Leita í fréttum mbl.is

Ræða Atla Steins Guðmundssonar á Austurvelli 23/1/2010: Ríkisstjórn Íslands, pereat!

Hér fyrir neðan er ræða Atla Steins Guðmundssonar sem hann flutti á Austurvelli í gær, 23. janúar 2010.

Góðir Íslendingar

Náttum fóru seggir
negldar vóru brynjur,
skildir bliku þeirra
við inn skarða mána.

Þetta stutta en firnasterka vísukorn er komið úr Völundarkviðu og lýsir orrustu sem er okkur fjarlæg og óþekkt. Kveðskapurinn á þó vel við hér í okkar samfélagi ársins 2010 þar sem sannarlega hafa seggir farið hér um að næturþeli og búið þjóðinni kaldar kveðjur með ósýnilegu og torskildu hagkerfi sem nú er á góðri leið með að binda íslenska skattgreiðendur á þann klafa sem lengi mun uppi verða.

Mér var boðið að koma hingað í dag og ræða um þá ákvörðun okkar sambýliskonu minnar að flytjast búferlum til Noregs með rísandi sól. Mér rann auðvitað blóðið til skyldunnar og þáði það góða boð enda tel ég mér það ljúft að greina frá forsendum og aðdraganda þeirrar ákvörðunar okkar.

Raunar vorum við orðin nokkuð viss í okkar sök þegar undir lok síðasta sumars um að við stefndum á brottflutning og sennilega værum við farin ætti ég ekki þennan vetur eftir af háskólanámi. Brottför er því ráðgerð í maí.

Okkar val stóð á milli Hollands og Noregs, þeirra tveggja landa þar sem minnst atvinnuleysi er innan Evrópska efnahagssvæðisins, flóknari útreikningar bjuggu nú ekki að baki. Eftir að vinir okkar og kunningjar tóku að flykkjast til Noregs og við fórum að heyra viðbrögð þeirra við norsku samfélagi varð það fljótt ofan á að hverfa þangað enda tungumálið nær okkur og hægara um vik að fá vinnu en í Hollandi þar sem atvinnuleysi hefur aukist nokkuð.

Þá skemmdi það ekki fyrir að vinafólk okkar hefur átt láni að fagna hjá frændum okkar Norðmönnum og ber saman um það að þarna sé komið samfélag sem styðji við bakið á þegnunum og aðstoði þegar á móti blæs.

Reynsla mín hérna heima er sú að þegar á móti blæs, blási stjórnvöld enn meira, og í sömu átt. Ég ætla að gera þá játningu hér og nú, frammi fyrir guði og mönnum, að greina frá því að ég kaus Samfylkinguna í kosningunum vorið 2009. Þau mistök geri ég bara einu sinni á ævinni. Ég trúði Jóhönnu Sigurðardóttur. Félagsmálaráðherrann gamli sem barðist með kjafti og klóm fyrir litla manninn um það leyti sem ég var að fermast.

Ég fylltist öryggistilfinningu þegar Jóhanna steig fram í kosningabaráttunni og lofaði þjóðinni skjaldborg um þær fasteignir sem nú eru á leið undir hamarinn í þúsundatali eftir 1. mars næstkomandi.

Reyndin varð önnur. Skjaldborg Jóhönnu Sigurðardóttur reyndist stærsti gúmmítékki íslenskra kosningaloforða og er nú á góðri leið með að verða brandari ársins 2009. Hin týnda borg Samfylkingarinnar, sveipuð dulúð, myrkri og himinháum vöxtum.
Í stað þess að hyggja að atvinnulausu fjölskyldufólki á leið í gjaldþrot var stefnan sett til Brussel. Evrópusambandið sem öllu á að bjarga – í fyrsta lagi árið 2012 þegar hér verður löngu sviðin jörð.

Hvað er þá orðið okkar starf í sex hundruð sumur, höfum við gengið til góðs, götuna fram eftir veg? Mér er það til efs.

Skattar og aftur skattar er hið eina meðal sem ríkisstjórn Samfylkingar og vinstri grænna þekkir. Mér reiknaðist til, eftir stutta rannsóknarvinnu, að hæsti leyfilegi virðisaukaskattur innan ESB sé 25 prósent. Hér æða menn í aðildarviðræður og byrja svo á því að taka upp 25,5 prósent virðisaukaskatt. Það er gott veganesti til Brussel.

Góðir Íslendingar.

Viljum við 25,5 prósent virðisaukaskatt?

Viljum við verðtryggð okurlán?

Viljum við nýtt heimsmet í nauðungarsölum?

En … viljum við réttlæti?

Því miður – það er bara ekki á matseðlinum.

Kæru samlandar. Ég verð sennilega hvorki forsætisráðherra né forseti úr þessu. Því er þetta sennilega eina skiptið sem ég fæ að ávarpa svo stóran hóp hér á Austurvelli og mér þykir sannarlega vænt um það tækifæri.

Mér þykir vænt um að fá að segja ykkur frá því að ég ætla að flytja burt af landi mínu áður en hæstvirtur fjármálaráðherra skattleggur sjálft andrúmsloftið.

Mér þykir vænt um að segja ykkur að ég kæri mig ekki um að deila 103.000 ferkílómetrum með mönnum sem fengu að eignast heilan banka fyrir ágóða af dularfullri bruggverksmiðju í Rússlandi. Sannara reyndist þó að kaupféð var fengið að láni frá öðrum banka, er nú horfið í kreppunnar skaut og aldrei það kemur til baka.

Okkur sem hér stöndum er hins vegar ætlað að greiða til baka ofurskuld þessara sömu manna við breska og hollenska sparifjáreigendur sem hafa ekkert til saka unnið annað en að láta glepjast af hinni tæru snilld Landsbankans. Það er ekki öfundsvert hlutskipti að fæðast hér á landi í dag, með tíu milljón króna yfirdráttarheimild – í botni.

Ég skvetti ekki rauðri málningu á hús manna um nætur, ég hef ekki í hótunum við útrásarvíkinga eða hraðlygin stjórnvöld. En ég fer. Þannig kýs ég að sýna mitt álit á þeirri vitleysu sem hér blasir við hvert sem litið er. Eftir endalaust röfl þings og stjórnar um ekki neitt, þar á meðal hvenær þingmenn fái næst matarhlé, er ekkert í sjónmáli. Ekki neitt!

Ég hef engan áhuga á að horfa hér upp á menn á borð við Sigurjón Árnason steypa þjóðinni í mörg hundruð milljarða skuld og fara svo að kenna fjármálaverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Ekki fannst mér skemmtilegra að lesa um það í fjölmiðlum nú í byrjun janúar að maðurinn lægi á sólarströnd á Kanaríeyjum meðan Íslendingar reyndu af veikum mætti að landa einhvers konar greiðsluáætlun gagnvart Bretum og Hollendingum. Svo ég vitni nú í gamalt og gott dægurlag: Er ekki kominn tími til að sjá og sigra….Sigurjón Árnason?

Enn minni áhuga hef ég á að horfa upp á Björgólf Guðmundsson akandi um götur borgarinnar á 12 milljóna króna jeppa, marggjaldþrota, og Björgólf Thor valsandi um sína mörg hundruð milljóna villu í London.

Hvenær ætla þessir herramenn að bæta þjóðinni þann skaða sem þeir hafa valdið?

Hvenær ætla þeir að segja eitt einasta orð við þjóðina?

Hvenær ætla þeir að opna þá feitu bankareikninga sem þeir eiga á Tortola og fleiri skattaskjólum og bæta þessari og næstu kynslóðum tjónið sem þeir ollu þegar þá vantaði pening til að gefa viðskiptavinum sínum gull að éta einhvers staðar í helvíti?

Hvenær!?!

Ég segi bara eins og Guðmundur jaki heitinn sagði einhvern tímann í ræðu: „Hvílíkur helvítis kjarkur!“

Íslenskir verktakar krefjast hér stórframkvæmda áður en þeir verða hungurmorða. Og nú er lag. Geymum álverin, hátæknisjúkrahúsið og netþjónabúið. Það sem Íslendinga vantar er eitt stórt, rammgert fangelsi í úkraínskum barokkstíl, staðsett á miðhálendinu. Það myndi ég kalla tæra snilld.

Hér stendur hnípin þjóð í vanda og óttast reiði breskra og hollenskra yfirvalda. Var það ekki þessi sama þjóð sem skaut úr fallbyssum á breska togara vorið 1973 og gaf dauðann og djöfulinn í reiði breskra ráðamanna. Ég sé ekki að Gordon Brown sé meiri bógur en Edward Heath og Harold Wilson þótt hann hafi einhver hryðjuverkalög á kantinum. Auðvitað á hver einasti Breti og Hollendingur að fá sitt sparifé til baka, annað tek ég ekki í mál. En greiðslubyrðin má ekki vera þannig að þjóðin sé sigld í kaf. Og þeir sem ábyrgðina bera eiga að leggja allt sitt fé á borðið, hvar sem það er falið.

Eitt er Icesave og annað er sú skuldabyrði sem komin er til af verðbólgu og gengishruni. Þar ættu lánastofnanir vissulega að axla ábyrgð en skjaldborg Jóhönnu og félaga hennar er hins vegar umhverfis þær stofnanir. Mín lán hækkuðu um tæpar 40 milljónir á 16 mánuðum. Í sex mánuði samfleytt hækkaði myntkörfulán frá Frjálsa fjárfestingarbankanum að meðaltali um 77.000 krónur á dag.

Það kemur ekki til greina að ég borgi þessa hækkun. Ekki til að tala um! Þegar lögfræðingur bankans sendi mér bréf til að tilkynna mér um nauðungarsölu kom þar fram að innheimtukostnaður væri 923.107 krónur, fyrir utan virðisaukaskatt. Það er dýrt að skrifa eitt bréf á þessum síðustu og verstu.

Við Íslendingar eigum heimsmet í fleiru en myntkörfulánum, sköttum og bridge. Við eigum nefnilega líka hæsta fílabeinsturn á Vesturlöndum. Þar er komið félags- og tryggingamálaráðuneytið. Þar situr fyrrverandi bankaráðsmaður úr Kaupþingi og glottir við tönn eins og Skarphéðinn í Njálu.

Þessi maður heitir Árni Páll Árnason og sat nýlega fyrir svörum í þættinum Í Bítið á Bylgjunni. Lítið kom það á óvart að nákvæmlega helmingur þeirra hlustenda sem hringdu inn spurði Árna Pál hvenær hann ætlaði að fara að gera eitthvað í málum þjóðarinnar. Árni sagðist vera búinn að gera alveg fullt og benti á hin miklu greiðslujöfnunarúrræði sín. Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að í fyrsta lagi eru úrræði Árna svo flókin að þau skilur ekki nokkur maður og í öðru lagi virðist það úrræði sem lengst gengur, eftir að hagfræðingar þýddu það á mannamál, lækka greiðslubyrði húsnæðislána um 17 prósent. Þetta er nú aldeilis munur, sérstaklega þegar báðar fyrirvinnur heimilisins eru án atvinnu eins og sums staðar er. Hvílíkt björgunarvesti.

Í kvöldfréttum sjónvarpsins á þriðjudag lýsti Árni Páll því svo yfir að engum væri greiði gerður með frekari frestun á nauðungarsölum. Hagur skuldarans væri einfaldlega að klára sín mál gagnvart lánardrottnum. Þar höfum við það. Hæstvirtur ráðherra virðist telja að Ísland skorti fleiri tóm hús í eigu banka og lánastofnana. Gott og vel. Samkvæmt kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær á Landsbankinn einn nú 428 fasteignir sem hann hefur hirt upp í skuldir. Best að fjölga aðeins í því safni.

Árni virðist líka álíta að hér sé bara allt í lukkunnar velstandi og þjóðin sigli hraðan byr út úr ógöngum sínum. Lái honum hver sem vill. Mér fyndist lífið ábyggilega bara fínt ef ég sæti inni á skrifstofu á ráðherralaunum með eðalvagn og einkabílstjóra fyrir utan. Skítt með það þótt atvinnuleysisskrá fitni um 40 manns á dag og fólk streymi frá landinu í leit að þjóðfélagi þar sem það getur lifað með reisn.

Stjórnmálamenn sem hafa aldrei verið starfsmenn á plani verða aldrei réttsýnir stjórnmálamenn. Enginn ætti að fá að gegna embætti félagsmálaráðherra nema að undangenginni námsvist í félagslegri íbúð í Þórufelli með 50 þúsund krónur á mánuði til að lifa af og frítt í strætó og sund. Mér skilst að flugfreyjustarf hjá Loftleiðum gefi líka af sér ágæta félagsmálaráðherra – en það skilar afleitum forsætisráðherra.

Góðir Íslendingar. Síðastliðinn sunnudag, 17. janúar, voru 160 ár liðin síðan skólapiltar úr Lærða skólanum lentu upp á kant við rektor sinn, Sveinbjörn Egilsson. Þeir gengu fylktu liði um götur Reykjavíkur, sem þá var vart nema bær, og hrópuðu „Rektor Sveinbjörn Egilsson, pereat!“ sem á latínu útleggst hann farist eða tortímist.

Núna, 160 árum síðar, ætla ég að snúa pereati þeirra skólapilta upp á ríkisstjórn Íslands. Ekki þá einstaklinga sem hana skipa, en stjórnina sem pólitískt fyrirbæri. Góðir fundarmenn, við skulum hrópa þrisvar sinnum ríkisstjórn Íslands, pereat.

Góðir Íslendingar.

Látum aldrei aftur bjóða okkur upp á þá afarkosti sem okkur eru nú settir!

Látum aldrei aftur einkafyrirtæki í eigu glæpamanna grafa okkur lifandi í skuldum!

Og látum aldrei aftur stjórnmálamenn landsins segja framan í stútfullt Háskólabíó „Þið eruð ekki þjóðin“! Því svo sannarlega erum við sterk þjóð sem gengið hefur fylktu liði gegnum þykkt og þunnt. Þjóð með þjóðum!

Ég segi hingað og ekki lengra og kveð þetta land. Ykkur, samlanda mína, þjáningarbræður og -systur, hvet ég og kveð með þessum orðum:

Íslendingar, stöndum upp!
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Þetta var mögnuð ræða og það þarf að dreifa henni sem víðast.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 24.1.2010 kl. 14:05

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þarna talar reiður maður sem fer með miklum boðaföllum eftir sínum tilfinningalega skala.  Hann og fjölskyldan að flytja úr landi og ekkert við því að segja, því það er val hvers og eins. 

Ég sakna þess þó að við getum ekki notið krafta fjölskyldunnar við endur reisnina

Að reisa heilt samfélag úr rústum er ekki bara nokkurra mánaða vinna, ekki einu sinni fyrir  Jóhönnu.

Reiðin beinist geng vinnufólkinu sem er að leggja grunn að nýju samfélagi. það er að mínu mati ekki réttur aðili til að reiðast.

Hverjir eru brennuvargarnir sem brenndu samfélagið okkar og hver lánaði þeim eldspýturnar.

Jú vissulega brenndur gírugir fjárglæframenn samfélagið okkar.

Sá sem lánaði þeim eldspýturnar var Davíð Oddsson og forsætisráðherrann og verndari Seðlabankastjóra Geir H Haarde horfði á og Sjálfstæðisflokkurinn fylgdist með.

Halldór Ásgrímsson gaf sjálfum sér og öðrum vildarvinum fiskinn í sjónum skömmu eftir 1980 og þaðan kemur upphaf fjárglæfranna.

Jóhanna er hamhleypa í að sópa, en talsmenn fjárglæfranna gera allt sem þeir geta til að tefja spilla og skemma.

Spyrjið fjárglæframennina um skjaldborgina.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 24.1.2010 kl. 14:34

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Marinó, hvers vegna eru mótmæli ykkar svona máttlaus?  Afhverju keyrið þið ekki á 1-2 atriðum og látið sverfa til stáls?  Það er ekki vænlegt til árangurs að klifa á einhverjum tæknilegum atriðum. Sú umræða verður oft svo flókin að hún endar útí móa og almenningur missir áhugann og baráttuviljann.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 24.1.2010 kl. 14:36

4 identicon

Bíddu nú aðeins hæg Hólmfríður, er það þá þannig að ríkisstjórn Jóhönnu er algerlega valdalaus undir hælnum á fjárglæframönnum. Alltaf heyri maður eitthvað nýtt. Félagsmálaráðherra er því miður ekki að valda starfi sínu og hefur ekki minnsta áhuga á því að leysa úr vanda þeirra sem hafa lent í skuldavanda frekar en aðrir pólitíkusar. Málflutningur Hólmfríðar er sorglegur og lýsir kannski best þeirri stöðu sem við almenningur erum í, allt púður fer í að finna sökudólga en ekki að vinna að lausnum. Við vitum öll um klúður Davíðs og Halldórs, glórulausa einkavinavæðingu og eigum að láta það okkur að kenningu verða en það leysir ekki skuldavanda heimilana né kemur í veg fyrir atgerfisflótta.

Sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 16:52

5 Smámynd: Sveinn Elías Hansson

Nú vilja flestir vera vinir norðmanna. Hér áður fyrr gerðu flestir íslendingar stólpagrín að þeim, þá sérstaklega fyrir sparsemi þeirra.

En það get ég sagt og hef alltaf sagt að norðmenn upp til hópa eru yndislegt fólk,þetta þekki ég af eigin reynslu síðastliðinn 33 ár.

Nú eru íslendingarnir hættir að gera grín að norðmönnunum, þó fyrr hefði verið.

Sveinn Elías Hansson, 24.1.2010 kl. 20:21

6 Smámynd: Offari

Góð ræða og mikið er ég sammála þesum manni. Ég hef líka velt fyrir mér að flytja út en konan er ekki hrifin af því. Árið 2009 fór mest í bið eftir skjaldborg sem aldrei var byggð.

Hvað ætli það taki mörg ár að reikna út greiðsluþol heimilina? Einhvernveginn finnst mér það vera stefnan. Það er vissulega gremjulegt að þurfa að borga hærri skatta til að niðurgreiða skuldir annara, en samt finnst mér enn gremjulegra aðm borga án árangurs.

Engin árangur hefur náðst. Skuldarar sitja enn í súpuni og þeirra besti valkostur er að fara í gjaldþrot. Að handvelja hverjum verðmi bjargað og hverjum ekki er bara mismunun.  Skömtun að hver fái hæfilegt hús og bíl ásamt viðráðanlegum skuldum, er sanngjörn en alltof seinvirk og flókin leið.

Allar tafir á úrlausnum gera ekkert annað en að tefja endurreisnina. Þvímiður held ég að það hefði verið sama óstandið þótt við hefðum kosið einhverja aðra ríkisstjórn. Því fyrri stjórnir voru jafn úræðalausar.  Hagsmunasamtökin leita hinsvegar að lausnum og vonandi ná þeir árangri.

Landflótti og gjaldþrot auka vandann en samt er mér nokkuð ljóst að best hefði verið að láta bankana fara í þrot 2006 og byrja allt upp á nýtt frá þeim tímapunkti.

Offari, 24.1.2010 kl. 20:23

7 Smámynd: Sveinn Elías Hansson

Flott ræða og allt satt sem í henni stendur.

Allir stjórnmálamenn eru sami skíturinn í sömu klósettskálinni.

Hér þarf BYLTINGU ekki kosningar.

Sveinn Elías Hansson, 24.1.2010 kl. 20:43

8 identicon

Hólmfríður, er foringjadýrkunin svonamikil hjá þér að þú blindast?

ef þú vil kenna kvótakerfinu um, þá hefur Jóhanna alltaf stutt það, hún átti meira að segja ásamt Steingrími, þátt í því að koma frjálsa framsalinu á.... voru þau að hygla sér og sínum? getur það verið Hólmfríður...... ég segi nei

siguróli kristjánsson (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 21:19

9 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þær aðgerðir sem félagsmálaráðherra hefur sett fram til hjálpar heimilunum í landinu hafa verið gagnrýndar og það með réttu. Þær ganga of skammt og eru of flóknar. Það hefur verið skýrt með því að fjármálastofnir hafi haft of mikið um það að segja hvernig málinu var stillt upp. Þetta hefur meðal annars verið gagnrýnt af talsmönnum Hagsmunasamtaka heimilanna og það með réttu.

Foringadýrkun er ekki minn stíll. Ég tel eins og margir að misgengi fjármagns í samfélaginu hafi byrjað þegar gjafakvótinn kom til sögunnar. Jóhanna og Steingrímur hafa gert mistök alveg eins og við öll. Þegar við gerum upp hrunið, hvort sem er í fjármunum, mistökum og saknæmu athæfi, erum viðað leita að sökudólgum og ekkert athugavert við það.

Þá finnst hvar óreyðuskuldirnar liggja og fundnar leiðir til að gera þær upp

Þá finnst það sem gert var rangt fyrir mistök og þá er reynt að forðast þau mistök.

Þá finnst það sem gert var rangt af ásetningi og þá er tekið á því samkvæmt okkar lagaumhverfi.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 24.1.2010 kl. 23:13

10 identicon

takk fyrir svarið, en getur samt fullyrt að Halldór hafi gefið sér og sínum "gjafakvótann", nú þegar þú veist að Jóhanna og Steingrímur voru í þeirri stjórn, grunar þig þá líka að þau hafi gefið einhverjum vina sinna, eða detta þessi orð dauð niður

siguróli kristjánsson (IP-tala skráð) 25.1.2010 kl. 08:54

11 Smámynd: Billi bilaði

Atli er flottur, og eðaldrengur. Ég hef setið með honum í stjórn. Það var gaman.

Hólmfríður - af hverju tekur þú fram að þarna fari reiður maður? Ert þú sem sagt ekkert reið? Og ert í forystu í verkalýðshreyfingunni!

Afganginn af athugasemd þinni, Hólmfríður, ætla ég ekki að fara ofan í; hún er svo langt fyrir utan markið að manni fallast hendur.

Billi bilaði, 5.2.2010 kl. 01:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 81
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband