Leita í fréttum mbl.is

Hefur stefnumótun fyrir Ísland átt sér stað?

Eftir rúma vikur eru 22 mánuðir síðan Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, ákvað án samráðs við aðalhagfræðing Seðlabanka Íslands, að yfirtaka á Glitnir væri óumflýjanleg.  Þessi ákvörðun verður alltaf umdeilanleg, en henni var hrint í framkvæmd.  Hvort það var þessari ákvörðun að kenna eða einhverju öðru, þá hrundi bankakerfið með hvelli og dró hagkerfið nánast með sér í heilu lagi. 

Frá hruni bankanna eru ríkisstjórn, fyrirtæki og landsmenn búin að vera í rústabjörgun.  Við erum með fjármálakerfi, sem virðist á brauðfótum, og skuldum hlaðin og skattpínd fyrirtæki og heimili.  Stjórnvöld hafa ítrekað slegið skjaldborg um fjármálafyrirtækin til að þóknast, að því virðist ábyrgðarlausum kröfuhöfum Glitnis, Kaupþings og Landsbanka Íslands.  Kröfuhöfum sem ákváðu að ausa fé í botnlausa hít bankanna þriggja, Byr og SPRON, þar sem innandyra var hópur manna og kvenna sem héldu að bankarnir væru til þess eins að færa peninga frá almenningi og lánadrottnum til fárra útvalinna stjórnenda og eigenda fjármálafyrirtækjanna og einkavini þeirra.

Á meðan þessu hefur farið fram hefur allt annað setið á hakanum í þjóðfélaginu.  Atvinnuátakið sem talað var um í nóvember 2008 varð að engu.  Skjaldborgin um heimilin varð að engu.  Endurreisn atvinnulífsins hefur falist í því að færa fyrirtæki frá eigendum sínum inn í eignarhaldsfélög bankanna, þar sem hrunkóngarnir ráða m.a. ríkjum.  Eina lausn stjórnvalda er að hækka skatta og hirða fleiri eignir af fyrirtækjum og heimilum landsins.  Hvergi örlar á því að hjálpa atvinnulífinu eða heimilunum.  Hvergi örlar á lausnum sem hafa annað að markmiði en að færa fleiri krónur frá heimilunum og fyrirtækjunum til fjármálafyrirtækja og stjórnvalda.  Keyra á alla niður í svaðið nema nokkur fjármálafyrirtæki.

Þegar einn mánuður var liðinn frá setningu neyðarlaganna, þá skrifaði ég færsluna Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum.  Í henni stakk ég upp á eftirfarandi aðgerðahópum:

  1. Fjármálaumhverfi: Verkefnið að fara yfir og endurskoða allt regluumhverfi fjármálamarkaðarins.
  2. Bankahrunið og afleiðingar þess:  Verkefnið að fara yfir aðdraganda bankahrunsins svo hægt sé að læra af reynslunni og draga menn til ábyrgða.
  3. Atvinnumál:  Verkefnið að tryggja eins hátt atvinnustig í landinu og hægt er á komandi mánuðum.
  4. Húsnæðismál:  Verkefnið að finna leiðir til að koma veltu á fasteignamarkaði aftur á stað.
  5. Skuldir heimilanna:  Verkefnið að finna leiðir til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna í landinu.
  6. Ímynd Íslands:  Verkefnið að endurreisa ímynd Íslands á alþjóðavettvangi.
  7. Félagslegir þættir:  Verkefnið að byggja upp félagslega innviði landsins.
  8. Ríkisfjármál: Verkefnið að móta hugmyndir um hvernig rétta má af stöðu ríkissjóðs.
  9. Peningamál: Verkefnið að fara ofan í peningamálastefnu Seðlabanka Íslands, endurskoða hana eftir þörfum og hrinda í framkvæmd breyttri stefnu með það að markmiði endurreisa traust umheimsins á Seðlabanka Íslands
  10. Gengismál:  Verkefnið að skoða möguleika í gengismálum og leggja fram tillögur um framtíðartilhögun.
  11. Verðbólga og verðbætur:  Verkefnið að fara yfir fyrirkomulag þessara mála og leggja til umbætur sem gætu stuðlað að auknum stöðugleika.
  12. Framtíð Íslands - Á hverju ætlum við að lifa: Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi nýja atvinnuvegi.
  13. Framtíð Íslands - Hvernig þjóðfélag viljum við:  Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi inniviði þjóðfélagsins.

Vissulega hefur verið farið í eitthvað af þessu, en margt það mikilvægasta hefur setið á hakanum.  Hvers vegna, skil ég ekki.  Ég skil vel að nauðsynlegt sé að hafa stóran hóp manna og kvenna í rústabjörguninni, en það er ekki síður mikilvægt að horfa fram á veginn.  Ísland er alveg nógu fjölmennt land til að við getum skipt liði.  Ég bauð mig fram þá, og býð mig fram aftur, til að stjórna svona starfi.  Ég var líklegast ekki nógu þekktur þá, en hef vonandi áunnið mér traust síðan.

Staða Íslands er dálítið eins og í frægu atriði í Lísu í Undralandi.  Lísa koma hlaupandi eftir einhverjum stíg að krossgötum sem voru undir tré.  Uppi í trénu lá kötturinn.  Lísa sneri sér að honum og spurði:  Hvaða leið á ég að velja?  Kötturinn svaraði:   Hvert ertu að fara?  Lísa segir þá:  Ég veit það ekki.  Kötturinn spyr:  Hvaðan ertu að koma?  Aftur svara Lísa: Ég veit það ekki.  Þá sagði kötturinn:  Ef þú veist ekki hvaðan þú komst eða hvert þú ætlar, þá er alveg sama hvaða leið þú velur.

Jú, vissulega veit Samfylkingin hvert hún ætlar með Ísland, þ.e. inn í ESB.  Málið er að meirihluti þjóðarinnar er ekki sammála Samfylkingunni, ef marka má skoðanakannanir. 

Framtíð Íslands á ekki að byggja á því hvort farið verður inn í ESB eða ekki.  Hún á að byggja á stefnumótun þjóðarinnar fyrir þjóðina.  Stefnumótun sem getur byggt á skoðun á þeim 13 atriðum sem ég nefni að ofan eða einhverju allt öðrum atriðum.  Og síðan þegar þessari vinnu er lokið, þá fyrst erum við tilbúin að velja lausnina, ef svo má segja. ESB getur verið hluti af þessari lausn, en mér finnst að við sem þjóð eigum fyrst að ákveða hvernig þjóðfélag við viljum áður en við ákveðum hvaða "lausn" er heppilegust.

Sjálfur hef ég ekki tekið afstöðu til þess hvort rétt sé að ganga í ESB eða vera áfram utan bandalagsins.  Ástæðan er einfaldlega sú að framtíðarsýnina fyrir Ísland vantar og meðan hana vantar þá erum við í sporum Lísu:  Það skiptir engu máli hvaða leið við veljum ef við vitum ekki hvert við ætlum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Atriði #1 sem lýtur að endurskoðun fjármálakerfisins felur raunverulega líka í sér atriði #5 og frá #8 til #10, þ.e. skuldamál, ríkisfjármál, peningamál, gengismál, verðbólgu og verðbætur. Þessi atriði hanga mikið saman og hafa líka óbein áhrif á hin atriðin á listanum. Ég tel að eftir allsherjarhrun verði að fara fram heildstæð allsherjarendurskoðun á kerfinu alveg frá grunni. Það sama ætti að gilda og t.d. um flugslys sem verður vegna hönnunargalla á grunnkerfum flugvélarinnar.

Það er mér ánægja að geta sagt frá því að vinnuhópur um nýtt fjármálakerfi hefur nú þegar tekið til starfa og mun vinna að þróun hugmynda og útfærslu þeirra. Þessi hópur er þó ekki stofnaður af stjórnvöldum heldur er um að ræða sjálfsprottinn hóp áhugasamra einstaklinga sem koma úr ýmsum áttum.

Það sorglegasta er kannski að í stað þess að ráðast í slíka vinnu þá eru núverandi stjórnvöld önnum kafin við raða saman brotunum af slysstaðnum og reyna að tjasla þeim saman með heftiplástri, án þess að hafa raunverulega náð að átta sig á viðfangsefninu.

P.S. Skemmtileg tilvitnun í Lewis Carroll 

Guðmundur Ásgeirsson, 20.7.2010 kl. 20:23

2 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Marínó - alveg sammála ábendingu þinni, að þ.e. eins og Samfylking vilji ekki laga neitt, vegna þess að það má ekki grafa undan kenningunni að ESB aðild reddi öllu.

------------------------

Getur verið, að það sé veðmál Samfó - að það sé eina leiðin til að fá samþykki þjóðarinnar fyrir ESB aðild, að hér verði djúpt ástand örvæntingar?

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 20.7.2010 kl. 20:51

3 Smámynd: Elle_

Já, Evrufylkingin virðist vilja djúpa fátækt, hrikaleg lífskjör, mikla örvæntingu.  Og þá halda þau sig endanlega geta platað okkur inn í fullveldisafsalið í stórríkið þar sem stærstu löndin munu ráða yfir landinu okkar. 

Elle_, 20.7.2010 kl. 22:50

4 identicon

Er ekki nógu vel að mér  í fjármálum þjóðarinnar  til að vita nákvæmlega réttu leiðina þar, en ég veit nákvæmlega hvert ég vil ekki fara og það er inn í ESB. Svo kannski innst inni veit ég líka hvaða leið á að fara, þá leið sem er mörkuð að heiðarleika, sanngirni og trú á okkur sjálf.

Takk fyrir góðan pistil.

(IP-tala skráð) 21.7.2010 kl. 00:24

5 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ekki skal dregið neitt af því að þú hefur staðið vaktina býsna vel í ábendingum og tillögum. Fleiri hafa lagt gott til málanna og viljað koma að því að koma Íslandi í nýjan farveg. Hvorki skortir gott fólk né góðan vilja.

Vandamálið er hins vegar að við losnum ekki við þá sem voru á jötunni fyrir hrun og nutu afraksturs spillingarinnar. Þetta fólk er að mestu ennþá við völd í öllu stjórn- og fjármálakerfi landsins. Við vitum öll að það verður ekki blakað við neinum af nokkurri alvöru með þetta fólk ennþá við stjórnvölinn. Við þurfum hreinsun af toppnum og það virðist ekki ætla að takast með neinum friðsamlegum hætti. Staðfesting aðgerðarleysis þingsins er líka sú góða samviska sem leyfir þeim að fara í gott sumarfrí á meðan allt er sökkvandi.

Sem friðelskandi maður, sem aldrei hefur slegist á ævinni, er ég nú farinn að efast um að til sé friðsamleg lausn á því að koma glæpagenginu frá völdum svo hægt sé að hefja nýtt upphaf og núllstilla þjóðfélag sem þarf svo innilega á endurræsingu að halda.

Haukur Nikulásson, 21.7.2010 kl. 10:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband