Leita í fréttum mbl.is

Greiðsluvandi þjóðarbúsins - Hvað er til ráða?

Í pistli 14. október fjallaði ég um mat mitt á skuldum þjóðarbúsins (sjá Erlendar skuldir þjóðarbúsins - Þrjár snjóhengjur upp á 3.600 - 4.400 milljarða).  Það komst ég að þeirri niðurstöðu að yfir Íslandi héngju þrjár snjóhengjur, þ.a. eignir áhættufjárfesta sem voru að sækjast í íslenska vextir fyrir hrun, íslenskar eignir þrotabúa hrunbankanna og loks hlutabréf og framtíðartekjur þrotabúanna frá nýju bönkunum.  Í pistlinum gat ég mér þess til að þessar fjárhæðir væru í fyrstu snjóhengjunni allt að 970 milljarðar, 1460 milljarðar í þeirra annarri og á bilinu 1.200 - 2.000 milljarðar í þeirri þriðju en útstreymið vegna hennar dreifðist yfir lengri tíma.

Þegar horft er til þeirrar upphæðar sem ég nefndi hér að ofan, þ.e. 3.600 - 4.400 milljarðar, þá er því fljótt svarað, að þá upphæð getum við ekki greitt meðan íslenska krónan er gjaldmiðill landsins og gjaldeyrir flæðir bara inn, ef erlendar tekjur eru meiri en erlendar greiðslur.  Verði skipt um gjaldmiðil og alþjóðlega viðurkenndur gjaldmiðill tekinn upp í staðinn, þá mun upphæðin sem hér er nefnd, fljótlega soga allt fjármagn úr landi eða auka verulega á ríkisskuldir vegna lána sem ríkið þyrfti að taka til að til að fjármagna þetta útflæði hjá þeim seðlabanka sem leitað væri til um slíka peningaprentun.  Ef svo ólíklega vildi til, að Seðlabanki Íslands hefði þetta peningaprentunar vald, þá efast ég um að myntin verði mjög lengi alþjóðlega viðurkennd og hringekjan hefst á nýjan leik.  Þá er næst að skoða hvort við getum komist upp með að greiða lægra en kröfufjárhæð fyrir þessar skuldir.

Skipta má vandanum í stórum dráttum í tvennt: 

1) Innlendar eignir áhættufjárfesta sem vildu hagnast á háu vaxtastigi á Íslandi, þ.e. það sem hingað til hefur verið vísað til sem snjóhengjan.  Upphæð þeirra er allt að 970 milljarðar kr. miðað við tölur SÍ.  Þessir aðilar eiga fullan rétt á því að koma peningum sínum úr landi, en það verður ekki gert með góðu móti.  Þessum aðilum hefur verið gerð alls konar tilboð, þar sem þeir raunar gefa eftir hluta eigna sinna.  Á móti hefur þeim verið boðið upp á ákaflega hagstæðar ávöxtunarleiðir sem ýtir ekki beint á þá að taka útgönguleiðatilboðum.  Á einum eða öðrum tímapunkti mun þolinmæði bæði Seðlabankans og fjárfestanna bresta og þá er spurningin bara hve hátt hlutfall eignanna viðkomandi geta flutt úr landi og hve mikið verður hreinlega fellt niður. 

Mín skoðun er að lækka verður verulega vaxtastigið í landinu til að draga úr aðdráttarafli þess að geyma peningana hér til lengri tíma og hækka sífellt andvirði þess sem að lokum fer út landi.  Taka þarf af markaði eins mikið af hávaxtaávöxtunarleiðum og koma í staðinn með ávöxtunarleiðir með 1 - 3% nafnvöxtum.  Ég sé t.d. fyrir mér að hægt verði að bjóða upp á húsnæðislán með slíkri ávöxtun gegn því að afborganir lánanna megi færa úr landi jafnóðum.  Þannig byðist húsnæðieigendum loksins sambærileg vaxtakjör og í nágrannalöndum, en í Danmörku er t.d. nú um stundir boðið upp á lán með innan við 1% vöxtum.

2) Eignir og tekjur þrotabúa hrunbankanna hér á landi.  Þetta mál er bæði stærra og auðveldara, svo furðulegt sem það er. Raunar er það einkennilegt, að menn hafi ekki reynt þessa lausn fyrr.  Hún er sú að ríkið yfirtaki allar kröfur í þrotabúin og komi þannig í veg fyrir að nota þurfi verðmætan gjaldeyri í að greiða þeim.  Hæstiréttur hefur þegar tilgreint hvert eignarnámsvirði slíkra krafna væri, þ.e. það verð sem kröfuhafar greiddu fyrir kröfurnar hafi þeir eignast þær eftir 6. október 2008.

Í mínum huga er tómt mál fyrir kröfuhafa að gera ráð fyrir því að eignir og framtíðartekjur þrotabúanna á Íslandi, fari úr landi í bráð.  Og hvað þá að þær fari úr landi á nafnvirði.   Bjartsýnustu spár eru 50% afföll og tímaramminn sé ekki undir áratug, þegar krónan hefur haldið áfram að síga undir endalausum þrýstingi á gengið.  Mér finnst líklegra að afföllin þurfi að vera enn þá meiri.

Þjóðnýting þrotabúanna

Ein leið út úr vandanum er þjóðnýting þrotabúanna.  Samkvæmt fréttaskýringu Morgunblaðsins, þá hafa um 80% af kröfum í þrotabú Glitnis og Kaupþings skipt um hendur og eru nú í eigu vogunarsjóða.  Flestir greiddu þessir vogunarsjóðir sáralítið fyrir kröfurnar, líklegast vel innan við 10%, þó gengi skuldabréfanna sé í dag ýmist 25 eða 30% samkvæmt upplýsingum á keldan.is.  Við þjóðnýtingu þyrfti þó ekki að greiða samkvæmt gangvirði í dag, heldur að bæta eigendum útlagðan kostnað og síðan eðlilega ávöxtun ofan á hann.  Hæstiréttur kvað úr um það í Icesave-dómum sínum í fyrra að þeir sem eignuðust kröfur í Landsbanka Íslands hf. eftir hrunið geti ekki talið sér til tjóns þar sem er umfram  það sem greitt var fyrir kröfu.  Þau rök halda líka, þegar kæmi að þjóðnýtingu.

Vitað er að kröfurnar hljóða upp á ríflega 8.000 milljarða, en slitastjórnir hafa ekki viðurkennt þær nema að hluta.  Gefum okkur að kröfur að upphæð 5.000 milljarðar hafi verið teknar til greina og að 70% þeirra hafi skipt um hendur eftir 6. október 2008 á um 10% af nafnvirði kröfunnar.  Þá standa eftir annars vegar innstæðueigendur með tæplega 1.100 milljarða sem ætlunin er að greiða upp í topp og aðrir með 400 milljarða og þeir tækju á sig 50% afföll.  Alls gerði þetta 1.100 + 350 + 200 = 1.650 milljarðar króna eða nánast það sama og erlendar eignir þrotabúanna hljóða upp á, en þær voru í lok 2. ársfjórðungs 1.631 milljarður.  (Tekið skal fram að útreikningarnir eru ekki alveg svona einfaldir, þar sem misjafnt er hvað hvert þrotabúa á í erlendum eignum og hve háar viðurkenndar kröfur í búin eru.)

Verði þessi leið farin, þá væri hægt að fara hér í róttæka uppbyggingu og endurskipulagningu skulda heimila, atvinnulífs og hins opinbera.  Allt í einu væru tiltækir peningar til að koma til móts við alla þess aðila. 

Nauðasamningar eða gjaldþrot

Undanfarið hefur átt sér stað umræða um hvort er betra nauðasamningar eða gjaldþrot.  Eins og staðan er í dag, þá hefur þjóðarbúið ekki efni á því að missa neinn umfram gjaldeyri úr landi til að gera upp við kröfuhafa, hvort heldur þrotabúin leita nauðasamninga eða fara í gjaldþrot.  Satt best að segja, þá skil ég ekki hver ætti að vera munurinn á þessum tveimur leiðum.  Við gjaldþrot, þá hafa menn sagt að þrotabúin myndu þurfa að selja nýju bankana, þ.e. Íslandsbanka og Arion banka, þar sem gjaldþrotaaðili má ekki eiga fjármálastofnun.  Ég sé fyrir mér að kröfuhafar einfaldlega stofni félag um reksturinn, færi eignarhaldið yfir í þetta nýja félag og verði þannig formlegir eigendur í stað þessa sýndarleiks sem nú er í gangi.  Sama gæti gerst verði farið í nauðasamninga eða a.m.k. yrðu áhrifin þau sömu, þ.e. að þrýstingur væri á að koma háum fjárhæðum úr landi.  Fjárhæðum sem eru svo háar, að þær færu léttilega með að tæma gjaldeyrisforða þjóðarinnar. 

Hvorug þessarra leiða er fær vegna þeirra upphæða sem um ræðir.  Þó svo að erlendir kröfuhafar myndu sætta sig við að fá í sinn hlut erlendar eignir þrotabúanna, þá væri eftir að leysa mörg mál. 

Stærsta málið er eignarhaldið á Íslandsbanka og Arion banka. Ef eignarhaldið væri enn hjá kröfuhöfunum, þá hangir snjóhengjan áfram yfir.  Í fyrsta lagi í virði bankanna, þá í framtíðararðgreiðslum frá bönkunum og loks í þeim fjárhæðum sem gert er ráð fyrir að renni til kröfuhafa vegna betri innheimtu af lánum (sem vissulega mætti setja undir tvennt hið fyrra).  Inn í þetta blandast svo skuldabréf Landsbankans hf. til Landsbanka Íslands hf.

Nei, sama hvernig ég hef velt þessu máli upp, þá er yfirtaka ríkissjóðs á þrotabúunum á þeirri forsendu sem lýst er að ofan, eini kosturinn í stöðunni sem ekki tæmir gjaldeyrissjóði þjóðarinnar.  Tómt mál er að tala um framtíðar innstreymi gjaldeyris, þar sem það er dropi í hafi miðað við umfang fjármagnsins sem vill úr landi.

Mistök að taka ekki yfir alla nýju banka

Svo asnalegt sem það nú er, þá var sú ákvörðun ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms, að taka ekki yfir Íslandsbanka og Arion banka og spara ríkissjóði stórar upphæðir í eiginfjárframlögum, líklegast mjög dýr afleikur.  Ef ríkið væri eigandi allra þriggja bankanna, þá hefði t.d. ekki þurft að setja bann á arðgreiðslur og ríkið hefði því getað tekið til sín háar fjárhæðir á hverju ári.  Við erum að tala um nægilega háar fjárhæðir til að leiðrétta lán heimilanna, draga verulega úr niðurskurði í grunnkerfum þjóðfélagsins og standa undir a.m.k. hluta vaxtagreiðslna ríkissjóðs.  Ef þetta hefði verið gert, væri snjóhengjan vegna hrunbankanna og nýju bankanna umtalsvert lægri eða sem nemur líklegast um 1.000 milljörðum kr.  Felst það í því að Íslandsbanki og Arion banki væri ekki í bókum Glitnis og Kaupþing.  Þar með rynni framtíðarsöluverð bankanna ekki að stærstum hluta úr landi og hagnaður þeirra færi ekki að stærstum hluta úr landi.  Miðað við þann gríðarlega hagnað sem verið hefur á bönkunum, þá eru þetta hærri upphæðir en gjaldeyrissjóðir þjóðarinnar ráða við í dag og um fyrirséða framtíð. Já, svona getur, að því virtist, skynsamlegur sparnaður í fortíðinni reynst margfalt dýrari fyrir þjóðfélagið í framtíðinni.


mbl.is Má ekki vanmeta vogunarsjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. október 2012

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 1678257

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband