Leita í fréttum mbl.is

Ef bankakerfið hefði fallið fyrr..

Þetta er áhugavert atriði sem Margrét Tryggvadóttir bendir á í ræðu sinni.  Hvað ef bankakerfið hefði fengið að falla fyrr, hverju ætli það hefði breytt?

Allt bendir til þess, að bankakerfinu hafi verið orð ógreiðsluhæft um páskaleyti 2008.  Búið var að tæma alla sjóði og ganga á allar þrautavaraleiðir.  Þetta vissu Geir og Ingibjörg, Árni og hugsanlega Björgvin.  Þetta vissu líka Davíð, Ingimundur og Eiríkur í Seðlabankanum, Jónas hjá Fjármálaeftirlitinu, líklegast allir bankastjórar, bankastjórnir og eigendur stóru bankanna og fjölmargir embættismenn, starfsmenn og ráðgjafar bankanna.  Raunar vissu margir þessara aðila haustið 2007 í hvert stefndi.  Þess vegna ákvað hluti eigenda Kaupþings að taka mjög virka og grófa stöðu gegn krónunni.  Það var álit þessara manna að bönkunum yrði ekki bjargað eftir venjulegum leiðum vegna lausafjárkreppunnar í heiminum og að krónan myndi ekki standast það áhlaup sem færi í gang.  Í staðinn fyrir að stíga fram og viðurkenna þessar staðreyndir, þá var farið í umfangsmiklar björgunaraðgerðir, en á endanum var öllum þeim peningum sem í þær fóru kastað á glæ.

Ég hef bara þá mynd af þessu sem birst hefur í fjölmiðlum:

1.  Bankarnir notuðu krókaleiðir til að fá þrautavaralán hjá Seðlabanka Íslands með útgáfu "ástarbréfa" sem nytsamir sakleysingjar keyptu og notuðu sem tryggingar í endurhverfum viðskiptum við Seðlabanka Íslands.  Þetta kostaði Seðlabanka Íslands 345 milljarðar og setti Sparisjóðabankann (Icebank), VBS og einhverja sparisjóði í raun á hausinn.  Bankarnir fóru líka krókaleiðir til að fá lán hjá Seðlabanka Evrópu, beittu við það blekkingum sem skaðaði orðspor þjóðarinnar og gerði það að verkum að Seðlabanki Evrópu og Seðlabanki Bandaríkjanna ákváðu að sniðganga íslenska seðlabankann í gjaldeyrisvörnum.

2.  Seðlabankinn ákvað að létta á bindiskyldu bankanna í mars 2008.  Það hefðu átt að vera nógu skýr skilaboð til stjórnvalda, að staða bankanna var orðin þess leg að eingöngu mjög umfangsmiklar aðgerðir gætu bjargað þeim.  Með því að létta bindiskyldunni var bönkunum veittur aðgangur að nokkurs konar varasjóði.  Þessu hefði átt að fylgja mun meira eftirlit með starfsemi bankanna og raunar gefa tilefni til að taka þá í hálfgerða gjörgæslu.  Hún hefði ekki þurft að vera áberandi á yfirborðinu, fyrst það var það sem menn hræddust svo svakalega, en þessi aðgerð að létta bindiskyldunni var ein skýrasta vísbendingin um alvarlega stöðu bankanna.  Bankarnir voru orðnir þurrausnir af lausafé, voru greinilega búnir að tæma alla möguleika á auknu lánsfé frá Seðlabankanum og því var ekki um annað að ræða en að greiða út trygginguna, ef svo má að orði komast.  Höfum í huga að bindiskyldan er hugsuð til að verja hagsmuni viðskiptavina bankanna.

3.  Icesave reikningar voru opnaðir í Hollandi og tókst Landsbankanum með því í reynd að svíkja út úr hollenskum sparifjáreigendum og hollenska ríkinu hátt í 1,2 milljarða evra.  Haldið var áfram að safna innstæðum á Icesave í Bretlandi, þrátt fyrir að Landsbankamönnum mátti vera ljóst að bankinn væri tækilega gjaldþrota.  Hann átti ekki fyrir skuldum sínum og hefði því á vormánuðum 2008 átt að kalla til Fjármálaeftirlitið.  Breska fjármálaeftirlitið var mjög meðvirkt í þessu tilfelli, þar sem menn þar á bæ vissu af afleitri stöðu bankans, en ákváðu að treysta orðum íslenskra ráðamanna eða vonuðust til þess að úr rættist.

4.  Gengisvísitalan stóð í um 160 fyrir páska 2008.  Ef bankarnir hefðu fengið að falla þá, eru talsverðar líkur á að hún hefði veikust orðið í kringum 210 og stæði núna í 170.  Þetta eitt og sér hefur aukið skuldavanda heimila, fyrirtækja og sveitarfélaga mjög mikið.  Flestir hefðu ráðið við gengisvísitölu á bilinu 180 - 190, eins og hún hefði líklegast legið í mestan tímann.

5.  Ekki er víst að allir íslensku bankarnir hefðu fallið, en Landsbankinn og Kaupþing stóðu greinilega mjög illa og Glitnir átti ekki fyrir afborgunum lána 12 mánuði fram í tímann.  En blekkingarvefurinn sem settur var í gang með ástarbréf, hlutabréfasvikamyllur, innlánasöfnun og fleira í þeim dúr án þess að 1 króna kæmi frá eigendum til að styrkja við rekstur bankanna segir allt sem segja þarf.  Bankarnir voru í reynd gjaldþrota í lok mars 2008.

6.  Hægt hefði verið að snúa sér til alþjóðasamfélagsins fyrr og hugsanlega lina áfallið, en líklegast hefði skellurinn verið óumflýjanlegur.

Ég gæti haldið áfram í nokkurn tíma og t.d. rætt um svindl með hlutabréf, blekkingar í kringum gjaldeyrisskiptasamninga og jöklabréf, svikamyllu skúffufyrirtækja, flutning fjármagns til skattaskjóla, lyga stjórnenda bankanna og ráðamanna á Íslandi, en ætla að láta það vera.

Málið er að það var alveg vitað innan stjórnsýslunnar í febrúar 2008 að íslensku bankarnir mynda falla í síðasta lagi í októberbyrjun sama ár.  Þetta vita Íslendingar sem voru á Kanaríeyjum með kjaftaglöðum lögfræðingi innan úr bankakerfinu í febrúar 2008.  Hann fullyrti í vitna viðurvist að íslenska bankakerfið myndi hrynja í fyrstu viku október þá um haustið.  Raunar voru menn svo vissir um þetta að sagan segir að búið hafi verið að skrifa uppkast af neyðarlögum í júní eða júlí og hjá Reiknistofu bankanna var prufukeyrð hjá fyrirtækinu viðbúnaðaráætlun þar sem líkt var eftir hruni eins banka sömu helgi og Lehman Brothers féll.  Ég er alveg viss um að innsti kjarni ríkisstjórnar Íslands á þeim tíma vissi af þessari stöðu.  Ég skil vel að menn hafi reynt að halda andlitinu út á við.  Ég skil vel að þessu hafi verið haldið eins mikið leyndu og kostur var.  Ég vil aftur benda á, að erlendir stjórnmálamenn og háttsettir bankamenn reyndu ítrekað að fá íslensk stjórnvöld og Seðlabankann til að grípa inn í atburðarásina, en menn létu sér ekki segjast.  Vissulega hafði margt verið gert eftir krísuna 2006, en stjórnvöld virtust ekkert hafa lært nóg af því og svo voru ráðherrar Samfylkingarinnar greinilega svo ánægðir með stólana sína að þeir gerðu ekkert sem gat orðið til þess að þeir misstu sætið sitt. 

Kannski sigldu menn ekki sofandi að feigðarósi.  Líklegast gerðu menn það með galopin augu og vissu í hvað stefndi og gerðu fjölmargt sem a.m.k. menn vonuðu að myndi afstýra stórslysi.  Ég hreinlega trúi ekki öðru.  Ég efast ekki um að margt var gert til að afstýra þessu áfalli, en kostnaðurinn við björgunina hefur því miður reynst mjög dýrkeyptur.  Er ég þeirrar skoðunar eða vil að minnsta kosti trúa því að einhverjir aðilar innan stjórnsýslunnar hafi reynt sitt besta til að afstýra því sem varð, en annað hvort ekki haft getu, þor eða kjark til að taka nauðsynleg skref, sem m.a. fólust í því að taka fyrr fram fyrir hendurnar á, að því virðist, gjörsamlega vanhæfum stjórnendum bankanna.

Ég er sannfærður um að höggið hefði orðið minna fyrir íslenskt þjóðfélag, ef bankarnir hefðu verið settir í gjörgæslu Fjármálaeftirlitsins strax vorið 2008 á þeim tímapunkti þar sem þeir voru tæknilega gjaldþrota.  Í því felast líklegast stærstu mistök og um leið afglöp stjórnsýslunnar og stjórnenda bankanna.  Sagan segir okkur, að stjórnendur og eigendur bankanna voru búnir að missa stjórn á atburðarásinni seint í febrúar 2008.  Frá þeim tímapunkti voru menn í slæmri afneitun og á kafi í meðvirkni.  Menn sem nota óþverrabrögð og jafnvel lögbrot til að komast yfir meiri pening til að halda fyrirtæki sínu á floti, eru í engu frábrugðnir fíklinum sem gerir hvað sem er fyrir næsta skammt.  Ég segi óþverrabrögð og jafnvel lögbrot og vísa þá til hvernig nytsamir sakleysingjar voru fengnir til að leppa lán hjá Seðlabankanum (sem er alveg örugglega lögbrot), notuðu útibú sín í útlöndum til að ná til sín lánum frá erlendum seðlabönkum sem bankarnir áttu ekki rétt á, söfnuðu innlánum í Evrópu vitandi að bankinn gæti ekki greitt þau til baka, þvinguðu starfsfólk til að hringja í gamlamenni til að fá þau til að færa ævisparnaðinn í botnlausa hít skuldabréfasjóða, bjóðandi öllum sem báðu um lán gengistryggð lán vitandi að krónan var orðin innistæðulaus, sendandi út greiningar og spár um styrka stöðu efnahagslífsins, þegar allt benti til annars, og svona gæti ég haldið endalaust áfram.

Já, bara að bankarnir hefðu hrunið fyrr, þá værum við mun betur sett í dag.


mbl.is „Ógeðsleg“ framganga Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eins og í öllum gjaldþrotamálum verður skaðinn alltaf minnstur þegar ákvörðun er tekin um gjaldþrotaskipti um leið og sýnt er hvert stefnir. Ef reynt er að þrauka skaðast viðskiptavinir og birgjar, og hættan á glæpsamlegu athæfi eykst. Þetta er alveg kýrskýrt og ég er sammála þér að best hefði verið að bankakerfið hefði farið á hausinn strax um páskaleytið 2008.

Hins vegar er þetta nokkur eftiráspeki. Hver átti að taka af skarið aðrir en bankamennirnir sjálfir? Hvað hefðu eftiráspekingar (í alternatífum veruleika) sagt ef ráðamenn þjóðarinnar hefðu tekið bankana niður? Ólukka okkar var hins vegar sú að eftirlitskerfið var svo lélegt að það gat ekki komið í veg fyrir glæpsamlegt athæfi stjórnenda bankanna frá páskum og fram að hruni.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 21.9.2010 kl. 17:41

2 identicon

Ómar,  öll ríkisstjórnin vissi 2007 að þetta gengi ekki og í því liggja afglöp hennar allrar.  Auðvitað vissi hún ekki að allt færi til fjandans en vindarnir í fjármálaheiminum gáfu fyllilega til kynna að hún ætti í það minnsta að tryggja stöðu ríkissjóðs og passa að skuldbinda hann ekki meir en nauðsynlegt var að gera.  Ekki gleyma því að ríkinu bar ekki að bjarga bönkunum.  Þetta voru einkabankar.  Það var ýmislegt hægt að gera ef menn hefðu viljað það.  Einnig átti hún einungis að tryggja innlendar innistæður aðeins upp að lögboðnu marki.

itg (IP-tala skráð) 21.9.2010 kl. 18:36

3 Smámynd: Þórdís Björk Sigurþórsdóttir

Icesace var komið af stað 2006, held ég hafi lesið að það hafi verið stofnað um áramót 2005/2006 þar sem bankarnir áttu orðið erfitt með að endurfjármagna sig erlendis. William Black sem hingað til landsins kom sagði í Kastljósi að bankarnir hafi raun verið komnir í þrot 2004, þetta las hann úr útdrætti úr rannsóknarskýrslunni sem þýddur var á ensku. Erfiðleikarnir hafa verið ljósir lengi.

Þórdís Björk Sigurþórsdóttir, 21.9.2010 kl. 19:34

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mér var sendur linkur á frétt The Economist frá 13. október 2009 og sérstaklega bent á eftirfarandi:

November 2007: The head of Kaupthing’s retail banking division orders his staff to stop lending money. The staff is shocked as he describes an Iceland of 2008 where companies large and small and individuals go bankrupt. There are extremely difficult times ahead he says. Two weeks later he asks them if they weren’t listening. Stop lending any more money.

Marinó G. Njálsson, 21.9.2010 kl. 19:39

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þórdís, söfnun inneigna á Icesave var umtalsverð í Bretlandi 2008, þó svo að þetta hafi verið sett í gang 2006.  Um þetta má lesa í rannsóknarskýrslunni.

Marinó G. Njálsson, 21.9.2010 kl. 19:41

6 Smámynd: Þórdís Björk Sigurþórsdóttir

Eins er áhugaverð færslan hans Sölva Tryggva þar sem hann segir að lífeyrissjóður bankamanna hætti að fjárfesta í hlutabréfum 2006.

Þórdís Björk Sigurþórsdóttir, 21.9.2010 kl. 19:58

7 identicon

@ neyðarlögin: Fram kom í blaðaviðtali (við DO, held ég) að neyðarlögin hafi í stórum dráttum verið saman í MARS 2008! Svo dokuðu menn og dokuðu...

Matthías (IP-tala skráð) 21.9.2010 kl. 22:53

8 Smámynd: Billi bilaði

Og þetta lið vill í raun meirihluti þjóðarinnar að stjórni sér áfram, skv. skoðanakönnunum. "Rómverjar eru klikk" sagði Ástríkur oft.

Billi bilaði, 22.9.2010 kl. 07:52

9 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er ljóst að tjónið hefði orðið mun minna ef bankarnir hefðu verið látnir falla í mars 2008, um það er ekki spurning.

Spurningin er hinsvegar hvort nokkur maður hafi þann kjark sem hefði þurft til að gera slíkt. Þáverandi seðlabankastjóri hafði ekki þann kjark og alveg örugglega hefðu þeir sem á undan honum voru og eftir, ekki haft kjark, ef þeir hefðu verið í hanns sporum. Stjórnvöld höfðu ekki kjark og fullyrða má að enginn stjórnmálamaður síðari tíma hefðu þorað að gera slíkt.

Við munum hvernig umræðan var þegar bankarnir voru loks yfirteknir, margir velmegandi menn, bæði hagfræðingar og fleiri vildu meina að aðgerðir stjórnvalda væru allt of harkalegar. Samt voru bankarnir sannarlega komnir á hausinn! Hvernig viðbrögð hefðu verið ef tekið hefði verið í taumana fyrr?

Vissulega var vitneskjan um stöðuna fyrir hendi, bæði hjá stjórnvöldum og eftirlitsaðilu, en þó sérstaklega hjá eigendum og stjórnendum bankanna. Það er eitt að vit en annað að hafa kjark og þor til að taka ákvörðun.

Það er sannarlega hægt að dæma stjórnvöld og eftirlitsaðila á þessum tíma fyrir kjarkleysi, en sökudólgarnir eru að sjálf sögðu eigendur og stjórnendiur bankanna. Því miður hafa núverandi stjórnvöld ekki haft kjark til að taka á því vandamáli sem enn ríkir innan þessara stofnana. Enn eru bankarnir að reyna eftir fremsta megni að svindla, eða í það minnsta að túlka lög og samninga sér í hag, jafnvel þannig að lántaki verður að vísa máli sínu til dómstóla til að fá leiðréttingu sinna mála.

Gunnar Heiðarsson, 22.9.2010 kl. 09:51

10 Smámynd: Júlíus Björnsson

Í skýrslu starfsmanna IMF 2005, er sannað að ef grundvallar breytingar verði er ekki trúverðuleika veða Íslenska óbyrga fjármálgeirans stefni hér allt í þrot. Ástæður m.a. óraunhæft mat á fasteignaverði, raunvaxtakrafa á húsnæði almennra neytenda sem leggja til öruggustu veðinn í veðsöfnum lánstofnanna, almennir vaxandi greiðslu erfiðleikar mest hjá 60% yngrihluta þjóðarinnar.

Reiðfé er það sem skiptir öllu máli og það sé minnst 10% af veltu það tryggja öruggir láraunvaxta langtíma eða 30 ára Íbúðlána veðsjóðir  Þroskaðri ríkja. Þar tryggir lá raunvaxta krafa lægri útreiknuð laun laun, minni niðurgreiðslu vegna launa og örugga greiðslu, lykil veðsafna lánastofnanna Ríkja þar bókhald er í lagi og menn byggja á prinsippum í fjármálum sem standast í 30 ár.

100% áhættu geiri í samkeppni við 5% til 10% áhættu geira Risa samfélaga gengur ekki upp.

Allir þeir sem skildu ekki skýrslu IMF eða skýrslur frá 1982 á að afskrifa enda vita óhæfir til að vasast í fjármálum. Það er erfit að kenna gömlum hundi að setja.

Íslendingar eru ekki samkeppnihæfi eða samburðarhæfir við Risa þjóða fjármálgeira, það er staðreynd síðust 1000 ár. 

Vitleysingarnir í bókhaldi eru ennþá að störfum. Veð sem engin rekstur er í [eða hlutfallslega lítill] skilar engum tekjum til að standa undir lánum. Menn flytja ekki inn skuldaþræla nema að vera arfa vitlausir.

Júlíus Björnsson, 22.9.2010 kl. 11:33

11 identicon

Greinin er hreint afbragð. Brotin gegn óbreyttum borgurum Íslands útskýrð á mannamáli. 

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 22.9.2010 kl. 14:44

12 identicon

Marinó, þetta er sannfærandi greining hjá þér, studd fjölmörgum staðreyndum sem þú tínir til.  Athugaðu að þessi staða sem þú lýsir gagnvart stöðu bankanna í ársbyrjun 2008 og líkindi þess að tjónið hefði orðið minna, ef bankakerfið hefði verið látið falla fyrr - eiga einnig við um stöðu ríkissjóðs í dag!

Það er ljóst að ríkissjóður mun fara í greiðsluþrot og best væri að það gerðist fyrr en síðar, einmitt til þess að takmarka tjón sem af því hlýst.  Ríkissjóður er í nákvæmlega sömu stöðu og heimilin, yfirskuldsettur og lífsgæði þegnanna eru í miklu uppnámi um langa framtíð, ef reyna á að greiða allar þessar skuldir.

Það er betra í öllu tilliti, að játa sig sigraðan í tíma ÁÐUR en búið er að eyða öllum sparnaði, þ.á.m. lífeyrissparnaði framtíðar í botnlausa og óyfirstíganlega skuldahítina!  Þetta eru fjölmörg íslensk heimili búin að gera, en horfast samt í augu við vonlausa stöðu.  Er ekki einmitt AGS og erlendir kröfuhafar að fá núna greitt úr hinum almennu lífeyrissjóðum landsmanna?  Kaup Framtakssjóðsins á 70% hlut í Vestia eru hrein staðfesting á því hvað verið er að gera!  Þeir fjármunir enda í vasa kröfuhafa Landsbankans, en eftir sitja lífeyrissjóðirnir með yfirskuldsetta Húsasmiðju, Plastprent, Vodafone og fisksölufyrirtæki (það var reyndar aflúsað af 30 milljörðum og framkvæmdastjóri þess um leið!).

Hin endanlega niðurstaða verður sú sama; "Sovereign default"...

Stúdent (IP-tala skráð) 22.9.2010 kl. 18:11

13 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Eftir að ég ritaði þessa færslu og þá síðustu, þá hef ég fengið fullt af ábendingum frá fólki sem stóð nær atburðarásinni á þessum tíma en ég gerði.  Niðurstaða þessara ábendinga er mjög einföld:

Kaupþing vissi haustið 2007 að bankinn stefndi í greiðsluþrot á næstu mánuðum þar á eftir.  Eigendur bankans voru varaðir við og þess vegna fór í gang mikil uppkaup á gjaldeyri hér á landi og lífeyrissjóðirnir voru ginntir til að taka þátt í þessu frá hinni hliðinni.  Á sama tíma var lokað fyrir útlán eins og hægt var.  Þeir sem ekki fylgdu þeirri stefnu gátu átt á hættu að missa vinnuna.

Staða Landsbankans var orðin vonlaus í árbyrjun 2008.  Hann asnaðist til þess að setja innstæður á Icesave-reikningunum inn á gjaldeyrismarkað hér á landi, þegar gengið var sterkt.  Eftir að krónan veiktist varð gríðarlegur halli á skuldbindingum bankans gagnvart þessum reikningseigendum og eignum bankans í íslenskum krónum.  Bankinn átti ekki fyrir þessum skuldbindingum og var því í reynd kominn í greiðsluþrot.

Eigendur Glitnis voru margir í raun komnir í greiðsluþrot haustið 2007, þrátt fyrir útgáfu skuldabréfa sem sjóðir Glitnis keyptu.  Því var gripið til þess ráðs að gefa út meira af skuldabréfum og aftur keyptu sjóðirnir, nema að sjóðirnir voru því sem næst tómir.  Var þá brugðið á það ráð að telja viðskiptavini á að færa fé af sparifjárreikningum yfir í sjóðina.  Starfsmönnum var stillt upp við vegg:  Annað hvort gerið þið þetta eða þið komið ekki til vinnu á morgun.  Þegar ljóst var að bankanum yrði ekki bjargað, var farin önnur umferð svo hægt væri að borga völdum viðskiptavinum út inneignir sínar í sjóðunum.

Allir bankarnir létu sjást vel í fallöxina.  Ef þú varst ekki "liðsmaður" og "spilaðir með liðinu", þá var viðkomandi sagt upp.

Það sem gerðist innan bankanna og líklegast SPRON og BYR líka frá seinni hluta árs fram að hruni myndi mjög víða flokkast undir skipulagða glæpastarfsemi.

Marinó G. Njálsson, 22.9.2010 kl. 21:01

14 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þú ert duglegur að afla upplýsinga og miðla þeim Marinó. Ég dreg ekkert af þeim í efa, er hvorki í aðstöðu til eða hef nokkra ástæðu til að gera slíkt.

Tek undir með þeim sem skrifað hafa hér á undan sem spyrja, hver hefði haft nægt vald, nægann kjark og næga burði til að setja bankana á hliðina fyrr.

En skaðinn hefði óneitanlega orðið minni.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 22.9.2010 kl. 23:28

15 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Mjög góð samantekt og upplýsingar.  Spurningin sem ég hef oft velt fyrir mér er sú að ef að alþjóðakreppan hefði ekki skollið á einmitt á þessum tíma, þá er alveg eins víst að íslensku bönkunum hefði tekist að halda þessari starfsemi áfram í einhvern tíma, e.t.v. einhverja mánuði.  Alþjóðakreppan, þó hún hafi vissulega haft áhrif á Íslandi, var ekki ástæðan fyrir bankakreppunni á Íslandi.  Ástæðan þar var þekkingarskortur, græðgi, siðspilling og brjálæðislegur oflátungsháttur þeirra sem áttu bankana og þeirra sem stjórnuðu þeim.  Ef við segjum að Lehman Brothers hefði ekki fallið fyrr en Mars 2009, þá hefðu þessir menn haft 6 mánuði í viðbót til þess að safna inn á Icesave, safna skuldum og koma Íslandi á enn meira bólakaf en þeim tókst.  Það er bara ekki til hjá mér vottur af hugsun um að bankamenn, stjórnmálamenn eða ríkisstjórn hefðu gert nokkurn skapaðan hlut í málunum.  Þessi bolti var alltof stór fyrir þá til þess að ráða við og hafði verið árum saman.

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 26.9.2010 kl. 06:51

16 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll aftur,

Datt í hug að bæta því við að ef bankarnir hefðu verið teknir í gjörgæslu snemma árs 2008 þá hefði það verið FME sem hefði komið inn sem meðvirkur stjórnaraðili hjá bönkunum, ekki rétt?  Það hefði gefið FME aðgang að gögnum sem við vitum núna að sýndu mjög vafasama stjórnarhætti, viðskiptahætti og bókhaldshætti bankanna.  Ég held að það hafi verið það sem þeir voru hræddastir við.  Það hefði verið erfitt fyrir þá t.d. að útskýra billjón króna útlán til Bónus "veldisins" þegar "veldið" virtist gjaldþrota.  O.s.frv. 

Hvort sem þetta skeði fyrr eða síðar, þá hefðu afleiðingarnar orðið slæmar, öðruvísi e.t.v. en samt slæmar.  Það er hægt að velta fyrir sér "hvað ef" spurningum endalaust og reyna að sjá hvað hefði orðið öðruvísi en þegar öllu er á botninn hvolft eru svörin lítið annað en getgátur.  Það sem er mikilvægt er að menn læri af mistökunum og ég er bara alls ekki viss um að það sé að gerast, því miður.

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 26.9.2010 kl. 16:36

17 Smámynd: Júlíus Björnsson

Alþjóðakreppan virðist í ljósi reynslunnar tengjast kauphöllum og  vera nauðsynleg til að viðhald starfsemi þeirra. Ég tel að flestar reynslu fjármála ættarveldi eða fjölskyldur telji 30 ár eðlilegt hámarks tímabil milli stóru kreppu uppgjöranna á langtíma lánum í þeirra efnahags reikningi. Margt bendir til þess að Alþjóðakreppan hafi byrjað að láta kræla á sér um 1980, en til að fresta henni hafi flest verið gert sem mannlegu valdi er mögulegt. Um þetta leyti byrjuðu [utan Íslands] hlutabréf í stórmörkuðum millistéttarinnar að  falla í verði, og áherslu urðu síðan á smásölu með ekkert birgðahald og heildsalar breytistu í smásölu birgðahaldara, í þjónustu smásölukeðja.  Hinsvegar byrjuðu bréf um 1990 að falla í þessu nýja millistéttar smásölu keðjum.

Lánadrottnar að draga úr veltu samdrætti fóru samátt og smátt að slaka á veðkröfum  og lengja langtíma lán til að sýna lægri nafnvexti á þess að lækka raunvaxtakröfuna. Ísland skar sig úr hér var raunvaxta krafa örggra langtíma veðskulda bréfa margfölduð og var orðin minnst 5,8% á íbúðalánshúsnæði almennings um aldamótinn 2000, Hún er hinsvega á bilinu 1,79% -1,99% í London í dag eins og síðustu aldir á þessum örugga verðtryggða veðssafnaflokki, með raunhæfu veði í greiðslugetu millstéttarinnar á 30 ára lántímanum.

5,8/1,79 = 3,24. Það er ríflega 3 sinnum hærri á Íslandi.

Við erum að tala um 2.000.0000 í raunvexti [leigu] af 10.000.000 erlendis á 30 árum en 6.480.000  hér þegar búið er niðurgreiða fyrstu 10.000.000 um 2.000.000 hér en á yfirlitum íbúðlánsjóðs má sjá að þessi raunvaxtakraf er um 8.000.000 og vex ef verðbólga er sú sama og í UK næstu 30 ár um 3.000.000 ef er í rauninni 11.000.000 í 3,4% verðbólgu á ári næst 30  árin.

Hér [á Íslandi] kunna menn ekki í 50 ár að reka örugga veðskuldar íbúðalánssjóði almennra neytenda, það er sannlegt í aygum þeirra sem kunna það og skilja hefið og lög alþjóðsamfélgsins um Morgage loans, líka kölluð hypoteck [Þýskaland, Frakkland]. Annuitet munu þau kölluðu í Svíþjóð. Aðal skuldarhöfuðstóll þar samstendur úr 360 undir veðskuldabréfa-höfuðstólum sem kallast af almenningi [og fávísri hagstjórn hér] greiðslur.  Aðal Höfuðstóll á hverjum tíma er summa undir höfuðstóla sem eftir er að greiða: ekki gjaldfalnar.

Ekki gjaldfalnar merkir að þær er ekki hægt að verðtryggja [vaxtaleiðrétta] miðað við breytingu neysluvísitölu frá sameiginlegum útgáfu degi til gjaldaga hverra greiðslu um sig.

Rangtúlkun á þessu hefur frá upptöku negam neikvæðu veðlosunarformanna Íslensku fært gífulegar eignir [ólöglega] á fárra hendur þér á landi.

Hversvegna gilti hér áður fyrr að lánsfjárhæð  miðað við 2/3 á nýbyggingarkostnaði fasteignarinnar að veði?

Það var vegna þess að 1/3% var hámarks raunkrafan. Heildar skuldin að veði miðað við lántíma jafngreiðsluformsins er lánfjárhæð + raunvextir ef vexir eru breytilegi annars kalla þetta grunnvextir fram að síðasta gjaldadaga.

Ísland er vanþroskað menntalega í þessum skilningi á alþjóðavísu.

Skilur ekki hvernig á að reka almenna veðlánasjóði með langtíma öruggi að leiðarljósi. 1/3 af verði nýbyggingar verði fasteignar er lámarka viðhaldskostnaður á 30 árum.  Þannig að útlendingar er að skuldsetja sig fyrir 130% af nýbyggingar verði fasteigarinnar að veði að eigin vali. Íslensku almenningur er neyddur til að skuldsetja sig fyrir skálduðu markaðsverði miðað við 240%. 210% þeir fátækustu þökk niðurgreiðslunum.  

Ég er sammála efnahagstjórunum þroskðar ríkja 80& veðskuldasafna almennings verður að reka hefðbundið.

Þess tel ég þá Íslensku sannanlega vanþroskaða fyrir að lítisvirða góðar fyrirmyndir.

Júlíus Björnsson, 26.9.2010 kl. 20:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 81
  • Sl. viku: 276
  • Frá upphafi: 1680564

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband