Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2013

Afl, orka og sæstrengur

Í grein á mbl.is fjallar Ketill Sigurjónsson um sæstreng til Bretlands.  Að vanda er Ketill faglegur í sinni umfjöllun.

Í þessari umræðu eru tvö hugtök sem menn virðast rugla saman.  Afl og orka.  Afl er það sem við mælum í megavöttum (MW), en orkuna mælum við í gígavattsstundum (GWst eða GWh).  Þetta fyrra er af skornum skammti í raforkukerfinu, en hið síðara er almennt ofgnótt af, nema í miklum þurrkaárum.  Skýringin er einföld. 

Uppsett afl þarf að uppfylla þá eftirspurn eftir afli, þegar það er mest, þ.e. í afltoppi.  Lengi var þessi toppur 24. desember á hverju ári á þeim tíma þegar allar fjölskyldur landsins voru að elda hátíðarkvöldverðinn.  Hef ekki kynnt mér nýlegar upplýsingar um þetta, en mér skilst að þetta hafi eitthvað færst til.  Afl virkjana er þar með miðað við þennan afltopp.  Til að lækka toppinn, þá er samið við stórkaupendur raforku að þeir dragi úr notkun sinni á þessum tíma.  Fundin er leið til að lágmarka afltoppinn, þar sem hæð hans segir til um hve mikið þarf að virkja.

Þegar ekki er verið að nýta allt afl virkjana, þá framleiða þær yfirleitt mun meiri orku, en eftirspurn segir til um.  Hún hefur verið seld til stórkaupenda (álvera) í formi ótryggrar orku, en nú virðist eftirspurn hafa minnkað.  Það er þessi orka, sem menn vilja flytja út um sæstreng.  Ég segi að framleiðslan sé yfirleitt mun meiri, vegna þess að í þurrum árum, sem eru á 10 - 30 ára fresti, þá rétt dugar vatnið í uppistöðulónum til að anna innanlandseftirspurn.  Hin árin, þá er ofgnótt orku framleidd eða þá að vatni er hleypt framhjá virkjunum og ekki notað í orkuframleiðslu.

Allt í lagi, Landsvirkjun vill selja þessa umframorku úr landi.  En hvað er umframorkan stór hluti af mögulegri orkuframleiðslu í núverandi kerfi?  Ég hef séð tölu nefnda upp á 750 GWst, en eins og Ketill, þá er ég ekki viss.  750 GWst á ári á 20 kr. KWst. gerir 15 ma.kr.  Hagfræðistofnun Háskóla Íslands (HHÍ) nefnir í skýrslu um hagkvæmni sæstrengs að 2.000 GWst væru á lausu í kerfinu.  Miðað við það og 20 kr./KWst, þá yrðu tekjurnar 40 ma.kr.  HHÍ notar raforkuverð á bilinu 15,5 til 21,2 kr./KWst sé umreiknað á gengi evrunnar í dag.  Þar sem umframorka er háð árferði, vatnsbúskapnum, mun hún rokka talsvert til og tekjurnar líka.

Vandamálið er, að strengurinn er ekki hagkvæmur miðað við að bara fari 2.000 GWst um hann á ári.  Því bætir HHÍ við 3.000 GWst, sem eiga að koma frá nýjum virkjunum!  Auka þarf aflgetu raforkuframleiðslukerfisins til að orkan sem fer um strenginn sé næg til að hann borgi sig.  Hin leiðin er að segja upp raforkusamningum við eins og eitt stykki álver og selja raforkuna sem þannig losnar um sæstreng til Bretlands.  En HHÍ reiknar með virkjunum og það nokkrum.  Vatnsaflsvirkjun á að vera upp á 750 GWst, jarðvarmavirkjanir upp á 1.500 GWst og vindmyllur eiga að gefa 750 GWst!  (Það þarf hátt í 300 vindmyllur til að ná þeim afköstum, ef miðað er við þær tvær sem þegar hafa verið reistar.)  Og eiga virkjanirnar (að vindmyllum meðtöldum) að kosta á bilinu 118 - 145 ma.kr. eða svona eins og eitt stykki Kárahnjúkavirkjun/Fljótdalsvirkjun kostaði á sínum tíma.  Hún framleiðir þó 5.000 GWst árlega.

Sæstrengur er í sjálfu sér ekkert mál að tveimur skilyrðum uppfylltum:

  1. Að rekstrarleg áhætta af strengnum falli ekki á skattgreiðendur og breyti þ.m.t. ekki eignarhaldi á Landsvirkjun eða Landsneti.
  2. Að sátt verði um þær framkvæmdir innanlands sem fara þarf í.  Þær eru nefnilega umtalsverðar, þ.e. virkjanir, uppbygging flutningskerfis og umbreytingarstöðvar.

Ég efast ekki um að hægt verði að ná sátt, en hún getur ekki bara gengið út á að fórna náttúrunni, því virkjanir munu alltaf bitna á henni.  Nei, eitt af mikilvægustu málunum er að hætta að flagga þessum möstrum um allar sveitir og setja línur í jörð.  Við verðum einfaldlega að veita náttúrunni þær sárabætur fyrir allt raskið að fara með stofnlagnirnar af yfirborðinu.  Auðvitað verður eitthvað rask, en ef Landsnet fær sérfræðinga í lið með sér, þá dregur úr þeim umhverfisspjöllum í tímans rás, meðan möstrin munu alltaf skera í auga.  Fáist síðan tekjur upp á hátt í 100 ma.kr. árlega, þá ætti að vera til aur fyrir jarðstrengjum.

Tekið skal fram, að ég hef ekki verið hlynntur sæstreng, heldur frekar viljað fara þá leið að ná betri framleiðslustýringu í virkjanakerfinu og byggja upp innlenda starfsemi sem nýtir raforkuna.  Rökin sem Landsvirkjun kemur með varðandi ónýtta orku sem til verður í kerfinu, eru hins vegar sterk.  Ég óttast samt að þetta verði enn eitt túrbínu trixið og í þetta sinn verði lagður svo stór sæstrengur að nauðsynlegt er að byggja ennþá fleiri virkjanir, en hér hafa verið nefndar, svo fjárfestingin í strengnum nýtist nú í botn.

(Fyrir rúmum 25 árum skrifaði ég lokaverkefni við Stanford háskóla um samspil framboðs og eftirspurnar í íslenska raforkukerfinu.  Bý ég enn að þeirri þekkingu, sem ég aflaði mér þá.  Átti það meira að segja að verða framtíðarstarfið, en ekki fer allt eins ætlunin er.)


Skortur á hæfi og ofgnótt af vanhæfi

Þau tíðkast hin breiðu spjót.  Vegið er til hægri og vinstri að einstaklingum fyrir að þeir séu þar sem þeir eru en ekki aðrir sem ættu að þykja hæfari. 

Ég hef oft sagt að eitt stærsta vandamál Íslands sé skortur á hæfu fólki.  Hef ekkert breytt þeirri skoðun minni.  En ég hef á móti sagt að ekki sé rétt að vega að því fólki sem er í sínum stöðum, ef það er að gera sitt besta.  Á þessu eru þó nokkrar undantekningar.  Ég vil að seðlabankastjóri sé úr hópi okkar bestu til að stjórna þeirri stofnun.  Sama á við um háskólarektor, yfirmann Landspítalans, yfirmann Landsvirkjunar og svona kannski aðrar 5 lykilstöður í þjóðfélaginu.  Með öðrum orðum, ég vil að í þessar stöður veljist einstaklingar vegna yfirburðarhæfni sinnar til að inna þessi störf af hendi, en ekki einhverjir sem voru næstir í röðinni.

Fullt af hæfu fólki sem valdi annað

Ísland á fullt af vel hæfu fólki til að sinna nánast flestum þeim störfum sem þarf að gegna í samfélaginu.  Vandinn er hvort áhugasvið einstaklinga liggi þar samfélaginu nýttust hæfileikar þeirra best, hvort hin krefjandi störf séu ekki fleiri, en þeir sem við þau ráða og að þegar einhver finnst í krefjandi starf, þá þykir viðkomandi svo hæfur að hann fær stöðuhækkun eða er fluttur til í starfi vegna þess að mönnum dettur í hug að nýta viðkomandi í öðru starf sem hæfir viðkomandi alls ekki.  Svo er það hæfa fólkið sem fær ekki samþykki dómstóls götunnar.

Í tveimur nýlegum pistlum er farið hörðum orðum um stjórnmálastéttina á Íslandi.  Um hana er það að segja, að kjósendur völdu.  Þeir meira að segja voru svo galvaskir í vali sínu, að aumingja Framsókn er að senda nánast unglinga á þing.  Fólk sem datt alls ekki í hug, þegar það bauð sig fram að 4. sæti lista gæti leitt til þingmennsku.  Veit svo sem að annað þeirra sem hamraði hnappaborðið kaus ekki Framsókn og á því ekki beina sök á því að ungliðinn komst á þing, en mér finnst bara allt í lagi, að fólk virði niðurstöður kosninganna.

Í báðum þessum pistlum er tala hátt og mikið um vanhæfi eða óhæfi.  Gengið svo langt í síðari pistlinum að tala um óhæfa stjórnmálastétt á Íslandi.  Hef ég þó ekki orðið var við að viðkomandi hafi reynt að búa sér til pláss innan þeirrar stéttar og komast því til metorða í þessari ótrúlega óhæfu stétt.  Maður með hans hæfileika ætti ekki að vera skotaskuld úr því að komast á toppinn.

Óhæf stjórnmálastétt?

Ég held að það sé alveg rétt, að inn á Alþingi hafa ekki alltaf valist okkar úrvalsdrengir og -stúlkur.  Ég sé að Danir eru líka farnir að kvarta yfir svipuðu ástandi, enda valdist einstaklingur í stól ráðherra nýlega sem aldrei hafði fengið alvöru skattkort fyrr en hann varð ráðherra!  Sættið ykkur bara við það, að "besta" fólkið hefur ekki endilega áhuga á því að verða "sómi Íslands, sverð og skjöldur" í brjálæðislega vanþakklátu starfi sem þingmaður eða ráðherra.  Nú svo vil ég setja spurningamerki við það hvort "besta" fólkið sé endilega best.  Er það gott efni í þingmann, að hafa flakkað á milli flokka?  Er það vænlegt til farsælla málmiðlana, ef viðkomandi hefur klofið sig frá samstarfi við aðra vegna þess að menn voru ekki sammála um eitt eða tvö málefni?  Hvaða hæfileika þarf einstaklingur að hafa til að teljast hæfur í augum bréfritara?

En sem sagt stjórnmálastéttin er óhæf og utanríkisráðherrann er gjörsamlega vonlaus.  Hvorugt er nokkuð nýtt og hvorutveggja á eftir að endurtaka sig.  Auðvitað hefði verið gott að hafa við höndina reynslubolta í utanríkismálum, en þjóðin kaus hann ekki til valda.  Það sem meira er, að "þjóðin" hefur verið með nokkuð háværa kröfum um að allir þingmenn með slíka reynslu, þ.e. Össur Skarphéðinsson, hyrfu af þingi vegna tengsla við hrunstjórnina.  Nú og aðrir sem hafa verið háværir um getuleysi núverandi utanríkisráðherra, voru líklegast stuðningsfólk framboða sem ekki komu neinum manni að.  Ef viðkomandi flokkar hefðu komist að og myndað ríkisstjórn, þá var nákvæmlega enginn í efstu sætum þeirra lista, sem hefði haft nokkurt vit á utanríkismálum.  Fólk verður bara að sætta sig við, að það kaus eins og það gerði og þetta er niðurstaðan.  (Tekið skal fram að mitt atkvæði fór ekki til þeirra sem eru á þingi.)

Vanhæfi utanríkisráðherra

Gunnar Bragi Sveinsson valdist í stöðu utanríkisráðherra, þar sem það ráðuneyti kom í hlut Framsóknar.  Flokkurinn á nokkra reynslubolta sem eru utan þings og hægt hefði verið að leita til þeirra.  Halldór Ásgrímsson hefði verið fyrirtaks utanríkisráðherra með alla sína reynslu, enda gegndi hann starfinu í gamla daga.  Sæi nú fyrir mér netheima hefði það gerst.  Ok, afleit hugmynd að velja einhvern gamlan stjórnmálamann.  Þá er að finna einhvern góðan og gegnan Framsóknarmann í starfið, einnig utan þings.  Aftur hefði allt orðið klikkað og talað um klíkuskap Framsóknar eða að Sigmundur Davíð treysti ekki sínu fólki.  Sem sagt afleit hugmynd.  Því var að leita innan þinghópsins.  Höfum í huga, að Sigmundur mannaði bara fjórar ráðherrastöður og aðeins einn þingmaður með meira en 4 ára reynslu á þingi fékk ekki ráðherrastól, þ.e. Höskuldur Þórhallsson.  Munurinn á honum og Gunnari Braga er í fyrsta lagi að Gunnar Bragi sat í utanríkismálanefnd 2011-13 og að hann er fyrsti þingmaður Norðurvesturkjördæmis.  Af þeim sem ekki fengu ráðherraembætti úr ráðherraliði Framsóknar, þá sé ég ekki annan fyrir mér hljóta slíkt embætti en Höskuld út frá þingreynslu sinni.  Það sem kom í veg fyrir að Höskuldur fengi djobbið var náttúrulega að Sigmundur hélt að hann næði ekki kjöri í Reykjavík og færði því lögheimilið sitt á eyðibýli á Austurlandi. Þar með endaði Höskuldur sem 3. þingmaður NA-kjördæmis.

Næst er það hvað Gunnar Bragi á að hafa gert af sér.  Af lestri greina eftir hælbíta Gunnars, þá er honum talið til tjóns menntunarleysi sitt, að hann hafi mismælt sig í ræðustóli og sagt "kakas" í staðinn fyrir "kasak", að hann hafi mótmælt túlkun stækkunarstjóra ESB og svo náttúrulega þá á hann að vera handbendi Þórólfs Gíslasonar og helst fjarstýrður af honum.  Ég segi nú bara, ef þetta er það besta sem fólk getur gert, þá er ástandið ekki svo slæmt.

Lítið land með krefjandi verkefni

Staðreyndin í öllu þessu tali um skort á hæfi og ofgnótt af vanhæfi er að á Íslandi búa rétt rúmlega 320.000 manns.  Auk þess er stór hópur Íslendinga sem eru búsettir utan landsteinanna.  Er ég einn af þeim.  Þeir telja örugglega í tugum þúsunda íslensku ríkisborgararnir sem búa í útlöndum.  Sumir fóru þangað í ævintýraleit, aðrir í nám og svo þeir fundu starf, en allir eiga þeir það sammerkt að hafa ekki snúið til baka.  Það eru því þessi 320.000 sem þurfa að halda Íslandi gangandi.  Og það er ekkert smáverkefni.

Halda þarf úti eins vel og hægt er flóknu og fullkomnu heilbrigðiskerfi, menntakerfi, samgöngukerfi, velferðarkerfi og öllu hinu líka.  Gæta þarf réttlætis, jafnréttis og jafnræðis í öllum málum.  Samkeppni þarf að vera heilbrigð, atvinnulífið öflugt, lífgæðin góð og framtíðin björt.  Til þess að þetta geti virkað hefur verið komið upp umfangsmiklum vef laga og reglna og sé einum bókstaf hnikað til í einni lagagrein einna laga, þá má búast við ekki bara að áhrifa gæti í 10 öðrum lagabálkum heldur flæða yfir Alþingi umsagnir og andmæli óteljandi aðila alls staðar af úr þjóðfélaginu.  Sem er hið besta mál.  En það er þetta flækjustig þjóðfélagsins sem er að verða því um megn.  Þegnarnir krefjast síðan nánast alls sem þekkist í 100 til 1000-falt stærri þjóðfélögum.  Allt eykur þetta á flækjustigið, en um leið er gerð krafa um lægri skatta og hærri framlög frá ríkinu.

Í 60 milljón manna þjóðfélagi, þá gengur margt af þessu illa.  Horfum bara til Bretlands, þar sem margt virðist vera að fara í hundana.  Eða Spánar.  Það er einfaldlega orðið flókið og erfitt að reka nútímaþjóðfélag.  Þegar það síðan gerist, að fólkið sem fór til útlanda til að ná sér í haldgóða menntun, snýr ekki til bara, þá leggjast verkefnin á þá sem eftir eru.  Ísland situr eftir með úrvalið í gömlu merkingu orðsins, þ.e. það sem eftir er þegar búið er að velja það bitastæðasta.  (Þetta er nú ekki alveg sanngjarnt, því margt mjög hæfileikaríkt fólk er á Íslandi.)  Vandinn er, eins og ég sagði í upphafi, að fjöldi starfa sem krefjast slíkra hæfileika virðist vera meiri en framboð einstaklinga með umbeðna hæfileika og það sem er ekki síður vandamál, að ekki er víst að fólk hafi áhuga á að sinna því starfi sem æskilegt væri út frá þörfum þjóðfélagsins.  (Tek það fram, að ég tel ekki gefið að betri menntun geri fólk hæfara.)

Hæfast en ekki hæft

Víða í þjóðfélaginu hefur það gerst að einstaklingar eru í stöðum sem þeir ættu ekki að vera í út frá þeim hæfiskröfum sem eðlilegt er að gera til starfanna.  En stóra málið er, að aðrir hæfari einstaklingar eru:

  1. ekki til;
  2. vilja ekki starfið;
  3. uppfylla ekki aðrar kröfur til að geta fengið starfið
  4. eru óæskilegir til að gegna starfinu

(Atriði þrjú er t.d. að vera þingmaður Framsóknarflokksins sem leiddi lista flokksins í sínu kjördæmi.  Atriði fjögur er að hafa verið aðstoðarmaður ráðherra Framsóknarflokksins fyrir 12 árum eða svo.)

Þegar þetta er staðan, þá er um lítið annað að ræða að velja þann sem kemst næst því að uppfylla hæfiskröfurnar, nema að reynt verði að auglýsa aftur eða hreinlega sleppt að ráða í það.

Ég vil leyfa mér að fullyrða, að stór hluti þjóða heims glímir við þennan sama vanda.  Ég get t.d. ekki séð að hin einstöku ríki Bandaríkjanna, að maður tali nú um alríkisstjórnin, séu nokkuð ofklifuð af hæfileikaríku fólki.  Líklegast eru Þjóðverjar, Svisslendingar, Austurríkismenn, Norðmenn, Danir, Svíar og Singapore í bestri stöðu hvað þetta varðar.  Ætli Ísland komi ekki svona um miðjan pakkann, ef ekki neðar.

Meðan laun eru jafn lág og raun ber vitni á Íslandi, þá mun þetta ekki breytast.  Hvers vegna að velja starfs hjá hinu opinbera, þegar bankarnir bjóða betur eða sjúkrahúsið í Bergen eða, eða, eða..  Og varðandi Alþingi.  Hvers vegna ætti hæfileikaríkt fólk að komast að á þingi, þegar kjósendur telja flokkshollustuna skipta meira máli en geta og reynsla þess einstaklings, sem verið að kjósa til að takast á við flókin viðfangsefni?  Ef ég ætti að segja eins og er, þá finnst mér að það ætti að vera 30-35 ára aldurslágmark vegna framboðs til Alþingis.  Með því er ég ekki að gera lítið úr vitneskju eða getu þess unga fólks sem er með metnað til þingstarfa.  Ég efast um reynslu þeirra úr þjóðfélaginu til að takast á við þau störf sem bíða þess á þingi.


We've got five years, my brain hurts a lot

Fyrirsögnin er tekin úr texta lags David Bowie Five Years eftir Tony Hiller og Byron Hill.  Hún lýsir hugarástandi mínu núna 5 árum eftir hrun bankakerfisins.  Það er nefnilega þannig, að mér finnst ég engu nær um þá fáránlegu stöðu sem fáeinir vanvitar komu Íslandi í og hvernig hefur verið unnið úr henni. 

Kannski full djúpt í árinni tekið, að ég sé engu nær.  Mikið vatn hefur runnið til sjávar og með því komið upp á yfirborðið í leysingum innan úr "kerfinu" upplýsingar sem varpað hafa ljósi á ýmislegt.  Það sem veldur mér hins vegar mestu hugarangri er hinn aukni fjöldi einstaklinga sem eru farnir að tala fyrir því að lítið sem ekkert sér athugavert við það sem gerðist.  Helst er að þetta hafi bara verið eðlileg bankastarfsemi, eins og fyrrverandi bankaráðsmaður í Seðlabankanum komst að í vikunni.

Sakleysið kvatt

Já, það fyrir 5 árum að við kvöddum sakleysið í íslensku samfélagi.  Á þessum 5 árum höfum við komist að því, að við höfðum flotið sofandi að feigðarósi í þeirri trú að hér væri allt í lukkunnar velstandi.  Að Íslendingar toppuðum alla í heiminum í viðskiptasiðferði.  Að íslenskir bankamenn væru harðduglegir snillingar, eins og fyrrverandi forstjóri Kauphallarinnar sagði í frægu viðtali.  Síðan vöknuðum við upp af draumnum.

Vanvitagangur og einfeldni

Staðreyndirnar tala sínu máli.  Enginn munur var á íslensku viðskiptalífi og annarra þjóð nema kannski að vanvitagangurinn og einfeldnin var meiri hér á landi.  Viðvaningshátturinn var innan bankakerfisins, þar sem menn héldu að þeir gætu allt og allt sem þeir snertu breyttist í gull.  Þetta reyndist hins vegar Mídasarheilkenni, því að lokum fór fyrir þeim eins og Mídasi konungi, að þeir högnuðust ekki af ávöxtun sem enginn gat borgað. Græðgin varð þeim að falli.  Einfeldnin kom í ljós, þegar menn fóru að skoða eftirlitskerfið sem virkilega trúði því að íslenskir "fjármálasnillingar" væru heiðarlegri en aðrir menn hér á jörðu.

Goðsögn um heiðarleika

Á Bretlandseyjum hafa menn, t.d., alltaf gert ráð fyrir því að heiðarleikinn innan City of London byggði á því að menn væru heiðarlegir í því að blekkingar væru til staðar.  Að í hverjum einustu viðskiptum, þá væru menn á fullu í því að hlunnfara einhvern.  Menn bara gerðu ráð fyrir að verða í staðinn hlunnfarnir í öðrum viðskiptum.  Hagnaður á einum stað jafnaði út tap á öðrum stað.  Á Íslandi var þetta eins og haft var eftir einum "snillingnum" hér um árið og má taka saman í eftirfarandi orðum:  "Strákar, ef við vinnum saman, þá vinna allir."

Hvílíkur fíflagangur sem menn komust upp með!  Leynifélög skráð á nöfn manna sem voru ekkert.  Nákvæmleg ekkert.  Menn sem létu nota sig í svikavef "snillinga" sem síðan eru svo mikil lítilmenni að kannast ekki við neitt.  Nefni engin nöfn, því þá gæti einhverjum þeirra dottið í hug að kæra mig fyrir meiðyrði.  Minnisleysi margra þessara snillinga er svo áhugavert, en aftur læt ég vera að nefna dæmin til að forðast mögulegar málsóknir, þar sem þeir eru alveg búnir að gleyma því hvað þeir gerðu og það kostar pening að verjast slíku minnisleysi.

Siðleysi, siðleysi, siðleysi

Næst er það siðleysið.  Mörgum verður á í lífinu, en þessum hópi virðist vera fyrirmunað að koma fram og viðurkenna mistök sín.  Ok, BTB og JÁJ sögðust hafa gert mistök í drottningarviðtölum, en báðir töluðu um það hvernig þau mistök höfðu snert þá fjárhagslega.  Ekkert um það hvernig mistökin höfðu skaðað aðra.  (A.m.k. gat ég ekki lesið það út úr þessum viðtölum.  Tek þó fram að ég hef ekki komist yfir að lesa allt sem komið hefur frá þeim.)  Enginn bankastjórnenda hefur komið fram og beðið þjóðina afsökunar á að hafa kostað hana hundruð milljarðar af skattfé.  Nei, topparnir hjá Kaupþingi sögðust ekki skulda þjóðinni afsökunarbeiðni, bara hluthöfum.  En stærsti hluti þessara hluthafa voru aðilar sem höfðu, að því virtist, rænt bankann innan frá.  Í hverju átti þá afsökunin að felast?  Að þeir hafi getað fengið meira fé út úr bankanum.  Ég efast stórlega um að tjón stærstu hluthafa í formi tapaðs hlutafjár hafi náð þeirri upphæð sem þeir voru búnir að fá að láni án trygginga.  Þeir sem töpuðu voru litlu hluthafarnir sem nutu engra ívilnana eða sérréttinda í gegn um hlutabréfaeign sína.

En siðleysið hefur líka komið fram í því að fullyrða, að þar sem ekkert ólöglegt var gert, engin lög brotin (þeirra fullyrðing, en ekki alltaf sannleikanum samkvæmt), þá hafi bara verið í lagi að setja þjóðarbúið nánast í þrot.  Þá hafi verið í lagi að skuldsetja þjóðina upp í rjáfur og fella gengi krónunnar.  Þá hefi verið í lagi að tæma alla sjóði með ótryggðum lántökum, veita viðskiptafélögum undarleg lán, fela eignarhald í leynifélögum, nota blekkingar til að komast hjá eðlilegum skattgreiðslum.  Vissulega er skattasniðganga ekki ólögleg, en hún er siðlaus.  Það er líka siðlaust að reka fjárfestingafélög með milljarða veltu og þykjast svo hafa 250.000 kr. í laun á mánuði.

Afneitun

Afneitunin er líklegast mest áberandi heilkennið með hrunverja.  Stjórnmálamenn gerðu ekkert rangt.  Þeir voru bara blekktir.  Seðlabankinn gerði ekkert rangt.  Davíð varaði við þessu.   Bankamenn gerðu ekkert rangt.  Þetta var allt Lehman að kenna.  Fjárfestar gerðu ekkert rangt.  Þeir urðu bara fyrir þessu.  Í augum þeirra allra, þá bara gerðist þetta og var alveg gjörsamlega óháð því sem viðkomandi gerði eða gerði ekki.  Hef verið að gæla við að skrifa bók um mína sýn á þessu og vinnutitillinn er "Með ælubragð í munni".  Það er nefnilega málið, að maður er búinn að fá svo mikið ógeð og óbragð af öllu þessu rugli, að maður er stöðugt með ælubragði í munninum.

Ábyrgðarleysi

Það skemmtilegasta í þessari afneitun er ábyrgðarleysið.  T.d. stjórnmálaflokkurinn sem var í ríkisstjórn, þegar allt hrundi, en treysti ekki ráðherra bankamála til að gera neitt af viti.  Síðan fór þessi flokkur fyrir næstu tveimur ríkisstjórnum og lét eins og hann hefði ekkert komið nærri hruninu!  Bara svo það sé á hreinu, þá bera þrír stjórnmálaflokkar ábyrgð þegar kemur að hruninu:  Framsókn, Samfylking og Sjálfstæðisflokkur.  Hvernig sem menn reyna að snúa sér út úr þessu, þá geta þeir ekki vikið sér undan þessari ábyrgð.

Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlit hafa keppst við að benda á aðra og þessar stofnarnir hafi gert allt rétt.  Ég veit ekki hvernig niðurstaða gat orðið hrun íslenska fjármálakerfisins, ef þær tvær stofnanir sem hafa fjármálastöðugleika og stöðugleika fjármálakerfisins að megin viðfangsefni, gerðu allt rétt.  Hvers konar hálfvitar halda þáverandi stjórnendur SÍ og FME að við almenningur séum.

Ég verð að viðurkenna, að mér er sama um ábyrgðarleysi Sigurðar Einarssonar, Hreiðars Más Sigurðssonar, Lárusar Welding, Bjarna Ármannssonar (já, ég tel hann líka vera ábyrgan), Sigurjóns Þ. Árnasonar og Halldór J. Kristjánssonar.  Þeir rústuðu sínu faglega orðspori og gengur misjafnlega að endurbyggja það.  Sumir eru í svo dapurri stöðu að þurfa að lifa á sparnaði betri helmingsins.

Áhyggjur af framtíðinni

Það sem ég aftur hef áhyggjur af, er að margir af hrunverjum er að safna vopnum sínum og eru farnir að gera sig aftur breiða í íslensku samfélagi.  Ég hef áhyggjur af því, að uppgjörið við hrunið hafi ekki skilað þeim árangri sem þarf fyrir íslenskt samfélag.  Ég hef áhyggjur af því, að óminnishegrinn hafi tekið völdin of víða, enda tala nafntogaðir hrunverjar um "svokallað hrun".  Ég hef áhyggjur af því að almenningur í landinu muni sitja uppi með tjón sitt, en hrunverjar sleppa að mestu ágætlega.  Uppgangur þeirra var hvort eð er allur tekinn að láni og því var beint fjárhagslegt tjón þeirra ekki svo mikið.  Ég hef áhyggjur af því, að fjárhagsleg endurskipulagning þjóðfélagsins muni færa allt í sama horf og fyrir hrun.  Ég hef áhyggjur af því, að menn ætli ekki að læra af reynslunni.  Ég hef ekki síst áhyggjur af því, að allt sem að framan er talið leiði til nýs hruns, þar sem of margir eru í afneitun, axla ekki ábyrgð, vilja ekki taka breytingum og vilja ekki stuðla að nauðsynlegum breytingum í samfélaginu.

5 ár

Já, það eru liðin fimm ár frá því að Geir laug að þjóðinni um að ekkert væri að óttast.  Hann ætti bara fundi með BTB á laugardegi vegna þess að svo heppilega vildi til að þeir væru báðir á landinu.  Það eru liðin 5 ár frá "Guð blessi Ísland" - ávarpi Geirs H. Haarde.  Ég hef nokkrum sinnum horft á þetta viðtal, en enn ekki áttað mig á því hvað hann vildi segja, því hann var svo upptekinn að segja ekki það sem hann hefði átt að segja:  "Við erum í djúpum skít og ég efast um að við getum kraflað okkur upp úr honum."

Á þessum fimm árum hefur margt komið í ljós.  Hér eru nokkur atriði:

  1. Bankarnir voru glæpsamlega illa reknir.
  2. Seðlabankinn vissi ekkert hvað hann var að gera og virðist ekki ljóst hvort það hafi breyst.
  3. Viðskiptaráðherra var ekki með þetta, hvorki þáverandi né þeir sem á eftir komu.
  4. Fjármálaráðherra var ekki með þetta, hvorki þáverandi né sá næsti. 
  5. Lehman Brothers felldu ekki íslensku bankana.  Þeir voru fullfærir um það sjálfir.
  6. Gordon Brown og Alistair Darling felldu ekki bankana.  Þeir sáu bara um að engin væri í vafa um að það hafði gerst.
  7. Erlendar skuldir virðast verða hærri í hvert sinn sem Seðlabankinn reiknar.
  8. Norræna velferðarstjórnin ákvað að fórna heimilunum á altari kapítalismans með því að gefa kröfuhöfum allt of góðan samning.
  9. Nýju bankarnir eru ekki að fatta að þeir eru afsprengi hrunsins og eru því ekki lausir við siðferðislega ábyrgð.
  10. Alþingi ætlar ekki að breyta neinu í sínu fari svo heitið getur.  Sama á við um SÍ, FME, fjármálafyrirtækin, fjárfesta og lífeyrissjóðina.  Þessir aðilar gerðu nefnilega ekkert rangt.
  11. Klíkuskapur og spilling í íslensku þjóðfélagi er á pari við það sem gerist í einræðisríkjum Afríku sunnan Sahara. (Biðst afsökunar, ef íbúum þeirra landa finnst þetta móðgandi.)
  12. Ísland er bananalýðveldi og enginn vilji virðist vera til að breyta því.
  13. Fórnarlömb hrunsins eru ekki fjármagnseigendur heldur hinn almenni Íslendingur.  Allur kostnaður hefur hækkað langt umfram tekjur.  Það sem meira er, að ýmsar grunnstoðir samfélagsins eru smátt og smátt að mola vegna skorts á viðhaldi.
  14. Réttarkerfið virðist ekki vera í stakkbúið til að takast á við eftirmála hrunsins.

Ég gæti vafalaust talið upp mörg önnur atriði, en læt lesendum það eftir.

Og svona í lokin:


Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband