessu þannig ef lántaki allt í einu myndi bara hætta borga..þá færi bankakerfið eins og leggur sig beint á hausinn..varla vilja þeir það..en með niðurfellingu..þá er kannski von fyrir suma að getað borgað.....og þar af leiðandi fá bankarnir áfram sínar greiðslur.
Menn mega ekki taka því sem vísu að lántaki muni bara taka hverju sem er.
Ægir Óskar Hallgrímsson, 10.10.2010 kl. 21:27
Sæll Marinó og hafðu þökk fyrir frábæra vinnu.
Það hafa margir áhyggjur af lífeyrisþegum og finnst mér rétt að benda á þann hóp sem verður fyrir mestu lífeyrisskerðingunum.
Sá hópur sem verður fyrir mestu skerðingu er líklega ekkert að velta því fyrir sér. Yngstu iðgjalda greiðendur í líferissjóðina verða fyrir mestu skerðingum en þeir sem taka út lífeyri í dag,fyrir minstu en finna mest fyrir því.
Til að breiða yfir fordæmalaust fjármálasukk lífeyrissjóðanna eru farnar eftirfarandi leiðir til að lagfæra bækurnar.
1.Skerðing á áunnum réttindum.
þ.e. skerðing á lífeyri þeirra sem nú taka út til jafns við skerðingar áunna réttinda þeirra sem nú greiða inn.
2.Hækkun lífeyrisaldurs í 67ár.
Bætir tryggingafræðilega stöðu sjóðanna mikið á kostnað allra þeirra sem greiða í kerfið og eiga eftir að fara á lífeyri.
3.Breytingar á réttindaávinnslu lífeyrissjóðanna.
Þ.e. Iðgjaldagreiðendur fá minni réttindi fyrir hverjar greiddar 10.000kr. en áður. Og skerðir réttindi framtíðarréttindi framtíðariðgjalda.
4.Tryggingafræðileg staða sjóðanna er í flestum tilfellum í hæstu leyfilegu neikvæðum mörkum sem þýðir að hluti iðgjalda þeirra sem nú safna fyrir framtíðar lífeyri eru notuð til að greiða lífeyri þeirra sem nú taka út.
5.Lánaverðbætur á fasteignalánum (okkar mikilvægasta lífeyri) hafa hækkað höfuðstól íbúðalána sjóðsfélaga um 30% frá 1/1 2008.
Sem kemur verst niður á ungu fólki sem nú þegar hefur orðið fyrir gríðarlegum skerðingum innan kerfisins.
Spurningin og verður alltaf sú: Hvað kostar að fara ekki í almennar niðurfellingar.
Í starfi mínu í smásöluverslun hef ég séð gríðarlegar breytingar á neyslumynstri. Svo miklar breytingar að ég hef verulegar áhyggjur af framtíð fyrirtækja í smásöluverslun almennt.
Það virðist vera skilningur þeirra sem lítin skilning hafa á slæmri stöðu smærri fyrirtækja, sem eiga að halda uppi atvinnustigi hér á landi, að það verður aldrei gert án þess að fyrirtækin hafi viðskiptavini (virka neyslu). Virkir neytendur í dag eru einstaklingar sem hafa eignast eitthvað á lífsleiðinni eða skulda lítið. Við skulum heldur ekki gleyma því að margir þeir sem gagnrýna lausnir HH, borguðu ekki mikið fyrir fasteignir sínar. Hugmyndir HH eru sanngjarnar kröfur sem geta leitt til þjóðarsáttar og bjartsýni sem er nauðsynlegur hluti af endurreisninni. Lausnir HH eru nauðsýnlegar fyrir fyrirtækin. Lausnir HH eru ekki afskriftir skulda, heldur sanngjörn leiðrétting á algerri lögleysu.
Að lokum:
Marinó varðandi hugsanlega lögsókn lífeyrissjóða á t.d.Kaupþing þá er rétt að benda á að Gunnar Páll sat í stjórn og lánanefnd Kaupþings í umboði 4 af 5 stærstu lífeyrissjóðunum. Sjóðirnir sjálfir komu þar af leiðandi að vafasömum ákvarðanatökum bankanna sem komu landinu hálfa leið á hliðina.
Ragnar Þór Ingólfsson, 11.10.2010 kl. 11:20
Hugmyndir HH um að iðgjaldagreiðendur taki á sig stærsta högg lífeyrissjóðanna vegna leiðréttingar á stökkbreyttum höfuðstól húsnæðislána er að mörgu leiti mjög góð þar sem það gefur iðgjalda greiðendum kost á að eignast lífeyri í formi fasteignar í stað þess að leggja allt undir á misvitrar fjárfestingar og misvitra forstjóra og stjórnir sjóðanna sem hafa söguna svo sannarlega ekki með sér.
Ragnar Þór Ingólfsson, 11.10.2010 kl. 11:30
Sæll og blessaður Marínó.
Dáist að þér fyrir gríðarlega öfluga vinnu . . . . .
. . . þó að skylmingar á blogginu geti verið "útskýrandi" fyrir þá sem lesa þá hvet ég þig til að elta ekki um of ólar við fólk sem hefur allt anna tilgang en "jákvæða rökræðu" . . .
. . . sérkennilegt hversu margir svara ekki kröfunni um viðurkenningu á "forsendubresti" verðtryggingar í gegn um hrunið - með rökum - -eða með gagntillögum . . . og þess vegna virðist ótrúlega erfitt að komast að til að ræða þau efnahagslegu áhrif sem leiðrétting á verðtryggingarþætti lána . . mun hafa.
. . . það eru gríðarlega öflugir áróðursaðilar og vinir kröfuhafanna sem eru í vörn fyrir oftekinn og fyrirfram-ávísaðan hagnað lífeyrissjóðanna af skuldum almennings . . .
Láttu þetta neikvæða lið ekki þreyta þig um of félagi . . .
. . . og stattu þig . . áfram í baráttunni . . .
Benedikt Sigurðarson, 12.10.2010 kl. 20:11
Sammála Benedikt!
Marinó, ekki þreyta þig á að rökræða við menn sem eru greinilega á bandi kröfuhafa. Þeir geta haldið áfram út í það óendanlega að verja hagsmuni þeirra og sennilega þar af leiðandi sjálfs sín. Þeir eru ekki í sjálfboðavinnu, heldur mjög líklega á GÓÐUM LAUNUM við þessa iðju sína!!
Áfram HH!!
Stefanía Arna Marinósdóttir (IP-tala skráð) 13.10.2010 kl. 14:01
Getur þú útskýrt hvernig þessi 220 milljarða tala, sem stöðugt er nefnt sem kostnaður við niðurfellingu er reiknuð. Ég hefði haldið að ef vísitala er leiðrétt þá sé það í lang flestum tilfellum bókhaldslegt atriði að lækka höfuðstól. Sumir kasta þessari tölu fram eins og það þurfi að borga hana út úr Ríkissjóði.
Er þessi tala fengin út með því að uppreikna með tiltekinni verðbólgu lánin til enda. Ef svo er hlýtur að vera með sömu rökum hægt að fullyrða að þeir sem borga lánin hraðar niður séu að færa vandann á á ríkið.
Ég vil endilega fá þetta á hreint því þarna er mikill munur á.
Ólafur Jón (IP-tala skráð) 16.10.2010 kl. 19:49
Ólafur Jón, rétt tala er um 186 milljarðar og fæst með því að taka 15,5% af 1.200 milljörðum. Hugmyndir HH eru nefnilega upp á 15,5% sem fæst með því að 18% hækkun ofan á 100 er 118 og lækkun þeirra tölu aftur ofan í 100 þýðir 15,5% lækkun.
Marinó G. Njálsson, 17.10.2010 kl. 00:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.