Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013
25.5.2013 | 16:05
Áhyggjur af stöðu Landsbankans
Ég verð að viðurkenna, að ég tek undir áhyggjur ýmissa manna af stöðu Landsbankans. Og í staðinn fyrir að þegja um áhyggjur mínar, eins og maður gerði fyrir hrun, þá vil ég koma þeim á framfæri og styðja þannig við málflutning þessara mætu manna í þá veru. Vonandi hef ég rangt fyrir mér og áhyggjurnar eru að ástæðulausu.
Áhyggjurnar koma m.a. frá því að hafa lesið ársskýrslu og ársreikning bankans fyrir 2012, sem finna má á vef hans, og síðan tölur úr nokkrum eldri ársreikningum. Ekki síður af upplýsingum sem ég hef viðað að mér og/eða birst hafa opinberlega um stöðu bankans, í ræðu og riti. Þær beinast að getu hans til að standa við skuldbindingar sínar og þá aðallega í formi tveggja skuldabréfa til gamla bankans. Annað er kallað í efnahagsreikningi bankans veðtryggð skuldabréf og stóð um áramót í 221,8 milljörðum króna og hitt kallast skilyrt skuldabréf og stóð um áramót í 87,5 milljörðum króna, en mun núna vera upp á 92 milljarða króna. Samtals gerir þetta 313,8 milljarða króna að frádregnu því sem bankinn kann að hafa greitt á árinu. Þetta þarf Landsbankinn að greiða upp á næstu 5 árum, um 18 milljarða kr. 2014, 62 ma.kr. árið 2015 og 77 ma.kr. árlega fyrir 2016, 2017 og 2018.
Til að standa undir greiðslum á þessum bréfum hefur bankinn afborganir viðskiptavina af lánum, sölu eigna, lausafjáreignir og síðan hagnað bankans. Á móti kemur að bankinn er með aðrar skuldir sem hann gæti þurft að standa skil á, þ.m.t. innlán viðskiptavina.
Afkomutölur Landsbankans
Í VI. kafla ársskýrslu fyrir 2012 eru birtar ýmsar áhugaverðar tölur um afkomu bankans fyrir 2012 og 2011. Þessar tölur segja heilmikið um möguleika bankans á að standa undir skuldbindingum sínum. Langar mig að tína til þær sem mér finnst markverðastar.
Kennitölur | 2012 | 2011 |
Hagnaður eftir skatta | 25,5 ma.kr. | 17,0 ma.kr. |
Hreinar rekstrartekjur | 49,1 ma.kr. | 30,7 ma.kr. |
Hreinar vaxtatekjur | 35.6 ma.kr. | 32,6 ma.kr. |
Eiginfjárhlutfall (CAR) | 25,1% | 21,4% |
Útlán í hlutfalli við innlán | 158,2% | 144,1% |
Útlán til viðskiptavina | 666,1 ma.kr. | 639,1 ma.kr. |
Lausafjáreignir | 249,0 ma.kr. | 240,1 ma.kr. |
Veðtryggð skuldabréf | 221,8 ma.kr. | 277,1 ma.kr. |
Skilyrt skuldabréf | 87,5 ma.kr. | 60,8 ma.kr. |
Innlán viðskiptavina | 421,1 ma.kr. | 443,6 ma.kr. |
- Þar af bundin | 111,0 ma.kr. | 98,6 ma.kr. |
- Þar af óbundin | 310,1 ma.kr. | 345,0 ma.kr. |
Eigið fé | 225,2 ma.kr. | 200,2 ma.kr. |
Eiginfjárhlutfall | 25,1% | 21,4% |
Samkvæmt skilmálum skuldabréfa við gamla bankann skal byrja að greiða af skilyrta skuldabréfinu strax á næsta ári og eru árlegar greiðslur um 18 ma.kr. á ári í 5 ár auk vaxta, alls 92 ma.kr. + vexti. Af hinu bréfinu er byrjað að greiða 2015 og þarf þá að greiða um 44 ma.kr. auk vaxta, en um 59 milljarða auk vaxta á ári næstu þrjú ár á eftir eða alls 221,8 ma.kr. + vexti (stóð í 206,5 ma.kr. í lok 1. ársfj. 2013). Samtals er greiðslubyrði Landsbankans vegna þessara skulda við gamla bankann því 313,8 ma.kr. + vextir á þessum fimm árum. Á móti þessu á Landsbankinn lausafjáreignir upp á 249 ma.kr., afborganir viðskiptavina af útlánum og síðan rekstrarhagnað hvers árs fyrir sig. Málið er að þessi peningur þarf einnig að duga fyrir úttektum viðskiptavina af innlánsreikningum og því getur Landsbankinn ekki gengið að fullu á þetta fé til að greiða gamla bankanum. Það sem verra er, að hagnaður bankans síðustu fjögur ár er ekki byggður á flæði peninga inn í bankann heldur allt öðru. (Tekið skal fram að Landsbankinn greiddi inn á veðtryggða bréfið á síðasta ári "að jafnvirði rúmlega 72 milljörðum króna", eins og segir í nýjustu ársskýrslu bankans.)
Hagnaður Landsbankans 2009-2012
Ástæðan fyrir áhyggjum mínum af afkomu Landsbankans koma best fram, þegar skoðaðar eru valdar tölu úr ársreikningi bankans fyrir árin 2009 til 2012. Koma þær fram í töflunni fyrir neðan og eru allar í milljörðum króna.
Liður | 2009 | 2010 | 2011 | 2012 | Alls |
Hreinar vaxtatekjur | 14,6 | 24,7 | 32,7 | 35,6 | 107,6 |
Virðisbreyting útlána | 23,8 | 49,7 | 58,5 | 37,3 | 169,3 |
Tap af gengistr. og kröfum á viðskiptavini | 0 | -18,2 | -40,7 | -2,1 | -61,0 |
Virðisrýrnun útlána og krafna | -6,6 | -14,6 | -7,0 | -12,3 | -40,5 |
Gangvirðisbreyting skilyrts skuldabréfs | -10,2 | -16,3 | -34,3 | -27,3 | -88,1 |
Hagnaður ársins | 14,3 | 27,2 | 17,0 | 25,5 | 84,0 |
Hér verður að hafa nokkra hluti í huga:
- virðisbreyting útlána getur ekki aukist á jákvæðan hátt mikið meira en orðið er (lækka um ríflega helming milil 1. ársfjórðungs 2012 og 2013);
- gangvirðisbreyting skilyrta skuldabréfsins er að mestu um garð gengin, þ.e. 4 ma.kr. bættust við á þessu ári og síðan ekki sögunni meir;
- virðisrýrnun útlána og krafna mun halda áfram, þar til endurskipulagningu skulda er lokið;
- tap af gengistryggingu og kröfum á viðskiptavini er ekki loki, t.d. er greint frá því í ársskýrslu bankans, að gert sé ráð fyrir 12,5 ma.kr. tapi af útlánum einstaklinga vegna dóma sem gengu á síðasta ári, en af þeirri upphæð er bara búið að gjaldfæra 2,1 ma.kr. og alveg á eftir að taka tillit til taps vegna útlána til fyrirtækja.
Ef þetta er allt tekið saman, þá lækkar tekjuhliðin verulega, þar sem lán verða ekki virðisbreytt mikið frekar upp á við, á móti dettur út á gjaldahliðinni frekari kostnaður vegna hækkunar höfuðstóls skilyrta skuldabréfsins (í staðinn koma vextir af bréfinu, en þeir eru mun lægri). Ef tölur síðustu fjögurra ára eru notuð til að sýna áhrifin, þá falla því út tekjur upp á 169 ma.kr. og gjöld upp á 88 ma.kr. Mismunurinn er 81 ma.kr. sem tekjur lækka umfram gjöld, en sú tala er nánast samanlagður hagnaður áranna. Vissulega yrðu skattgreiðslur lægri, en mergur málsins er að bankinn gæti hæglega lent í því að vera í mínus eitt eða fleiri af næstu árum. Hann hefði mjög líklega lent í mínus fyrir síðasta ár, ef menn hefðu ekki ákveðið að bíða eftir fleiri dómum frá Hæstarétti vegna gengistryggðra lána og virðisaukning verið þó ekki nema helmingur þess sem hún var.
Aðrir þættir
Þá komum við að öðrum þáttum.
Eigið fé: Eigið fé bankans er 225 ma.kr. og hefur hækkað um 82 ma.kr. frá árslokum 2008. Þessi hækkun eiginfjár er byggð á virðisaukningu á bókfærðu verði lána sem fengin voru með miklum afslætti. Höfum í huga að dómar Hæstaréttar um gengistryggð lán hefðu haft neikvæð áhrif á efnahag bankans, hvort heldur menn hefðu getað beitt þessum reiknikúnstum að hækka virði lánanna eða ekki. Framtíðarþróun eiginfjár bankans mun því vera í óvissu út af fleiri neikvæðum dómum fyrir bankann og hvernig honum tekst að vinna úr vanskilum lántaka, en þau eru ennþá umtalsverð.
Staða útlána: Samkvæmt ársreikningi námu útlán bankans til viðskiptavina um síðustu áramót 666,1 ma.kr. og höfðu hækkað um tæpa 47 ma.kr. frá árinu á undan. Það sem meira er að þau höfðu aðeins hækkað um rúma 10 ma.kr. frá þeirri tölu sem bókfærð var við stofnun bankans. Skoðum þetta nánar. Í stofnefnahagsreikningi voru lán bókfærð á 655,7 ma.kr. Í árslok 2008 var þessi tala komin upp í 705,2 ma.kr. Frá 1.1.2009 hafa útlán verið virðismetin til hækkunar um 169,3 ma.kr., lækkuð vegna gengisdóma og fleira um 61 ma.kr. og lækkuð vegna virðisrýrnunar um 40,5 ma.kr. Án þessara breytinga stæðu útlánasöfn Landsbankans í 637,4 ma.kr. eða um 5% undir núverandi stöðu. Vissulega hafa viðskiptavinir greitt af lánum sínum, en ný útlán hafa, leyfi ég mér að fullyrða, alltaf frá stofnun Landsbanka Íslands vegið þyngra en afborganir eldri lána. Þetta er augljóst hættumerki fyrir Landsbankann. Bankinn er ekki að koma peningunum sínum í vinnu! Rétt er að benda á, að um helmingur útlána Landsbankans er settur að veði gegn greiðslu skulda við gamla bankann eða 319 ma. kr. af 666 ma.kr. eins og staðan var í 31.3.2013.
Sala eigna: Hér er enn einn liðurinn sem gæti fært bankanum tekjur. Mikið hefur gengið á seljanlegar eignir bankans, en þó er hlutur hans í dótturfélögum og hlutdeildarfélögum eftir. Þó bókfært verð hlutar Landsbankans í þessum félögum sé aðeins um 15,5 ma.kr., þá má búast við að meira fáist fyrir þau, þurfi bankinn að selja.
Lausafjáreignir: Um áramót voru lausafjáreignir Landsbankans 249,0 ma.kr. Á móti lausafjáreignum þarf að skoða stöðu innlána og hlutfall milli innlána og grunnlausfjár. Þetta hlutfall er gott og veitir bankanum því nokkuð svigrúm. Það þýðir samt ekki að hægt sé að ganga ótæpilega á lausafjáreignir til að mæta afborgunum.
Kalt stöðumat
Nokkrir aðilar hafa stigið fram og fullyrt að greiðsluhæfi Landsbankans gæti verið skert. Einhverjir ganga svo langt að segja bankann vera hreinlega gjaldþrota. Mín skoðun er að bankinn þurfi að minnsta kosti að endursemja um skuldir sínar við gamla bankann eða að endurfjármagna þær. Ekki veit ég hvort bankanum standi til boða endurfjármögnun upp á um 300 milljarða króna. Eins og staða á millibankamörkuðum er, þá væri það ekki auðvelt. Leið bankans væri því að endursemja um skuldabréfin við gamla bankann.
Einhver mun spyrja hvort bankinn geti ekki notað afborganir viðskiptavina til að greiða upp þessi lán. Eins og áður segir eru afborganir áranna 2014-2018 um 313 ma.kr. auk vaxta. Þetta er 47% af útlánum bankans til viðskiptavina miðað við stöðu um áramót.
Líklegast þarf bankinn að fara blandaða leið til að standa undir afborgunum af skuldabréfum gamla bankans. Treysta á afborganir lána viðskiptavina, ganga á lausafjáreignir, selja eignir sem bankinn getur losnað við, selja frá sér einhver hlutdeildarfélög/dótturfélög, endurfjármagna sig á markaði og síðast en ekki síst endursemja um skuldina við gamla bankann með niðurfellingu hluta þeirra í huga.
Skuldabréfið við gamla bankann mistök
Ljóst er að einhver mistök voru gerð, þegar samið var um bæði veðtryggðra skuldabréfið og skilyrta skuldabréfið. Hvort menn áttuðu sig ekki á hve háar afborganirnar yrðu þessi fimm ár, 2014-2018, áttu von á annarri og betri stöðu lántaka, meðtóku ekki ábendingar um hugsanlegt ólögmæti gengistryggðra lána eða voru einfaldlega bjartsýnni um endurreisn íslensks efnahagslífs, veit ég ekki. Mér finnst aftur nokkuð bratt að ætla bankanum að greiða til baka allt að 40% af andvirði eigna í stofnaefnahagsreikningi til gamla bankans á fyrstu 10 árum frá stofnun bankans. Þó svo að menn hafi ætlað bankanum tekjur í gegn um mikla afslætti af lánasöfnum, þá benda allar tölur til þess, að lítil sem engin innistæða hafi verið fyrir slíku. Ef eitthvað er, þá virðist gæði yfirtekinna lánasafna jafnvel hafa verið lakari, en gert var ráð fyrir í mati Deloitte og afslátturinn verið minni en þörf hefði verið á. Skiptir þar mestu áhrif af dómum vegna gengistryggðra lána og að froðan í íslensku viðskiptalífi var einfaldlega mun meiri en menn höfðu gert sér í hugarlund.
Fyrir þjóðarbúið eru skuldir Landsbankans við gamla bankann síðan grafalvarlegar. Útilokað er að tiltækur verði nægur gjaldeyri á markaði sem stendur nýja bankanum til boða nema að aðrir kaupendur gjaldeyris verði sveltir. Slíkt getur ekki leitt til neins annars en gegndarlauss kapphlaups um allan lausan erlendan gjaldeyri sem ætti að hafa verulega veikingu krónunnar í för með sér. Staðan í dag er einfaldlega sú, að þjóðarbúið býr ekki til nægar erlendar tekjur til að standa undir greiðslu þessara skuldabréfa, þó svo að Landsbankanum gæti tekist að öngla fyrir aurnum úr rekstri sínum.
Skuldabréf nýja Landsbankans við þann gamla er enn ein snjóhengjan sem þarf að losa um án tjóns fyrir þjóðarbúið. Hana verður að leysa á sama hátt og hinar með því að kröfuhafinn, LBI hf. (gamli Landsbanki Íslands), þarf að gefa eftir hluta kröfunnar eða sætta sig við að hún verði ekki til útgreiðslu fyrr en eftir nokkur ár og þá verði hún greidd til baka á mun lengri tíma en gert var ráð fyrir. Að mönnum hafi síðan dottið í hug að bæta við þessa snjóhengju skilyrta skuldabréfinu er mér síðan gjörsamlega óskiljanlegt. Skrifaði ég m.a. athugasemd um þetta við facebook færslu hjá Friðriki Jónssyni hin 11. apríl þar sem ég segi um þetta: "..verið að tilkynna að Landsbankinn ætlar að borga gömlu kennitölunni sinni og nafna meira af gjaldeyri sem ekki er til í landinu..".
Lokaorð
Skuldir Landsbankans við gamla bankann eru þungur baggi hvernig sem á það er litið. Þær eru þungur baggi á bankann, þar sem afkomutölur og efnahagur benda ekki til þess að hann hafi greiðslugetu til að standa undir skuldunum nema ganga verulega á eignir sínar og skerða þar með rekstrarhæfi bankans. Þær eru þungur baggi á gjaldeyrisforða landsins. Meðan erlendar skuldir þjóðarbúsins eru því óviðráðanlegar, þá bætir ekki stöðuna að útistandandi eru að hluta til gjörsamlega fáránlegar skuldir Landsbankans við þrotabú gamla bankans. Þær eru þungur baggi á hóp lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sem gjalda fyrir það að egnt hafi verið með gullrót fyrir framan starfsmenn í þeirri von að hægt væri innheimta hlutfallslega meira af þessu fyrirtækjum en stóru fyrirtækjunum og vildarvinunum. Höfum í huga að Landsbankinn tók yfir útlán að nafnverði 1.240 ma.kr. frá gamla bankanum. Þessi lán voru færð niður um 585 ma.kr. Að það skuli koma í hlut lítilla og meðalstórra fyrirtækja að greiða fyrir skilyrta skuldabréfið, en ekki þeirra stærri, er í raun stórmerkileg aðferðafræði, því ljóst er að stærsti hluti niðurfærslunnar er vegna þeirra stóru.
(Tekið skal fram að þessi færsla er búin að vera lengi í ritun og er því ekki viðbrögð við nýju fréttum frá bankanum. Þær breyta heldur ekki þeim viðhorfum sem koma fram í henni.)
Efnahagsmál | Breytt 5.12.2013 kl. 23:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.5.2013 | 00:32
Slagur SVÞ við íslenskan landbúnað
Ég er einn af þeim sem skil ekki slag Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) við íslenskan landbúnað. Þessi slagur gengur út á að bera kostnað neytenda í örsamfélagi saman við kostnað neytenda í milljóna samfélögum. Mér finnst sá samanburður rangur og nær væri að skoðað verð á kjúklingabringum á Borgundarhólmi, norður Jótlandi og í Færeyjum. En látum það liggja á milli hluta.
Hefur afnám innflutningshafta skilað lægra vöruverði?
Án þess að ég sé einhver talsmaður innflutningshafta, vörugjalda eða tolla, þá tel ég rétt að við veltum fyrir okkur hver ávinningurinn hefur verið af afnámi slíkra innflutningsheftandi aðgerða í gegn um tíðina.
Ég man þá tíð, þegar hér voru framleiddar eldavélar í samkeppni við innflutning. Mér vitanlega er það ekki gert lengur. Ég man þá tíð, þegar skór voru framleiddir á Íslandi í samkeppni við innflutning. Mér vitanlega er það ekki gert lengur. Ég man þá tíð, þegar á Íslandi var mjög blómleg fataframleiðsla. Nú fer langmest framleiðsla á íslenskri fatahönnun fram í Kína, meira að segja af "íslenskri" ullarvöru.
Ég veit ekki til, að skóverð sé sambærilegt á Íslandi og í öðrum löndum, þó skóframleiðsla hafi lagst innanlands, þegar tollar og vörugjöld voru afnumin. Ef eitthvað er, þá er skóverð mun hærra. Þess vegna kaupa íslenskir neytendur sér nýja skó, þegar þeir ferðast til útlanda. Sama á við um fatnað. Ekki kannast ég heldur við að eldavélar séu ódýrari á Íslandi en í nágrannalöndum okkar. Rökin fyrir því að afnám hafta leiði til lægra vöruverðs virðast ekki standast. Hugsanlega gerðist það tímabundið, en íslenskir neytendur (a.m.k. þeir sem eru á aldri við mig) ættu flestir að hafa áttað sig á því, að verð vöru ræðst ekki af kostnaðarverði eða tollverði. Það ræðst fyrst og fremst að því hvað seljandi kemst upp með.
Íslenskur fataiðnaður nærri horfinn
Ég er meira og minna alinn upp í íslenskum iðnaði, Prjónastofunni Iðunni hf. á Seltjarnarnesi. Þegar það fyrirtæki lagði upp laupana vorið 1988, þá töpuðust um 30 störf í íslenskum iðnaði. 30 heimili misstu tekjur. Ríkissjóður og sveitafélög misstu af skatttekjum 30 einstaklinga. Vissulega fengu margir af þessu einstaklingum fljótlega störf, en í staðinn fengu aðrir ekki þau störf.
Ein höfuðástæða fyrir því að fyrirtækið hætti framleiðslu var hrun í innlendri eftirspurn. Það þótti nefnilega ekki fínt að kaupa íslenskt. Kaldhæðnin í þessu var að erlend eftirspurn var fín. Peysurnar fengust í Kaupmannahöfn og London, en ekki á Húsavík eða Akureyri! Og ef ætlunin var að selja þær "fínni" verslunum Reykjavíkur, þá mátti ekki sjást að þær væru framleiddar á Íslandi. Eigandi einnar slíkrar verslunar, sagði einu sinni við móður mína, að hún hefði keypt flottustu peysuna sem hún fann í London. Þegar hún kom inn á hótelið sitt, fór hún að skoða nánar þessa flottu peysu og komst að því, að hún var framleidd á Seltjarnarnesi!
Iðnaðardeild Sambandsins var lögð niður nánast eins og hendi væri veifað. Mörg hundruð störf glötuðust á Akureyri og stór hluti þeirra fór á atvinnuleysisskrá. Sama gerðist þegar framleiðsla hinna og þessara iðnhönnunar var flutt úr landi og eldavélaframleiðslunni var hætt. Það koma ekki önnur störf í staðinn fyrir þau sem eru lögð niður. Fólkið sem missir vinnuna sækir í störf sem hefðu nýst fólki í atvinnuleit. Það er því tap fyrir samfélagið, þegar störf eru lögð niður. Störfunum sem standa undir rekstri samfélagsins fækkar. Höfum í huga, að hefði þessi starfssemi ekki lagst af á Íslandi, ýmist með því að fyrirtækjunum var lokað, framleiðslunni hætt eða framleiðslan flutt úr landi, þá væru kannski 2-3000 fleiri störf í iðnaði í landinu en raunin er.
Það munar um 2-3000 störf. Munurinn á því að hafa þau og hafa þau ekki, gæti, svo dæmið sé tekið, birst í 2-3% muni á virðisaukaskatti (án þess að ég hafi reiknað það neitt sérstaklega). 2-3000 manns á atvinnuleysisskrá kosta 340-510 m.kr. í atvinnuleysisbætur á mánuði. (Setti hér í fljótfærni "á ári".)
Er SVÞ treystandi?Einhverra hluta vegna hafa SVÞ ákveðið að taka slaginn um tvær vörur, þ.e. kjúklingakjöt og svínakjöt. En mér segir svo hugur að þetta sé bara fyrsta átakalínan. Næsta verður um annan innflutning landbúnaðarvöru. Samtökin ráða því alveg hvar er slegist, en út frá sjónarhorni neytenda, þá væri gott að sjá hvatningu til lækkunar álagningar. Er það eðlilegt að raftæki kosti 10-40% meira á Íslandi en í Danmörku? Gilda einhver önnur lögmál um verðlagningu raftækja en kjúklinga- og svínakjöts?
Síðan er það þetta með verðsveiflur úr takt við sveiflur á gengi. Mér virðist sem allar veikingar á gengi komi strax fram í vöruverði, þó engar vörur hafi verið fluttar inn, en styrkingin lætur bíða eftir sér, þó um sé að ræða vöru sem kemur til landsins oft í viku.
Loks er þetta spurningin um hvort lágt innkaupsverð skili sér í verði til neytenda. Ég hef séð vörureikning fyrir bæði skóm og buxum, þar sem innkaupsverð var í kringum 50 USD. Þetta var meðan USD var í kringum 60 kr., þannig að innkaupsverðið var um 3.000 kr. Og hvað ætli verð vörunnar hafi verið út úr búð? 20-24.000 kr.! Þetta var 7-8 falt innkaupsverð vörunnar. Sumar verslanir eru svottan aular að fjarlægja ekki erlendar verðmerkingar af vörunni sem seld er. Í einni verslun stóð kyrfilega merkt að buxur kostuðu 25 GBP eða tæpar 4.400 kr. á þeim tíma. Viðkomandi verslun vildi fá 12.200 kr. Í hillum stórverslana má finna pakkningar þar sem segir að 30% viðbót hafi verið bætt í pakkninguna og viðbótin sé ókeypis. Ekki man ég eftir einu tilfelli, þar sem það reyndist rétt. Stundum stóð "litla" pakkningin við hlið þeirrar "stóru" og ekki var annað að sjá, en að rukkað væri fyrir 30% viðbótina fullu verði. Ef spurt var um hvernig á því stæði, þá komu heldur aumingjaleg svör um að þetta væri bara svona.
Hvað er best fyrir Ísland?
Afleiðingarnar af því að framleiðsla hefur færst úr landi er að færri hafa tekjur af framleiðslunni. Tekjurnar hafa færst til útlanda og til farmflytjenda. Fjölbreytnin í störfum hefur kannski ekki minnkað, en úrvalið af fjölbreyttum störfum er ekki eins mikið.
Augljóslega er best fyrir Ísland, að í landinu sé sem fjölbreyttust framleiðsla afurða sem annað hvort eru fluttar úr landi og skapa þannig gjaldeyristekjur eða eru nýttar innanlands og spara þannig gjaldeyrisútgjöld. Innflutt vara sem er ódýrari en sambærileg innlend framleiðsla, þarf ekki að vera hagkvæmari fyrir þjóðarbúið. Ástæðurnar eru nokkrar, en tvær eru veigamestar. Sú fyrri er að innflutt vara setur þrýsting á krónuna til veikingar. Svo lengi sem ég hef munað eftir hefur of mikill innflutningur líklegast verið helsta ástæða fyrir veikingu krónunnar og leitt af sér gengisfellingar á gengisfellingar ofan. Hin síðari er hve mikið af vöruverðinu myndast innanlands. Þetta skiptir miklu máli, þar sem þetta er sá peningur sem verður eftir í hagkerfinu vegna vörunnar. Þetta er sá peningur sem fer út í veltuna og skapar störfin. Þetta er loks sá peningur sem ríki og sveitafélög fá tekjur sínar af. Þannig er auðvelt að færa rök fyrir því að forðast eigi innflutning á vörum sem innanlandsframleiðsla getur annað, þó svo að verð innlendu framleiðslunnar sé eitthvað óhagstæðara en þeirrar innfluttu.
Þessi þrjú atriðin eiga við um margt fleira en landbúnaðarframleiðslu. Þau eiga við um allar vörur sem hægt er að framleiða með hagkvæmum hætti hér á landi. Þau eiga líka við um skipasmíðar svo dæmi sé tekið. Hvað ætli hefði verið hægt að skapa mörg störf hér á landi, ef varðskipið Þór hefði verið smíðaður í Slippstöðinni á Akureyri? Hvað ætli ríkissjóður hefði haft miklar skatttekjur af launum starfsmannanna? Hvað ætli hefði sparast mikið af verðmætum gjaldeyri? (Nú veit ég ekkert um það hvort þetta hefði verið mögulegt.)
Mjög auðvelt er að reikna út kostnað fyrir samfélagið af "ódýrum" innflutningi. Læt ég það þó hagfræðingum eftir. Hitt veit ég, að 10-15% lækkun á verði einnar vörutegundar (eins og mér sýnist eiga við um kjúklingakjöt) gæti auðveldlega komið í bakið á neytendum í formi hækkunar annarra vörutegunda (vegna veikingar krónunnar) eða vegna hækkunar skatta, t.d. til að mæta kostnaði vegna tapaðra starfa.
Með fullri virðingu fyrir Samtökum verslunar og þjónustu, þá held ég að fólk þar verði að horfa aðeins lengra en á naflann sinn.
Efnahagsmál | Breytt 5.12.2013 kl. 23:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
1.5.2013 | 16:04
1. maí haldinn hátíðlegur í 90 ár á Íslandi
Í dag er 1. maí, frídagur verkalýðsins. Á þessum degi hafa fyrst verkalýður og síðan launþegar safnast saman um allan heim í yfir 120 ár, misjafnlega lengi í hverju landi. Hér á landi var dagurinn fyrst haldi hátíðlegur 1923. Já, í 90 ár hefur verkalýður og síðar almennir launþegar komið saman á þessum degi til að krefjast úrbóta. Oft hefur það gengið eftir, en síðustu árin hafa orð margra verkalýðsleiðtoga verið innantómt hjóm, enda eru þeir flestir orðnir tannlausir og hugsa, að því virðist, meira um eigin velferð en velferð umbjóðenda sinna. Hvort ástæðan er að Samfylkingin hefur verið í stjórn þessi ár, kemur ekki í ljós fyrr en ríkisstjórn án Samfylkingarinnar sest hér við völd.
Hátíðarhöldin undanfarin ár hafa farið fram í skugga þeirrar kreppu sem hér skall á fyrir fimm árum. Kreppunni hefur fylgt meira atvinnuleysi en við Íslendingar erum vanir frá því að flestir núlifandi landsmenn komust á vinnumarkað. Fleiri einstaklingar og fjölskyldur eiga í erfiðleikum með að ná endum saman, en tölur Hagstofunnar gefa til kynna að hátt í 50% heimila eigi erfitt með að ná endum saman. Fólk á í vandræðum með að skaffa mat á borðið fyrir sig og börnin sín. Þrjár fjölskyldur á dag hafa misst húsnæðið sitt undanfarin 4 ár. Þær dreifast út um allt land, en vandinn er mestur á Suðurnesjum. Kaupmáttarskerðing, hækkun greiðslubyrði lána og lækkun eignaverðs er veruleiki nánast allra. Aldrei hafa fleiri fjölskyldur verið í vanskilum með lán sín. Greiðsluaðlögun og gjaldþrot er veruleiki allt of margra, ef fjármálafyrirtækin nota ekki nýjasta vopnið sitt, árangurslaust fjárnám. Og hvar er verkalýðshreyfingin þegar öllu þessu fer fram?
Er von að sé spurt. Allt of margir upplifa verkalýðshreyfinguna þannig, að hún hafi hlaupið í felur eða tekið stöðu gegn almenningi. Það voru forvígismenn Alþýðusambandsins sem lögðust á haustmánuðum 2008 gegn því að verðbætur á lán væru teknar úr sambandi. Aftur og aftur hafa forvígismenn launþega talað gegn umbótum og úrræðum vegna þess að þeir þjóna of mörgum herrum.
Höfum í huga á þessum degi, þeim fimmta sem haldinn er hátíðlegur í skugga núverandi kreppu, að þau úrræði, sem fólki hefur staðið til boða, hafa nær öll verið á forsendum þeirra sem settu þjóðina á hliðina, þ.e. fjármálafyrirtækjanna og fjármagnseigendanna. Innan við 30 ma.kr. af þeim úrræðum sem gripið hefur verið til, hafa ekki komið vegna dóma Hæstaréttar eða eru afskriftir á töpuðu fé. Á sama tíma hafa fjármálafyrirtækin og fjármagnseigendurnir hagnast um hátt í 400 ma.kr. vegna verðbóta af lánum almennings, lána sem bera óheyrilega háa vextir miðað við að vextirnir eru án áhættu. Lítið hefur í reynd verið gert til að gera líf launþega bærilegt. Lítið hefur verið gert til að vinna upp kaupmáttarrýrnun síðustu ára. Lítið hefur verið gert til að fjölga störfum í landinu. Tæp fimm ár af allt of litlum framförum hafa liðið hjá. Tæp fimm ár af lélegri varnarvinnu verkalýðshreyfingarinnar hafa liðið hjá. Tæp fimm ár af ofríki fjármálafyrirtækja og fjármagnseigenda hafa liðið hjá. Fimm töpuð ár hafa liðið hjá.
Hvers vegna hefur verkalýðshreyfingin ekki tekið einarða afstöðu með launþegum landsins? Ég verð að viðurkenna, að ég skil það ekki. Hvers vegna rís ekki forystusveit ASÍ upp á afturlappirnar og krefst þess að nýju bankarnir skili til viðskiptavina sinna þeim 30-40% afslætti sem þeir fengu af lánasöfnum sínum, þegar þau voru flutt frá hrunbönkunum? Hvers vegna situr forysta ASÍ hljóð hjá, þegar nýju bankarnir tilkynna hagnaðartölur sínar? Hvers vegna hefur ASÍ ekki staðið með umbjóðendum sínum í baráttunni fyrir réttlæti og sanngirni? Hvar eru tillögur ASÍ um endurreisn heimilanna?Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 37
- Sl. sólarhring: 66
- Sl. viku: 345
- Frá upphafi: 1680483
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 40
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði