Þessi söguskýring Sambands ungra sjálfstæðismanna er ekki ný á nálinni ig hún er jafn röng núna og þegar hún hefur verið sett fram áður. Hrun efnahagskerfis heimsins og þar með Íslands ristir nefnilega inn í hjartarætur frjálshyggjunnar að einkaframtakinu sé best treystandi og það muni alltaf finna bestu leið til að láta hlutina ganga.
Ég hef svo sem ekki sett tíma minn mikið í að elta uppi hvað frjálshyggjan hefur sagt hér og þar um hitt og þetta, en man vel eftir hugtökunum "einkavæðing" og "afnám reglna" (deregulation) en hvort um sig er kjarni frjálshyggjunnar. Thatcherismi eða Reaganismi mér er sama hvorn frjálshyggjupólinn menn elta leiddu saman og sitt í hvoru lagi til þess að ríkið hætti í stórum stíl afskiptum af fyrirtækjarekstri og síðan dró úr eftirliti eða að eftirlitið var einkavætt (sem er svo sem besta mál). Það sem skiptir samt mestu máli er þegar losað var um þær reglur sem áttu að tryggja öryggi þjóðfélagsins gegn vafasömum starfsháttum fyrirtækja. Þetta hét að aflétta hömlum á rekstri fyrirtækja.
Það getur vel verið að einstaklingar hafi brugðist, en við það brást frjálshyggjan. Það nefnilega kom í ljós að einkaframtakið fann ekki bestu leið fyrir samfélagið heldur fyrir sjálft sig.
Stærstu mistök afnám reglna má líklegast rekja til ákvörðunar sem Bill Clinton tók að því að sagt eru að undirlægi Goldman Sachs. Þetta er sú ákvörðun að afnema hömlur á fjárfestingabankastarfsemi viðskiptabanka. Þetta er líklegast ein afdrifaríkasta skrefið á þeirri braut sem leiddi okkur að hruni Bears Stern, Lehman Brothers og fleiri bandarískra banka.
Hér á Íslandi var það einkavæðing bankakerfisins og sú ákvörðun að treysta einkabönkunum fyrir að haga sér innan ákveðins ramma en ekki strangra reglna sem hleypti hér öllu í bál og brand. Það er rétt að einstaklingarnir brugðust, en eins og ég segi að ofan, það er kjarni kenninga frjálshyggjunnar að einkaframtakið finni bestu leið og því sé best treystandi til að hafa eftirlit með sjálfum sér. Hér á landi brást þetta eftirlit eða kannski mest að hlustað væri á og farið eftir því sem eftirlitið sagði. Sem sagt, sú kenning frjálshyggjunnar að fyrirtækjum væri best treystandi til að hafa eftirlit með starfsemi sinni átti ekki við hér á landi.
Ég er alls ekki ósammála því að fyrirtækjum eigi að treysta til þess að hafa eftirlit með sjálfum sér. En til þess að það virki, þá verða stjórnendur fyrirtækjanna að sjá akk í því. Ég vinn við m.a. ráðgjöf á sviði áhættustjórnunar. Það er því mitt hlutverk að selja fyrirtækjum þá hugmyndafræði, að rétt áhættustjórnun mun skila þeim mestri arðsemi. Ekki til skamms tíma, heldur til langframa. Markmið fyrirtækjareksturs á að vera að lifa vel og lengi og viðhalda viðskiptasambandi við viðskiptavininn allan þann tíma. Takist þetta, þá munu eigendurnir fá arð af eign sinni. Það er þetta langtíma samband viðskiptavina og fyrirtækisins annars vegar og fyrirtækisins og hluthafanna/eigendanna sem skiptir öllu máli. Hvort hagnaðurinn er 10 milljónir eða 10 milljarðar eitthvert tiltekið ár er aukaatriði. En græðgi fjármagnseigenda varð fyrirtækjunum að falli.
Nú þessu skylt er að hið eftirlitslausa fjármálakerfi er orðið svo stórt, að það getur lagt að velli hvaða "andstæðing" sem það vill. Hagkerfi á við evrusvæðið hefur ekki burði til að verjast árás frjálshyggjufyrirtækjanna á það. Ekki fór mikið fyrir vörnum Íslands sem tekið var sem eftirréttur í framhaldi af falli Lehman Brothers. Ég sagði, að þegar ESB ákvað að leggja 700 milljarða evra í björgunarsjóð að Evrópa hafi verið lögð að veði. Ég var að hlusta á Max Keiser um daginn og hann notaði nánast sömu orð. Þetta eftirlitslausa fjármálakerfi, sem er afsprengi frjálshyggjunnar, er orðið að skrímsli sem mun ekki hætta fyrr en það hefur étið hagkerfi heimsins og um leið gengið af sjálfu sér dauðu.
Í mínum huga fer ekkert á milli mála að sú hugmyndafræði frjálshyggjunnar að einkaframtakinu sé best treystandi fyrir rekstri því einkaframtakið muni sjá til þess að hámarka afrakstur og að einkaframtakinu sé best treystandi til að hafa eftirlit með sjálfum sér vegna þess að það mun alltaf gera það sem er fyrir bestu, þessi hugmyndfræði er hrunin.
SUS: Ekki frjálshyggjunni að kenna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 3
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 37
- Frá upphafi: 1680018
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 33
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Hvaða reglur voru afnumdar?
Eftirfarandi voru a.m.k. í gildi:
http://www.andriki.is/vt/myndir09/her_voru_engar_reglur05022009.pdf
Geir Ágústsson, 29.6.2010 kl. 14:38
Geir, ég er fyrst og fremst að vísa til stærri hagkerfa, þar sem lögmál frjálshyggjunnar virka ekki á Íslandi á sama hátt og í stóru hagkerfunum. Að ætla að halda fram að kenningar og lögmál virki á sama hátt hér og í 300 milljóna eða 600 milljóna hagkerfi er draumsýn í besta falli.
Marinó G. Njálsson, 29.6.2010 kl. 14:44
Af hverju segiru það?
Geir Ágústsson, 29.6.2010 kl. 14:52
Það var sumt ábótavant í fjármálareglum hérlendis eins og annars staðar, eins og t.d. reglur um eignahald. En okkur var bent á þetta fyrir hrun af dönum, bandaríkjamönnum, og öðrum þjóðum sem eru með þróaðra fjármagnskerfi en við. Kannski var vandamálið bara að við hlustum yfirleitt bara á fólk sem segir það sem við viljum heyra, eins og útrásarvíkingana hér áður fyrr. Þetta hafði að ég held lítið sem ekkert með "frjálshyggjuna" að gera, frekar lélegt eftirlit og erfiðleika íslendinga með að horfast í augu við sannleikann.
Bjarni (IP-tala skráð) 29.6.2010 kl. 15:03
Þú segir að "deregulation" sé hornsteinn frjálshyggjunnar. Það er rangt. Afnám reglna (sem var þó vart eins og Geir Ágústsson hefur verið að benda á) er breytingaferli og er ekki innan hugmyndafræði frjálshyggjunnar. Það er töluverður munur á. Sem dæmi er einkavæðingin sjálf ekki frjálshyggja í sjálfum sér, endastöð einkavæðingarinnar rúmast innan frjálshyggjunnar, ekki einkavæðingin sjálf. Einkavæðing er oftast frekar hættulegt og óheppilegt ferli eins og sagan sýnir (sbr t.d Sovétríkin-Rússland + olígarkar), en það segir þó ekkert um að status quo sé betra.
Í öðru lagi er ekki hægt að segja að hér hafi ríkt frjálshyggja vegna þess að einhverjir hornsteinar hennar hafa verið ástundaðir. Það er eins og að segja að þú sért með kókdós ef þú hefur undir höndum rauða málningu, álklump, fjórar sérvéttur, einn skó og langt prik.
Sigurður Karl Lúðvíksson, 29.6.2010 kl. 16:38
Hornsteinn frjálshyggjunnar, eins og ég skil og hef lesið, er að einkaframtakinu sé best treyst og þar með fyrir að velja leiðir. Líkja má þessari hugsun frjálshyggjunnar í því hvernig stígur er lagður yfir gras flöt. Ein leið er að ákveða fyrirfram hvar stígurinn á að ligga og leggja hann strax. Önnur leið er að sjá hvar fólk gengur og leggja stíginn þar sem flestir ganga. Loks er leið frjálshyggjunnar, sem er að leggja engan stíg og leyfa fólki að labba þar sem það vill.
"Deregulation" hefur alltaf verið talin til helstu markmiða frjálshyggjunnar, vegna þess að reglur hamla frelsi til athafna. Þær setja kvaðir á einkaframtakið að gera hitt eða þetta eða mega ekki gera hitt og þetta.
Sigurður, ég er alveg sammála því að ekki er hægt að segja að hér hafi ríkt frjálshyggja, enda segi ég það, en fylgt var ýmsum boðorðum frjálshyggjunnar eins og að fela einkframtakinu að reka banka, þó það hefði augljóslega ekkert vit á því hvað fólst í því að reka banka.
Marinó G. Njálsson, 29.6.2010 kl. 16:59
Þarna eru ástæður hrunsins bornar fram á einfaldan og áhrifaríkann hátt. Ég er þessu í meginatriðum sammála, en vil taka fram að mig skortir verulega menntun til að skilja flóknar hagfræðikenningar.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 29.6.2010 kl. 20:47
Ég setti inn færslu haustið 2008 um skort á regluverki og stjórnunarmistök Daviðs Oddssonar sem forsætisráðherra og Seðlabannkastjóra og uppskar miklar skammir. Þetta var allt banka/útrásarvíkingum að kenna.
Auðvitað kom fleira til eins og hrun kerfisins vestra og síðan víða um heim. Ég var líka fyrst og fremst að fjalla um málið hér heima.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 29.6.2010 kl. 20:53
"Loks er leið frjálshyggjunnar, sem er að leggja engan stíg og leyfa fólki að labba þar sem það vill."
Þetta er gríðarlegur misskilningur. Ég hef það á tilfinningunni að þú sért gaur sem ert til að ræða hlutina án ofsa og fordóma, öfugt við ansi marga hér á moggablogginu, og ég kann að meta það. Svo ég segi í mesta bróðerni að skilning þinn á frjálshyggjunni má enn bæta töluvert. Frjálshyggjan talar ekki fyrir engum lögum, langt í frá, hún tala fyrir færri lögum já, enda ekki annað hægt en að fækka þessu laga og reglugerðafrumskógi sem á að verja hvern og einn einasta íbúa landsins fyrir öllum mögulegum atvikum undir sólinn, hún talar fyrir einfaldari regluverki, muuuuun einfaldara og skilvirkara, og að fólk taki nú aðeins persónulega ábyrgð. Hana er búið að deyfi niður í hálfgert coma með ríkjandi ástandi. Þetta minnir kannski frekar á einhvern anarkisma.
"Ein leið er að ákveða fyrirfram hvar stígurinn á að liggja og leggja hann strax."
Þetta er leið ríkisins þar sem hver pólitíkusinn keppist við að reisa sér risastóra styttu og berja sér svo á brjóst. Dæmin eru mýmörg eins og t.d sjúkrahúsið hans Alfreðs, Perlan hans Davíðs og ekki síst Harpan.
"að sjá hvar fólk gengur og leggja stíginn þar sem flestir ganga."
Þetta er það sem þú myndir sjá ef frjálshyggjan væri við lýði því flestir myndu beita þessari afbragðs reglu í sínu eigin umhverfi enda myndi hún gefa bestu lausnina. Ekkert eiginhagsmunapot og sjálfsupphafning stjórnmálamanna að þvælast fyrir.
Sigurður Karl Lúðvíksson, 29.6.2010 kl. 20:54
Sigurður, ég gerði það viljandi að einfalda samlíkinguna, þvi segja má að það sé ein millileið með stígana, en hún er sú að leyfa fólki að labba eins og það vill og leggja svo stíga eftir 10 - 20 algengustu leiðunum og síðan eftir þeim leið sem þeir háværustu vilja.
Ég er enginn sérfræðingur í frjálshyggunni, en hef bara hlustað og lesið ótrúlega mikið um "deregulation" kröfur talsmanna hennar hér á landi og annars staðar. Hannes Hólmsteinn, æðsti postuli frjálshyggjunnar á Íslandi, er búinn að predika þetta í áratugi. Hann kenndi mér sögu hálfan vetur í MR og þar var farið í þetta. Ég var tvö ár í Bandaríkjunum þegar Reagan var forseti og fékk vænan nasaþef af þessu þá. Valdatími feðganna Bush gekk nokkuð grimmt út á þetta. Greenspan opnaði fyrir þetta og sér eftir því í dag. Það getur vel verið að ákveðinn hluti frjálshyggjunnar gangi út á annað en "deregulation", en það er samt rauði þráðurinn ásamt því að einkaframtakið gera allt betur en ríkisvalið. Gallinn er að frjálshyggjan er alltaf til í hirða hagnaðinn og senda svo reikning fyrir tapinu.
Marinó G. Njálsson, 29.6.2010 kl. 21:16
já þú ert að rugla frjálshyggjunni við pilsfaldarkapítalisma, eða crony-kapítalisma eins og það þekkist á ensku. Sjá hér.
Sigurður Karl Lúðvíksson, 30.6.2010 kl. 00:24
,
Það er því mitt hlutverk að selja fyrirtækjum þá hugmyndafræði, að rétt áhættustjórnun mun skila þeim mestri arðsemi. Ekki til skamms tíma, heldur til langframa. Markmið fyrirtækjareksturs á að vera að lifa vel og lengi og viðhalda viðskiptasambandi við viðskiptavininn allan þann tíma. Takist þetta, þá munu eigendurnir fá arð af eign sinni. Það er þetta langtíma samband viðskiptavina og fyrirtækisins annars vegar og fyrirtækisins og hluthafanna/eigendanna sem skiptir öllu máli.
Marinó, Það sem þú segir hér að ofan held ég hafa verið sá grunnur er hugmyndafræðingar frjálshyggjunnar lögðu upp með. Í þessu fellst að heiðarleiki gagnvart sjálfum sér fyrirtækinu og viðskipavinum skapi umhverfi sem auðveldi svo öll samskipti og viðskipi að fyrirtækin færu sjálfkrafa inn á þessa braut þar sem það yrði allra hagur. Gallinn er bara sá að Kapitalisminn hefur í sér innbyggt dauðagen.
Kenningin sem hugmynd og á bók gæti vel gengið upp, EF hún væri búin sjálfstæðu stjórnkerfi, en það er hún bara ekki. Aðeins einn fræðilegur möguleiki á stýrikerfi fyrir kenninguna er til, maðurinn sjálfur. Það tekur mig sárt og ég vorkenni þeim hálærðu miklu hugsuðum sem margir eyddu ævistarfinu í kenningasmíð án þess að átta sig á að án mannsins sem stjórnanda væri hún ekki til og með manninn við stjórn væri hún ekki aðeins dauðadæmd og ónýt, heldur stórhættulegt tæki siðlausra glæpamanna til illvirkja.
Dingli, 30.6.2010 kl. 03:25
Það skondna við þessa söguskýringu, Marinó, er sú staðreynd að hugmyndafræði kapitalismans (í sinni tærustu mynd) hrundi u.þ.b. fimmtán árum eftir að kommúnisminn leið undir lok (í hinum vestræna heimi).
Það er til marks um veruleikafirringu sjálfstæðismanna að þeir neita (margir hverjir) að kannast við að frjálshyggjan sé komin á öskuhauga sögunna, ásamt kommúnismanum. Á meðan er sjáLfstæðisFLokkurinn einfaldlega ekki stjórntækur.
Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 30.6.2010 kl. 09:02
Vegna ummæla hér að ofan að ég væri að misskilja frjálshyggjuna, þá hef ég klippt út eina setningu úr grein Atla Harðarsonar á this.is. Mér finnst þessi setning lýsa mjög vel þvi sem ég er að benda á að sé ástæðan fyrir því að frjálshyggjan sem hugmyndafræði verði ekki sýknuð á jafn auðveldan hátt og formaður SUS vill:
Þarna eru það orðin "draga úr ríkisafskiptum" og "sjálfviljugt samstarf..í staðinn fyrir valdboð". Fyrra vísa ég til sem einkavæðingarinnar og hið síðara sem "deregulation".
Vissulega stendur frjálshyggjan fyrir margt, margt fleira og margt af því hefur verið til hagsældar fyrir heiminn, en maðurinn, sem er stoð og stytta í samfélaginu, en lemur konuna sína, getur ekki dregið fjöður yfir ofbeldið af því að hann er svo frábær út á við. Það er einmitt vandi frjálshyggjunnar. Fjármálafyrirtæki út um allan heim beittu ofbeldi í skjóli kenninga frjálshyggjunnar um frelsi í viðskiptum, einkavæðingar og afnámi reglna (sem menn hafa svo snilldarlega kallað afnám hafta).
Marinó G. Njálsson, 30.6.2010 kl. 09:36
Nýfrjálshyggjan er síðasta haldreipi hluta innvígðra í ungliðadeildir Sjálfsæðisflokksins. Þannig var Marx-Leninisminn varinn af ungliðum kommúnista fyrir 30 árum þegar róttæka vinstri stefnan var að syngja sitt siðasta með "heildarlausn sem leysti alla aðra hugmyndafræði af hólmi". Nýfrjálshyggjan kom í staðinn en hefur elst og er ekki svo ný lengur. Hrun hennar hefur um allan heim verið staðfest og nú leita menn allra leiða til að taka það nýtilega frá "hægri og vinstri" sem eftir er. Við siglum inn í tíma "miðjumoðs" áður en næsta ofgastefna tekur form.
Gísli Ingvarsson, 30.6.2010 kl. 10:26
Hefur engum hérna dottið í hug að ríkisábyrgðir í bankakerfinu (sem nú skal greiða með svita og blóði skattgreiðenda) hafi e.t.v.
Minnkað ábyrgðartilfinningu t.d. hluthafa gagnvart stjórnendum fyrirtækja sinna því ríkisábyrgðir stuðla að "trausti" (vísvitandi og samkvæmt ráðum þeirra sem eru hlynntur samkvæmisdansi ríkis og bankakerfis)
Aukið lánshæfismat fjármálastofnana bæði hjá íslenskum og erlendum matsaðilum og þannig gert kerfinu kleift að skuldsetja sig frekar
Tengt ríkið og bankakerfið sterkum böndum sem stendur nú til að styrkja, t.d. á Íslandi (af núverandi stjórnvöldum, en ekki fráfarandi ríkisstjórn) og Bandaríkjunum, svo dæmi séu nefnd
Það hefur enginn svo mikið sem gert tilraun til að rökstyðja hvernig ríkisábyrgðir og ríkisbjörgunaraðgerðir í bankakerfinu renna undan rifjum frjálshyggjumanna. Af hverju er ríkið að bjarga bönkum og innistæðueigendum en t.d. ekki sjoppueigendum og lánadrottnum þeirra? Er það hrein tilviljun að við höfum "fjármálakreppu" en t.d. ekki "sjoppukreppu"?
Er virkilega svona erfitt að slíta sig lausan frá hugarsmíð Þorvalds Gylfasonar og Paul Krugman og sjá að samkvæmisdans ríkisvalds og bankakerfis er orsökin, og að meira af slíku (eins og flestir boða) getur af sér meira af krísu?
Geir Ágústsson, 30.6.2010 kl. 12:25
"Valdatími feðganna Bush gekk nokkuð grimmt út á þetta. Greenspan opnaði fyrir þetta og sér eftir því í dag. "
Marinó ég er nokkuð viss um að klassískur frjálshyggjumaður á borð við Milton Friedman hefði verið ósammála meginþáttunum í stefnu Bush. Ég held að þú notir orðið "frjálshyggja" í einhvers konar hugmyndafræðilegri leti sem samheiti yfir eitthvað allt annað en það sem klassískir frjálshyggjumenn hafa boðað.
Máni Atlason (IP-tala skráð) 30.6.2010 kl. 15:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.