Leita í fréttum mbl.is

Hagsmunasamtök heimilanna áttu fund með AGS

Hagsmunasamtök heimilanna áttu fund með AGS í dag.  Var fundurinn að frumkvæði AGS.  Fórum við yfir málin án þess að reynt væri að komast að einhverri niðurstöðu.  Er það tilfinning mín, að vilji sé fyrir því hjá AGS að taka á skuldamálum heimilanna, en fólk verði að horfast í augu við að það fái ekki allan skaðann bættan.  Ekki að við hjá HH höfum nokkru sinni reiknað með því.

Allt snýst þetta um svigrúmið sem fjármálafyrirtæki hafa og hvernig er hægt að nýta það.  Fjármálafyrirtækin hafa ekkert verið mikið að gefa upp hvert þetta svigrúm er og því er ekki ljóst úr hverju við höfum að moða.  Fundurinn var mjög jákvæður, en enn er langt í land með að niðurstaða fáist.

Í mínum huga er búið að greiða úr greiðsluvanda talsverðs hluta heimilanna, en það var gert á kostnað skuldavandans.  Afleiðingin er að fasteignaverð fer ennþá lækkandi, lítil hreyfing er á fasteignamarkaði, nýfjárfestingar heimilanna eru nánast engar, fólk er bundið átthagafjötrum og kveður meira að segja svo rammt við að fólk getur hvorki skilið né hafið saman sambúð í stærra húsnæði.  Allt bitnar þetta svo á neyslunni og lífsgæðum almennings.

Á undanförnum vikum hefur efnahags- og skattanefnd verið að skoða skuldamál heimilanna og einnig þverpólitískur starfshópur Alþingis (sem ég á sæti í).  Margt hefur komið út úr þessu starfi, en betur má ef duga skal.  Vandinn er risavaxinn, ef finna á allsherjarlausn og því er spurningin hvort ekki megi byrja á bráðavandanum sem felst í vanskilum heimilanna við fjármálakerfið.  Þegar allt kemur til alls, þá eru þær tölur ekki svo svakalegar, ef eingöngu er horft til þeirra afborgana sem eru í vanskilum.  Ef 3 - 4 mánuðir af 40 ára láni eru í vanskilum, þá er það eingöngu fáein prósent af lánsupphæðinni.  Uppsöfnuð slík vanskil í bankakerfinu nema í mesta lagi nokkrum milljörðum, hugsanlega innan við einn milljarð króna.  Ég held að skynsamlegt væri að taka þessi vanskil hreinlega til hliðar og geyma endanlega afgreiðslu þeirra til síðari tíma.  Gefa fólki kost á að byrja með hreint borð án þess að verið sé að afskrifa eitt eða neitt eða færa lánin niður.  Með því gæfist lengri frestur til að finna stóru lausnina.

Ég heyri allt of mikið af því að úrræði stjórnvalda og fjármálafyrirtækjanna séu ekki að virka eins vel og lagt var upp með.  Í svari efnahagsmálaráðherra á Alþingi um daginn kom fram að innan við 300 manns hafi farið í gegn um sértæka skuldaaðlögun, úrræðið sem átti að vera svo svakalega skjótvirkt.  Í tölum sem ég fékk í morgun, kemur í ljós að innan við 1.000 manns hafa óskað eftir greiðsluaðlögun og mjög fáir hafa náð að fara í gegn um ferlið.  Höfum í huga, að það er mat Seðlabankans, að 28.300 heimili (eða 39% heimila sem eiga eigið húsnæði) séu í neikvæðri eiginfjárstöðu í húsnæði.  65% "ungra" heimila eru í þeirri stöðu.  23.850 heimili eru að mati Seðlabankans í vanda, en það eru heimili sem ekki ná endum saman eða eru á mörkum þess að geta staðið undir greiðslum og framfærslu.  Það er mín skoðun að hér sé um talsvert vanmat að ræða og hópurinn sé talsvert stærri.  Í mínum huga er 23.850 svo sem alveg nógu stór hópur og kallar á frekari aðgerðir.

Á aðalfundi Hagsmunasamtaka heimilanna, sem verður 27. apríl kl. 20.00 í Sjómannaskólanum við Háteigsveg, þá er ætlunin að kynna bæði endurnýjaðar kröfur HH og tillögu að lausnarleið.  Ný stjórn samtakanna mun síðan fá það hlutverk að útfæra tillögurnar nánar og, ef vilji er fyrir því, að kynna þær fyrir almenningi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Vandamálið með þessar aðgerðir sem í boði eru er að þær koma of seint fyrir fólk. Á ákveðnim vendipunkti verður rekstur heimilisins óhagstæður, þennan vendipunkt þarf að finna og miða allar aðgerðir við hann.

Fólk nær þessum vendipunkti löngu áður en það er komið í vandræði, en þegar það fer yfir hann er ekki aftur snúið. Leiðin er eingöngu niðurávið og endar með gjaldþroti.

Sem dæmi var ég sjálfur í mjög góðum málum fyrir hrun, var ekki með nein erlend lán, lánið á húsinu var íslengst genistryggt lán, engin bílalán og átti nokkurt fé í sjóð. Ég var í þokkalegum tekjum. Við hrun lækkuð launin verulega, lánið á húsinu hefur hækkað mikið þó ekki eins mikið og ef um erlent lán væri að ræða og inneigni hvarf að stórum hluta. Ég er ekki kominn í vandræði ennþá, hef getað staðið við allar mínar skuldbindingar. Það hefur tekist með því að skera rekstur heimilisins eins mikið niður og mögulegt er, restin af innustæðunni hefur verið notaður og reynt að fá þá aukavinnu sem boðist hefur. Það er nokkuð síðan ég fór yfir þennan vendipunkt og ef ekkert verður að gert er leið mín á einn veg. Ég get þó huggað mig við að þegar ég er kominn á hausinn er kannski hægt að fá aðstoð.

Það hlýtur að vera hagstæðara fyrir alla aðila, ekki síst bankana, að tekið sé á málum það snemma að fólk eigi sér viðreysnar von. Að ekki sé talað um sálarlíf fólks.

Gunnar Heiðarsson, 21.4.2010 kl. 20:36

2 identicon

Fróðleg ummæli Gylfa Magnússonar í Kastljósi í kvöld að AGS teldi að ekki ætti að fara í almennar aðgerðir til handa heimilum í landinu, einnig sgði Gylfi að það væru draumórar hjá fólki að halda að eitthvað meira verði gert annað en það sem er búið að kynna

Jón Á Benediktsson (IP-tala skráð) 21.4.2010 kl. 20:42

3 identicon

Á morgun eða hinn kemur svo næsti ráðherra og segir að það sé verið að skoða allar leiðir.  Það hefur verið mynstrið í þessu máli hingað til. 

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 21.4.2010 kl. 20:55

4 identicon

Er bara verið að hafa ykkur að gríni í þessari nefnd sem þú ert að vinna í.  Ef eitthvað er að marka orð viðskiptaráðherra, þá eru öll úrræði komin á borðið og við verðum bara að láta okkur hafa þetta óréttlæti.
Maður er að gefast upp á þessu ástandi, ég er þegar fluttur úr landi til að eiga fyrir þessum skuldum sem undanfarin 2 ár hafa vaxið í að verða óyfirstíganlegar hindranir, það styttist verulega í það að ég sjái ekki lengur tilgang að halda þessu áfram og láta reyna á gjaldþrotalög þess lands sem ég er fluttur til.

Jónas (IP-tala skráð) 21.4.2010 kl. 21:22

5 identicon

Marinó.

Er ekki komið að ákveðnum ,,punkti"  í þessu máli ?

Það eiga allir núna að fara á ársfundi, eða aðalfundi, síns lífeyrissjóðs og bera upp spurningar um þessi mál.

Skuldir heimila eru ekki bara einhverjar skuldir í bönkum og það í erlendum gjaldmiðlum ! 

JR (IP-tala skráð) 22.4.2010 kl. 01:47

6 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Vil byrja á því að þakka ykkur hjá HH óeigingjarnt starf, Marinó, í þágu fjölskyldnanna í landinu.

Ég verð að taka undir með Gunnari Heiðarssyni hér að ofan,  mikill fjöldi fólks í landinu er akkúrat í hans stöðu.  Það þýðir að lokum að ekkert verður eftir til reksturs heimilisins og afleiðingin er engin neysla sem allir vita til hvers leiðir.

Allir sem ég hef talað við eru á einu máli um að það VERÐUR að koma til einhverskonar afskrift af lánum, hvort heldur eru gengistryggð, eða íslensk lán. 

Og ég vona svo sannarlega að ykkur takist að sannfæra ráðandi stjórnvöld, þótt bjartsýni mín hafi nú ekki aukist eftir að hafa hlustað á Gylfa Magnússon í gærkvöldi.

Sigurður Sigurðsson, 22.4.2010 kl. 09:03

7 Smámynd: Offari

Tölvert hefur verið gert en því miður ekki nægjanlegt.  Ég er skuldlaus svo ekki veit ég mikið um málið en þó hef ég reynt að kaupa mér íbúð en það kvílir meir á þeim íbúðum sem í boði eru en markaðsverð gefur til kynna.

Þess ber þó að geta að einu íbúðirnar sem hafa selst á því svæði sem ég vill kaupa á voru yfirteknar eignir banka en ekki kæri ég mig um að borga meir fyrir eignir en þær seljast á.

Offari, 22.4.2010 kl. 11:23

8 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Hérna er tillaga, sem ég lagði einu sinni fram á fundi.

---------------------------

Hvernig björgum við húseigendum í vanda?

 

Þetta er hugmynd um, hvernig má hugsanlega bjarga húsnæðiseigendum í vanda.

 

·        Ríkið stofni umsýslufélag, sem rétt hafi til að taka yfir húseignir þeirra sem eru í vanda, á sama tíma og skuldir viðkomandi þær sem tengjast húseigninni eru einnig teknar yfir.

·        Síðan, sé reiknuð leiga, sem miðist við eðlilega leigu per fermetra – en, einnig sé miðað við greiðslugetu viðkomandi. Miðað við, að allir greiði einhverja leigu, en einnig að fjölskylum sé helst ekki ítt niður fyrir neysluviðmið, sem notuð séu til að áætla hvort viðkomandi teljist fátækur eða ekki.

·        Engum sé þröngvað inn í þetta, heldur geti fólk sókt um þetta úrræði.

·        Rétt hafi þeir, sem teljast skv. viðmiðum Seðlabanka vera í vandræðum, eða vegna skuldabyrði eru komnir niður fyrir neysluviðmið sem skilgreina fátækt.

·        Ekki sé heimilt að gera fólk sem fær þátttöku í þessu úrræði brottrækt úr sinni húseign, yfir tímabilið þegar úrræðið er í gildi.

·        Gildisstími úræðis, sé 15 ár, frá því er lög um það öðlast gildi.

·        Eftir lok gildistíma, fái fólk er sé þátttakendur í úrræðinu, forkaupsrétt á því húsnæði er það býr í. Vonast er eftir, að flestir nái því, að kaupa sitt húsnæði til baka.

·        Íbúðir þær sem komast inn í þetta úrræði, séu settar á almennan markað, að afloknum 15 ára gildistíma. Ef forkaupsréttur er ekki nýttur, þurfi viðkomandi fjölskylda/íbúðareigandi, að flytjast búferlum.

 

Þetta er uppástunga. Geri mér grein fyrir að skuldir ríkisins vaxa með þessu. Á hinn bóginn, fær það einnig eignir á móti. Þ.s. úrræðið felur í sér einnig upptöku skulda, þá getur ríkið samið um þær í stórum pakka-dílum við kröfuhafa, til lækkunar síðar. Það ætti að vera í betri aðstöðu til þess, ein einstaklingar/fjölskyldufólk.

 

 --------------------------------------

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 22.4.2010 kl. 12:27

9 Smámynd: Elle_

Sæll Marinó og takk fyrir fundinn við AGS og pistilinn og alla vinnuna.  En ríkisstjórnin ætlaði ALDREI að bæta fólkinu neitt tjón og ætlar ekki enn.  Ekkert minna en föst og óbilandi og stíf krafa frá fólkinu í landinu mun duga.  Við erum með bjálfa og einræðisherra í stjórn, sem er nokkuð sama um fjárhag og öryggi alþýðu landsins.   Ekkert minna dugir en þvinga bætur fram með dómi.  Ættum aldrei að fara fram á neitt minna en fullar bætur fyrir tjón gegn okkur, sem við ollum engan veginn.  Tjón af völdum glæpabanka og kol-spilltra pólitíkusa.   

Elle_, 22.4.2010 kl. 14:14

10 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Marinó,

ég dáist af þér og félögum þínum í HH. Barátta ykkar er frábær. Ekki gefast upp, dropinn holar steininn.

Nú verðum við öll að leggjast á árarnar.

Gunnar Skúli Ármannsson, 22.4.2010 kl. 15:33

11 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ég bendi á greiningu mína á skýrslu AGS:

http://einarbb.blog.is/blog/einarbb/entry/1045865

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 22.4.2010 kl. 16:02

12 Smámynd: Anna Margrét Bjarnadóttir

Kæri Einar Björn,

fólk er ekkert tilbúið til að færa eignarhald á fasteignum sínum yfir til ríkissins! Til hvers? Af hverju í ósköpunum ætti það að gera það og hvernig mundi það leysa vandann??? Það þarf bara að leiðrétta heimilislánin! Fólkið skuldar ekkert þessar tilbúnu upphæðir sem hafa bæst við höfuðstól lánanna!! Það eru peningar sem að aldrei hafa verið til!! Það verður bara að leiðrétta stærðfræðivilluna. Þetta eru peningar sem að stjórnvöld og lánastofnanir geta ekki gert tilkall til því að þeir eru ekki til. Síðan verður að losa okkur við þessa bandsetta verðtryggingu.

Anna Margrét Bjarnadóttir, 22.4.2010 kl. 19:29

13 Smámynd: Anna Margrét Bjarnadóttir

Það eru búnar að vera líflegar umræður á Eyjunni um ummæli Gylfa Magnússonar: http://eyjan.is/blog/2010/04/22/gylfi-magnusson-stjornvold-geta-ekki-gengid-lengra-en-ordid-er-gagnvart-verst-settum/#comment-304803

Anna Margrét Bjarnadóttir, 23.4.2010 kl. 08:33

14 Smámynd: Elle_

Ég dreg til baka orðið bjálfar, sem ég notaði þarna um óhæfa fólkið í stjórn, Marinó.  Manni er orðið nánast orða vant yfir kæruleysi og ofbeldi hinar svokölluðu ríkisstjórnar gegn fólkinu í landinu.  Ónýt stjórn, það mikið er víst. 

Elle_, 23.4.2010 kl. 11:27

15 Smámynd: Elle_

Hinnar svokölluðu ríkisstjórnar

Elle_, 23.4.2010 kl. 11:28

16 Smámynd: Maelstrom

Anna, það eru alltaf líflegar umræður á Eyjunni.  Því miður þá skrifar ákveðinn hópur þjóðfélagsins (~5%) óhóflega mikið þar og það skiptir engu máli hvaða rök eru færð fram í málum.  Svarið er alltaf skítkast með 10 upphrópunarmerkjum.

Þá er skárra að koma t.d. hingað til Marinós og taka þátt í umræðu sem nánast alltaf er byggð á rökum.

Kærar þakkir fyrir frábæra upplýsingagjöf Marinó (og ykkur hinum fyrir umræðu byggða á rökum en ekki upphrópunum).

Maelstrom, 23.4.2010 kl. 11:53

17 Smámynd: Hrannar Baldursson

Það er hárrétt sem Anna Margrét segir hér að ofan. Vandamálið er þrýstingurinn sem hefur orðið til vegna stærðfræðidæmis sem gekk ekki upp.

Allir sem tóku húsnæðislán þurftu að fara í greiðslumat. Þegar afborganir hækkuðu töluvert yfir greiðslumatið, laun hafa lækkað eða tapast, og nánast allt á opnum markaði hækkað verulega, þá sverfur hægt að.

Skuldir þeirra sem voru í jafnvægi hækka stöðugt. Gjaldþrotaleið eða brottflutningur úr landi virðast einu leiðirnar til að standa á eigin fótum, og þá þykir mér skammarlegt að neyða heiðarlegt fólk sem tók enga áhættu að eigin mati vegna húsnæðislána, í gjaldþrot.

Og jafnvel enn skammarlegra að leiðrétta ekki villunna, og þess í stað leyfa bönkunum að njóta vafans.

Hrannar Baldursson, 23.4.2010 kl. 18:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 2
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 277
  • Frá upphafi: 1680565

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband