Bloggfærslur mánaðarins, september 2016
26.9.2016 | 22:59
Vísitala neysluverðs og húsnæðisliðurinn
Boltinn er byrjaður að rúlla. Umræðan um húsnæðisliðinn í núverandi mynd í vísitölu neysluverðs (VNV) er komin af stað. Ég ætla að birta hér á blogginu hluta úr bók sem ég er að vinna að, og vonandi er ekki of langt í, þar sem ég skoða m.a. afleiðingarnar fyrir þjóðfélagið, að húsnæðisliðurinn er reiknaður eins gert er í VNV. Hér er þó eingöngu horft til þess hvernig hann er reiknaður.
Greidd og reiknuð húsaleiga í VNV
Lítið fer á milli mála, í mínum huga, að nauðsynlegt er að reikna húsnæðiskostnað á einhvern hátt inn í neysluvísitölu. (Ekki eru allir sammála þessari fullyrðingu og vilja sleppa honum alveg.) Gagnvart þeim sem leigir húsnæði, er þetta frekar einfalt. Breyting á leiguverði segir beint til um kostnaðarbreytingu leigjandans. Með því að taka úrtak leigukostnaðar frá mörgum leigusölum, er hægt að sjá líklega breytingu á markaðsverði leigu. Þetta er gert í liðnum „041 Greidd húsaleiga“ í vísitölu neysluverð.
Spurningin er hins vegar hvernig eigi að gera það þegar um eignarhúsnæði er að ræða. Breytingar á þeim þætti eru sýndar í liðnum „042 Reiknuð húsaleiga“ og endurspeglar í dag breytingar á húsnæðisverði. Hagstofan notar aðferð sem byggir á því að reikna út "notkunarkostnað" húsnæðisins. Svo vitnað sé í nokkrar greinar sem hafa birst um þetta, þá er Hagstofan meðvituð um að kaup á húsnæði er gerður í tvennum tilgangi. Annars vegar sem fjárfesting og hins vegar til notkunar og að taka þurfi til beggja þátta. Í grein sem birtist í Fjármálatíðindum 1/2004 segir höfundurinn, Rósmundur Guðnason:
Af þeim sökum hefur verðmat á notum eigin húsnæðis lengi verið vandamál við útreikning á neysluverðsvísitölum sérstaklega þar sem leigumarkaðir eru smáir eins og á Íslandi.
Nokkrar leiðir hafa verið farnar innan OECD, en sú leið sem notuð hefur verið á Íslandi frá árinu 1980, byggir á svo kölluðum notendakostnaði.
"Þegar notendakostnaður er reiknaður er það árgreiðslan af stofni eignanna sem er notuð til að fá útgjaldavogina," eins og Rósmundur segir í framagreindri grein. Markaðsbreytingar eru notaðar til að finna út breytingar á húsnæðisliðnum innan vísitölunnar. Notendakostnaður byggir á því að fundinn er út nokkurs konar fórnarkostnaður af því að eigandinn búi í húsnæðinu miðað við að hann gæti notað peningana í eitthvað annað. Eða svo vitnað sé í svar Hagstofunnar við fyrirspurn minni:
Notendakostnaðinn, sem liður 042 Reiknuð húsaleiga byggist á, má líta á sem fórnarkostnaðinn af því að hafa fjármagn bundið í eigninni, hvort sem það er eigið fé eða lánsfé. Einnig er tekið tillit til slits eignarinnar og hún afskrifuð miðað við ákveðinn endingartíma. Ekki tekið tillit til reglulegs viðhalds í honum.
Áður en ég held áfram með þetta, þá vil ég vitna aftur í grein Rósmundar:
Árgreiðsla (reiknuð leiga) er reiknuð af markaðsvirði eignarinnar og reiknaða húsaleigan metin miðað við ákveðna raunvexti og afskriftir. Raunvextirnir eru ávöxtunarkrafa (fórnarkostnaður) á það fjármagn sem bundið er í eigninni eða tekið að láni. Tillit er tekið til slits eignarinnar og hún afskrifuð miðað við ákveðinn endingartíma húsnæðisins. Litið er til notanna af húsnæðinu, búsetunnar, en afrakstur fjárfestingarinnar er mældur með langtímaraunvöxtum. Verðbreytingin ræðst aðallega af breytingum á markaðsverði allra eigna sem seldar eru og að einhverju leyti af breytingu raunvaxta.
En svo kemur ein nokkuð stór forsenda, sem mér finnst eyðileggja nokkuð mikið:
..að vegna smæðar leigumarkaðar sé til skemmri tíma litið ekki unnt að selja húsnæðið og leigja annað í staðinn.
Eins og þarna kemur fram er "fórnarkostnaðurinn" fundinn út frá nokkrum atriðum. Fyrst er að nefna, að markaðsvirði eignarinnar er notað í upphafi, því næst eru ákveðnir tilteknir raunvextir vegna ávöxtunarkröfu (fórnarkostnaðarins) og loks er reiknaðar afskriftir upp á 1,25% á ári.
Mér finnst vera hægt að pota nokkuð í þessa aðferðafræði, en það má þó allt laga í gegn um vægi eigin húsaleigu (Reiknaðrar húsaleigu) í vísitölu neysluverðs. Veit ég ekki hvort það sé gert. Þau atriði sem ég vil benda á eru:
- "Fórnarkostnaðurinn" er reiknaður út frá tilbúinni ávöxtunarkröfu, sem í kynningu sem Rósmundur hélt, er sögð vera 3% raunvextir og bætt við innan sviga að sé sú sama og lífeyrissjóðirnir gera, en í greininni í Fjármálatíðindum er raunávöxtunarkrafan sögð vera 4%. (Tekið skal fram, að lífeyrissjóðirnir eru með 3,5% ávöxtunarkröfu á öllum eignum sínum, en hún er breytileg á milli eigna.)
- Bætt er við afskriftum til að mæta endingartíma húseigna og er það miðað við 67 ár. Hvort 67 ár sé eðlilegur endingatími, má deila um, en í öðrum lið húsnæðisliðar (liðnum 043 Viðhald og viðgerðir húsnæðis) er tekið tillit til viðhalds, sem samkvæmt svari við fyrirspurn minni byggir á "að verðgildi eignarinnar er [ekki] viðhaldið með því viðhaldi sem er inni falið í lið 043 heldur að not hennar eru óbreytt, þ.e. notagildinu er viðhaldið en ekki verðgildinu". Nú má reikna með því að afskriftir eigi að mæta hvorutveggja rýrnun á notagildi og verðgildi. Gagnvart húsnæði, þá gildir samt einhvern veginn sú fáránlega regla, að gamalt húsnæði er almennt á eftirsóttum stað. Það er því ekki að rýrna í verðmæti með aldrinum, heldur þveröfugt, verðmæti þess eykst, eins og enginn sé morgundagurinn. Þess fyrir utan, þá hefur liðurinn 043 Viðhald og viðgerðir á húsnæði vegið á bilinu 2,0-2,5% á árinu 2016 meðan liðirnir 041 Greidd húsaleiga og 042 Reiknuð húsaleiga hafa verið að sveiflast í kringum 20%. Viðhaldskostnaður vegna rýrnunar á notagildi húsnæðis er því metinn 10-12,5% af raunverulegri og ímyndaðri leigu í útgjöldum fjölskyldunnar. Verulegt viðhald þar á ferð til þess eins að viðhalda notagildi eignarinnar.
- Ekki er metið inn í vísitöluna, sú ávöxtun sem fæst af því að búa í húsnæðinu. Sú ávöxtun er almennt jákvæð, þegar húsnæðisverð hækkar, og neikvæð þegar það lækkar. Sem sagt "leigutakinn" er alveg ónæmur af stöðu "leigusalans", þ.e. hans sjálfs, vegna hagnaðar eða taps á markaðsverði. Ég hefði haldið, að góð ávöxtun "leigusalans" ætti að minnka "fórnarkostnað" hans af því að búa sem "leigutaki" í eigin húsnæðis. Á sama hátt ætti "fórnarkostnaðurinn" að aukast á þeim tíma þegar fasteignaverð lækkar. En "fórnarkostnaðurinn" er alveg ónæmur fyrir þessum þætti, þó svo að forsenda þessara breytinga sé búseta í eigin húsnæði.
- Þá er það, að ekki er tekið tillit til þess (vegna þess hve leigumarkaðurinn er lítill) hvaða kosti "leigutakinn" hefði, ef hann vildi selja húsnæðið. Þetta tel ég hreinlega rangt. Hvernig er hægt að meta "fórnarkostnað" af búsetu í eigin húsnæði, ef ekki er metið hvað það myndi kosta að selja húsnæðið og fara í leiguhúsnæði í staðinn, þó leigumarkaðurinn sé lítill? Fyrir flesta, þá myndi 4% raunávöxtun af eiginfé ekki duga til að dekka mismuninn á útlögðum kostnaði vegna búsetu í eigin húsnæði og leiguverði á frjálsum markaði. Höfum í huga, að Hagstofan miðar við að eigið fé sé 50%, en það hlutfall er mjög mismunandi. Eftir því sem eiginfjárhlutfall eykst, þá minnkar raunverulegur kostnaður "leigusalans" af húsnæðinu og svo öfugt þegar eiginfjárhlutfallið lækkar. Því mætti alveg staðhæfa, að "fórnarkostnaðurinn" aukist með hækkun eiginfjár, þrátt fyrir að kostnaðurinn af eigninni minnki.
- En gagnvart hverju er þessi "fórnarkostnaður"? Líklegast er miðað við, að "leigusalinn" geti selt húsnæðið og sett fjármunina í aðra fjárfestingu. Það er hægt á meðan bara lítill hluti húseigenda selja húsnæðið sitt og færa sig yfir í leiguhúsnæði. Húsnæði landsmanna er metið á um 2.800 ma.kr. og leiguhúsnæði er takmarkað. Gefum okkur að ALLIR húseigendur ætli að breyta til og annað hvort selja húsnæðið sitt eða flytja í leiguhúsnæði og leigja eigið húsnæði út. Ef nú hrúgaðist skyndilega út á markaðinn bæði gríðarlegt magn húsnæðis til sölu og gríðarlegt magn húsnæðis á leigu, þá væri markaðurinn í steik. Þó svo að í raun og veru væri þörf fyrir sama magn af húsnæði, þá tækju markaðslögmálin líklegast annan snúning á þetta. Húsnæðisverð myndi lækka verulega og það myndi leiguverð líka gera til lengri tíma, en fyrst tæki það mikinn kipp upp á við. En vegna þess að "fórnarkostnaðurinn" er eingöngu metin eign fyrir eign, þá mælist svona markaðssveifla ekki.
- Enn frekar um "fórnarkostnaðinn". Ef allir seldu til að fara á leigumarkað og festu ekki fé sitt í annarri fasteign, þá mun ávöxtunarkrafa á verðbréfamarkaði hrynja og verðbréf hækka mikið í verði. Eigið fé húseigenda er um 1.500 ma.kr. um þessar mundir (ef ekki meira). Hvert ættu 1.500 ma.kr. að leita eftir ávöxtun? Þau tækifæri eru einfaldlega ekki fyrir hendi, nema náttúrulega að fasteignafélögin, sem munu verða gríðarlega öflug, fari í hlutfjáraukningu eða markaðsverð þeirra (og þar með gengi hlutabréfa) rjúki upp úr öllu.
Svona úr frá þessum athugasemdum, þá fæ ég a.m.k. þrennt út:
- Ávöxtunarkrafan við mat á "fórnarkostnaði" er alveg út úr kortinu.
- Nauðsynlegt er að taka tillit til, eftir því sem við á, fjárfestingarhagnaðar eða fjárfestingartaps "leigusalans" í "fórnarkostnaði" hans að leigja sjálfum sér eignina.
- Ekki eru færð nægilega góð rök fyrir afskriftarhluta reiknaðrar húsaleigu, þegar viðhald til að viðhalda notagildi eignarinnar er talið inni í öðrum lið húsnæðisliðarins.
Svo fólk skilji betur þetta með viðhaldið, þá vil enn vitna í svar Hagstofunnar við fyrirspurn minni. En þar segir:
Handbók frá Eurostat um húnæðisverð útskýrir þetta mjög vel hvaða viðgerðir og viðhald eru innifaldar í viðhaldskostnaði þeirra sem búa í eigin húnæði. Ég vona að þér sé sama þótt ég afriti textann hér inn á ensku:
"a)They are activities that must be undertaken regularly in order to maintain the dwelling in working order over its expected service life. The owner or user of this asset has no choice about whether or not to undertake ordinary maintenance and repairs if the dwelling in question is to continue to provide the usual shelter service;
b) Ordinary maintenance and repairs do not change the dwelling's performance, capacity or expected service life. They simply maintain it in good working order, if necessary by replacing defective parts by new parts of the same kind."
Sama hvernig reiknað er, þá tel ég vera rangt að nota breytingar á húsnæðisverði beint til að meta kostnað af eigin húsnæði, því sú breyting sýnir ekki kostnaðarbreytingar fyrir eiganda húsnæðisins. Raunar er yfirhöfuð rangt að nota húsnæðisverð til að mæla reiknaða húsaleigu, því kaupin á húsnæðinu eru (skuldsett) fjárfesting sem ætlunin er að leiði til þess að sparnaður safnist upp. Allar afborganir af lánum (bara afborganahlutinn) eru því aðferð til að leggja meira fé í sparnað/lækka skuldsetningu fjárfestingarinnar. Að ímyndaður leigjandi sé látinn borga langt umfram þessa upphæð í húsnæðiskostnað, er einnig rangt.
Sá sem er búinn að eiga húsnæði í mörg ár, verður ekki endilega fyrir kostnaðarbreytingu jafnóðum hækkun húsnæðisverðs. Líklegra er að þessi kostnaðarbreyting tengist nýju fasteignamati, þar sem fasteignamatið hefur áhrif á fasteignagjöld. Þar sem breyting á fasteignagjöldum á sér bara stað einu sinni á ári, þá ætti sú breyting bara að koma fram í húsnæðisliðnum einu sinni á ári. Markaðsverð húsnæðis hefur hins vegar ekki áhrif á nein gjöld sem húsnæðiseigendur greiða. (Svo má spyrja sig hvernig standi á því að verð á tonninu af köldu vatni breytist eftir fasteignamati húsnæðis og hvað þá að það kosti meira að leiða skolp frá dýrum eignum en ódýrum, þó þær séu í sama stigaganginum.)
Áhrif við eigendaskipti
Annað sem verður að skoða, er hvort eigendaskipti á húsnæði leiði yfirhöfuð til kostnaðarhækkunar fyrir kaupandann, þrátt fyrir að húsnæðisverð hafi hækkað. Nokkur atriði skipta þar máli:
- Fjármagnskostnaður: Breytingar á vaxtakjörum gætu hreinlega leitt til þess að greiðslubyrði lána minnki við húsnæðisskipti, þó farið sé í dýrara húsnæði. Ekki er sjálfgefið að nýtt húsnæði krefjist hærri lántöku. Engin tengsl eru á milli þeirra lána sem þarf að taka og húsnæðisverðs og því þarf fjármagnskostnaður ekki að hækka í sama hlutfalli og húsnæðisverð.
- Útborgun af seldri eign: Flestir sem kaupa sér húsnæði, eru að koma úr annarri eign. Sú eign hefur líklega hækkað í verði og vonandi hefur eigið fé viðkomandi í eigninni hækkað. Við sölu þarf því sá sem kaupir að greiða út mismuninn á yfirteknum lánum og söluverðinu. Þessi upphæð er sparnaður, sem seljandi hefur náð að mynda, varðveita eða varna að tapist frá því hann eignaðist húsnæðið. Þegar þessi peningur er settur í kaup á nýrri eign, þá er ekki um kostnað að ræða fyrir viðkomandi, heldur verið að færa sparnað á milli fjárfestinga. Eftir því sem fólk eldist, þá vonast það til þess að þessi sparnaður aukist og hann verði hægt að taka út á einhverjum tímapunkti, þegar ákveðið er að fara í ódýrara húsnæði á efri árum. Að eiga sparnað í húsnæði, er ekki að fórna ávöxtun þess sparnaðar. Ávöxtunin kemur fram í hækkun húsnæðisverðs. Hún getur verið jákvæð og hún getur verið neikvæð, en það á við um allar fjárfestingar. Ekkert segir heldur til um að ávöxtunin eigi að halda í við verðbólgu.
- Verðbólga og verðbætur: Breytingar á verðbólgu fer beint inn í afborganir lána. Um leið og verðbætur leggjast á lán, þá hækkar sá hluti fjármagnskostnaðar sem heitir verðbætur á höfuðstól/eftirstöðvar, verðbætur á afborgun og verðbætur á vexti. Í lítilli verðbólgu, þá dregur úr þessum hluta fjármagnskostnaðarins, meðan hann eykst í mikilli verðbólgu. Í lítilli verðbólgu gæti lántakinn meira að segja verið að greiða niður eftirstöðvar lánsins, þ.e. greitt meira í afborgun og verðbætur á afborgun, en nemur verðbótum sem bættust á lánið vegna hækkunar vísitölu neysluverðs. Svo þarf að skoða (sbr. síðasta lið) hvort verðbætur hafi ekki í raun áhrif á sparnaðarhlutann, en ekki notkunarhlutann, því verðbæturnar stuðla að lækkun eiginfjár í fasteign hvort heldur fasteignaverð er að hækka eða lækka. (Vissulega er stundum verðhjöðnun, en þar sem það er afbrigðilegt ástand, þá er því sleppt hér.)
- Breytingar á gerð húsnæðis: Er viðkomandi að minnka við sig eða stækka við sig, að fara úr gömlu húsnæði í nýtt eða öfugt, að fara af dýrara svæði yfir á ódýrara eða öfugt. Er húsnæðið nýuppgert, í upprunalegu ástandi eða í niðurníðslu. Er um nýbyggingu að ræða.
- Breytt búsetuform: Er viðkomandi að koma úr/fara í leiguhúsnæði eða ókeypis húsnæði.
Verðbreytingar segja ósköp lítið
Að mæla bara breytingar á verði húsnæðis, segir nákvæmlega ekkert til um hvort húsnæðiseigandi hafi orðið fyrir kostnaðarbreytingum samhliða verðbreytingum. Það mælir bara einn lið af mörgum sem skipta máli.
Tökum nokkur einföld dæmi:
- Lán endurfjármögnuð: Húsnæði var keypt á 30 m.kr. húsnæði með 24 m.kr. óverðtryggðu láni á 6,95% vöxtum og 6 m.kr. af sparnaði/eiginfé. Eftir tvö ár stendur lánið í 22 m.kr. og þá er það endurfjármagnað með verðtryggðu láni með 3,6% vöxtum. Verðbólga er stöðug um 2%. Vaxtakostnaður fellur úr því að vera 127.417 kr. á mánuði í því að vera 66.000 kr. á mánuði. Á þessum tveimur árum hækkaði markaðsverð húsnæðisins í 36 m.kr. Þrátt fyrir 20% hækkun húsnæðisverðs, þá var fjármagnskostnaður húsnæðiseigandans að lækka um 48%. Það er ekki metið í VNV vegna þess að gagnvart henni skiptir húsnæðisverðið eitt máli.
- Hagstæðari vextir í boði: Á árunum 2003-2008 flæddu yfir markaðinn gengistryggð lán. Þau báru mjög lága vexti. Þó þau hafi reynst úlfur í sauðagærum, þá sýna þau, að mjög mikil hækkun húsnæðisverðs þarf ekki að leiða til hækkunar fjármagnskostnaðar. Reyndin varð, að fjármagnskostnaður þeirra sem nýttu sér þessi lán, lækkaði um hundruð þúsunda á ári af 10 m.kr. láni. Gerðist þetta á sama tíma og húsnæðisverð hækkaði mikið. Með réttri samsetningu lána var hægt að kaupa húsnæði, sem hafði þrefaldast í verði á stuttum tíma, með hagstæðari fjármögnun en verðtryggð lán buðu upp á miðað við verð fyrir hækkun.
- Söluverð vegur upp hluta eða alla hækkun ný húsnæðis: Jón og Gunna selja húsnæði á 50 m.kr. sem þau eru búin að eiga í 5 ár. Þau keyptu það á 30 m.kr. og hafði því hækkað um 66%, sem jafnframt er meðalhækkun húsnæðis á þessu tímabili. Þau kaupa annað húsnæði á 60 m.kr., en það kostaði 5 árum áður 35 m.kr. og hafði því hækkað um rúmlega 71%. Þegar hækkun á eldra húsnæðinu er dregin frá hækkun á nýja húsnæðinu, þá er hækkunin til Jóns og Gunnu ekki 25 m.kr. heldur 10 m.kr. vegna þess að þau nýta söluhagnað af eldra húsnæði upp í kaupverð á hinu nýja. Þau halda áfram að leggja uppsafnað sparnað til að lækka framtíðarkostnað af húsnæðinu. Vísitala neysluverðs horfir bara til þess að verð á hinu keypta húsnæði hefur hækkað, en lítur ekki til þess að hið selda húsnæði hækkaði líka.
- Söluhagnaður lækkar lántöku: Fjölskylda selur eldra húsnæði, sem hún hafði átt í 15 ár. Húsnæðið var keypta á 20 m.kr., en er selt á 60 m.kr. Áhvílandi lán námu við sölu 25 m.kr. Kaupandi greiddi því 35 m.kr. Fjölskyldan kaupir annað húsnæði á 55 m.kr. (kemst af með minna húsnæði) og greiðir 35 m.kr. í peningum, en tekur yfir lán upp á 20 m.kr. á sambærilegum kjörum og þau sem voru á hinu húsnæðinu.
- Vextir og afborganir lána lægri en leiga: Leigjandi sem festir kaup á húsnæði lendir oftast í því að leigugreiðslur eru mun hærri en vextir og afborganir lána og annar fastakostnaður af húsnæði í einkaeigu. Húsnæðiskostnaður viðkomandi lækkar því heilmikið við það að breytast úr leigjanda í húsnæðiseiganda. Vísitölu neysluverðs er nákvæmlega sama um þetta.
- Auðvitað virkar þetta allt í hina áttina líka, þ.e. vaxtagreiðslur lána á breytilegum vöxtum geta hækkað samkvæmt skilmálum lánssamnings, seljandi gæti hafa tapað eiginfé frá kaupum til sölu og jafnvel staðið uppi með tvær hendur tómar og leigjandi gæti vissulega verið að færa sig í mun dýrara húsnæði en gamla leiguhúsnæðið og því farið í hærri greiðslubyrði eða er að fara úr eignarhúsnæði í fokdýrt leiguhúsnæði. En vísitölu neysluverðs er jafn sama um það og hitt. Hún horfir bara á breytingar á húsnæðisverði og reynir ekki að meta allt hitt sem er að gerast í tengslum við eignarhald á húsnæði.
- Hér er síðan nauðsynlegt að skoða ástandið frá apríl 2008 til ársloka 2011 eða svo. Langtímum sama á þessu tímabili lækkaði húsnæðisverð mjög mikið, en flestir húsnæðiseigendur höfðu ekki áður staðið frammi fyrir jafnmiklum fjármagnskostnaði (a.m.k. ekki á síðustu 20 árum fyrir 2008). Sem sagt, þegar fjármagnskostnaðurinn var að drepa fólk, þá sagði VNV að húsnæðisliðurinn væri að draga úr hækkun verðbólgu. Þetta eru þau verstu öfugmæli, sem til eru, og sýna best að liðurinn 042 Reiknuð húsaleiga má ekki byggja á húsnæðisverði, ef hann í raun að endurspegla kostnað (húsleigu) húseigenda af því að búa í eigin húsnæði. Það sem gerðist á þessum árum, var að tap var á fjárfestingunni og sparnaður var að glatast, en stærri hluti en áður af ráðstöfunartekjum fóru í að greiða vexti og annan kostnað af lánum til lánveitenda.
Hvernig er hægt að ákveða, að íbúi í eigin húsnæði sé að fórna ávöxtun með því að búa í því? Hvað þá að sú ávöxtum nemi 4% raunaávöxtun af markaðsverði húsnæðisins? Hvernig er síðan hægt að segja að fórnin aukist við það að verðið hækki, og minnki við það að verðið lækki, þegar allt bendir til þess, að þessu sé öfugt farið. Getur einhver bent mér á í hverju "fórnarkostnaðurinn" er fólginn að búa í húsnæði sem hefur hækkað um tugi prósenta á nokkrum árum, þegar hinn kosturinn, þ.e. að búa í leiguhúsnæði, hefur jafnvel hækkað enn meira. Er þá ekki fórnarkostnaður fólginn í því að selja, taka húsnæði á leigu og sjá húsnæðið sem selt var hækka um 20% á tveimur árum meðan leigan hækkaði líka um 20%. Í þeirri sviðmynd, þá felst fórnarkostnaðurinn í því að flytja í leiguhúsnæðið, fara á mis við verðhækkun eignarinnar og borgar sífellt hærri leigu.
Á móti, þá er augljós fórnarkostnaður fólginn í því að búa í húsnæði, sem hrynur í verði, í staðinn fyrir að selja og búa í leiguhúsnæði, þar sem leigan lækkar. Flestir "leigusalar", sem leigðu sjálfum sér íbúð, töpuðu stórum upphæðum á árunum 2008-2011, þegar skuldir hækkuðu upp úr öllu og húsnæðisverð lækkaði um tugi prósenta.
Ætli menn að nota annað hvort ávöxtun eða fórnarkostnað til að mæla breytingar á liðnum 042 Reiknuð húsaleiga í vísitölu neysluverðs, þá verður rökstuðningurinn að standast. Eins og hann er settur fram í tilvitnuðu efni og svörum frá Hagstofunni, þá gerir hann það ekki nema í útópísku þjóðfélagi, þar sem einn og einn aðili er tekinn út úr og staða hans skoðuð eins og hann sé Palli einn í heiminum. (Þetta á þó ekki við, þegar ákveðið er að útiloka þann kost, að húseigandi geti selt og gerst raunverulegur leigutaki.)
Bloggar | Breytt 13.10.2016 kl. 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.9.2016 | 21:57
Ísland er best - Er það satt?
Ég held að fyrir flesta, sem fæðst hafi á Íslandi, hafi það verið blessun. Ég held líka að fyrir marga, sem til Íslands hafa flutt, hafi það verið heillaspor. Ég held að fyrir flesta sé ótrúlega gott að búa á Íslandi.
Kostir lands og þjóðar eru óendanlega margir. Byrjum á friðsældinni og örygginu. Hingað barst vissulega stríðið í seinni heimstyrjöldinni og ógnir þess bitnuðu harkalega á sæfarendum. Þar á undan voru það Alsíringarnir, sem kallaðir voru Tyrkir, sem komu hingað 1627. Þeir herjuðu á landsmenn, drápu suma og hnepptu aðra í ánauð. Síðan var það tímabil ættbálkaerja og héraðshöfðingja sem bárust á banaspjótum á 12. og 13. öld.
Þá er það landið, fegurð þess og náttúruauðævi. Þau eru ekki mæld í gulli og gimsteinum heldur hreinu og tæru fjallavatni, jarðhita, fallvötnum, fengsælum fiskimiðum, lítt snortnu hálendi og óteljandi náttúruperlum. Landið er harðbýlt og hafa þarf fyrir að yrkja það svo það gefi af sér, en til þess höfum við m.a. notað jarðhitann og fallvötnin.
Þjóðin er svo sem ekkert betri eða verri en flestar nágrannaþjóðir okkar. Landið hefur hugsanlega eflt í landanum þrautseigju og útsjónarsemi. Nauðsynlegt hefur verið að vera úrræðagóður og vinnusemi einn af kostum þjóðarinnar. Kannski ekki allt af góðu komið, því fámennið og léleg laun hafa nánast þvingað þjóðina til að vinna langan dag.
Einhvern veginn tókst okkur að byggja hér upp alveg ótrúlegt samfélag. Eitt ríkasta hagkerfi í heimi, sé tekið mið af hinni alræmdu höfðatölu. Land með þjóðarframleiðslu á mann á pari við öflugustu iðnríki og aðeins "fjármálaríki" á borð við Lúxemborg og Sviss standa okkur verulega framar.
Á Íslandi á sér stað verðmætasköpun úr auðlindum sem endurnýja sig stöðug, ef við gætum hófsemi í nýtingu þeirra. Sjálfbær nýting þessara auðlinda getur fært okkur stöðuga uppsprettu tekna um nokkuð langa framtíð.
Menntakerfi, heilbrigðiskerfi og velferðarkerfi eru í fremstu röð, þó það gangi í sveiflum. Nýleg skýrsla segir að við stöndum okkur þjóða best í að ná lýðheilsumarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Já, Ísland hefur upp á svo óteljandi margt að bjóða og hér ættu allir að hafa það gott.
En hvernig stendur á því:
- að stórir hópar landsmanna þurfa að lifa á grjónagraut og núðlum heilum og hálfu mánuðina?
- að kjör stórra hópa lífeyrisþega eru gjörsamlega óviðundandi?
- að stórir hópar eru í stökustu vandræðum með að standa straum af grunnmenntun sinni eða barnanna sinna?
- að stórir hópar hafa ekki efni á grunnlæknisþjónustu vegna þess að kostnaðurinn er orðinn svo mikill?
- að það að fá krabbamein er ávísun á fjárhagsörðugleika, ekki vegna tapaðra launa, heldur kostnaðar við meðferð?
- að búið er að skerða svo heilbrigðisþjónustu víða á landinu, að á þeim svæðum er nánast lífhættulegt að veikjast?
- að tækjabúnaður á heilbrigðisstofnunum er af of stórum hluta úreltur eða bilaður?
- að börn í grunnskóla fá ekki mannsæmandi mat í skólamötuneytum?
- að öryrkja/fatlaðir/þroskaskertir fá ekki búsetuúrræði við hæfi?
- að launamunur kynjanna er enn skakkur sem nemur yfir einum mánaðarlaunum á ári?
- að skortur er á húsnæði fyrir ungt fólk og það sem stendur til boða er óheyrilega dýrt?
- að kostnaður við nám er svo mikill og stuðningur lítill, að það tekur fólk nánast alla ævina að endurgreiða námslán?
- að hið "ókeypis" menntakerfi kostar fjölskyldur og einstaklinga háar upphæðir á hverju ári?
- að hið "ókeypis" háskólanám er með "innritunargjöld" sem jafnast á við skólagjöld víða erlendis?
- að vegakerfi Vestfjarða er verra en fyrir 30 árum?
- að einbreiðar býr, byggða um miðja síðustu öld, eru helstu dauðagildrur vegakerfisins?
- að náttúruperlur liggja undir skemmdum vegna þess að verið er að rífast um hver á að borga?
Ef Ísland er best í heimi, hvernig stendur á því að svona margt er ekki eins og það ætti að vera?
Er ástæðan kannski sú að innan við 1% landsmanna lifa við ótrúlega auðsæld byggða á kerfi sem mokar til þeirra auð teknum af hinum vinnandi stéttum? Er ástæðan kannski sú, að á Íslandi eru vextir í hæstu hæðum? Er ástæðan kannski, að fjármagnseigendur eru með brenglaða mynd af hvaða ávöxtun þeir eigi að fá? Er ástæðan kannski, að ráðandi stjórnmálaflokkar síðustu áratugi eru hallir undir auðmennina eða hafa ekki djörfung til að breyta kerfinu? Er ástæðan kannski, að kjósendur eru eins og klárinn sem sækir þangað sem hann er kvaldastur? Er ástæðan kannski, að kjósendur óttast breytingar? Er ástæðan kannski, að spillingin er svo mikil á Íslandi, að hún kemur í veg fyrir að breytingar geti orðið?
Ég veit ekki svörin við hver ástæðan er, en hvaða gagn er af því, að Íslandi sé hampað sem besta landi í heimi, ef stór hluti þjóðarinnar hefur allt aðra tilfinningu og hlær að þessum fréttum sem kjánaskap og einfeldni rannsakenda.
Svo er hitt, að þó Ísland væri í raun og veru best í heimi, þá eru óteljandi tækifæri til að gera það enn betra. Það getur verið að jafnrétti kynjanna sé hvergi meira en á Íslandi, en það er enn rými til að bæta það. Það getur verið að staða lífeyrisþega sé góð miðað við mörg lönd Vestur-Evrópu, en það vantar mikið upp á að hún sé nógu góð. Það getur verið, að staða í húsnæðismálum sé betri en í flestum viðmiðunarlöndum, en hún er langt frá því að vera ásættanleg. Já, það getur verið að Ísland sé öfundsvert í augum margra þjóða í heiminum, en við getum gert það svo miklu betra!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Umdeildasta skjal á Íslandi þessa daganna er "Skýrsla formanns og varaformanns fjárlaganefndar"/"Skýrsla meirihluta fjárlaganefndar"/"Skýrsla Vigdísar Hauksdóttur" allt eftir því hvaða titil fólk notar. Hún hefur verð úthrópuð að sumum sem algjört bull og af öðrum sem ærumeiðingar. Mig langar að fjalla um það sem er umfram þessar upphrópanir.
Traustar heimildir
Fyrir það fyrsta er skjalið alfarið byggt á opinberum gögnum, en þau eru:
1. Skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna, sem Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, skilaði til Alþingis 31. mars 2011. Í skýrslunni er lýst því ferli sem haft var við endurreisn viðskiptabankanna, en fyrst og fremst hvernig tveimur þeirra var komið í hendur þrotabúanna og þar með kröfuhafa. Ekki er hægt að segja að þeim hafi aftur verið komið í hendur á þessum aðilum, því ríkið átti þá frá stofnun.
2. Skýrslu Ríkisendurskoðunar, Fyrirgreiðsla ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahruns, en í henni er nokkuð greinargóð lýsing á hvernig Ríkisendurskoðun metur að ríkissjóður hafi verið notaður til að styðja við viðskiptabankana þegar þeir voru endurreistir (þ.e. nýir stofnaðir í stað þeirra sem lögðust á hliðina).
3. Ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins vegna stofnunar nýju bankanna
4. Ársreikningar bankanna
Ég fann engin tilfelli, þar sem heimilda var ekki getið nema hvað hvorki kemur fram nafn skýrsluhöfundar né löggilts skjalaþýðanda.
Skjalið er því vel stutt heimildum um uppruna upplýsinga og allar eru þessar heimildir traustar og virtar.
Svo vill til, að í nokkur ár hef ég verið að dunda mér við að greina ýmislegt sem fór úrskeiðis í undanfara og eftirmála hrunsins. Er það von mín að þessi vinna mín endi að lokum í bókarform, þó bókaflokk þyrfti nú til að gera öllu þessu góð skil. Er ég af þeim sökum búinn að viða að mér óteljandi skjölum, m.a. öllum sem nefnd eru hér að ofan, og krufið inn að beini þær upplýsingar sem þar er að finna. Efni skjals Vigdísar og Guðlaugs er mér því nokkuð vel kunnugt og hef ég auk þess oft fjallað um ýmsa anga þess opinberlega. (Tek fram að ég veit ekki hvort eða hvenær þetta grúsk mitt endar á prenti.)
Það sem snýr að ríkinu
Það sem kemur fram í skjalinu umdeilda, er í stórum dráttum mjög svipað mínum ályktunum. Ríkið gaf frá sér háar upphæðir til að ljúka samningum við kröfuhafa sem létu aðeins skína í tennurnar. Vissulega vissu menn ekki allt sem þeir vita í dag, en samningar ganga ekki út á að annar aðili samnings taki á sig alla áhættuna meðan hinn hirðir allan hagnaðinn. (Úps, var búinn að gleyma verðtryggðu lánunum.)
Ég hef lesið skýrslu fjármálaráðherra oftar en ég kæri mig um að rifja upp. Í hvert einasta skipti sé ég eitthvað sem fær mig til að velta fyrir mér hvað menn voru að hugsa.
Ég ætla ekki að tjá mig um einstök efnisatriði í skýrslu fjármálaráðherra, en hvet alla, sem hafa áhuga á öðruvísi hryllingssögum, að lesa hana. Ég verð að viðurkenna, að ég veit ekki alveg hvað mönnum gekk til í samningaviðræðunum. Jú, ég veit það alveg: Að koma eignarhaldi á bönkunum undan ríkinu. Það var málið, en rökin ganga ekki upp.
Höfundi "skýrslunnar", þ.e. sá sem ritar kafla 2 til 9, tekst mjög vel upp að lýsa furðulegum vinnubrögðum, útreikningum sem ekki ganga upp (nema átt hafi að gefa þrotabúunum peninga), hvernig hagsmunir lántaka gleymdust og brunaútsöluna sem var í gangi. Ég fæ ekki séð að í köflum 2 til 9 sé á neinum stað farið með rangt mál. Framsetning efnisins mætti hins vegar vera skýrari, útreikningar sýndir og rökleiðslan ítarlegri.
Kaldhæðnin í þessu er að stór hluti af eftirgjöfinni árið 2009 endaði í ríkissjóði núna í upphafi árs. Gallinn er að fyriræki og einstaklingar hafa verið blóðmjólkaðir í millitíðinni og verða um nokkur komandi ár, vegna mistaka (að mínu mati) sem gerð voru í samningaviðræðunum árið 2009. Hafi það hins vegar verið uppleggið, að fyrirtæki og einstaklingar ættu að borga kröfuhöfum til baka eins mikið af tapi þeirra og hægt var, þá var gerð heiðarleg tilraun. Ég hef varað við þeirri aðferð í mörg ár, en talaði fyrir daufum eyrum ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Ef vilji Steingríms og Árna Páls Árnasonar hefði náð fram að ganga, þá væri "olíusjóðurinn" (gjaldeyrir frá ferðamönnum) tómur og mikill halli á viðskiptajöfnuði. Svo kvörtuðu VG og Samfylking yfir því að stöðugleikaframlagið hafi ekki verið nógu hátt!
Raunverulegar afleiðingar
Voru menn að vinna að heilindum? Því verður hver að svara fyrir sig, en þeir létu a.m.k. fara illa með sig. Ég efast ekkert um að Þorsteinn Þorsteinsson og Guðmundur Árnason eru grandvarir menn. Ég hef hins vegar í mörg ár verið ósáttur við niðurstöðu þeirra samninga sem þeir leiddu fyrir hönd ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í umboði Steingríms J. Sigfússonar. Ég þurfti ekki skýrslu Steingríms, Ríkisendurskoðunar eða meints meirihluta fjárlaganefndar til þess. Ég sá það strax haustið 2009 í "úrræðum" bankanna þriggja, lögum nr. 107/2009, vinnu minni í sérfræðingahópnum svo kallaða, "úrræðum" fjármálafyrirtækjanna sem komu út úr vinnu sérfræðingahópsins, málum sem hrönnuðust upp hjá Umboðsmanni skuldara, viðbrögðum kerfisins við sigri neytenda um ólögmæti gengistryggingar, þeirra tugþúsunda sem hrökklast hafa af heimilum sínum og svona mætti lengi telja. Ljóst var að samningarnir við um bankana árið 2009 voru ekki um að bjarga íslensku efnahagslífi, fyrirtækjum og heimilum. Þeir voru um það hvernig mætti sækja eins mikið og hægt væri til fyrirtækja og heimila, hvernig halda ætti efnahagslífinu í spennitreyju til langs tíma, hvernig kröfuhafar þyrftu ekki að taka ábyrgð á sinni hegðun.
Ég hljóma kannski bitur, en þetta eru vonbrigði. Ég gerði mér vonir um að "norræna velferðarstjórnin" væri vinstri jafnaðarmanna stjórn, en ekki stjórn sem beygði sig undir kúgun auðvaldsins. Ég hélt að þeim færist betur úr hendi, að skilja tjónið sem heimili og fyrirtæki urðu fyrir. Í staðinn var ruglað um stjórnarskrárvarinn eignarrétt kröfuhafa í þrotabú fjármálafyrirtækja með fljótandi virði eigna! Tap heimila og fyrirtækja á þessum gjafagjörningi "norrænu velferðarstjórnarinnar" er þegar komið hátt í 400 ma.kr. bara vegna hærri vaxta og afborgana lána á árunum 2009-2016. Þá eru öll hin árin eftir, þar til lánin greiðast upp og allt hitt sem þetta leiddi af sér. Maður verðleggur ekki brotin heimili, húsnæðismissi, gjaldþrot og hvað það var annað sem hlaust af því, að úlfum kröfuhafa var hleypt á fyrirtæki og almenning.
Fólk heldur kannski að núna sé allt í lukkunnar vel standi. Ríkissjóður fékk stöðugleikaframlagið greitt. Vei! Hagkerfið er komið í blússandi uppsveiflu. Vei! Sumir eru dottnir í 2007 ástand aftur. Vei! En svo er bara ekki. Þúsundir, ef ekki tugþúsundir, eru persona non grata í bankakerfinu. Þurfa að nota alls konar trix til að fá lán. Fá ekki nema fyrirframgreidd greiðslukort, ef þeir fá þá nokkur. Geta ekki fengið tryggingu í banka vegna leiguhúsnæðis. Geta ekki keypt sér húsnæði, vegna þess að þeir fá ekki lán. Eru utanveltu í samfélaginu og leita því inn í svartahagkerfið. Eru fastagestir hjá hjálparstofnunum. Ég ætla ekki að kenna samningum um bankana um allt þetta, en örugglega 50%, kannski jafnvel 80%. Allt vegna þess að samningarnir gengu ekki út á að bjarga fjárhagsstöðu viðskiptavina bankanna, heldur að sýna meðvirkni með kröfuhöfum (sem ansi margir höfðu keypt kröfur sínar á skít á priki eða voru þegar búnir að innheimta tryggingar vegna þeirra hjá AIG).
Næst þegar samið verður um mikla hagsmuni almennings, þá er nauðsynlegt að einhver sem skilur hagsmuni almennings sé hafður með í ráðum.
PS. Það er mín skoðun að ríkisstjórnir Jóhönnu Sigurðardóttur hafi tekið við MJÖG erfiðu búi. Margt var gert vel, annað alveg þokkalega og svo voru það stóru mistökin. Skuldamál fyrirtækja og heimila voru þessum tveimur ríkisstjórnum gjörsamlega ofviða og samningarnir um bankana eru stór ástæða fyrir því. Það er líka skoðun mín, að menn hafi talið sig verið að gera góða samninga um bankana. Þeir voru því miður afleitir!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
2.9.2016 | 22:33
Ótrúlegur veruleiki Seðlabankans
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, var gestur Sigurjóns M. Egilssonar í Hringbraut 31. ágúst sl. (sjá hér klippu Láru Hönnu Einarsdóttur af viðtalinu). Mig eiginlega hryllir við því sem hann segir í viðtalinu.
Víðast í heiminum, þá gengur efnahagstefna stjórnvalda út á að styrkja útflutningsatvinnugreinar og tryggja samkeppnishæfni innlendra fyrirtækja gagnvart innflutningi. Stjórnvöldum þykir eftirsóknarvert að vegur þessara atvinnugreina sé góður, að góður gangur í atvinnulífinu almennt og eftirspurn eftir útflutningsvörum og -þjónustu. Ísland hefur þá sérstöðu, að þær þrjár atvinnugreinar sem mestar gjaldeyristekjur skapa, ferðaþjónusta, sjávarútvegur og stóriðja, eru ekki í mikilli samkeppni við innfluttar vörur, en búa hins vegar við það, að tekjur þeirra eru að lang mestu leiti í erlendri mynt meðan töluverður hluti kostnaðar er að í íslenskum krónum. Fyrir þessar atvinnugreinar skiptir því miklu máli að eins mikið jafnvægi sé í gengi krónunnar og frekast er hægt gagnvart helstu myntum. Auðvitað verður aldrei algjört jafnvægi, þar sem allar myntir hafa sínar sveiflur.
Seðlabankinn vill skerða gjaldeyristekjur
Í viðtalinu lýsir Þórarinn því yfir, að Seðlabankinn stefni að því að gera gjaldeyrisskapandi fyrirtækjum erfiðara fyrir og draga úr gjaldeyrisöflun þeirra! Það sem meira er, að Seðlabankinn vill auka innflutning til að skapa samkeppni. Vá, ég nánast svitnaði við að hlusta á þessi orð hans. Flestir innlendir framleiðendur, sem framleiða á innanlandsmarkað, eru lítið að græða á styrkingu gengisins. Jú, vissulega lækka einhver aðföng í verði, en innlendir kostnaðarliðir, sem flestir vega mjög þungt, þeir hækka jafnt og stöðugt. Innfluttar vörur, sem keppa við innlenda framleiðslu, njóta hins vegar að fullu gengisstyrkingarinnar. Hún leiðir því til þess að innlendir framleiðendur búa ekki bara við óhagstæða launaþróun (borið saman við erlenda samkeppnisaðila) og borga allt of háa vexti, heldur er innflutningur á útsöluverði í boði Seðlabanka Íslands. (Ef einhver heldur að á Íslandi sé fljótandi gengi, þá vil ég minna á að það eru gjaldeyrishöft í landinu og hafa verð í tæp 8 ár.)
Útflutningur án samkeppni við innflutning
Á meðan þessu fer fram, þá versnar rekstur stóriðjufyrirtækjanna sem hafa ákveðinn hluta kostnaðar síns í íslenskum krónum, samkeppnisstaða flugfélaganna (sem skapa um og yfir 200 ma.kr. í tekjur) versnar af sömu ástæðum, ferðaþjónustan verður fyrir tekjusamdrætti og útflytjendur sjávarfangs missa af miklum tekjum. Það getur verið að það sé einhver útópísk hugmyndafræði, að búa til hið fullkomna jafnvægi, en menn verða að hugsa. Nær allur útflutningur frá Íslandi er ekki í neinni samkeppni við innflutning eða erlenda aðila sem eiga í viðskiptum við eða á Íslandi. Flugfélögin eru þau einu sem þannig er statt um. Ferðaþjónustan er í uppsveiflu vegna þess að Ísland er í tísku, það er öruggt að sækja landið heim og það vekur forvitni fólks vegna náttúrufegurðar. Fiskútflytjendur eru heldur ekki í samkeppni við innflytjendur, vegna þess að engum dettur í hug að flytja fisk til landsins til að keppa við þann sem er veiddur við strendur landsins.
Útópían gengur ekki upp
Hugmyndafræði Seðlabankans er greinilega tekin upp úr einhverjum kennslubókum, þar sem mikið flæði vöru fer um opin landamæri og flutningskostnaður er lítill. Þar sem mikil og jöfn samkeppni er milli fjölbreytts iðnaðar í mörgum löndum. Þar sem flæði milli margra ólíkra markaðssvæða er mikið og skiptir auðveldlega um stefnu frá einu svæði til annars án þess að hafa áhrif á önnur flæði sömu markaðsvæða við það þriðja, fjórða eða fimmta.
Þessi útópía er ekki á Íslandi. Að fiskur hækkar í verði, verður ekki til þess að fiskur frá Noregi fer að flæða til Íslands. Nei, það verður til þess að fiskur frá Noregi kemur í staðinn fyrir íslenskan fisk í verslunum í Englandi. Markaðssvæði tapast og það tekur mörg ár að laga þá stöðu aftur. Á meðan hrúgast fiskurinn upp í íslenskum frystigeymslum, nema að fiskútflytjandi ákveði að lækka verðið (í íslenskum krónum), draga úr veiðunum eða minnka verðmætasköpunina með því að setja fiskinn í ódýrari pakkningar. Staða Icelandair og WOW gæti leitt til þess, að þau verði undir í verðsamkeppni, þurfi að draga saman seglin eða hreinlega detti út af markaði. Þessi tvö félög fara ekki að taka upp á því að fljúga á milli Ástralíu og Nýja Sjálands eða Chile og Mexíkó. Nei, þau eru bundin af leyfum til að fljúga frá Íslandi til hinna ólíku áfangastaða erlendis. Þau geta heldur ekki ráðið erlendar áhafnir, þar sem þær þurfa að taka laun samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Og samkeppnisstaða stóriðjufyrirtækjanna á Íslandi versnar gagnvart systurfyrirtækjum innan sömu samstæðu, sem gæti leitt til lokunar þeirra hér á landi.
Og svo hlakkaði í Þórarni, þegar hann var að lýsa þessari útópísku draumsýn sinni.
Opnið augun!
Ég hvet stjórnendur Seðlabankans til að koma niður úr fílabeinsturninum sínum og kynnast veruleikanum. Taka hausinn upp úr fræðibókunum og skoða raunhagkerfið. Hagfræði er ekki vísindi á neinum skynsamlegum mælikvarða. Hagfræðikenningar eru bara kenningar, sem sjaldnast eru yfirfæranlegar milli þjóðfélaga, hvað þá að þær virki fullkomlega í nokkru þeirra. Þær gefa okkur vísbendingar um fræðilega niðurstöðu, en ekki raunverulega niðurstöðu. Ég skora á stjórnendur Seðlabankans að opna augun og áður en þið rústið gjaldeyrisskapandi greinunum, leyfið þeim að safna korni í hlöður farósins sem hægt verður að grípa til næst þegar herðir að. Það er ekki víst að við höfum sjö ár til þess.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.4.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 22
- Frá upphafi: 1681567
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 21
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði