Leita í fréttum mbl.is

Svör við misskilningi og útúrsnúningi á Eyjunni

Á Eyjunni er umfjöllun um tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna (sjá HH: Gríðarleg eignaupptaka ef húsnæðisskuldir verða ekki færðar niður).  Nokkurs misskilnings gætir víða í umræðunni og vil ég því koma eftirfarandi á framfæri:

1.  HH leggja til 4% þak á verðbætur afturvirkt til 1.1.2008.  Það þýðir að u.þ.b. 18% af ofteknum verðbótum verða bakfærðar.  Þegar maður bakfærir 18 stig af 118 þá gerir það 15,5% lækkun.

2.  Ekki er gert ráð fyrir að neitt falli á ÍLS.

3.  Vilhjálmur Bjarnason fer með alls konar vitleysur í viðtalinu í Sjónvarpinu í kvöld.  Þeim verður svarað á viðeigandi vettvangi við tækifæri, vonandi á morgun,

4.  Hækkun lána kom til vegna svika og lögbrota bankanna.  það er því þeirra að bera þann hluta leiðréttinganna, sem kemur á lán hjá bönkunum.  Hafi þeir ekki efni á því, þá verða þeir bara að snúa sér til gömlu kennitölunnar sinnar og bilja um meiri afslátt.

5.  HH fer fram á að lífeyrissjóðirnir taki þátt í þessu vegna þess, að lífeyrissjóðirnir hafa þegar fengið að kaupa húsnæðislánasöfn með góðum afslætti og eru að rukka þau í botn (sem sýnir ótrúlegan hroka að mínu mati).  Þau orð Hrafns Magnússonar að eitthvað sé ekki hægt gildir líka fyrir þá sem eru að komast í þrot.  Þeir geta ekki meira og lífeyrissjóðirnir geta valið hvort þeir taka við gjaldþrota fólki í ellinni eða sjálfbjarga fólki.  Þurfi að breyta lögum, svo þetta sé hægt, þá verður að gera það.  Það skal enginn segja mér að lífeyrissjóðirnir geti ekki gefið eftir sem nemur 4% af eignum sínum til sjóðfélaga sinna.  Þröngsýnn einstaklingur segir "ekki hægt", víðsýnn segir "finnum leið til að láta þetta ganga upp".

6.  Þegar ætlast er til að lántakar eða sjóðfélagar greiði fyrir klúður þeirra sem fara með peningana, þá er allt hægt, en þegar þetta snýst við, þá er allt ómögulegt.  Þetta er svo fáránlegur málflutningur að ég nenni ekki að hlusta á hann.

7.  "Ekki hægt" er ekki til í hugtakasafni Hagsmunasamtaka heimilanna.  Við hugsum í lausnum ekki vandamálum.  Við kjósum að fara í þessar aðgerðir í samvinnu við stjórnendur fjármálafyrirtækjanna og lífeyrissjóðanna.  Við viljum gjarnan ræða við hlutaðeigandi aðila um það hvernig er hægt að leysa úr þessu viðfangsefni.  Það er allra hagur að það sé gert.

8.  Enginn er að tala um að bæta eigið fé sem glatast hefur vegna verðbreytinga á húsnæði.  Það er verið að tala um að laga bæði greiðslubyrði og skuldabyrði.  Eigið fé tekur breytingum eftir verðmæti hinnar veðsettu eignar.  Verðmætið er að lækka núna, en mun hækka í framtíðinni.  Við viljum að lántaki hafi efni á að greiða af lánunum sínum, svo hann geti lifað þann tíma þegar eigið féð hækkar með hækkandi fasteignaverði.

9.  Tillögur HH munu ekki bjarga öllum.  Talsverður hluti mun þurfa að nýta sér önnur úrræði, einhverjir munu missa húsnæðið sitt og enn aðrir lenda í gjaldþroti.  Markmiðið er að fækka eins mikið í tveimur síðast nefndu hópunum og hægt er.  Það er satt að vandinn hefur verið mikill í mörg ár, en það er ekki þar með sagt að við eigum að sætta okkur við hann.

10. Tillögur HH taka bara til lána vegna lögheimilis, þ.e. núverandi og fyrrverandi eða væntanlegs skv. sömu skilgreiningu í lögum um einstaklinga með tvær eignir. Þess vegna ná tillögurnar eingöngu til þess hluta lána ÍLS, sem sjóðurinn veitti til einstaklinga vegna kaupa á lögheimili.

11.  HH telja sig ekki þess umkomin að segja hverjir eiga skilið og hverjir ekki.  Á maðurinn sem á tvo sæmilega dýra bíla, og lendir í árekstri á öðrum, ekki að fá tjón sitt bætt, vegna þess að hann á annan sæmilega dýran bíl?  Ég ætla ekki að setjast í það dómarasæti.  Hins vegar gera tillögur HH ráð fyrir því að fólk geti afþakkað þessa afskrift, ef það vill.

Nánar um áhrifin á lífeyrissjóðina í næstu færslu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Takk fyrir pistilinn Marinó ég er sammála þér varðandi ummæli þessara aðila ég er í raun orðin á því að þjóðnyta lífeyrrissjóðina og stofna einn ríkisslífeyrissjóð með sömu greiðslum fyrir alla há og lága fjármagnaðan með sömu tölum og fjármagna núverandi kerfi. Það er ótrúlegt að þyngsti andstæðingur Íslenskrar alþyðu séu þeirra eigin sjóðir og félög

Jón Aðalsteinn Jónsson, 9.10.2010 kl. 14:34

2 Smámynd: Jón Svan Sigurðsson

Sæll Marinó. Þú talar um að einhverjir munu fara í gjaldþrot (kafla 7. í pistli þínum). Ég tel að mjög margir munu fara í gjaldþrot og en fleiri munu hanga inná vanskilaskrá í mörg ár eftir þetta hrun. Ég las tillögur HH og gat ekki séð að þið gerið kröfu um lagabreytingu eins og frumvarp um fyrningu krafna gerir ráð fyrir (kannski missást mér). Ég tel að það sé eitt stærsta hagsmunamálið að kröfur falli niður eftir 3-4 ár, eftir gjaldþrot eða bara yfirhöfuð. Ef því verður ekki breytt þannig að ekki sé hægt að endurvekja kröfur endalaust þá mun það taka lengri tíma að byggja upp efnahag landsins og auka landflótta í mjög miklum mæli. Ég vil spyrja þig hvort HH hafi rætt þetta við ráðherrana sem þíð áttu fund með? Er vilji til að breyta þessu? Þór Saari skrifar á bloggi sínu á Eyjunni að það strandi á Samfylkingunni (nema Helga Hjörvar) og Steingrími J. að þetta frumvarp nái fram að ganga. Getur þú varpað einhverju ljósi á þetta og hvernig þetta mál standi hjá ríkisstjórninni? Ég veit að þið hafið barist fyrir því að þessu verði breytt en eru þið að því núna þegar þið hafið náð athygli ráðherra?

Annars vil ég segja við þig hér að þú og HH standið ykkur mjög vel. Ég hef verið meðlimur HH síðan stofnun þess og hef alltaf trúað því að þið eruð að gera frábæra hluti. Ég lít á HH sem barráttuhóp fyrir bætum mannréttindum lántaka á Íslandi

Jón Svan Sigurðsson, 9.10.2010 kl. 19:46

3 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Ég geri nokkrar athugasemdir við lið 4:

"4. Hækkun lána kom til vegna svika og lögbrota bankanna. það er því þeirra að bera þann hluta leiðréttinganna, sem kemur á lán hjá bönkunum. Hafi þeir ekki efni á því, þá verða þeir bara að snúa sér til gömlu kennitölunnar sinnar og biðja um meiri afslátt."

Það er Seðlabanki Íslands sem stuðlar að verðbólgu með offramboði af fjármagni.

Stjórnvöld gátu strax bannað 100% lán sem ollu fasteignabólunni, sem gerði fáa ríki en flesta fátækari.  Það átti ekki að fara fram hjá neinum að landið yrði fátækara yrðu 100% lán heimiluð!  Hækkun fasteignaverð vegna aukinna útlána skila ekki neinu nema verðbólgu og kjaraskerðingu.  Er það ekki öllum ljóst?

Stjórnvöld gátu einnig bannað lán vegna verðbréfakaupa sem ollu verðbréfabólunni og eyddi stórum hluta af sparnaði heimila.

Það var einnig ákvörðun stjórnvalda að hækka vexti um amk 4-5 prósentur og verðbólgu á sama tíma um 4,5% með stóriðjustefnu sinni.

Það var einnig ákvörðun stjórnvalda að sóa peningum, td. að reisa óarðbær samgöngumannvirki, sem dregur úr lífskjörum og möguleikum landsmanna til að standa undir lánum sínum.

Það var síðan ákvörðun Seðlabanka Íslands að auka útlán til viðskiptabankanna um heila 300 milljarða á árinu 2008 sem allir streymdu úr landi og felldu krónuna.

- - - 

Stjórnvöld áttu mestan þátt í hruni krónunnar og verðbólgunni.  Þau hljóta því að bera kostnaðinn, sem eru skattgreiðendur.

Að mínu mati þá er þetta spurning um hvernig við dreifum byrðunum, skuldir hverfa ekki nema kröfuhafar séu tilbúnir að afskrifa eitthvað af eignum sínum.

Lúðvík Júlíusson, 9.10.2010 kl. 20:09

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jón Svan, þessar tillögur fjalla um tvennt:  Leiðréttingu lán og nýtt lánakerfi.  Kröfur okkar um breytt lagaumhverfi, styttri fyrningartíma, veð takmarkist við veðandlag, jöfnun ábyrgðar lánveitenda og lántaka og önnur úrræði sem þarf til að laga réttarstöðu lántaka og neytenda hafa ekkert breyst.  Við höfum átt fund með núverandi og fyrrverandi dómsmálaráðherra um þau mál.  Bæði Ragna og Ögmundur tóku mjög vel undir okkar hugmyndir og ég hef fulla trú á því að Ögmundur gríipi til aðgerða.

Bara svo það sé á hreinu, þá var ekki um "heildarpakka" að ræða heldur eingöngu tvö afmörkuð mál.  Nú bæði snúa að því að koma á stöðugleika í þjóðfélaginu til langframa og því teljum við að þeim til viðbótar þurfi að lækka ávöxtunarkvöð lífeyrissjóðanna og setja þak á vexti ríkisskuldabréfa.

Lúðvík, sú verðbólga sem ég er að tala um kom í kjölfar hruns krónunnar þar sem peningamagn í umferð jókst rosalega og verð innfluttrar vöru og hráefnis hækkaði, þegar höfuðstóll gengistengdra lána hækkaði annars vegar í mars 2008 og síðan haustið 2008.  Varla kennir þú Seðlabankanum um þá verðbólgu?  Við verðum að hafa í huga að breyting á vísitölu neysluverðs mælir ekki umfang neyslu.  Þó neysla hefði dregist saman um 50% (bara sem dæmi), en verðlag hækkað um 20%, þá væri það hækkun verðlags sem skilar sér í hækkun vísitölunnar.  Neyslusamdrátturinn skiptir engu máli, þar sem þeirri neyslu sem þó er, er alltaf hægt að skipta upp og finna út hlutfall á milli neysluflokka.  Vissulega er neyslumynstrið 2 ára gamalt, en skiptingin milli flokka er til staðar og það er hún sem skiptir máli, ekki veltan.

Marinó G. Njálsson, 9.10.2010 kl. 20:44

5 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Marinó, reyndar kenni ég Seðlabankanum um verðbólguna.

Ég er þó ekki á móti því að aðstoða fólk sem lenti illilega í henni.

Lúðvík Júlíusson, 10.10.2010 kl. 06:48

6 Smámynd: Jón Svan Sigurðsson

Sæll Marinó. Takk fyrir svarið. Þetta var víst liður 9 ekki 7 þar sem þetta kom fram um gjaldþrot.

Það er gott að heyra að viðbrögð hafa verið jákvæð og það er sennilega rétt hjá þér að Ögmundur vilji sjá þessu breytt. Vonandi verður þessu breytt enda eru fyrningarlög, gjaldþrotalög og í raun flest lög sem snerta skuldara hérna á Íslandi miðaldarleg og í engu samræmi við vestræn þjóðfélög. 

Jón Svan Sigurðsson, 10.10.2010 kl. 20:25

7 Smámynd: Hjalti Tómasson

Marinó.

Hefur þú skýringu á þeirri tregðu sem ráðamenn sýna við að skoða aðrar leiðir en hingað til hafa verið nefndar ?

Eru menn ekki sjálfráðir gerða sinna eða er hér um einhverskonar pólitíska blindu að ræða sem gerir mönnum ókleift að sjá út fyrir þröngan hugsjónaheim sinn ?

Hvernig stendur til dæmis á því að það er talið óframkvæmanlegt af talsmönnum ríkisstjórnar og fjármálafyrirtækja að láta þessi fyrirtæki, sem klárlega brutu allar leikreglur ( lagalegar sem siðferðilegar ) í aðdraganda hrunsins, bera ábyrgð á eigin gjörðum ?

Er það náttúrulögmál að fjármagnseigendur og fjármagnsfyrirtæki megi ekki undir nokkrum kringumstæðum tapa peningum ( og þá er ég að tala um framangreind fyrirtæki ) ?

Ég er einn venjulegur meðaljón út í bæ en staðreyndin er sú að hingað til hef ég þurft að taka ábyrgð á mínum athöfnum og ákvörðunum, sama með hvaða hugarfari eða undir hvaða kringumstæðum, þær voru framkvæmdar.

Ég geri ekki athugasemd við þá staðreynd en mér þykir hart ef sama á ekki yfir alla að ganga. Það gæti jafnvel orðið til þess að ég fengi hugmynd um að ég geti valið úr þau lög og reglur sem mér finnst í lagi að brjóta eða fara ekki eftir og þá er ég smeykur um að stutt sé orðið í almenna lögleysu.

Það er kannski ekki það sem við þurfum akkúrat núna en ég er smeykur um að það sé ein af ástæðunum fyrir eggja og grjótkasti á Austurvelli þessa dagana.

Þegar lítilamagninn þarf að verja sig fyrir árásum stóru strákanna þá hefur hann ekki alltaf efni á að vera vandur að meðulum.

Kv.

Hjalti Tómasson, 11.10.2010 kl. 11:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 8
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 1679981

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband