Leita í fréttum mbl.is

Illur fengur fjármálafyrirtækja fellur í kramið hjá Moody's

Ég er kominn með nóg af þessu bulli sem er í gangi hér á landi.  2006 og 2007 undirbjuggu eigendur og stjórnendur nokkurra fjármálafyrirtækja ófyrirleitna aðför að íslenska hagkerfinu.  Hluti af plottinu var að skuldsetja heimili og fyrirtæki landsins ýmist í erlendum gjaldmiðlum eða verðtryggðum lánum.  Þegar búið var að ná nægilegri skuldsetningu gerðu þessir aðilar atlögu að íslensku krónunni.  Fremstir í flokki fóru eigendur Kaupþings og Glitnis, en til þess fengu þeir drjúga aðstoð frá stjórnendum Landsbankans, sem dældu innstæðum af breskum Icesave-reikningum inn á íslenskan gjaldeyrismarkað.  Markmiðið var að ná til sín eins miklu af gjaldeyrisforða þjóðarinnar og hægt var og búa síðan til gjaldeyrisskort.  En ekki er hægt að eiga í svona viðskiptum nema fá mótaðila í viðskiptunum.  Nokkrir nytsamir sakleysingar voru blekktir til að taka stöðu á móti "fjármálasnillum".  Bragðið tókst.  Gengið féll hraðar en steinn af bjargbrún.  "Fjármálasnillarnir" græddu á tá og fingri, en lífeyrissjóðirnir, almenningur og almenn fyrirtæki sitja uppi með tapið.  Lífeyrissjóðirnir þurfa að borga fyrir að vera nytsamir sakleysingjar, en almenningur og fyrirtæki með því að lán þeirra hafa hækkað upp úr öllu valdi.

Einhvern tímann hefði þetta verið kölluð fjársvik.  En vegna þess að þetta var gert í gegn um fjármálafyrirtæki með leyfi til alls konar viðskipta, þá virðist þetta löglegt.  Það sem meira er, kröfurnar sem myndast hafa á lífeyrissjóði, almenning og fyrirtækin í landinu eru varðar af eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar!  Maður hefði nú haldið að stjórnvöld væri æst í að leiðrétta þessa vitleysu, enda er drjúgur hluti fyrirtækja landsins tæknilega gjaldþrota, tugir þúsunda heimila ná ekki endum saman og lífeyrissjóðir landsins sitja uppi með tap upp á fleiri hundruð milljarða.  Að ég tali nú ekki um byrðarnar sem lagðar eru á skattborgara.  Viðbrögð stjórnvalda voru náttúrulega að frysta eignir "fjármálasnillanna" og sækja þá til saka, krefja fjármálafyrirtækin um að lækka höfuðstól lána og afskrifa það sem nam fjársvikunum og styðja við endurreisn atvinnulífs í landinu.  Nei, þetta er það sem ríkisstjórn alþýðunnar myndi gera, en við erum með ríkisstjórn vinstri flokka og hún verndar auðvaldið.  Viðbrögð stjórnvalda voru að vernda innstæður "fjármálasnillanna", þannig að þeir töpuðu engu af hinum illa fengna auði sínum, sett voru lög sem bönnuðu lögsóknir gegn fjármálafyrirtækjunum sem svindluðu á viðskiptavinum sínum, önnur lög sem tryggðu að fólk og fyrirtæki gætu örugglega greitt eins mikið og mögulegt er til fjármálafyrirtækjanna af tekjum sínum og sparnaði.  Frá þeim tíma hafa yfir 50.000 einstaklingar tekið út yfir 42 milljarða til að greiða afborganir lána sinna.  Um þessar mundir eru yfir 2.000 beiðnir um nauðungarsölur í ferli og fjármálafyrirtæki hafa þegar eignast meira en 1.500 íbúðir einstaklinga sem ekki gátu staðið í skilum.  Þetta er glimrandi uppskrift að auðsöfnun sem "fjármálasnillarnir" fundu upp.  Svindlum bara nógu mikið og svínum á viðskiptavinum okkar og stjórnvöld, FME og Seðlabanki Íslands munu sjá til þess að við eignumst allt.  Koma meira að segja með það færandi á silfurfati.  Nú ef dómstólar eru með einhvern derring, þá breyta embættismenn lögum og loka fyrir þann leka.

Svo má ekki gleyma því, að sé maður nógu skuldugur, skuldar t.d. 10 milljarða eða meira, þá fær maður ekki bara 90% fellt niður heldur fær að halda öllum eignum sínum.  Skuldi maður aftur 2 milljónir, þá þarf maður að borga í topp eða allt er hirt af manni.  Mér finnst þessar innheimtuaðferðir fjármálafyrirtækjanna dálítið snúast um að hirða aurinn og kasta krónunni.  Skýringin á eftirgjöfinni til þeirra stórskuldugu er að þeir séu ómissandi fyrir fyrirtækið!!  Það er svo mikið helv.. bull að ég furða mig á slíkum málflutningi.  Ef ég væri lánadrottinn ónefnds stórfyrirtækis og ég væri nýbúinn að tapa 10 milljörðum af kröfum mínum, þá myndi ég aldrei vilja eiga viðskipti aftur við þá stjórnendur sem kostuðu mig 10 milljarða.  Þessi klisja um mikilvægi lykilstjórnenda er bölvað kjaftæði.  Staðreyndin er sú, að hér á landi er fullt af fólki sem er alveg jafn fært í að tapa 10 milljörðum og gömlu stjórnendurnir, en svo er líka mögulegt að það hafi hæfileika á sviði stjórnunar og rekstrar.  Margt af því er að vísu á sextugs- eða jafnvel sjötugsaldri og hefur áratugareynslu í stjórnun og rekstri.   Æi, það er náttúrulega of hæft í starfið og gæti náð að byggja fyrirtækið upp að nýju. 

Málið er, að svo virðist, sem bakvið tjöldin í nýju bönkunum séu gamlir hundar sem eiga að tryggja að "fjármálasnillarnir" haldi sínu.  Þetta eru sömu aðilarnir og lánuðu hinum og þessum útrásarvíkingi milljarða tugi sem síðan hurfu án þess að nokkur skilji hvað varð um þá.  Það er t.d. alltaf áhugavert að heyra skýringar Pálma í Fons á því hvað varð um peningana sem fóru í gegnum félögin hans.  Það virðist sama hve háar fjárhæðir voru settar í sýndarviðskipti í fyrirtækjum hans, peningarnir finnast ekki, en skuldirnar eru út um allt.  Eða aumingja Jón Ásgeir, sem hefur breyst frá því að vera með einkaneyslu upp á 2 milljarða árið 2007 í það að vera á framfæri konunnar sinnar.  Það er eins gott að hún á fyrir salti í grautinn.  Já, snilld "fjármálasnillanna" er svo mikil að þeir nenna ekki einu sinni að koma með sennilegar skýringar á svindlinu sínu.  Þeir nefnilega komast upp með allt á kostnað okkar almennings.

Aftur að þessu með stjórnarskrárbundna vernd eignarréttarins.  Þetta er svo mikil steypa að það tekur engu tali.  Hvernig getur eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar varið kröfurétt fjármálafyrirtækis á hendur einstaklingi eða fyrirtæki, þegar fjármálafyrirtækið skapaði þær aðstæður sem valda því að einstaklingur eða fyrirtækið geta ekki staðið í skilum?  Mér er bara alveg sama þó lögin segja að krafa sé krafa og hana eigi að greiða.  Krafan er illa fengin og þess vegna á hún ekki að njóta verndar stjórnarskrárinnar.  Tökum alveg gjörsamlega fáránlegt dæmi:  Banki A stóð fyrir (samkvæmt skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis) miklu svindli með hlutabréf fyrirtækisins, þar sem röð sýndarviðskipta var notuð til að blekkja markaðinn og láta fjárfesta halda að fyrirtækið væri einhvers virði.  Maður lætur blekkjast og kaupir hlutabréf með láni frá bankanum og veði í húsinu sínu.  Bréfin urðu verðlaus, en bankinn vill fá húsið.  Nú heitir bankinn nýju nafni og hann innheimtir lánið.  Blessaður maðurinn hefði aldrei aldrei keypt hlutabréf í A hefði hann vitað að verðhækkun hlutabréfanna var byggð á sýndarviðskiptum.  Hann hefði aldrei keypt bréfin, ef hann hefði vitað að árshlutauppgjör bankans síðustu 4 - 6 skipti voru eingöngu jafn ótrúlega góð vegna þess að endurskoðendur bankans tóku þátt í svindlinu eða voru ekki hæfir til verksins (mér er sama hvort er).  Hann vissi ekki að lögfræðideild bankans var búinn að spinna vef eignaflækju og fela þannig að raunverulegur eigandi stórs hluta hlutabréfa voru ekki eignarhaldsfélög nytsamra sakleysingja heldur bankinn sjálfur sem með því braut lög.  Og greiningadeild bankans sem átti að heita sjálfstæð og óháð eining innan bankans, sendi frá sér hagspár, spár um gengi og verðbólgu sem gáfu í skyn að allt væri í lukkunnar velstandi í þjóðfélaginu, þegar í reynd starfsmenn deildarinnar urðu að passa sig á því hvar þeir stigu niður, þar sem svo margar stoðir bankans voru fúnar að við eitt óvarlegt skref, þá duttu menn af efstu hæð og niður í kjallara.  Nei, blessaður nýi bankinn fær kröfur sínar varðar af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, þrátt fyrir að allt, já ALLT, í starfsemi bankans var meira og minna gegnsýrt af svindli, blekkingum og svikum og þrátt fyrir að ekki eitt einasta orð talsmanna bankans undanfarin 2 ár fyrir hrun var sannleikanum samkvæmt.

Ég býð eftir þeim degi, þegar stjórnvöld þessa lands ákveða að taka upp hanskann fyrir fórnarlömb hrunsins.  Ef þau hafa ekki dug í sér til að gera það, þá er tími til kominn, að efnt sé til kosninga.  Heimilin í landinu eiga ekki að endurreisa bankakerfið með eigum sínum.  Fyrirtækin í landinu eiga ekki að endurreisa bankakerfið með eigum sínum.  Og bankakerfið á ekki að endurreisa sjálft sig á grunni myrkraverka fyrirrennara sinna.  Bankarnir eiga að sjá sóma sinn í að leiðrétta misgjörðir fyrirrennara sinna, skítt með eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.  Þetta snýst um mun meira.  Þetta snýst um að endurreisa þjóðfélag sem verður eftirsóknarvert, en ekki refsing, að lifa í.


mbl.is Hæstaréttardómur dregur úr óvissu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær grein hjá þér. Þurfum við fólkið ekki að fara standa upp og fjarlæga þetta lið, af þinginu, ASí og úr bönkunum. 

Bragi Guðmundsson (IP-tala skráð) 21.9.2010 kl. 00:18

2 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

- gæti ekki verið meira sammála þér!!!!!!!!!!!!!

Vilborg Eggertsdóttir, 21.9.2010 kl. 00:59

3 identicon

Beint til ESA og EFTA með þetta, öllum má vera orðið ljóst að lög og réttur almennings koma bara erlendis frá.

Hópmálssókn innanlands lendir í bakherbergjum hæstaréttar þar sem fyrirfram ákveðnar "lausnir" eru ræddar fyrst, svo er smíðaður texti sem passar nokkurn vegin við "lausnina".

HH verða því miður að meta það í fullri alvöru hvort það sé tíma og fyrirhafnarinnar virði að sækja rétt sinn hér á landi.

Gríman féll á alþingi í dag, enginn ber ábyrgð. Féll í hæstarétti þar áður í síðustu viku, lögum er breytt afturvirkt glæpafyrirtækjum í hag. Hún mun falla aftur þegar alþingi setur lög sem heimfæra dóm hæstaréttar á alla skuldara.

Held það sé orðið tímabært að ísland fái þá landkynningu sem það verðskuldar hjá ESA og EFTA. Einkum og sér í lagi stjórnkerfið og dómstólarnir.

Það er eitt að ræna banka. Annað að ræna þjóð. 

sr (IP-tala skráð) 21.9.2010 kl. 01:09

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég fékk símtal í dag frá ESA.  Blaðamenn farnir að sýna þessu áhuga.  Ljóst er að menn reikna ekki með því að fá réttlætið hér innanlands.  Ég mun leyfa fólki að fylgjast með, en næsta skref er að reyna samningaleiðina hér innanlands.

Marinó G. Njálsson, 21.9.2010 kl. 01:17

5 identicon

Sæll Marinó.

Fín grein hjá þér, en samt ekkert nýtt...  Þetta er allt satt og rétt, það er búið að segja þetta allt saman margoft - en það breytir bara ekki neinu.  Hér mun ekkert breytast, fyrr en fólk sýnir samstöðu og tekur málin í eigin hendur.  Það er hægt að gera með ofbeldi og blóðsúthellingum.  Það er líka hægt með lýðræðislegum aðferðum, kosningaseðillinn er gríðarlega beitt vopn, ef samstaða næst um að beita því.

Hvað sem örðu líður, þá erum við í HH búin að fylgjast með ykkur í forystu samtakanna heyja hverja baráttunna á fætur annarri, en þær tapast því miður allar.  Nú talar þú enn um að reyna "samningaleiðina", þrátt fyrir innblásinn pistil.  Marinó!  Það vill enginn semja við HH.  Við verðum að fara að átta okkur á því og grípa til annarra úrræða í baráttunni.  Komum fjármálaelítunni (og um leið spilltu pólitísku kerfi) á kné, með samstilltum aðgerðum.  HÆTTUM AÐ BORGA!

Grútur (IP-tala skráð) 21.9.2010 kl. 01:32

6 identicon

Hér er innlegg mitt á bloggi Egils Helgasonar í gær um eignarréttarhliðina og dóm Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 þann 16. september 2010:

Í Silfri Egils í gær lét Lilja Mósesdóttir svo ummælt að eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar stæði í vegi fyrir nauðsynlegum aðgerðum vegna húsnæðisskulda þúsunda heimila.

Hér vísast til þess að SKULDIR heimilanna eru EIGNIR kröfuhafa.

Með dómi sínum varðandi vexti gengistryggðra lána í síðustu viku ruddi Hæstiréttur þessari hindrun úr vegi - að vísu óafvitandi.

Afturvirk hækkun á samningsvöxtum lækkar núvirði eigna skuldara og hækkar núvirði eigna kröfuhafa - og jafngildir eignaupptöku ÁN FULLRA BÓTA sem er stjórnarskrárvarinn réttur SKULDARA.

Með dómi sínum skapaði Hæstiréttur fordæmi fyrir bótalausri eignaupptöku - þar með er mikilvægustu hindrun rutt úr vegi fyrir leiðréttingu á verðtryggðum lánum heimila landsins.

Þ.e.a.s. ef jafnræði er með þegnum landsins gagnvart réttarkerfinu.

Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 21.9.2010 kl. 01:37

7 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Eignarýrnun okkar almennings, er gríðarleg.  Stjórnvöld hafa ekki gert neitt til þess að leiðrétta kjör okkar... Það er greinilegt að það verður að fara í almennan niðurskurð.  20% til 30%   ég veit ekki réttu töluna.  Ég er enginn stærðfræðingur...  En ég hef réttlætiskennd og minni réttlætiskennd er stórlega misboðið...

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 21.9.2010 kl. 01:39

8 identicon

Eigendur bankanna tóku bara sýnishorn útúr bönkunum til að auglýsa kringum sig hvernig gengi með bankann.

Svo tóku þeir meira og meira af sýnishornum því engin stoppaði þá, það er við bankastjórana að sakast hvernig komið er fyrir þjóðinni.

Kristján Steinarsson (IP-tala skráð) 21.9.2010 kl. 02:29

9 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

- við, fólkið í þessu landi getum auðveldlega fellt þessi vernduðu fjármálafyrirtæki!

Við einfaldlega hættum að borga, - öll sem eitt -!

Við semjum ekki um neitt,- við viljum nýtt efnahagsumhverfi sem við sjálf ákveðum hverning það verður uppbyggt.

Við höfum þetta í hendi okkar krakkar að gera þetta!

Við vitum að þessi þjóð er gjaldþrota og það þarf að stokka þetta allt upp, en við getum það ef við ákveðum það.

Enough is enough!

~ WE ARE THE PEOPLE ~

~ o ~

Vilborg Eggertsdóttir, 21.9.2010 kl. 03:42

10 identicon

Frábær grein sem fangar vel það gríðarlega ranglæti sem við fólkið í landinu eigum að sætta okkur við.  Fyrir hverja eru þessu vesælu stjórnvöld að vinna ?  Það verður að koma þessu stórkostlega óhæfa fólki frá með öllum tiltækum ráðum. 

Gunnar (IP-tala skráð) 21.9.2010 kl. 08:53

11 Smámynd: Dingli

Sæll Marinó.

Er ekki hreinlega runnin upp örlagastund? Ef undirbúningur Byltingar verður ekki hafin nú þegar, þá er margt sem bendir til þess að  Íslensk þjóð verði ofurseld þrælahöldurum alla þessa nýhöfnu öld a.m.k.

Það er ekki um neina dómstóla eða samningaleið að velja lengur! Það verður að moka skítnum burt svo líft verði á skerinu.

Sá fjöldi afburðafólks sem staðið hefur í harðri baráttu fyrir hálf lamaða þjóðina undanfarin misseri, þarf að taka sig saman og útbúa stofnskrá nýs lýðveldis.

Íslendingar eru það heppnir að búa í landi sem er svo ríkt af auðlindum, að íbúar þess eiga ekki að þurfa að þræla sér út frá tvítugu til dauðadags til að eignast eigið húsnæði. Það álag sem er á fjölskyldum er borga ca. 200þúsund á mán. án eignamyndunar og sjá fram á að gera slíkt næstu 40ár, hlýtur að gera alla heilsulausa.

Alltaf eru fleiri og fleiri sem átta sig á ömurleika þess að vera orðnir skuldaþrælar fyrir lífstíð. Vel menntað fólk í góðri vinnu sem sér fram á að allur arður af lífsstarfi þess muni renna í vasa glæpamanna verður nú að ganga framfyrir skjöldu og gera eitthvað!

Nýjasta útspil Jóhönnu Sigurðardóttur á vitleysingjahælinu gæti nægt til að meðspilarar hennar fái nóg af endalausu svindli þeirrar heilögu, og ef nú skuldarar fasteignalána hætta að borga eins og margt ábyrgt fólk leggur til, verður sjóðþurrð hjá glæpahyskinu og kerfi þess hrynur. Þegar það gerist, verður nákvæm áætlun endurreisnar að vera klár því annars éta hrægammarnir okkur.

Ekki er því seinna vænna en hefjast handa, safna skóflum og kústum, og búa sig undir að moka fjósið. Síðan er nauðsynlegt að sótthreinsa allt kerfið með klór og vítissóta.  

Dingli, 21.9.2010 kl. 09:05

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Marínó.

Ljósið í myrkrinu skín hér.

Við þurfum ríkisstjórn alþýðunnar.  Ef ríkisstjórn vinstri flokkanna væri ekki við völd, þá væri athugasemdarkerfi þitt sprungið.

Segir allt sem segja þarf um ógæfu þjóðarinnar. 

En á meðan einhver orðar hugsanir fólks, þá er von.

"Keep on running".

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 21.9.2010 kl. 09:10

13 Smámynd: Inga Sæland Ástvaldsdóttir

Góð og gegn samantekt hjá þér Marinó eins og alltaf. Nú er svo komið að ég tel að ekkert sé í kortunum sem heitir samningar hitt eða samningar þetta, ég er sammála Dingla hvað það varðar, það þurfa hausar að fara að fjúka ef eitthvað á að gerast til hagsbóta fyrir heimilin.  Ég sé kosningar ekki leysa neinn vanda, þar er hver silkihúfan upp af annari af spilltum vanhæfum einstaklingum sem eru ekkert skárri en vanhæfa stjórnin sem nú situr.  Við vitum það öll að það skiptir engu hverju þessir aðilar lofa fyrir kosningar, það er nákvæmlega EKKERT  að marka þá. Ég sé ekkert í stöðunni annað en að fjórflokkurinn verði sprengdur í loft upp og einstaklingskosningar eins kjördæmis verði teknar upp, mér sýnist því miður að menn séu búnir að gleyma því hverjir það voru sem gerðu hrunið að veruleika með fádæma heimsku sinni. Mér dettur bara einn maður í hug, sami maður og afnam bindiskyldu bankanna sem gerðu þeim kleift að ljúga, svíkja og pretta eins og þeir gerðu. Auðvitað er það magnað ef við tækjum okkur öll saman og hættum að borga en því miður er aldrei nein samstaða hjá blessaðri þóðinni, alltaf örfáir aðilar sem eru tilbúnir í baráttuna en þorrinn situr heima við eldhúsborðið og kvartar þar án þess að vilja taka alvöru þátt í einu eða neinu.

Inga Sæland Ástvaldsdóttir, 21.9.2010 kl. 12:04

14 Smámynd: Jón Ragnarsson

Kosningar? Til hvers? Vill fólk virkilega fá Bjarna Vafning sem forsætisráðherra?

Að öðru leiti er þetta alveg hárrétt hjá þér Marínó.  Ég spyr mig í hverri viku af hverju ég er að borga glæpafyrirtæki hærri vexti af því að þetta sama fyrirtæki (hvað sem líður kennitöluflakki) tók stöðu gegn krónunni og mínum efnahag?

Jón Ragnarsson, 21.9.2010 kl. 13:13

15 identicon

100% rétt hjá þér Marinó.

Það jákvæða þó við dóm Hæstaréttar er að það er hægt að breyta samningum eftirá og þá er örugglega hægt að breyta verðtryggðu lánunum? Og jafnvel einverjum öðrum samningum líka... Það hlýtur að vera fordæmi í báðar áttir? Og hvað með eignarrétt þess sem lagði segjum fram 20% eigið fé í viðskipti? Hvað með hans eignarrétt. Nú þarf að keyra í allt og alla á öllum vígstöðvum í einu og láta aðeins finna fyrir sér eins og "fíll í glervörubúð".

Magnús Orri Einarsson (IP-tala skráð) 21.9.2010 kl. 13:35

16 Smámynd: Karl Ólafsson

Góð athugasemd hjá Gunnari Tómassyni hér fyrir ofan og reyndar ansi mikilvægt innlegg í umræðuna:

"Afturvirk hækkun á samningsvöxtum lækkar núvirði eigna skuldara og hækkar núvirði eigna kröfuhafa - og jafngildir eignaupptöku ÁN FULLRA BÓTA sem er stjórnarskrárvarinn réttur SKULDARA."

Þessi spurning um stjórnarskrárvarin eignarrétt bar á nokkrum stöðum á góma í þessari rökræðu hér. T.d. með þessari athugasemd hér:

"Peningar eru stjórnarskrárvarin eign sem sparifjáreigendur hafa rétt til að verja og ekki má skerða eign nema bætur komi fyrir."

Kannski felst lykilmisskilningur þess sem hélt þessu fram að það væru peningar sem væru stjórnarskrárvarin eign. Eign er eign. Ef banki lánar mér pening fyrir 70% af húsnæði mínu, hvort ver þá stjórnarskráin verðgildi þess penings sem mér var lánaður, eða 70% af húseigninni minni? Hvernig er það stjórnarskrár varinn réttur lánveitandans að hann megi ganga að 30% eign minni í húsnæðinu og jafnvel lengra umfram það, vegna þess að bensín, áfengi, mjólk og skattar hækka í verði? Hvernig geta verðbætur orðið að stjórnarskrárvarinni eign einhvers?

Þá skella menn gjarnan fram gamalli klisju um að ef maður lánar öðrum manni hest, þá vilji hann jú fá hest til baka. Hesturinn eldist náttúrulega og þess vegna er jú eðlilegt að um semjist að nýting hestsins beri gjald (vexti), en stjórnarskráin getur varla varið annað en hestinn sem slíkan.

Stjórnarskráin ver eignarrétt að tiltekinni eign, en ég get ekki samþykkt að stjórnarskráin geti varið 'rétt' eigandans til þess að eignin rýrni ekki. Hvernig á stjórnarskráin að geta varið slíkt, nema hún skerði þá rétt annars til hins sama? Ég held því fram að á þetta verði einfaldlega að reyna fyrir dómstólum og það er væntanlega það sem mun gerast í fyrirhugaðri hópmálsókn sem rætt hefur verið um síðustu daga.

Karl Ólafsson, 21.9.2010 kl. 16:56

17 identicon

Takk fyrir þetta Marínó. Ég held að það sé komið að alvöru byltingu.Kvikan er rétt við yfirborðið.

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 21.9.2010 kl. 19:03

18 identicon

Það virðist alltaf aftur og aftur gleymast að forsendu brestur var einnig á lánum tekin hjá Íbúðalánasjóð. Þar eru viðskiptavinir sem urðu fyrir nákvæmlega sama tapinu vegna verðtryggingar líkt og viðskiptavinir bankanna.

Það sem þarf að gera er að gera atlögu að íbúðalánasjóð. Viðskiptavinir hans þurfa allir sem einn að hætta að borga og þá fyrst mun ríkið taka við sér og setja lög.  En því miður myndi þjóðin aldrei taka sig saman.

Eins og einn sagði fyrir ofan þá eru það alltaf nokkrir hugrakkir í þjóðfélaginu sem þora og hinir sitja á kaffistofunni "gott hjá þér!"

Dísa (IP-tala skráð) 21.9.2010 kl. 22:29

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Dísa, mig langar bara að rifja upp enn og einu sinni að krafa Hagsmunasamtaka heimilanna hefur verið frá upphafi 4% þak á verðbætur verðtryggðra lána frá 1.1.2008.  Sú krafa stendur ennþá og hefur ekkert breyst.  Samtökin hafa einnig stungið upp á að gengistryggð lánum verði breytt í verðtryggð lán miðað við stöðu þeirra 31.12.2007 og taki þetta sama þak eftir það.  Við teljum þetta vera sanngjarnar og réttlátar kröfur sem gætu komið á sátt í þjóðfélaginu. Íbúðalánasjóður væri ekkert undanskilin eða lífeyrissjóðirnir og raunar væri alls ekki óeðlilegt að innstæðueigendur verðtryggðra reikninga sem féllu utan innstæðutrygginga gæfu tækju líka á sig slíkt þak.

Marinó G. Njálsson, 21.9.2010 kl. 23:23

20 Smámynd: Billi bilaði

Ekki halda niðri í þér andanum á meðan þú bíður. Það væri stórhættulegt.

Billi bilaði, 22.9.2010 kl. 07:55

21 identicon

Eina leiðin til þess að hafa áhrif er að hætta að taka þátt í ruglinu með því að hætta að dæla peningum í þessar glæpastofnanir. HÆTTUM að greiða af lánunum okkar og neitum síðan að afhenda eignirnar okkar. Þeir hafa ekki mannafla til þess að bera alla út nema á löngum tíma. Eflum Heimavarnarliðið, stöndum saman í að verja heimilin fyrir bankaræningjunum! Förum síðan öll saman í mál við allt draslið. VAKNIÐ ÍSLENDINGAR, ÞAÐ ERU ÞJÓFAGENGI AÐ RÆNA YKKUR ALEIGUNNI OG FRAMTÍÐINNI!!!

Stefanía Arna Marinósdóttir (IP-tala skráð) 22.9.2010 kl. 12:50

22 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Ég held að í landinu séu tvö stjórnvöld. Fólkið sem við kusum og svo fjármálaheimurinn sem fer sínar eigin leiðir og gefur okkur og stjórnvöldum bara "fokkmerki".  

Mér fannst alltaf svo undarlegt í byrjun hrunsins, þegar allt gekk út á að bjarga bönkunum!!!!   Þáverandi stjórn sem sýndi af sér mikið ábyrgðarleysi og vanrækslu kúðraði málunum algjörlega.  Það gekk allt út á að bjarga peningafólkinu og loftbólufyrirtækjum þeirra.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 22.9.2010 kl. 14:22

23 Smámynd: Sædís Ósk Harðardóttir

Frábær grein hjá þér

Sædís Ósk Harðardóttir, 22.9.2010 kl. 21:35

24 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Glæsileg greining á þessu rugli sem okkur er boðið upp á. Ég bara spyr hvenær ætlum við að láta bankamenn hætt að ræna okkur.

Sigurður Sigurðsson, 23.9.2010 kl. 01:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 211
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 192
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband