Leita í fréttum mbl.is

Orðaleikir Steingríms J og Landsbankans

Mér finnst þeir vera með ólíkindum orðaleikir stjórnvalda og Landsbankans varðandi verðmæti og afslætti á lánasöfnum.  Nú er tími til kominn að menn hætti þessari vitleysu og fari rétt með tölur.

Steingrímur J var í viðtali á Bylgjunni í morgun og samkvæmt frétt á visir.is sagði hann þar:

Þetta er stærsti einstaki útlánastabbi fjármálafyrirtækjanna, upp á milli 8 og 900 milljarða króna og ef höfuðstóll þeirra er færður niður um 40-60% þá er það gríðarlegar fjárhæðir.

Stuttu áður segir fjármálaráðherra að lánasöfnin hafi verið færð mikið niður við yfirfærsluna frá gömlu bönkunum til þeirra nýju. 

Solla spyr svo ráðherra af hverju stjórnvöld. FME og Seðlabanki Íslands taki stöðu með fjármálafyrirtækjunum en ekki skuldurunum, þá svara Steingrímur:

Nei,þau taka þarna að mínu mati, eru að reyna að taka málefnalega afstöðu, til þess sem þau telja og mjög margir telja að sé nú líklegasta niðurstaðan.  Að horft verði til þeirrar leiðsagnar sem er að finna í lögum vexti og verðtryggingu. 

Ég hef nokkrum sinnum fjallað um þetta hér og vil gera það enn einu sinni.  Ég ætla að byrja á þessu síðara. 

Eins og ég og raunar flestir þeir lögfræðingar, sem ég hef rætt við, þá er ekkert í vaxtalögum sem styður tilmæli Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlits.  Þær greinar sem gjarnan er vísað í eiga annars vegar við um vexti sem kröfuhafa ber að reikna vegna endurgreiðslu til skuldara (18. gr.) og hins vegar ef vaxtaprósenta eða vaxtaviðmið er ekki tiltekið í samningnum (4. gr.).  Það er alveg ljóst hvor aðilinn er kröfuhafinn og hvor er skuldarinn.  Það stenst því enga lagaskýringu að ákvæði 18. gr. eigi við.  Varðandi 4. gr., þá hróflaði Hæstiréttur ekki við vöxtum skuldabréfanna hvað sem síðar kann að verða.  Þar til síðari niðurstaða er kunn, þá gilda samningsvexti burt séð frá öllum vangaveltum um sanngirni.

Varðandi fyrra atriðið um að dómurinn gæti þýtt 40-60% niðurfærslu á þeim 8-900 milljörðum sem bankarnir eiga í gengisbundnum eignum, þá er það gjörsamlega út út kú.  Í excel-skjölum sem birt eru á vef Seðlabanka Íslands og samkvæmt upplýsingum í októberskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, í skýrslum Ólafs Garðarssonar, skiptastjóra Kaupþings, til kröfuhafa, í gögnum sem birst hafa í fjölmiðlum og jafnvel í fréttatilkynningum bankanna sjálfra, þá kemur skýrt fram að lánasöfn heimilanna og fyrirtækja voru færð frá gömlu bönkunum til þeirra nýju með verulegum afslætti án þess að viðskiptavinir bankanna hafi á nokkurn hátt orðið varir við þann afslátt í þeim greiðslum sem þeir hafa verið krafðir um.  Ósannindi og rangar staðhæfingar verða ekki að sannleika hversu oft sem það er endurtekið. Í þessu samhengi vil ég birta hluta af fréttatilkynningu Landsbankans frá því í gær:

Landsbankinn hefur upplýst að einstaklingslán hafi verið keypt af Skilanefnd Landsbanka Íslands hf. fyrir um 66% af nafnvirði þeirra að meðaltali. Lítill munur er á innlendum og erlendum lánum hvað þetta varðar.

(Fréttatilkynningin í heild er birt neðst í þessari færslu, ef ske skyldi að bankinn breytti henni.) Þarna segir bankinn berum orðum að lánin hafi verið færð niður frá nafnverði, en nafnverð er jú upphafleg upphæð lánanna.  Ég reikna svo sem með að um misritun sé að ræða, en þá stendur þó eftir að "lítill munur er á innlendum og erlendum lánum hvað þetta varðar", þ.e. að verðtryggð lán voru færð jafnmikið niður og gengistryggð lán.

En aftur að Steingrími og fullyrðingu hans um 40-60% niðurfærsluna.  Hafi Landsbankinn tekið við lánunum með 34% afslætti, þá standa þau í 66%.  Þessi 34% sem hafa þegar verið veitt í afslátt eru því ekki hluti af 8-900 milljarða stabbanum, þau eru utan við hann.  Verði heildarleiðréttingin 40%, þá eru það bara 6% til viðbótar sem bætast við og upp í 26% sé miðað við 60% niðurfærslu.  En málið er að samkvæmt gögnum Seðlabankans, þá voru gengistryggð útlán bankanna færð frá gömlu bönkunum til þeirra nýju með mun meiri afslætti en 34%.  Nær er að tala um 58% (með fyrirvara um að einhver lán hafi orðið eftir í gömlu bönkunum).  Tökum eignaleigusamninga heimilanna hjá bönkunum (sem voru bara hjá Glitni).  Þeir stóðu í 22,1 milljörðum fyrir hrun (30/9/08), en eftir hrun (31/12/08) standa þeir í 9,3 milljörðum.  Það þarf varla að leiðrétta þessa tölu mikið til viðbótar nema búið sé að ofrukka fólk svo mikið að lítið sem ekkert sé eftir.  En þá er talan frá síðustu áramótum áhugaverð, því þá er verðmæti eignaleigusamninga heimilanna metið vera 5 milljarðar.  Nei, Steingrímur þarf að vera með trúverðugri málflutning ætlist hann til þess að honum sé trúað.  Raunar held ég að það sé best, ef samningarnir við erlenda kröfuhafa og um flutning lánasafnanna frá gömlu bönkunum til þeirra nýju veri gerðir opinberir.  Að landsmenn fái að vita hvað fólst í þessum samningu, án þess að farið verði ofan í viðkvæm málefni.  Ég sé enga ástæðu lengur til að fela fyrir landsmönnum hve mikill afsláttur var veittur af hinum ýmsu tegundum útlána, sér staklega þar sem gögn Seðlabankans eru opinber.

Fréttatilkynning Landsbankans eins og hún var birt í gær:

Fréttir og tilkynningar - 5. júlí 2010 17:48

Leiðrétting vegna fréttar Stöðvar 2 um fasteignaverðsspá Landsbankans

Rangt er að Landsbankinn hafi gefið út eða gert sérstaka spá um verðþróun á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu eins og fram kom í frétt Stöðvar 2 að kvöldi 4. júlí. Engin slík spá hefur verið gerð.

Við mat á færslu eigna milli gamla bankans og nýja bankans, var stuðst við ákveðnar sviðsmyndir eða reiknilíkön sem byggð eru m.a. á fasteignamati og öðrum gögnum um fasteignamarkað.  Í einni  sviðsmyndanna var ráð fyrir því gert að bankar þyrftu að leysa til sín íbúðir í stórum stíl og eiga þær um nokkurn tíma með tilheyrandi verðfalli á markaði. Í þeirri sviðsmynd sem segja má að sé sú dekksta, var miðað við að Landsbankinn gæti ekki búist við að endurheimta meira en sem nemur 150 þúsund krónum á fermetra eftir að allur kostnaður væri reiknaður. Sú tala felur ekki í sér neinskonar almenna spá um verðþróun. 

Þetta ástand hefur aldrei skapast, enda hafa bankar og fjármálastofnanir ekki leyst til sín þann fjölda íbúða sem ofangreint dæmi byggðist á.

Landsbankinn hefur upplýst að einstaklingslán hafi verið keypt af Skilanefnd Landsbanka Íslands hf. fyrir um 66% af nafnvirði þeirra að meðaltali. Lítill munur er á innlendum og erlendum lánum hvað þetta varðar.

Allt tal um að bankinn hafi spáð því að almennt verð á fasteignamarkaði færi í 150 þúsund krónur pr. fermetra eða að bankinn hafi tekið yfir tiltekin fasteignalán á 25% af raunvirði er fjarri öllum sanni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvernig getur myndast skuldbin af hálfu ríkisins án aðkomu Alþingis?

Björn Jónasson (IP-tala skráð) 6.7.2010 kl. 15:15

2 identicon

skuldbinding.

Björn Jónasson (IP-tala skráð) 6.7.2010 kl. 15:16

3 identicon

"Sundrung."

Ofangreint er öll starfslýsing stjórnvalda fyrir árið 2010. Það þarf jú að þyrla upp þokkanlegu moldviðri áður en maður pantar niðurstöður frá dómstólum.  Að maður tali nú ekki um hæstarétti.

sr (IP-tala skráð) 6.7.2010 kl. 18:07

4 identicon

Eg var að hlusta a viðskiftaraðherra i sjonvarpinu nu aðan 6 7 eg skil ekki þennan mann lengur að þetta afsprengi skuli vera kennari i haskolanum þa skal mig ekki undra að þjoðin se komin þangað sem hun er nu burt með þessi favita fifl Alþingi stjornini og bönkunumog fjarmögnunarfyrirtækjunum þvilikt rusl saman komið a eynum stað   R G

Runar Gudmundsson (IP-tala skráð) 6.7.2010 kl. 21:49

5 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

skuldbinding af hálfu ríkisins verður að vera gegn um fjárlög, samkvæmt stjórnarskránni.

voru neyðarlögin í samræmi við stjórnarskrá og lögleg? ég spyr.

Brjánn Guðjónsson, 6.7.2010 kl. 21:58

6 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

þ.e.a.s. fjárhagsleg skuldbinding

Brjánn Guðjónsson, 6.7.2010 kl. 21:59

7 identicon

þetta er alveg skelfilegt valdarán hefur verið framið á íslandi og við öll horfum á valdaránið gerast og ekki erum við að standa saman sem skuldaþrælar,stöndum saman og hættum að borga.

Georg (IP-tala skráð) 6.7.2010 kl. 22:46

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Nú tek ég eftir því að Landsbankinn hefur ekki ennþá leiðrétt fréttatilkynninguna, eins og ég átti von á.  Það færir mér vissar vonir um að bankinn hafi þá gert svona góðan díl, þó mér þyki það ólíklegt.

Marinó G. Njálsson, 6.7.2010 kl. 23:19

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Nýjar upplýsingar berast innan úr Íslandsbanka.  Lánasöfn heimilanna fóru til bankans með 47% afslætti, en þau hafa frá stofnun bankans verið innheimt upp í topp!  Þetta kom fram í frétt Lóu Pindar Aldísardóttur í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.  Það vill svo til, að þetta er mjög nálægt því sem ég las út úr októberskýrslu AGS og birti hér á blogginu mínu Tölur í skýrslu AGS tala sínu máli, frá 4. nóvember 2009.  Mín ágiskun, sem byggði á því að leggja reglustiku að stækkuðum súluritum, var að afslátturinn til Íslandsbanka hafi verið rúm 44%, til Landsbankans var afslátturinn 47% og til Arion banka var afslátturinn tæp 45%.

Marinó G. Njálsson, 7.7.2010 kl. 00:41

10 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Hvernig ber að skilja þessar tölur?  Neglum þetta í 45% svo við höfum fast viðmið, talan skiptir ekki öllu máli.  Ber að skilja þennan afslátt sem svo

a) Að bankarnir hefðu átt að fella þessi lán um þá upphæð? 
b) Að þetta væri fjármögnun nýju bankanna? 
c) Að þetta séu fjármunir til þess að mæta tilvonandi áföllum af viðkomandi lánasöfnum? 

Ég hef grun um að þessar upphæðir hafi átt að vera stór hluti af fjármögnun bankanna, þ.e. þeir fengu x krónur af eignum gömlu bankanna en borguðu bara 0.55x fyrir til þess að nýju bankarnir gætu haft rekstrargrundvöll.  En má ekki líka til sanns vegar færa að án þessarar fjármögnunar þá gætu bankarnir ekki staðið undir sér og hefðu ekki rekstrargrundvöll?  Væri þá ekki verr farið en heima setið?  Ég hef bara ekki haus til þess að reikna þetta áfram, þess vegna spyr ég;)  Ég hef ekki hundsvit á bankarekstri en Íslendingar eru allir orðnir sérfræðingar í þessu - af illri nauðsyn!

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 7.7.2010 kl. 07:29

11 Smámynd: Inga Sæland Ástvaldsdóttir

Verði vextirnir í gengistryggðu lánasamningunum hækkaðir frá því sem umsamið var, yrði það „neytanda í óhag“. Þess vegna er vaxtahækkun óheimil,“ segir Magnús Thoroddsen, lögmaður og fyrrum hæstaréttardómari í grein í morgunblaðinu í dag, 8. júlí 2010.

Þegar lagaákvæði eru jafn skýr og ótvíræð, eins og ákvæði 36. gr. samningalaganna eru, sem og sjálfur tilgangur laganna, verða dómendur að dæma samkvæmt því.  

 þá getur dómari hvorki dæmt samkvæmt „eðli máls“ né „efnahagshagsrökum hagfræðinnar“. Gerði hann það, væri hann að brjóta gegn stjórnarskránni.

Ætli það séu margir starfandi dómarar við Hæstarétt í dag sem vilja láta minnast sín sem dómaranna sem virtu Grundvallarlögin að engu?  Ég vil leyfa mér að trúa á dómgreind þeirra og heiðarleika gagnvart lögunum sem þeir hafa kosið að vinna eftir og þar með vil ég hætta að hugsa um þessa 100 milljarða sem endalaust er klifjað á í þessum ömurlega hræðsluáróðri sem stjórnvöld stýra nú.

Ég get varla sofið fyrir hugsuninni um það að ég skuli hafa kosið þennan hroða yfir mig. En eitt er á hreinu það verður ekki endurtekið. Þessi grein Magnúsar kom eins og himnasending til mín.  Grein sem enginn ætti að láta ólesna.

Takk fyrir frábærar og fræðandi færslur Marinó.

Inga Sæland Ástvaldsdóttir, 9.7.2010 kl. 01:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.11.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 216
  • Frá upphafi: 1679949

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 197
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband