Leita í fréttum mbl.is

2 ár frá hruni, en hvenær voru bankarnir í raun komnir í greiðsluþrot?

6. október 2008 verður örugglega lengi í minnum hafður og ritaður í sögubækur framtíðarinnar.  Þann dag ákvað ríkisstjórn Geirs H. Haarde að nóg væri komið og handklæðinu var kastað inn.  Ferli sem hófst með einkavæðingu bankanna um 7 árum fyrr var lokið með setningu neyðarlaga, sem ætlað var að bjarga því sem bjargað yrði í rekstri stóru bankanna þriggja.  Á næstu tveimur sólarhringum féllu bankarnir þrír eins og risastórir dómínókubbar eða ætti ég að segja sprungu sápukúlurnar þrjár sem héldu að þær óvinnandi.

Þegar Seðlabanki Íslands, og þá aðallega Davíð Oddsson, ákvað að Glitnir yrði ekki bjargað nema með yfirtöku bankans, þá hélt ég eins og margir aðrir að mistök höfðu verið gerð og spurði hvort sleggju hefði verið beitt þegar hamar hefði dugað.  Ég hafði rétt fyrir mér að mistök höfðu verið gerð, en þau fólust ekki í gerðum Seðlabankans í nafni ríkisstjórnarinnar 30. september 2008.  Nei, mistökin fólust í því að leyfa Glitni, Kaupþingi og Landsbanka Íslands að lifa jafn lengi og raun bar vitni.

Á síðustu tveimur árum hafur margt komið fram sem kemur manni á óvart í tengslum við undanfara bankahrunsins 6. - 8. október 2008.  Drulluleðjan sem helst hefur yfir þjóðfélagið er ekki ólík báxítleðjunni sem hlífði engu í Ungverjalandi í vikunni.  Flett hefur verið ofan af slíkum óheiðarleika í viðskiptum og lögbrotum að mestu spennusagnahöfundar hefðu ekki látið sér slíkt til hugar koma.   Allt frá því að plata gamalt fólk til að setja peninga í gjaldþrota peningamarkaðssjóði til þess að setja á svið sýndarviðskipti með hlutabréf, frá milljarða gjöfum til viðskiptafélaga til markaðsmisnotkunar til að fella krónuna.  Drullan sem komið hefur fram er ótrúleg en ég held að við höfum alls ekki séð það verst enn.

Í færslu hér um daginn velti ég því fyrir mér hver staðan væri ef bankarnir hefðu fallið fyrr.  Nú ætla ég að ganga lengra og velta því fyrir mér hvenær bankarnir þrír voru í raun og veru fallnir.  Niðurstaða mín er að Glitnir hafi í raun verið orðinn tæknilega gjaldþrota í síðasta lagi í ágúst eða september 2007, Kaupþing hafi verið komið í þá stöðu í síðasta lagi í nóvember eða desember 2007 og Landsbanki Íslands í síðasta lagi seinni hluta mars eða byrjun apríl 2008.  Ég segi í síðasta lagi, þar sem það fer eftir túlkun á veiku eiginfé hvort eiginfjárstaða þeirra hafi í raun verið orðin neikvæð mun fyrr.  Um það má lesa í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.  Ég ætla aftur að skýra út hvers vegna ég vel þessa þrjá tímapunkta.

Byrjun á Glitni.  Við lestur skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að efnahagur Glitnis virðist hafa verið mjög veikur stóran hluta árs 2007.  Vandamál bankans var að hann var ekki nægilega vel fjármagnaður til lengri tíma og ekki síst voru mjög stórir gjalddagar á tímabilinu október 2008 fram í janúar/febrúar 2009 til vandræða.  Vissulega átti bankinn eignir, en þær voru þess eðlis, m.a. dótturfélög á Norðurlöndum, að bankinn vildi alls ekki missa þær.  Greiðslugeta bankans var orðin mjög takmörkuð og eins og mál slitastjórnar fyrir dómstóli í New York bendir til, þá virðist sem helstu eigendur bankans hafi verið að tæma alla sjóði bankans.  Hvort tilgangurinn var að bjarga rekstri eigin fyrirtækja eða skjóta peningum undan er ekki ljóst á þessari stundu, en peningarnir flæddu út til "réttra" aðila.  Bjarni Ármannsson hafði áttað sig á hvert stefndi og ákvað að hoppa af bátnum áður en það var um seinan.  Í stað hans var ráðinn Lárus Welding, sem ekki er hægt að líta á nema sem nytsaman sakleysingja.  Hann hafði verið yfirmaður Landsbankans í Bretlandi og sem slíkur veitt eigendum Glitnis og fyrirtækjum þeirra góða og mikla fyrirgreiðslu til alls konar glópaverkefna.  Bendir margt til þess að bankastjórastaðan hjá Glitni hafi verið launin fyrir þá fyrirgreiðslu.  A.m.k. á það sér ekki neitt fordæmi að greiða óreyndum manni 300 milljónir fyrir að setjast í stól bankastjóra.  Er því ekki fráleitt að komast að þeirri niðurstöðu að eigendur Glitnis hafi verið að launa Lárusi fyrir greiðasemina.  Fljótlega eftir að Lárus kom til starfa fóru að renna tvær grímur á eigendur bankans.  Lárus reyndist ekki sá bógur eða kunnáttumaður sem þeir höfðu vonast til.  Gekk það víst svo langt að litlu munaði að hann væri látinn fara eftir 3 vikur í starfi.  Eingöngu ótti um álitshnekki mun hafa haldið aftur af eigendaklíkunni.  Var því í staðinn farin sú leið að veita honum góða tilsögn og hjálpa honum við daglegan rekstur bankans.  Þar mun Bjarni Ármannsson hafa verið mjög nytsamlegur.  Þegar leið á sumarið, þá áttaði Lárus sig á hvað var að gerast í rekstri bankans, en hann skorti sjálfstraust og hafði auk þess einangrast.  Bjarni mun hafa haft miklar áhyggjur af þessu og ekki síður af stöðu bankans.  Lausafjárkreppan skall á með fullum þunga í júlí og bitnaði hún strax mjög illa á bankanum, þ.e. ljóst var að nær ómögulegt yrði fyrir bankann að fjármagna hina stóru gjalddaga á haustdögum ári síðar.  Kom þar margt til, svo sem að staða eigenda bankans var einnig orðin veik og ekki síður að nær allir bankar í Evrópu og Bandaríkjunum héldu fast í sína peninga.  Gjaldþrot bankans var orðið óumflýjanlegt nema að hann seldi allar sínar helstu eignir.  Mun Bjarni Ármannsson m.a. hafa lagt það til.  Raunar hafi hann gengið svo langt að hvetja Lárus til að búta bankann niður og selja eins margar einingar hans og hægt væri.  Þessi hugmynd féll í grýttan jarðveg hjá helstu eigendum bankans, enda myndi það þýða að lokun á lánalínum þeirra sjálfra hjá bankanum eða að nýir eigendur einstakra rekstrareininga tækju yfir viðskiptin við félög og fyrirtæki eigendaklíkunnar.  Sjálfir voru eigendurnir illa aflögufærir með fé hvort heldur fyrir eigin rekstur eða til þess að leggja í bankann.  Nær öll fyrir tæki stærstu eigenda byggðu á fölsku eiginfé og því má í reynd segja að lánveitingar til þeirra hafi þá þegar verið glatað fé.  Niðurstaðan er að um þetta leiti hafi Glitnir í reynd verið gjaldþrota og hafi borið að leita til FME.  En það var ekki gert og í hönd fór ótrúlegt tímabil, þar sem allt var reynt til að fá pening inn í reksturinn (allt að láni) og á sama tíma höfðu stærstu eigendur bankans opinn aðgang að sjóðum bankans, þ.m.t. peningamarkaðssjóðum, sem fjármagnaðir voru með því að tæla viðskiptavini til að færa peninga af öruggum innstæðureikningum yfir í botnlaus hít peningamarkssjóðanna.  Þó bankann væri að blæða út, þá skyldi bjarga fyrirtækjum stærstu eigenda bankans, hvað sem það kostaði.

Lausafjárkreppan fór að bíta í Kaupþing, þegar líða tók á haustið 2007.  Það sem meira var, að stærstu eigendur og vildarviðskiptavinir bankans fóru líka að finna fyrir henni.  Á fundi í bankanum í nóvember 2007 voru gefin út fyrirmæli um að stoppa öll út lán.  Varðaði það jafnvel brottrekstri að óhlýðnast þessum boðum.  Jafnframt var varað við því að 2008 yrði hræðilegt ár.  Tvær ástæður lágu, að því virðist, fyrir því að skrúfað var fyrir útlán.  Fyrri ástæðan voru skuldbindingar bankans við eigendur og vildarviðskiptavini, en þrátt fyrir algjört útlánabann ríkti í útibúunum, þá gilti ekki það sama í höfuðstöðvum bankans.  Þar flæddu peningar út í gríðarstórum upphæðum til valinna viðskiptamanna starfsmönnum til mikillar furðu.  Áttu margir erfitt með að skilja hvers vegna ekki var hægt að endurnýja yfirdrætti eða lengja í lánum hjá viðskiptavinum með jafnvel mjög langa viðskiptasögu.  Seinni ástæðan var að farið var að þrengja um lánalínur hjá bankanum sjálfum.  Hann flaggaði vissulega lánalínum í bókhaldi sínu, en staðreyndin mun hafa verið sú, að þær voru annað hvort óheyrilega dýrar eða entust varla vikuna.  Á næstum vikum og mánuðum voru búnar til flóknar fléttur í kringum ekki neitt, þ.e. búin voru til viðskipti, þar sem svo virtist sem eitthvað hafi átt sér stað, en í reynd var bara verið að flytja skuld/eign á milli félaga sem bankinn átti í reynd með húð og hári.  Eigið fé bankans innhélt því endalausar loftbólur og hékk saman á lyginni einni, eins og stundum er sagt.  Í janúar 2008 var útlánabannið ítrekað og þá var mörgum innan bankans ljóst að þetta væri búið.  Lögfræðingar sem kallaðir voru til skrafs og ráðagerða horfðu á stöðuna í angist og einn þeirra gekk svo langt á góðri stundu í febrúar 2008 að gefa það álit sitt, að bankakerfið allt myndi hrynja í fyrstu viku október sama ár.  Hafi menn áttað sig á því þá að í október yrði öllu lokið, þá bar þeim að kalla til FME og loka sjoppunni.

Landsbanki Íslands stóð að því virðist best.  Ástæðan var, þó ótrúlegt sé, Icesave.  Bankinn sogaði til sín innlán í Bretlandi, en í einhverju brjálæði þá dældi bankinn peningunum inn á innlendan gjaldeyrismarkað.  Til að byrja með varð þetta til þess að gengið styrktist, eins og Landsbankinn vonaðist til, en svo skall lausafjárkreppan á að fullu og þá snerist dæmið við.  En Landsbankamenn virðast hafa verið fullir sjálfstrausts vegna velgengni Icesave og héldu áfram að setja gjaldeyri inn á markaðinn.  Virtist ekkert valda þeim áhyggjum, þó gengi krónunnar lækkaði hægt og bítandi.  En með þessari stöðugu lækkun gengisins, þá skapaðist ójafnvægi á milli erlendra eigna bankans og erlendra skuldbindinga.  Líklegast tókst þeim að breiða yfir þetta í bókhaldinu hjá sér, en Seðlabankinn var farinn að ókyrrast.  Þar á bæ höfðu menn bæði áhyggjur af stöðu bankans og ekki síður upphæð innstæðna á Icesave.

Kaupþingsmenn sáu viðskiptatækifæri í gjaldeyrissölu Landsbankans, möguleika á að bjarga eigin skinni og gróðavon fyrir stærstu eigendur sína.  Exista og Kjalar tóku að gera gjaldmiðlaskiptasamninga við nokkra stóra lífeyrissjóði.  Lífeyrissjóður verzlunarmanna var stórtækastur í þessum viðskiptum, en hann setti alla erlenda eign sína að veði, þ.e. um 93 milljarða.  Á sama tíma keyptu Kaupþing og Exista allan þann gjaldeyri sem hönd var á komið á markaði.  Fyrst héldu fyrirtækin uppi veltu á gjaldeyrismarkaði sem varð til þess að þó gengið lækkaði, þá lækkaði það rólega. Í marsbyrjun var búið að undirbúa leiksviðið.  Sem hendi væri veifað var skrúfað fyrir allt innstreymi á gjaldeyrismarkað.  Viðbrögðin létu ekki á sér standa og krónan féll eins og steinn.  Á nokkrum dögum tapaði hún ríflega 17% af verðgildi sínu og fór gengisvísitalan úr 130 í byrjun mánaðarins í 157 í lok hans.  Þessu fylgdi áhlaup á Icesave reikninga Landsbankans sem var hrundið, en það stóð tæpt.  Ástæðan fyrir því að bankinn stóð áhlaupið af sér mun vera að Kaupþing kom bankanum til bjargar.  Orðið á markaðnum var, að fyrst Landsbankinn hafi staðið þetta af sér, þá gæti hann ekki fallið.  En staðreyndin var að fall krónunnar hafði í reynd keyrt bankann í þrot og eftir þetta var fátt sem gat bjargað honum, þó margt hafi verið reynt.  Helsta ástæðan var hinn mikli munur sem orðinn var á erlendum eignum og erlendum skuldbindingum, þ.e. bankinn hafði selt gjaldeyri í miklu mæli á markaði, þegar gengið var sterkt, en viðskiptavinir í Bretlandi höfðu tekið út háar upphæðir meðan krónan var veik.  Bankinn var kominn í greiðsluþrot og hefði átt að kalla inn FME.

Árið 2008 var ár björgunartilrauna.  (Ég tek það fram að tímalína atburða er líklegast ekki alveg rétt, en oftast skiptir það ekki máli.)  Bankarnir þrír áttuðu sig líklega mjög vel ás töðu sinni.  Þeir voru búnir að þurrausa allar viðráðanlegar lánalínur og fjármögnuðu sig sífellt til skemmri tíma.  Alls konar klækir voru notaðir til að verða út um fjármagna, t.d. fékk Landsbankinn háar fjárhæðir frá Seðlabanka Evrópu og Seðlabanka Lúxemborgar í gegn um fyrirtæki sitt í Lúxemborg.  Hluti húsnæðislána bankans voru sett að veði, en látið líta svo út að raunverulegur lántaki væri starfsemin í Lúx, þó svo að það væri í reynd bankinn á Íslandi.  Kaupþing kláraði lánalínu sína hjá Seðlabankanum með því að leggja húsnæðislán sín að veði fyrir láni.  Voru tvær milljónir settar að veði fyrir hverja eina sem fékkst lánuð.  Glitnir gerði svipaða hluti, þó mér sé ekki kunnugt um hvert veðhlutfallið var.  En peningarnir stoppuðu ekki í bönkunum, þó ótrúlegt sé heldur fóru eins og áður til stærstu eigenda og að einhverju leiti til að greiða upp lánalínur sem hafði verið lokað.  Þetta var ekki nóg, mikill vill meira.  Seðlabankinn fékk nóg, enda búinn að lána bönkunum beint meira en góðu hófi gegndi og reglur bankans leyfðu.  Landsbankinn fékk átölulaust að opna fyrir innlán á Icesave í Hollandi.  Einnig var búin til flétta sem fól í sér að leggja önnur fjármálafyrirtæki að veði til að reyna að bjarga bönkunum.  Bankarnir útbjuggu sem sagt skuldabréf (hafa verið kölluð ástarbréf) og seldu nokkrum nytsömum sakleysingjum, sem í staðinn fengu lán hjá Seðlabankanum.  Alls námu þessi viðskipti 345 milljörðum kr. sem runnu nær óskiptir til bankanna þriggja.  Þó útlán þeirra til almennings og fyrirtækja væru nær alveg hætt, þá dæld þeir enn peningum í fyrirtæki stærstu eigenda sinna, enda var svo komið að á sama hátt og eigendurnir þoldu ekki fall bankans, þá þoldu bankarnir hver fyrir sig ekki fall eins eða fleiri af stærstu eigendunum.  Þetta kom síðan berlega í ljós í lok september, þegar eignarhluti eigenda Glitnis var færður niður um 75%.

Hinar misheppnuðu björgunaraðgerðir árið 2008 kostuðu ótrúlegar upphæðir.  Ég er ekki með þær á hreinu, en einhvern tíma reiknaði ég þær upp í 1.100 milljarða kr.  Ég man ekki hvernig ég fékk þá tölu, en fljótt á litið, þá liggur upphæðin í lánum gegn ástarbréfum upp á 345 milljarða, Icesave innstæðum í Hollandi upp á 1.200 milljónir evra, Icesave innstæðum í Bretlandi upp á 800 milljónir evra, greiðslum í peningamarkaðssjóði upp á minnst 200 milljónir, en líklega mun hærri upphæð frá fjárfestum, almenningi og fyrirtækjum og eiginfjárframlag og víkjandi lán til bankanna við endurreisn þeirra upp á um 350 milljarða.  Um 750 milljarðar af þessari upphæð hefði hugsanlega verið hægt að spara með því að grípa fyrr inn í rekstur bankanna.

Lítið mál er að vera vitur eftir á og hægara um að tala en í að komast.  Hafi þeir sem komu að málum verið að vinna að heiðarleika og af bestu getu, þá er erfitt og hreinlega rangt að áfellast viðkomandi fyrir annað en vanþekkingu og þekkja ekki sín takmörk.  En í baksýnisspeglinum, þá virðist margt benda til þess, að hin mörgu mistök sem gerð voru, hafi einmitt verið gerð vegna þess að heiðarleikann hafi skort og afneitun hafi verið í gangi.  Menn voru að því virðist fullir hroka, tvísaga í mikilvægum málum og töldu sannleikann bara vera til trafala.  Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis lýsir þessum parti víst ágætlega, svo langt sem hún nær.  Ennþá vantar okkur lygalausar lýsingar helstu gerenda, en þeir hafa því miður kosið að kasta ryki í augu almennings og yfirvalda.  Verst er þó að enginn, já nákvæmlega enginn, ber ábyrgð á því að svona fór.  Geir segir ekki ég, Hreiðar segir ekki ég, Sigurður segir ekki ég, Jónas segir ekki ég, Ingibjörg segir ekki ég, Sigurjón segir ekki ég, Lárus segir ekki ég, Árni segir ekki ég, Jón Ásgeir segir ekki ég, Björgvin segir ekki ég, Davíð segir ekki ég og svona mætti halda lengi áfram.  Alls hurfu um 8.000 milljarðar út úr hagkerfinu og enginn gerði nokkuð af sér til að orsaka það.  Þetta hlýtur að vera einsdæmi í heiminum að enginn hafi gert neitt af sér, en samt urðu minnst 12 fjármálastofnanir gjaldþrota, eitt stykki Seðlabanki, eitt stykki ríkissjóður (þó því hafi verið velt yfir á skattgreiðendur) og eitt stykki þjóð skuldar meira en hún mun sjá fram úr að geta greitt svo lengi sem hér er íslensk króna sem gjaldmiðill.

(Lýsingin hér að ofan, er mín samantekt á því sem fjölmargir aðilar hafa greint mér frá, flestir eru nafnlausir heimildarmenn, aðrir hafa skráð þetta samviskusamlega á bloggfærslum eða athugasemdum við þær, svo er annað komið úr fréttaflutningi og að ógleymdri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Marinó, takk fyrir athyglisverða grein.

1) Stjórnendur og stjórn fyrirtæka bera alltaf ábyrgð á rekstri þeirra. Punktur.

2) Fjármálaeftirlit Íslands átti að hafa eftirlit með rekstri fjármálafyrirtækja.

Ef þér finnst að bankar hafi þegar valdið usla hjá lífeyrissjóðum landsmanna bíddu þá bara og sjáðu hvað rotnandi veðlán þeirra í húsnæðislánum á eftir að hafa í för með sér fyrir lífeyrissjóði landsmanna. En fasteignaverð á eftir að lækka um 30-40% í viðbót. 

Reynslan erlendis er sú að það er fyrst eftir heil 5 ár frá hruni að afskriftir lélegra lána (ergo: óhæfir skuldarar sem þola ekki vindhviður og áttu aldrei að fá lán, gildir líka um húsnæðiseigendur sem fyrirtæki) eru um garð gengnar.

Því sem þú lýsir hér er einnig að gerast í fleiri löndum. Harði hrörnunar lánastofna er bara mismunandi eftir markaðssvæðum.

Nokkurs konar "skuldafangelsi" verða örugglega útbreidd á vesturlöndum næstu áratugina því bankakerfi svo margra vesturlanda voru illa rekin og fjármálaeftirlit ríkja og ESB brást svo illilega í svo mörgum löndum.

Það sama mun líka gilda um ríkisskuldir margra landa, þ.e. skuldafangelsi heilla þjóða þar sem stjórnvöld varpa áhættu og stjórnarfarslegum ágöllum illa rekinna bankakerfa heilla þjóða yfir á alla þegnana.

You have aint seen nothing yet, því miður

Kveðja

Gunnar Rögnvaldsson, 9.10.2010 kl. 01:04

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Takk fyrir þetta, Gunnar.  Ég er nokkuð viss um að margt á eftir að koma bæði hér á landi, en sérstaklega víða í Evrópu og Bandaríkjunum.

Það er rétt að FME átti að grípa inn í, en stofnunin var líkt og stjórnvöld á kafi í meðvirkni með bönkunum.  Ekki mátt falli kusk á hvítflipann.  Seðlabankinn var engu skárri.  Talaði og talaði, en tók svo þátt í drullumallinu.  Seðlabankinn átti aldrei að lána þessa 345 milljarða til nytsömu sakleysingjanna.

Marinó G. Njálsson, 9.10.2010 kl. 01:15

3 identicon

Þetta er mögnuð saga og kærar þakkir. Gott að fá svona samantekt því í öllu fárviðrinu sem yfir okkur hefur gengið og allt sem enn gengur yfir okkur þá hefur svolítið fennt yfir þennan kapítula hrunsins. Þú dregur upp svo skýra mynd af slysinu sjálfu en umræðan undanfarið hefur kannski verið öll um aura og krónur; hvernig skiptum við því litla sem bjargaðist. Hvað segir þetta okkur um okkur sjálf þegar slíkir aular komast til æðstu metorða bæði í bisniss og pólitík. 

Villi (IP-tala skráð) 9.10.2010 kl. 01:16

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þetta er eðli áfalla Marinó. Áföll koma öllum á óvart. Annars væru þau ekki áföll, heldur bara dagleg viðfangsefni.

Sannleikurinn er sá að enginn sá með óyggjandi öryggi þessa kreppu/hrun koma. Þetta er eðli áfalla. Þau koma óvænt.

Menn geta haft vel rökstuddan grun um eitthvað, en þeir geta þó ekki leyft sér að setja allt í fyrirfram steik bara vegna gruns um eitthvað, þeir gætu nefnilega svo auðveldlega haft algerlega rangt fyrir sér.

Þess vegna er rangur maður fyrir ríkisrétti. Þar eiga stjórnendur bankanna að sitja. Og hluthafar bankanna eiga að fá verndað fast sæti á fyrsta bekk.

Þetta er ekki flókið. Lán eiga ekki að veitast eins og hanastél. Aldrei. Það gildir líka um lán Íbúðalánasjóðs.   

Gunnar Rögnvaldsson, 9.10.2010 kl. 01:28

5 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Takk fyrir þennan pistil Marinó. Deili honum.

Ævar Rafn Kjartansson, 9.10.2010 kl. 11:20

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Í stuttu máli þá trúðu stjórnvöld og eftirlitsstofnanir því að íslenskir ævintýramenn hefðu höndlað einfalda leið til að græða peninga á því einu að láta þá skipta um hendur.

Helstu burðarstoðir samfélagsins áttu heimilsfang í bankastofnunum og stjórnsýslugarparnir urðu einskonar opinberir fulltrúar þeirra víðs vegar um heimsbyggðina- fjölmiðlafulltrúar!

Nýju fötin keisarans voru uppgötvuð með skelfingarópi sem heyrðist um alla heimsbyggðina.

Þessi fjármálaséní sem pólitískir ármenn stjórnsýslu höfðu afhent ríkisbankana með helmingaskiptareglu sinni reyndust ekki kunna neitt, geta neitt eða yfirleitt hafa áhuga á öðru en að hirða það sem þeir höfðu fengið fyrir ekkert!

En áður höfðu þeir selt lottómiðana sem áttu allir að skila ábata.

Þeir hirtu söluverðið að sjálfsögðu líka.

En auðvitað bar enginn ábyrgð á þessum galskap þegar um var spurt.

Árni Gunnarsson, 9.10.2010 kl. 13:49

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Árni, það voru ekki bara stjórnvöld.  99% þjóðarinnar trúði því að við værum að upplífa ameríska drauminn á þessu skeri norður í Dumbshafi.  Við vorum ginnt inn í ósvífnustu svikamyllu, sem nokkur maður hefur sett upp og síðan steikt á teini.

Marinó G. Njálsson, 9.10.2010 kl. 14:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 276
  • Frá upphafi: 1680564

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband