Bloggfærslur mánaðarins, desember 2014
29.12.2014 | 22:28
Hæstiréttur sleginn lesblindu, óútskýranlegri leti eða viljandi fúski?
Ég var að skoða nýlegan dóm Hæstaréttar í máli nr. 349/2014, þar sem mér sýnist Hæstiréttur vera sleginn alvarlegri lesblindu eða leti. Í dómnum segir orðrétt:
Samkvæmt 5. gr. þágildandi laga nr. 121/1994 skyldi lánssamningur vera skriflegur og fela í sér upplýsingar sem tilgreindar voru í 6. og 8. gr. laganna. Í f. lið 1. mgr. 2. gr. laganna, eins og þau voru upphaflega, kom fram að lánssamningar um yfirdráttarheimildir af tékkareikningi væru undanþegnir lögunum. Samkvæmt því var ekki skylt að hafa slíka samninga skriflega. Með breytingarlögum nr. 179/2000, sem tóku gildi 20. desember 2000, var þessi undantekning hins vegar felld brott. Þá var 3. gr. laganna breytt og tók hún eingöngu til yfirdráttarlána og annarra sambærilegra lánssamninga og þeirra upplýsinga sem skyldi veita í upphafi slíkra viðskipta. Á greinin rætur að rekja til tillögu efnahags- og viðskiptanefndar við meðferð frumvarps til laganna á Alþingi. Þeirri tillögu fylgdu ekki sérstakar skýringar. Ljóst er að 3. gr. er um margt frábrugðin ákvæðum II. kafla laganna, en þar eru í 6. gr. gerðar mun ítarlegri kröfur um upplýsingar lánveitanda en þegar um yfirdráttarlán er að ræða. Verður ekki annað ráðið en að 3. gr. laganna hafi átt að skoðast sem sérákvæði um upplýsingagjöf við samninga um yfirdráttarheimild af tékkareikningi og sambærilegum lánssamningum með breytilegum höfuðstól.
Mig langar sérstaklega að skoða lesblindu Hæstaréttar (eða leti) sem felast í orðunum:
"Á greinin rætur að rekja til tillögu efnahags- og viðskiptanefndar við meðferð frumvarps til laganna á Alþingi. Þeirri tillögu fylgdu ekki sérstakar skýringar."
Þeir sem eitthvað hafa kynnt sér hvernig Alþingi virka vita að hægt er að finna nánast allt sem ritað er og fjallað er um á þeim vinnustað á vef hans. Þar er að finna nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar http://www.althingi.is/altext/126/s/0490.html með tillögum nefndarinnar um breytingartillögur á frumvarpi að lögum nr. 179/2000 og í álitinu er að finna eftirfarandi texta:
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að g-liður 1. mgr. 2. gr. laganna verði felldur brott, en þar er vísað í 3. gr. sem fjallar um yfirdráttarheimild. Lánssamningar sem fela í sér yfir dráttarheimild á tékkareikningi verða því ekki lengur undanþegnir ákvæðum laganna og upplýsingaskyldan samkvæmt þeim mun því ná til slíkra samninga. Því er nauðsynlegt að samræma 3. gr. laganna hinni fyrirhuguðu breytingu. Þær breytingar felast einkum í því að bætt er við greinina nýjum staflið, e-lið, þar sem tekið er fram að í samningi um yfirdráttarheimild skuli lántakanda greint frá árlegri hlutfallstölu kostnaðar við mismunandi notkun á heimildinni, en ljóst er að sú tala kann að vera breytileg eftir því hvernig heimildin er notuð hverju sinni. Einnig er gert ráð fyrir því í 2. málsl. að neytanda verði árlega sendar almennar upplýsingar með dæmum um útreikning kostnaðar samkvæmt þessum lið. Þannig væri t.d. hægt að taka fram hver árleg hlutfallstala kostnaðar væri miðað við að ákveðin yfirdráttarheimild væri nýtt að fullu, að hálfu leyti eða að einum tíunda. Loks er í 3. málsl. gert ráð fyrir því að þrátt fyrir ákvæði 5. gr. laganna um að lánssamningar samkvæmt lögunum skuli gerðir skriflega verði heimilt að breyta yfir dráttarheimild á tékkareikningi að munnlegri beiðni neytanda. Þá væri hægt að senda skriflegan samning til neytanda eftir á þar sem hlutfallstalan fyrir nýju heimildina væri gefin upp."
Fæ ég ekki betur séð en að alveg ágætis skýringar fylgi lagabreytingunni í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar. Það sem meira er, að gerð er krafa um "að neytanda verði árlega sendar almennar upplýsingar með dæmum um útreikning kostnaðar samkvæmt þessum lið" og "væri hægt að senda skriflegan samning til neytanda eftir á þar sem hlutfallstalan fyrir nýju heimildina væri gefin upp".
Vinnubrögð Hæstarétti til vansa
Hvernig dettur Hæstarétti í hug, að búa til þann skáldskap, að "[þ]eirri tillögu fylgdu ekki sérstakar skýringar"? Hvernig dettur síðan Hæstarétti í hug, nokkrum dögum eftir að dómur gekk í EFTA-dómstólnum um hlutfallstölu kostnaðar, að líta framhjá þeirri skyldu fjármálafyrirtækis að senda neytanda upplýsingar um nýja hlutfallstölu?
Hæstiréttur segist hafa fengið "ljósrit" af heimasíðu S24, þar sem birtir eru skilmálar vegna yfirdráttarheimildar. Hvenær gerðist það, að upplýsingar á heimasíðu teljast fullnægjandi upplýsingar? Las Hæstiréttur ekki dóm EFTA-dómstólsins frá 28. ágúst 2014 eða 24. nóvember 2014? Samkvæmt þeim báðum, þá eru upplýsingar á vefsíðu ekki fullnægjandi upplýsingagjöf til neytanda, þegar kemur að árlegri hlutfallstölu kostnaðar. Að auki þá segir í skýringum/greinargerð efnahags- og viðskiptanefndar:
Einnig er gert ráð fyrir því í 2. málsl. að neytanda verði árlega sendar almennar upplýsingar með dæmum um útreikning kostnaðar samkvæmt þessum lið.
Það er því ekki fullnægjandi, samkvæmt nefndaráliti, að vísa í upplýsingar á heimasíðu. Senda ber neytendum þessar upplýsingar árlega.
En Hæstiréttur telur greinilega ekki þetta nefndarálit vera skýringu. Mér er ómögulegt að skilja hvernig á því stendur. Hann ákveður í staðinn að eldri lögskýring standi, lögskýring sem breytt var með lögum nr. 179/2000! Til að sýna enn frekar hve mikil villa Hæstaréttar er í málinu, þá vil ég að lokum vitna í ræðu Einars K. Guðfinnssonar, þáverandi formanns efnahags- og viðskiptanefndar, þegar hann mælti fyrir nefndaráliti með breytingartillögum nefndarinnar í 2. umræðu um þingmál 90 á 126. löggjafarþingi 12. desember, 2000:
Enn fremur er ástæða til að vekja athygli á að í frv. er gert ráð fyrir að g-liður 1. mgr. 2. gr. laganna verði felldur brott, en þar er vísað í 3. gr. sem fjallar um yfirdráttarheimild. Lánssamningar sem fela í sér yfirdráttarheimild á tékkareikningi verða því ekki lengur undanþegnir ákvæðum laganna og upplýsingaskyldan samkvæmt þeim mun því ná til slíkra samninga. Því er nauðsynlegt að samræma 3. gr. laganna hinni fyrirhuguðu breytingu. Þær breytingar felast einkum í því að bætt er við greinina nýjum staflið, e-lið, þar sem tekið er fram að í samningi um yfirdráttarheimild skuli lántakanda greint frá árlegri hlutfallstölu kostnaðar við mismunandi notkun á heimildinni, en ljóst er að sú tala kann að vera breytileg eftir því hvernig heimildin er notuð hverju sinni. Einnig er gert ráð fyrir því að neytanda verði árlega sendar almennar upplýsingar með dæmum um útreikning kostnaðar vegna þessa liðar. Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir það að menn þurfi í hvert skipti sem þeir óska eftir breytingu á yfirdráttarheimild að gera það skriflega. Þess í stað verði það gert innan ársins og að upplýsingarnar berist skriflega einu sinni á ári þannig að mönnum sé þá ljós staða málsins.
Takið sérstaklega eftir orðunum:
Einnig er gert ráð fyrir því að neytanda verði árlega sendar almennar upplýsingar með dæmum um útreikning kostnaðar vegna þessa liðar.
Getur þetta verið skýrara?
Útúrsnúningur Hæstaréttar
En þessu er ekki lokið. Hæstiréttur bítur úr skömminni með eftirfarandi:
Hvað sem líður fyrirmælum 5. gr. laga nr. 121/1994, sem eftir breytingu með lögum nr. 179/2000 tók einnig til samninga um yfirdráttarheimild, er þess að gæta að í skýringum með 5. gr. frumvarps til upphaflegra laga um neytendalán, nr. 30/1993, er sérstaklega tekið fram að það sé ekki fortakslaust skilyrði fyrir gildi samninga að þeir séu skriflegir, heldur gildi munnlegir samningar eftir sem áður.
Þó Hæstiréttur telji enga skýringu hafa fylgt lagabreytingunni, þá ætti hann að lágmarki að skilja innihald laganna. Mér sýnist hann ekki gera það. Í e-lið laga 121/1994 sagði nefnilega:
Árlega hlutfallstölu kostnaðar, sbr. 10.12. gr., við mismunandi notkun á heimildinni. Árlega skal senda neytanda almennar upplýsingar með dæmum um útreikning kostnaðar samkvæmt þessum lið. Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. er heimilt að munnlegri beiðni neytanda að breyta yfirdráttarheimild á tékkareikningi.
Þetta þýðir í mínum huga, að þó svo upphaflegi samningurinn um yfirdráttarheimildina væri munnlegur og honum breytt með munnlegum óskum neytandans, þá hvarf ekki skylda fjármálafyrirtækisins um að "senda neytanda almennar upplýsingar með dæmum um útreikning kostnaðar samkvæmt þessum lið". Upplýsingaskylda fjármálafyrirtækisins var ótvíræð hvernig sem til samningsins var stofnað. Síðan tel ég nánast útilokað vera fyrir fjármálafyrirtæki að vera með umsemjanleg ákvæði í munnlegum samningi.
Hæstiréttur lætur líta út sem samningur um yfirdráttarlán sé bara tveggja manna tal, en svo er ekki. Samningur um yfirdrátt er fjármálasamningur sem gerður er munnlega, en samstundist færður yfir í skjalfest form. Það er gert í tölvukerfi bankans, í viðskiptasögu þess sem fékk yfirdráttinn, í lánakerfi bankans, í útlánasögu viðkomandi útibús. Til sönnunar um þetta þurfa þeir viðskiptavinir, sem núorðið óska eftir yfirdráttarheimild, að undirrita Stofnsamning um yfirdráttarheimild. Í 3. gr. slíks samnings sem ég gerði við minn viðskiptabanka segir:
Lántaki getur óskað eftir því að gerð verði breyting á fjárhæð yfirdráttarheimildar í eitt eða fleiri skipti. Slík heimild er háð samþykki [bankans]. Við hækkun á yfirdráttarheimild skuldbindur [bankinn] sig til þess að afhenda lántaka þegar samþykki er veitt eða við fyrsta tækifæri þar á eftir uppfærðar upplýsingar um kostnað við breytingu á samningi þessu og uppfærða yfirdráttarheimild, á pappír eða öðrum varanlegum miðli t.d. í netbanka, í samræmi við 7. og 12. gr. laga nr. 33/2013 um neytendalán.
Þegar ákvæði 7. og 12. gr. laga 33/2013 eru skoðuð, þá kemur í ljós, að þó þau séu á einhvern hátt ítarlegri, en samkvæmt tilskipun 87/102/EBE, þá eru þau að mestu leiti sambærileg. Að bankarnir séu skyldugir til að veita allar nauðsynlegar upplýsingar árið 2013, en ekki árið 2010 eða 2006, eins og Hæstiréttur kemst að, er mér gjörsamlega óskiljanlegt, þegar nánast allar kröfurnar eru þær sömu og áður. Krafan um að reikna og birta árlega hlutfallstölu kostnaðar er sú sama í neytendalánalögum 121/1994 og í nýju lögunum 33/2013. Sama á við um að tilkynna með fyrirvara breytingu vaxta og endurútreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar vegna þeirrar breytingar. Ég efast um að neytendalánatilskipunin 87/102/EBE hafi leyft að það væri gert munnlega.
Ég get alveg skilið að hægt sé að semja munnlega um gildistíma og upphæð yfirdráttarheimildar, en ég get ekki séð að hægt sé að halda því fram að allt annað varðandi samninginn um yfirdráttinn geti talist munnlegur samningur. Það er einmitt þess vegna sem neytendalánatilskipunin, 87/102/EBE, tilgreinir öll þau atriði sem þurfa að koma fram og nýrri tilskipunin, 2008/48/EB, gerir það líka. Undir þetta tekur EFTA-dómstóllinn í máli E-27/13, þar sem dómstóllinn segir:
Til að vernda neytandann gegn óréttmætum lánaskilmálum og gera honum kleift að átta sig fyllilega á skilmálum lánssamningsins sem hann hefur undirgengist, er kveðið á um [í neytendalánatilskipuninni 87/102/EBE] að lántaki skuli við undirritun samningsins hafa með höndum allar þær upplýsingar sem máli skipta og geta haft áhrif á þær skyldur sem hann tekst á hendur..
Að samningurinn sé munnlegur fríar ekki fjármálafyrirtækið frá því að veita slíkar upplýsingar. Með fullri virðingu, skil ég ekki hvernig Hæstarétti datt í hug að upplýsingaskylda breyttist, þó samningurinn væri munnlegur.
Valkvæðar lögskýringar alvanalegar
Undanfarin 5-6 ár hef ég lesið fleiri Hæstaréttardóma en ég kæri mig um að muna. Allt of oft hef ég rekist á valkvæðar lögskýringar réttarins. Skýrasta dæmið er í dómi nr. 471/2010, þar sem rétturinn vék til hliðar ófrávíkjanlegum lagagreinum til að beita frávíkjanlegum lagagreinum. Óteljandi sinnum hefur rétturinn (líkt og í þessu máli) talið kröfurétt vera neytendarétti hærri, þegar flestar dómaframkvæmdir Evrópudómstólsins (sem dæmir eftir sömu neytendaréttarákvæðum) eru á hinn veginn.
Það er ekki hlutverk Hæstaréttar að verja fjármálafyrirtæki gegn tjóni sem þau sjálf bera ábyrgð á. Það er ekki heldur hlutverk Hæstaréttar að hafa áhyggjur af fjárhagslegri stöðu sterkari aðila í neytendasamningum. Eina sem skiptir máli fyrir Hæstarétt er hvað lögin segja, hvaða lögskýringar er að finna frá löggjafanum, úr dómaframkvæmd eða frá öðrum aðilum sem veitt geta slíkar lögskýringar (þ.e. EFTA-dómstólnum, Evrópudómstólnum, Mannréttindadómstól Evrópu, o.s.frv.). Í nýlegum dómum EFTA-dómstólsins, nr. E-25/13 og E-27/13, kemur skýrt fram flest það sem skiptir máli varðandi það mál, sem hér er fjallað um. Í báðum dómum er niðurstaðan skýr: Neytendalánatilskipunin 87/102/EBE tilgreinir hvaða upplýsingar skal birta neytanda við gerð samnings og þær upplýsingar, sem ekki eru birtar, geta ekki orðið að innheimtanlegri kröfu. Í dómi E-27/13 gekk EFTA-dómstóllinn jafnvel svo langt að segja, að taka ætti verðbólgu á samningstíma inn í árlega hlutfallstölu kostnaðar og þar með heildarlántökukostnað. Telji dómstóllinn það skyldu gagnvart verðtryggðum lánum, þá ætti lítið að fara á milli mála, að það á við óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum.
Bloggar | Breytt 5.1.2015 kl. 16:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 34
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 30
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði