Leita í fréttum mbl.is

Aðvaranir Ólafs Ragnars fullkomlega réttmætar - Betra að vera viðbúinn eða gera ekkert

Nokkuð er rætt á fréttasíðum og í bloggheimi um viðtal Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, við BBC í gærkvöldi.  Mjög margir gagnrýna Ólaf Ragnar fyrir að vara menn við því að Katla sé komin á tíma og gos í henni gæti orðið margfalt verra en gosið í Eyjafjallajökli.  Tala ýmsir um athyglissýki og vilja fá hann úr fjölmiðlum.

Ég get ekki annað en furðað mig á þessum viðbrögðum.  Hér á landi erum við að upplifa afleiðingar mestu fjármálaóreiðu sem þjóðin hefur lent í.  Hún fékk að viðgangast vegna þess að við (og ég þar meðtalinn) hlustuðum ekki á þá sem vöruðu okkur við.  Jónína Ben var atyrt í fjölmiðlum og kölluð brjáluð í hefndarhug, sama var sagt um Jón Gerald og ýmsa fleiri.  Ólafur Ragnar er bara að segja sannleikann.  Við megum búast við mörgum stórum gosum á þessari öld.  Það er skynsamlegt fyrir flugmálayfirvöld í Evrópu að vera undir það búin.  Það er mjög viturlegt fyrir okkur sem þjóð að vera  undir það búin.

Hugsanlega kom það mönnum á óvart, að það skyldi gjósa í Eyjafjallajökli.  Samt voru öll teikn sem bentu til þess.  Kannski máttu jarðfræðingar ekki vara okkur við, vegna þess að vitneskjan um það sem gæti gerst er kannski verri en afleiðingarnar ef enginn veit neitt.  En nú er gosið byrjað og við vitum ekki hve lengi það mun standa eða hvaða áhrif það mun hafa á búsetu undir Eyjafjöllum næstu mánuði og ár.  Sveitin verður aftur blómleg á svæðinu nokkrum árum eftir að gosinu lýkur, en núna er skaðinn skeður og til að varna frekara tjóni, þá þarf að grípa til aðgerða.  Í mínum huga væri ákaflega skynsamlegt að flytja skepnur af bæjum undir Eyjafjöllum og nýta eitthvað af yfirgefnum gripahúsum á Suðurlandi.  Það getur varla farið verr með skepnurnar, en að halda þeim í því óvissuástandi og heilsuspillandi aðstæðum sem þær eru í núna.  Höfum í huga að kúabúin þarna eru mikilvæg fyrir mjólkurframleiðslu í landinu.  Það er því mikilvægt, að framleiðsla þeirra sé hafin yfir allan vafa um hollustu og heilbrigði. Einhvern tíma mun taka að gera annað húsnæði klárt, en því fyrr sem er byrjað, því fyrr verður það tilbúið.

Aftur að orðum Ólafs Ragnars. Á Íslandi eru um 180 virk eldfjöll.  Stór hluti þeirra hefur gosið frá landnámi og á þriðja tug hefur gosið á síðustu 110 árum.  Við komumst ekki hjá gosum með því að tala ekki um þau.  Við  komumst ekki hjá afleiðingum þeirra með því að sussa á forsetann.  Það sem meira er, að við verðum þess verr undir þessi gos búin, sem við hugsum minna um þau.  Ólafur Ragnar talaði um að búast mætti við fjölmörgum gosum á þessari öld.  Hann talaði um að Kötlugos yrði verra en gosið í Eyjafjallajökli og að önnur hamfaragos gætu orðið enn þá verri.  Þetta er allt rétt og satt.  Búum okkur nú vel undir þessar hamfarir og látum afleiðingar þeirra ekki koma okkur á óvart.

Ég er ráðgjafi um áhættumat, áhættustjórnun, öryggisstjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu.  Ég sé allt of oft í mínu starfi, að einfaldara aðgerðir geta gert gæfumuninn.  Ég vil að lokum nota slagorð sem ákveðið fyrirtæki hefur notað í auglýsingum sínum:  Ekki gera ekki neitt.

Vilji einhverjir fá nánari upplýsingar um þjónustu mína eða hafa spurningar, þá er best að ná í mig með því að senda póst á oryggi@internet.is og ég hef samband til baka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórir Kjartansson

Ég held nú, Marinó að það sé ólíku saman að jafna, fjármálahruni af mannavöldum eða eldgosum og öðrum náttúruhamförum. Almannavarnarkerfið okkar hefur sýnt það núna að það er fyllilega í stakk búið til að takast á við Kötlugos og aðrar náttúruhamfarir, þegar og ef þær verða. Ef við sæum alltaf skrattan uppi á vegg, eins og mér virðist pistillinn þinn ganga út á, gætum við bara lokað landinu. Það að auki hefur Katla bara gosið einu sinni svo sannanlegt er í framhaldi af Eyjafjallagosi.  En það verður að virða þér það til vorkunar ef þú sérð atvinnutækifæri í þessu fyrir þig.

Þórir Kjartansson, 20.4.2010 kl. 12:45

2 Smámynd: Sigurður Ingólfsson

Ólafur Ragnar tók allt of sterkt til orða. Við getum alltaf átt von á eldgosi en sem betur fer líður langur tími á milli. Eyjafjallajökull hefur gosið að ég held þrisvar frá landnámi og einu sinni hefur Katla fylgt í kjölfarið. Kannski frestar þetta mikla og afdrifaríka gos því að Katla fari í gang. Þetta veit enginn. Svona yfirlýsingar hjá forsetanum er ekki hægt að samþykkja. Þær eru til að auka skaðann.

Sigurður Ingólfsson, 20.4.2010 kl. 13:03

3 Smámynd: Billi bilaði

Já, Þórir og Sigurður. Við skulum ekki tala um mögulegar hættur. Það er bara að mála skrattann á vegginn. Það er allt í lagi að fela það, því að þetta er svo ólíkt fjármálahruninu.

Billi bilaði, 20.4.2010 kl. 14:09

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þórir, ég hef það að atvinnu að sjá skrattann upp á veggi.  Þess vegna tel að skoða þurfi ýmislegt í stærra samhengi.  Ég er lítið að hafa áhyggjur af almannavörnunum sjálfum.  Þær eru eins mikið til fyrirmyndar og almennt er hægt að ætlast til.  Nú hefur yfirdýralæknir mælt með því að skepnur séu ekki hafðar of lengi á svæðinu og líklegast er betra að hlusta á hann.

Varðandi atvinnutækifærin, þá er hugsanlegt að eitthvað komi út úr því.  Hver veit?  Markmið mitt er þó að vekja fólk til umhugsunar, sem er fyrsta skref að gera eitthvað.  Já, ég aðstoða fyrirtæki við að vera búin undir áföll.  Slík vinna kom einu fyrirtæki að mjög góðum notum vikuna sem stór hluti fjármálakerfisins hrundi.  Mögulega varð sú vinna til þess að komið var í veg fyrir að lokað var fyrir stóran hluta greiðslukorta í landinu.  Það er ómögulegt að vita, þar sem við höfum ekki samanburðinn.  Átti einhver von á því að jafn tæpt myndi standa varðandi greiðslukortin og raunin varð?  Nei, en það var samt búið að hugleiða þann möguleika að ákveðnir erfiðleikar gætu komið upp og gera áætlun til að fylgja.

Sigurður, kannski gýs Katla, kannski ekki.  Það er allt í lagi að fólk átti sig á áhrifum slíks goss og sé viðbúið.  Ef Surtseyjargos hefði orðið á þotuöld, þá hefði flugumferð stöðvast í Evrópu í mánuði ef ekki meira en ár miðað við öskumagnið sem kom upp í því gosi.  Ógnin er til staðar og hún fer ekkert þó okkur þyki óþarfi að tala um hana.  það eru meiri líkur á því að áhrifin verði viðráðanleg, ef við erum undirbúin.

Marinó G. Njálsson, 20.4.2010 kl. 14:28

5 identicon

Kannski kemur risaloftsteinn, kannski springur sólin... sorry en Ólafur var þarna eins og snarvitlaus dómsdagsprestur...

Það bætir ekki þessa áhættustjórnunartakta hjá þér að koma með slagorð frá Intrum...

:)

DoctorE (IP-tala skráð) 20.4.2010 kl. 15:44

6 identicon

Er að koma heimsendir?

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 20.4.2010 kl. 16:14

7 Smámynd: Halldóra Hjaltadóttir

Sæll

Viðtalið á BBC

kv HH

Halldóra Hjaltadóttir, 20.4.2010 kl. 16:21

8 identicon

Það er heilmikið til í þessu sem Marinó er að segja.

Margrét (IP-tala skráð) 20.4.2010 kl. 18:43

9 identicon

Það er hægt að hvetja fólk og yfirvöld til þess að undirbúa sig á margan hátt, ég gerði mér far um að reyna að finna þessa klippu en fann hana einungis sundurklippta þannig að ég veit ekki hvað fór fram áður en þessi langloka um eldfjöll kom frá forsetanum, þannig að samhengið er ekki alveg þekkt.

Hins vegar þá var mín upplifun af þessu að þessi viðvörunarorð hefðu mátt vera betur orðuð, því eins og Marínó bendir á er þetta eitthvað sem þjóðir á Norðurhveli jarðar þurfa að hafa í huga. En orðalagið sem var forsetinn notaði var soldið í ætti við "You ain't seen nothing yet". Það er það sem fer helst fyrir brjóstið á mér frekar en boðskapurinn.

Kjartan Þór (IP-tala skráð) 20.4.2010 kl. 18:58

10 Smámynd: Gunnar Heiðarsson


Það er undarleg pólitík að ekki megi tala um það sem slæmt getur verið. Það er staðreynd að Katla getur gosið, hvers vegna má ekki vera undir það búinn.

Gunnar Heiðarsson, 20.4.2010 kl. 23:04

11 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Katla getur gosið, Hekla getur gosið, Grímsvötn geta gosið. Það getur  áreiðanlega gosið á meira en  100 stöðum á Íslandi.  Ummæli ÓRG voru óábyrgt bull um hluti,sem hann hefur ekki hundsvit á. Forseti á þegja  um hluti sem hann veit ekkert um, ekki skjóta fólki skelk í bringu og fæla ferðamenn frá landinu. Ólafur Ragnar á árum áður hljóp hvað eftir annað í fjölmiðla til að fullyrða að kjarnorkuvopn væru geymd á Íslandi. Allt var það borið til baka. Fyrir því var ekki flugufótur, en honum tókst að hræða fólk og vekja athygli á  sjálfum sér. Athyglissýkin fær menn til að hlaupa á sig.  Við höfum ekkert með  athyglissjúkling að gera í embætti forseta Íslands. Því fyrr, sem hann hverfur frá Bessastöðum , því betra fyrir íslenska þjóð.

Eiður Svanberg Guðnason, 21.4.2010 kl. 09:02

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Eiður, ég skil ekki þessa heift í garð Ólafs Ragnars (nema þú sért sendiherrann, þingmaðurinn og fréttamaðurinn fyrrverandi, þá grunar mig ástæðuna).  Hann gerði ekkert annað en að endurtaka það sem jarðvísindamenn hafa verið að segja í fjölmiðlum undanfarna daga og vikur eða er almennur fróðleikur um Ísland og stendur í öllum ferðabókum og jafnvel skólabókum um landið.  Ekki var þetta hans túlkun eða tilbúningur.  Haraldur Sigurðsson, jarðvísindamaður, tekur undir á blogginu sínu að rétt sé að tala um hlutina eins og þeir eru.  Staðreyndin er að Katla hefur ekki gosið lengi.  Staðreyndin er að Kötlugos eru mjög oft kraftmikil og ógnarleg.  Staðreyndin er að Kötlugosum gæti fylgt gríðarlegt magn ösku.  Staðreyndin er að aska frá Kötlu hefur fundist í jarðlögum víðar en hér á landi.  Ólafur Ragnar tiltók að það eigi eftir að gjósa oft á þessari öld.  Spurningin væri ekki hvort heldur hvenær.

Ég skil heldur ekki hagsmunaaðila í ferðaþjónustu.  Einn af mínum höttum er að ég er leiðsögumaður.  Hluti af mínum tekjum koma því frá ferðamönnum.  Bara svo það sé á hreinu.  En aftur að ferðaþjónustuaðilum.  Fyrir 10 dögum voru menn hoppandi glaðir yfir gosinu í Fimmvörðuhálsi og töldu sig himinn höndum tekið.  Þá mátti dásama gosið í erlendum fjölmiðlum, þó svo að líka væri talað um hugsanlegt Kötlugos.  Svo færist eldgosið yfir í Eyjafjallajökul og áhrifin verða neikvæð á ferðaþjónustu í Evrópu og í staðinn fyrir að einbeita sér að því að óska eftir rannsóknum á þörfinni fyrir flugbanni, því verði því aflétt, þá væri hægt að fá gríðarlegan fjölda ferðamanna, þá fara menn að atyrðast út í einn af fjölmörgum, sem komið hafa fram í erlendum fjölmiðlum, vegna þess að viðkomandi talaði um möguleikann á fleiri eldgosum.  Ferðamenn koma í mjög mörgum tilfellum til Íslands út af óbeislaðri náttúrunni, þar á meðal eldfjöllum.  Hvað ætli það séu margir sem vilja einmitt koma til Íslands núna út af eldgosinu, en geta það ekki út af flugbanninu?  Það eru ekki ummæli Ólafs Ragnars sem eru að valda afbókunum.  Það er flugbannið og eðlileg varkárni ferðamanna.  Viti ferðaskrifstofur úti í heimi, sem selja ferðir til Íslands, ekki af hættu á því að hér geti gosið hvenær sem er, þá er kannski tími til kominn að þær fræðist aðeins um landið og jarðfræði þess.  Það er léleg afsökun, að ummæli Ólafs Ragnars séu að valda afbókunum.  Það er einnig gríðarleg vanþekking á landinu. 

Það er út í hött að ekki megi ræða um hættur í náttúru Íslands.  Við eigum einmitt að vera vakandi fyrir þeim.  Sú umfjöllun, sem Ísland er að fá í erlendum fjölmiðlum, er ómetanleg.  Hvað ætli auglýsingarnar hefðu kostað sem fengist hafa?  Forsíðumynd á New York Times!  Endalaus umfjöllun í ljósvakamiðlum.  Blaðsíður eftir blaðsíður í blöðum, tímaritum og vefsvæðum.  Auglýsingin sem Ísland er að fá er upp á milljarða tugi, ef ekki hundruð. Það verða kannski einhver þúsund sem afpanta núna, en við munum fá hundruð þúsunda á næstu árum vegna athyglinnar.  Athyglin sem gosin tvö hafa vakið er gríðarlegt tækifæri fyrir íslenska ferðaþjónustu og það verður að nýta.

Marinó G. Njálsson, 21.4.2010 kl. 09:36

13 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Þetta er rétt Marínó - að áhugavert er að verða vitni, að þessum frekar ofsfengnu viðbrögðum við orðum Ólafs Ragnars.

  • Menn óttast fjárhagslegt tap - en, munum að grunnvandamál efnahags mála í dag, er það ástand sem kom í ljós við síðustu áramót, að þrátt fyrir cirka 90 milljarða hagnað af vöruskiptum, var samt halli á reikningum þjóðfélagsins við útlönd þegar vextir af erlendum skuldbindingum voru teknir með í reikninginn.
  • Við þessar aðstæður - eru menn skiljanlega viðkvæmari fyrir því, að verða fyrir fjárhagslegu tapi en vanalega.
  • Ein af björtustu vonum manna, er að aukning í ferðaþjónustu reddi málum fyrir horn, þ.e. skili aukningu gjaldeyristekna.
  • En, eins og þú veist eins vel og ég, þá hefur ekki enn tekist að fjármagna stórframkvæmdir þær, sem áttu að redda öllu.
  • Svo, - það sennilega er farið að skína í nokkra örvæntingu.
  • Það sé í reynd ástæða ofsans - þ.e. örvæntingin.
  • Menn vita, að ef stóru framkvæmdirnar koma ekki, sem ekki er bjart útlit fyrir um að komi, þá þarf eitthvað annað í staðinn.
  • Ekki eru margir valkostir þar um:
  1. Aukning í ferðamennsku.
  2. Aukning veiða - en, umræða um meiri kvóta, getur einnig verið, fyrir tilstuðlann þeirrar örvæntingar, sem ég er að nefna.

-------------------------------------------

Menn eru orðnir hræddir um stöðu sína. Svo, þeir sparka frá sér - hvort sem þ.e. sanngjarnt eður ei.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 21.4.2010 kl. 13:55

14 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Bæti þessum hlekk á viðtalið inn:

http://news.bbc.co.uk/2/hi/programmes/newsnight/8631343.stm

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 21.4.2010 kl. 14:53

15 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Mikið er ég innilega sammála þér!  Hér í Bandaríkjunum var Kötlugos á dagskrá á Fox News daginn eftir að byrjaði að gjósa í Fimmvörðuhálsi og jarðfræðingar, veðurfræðingar, climatologists og hvað allt þetta heitir nú, dregnir upp úr mölkúlunum, rykið dustað af þeim og þeir spurðir spjörunum úr hvenær Katla myndi gjósa og hvort heimsendir væri í nánd.  Góður kunningi minn, grandvar maður um sextugt, hringdi í mig og var að velta fyrir sér hvort heimsendaspár 2012 "fræðinganna" væri að rætast.  Þetta var í Mars síðastliðnum! 

CBC Radio One í Victoria hérna hinu megin við sundið hefur fylgst náið með gangi mála og þó ég muni nú ekki hvort Katla hafi komið upp í fréttum þar þá er það ekki ólíklegt.  Eldgosið í Eyjafjallajökli (sem þeir kalla ýmist "the volcano in Iceland" eða "that volcano";) hefur verið í hverjum morgun frétta tíma sem ég hef hlustað á undanfarna daga - hlusta á hann þegar ég fer með unga fólkið í skólana.  Á Jyllandspostinum, gamla, góða, er á forsíðunni (jp.dk):  "TEMA: Islandsk vulkanudbrud" og man ég ekki eftir að hafa séð sérstakt tema um Ísland þar áður;)

Það má vel vera að Ólafur hefði getað orðað mál sitt betur, ég skal ekki dæma um það.  Ég heyrði ekkert í því sem ég sá af viðtalinu sem var ekki bara upptalning á því sem jarðvísindamenn hafa verið að segja.  Ég held það hefði skotið skökku við hjá mörgum ef Ólafur hefði farið að tala þetta niður þar sem nánast ALLT flug í Evrópu lá niðri dögum saman sem aldrei hefur skeð áður nema eftir hryðjuverkaárásirnar 11. September 2001.  Ef Bush hefði komið í sjónvarpsviðtal í BBC þann 12 September 2001 og sagt að það væri allt í lagi og ekkert að óttast, þá hef ég grun um að honum hefði nú bara verið hent þráðbeint út úr Hvíta húsinu!  Ólafur sagði það sem allir vita.  Mér finnst þessi viðbrögð á Íslandi sýna að menn eru þar enn á fullu í rugli og veruleikafirringin hjá sumu fólki er komin á hættulegt stig. 

Persónulega finnst mér að Íslendingar ættu að nota þetta tækifæri til þess að vera leiðandi í rannsóknum á hvernig hægt sé að minnka áhrif gosösku.  Þar væri hægt að hugsa sér aðstöðu fyrir flugvélaframleiðendur til að prófa þotuhverfla og annan búnað sem er viðkvæmur fyrir ösku, þróa tækni sem er betur fallin til þess að mæla ösku innihald í lofthjúpnum með það fyrir augum að geta kortlagt mun nákvæmar heldur en nú er hægt hvar hættusvæði eru, bæði lárétt og lóðrétt.  Eins með að vinna að rannsóknum á því hvernig hægt er að snúa vörn í sókn hvað varðar gróðureyðingu o.s.frv.  Það er eitthvað sem finnst líka hérna í Washington því það eru enn stór svæði í kringum Mt. St. Helens sem eru gróðursnauð og sum hafa verið gerð að rannsóknarsvæðum svipuð og Surtsey þar sem er rannsakað hversu fljótt jurtir leggja gosöskusvæði undir sig.  En á Íslandi virðist sem að nú sé best að stinga bara hausnum í öskuna og láta sem ekkert sé!  AFTUR!  Er ekki nóg komið af ruglinu?  Hvenær ætla Íslendingar að vakna og fara að taka á sínum málum af ábyrgð og festu? 

Aftur afsaka ég ritræpuna! 

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 22.4.2010 kl. 04:36

16 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Yellowstone er sannarlega kominn á tíma. Það er super-eruption. Gereyðingargos fyrir norðurhvel jarðar. Gæti komið á undan Kötlu. Bregðumst við því fyrst eða hvað?

Það er augljóst að forsetinn var að blaðra. Saagði almælt tíðindi einsog hann hafi sjálfur verið að uppgötva þetta.

Það er því miður ekki hægt að mæla þessum manni bót vegna þess að hann hafði ekkert merkilegt að segja og varða að grípa til samlíkingar sem var vægast sægt illa til fundin.

Annars er hann ekki lengur minn forseti og getur sagt það sem hann vill fyrir mér.

Gísli Ingvarsson, 23.4.2010 kl. 09:22

17 Smámynd: Maelstrom

Gísli, hann sagði ekki bara gamlar frétti eins og um eigin uppgötvun væri að ræða.  Hann tók Ísland út fyrir sviga og sagði að menn þyrfti að undirbúa sig sérstaklega undir gos hér.  Það er bara alls ekki rétt hjá honum.

Alþjóðasamfélagið þarf að undirbúa sig undir eldgos almennt, hvort sem þau eru á Íslandi, Ítalíu, Indónesíu eða einhvers staðar í Ameríku.  Það er alger óþarfi fyrir forseta Íslands að fórna hagsmunum okkar í þessa ábendingu. Ráðamenn eru búnir að fatta þetta.

Ef ég væri að skipuleggja mitt sumarfrí þá myndi það sitja verulega í mér ef forseti Bandaríkjanna hefði komið fram á CNN, Sky eða álíka og brýnt fyrir heimsbyggðinni að nú þyrfti að fara að undirbúa sig undir gos í Yellowstone því það væri yfirvofandi.  Ég sé alveg George Bush fyrir mér með svoleiðis gullkorn og auðvitað hefði hann ekki minnst á að Yellowstone gýs á 100.000 ára fresti og allir spádómar um gos væru byggðir á þeim tímaskala.

Með þessari fullyrðingu er Ólafur að setja sig í flokk með mannvitsbrekkunni George Bush.

Maelstrom, 27.4.2010 kl. 18:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 101
  • Sl. sólarhring: 180
  • Sl. viku: 376
  • Frá upphafi: 1680664

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband