Leita í fréttum mbl.is

Verið að meðhöndla einkennin ekki sjúkdóminn

Ríkisstjórnin kynnti í dag það, sem kallar er "umfangsmiklar aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna".  Ég hef á síðustu dögum fengið tvær kynningar á þessum aðgerðum, fyrst af hálfu félagsmálaráðherra á fund þverpólitísks starfshóps Alþingis um skuldavanda heimilanna og fyrirtækja og hins vegar á fundi með aðstoðarkonu félagsmálaráðherra.  Margt sem kemur fram í þessum pakka ríkisstjórnarinnar kemur ekki á óvart, þar sem er í dúr og moll við atriði sem hinn þverpólitíski stafshópur hefur lagt til.  Fyrir réttum mánuði sættist hópurinn á 24 atriði sem lögð voru fyrir félagsmálaráðherra.  Mér sýnist, sem aðgerðir ríkisstjórnarinnar taki á hátt í 17 af þessum atriðum.  Get ég ekki verið annað en sáttur við þau viðbrögð, en vil velja á athygli á því að stærstu álitamálin bíða úrlausna.

Förum fyrst yfir þau atriði sem bera hæst í aðgerðum ríkisstjórnarinnar:

1. Umboðsmaður skuldara:  Sett verður á fót ný stofnun sem á að gæta hagsmuna lántaka.  Hún á að halda utan um greiðsluaðlögunarferlið, auk þess að fylgjast með og koma með ábendingar um það sem betur má fara.

2.  Ný greiðsluaðlögunarlög þar sem fyrri lög eru sameinuð í ein og þar með verður eitt ferli fyrir bæði samningskröfur og veðkröfur.  Allar kröfur verða undir í einum samningi.  Greiðsluaðlögun getur átt sér stað í frjálsum samningi, en gangi það ekki, þá er það hlutverk umboðsmanns skuldara að fara með greiðsluaðlögunarsamning fyrir dómara.  

3.  Gert er ráð fyrir að einstaklingar sem flust hafa úr landi geta sótt um greiðsluaðlögun svo fremi sem meiri hluti skulda þeirra sé hér á landi.  Er þetta mikil réttarbót fyrir þá sem farið hafa í nám eða til starfa utan landsteinanna.

4.  Rýmkaðar eru heimildir starfandi einyrkja til að sækja um greiðsluaðlögun, en áður þurfti fólk að hafa hætt rekstri fyrir minnst þremur árum.

5.  Bjóða á upp á úrræði fyrir fólk með tvær eignir.

6.  Gert er ráð fyrir úrræðum vegna bílalána, en það hefur ekki verið útfært.

7.  Fólki verður gert kleift að búa áfram í húsnæði sem það hefur misst á nauðungarsölu.

8.  Takmarka á innheimtukostnað sem hægt er að rukka skuldara um.  Dómsmálaráðherra fær heimild til að ákveða hvað má heimta úr hendi skuldara, en lögmenn geta áfram rukkað kröfuhafann um það sem þeim finnst nauðsynlegt.

9.  Bætt er inn úrræði fyrir fólk sem lent hefur í tekjumissi.

10.  Afskrift í lok greiðslujöfnunar verður skattfrjáls.  Það á einnig við um "hóflega" afskrift.

11.  Íbúðalánasjóður fær heimild til að veita óverðtryggð lán.

12.  Móta á nýja húsnæðisstefnu og taka upp húsnæðisbætur í stað vaxtabóta og húsaleigubóta.

Ýmislegt má segja um þennan pakka.  Hér er fyrst og fremst verið að gera lagfæringar á ýmsum atriðum vegna ábendinga um að fyrra fyrirkomulag hafi ekki verið nægilega gott.  Flest atriðin eiga það sammerkt að lækna á einkenni skuldavanda heimilanna, en orsökin er látin eiga sig.  Við skulum hafa í huga, að væri höfuðstóll lána heimilanna leiðréttur í samræmi við tillögur, t.d. Hagsmunasamtaka heimilanna, þá væri lítil þörf fyrir að meðhöndla einkennin. 

Hér varð gríðarlegur forsendubrestur vegna lána heimilanna og fyrirtækja.  Afleiðing af því er að flestir lántakar þurfa að standa undir stökkbreyttri skulda- og greiðslubyrði sem leitt hefur til verulega skertrar eignastöðu eða neikvæðrar eiginfjárstöðu.  Lausn ríkisstjórnarinnar fjármálafyrirtækjanna er að svipta fólk og fyrirtæki eigum sínum.  Fyrirtækin sem voru völd að því að allt fór á hliðina (og afsprengi þeirra), sjá þá einu lausn að yfirtaka eigur lántaka.  Þau hafa ekki þá hugmyndauðgi að leiðrétta af sanngirni og réttlæti höfuðstól lánanna.  Nei, þau telja sig ekki bera neina skyldu (siðferðislega eða lagalega) til að bæta fyrir þann skaða sem þau ollu.

Af atriðunum að ofan, þá er ég nokkuð sáttur við atriði 1, 2, 3, 4, 8, 9, 10, 11 og 12.  Lítið er hægt að segja um atriði 5 og 6, en þetta með að fólk fái að búa í eign sem það er búið að missa á nauðungarsölu er í mínum huga heldur aumt.  Ekki hefði ég áhuga á að búa í húsnæði, sem búið væri að selja ofan af mér.  Nær hefði verið að leita leiða til að koma í veg fyrir nauðungarsöluna.

Ég hef í rúmlega 18 mánuði talað fyrir því að lán heimilanna væru leiðrétt.  Í tillögum mínum frá 7. október 2008 stakk ég upp á því að hverju láni fyrir sig væri skipt í gott lán og slæmt lán.  Góða lánið endurspeglaði t.d. stöðu lánsins 1. janúar 2008, en slæma lánið það sem umfram væri.  Lántaki greiddi af góða láninu, en slæma lánið væri sett á frost eða afskrifað á nokkrum árum.  Ég held ennþá að þetta sé besta lausnin.  Raunar sú eina rétta. Ef við ætlum ekki að leggja þetta samfélag alveg í rúst, þá verða að koma fljótlega tillögur sem koma í veg fyrir þá miklu eignaupptöku sem nú er í gangi.  Það er ekki nógu gott að 70 - 80 þúsund einstaklinga hafi þurft að nýta sér sértæk úrræði.  Með ekki er tekið föstum tökum á skulda- og greiðsluvanda heimilanna, þá mun þeim fjölga sem þvingað er í sértæk úrræði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Stjórnin virðist vera fylgjandi aukinni skriffinnsku, og stofnun allskonar skriffinnsku stofnana.  En að sama skapi virðist stjórnin ekki fylgjandi réttlæti og sanngirni í skuldamálum.  Ég held að eina sanngjarna aðgerðinsem stjórnin gæti staðið fyrir væri að bakfæra höfuðstól allra verðtryggðra lána og allra myntkörfulána til janúar 2008.  Mér finnst það vera sanngirniskrafa skuldara. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 18.3.2010 kl. 03:01

2 identicon

Þessar aðgerðir spörkuðu bara í kvíðahnútinn í mínum kroppi.

Enn er ekki verið að viðurkenna forsendubrestinn og eignaupptökuna.

Það er svo margt búið að segja af viti um hvað sé rétt að gera og enn er ekki verið að hlusta.

Þetta er ömurlegt.

Húsnæðiseigandi (IP-tala skráð) 18.3.2010 kl. 08:43

3 identicon

Það sem mér fynnst einna verst er að sem viðskiptavinur íbúðalánasjóðs nýt ég ekki sömu úrræða og viðskiptavinir bankanna.

Ég get ekki fengið 10% niðurfellt (Íslandsbanki) eða 110% af virði eignarinnar (Arion og ríkisbankinn Landsbanki) og breytt því síðan í óverðtryggt lán með breytilegum vöxtum.

Þetta er að mínu mati mikið óréttlæti þar sem allir þessir bankar er/voru í hluta til eða í heild í eigu ríkissins.

Svavar Guðmundsson (IP-tala skráð) 18.3.2010 kl. 09:28

4 identicon

Sæll Marinó

Hvet þig til að sækja um embætti Umboðsmanns skuldara.

kv,

VJ

vj (IP-tala skráð) 18.3.2010 kl. 10:08

5 identicon

Það er eitthvað svo hrikalega öfugsnúið við þetta alltsaman. Bankarnir áttu stóran þátt í að almenningur er í stórkostlegum vandræðum núna, m.a. með því að taka stöðu gagnvart krónunni og ýmsum lögleysum. Að vísu eru þessar stofnanir komnar með nýja kennitölu en engar aðrar breytingar eru sjáanlegar. Afleiðingar gjörninga  bankanna eru þær að öllu er dembt á skuldara og ef fólk síðan getur ekki staðið í skilum með þær hækkanir sem hafa átt sér stað á lánum sem voru tekin í góðri trú um að allt væri í góðu lagi hjá þessum stofnunum þá er leyfilegt að hirða allt af lántakendum!! Við vorum rænd eigum okkar og ekkert er gert til að leiðrétta þessi rán en stjórnvöld leggja blessun sína yfir að ræningjunum sé heimilt að halda ránsfengnum!! Er þetta í lagi??? Að sjálfsögðu eiga bankarnir að greiða fyrir sín afglöp og óheiðarleika jafnvel þótt um nýja kennitölu sé að ræða. Skuldarar hafa ekkert með þetta að gera og það á ekki að vera löglegt að hirða eignir af fólki sem alltaf hefur staðið í skilum með allt sitt áður en allt fór í þrot hér og láta síðan í hendur þeirra stofnana sem áttu sök á hvernig allt fór. Þetta er þjófnaður og ekkert annað!

Edda Karlsdóttir (IP-tala skráð) 18.3.2010 kl. 12:48

6 identicon

Sammála þér Marinó varðandi að skipta lánunum varðandi forsendurbrest. Það væri hægt að skipta þannig upp að höfuðstóllinn í janúar 2008 væri verðtryggður með hármarki 4% verðtryggingu en sá seinni (hrunhlutinn )væri vaxtalaus. Fólk myndi borga niður lánin í ákveðnum hlutföllum eigum við að segja 75% af þeim verðtryggða en 25% af "hrunhlutanum".

Í öllum falli þá væri hægt að útfæra þetta á marga vegu. Er einnig sammála þér að hjól atvinnulífsins fara ekkert af stað fyrr en skuldavaldi heimilanna verður lagaður. Allar tillögur ríkistjórnarinnar og bankanna taka ekki að neinu leiti til hins almenna skuldara, aðeins þeirra sem eru komnir í mjög slæm mál; greiðsluaðlögun er ekki lausn á meðan verðtryggingin hleður upp lánið.

Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 18.3.2010 kl. 12:54

7 Smámynd: Axel Pétur Axelsson

Eru ekki fúskarar í læknastétt kallaðir skottulæknar, ég held að það megi kalla þessa ríkisÓstjórn skottulækna og heimsmeistara í fúski.

RíkisÓsóminn veit ekki einu sinni að það er blóðkrabbamein í gangi og ætla því bara að dæla verkjatöflum á liðið.

Axel Pétur Axelsson, 18.3.2010 kl. 22:53

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mér hefur dottið í hug ný myndlíking sem lýsir þessum aðgerðum.  Það er búið að efla og bæta líknardeildina til að tryggja að sem flestir fái notið þjónustu hennar, en ekkert er gert til að sporna við því að fólk lendi inn á líknardeildinni.

VJ, enginn veit sína ævi fyrr en öll er.  Það er ekki gerð krafa um sérstaka menntun, bara þekkingu á málefninu, en ég er svo sem í ágætis starfi sem stendur, þó innkoman geti verið nokkuð sveiflukennd.

Marinó G. Njálsson, 19.3.2010 kl. 02:06

9 Smámynd: Maelstrom

Marinó: "Fyrirtækin sem voru völd að því að allt fór á hliðina (og afsprengi þeirra), sjá þá einu lausn að yfirtaka eigur lántaka.  Þau hafa ekki þá hugmyndauðgi að leiðrétta af sanngirni og réttlæti höfuðstól lánanna. "

Finnst þér þetta réttlát lýsing?  Ríkið stoppar allar hugmyndir í fæðingu, sama hver hún er þannig að það er varla við fyrirtækin ein að sakast.  Nú á t.d. að stoppa 110% leiðina og 10% leiðréttingu Íslandsbanka með því að skattleggja leiðréttinguna í botn.

Greyið fólkið sem er þegar búið að nýta sér þessar leiðréttingar!  Það er ljóst að enginn mun nýta sér þessar leiðréttingar hér eftir og hvaða lausnir standa þá til boða?

Það er einfaldlega ekki hægt að gera neitt þegar ríkisstjórnin segir að það megi ekki og hótar lagasetningu til að stöðva málið.

Maelstrom, 19.3.2010 kl. 13:21

10 Smámynd: Harpa Björnsdóttir

Mér finnst að það þurfi að fara að skoða málið allt í heild sinni, ekki bankaíbúðalánin sér og myntkörfulánin sér og íbúðalánasjóðslánin sér.

Við sem erum að horfa upp á eignir okkar brenna upp, venjulegt fólk sem alltaf hefur staðið í skilum, eigum kröfu á að gripið sé til úrræða sem allir njóta góðs af, ekki bara þeir sem skuldsettu sig sem mest eða með áhættusamasta hætti.

Íbúðalánasjóðslánin og lífeyrissjóðslánin hafa löngum verið hið hefðbundna form lántöku þegar kaupa skyldi íbúð, bankalánin og myntkörfulánin voru "ný vara" á þessum vettvangi. Við sem fórum hefðbundnu leiðina erum flestöll komin í mjög þrönga stöðu núna, einfaldlega vegna höfuðstólshækkunar og þar af leiðandi hækkunar á mánaðarlegri afborgun. Ekkert gerðum við sem áhætta var fólgin í, og við reynum að standa í skilum fram í rauðan dauðann. En 30% hækkun lána og afborgana er stór biti.

Að tala um greiðslugetu er líka afstætt, því með því að auka vinnuálag eykur maður tekjur sínar og þar af leiðandi greiðslugetuna. Hvað er eiginlega eðlileg greiðslugeta? Er það laun fyrir 8 stunda vinnudag? eða er það laun fyrir 16 stunda vinnudag? Ég persónulega hef aukið vinnuálag mitt jafnt og þétt undanfarin 2 ár til að geta staðið í skilum, útfrá þeirri grundvallarreglu að á meðan maður aflar stendur maður í skilum. Og á meðan maður fær vinnu sem greitt er fyrir er maður þokkalega öruggur. En er þetta þrælafyrirkomulag einhverjum til góðs? Hvað ef maður fær ekki tvöfalda/þrefalda vinnu? Er maður þá ekki líka að taka vinnu frá öðrum? Og á maður að stunda 16 tíma vinnudag fram að ellilífeyri? Og hvað þá, ekki borgar ellilífeyrinn það sem krafist er?

Vitiði það, ég er orðin örþreytt eftir 2 ár í óvissu og því að reyna að halda mér á floti með öllum mögulegum (löglegum) ráðum og fáránlegu vinnuálagi. Hversu lengi getur maður staðið vaktina? Hugmyndin um að skila inn lyklunum til skuldunautanna verður sífellt meira freistandi - eitthvað frelsi fólgið í því.

Djókinn er að þó að maður borgi sem nemur 8-10% af virði láns á ári (ca 100.000 af hverri 1.000.000) þá lækkar lánið ekki, heldur hækkar um 30%.!!!! Hvar á byggðu bóli i Evrópu þekkist svona rugl? Í öðrum löndum þýddi þetta uppgreiðsu lána á innan við 20 árum....en hér 40 ára skuldaklafa með síhækkandi grelðslum.

Krafan er: Lækkun höfuðstóls aftur til jan-mars 2008 og þak á verðtryggingu þaðan í frá, t.d. 7-8%.

(Samt sem áður myndi það þýða um 13-15% raunvexti - og það þykir mikið í öðrum Evrópulöndum, þar sem íbúar geta reiknað með 2-5% raunvöxtum á lánum sínum))

Við verðum að herða baráttuna gegn svona augljósum afarkostum þar sem lánveitandi er tryggður í bak og kvið en við blæðum.

Harpa Björnsdóttir, 31.3.2010 kl. 00:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.12.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 427
  • Frá upphafi: 1680817

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband