Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Íslenska landsliðið má vera stolt af sínum leik þrátt fyrir tapið

Í kvöld sáum við framtíðarlandslið Ísland.  Unga og fríska stráka, studda af nokkrum jöklum, sem þorðu, gátu og vildu leika áferðaflottan fótbolta.  Úrslitin voru vonbrigði og langt frá því að vera sanngjörn, en svona er boltinn einu sinni.  Bæði lið hefðu hæglega getað skorað fleiri mörk og ekki hefði verið ósanngjarnt að íslenska liðið hefði leitt með tveimur mörkum í leikhléi.

Engin ástæða er til að hengja haus yfir leiknum í kvöld.  Ekki var að sjá, að liðið saknaði Eiðs Smára eða annarra sem hugsanlega hefðu getað verið í liðinu.  Sjálfstraustið var í góðu lagi hjá ungu strákunum, en það voru helst þeir eldri sem klikkuðu.  Kristján Örn var góður fyrstu 60 mínúturnar, en gerði sig sekan um mörg mistök eftir það.  Hann sat t.d. eftir í sigurmarkinu og gerði Norðmanninn réttstæðan.  Grétar Rafn átti ótrúlega margar lélegar sendingar, þegar hann var búinn að gera allt rétt fram að sendingunni.

Að senda nánast 21 árs landsliðið út á móti Norðmönnum (þetta var meira eins 23 ára liðið hér í gamla daga) og vera hundsvekktur með eins marks tap segir ansi margt um bjarta framtíð.  Ef við náum að halda þessum kjarna ungra leikamanna og styrkja hann með jálkum, þá þurfum við ekki að örvænta.  Þessi undankeppni kemur kannski ívið of snemma til að ná afbragðsárangri í stigaskori, en það styttist í að við förum að sanka að okkur stigum.  Vissulega var þessi leikur ásamt heimaleiknum á móti Kýpur þeir leikir sem mestar líkur voru á sigri, en ég vil frekar sjá liðið spila leik eins og í kvöld og tapa, en að horfa á gamla góða afturliggjandi varnarboltann með löngum sendingum upp á framherja sem kannski ná boltanum.  Í þessum leik heppnuðust fleiri sendingar á milli íslenskra leikmanna, en í síðustu tveimur undankeppnum.  Einnar eða tveggja snertinga bolti var ráðandi mest allan fyrri hálfleik og á löngum köflum í síðari hálfleik.  Þversendingar kanta á milli sem féllu beint fyrir fætur samherja.

Svo margt jákvætt kom út úr þessum leik og nú er bara að vona að strákarnir geti endurtekið þetta í næstu leikjum.


mbl.is Gunnleifur: Hangeland er bara skrímsli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hópmálsókn - stórt skref fyrir neytendarétt

Allsherjarnefnd Alþingis hefur lagt fram frumvarp um hópmálsókn.  Er þetta ánægjulegt skref, þó seint sé, og mun gjörbreyta allri baráttu vegna brota öflugra aðila gegn einstaklingum.  Leiðin sem valin er að stofnað er málsóknarfélag sem aðilar með líkar kröfur gegn sama aðila geta gengið í.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa barist fyrir réttinum til hópmálsókna frá stofnun samtakanna.  Samtökin hafa á undanförnum mánuðum lagt mikla áherslu á að þessi málsmeðferð verði gerð möguleg.  Nú er bara að vona, að frumvarpið fái afgreiðslu á yfirstandandi þingi og verði ekki svæft í nefnd.

Réttarbótin, sem felst í frumvarpinu, er gríðarlega mikilvæg.  Oft eru einstaklingar í þeirri stöðu að þegar brotið er á rétti þeirra, þá svarar það ekki kostnaði að leita réttar síns.  Hugsanlega hafa fyrirtæki og hið opinbera því komist upp með lögbrotin.  Í öðrum tilfellum hafa verið höfðuð prófmál, en í slíkum tilfellum er mikill vandi að velja rétta málið.  Verði frumvarpið að lögum, þá breytist þetta.  Margir einstaklingar í sambærilegum aðstæðum geta safnast saman um málsókn gegn lögbroti, sem hefur hugsanlega ólík áhrif á viðkomandi.  Niðurstöður slíkra mála hafa því að öllum líkindum mun víðtækari fordæmisgildi, en búast má við af einu prófmáli.  Gott dæmi um þetta er bílalánamálið, sem tekið verður fyrir í Hæstarétti 6. september nk.  Það mál var handvalið af bílalánafyrirtækinu til að fara fyrir dóm.  Búið var að draga málið til baka áður en Hæstiréttur dæmdi gengistrygginguna ólöglega, en Lýsing ákvað að stefna því aftur í staðinn fyrir að velja mál sem ekki hafði verið dregið til baka.  Fyrirtækið vissi því áður en málinu var stefnt aftur hvaða lögmaður færi líklegast með málið.  Segja má því að fyrirtækið hafi ekki bara valið mál sem hentaði heldur einnig verjanda.  Ef lög um hópmálsókn hefðu verið til í íslenskum lögum, þá hefði þetta vissulega verið hægt, en líklegast hefðu margir lántakar hjá Lýsingu verið fyrir löngu búnir að sameinast um málsókn.  Í slíkri málsókn væri tekið á fjölbreyttari málsforsendum og líklegast kæmu margir lögfræðingar að málinu af hálfu sóknaraðila (lántakanna).  Dómsniðurstaðan þyrfti því að taka tillit til fjölbreytileika málanna.

Annars er það mál út af fyrir sig hvernig Lýsing handvaldi það mál sem stefnt var fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í júlí og dæmt var í 23. júlí sl.  Efast ég stórlega um að það standist að sóknaraðili geti valið mál og verjanda eins og þar var gert, svo hægt væri að fá fordæmisgefandi niðurstöðu í jafn mikilvægu atriði.  Skiptir þá í mínum huga engu máli hver niðurstaða Hæstaréttar verður.  Málið var handvalið af aðila, sem veitt hefur lán með ólöglegri gengistryggingu, og mér finnst ekki ólíkt (án þess að ég fullyrði það) að þetta tiltekna mál hafi verið valið, vegna þess að líklegra þótti að niðurstaðan yrði sóknaraðila hagstæð, annað hvort vegna þess hvernig þetta mál var búið eða vegna þess að verjandinn hafi verið talinn veikari en verjandi í öðru máli.  (Raunar hef ég heyrt af því að lögmaður Lýsingar hafi valið þetta tiltekna mál, vegna þess að hann vildi alls ekki mæta "þessum leiðinlega Birni Þorra" í réttarsalnum enn einu sinni.  Hvort það er svo rétt, veit ég ekki.)


mbl.is Frumvarp um hópmálssókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona líka algjör viðsnúningur

Mælarnir sem Jóhanna les af mæla greinilega ákaflega jákvæðar stærðir.  Rétt er að hagvöxtur mældist á fyrri hluta ársins, að verðbólgan hefur minnkað, atvinnuleysi dregist saman, gengið styrkst og stýrivextir hafi lækkað.  En mæla þessir mælar hve margar íbúðir hafa færst frá heimilunum til lánadrottna, hve margar eignir bíða uppboðs, hve margir eru búnir að vera atvinnulausir í meira en ár, hve mörg fyrirtæki eru komin í gjörgæslu bankanna, skuldastöðu atvinnulífsins og sveitarfélaga?  Það er lítill vandi að greina frá því sem birtist á jákvæðu mælunum, en sleppa því að tala um hina.

Tökum gengið.   Gengisvísitalan stendur á þessari stundu í tæplega 208 stigum.  Samkvæmt upplýsingum á vef Seðlabankans þá er það um 25-30% yfir því sem kalla má jafnvægisgengi, þ.e. gengið þarf annað tveggja að styrkjast um 25-30% á næstu mánuðum eða verðbólga að vera 25-30% til að jafnvægi náist.  Meðan þetta jafnvægi næst ekki, þá munu fyrirtækin í landinu búa við mikið misvægi, sbr. vanda Orkuveitu Reykjavíkur.  Í þessu umhverfi er Seðlabankinn byrjaður eða ætlar að byrja að kaupa gjaldeyri.  Slík kaup munu óhjákvæmilega leiða til veikingar krónunnar.

Skuldastaða heimilanna er annað mál sem komið er í algjöran hnút.  Þeir sem gátu og vildu byrjuðu á haustmánuðum 2008 að taka út séreignarsparnað til að standa í skilum.  Margir eru búnir að taka út þann sparnað sem þeim var heimilt að taka út.  Á sama tíma nýtti fólk sér frestanir og frystingar, en sá tími er líka á enda.  Nauðungarsölur eru byrjaðar og fjölmargar fjölskyldur munu missa heimilið sitt á næstu vikum og mánuðum.  Þrátt fyrir mjög afdráttarlausa dóma Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar halda fjármálafyrirtæki áfram að innheimta lán eins og dómarnir hefi ekki fallið.

Ég held að Jóhanna ætti að fara að tala við almenning í landinu, ekki sérvalda einstaklinga og embættismenn, heldur fólkið sem er að berjast í bökkum.  Hún ætti líka að tala við almenna atvinnurekendur.  Ástandið fer versnandi, þó einhverjar hagtölur séu jákvæðar.  Bankarnir eru hættir að tilkynna um vanskil, vegna þess að það hefur ekkert upp á sig.  Kaldhæðnin í þessu er síðan að vegna þess að einn banki er með bakið upp við vegg, þá koma stjórnvöld í veg fyrir að aðrir geti gert vel við viðskiptavini sína.  Meira að segja Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn viðurkennir að ekki hafi verið gengið nógu langt í endurskipulagningu og leiðréttingu skulda.

Örvæntingin í þjóðfélaginu er að aukast.  Sama hvar maður kemur, umræðan er alls staðar sú sama.  Fólk og fyrirtæki eru að bíða eftir alvöru úrræðum.  Þau úrræði sem eru í boði í dag, miða að því að festa í sessi eignaupptökuna sem átti sér stað með stökkbreytingu höfuðstóls lána einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga.  Þeir sem áttu eitthvað fyrir þremur árum, eiga minna en ekki neitt í dag.  Eignir á Íslandi eru að færast úr höndum þinglýstra eigenda í hendur veðkröfuhafa. Tvö til þrjú þúsund milljarðar hafa á síðustu þremur árum færst þannig á milli til innlendra kröfuhafa.  Annað eins til erlendra kröfuhafa.  Og þegar vaknar einhver von um réttlæti í brjósti landsmanna, þá voru Seðlabanki og Fjármálaeftirlit send út af stjórnvöldum til að slökkva þann vonarneista.

Stefna núverandi ríkisstjórnar virðist vera að gera sem flesta eignarlausa.  Að verðlauna fjármálakerfið fyrir að setja þjóðarbúið á hliðina og refsa fórnarlömbum hrunsins.  Fólk er búið að ganga á sparnað sinn í bönkum og séreignarsparnað og næst á að hirða af fólki eignir þess í fasteignum og bílum.  Hvenær ætlar þessi ríkisstjórn að taka stöðu með fólkinu og almennum fyrirtækjum og krefjast þess að bankakerfið skili því til lántaka sem þeim ber?  Hvers bættara verður fjármálakerfið, ef það á allar eignir í landinu?  Hve langt á að ganga í að sökkva fólk og fyrirtæki í skuldafeninu sem fjármálakerfið bjó til með glæpsamlegri fífldirfsku?  Hvers vegna eiga þeir sem sköpuðu vandann að fá til sín allar eignir í landinu og mest allar tekjur landsmanna næstu árin, ef ekki áratugina?  Hvers vegna eiga almenningur og fyrirtæki að líða fyrir afglöp örfárra manna?  Þessum spurningum þurfa Jóhanna og Steingrímur að svara.  Ég er a.m.k. ákaflega hissa á hinni svo nefndu vinstri stjórn sem tekið hefur sér stöðu með auðvaldinu gegn almenningi.

Jóhanna leysti einn vanda í dag.  Hún vék Gylfa Magnússyni úr embætti efnahags- og viðskiptaráðherra til að hlífa Alþingi og þjóðinni við að hlusta á hann snúa sig út úr mismæli sínu, blekkingum og hvernig hann ítrekað hagræddi sannleikanum varðandi vitneskju sína um ólögmæti gengistryggðra lána.  Nú þætti mér vænt um, ef nýr efnahags- og viðskiptaráðherra myndi sjá til þess að Seðlabanki og FME dragi til baka tilmæli sín til fjármálafyrirtækja um að brjóta lög á neytendum.  Hann talaði þannig sem félagsmálaráðherra að fjármálafyrirtækin þyrftu að taka þennan "skell" á sig og núna er hann kominn í þær aðstæður að geta fylgt þeim orðum eftir.


mbl.is Alger viðsnúningur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FME framlengir frest til lögbrota - Bílalánamál fyrir Hæstarétti 6. september

Ég skil ekki tilgang FME með því að lengja frest fjármálafyrirtækja til að brjóta lög.  Þrátt fyrir skýringar Seðlabanka og FME á lagaskilyrðum fyrir því að setja tilmælin, þá féllu þær skýringar um sjálft sig, þegar í ljós kom, að Seðlabankinn hafði komist að þeirri niðurstöðu í maí 2009, að gengistrygging lána væri ólögleg.  Á þeim tíma mátti vera ljós áhrif þessara lána á fjármálastöðugleikann og dómur Hæstaréttar breytti engu um það.  Fyrst Seðlabankinn brást ekki við í maí 2009, þá var nákvæmlega engin ástæða fyrir hann að bregðast við í lok júní 2010.  Ekkert breyttist með dómi Hæstaréttar varðandi skoðun Seðlabankans á lánunum.  Gengistryggingin er ólögmæt, en ennþá er vafi um hvaða lán teljast gengistryggð.

Málin hefðu litið öðruvísi við, ef lögfræðiálitið sem Seðlabankinn hafði undir höndum og minnisblað aðallögfræðings Seðlabankans, Sigríðar Logadóttur, hefðu  ályktað í hina áttina.  Þá hefði dómur Hæstaréttar gengið þvert gegn skoðun Seðlabankans.  En svo var ekki.  Afstaða Seðlabankans til lánanna breyttist því ekkert við dóm Hæstaréttar og mat Seðlabankans á stöðugleika fjármálakerfisins átti því ekki að taka neinum breytingum.  Hafi Seðlabankinn talið að ólögmæti gengistryggingarinnar gæti valið fjármálafyrirtækjum vanda, þá hefði bankinn átt að grípa til ráðstafana strax í maí 2009.  Að hann hafi ekki gert það verður að túlka sem bankinn hafi ekki talið þetta vera vandamál (nema hér hafi verið um afglöp bankans að ræða).  Nú dómar Hæstaréttar tóku ekki á vöxtum lánanna og þar með var þeim ekki breytt hvort sem FME, SÍ eða Gylfa Magnússyni þótti það sanngjarnt eða ekki.  Nýlegt dæmi, þar sem lögreglan varð að skila 1 m.kr. með vöxtum vegna þess að það gleymdist að gera kröfu um það fyrir dómi að gera féð upptækt sýnir að það sem ekki er dæmt um breytist ekki.

Útspili SÍ og FME 30. júní sl. var ætlað það eitt hlutverk að hafa áhrif á niðurstöðu dómstóla og aftur er FME að reyna að hafa áhrif á dómstóla.  Á mánudaginn 6. september kl. 09.00 verður tekið fyrir í dómsal I í Hæstarétti mál Lýsingar gegn Guðlaugi Hafsteini Egilssyni, þ.e. bílalánsdómurinn sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur 23. júlí sl.  Talsmaður neytenda hefur óskað eftir því við Hæstarétt að leitað verði ráðgefandi álits EFTA dómstólsins.  Slíkt gæti talið málið um nokkra mánuði, en í staðinn tryggt að túlkun EFTA dómstólsins á neytendaverndartilskipun ESB liggi fyrir áður en Hæstiréttur fellir sinn dóm.  Eins og flestir vita líklega, þá ákvað héraðsdómari að dæma í samræmi við tilmæli SÍ og FME, þrátt fyrir að langflestum tilfellum þurfi lántakar að greiða háar upphæðir ofan á þegar greiddar afborganir vegna gjalddaga fyrir 1.1.2008.  Telja þeir lögmenn sem ég hef rætt við, slíkt vera skýlaust brot á tölulið c í 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og neytendaverndartilskipun ESB 93/13/EEC.  Það geti ekki staðist, að lántaki sem greitt hefur í samræmi við útsenda greiðsluseðla verði dæmdur hafa vangreitt þá gjalddaga sem um ræðir.  Landsbankanum tókst nú að sýna fram á fáránleika tilmæla SÍ og FME við útsendingu endurútreikninga í ágúst, þar sem í mínu tilfelli, þá skuldaði ég bankanum 161% ofan á þær greiðslur sem ég hafði staðið skilvíslega greiðslur af frá miðju ári 2004 til ársbyrjunar 2008. Hvernig FME og SÍ geta fengið það út að þetta sé sanngjarnt og réttlátt er mér ómögulegt að skilja.

En gat héraðsdómari komist að annarri niðurstöðu en að dæma vexti Seðlabankans?  Já, hann gat gert það, en var ekki í aðstöðu til þess.  Fyrst skulum við horfa til þess, að kröfur og varakröfur málsaðila takmörkuðu möguleika dómarans.  Hugsanlega gerði verjandinn mistök með því að vera ekki með fleiri varakröfur sem buðu upp á að lántaki greiddi hærri vexti, en samningsvexti.  Sækjandi gekk lengst að bjóða vexti samkvæmt tilmælum SÍ og FME.  Þetta varð til þess að stór gap myndaðist milli vægustu krafna/mestu eftirgjafar hvors aðila.  Vissulega fannst mér furðuleg sú afstaða héraðsdómara að dæma lánveitanda forsendubrest, en staðreyndin er einfaldlega sú, að málið var of stórt fyrir héraðsdóm og því var það bara hlutverk dómsins að opna málinu leið til Hæstaréttar.  En aftur að því hvort héraðsdómari hefði getað dæmt annað en vexti Seðlabanka. A.m.k. tvö dómafordæmi eru fyrir því að Hæstiréttur hafi dæmt vexti sem rétturinn ákvað sjálfur að væru sanngjarnir.  Vissulega eru þau dæmi gömul, en það gerir þau hvorki gleymd né grafin.  Bæði málin eru vexti á bætur, þar sem Hæstiréttur ákvað að viðmiðunarvextir væru ósanngjarnir.  Í raun sams konar deila og vextir áður gengistryggðra lána snúast um.

En hvað er sanngjarnt varðandi gengistryggð lán?  Höfum fyrst í huga að sanngirni gengur í báðar áttir.  Hafi lánþegi óskað eftir að njóta sanngirni, þegar innheimtur voru í gangi, þá verður hann að vera tilbúinn til að þiggja/veita þá sanngirni í dag, þó staðan hafi hugsanlega breyst honum í hag.  Vandamálið er að dómstólar eiga ekki að dæma um sanngirni, þeir eiga að dæma um réttlæti.  Kröfur málsaðila þurfa því að byggðar á lagalegum grunni.  Niðurstaðan gæti því endað í ökla eða eyra eftir því hve vel lögmönnum tekst að sannfæra réttinn.  En víkjum frá lagalegum rökum og förum yfir í staðreyndir málsins:

  • Samningar voru gerðir í frekar stöðugu umhverfi og þó krónan hefði sveiflast talsvert, þá tóku sveiflurnar fljótt af.
  • Eigendur Lýsingar tóku mjög grófa stöðu gegn krónunni og stuðluðu þannig í reynd að hruni hennar eftir að hafa lánað út gríðarlega háar upphæðir í gengistryggðum lánum.
  • Ekkert bendir til þess að undirliggjandi fjármögnun Lýsingar hefi verið í erlendum gjaldmiðlum
  • Lánin voru veitt með milligöngu ófaglærðs einstaklings,s en hafði ekki kunnáttu til að leiðbeina lántaka um innihald og ákvæði lánasamningsins og hefði því í raun aldrei átt að hafa milligöngu um lánið.  Efast má um réttindi bílasala til að hafa þessa milligöngu og hvort það hafi verið í samræmi við starfsleyfi Lýsingar.
  • Gengistryggð lán stuðluðu að aukinni verðbólgu og Seðlabankinn hækkaði því vexti sína verulega til að vinna gegn verðbólgunni sem lánin m.a. voru völd af.
  • Ekki er sannað að lántaki hefði tekið lánið, ef honum hefðu bara staðið til boða óverðtryggt lán sem Lýsing bauð upp á.
Hvernig er hægt að leysa þetta mál þannig að allir gangi sæmilega sáttir frá borði?  Það verður ekki gert með milligöngu dómstóla.  Svo mikið er víst.  Það er ekki hlutverk dómstóla að miðla málum heldur túlka lög.  Eðlilegasta lausnin er fjármálafyrirtæki og lántakar setjist niður og leysi málin í sameiningu.
mbl.is Fjármálafyrirtæki fá lengri frest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurskipulagning og leiðrétting/niðurfelling skulda þarf að verða alls staðar

Sama er hvar litið er til í íslensku efnahagslífi, alls staðar blasa við sömu staðreyndir.  Yfirskuldsetning vegna falls krónunnar og yfir 50% verðbólgu síðustu ára er að kafsigla öllu.  Bæjarfélög eru á heljarþröm, orkufyrirtæki eru sokkin í hyldýpi skulda, rekstrarfyrirtæki eru skuldsett upp í rjáfur og heimilin sjá ekki til sólar vegna himin hárra lána.  Hvenær ætla stjórnvöld og fjármálakerfið að átta sig á því að aðeins eitt er til ráða.  Fara þarf í gagngera og róttæka endurskipulagningu, leiðréttingu og niðurfellingu skulda.

Veruleikinn er grákaldur fyrir Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjanesbæ.  Báðir aðilar tóku þátt í stóriðjuævintýri sem virðist ekki hafa góðan endi.  Hvað er til ráða?  Annar aðilinn vill hækka gjaldskrá og varpa skuldunum yfir á saklausa almenna viðskiptavini fyrirtækisins, hinn heldur á í höndunum skuldabréf sem kann að vera verðlaust og á því þann kost einan að auka álögur á íbúa sveitarfélagsins sem berjast við mesta atvinnuleysi á landinu.  En álögur verða ekki auknar endalaust, auk þess sem Orkuveita Reykjavíkur getur líklegast ekki lögum samkvæmt varpað þessum byrðum yfir á almenna orkukaupendur.

Hvað er þá til ráða?  Svarið er það sama alls staðar:  Stilla þarf skuldum í viðráðanlegt horf og annað hvort geyma það sem umfram er þar til betur árar hjá viðkomandi skuldurum eða fá skuldirnar felldar niður.  Íslenskt hagkerfi er of skuldsett sem nemur fleiri þúsund milljörðum.  Þó svo að við sleppum skuldum hrunsbankanna, þá eru þær skuldir sem eftir eru einfaldlega of miklar.  Fjármálafyrirtæki, hvorki innlend né erlend, munu hagnast á því að yfirtaka skuldsettar eignir.  Reykjanesbær getur ekki sameinast öðru bæjarfélagi og þannig komist undan skuldum sínum.  Ekkert annað bæjarfélag mun vilja taka við þeim eiturbikar sem skuldastaða þeirra suður með sjó er.  Fyrir utan að 20-30 sveitarfélög eru í viðlíka vanda.  Hvaða gagn er að vara sveitarfélög við vanda sem þau bæði vita af og sjá ekki fram úr að geta leyst?

Stjórnvöld verða að taka af skarið.  Þau verða að fá fjármálafyrirtæki hér innanlands og utan til að taka þátt í alsherjar endurskipulagningu skulda heimilanna, fyrirtækja og sveitarfélaga.  Ef þessir aðilar eru ekki tilbúnir í slíkt, þá verður einfaldlega að setja lög sem verja lántakendur fyrir því að gengið sé að eigum þeirra meðan þeir eru að vinna sig út úr vandanum.  Best er að lánadrottnar sýni lántakendum sínum skilning og taki þátt í endurskipulagningunni.  Nauðsynlegt verður að afskrifa háar upphæðir, en þær eru mjög oft hvort eð er tapaðar eða að viðkomandi fjármálastofnun tók þær yfir á mun lægra bókfærðu virði, en krafan hljóðar sem verið er að innheimta.

Ég talaði fyrir því strax 30. september 2008, að nauðsynlegt væri að skipta skuldum lántakenda (þá horfði ég fyrst og fremst til heimilanna, en sá fyrir mér að fyrirtæki og sveitarfélög væru í svipaðri stöðu) upp í "viðráðanlegar" skuldir og síðan þær sem væru "óviðráðanlegar".  Lánadrottnar yrðu að sætta sig við að innheimta "viðráðanlegu" skuldirnar, en frysta þær sem væru "óviðráðanlegar".   Ég held að ég hafi haft rétt fyrir mér og mér sýnist einmitt staða Reykjanesbæjar, Álftaness og Orkuveitu Reykjavíkur ber þess skýr merki.

En hvenær voru skuldir "viðráðanlegar" og hve lengi þarf að geyma hinar "óviðráðanlegu"?  Við viljum halda að skuldir hafi verið viðráðanlegar í upphafi árs 2008.  Að minnsta kosti voru lántakar almennt ekki farnir að æmta undan skuldabyrðinni þá.  Frá þeim tíma hafa verðtryggðar skuldir hækkað um tæp 30% og gengistryggðar og skuldir í erlendum gjaldmiðlum hafa hækkað að meðaltali um 75% og allt að 152% séu lánin í jenum.  Ekki þarf snilling til að sjá, að erfitt er að ráða við svona stökkbreytingu skulda.

Ekki er þó sanngjarnt að sleppa lántökum við alla hækkunina sem orðið hefur og þess vegna verður að finna einhverja sanngjarna niðurstöðu.  Vil ég í því samhengi benda á tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna, sem lagt hafa til að sett verði 4% þak á árlegar verðbætur og að gengistryggð lán og lán í erlendum gjaldmiðlum yrðu færð yfir í verðtryggð lán miðað við stöðu þeirra 1.1.2008 og fengju því 4% þakið á sig frá þeim tíma.  Hvort erlendir lánadrottnar væru tilbúnir að fallast á þetta er ólíklegt, en því ekki prófa.  Ástandið fer stig versnandi.  Fleiri og fleiri heimili, fyrirtæki og sveitarfélög eru að komast í óviðráðanlegan vanda og voru nógu margir fyrir í þeim hópi.  Álögur verða ekki auknar og ekki verður hægt að láta lífeyrissjóðina hlaupa alls staðar undir bagga.

Satt best að segja, þá sé ég ekki margar leiðir út úr þessum vanda.  Einn er að innlendir og erlendir lánadrottnar taki yfir allar þær eignir sem þeir eiga veð í og eignist stóran hluta eigna í landinu.  Annar er að lífeyrissjóðirnir gerist björgunarsjóður Íslands, sem er í reynd óbein þjóðnýting á lífeyrissjóðunum eða a.m.k. hluta eigna þeirra.  Einstaklingum, fyrirtækjum og sveitarfélögum verði gefinn kostur á mjög ódýrum lánum (og afborgunarlausum til margra ára) frá lífeyrissjóðunum fyrir hinum "óviðráðanlega" hluta lána sinna, en héldu áfram að greiða af "viðráðanlega" hluta lánanna.  Þriðji kostur og sá sem ég held að sé óumflýjanlegur, er að innlendir og erlendir lánadrottnar taki á virkan hátt þátt í endurreisn hagkerfisins með því ýmist að fella niður eða frysta á lágum eða engum vöxtum hinn stökkbreytta hluta lána heimilanna, fyrirtækja og sveitarfélaga.

Spilaborg hins íslenska efnahagsundurs hrundi í októberbyrjun 2008.  Líkja má afleiðingunum við að íslenskt efnahagslíf hafi lent undir þykkri aurskriðu.  Við höfum verið að vinna okkur í gegnum skriðuna og reynt að bjarga því sem bjargað verður.  Eftir því sem við komumst neðar í skriðuna, sjáum við betur hve tjónið er mikið.  Það, sem virtist heilt, er meira að segja stórlega skaddað og geta okkar til að endurreisa það sem sópaðist í burtu er takmörkuð.  Nýtt upphaf verður ekki nema skuldir verði stilltar af þannig að fólk og fyrirtæki geti skilað af sér sköttum og arði til samfélagsins.  Eins og staðan er, vantar bæði getuna og hvatann.  Hvaða tilgangur er að greiða af lánum, þegar ekki sér högg á vatni?  Hvaða framtíð býður þetta þjóðfélag upp á, ef álögur á fólk og fyrirtæki eru svo þungar að enginn stendur undir þeim?  Mér sýnist því miður, sem óveðursskýin séu enn og aftur að hrannast upp við sjóndeildarhringinn og munu koma í veg fyrir að geislar vonarglætunnar berist til okkar.


mbl.is Óvissa um eignina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband