Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2014

6 ár frá hruni: Var hægt að bjarga bönkunum?

Kannski er full seint að velta því fyrir sér núna hvort hægt hefði verið að bjarga bönkunum á mánuðunum eða árunum fyrir hrun.  Málið er að þeirri spurningu hefur aldrei verið svarað, hvað hefði verið hægt að gera til að bjarga bönkunum.  Eða öllu heldur:  Hvað hefðu bankarnir geta gert til að bjarga sér?  Ég er nefnilega á því, að það sé ekki hlutverk stjórnvalda eða seðlabanka að bjarga einkafyrirtækjum frá því að fara í þrot.  Þessi einkafyrirtæki höfðu hóp manna (og tveggja eða þriggja kvenna) við að stjórna og reka bankana.  Þetta fólk var á ofurlaunum, vegna þess að það bar svo mikla ábyrgð og var svo klárt.  Samt setti það fyrirtækin sín í gjaldþrot og kostaði okkur, skattgreiðendur á Íslandi ekki undir 2.000 milljarða króna samkvæmt nýjustu tölum.  (Þessi tala á örugglega eftir að hækka, þegar öll kurl koma til grafar.)

Ég tel nauðsynlegt að vita hvað hefði verið hægt að gera til að bjarga bönkunum og hvers vegna ekki var gripið til þeirra aðgerða.  Ástæðan er einfaldlega til að byggja upp þekkingargrunn fyrir framtíðina komist bankar síðar í sömu stöðu eða bara hvaða fyrirtæki sem er.  Ég held nefnilega að í grunninn sé lítill munur á því að bjarga banka frá þroti eða bókaútgáfu eða verslunarkeðju eða skipafélagi.  En ef menn greina ekki athafnir sínar og athafnaleysi, þá er útilokað að draga einhvern lærdóm.

Bankarnir fóru fram úr sér

"Ábyrgðarleysi í bönkunum sjálfum.  Þeir fóru fram úr sér", sagði Geir H. Haarde í viðtali við Björn Inga Hrafnsson á Stöð 2 í dag, þegar hann var spurður um ástæðuna fyrir hruninu.  Ég held að það sé alveg rétt.  Í öðru viðtali fyrir rúmum fjórum árum fullyrti hann að bönkunum hefði ekki verið bjargað eftir árið 2006 og að ríkisstjórnin hafi verið á fullu að bjarga bönkunum.  Hann hélt því ekki fram í dag, lét nægja að benda á bankana.

Orð Geirs um að stjórnvöld hafi verið á fullu að reyna að bjarga bönkunum stangast á við það sem kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.  Hugtakið að Haardera varð til vegna þess að ekkert benti til þess að stjórnvöld hafi verið að reyna.  Þau voru frekar sífellt að hunsa öll tækifæri til að gera eitthvað.

Var hægt að bjarga þeim?

Sú fullyrðing um að bönkunum hafi ekki verið bjargandi eftir árið 2006 er síðan án nokkurs stuðnings, vegna þess að hún var ekki reynd.  Hvorki af stjórnvöldum en ekki síst skorti vilja hjá bönkunum sjálfum.  Þar tek ég heilshugar undir orð Geirs um ábyrgðarleysi bankanna.  Þurfum við ekki annað en að vísa til orða Halldórs J. Kristjánssonar í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku, þar sem hann sagðist hafa treyst eftirlitsaðilum (þ.e. FME) fyrir því að starfsemi bankans væri í lagi!  Ég spyr bara:  Til hvers var regluvörður bankans? Finnst mér þessi orð Halldórs eiginlega vera dæmigerð fyrir starfsemi bankanna og helsta afsökun þeirra fyrir að keyra bankana í þrot:  "Það stoppaði okkur enginn!"

Með réttum aðgerðum beggja, bendir flest til að bönkunum hafi verið bjargandi mun lengur en menn halda.  Málið er að menn horfa alltaf til þess hvernig bankarnir urðu, en ekki hvernig þeir hefðu getað orðið með réttum aðgerðum.

Dæmi um hvað hefði verið hægt að gera: 

1.  Glitnir:

  • Selja starfsemi í Noregi haustið 2007. 
  • Nota laust fé 2007 og 2008 til að borga niður veðlán sín, en ekki bjarga viðskiptavinum í þröng.  (Glitnir átti laust fé í ágúst 2008 sem hefði dugað fyrir gjalddaganum í október.) 
  • Vera ekki sparibaukur fyrir Baugs og skyldra aðila frá nóvember 2007.

2. Kaupþing:

  • Nota laust fé árin 2006, 2007 og 2008 til að greiða niður lán og forðast veðlán. 
  • Hafa meiri fyrirhyggju varðandi fjármögnun KS&F. 
  • Bankinn hefði strax 2006 og eins seint og á haustmánuðum 2007 breytt áherslum í lánveitingum til Exista og eigenda Exista. 
  • Selja KS&F hvenær sem var eftir 2006.  Sama á við um starfsemina í Svíþjóð, á Mön og víðar.  Það hefði bjargað Kaupþingi, en þeir vildu ekki gera það.

3.  Landsbanki Íslands:

  • Hafa Icesave hjá Heritables banka, en ekki höfuðstöðvunum í Reykjavík. 
  • Nota sterka eiginfjárstöðu til að draga úr áhættulántökum, sbr. veðlán sem voru stofninn í lántökum bankans árið 2008. 
  • Selja Heritables, Keplers, Teathers, Merrion eða starfsemina í Lúxemborg eða á Guernsey.

Skýrsla RNA segir að stjórnvöld hefðu getað sett alls konar skilyrði um stærð bankanna, aukið bindiskyldu og gert auknar kröfur um meiri eiginfjárstyrk.  Hún bendir líka á, að stjórnvöld hefðu getað sett lög um heimildir til að þvinga fram minnkun bankanna.  Loks bendir hún á bréf Mervyns Kings bankastjóra Englandsbanka til Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra í maí 2008, þar sem Mervyn King býður Davíð hjálp við að flytja einn (eða fleiri) banka úr landi eða hluta starfsemi þeirra.  Ómögulegt er að vita af hverju þeirri beiðni var hafnað.

Allt of lítið, allt of seint

Rétt er að bönkunum varð ekki bjargað þegar á reyndi, en það var vegna þess að ekki var gerð tilraun til þess meðan það var hægt.  Ástæðan var fyrst og fremst viljaleysi til að gera eitthvað meðan það var hægt, afneitun á stöðu þeirra hjá bæði bönkunum og stjórnvöldum og að allt of lítið var gert allt of seint bæði af hálfu stjórnvalda og ekki síst bankanna.  Mér dettur hins vegar ekki í hug að kenna stjórnvöldum um rekstur bankanna.  Stjórnendur þeirra höguðu sér af ótrúlega miklum kjánaskap og héldu að þeir væru óskeikulir.  Áhættufíkn stjórnendanna og fyrirhyggjuleysi var það sem felldi bankana að lokum.  Eða eins og Geir sagði, ábyrgðarleysi þeirra.

Mörgum spurningum ósvarað

Ég sakna þess að greint sé hvers vegna menn brugðust ekki rétt við.  Ég hef hvergi séð svör við því.  Meðan við fáum ekki þau svör, þá er ekki hægt að læra af reynslunni.  Og það sem verra er, að hagkerfið stendur berskjaldað fyrir því að þetta gæti allt endurtekið sig.  Ég vil fá að vita:

  • Af hverju bankarnir drógu ekki meira saman efnahag sinn eftir að lánsfjármarkaðir lokuðust árið 2007?
  • Af hverju var bindiskylda bankanna ekki hækkuð, þegar þeir voru að þenjast út?
  • Af hverju flutti Landsbanki Íslands ekki Icesave reikningana í breska lögsögu, þegar stjórnendum bankans var ljóst að innstæður voru vaxnar íslenska tryggingasjóðnum upp fyrir höfuð?
  • Af hverju allir bankarnir lögðu meiri áherslu á að bjarga fyrirtækjum fámenns hóps eigenda sinna, en að bjarga sjálfum sér?
  • Af hverju Seðlabankinn lánaði bönkunum endalaust í endurhverfum viðskiptum þrátt fyrir að seðlabankastjóri taldi allt stefna í óefni?
  • Af hverju seðlabankastjóri hunsaði boð Mervyns Kings, bankastjóra Englandsbanka, um að færa einn banka yfir í erlenda lögsögu?
  • Af hverju bankarnir seldu ekki eignir, þegar þeim mátti vera ljóst að þeir urðu að losa fé?
  • Af hverju FSA í Bretlandi hafði annan skilning á orðum stjórnenda bankanna, en þeir sjálfir gerðu?
  • Af hverju, af hverju, af hverju..

Hægt er að bæta endalaust við spurningum, en meðan þessi svör liggja ekki fyrir, þá verður ekki hægt að loka þessum kafla í sögu þjóðarinnar.  Ég hef lesið ansi mörg rit, greinar og viðtöl, en yfirleitt er það næsta sem menn komast er að segja að þeir hafi haldið að þeir væru að gera allt rétt.  Málið er að ENGIN gögn virðast bakka þá staðhæfingu uppi.  Því miður virðist flest benda til þess, að stjórnendur bankanna hafi verið algjörir viðvaningar!  Að viðvaningar hafi fundist víðar, afsakar ALDREI viðvaningshátt stjórnenda bankanna.


Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 124
  • Sl. viku: 357
  • Frá upphafi: 1681170

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband