Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010
4.6.2010 | 15:04
Umræða um persónukjör á villigötum
Ég verð að taka undir með Þór Saari, að þessi umræða um persónukjör er komin út í algjöra vitleysu. Snýst þetta virkilega um kynjamál, en ekki lýðræði. Það er minn lýðræðislegi réttur í dag að stroka út alla karla eða allar konur af þeim lista sem ég kýs. Ekki eru nein lög sem banna það. Af hverju halda femínistar að persónukjör verði konum óhagstætt? Hefur hrunið ekki einmitt sýnt að karlar eru mun duglegri við að koma sér í vafasama stöðu.
Mér finnst að kosningar eigi að snúast um að velja hæfustu einstaklingana, þ.e. horfa til þess sem fólk hefur milli eyrnanna, en ekki fótanna. Með fullri virðingu fyrir jafnréttissjónarmiðum, þá er lýðræðið æðra síðast þegar ég vissi. Ef skikka á fólk til að velja jafnmarga af hvoru kyni, þá er ekki lengur um lýðræðislegt val að ræða.
Persónukjör á að snúast um að hægt sé að velja hvaða frambjóðanda sem er af hvaða lista sem er. Hver kjósandi á að fá eitt atkvæði og síðan ræður hann hvort hann setur atkvæðið á einn lista í heild, dreifir því á fleiri lista eða velur einstakling(a) af einum eða fleiri listum. Atkvæði (í heild eða brotum) gefið lista eða einstaklingi á lista telur fyrir viðkomandi lista. Síðan ræðst röð einstaklinga innan listans af þeim atkvæðum sem einstaklingarnir fá. Áfram er ákveðið á svipaðan hátt og nú hvað hver listi fær marga menn kjörna í hverju kjördæmi. Frambjóðendur fá síðan kosningu eftir atkvæðaröð þeirra. Atkvæði greitt lista eingöngu, en ekki einstaklingi getur annað hvort fallið á einstaklinga eftir röð sem listinn ákveður eða telur ekki þegar kemur að því að raða einstaklingum innan listans, sem er líklegast réttlátari leið.
Ég tek það fram, að ég er sterkur jafnréttissinni en það er ekki alltaf hægt að horfa á allt í gegn um kynjagleraugu. Eina leiðin til þess er að hvert atkvæði væri tvískipt, þ.e. karlaatkvæði og kvennaatkvæði. Þannig fengju karlar alltaf helming atkvæðanna, líka frá femínistunum í VG, og konur alltaf helming, líka frá karlrembum Sjálfstæðisflokksins. Slíkt á samt ekkert skylt við lýðræði. Höfum það á hreinu.
Annars er þetta frumvarp um persónukjör handónýtt eins og ég skil það. Persónukjör á ekki að snúast um að flokkarnir geti flutt prófkjörin sín inn í kjörklefa alþingis- eða sveitastjórnarkosninga. Það á að snúast um að ég sem kjósandi geti valið þá sem ég treysti best til verksins, hvar sem viðkomandi er í flokki. Það er persónukjör, hitt er hefðbundin kosning með prófkjöri og er engin breyting frá því sem núverandi kosningalög leyfa, ef nógu margir kjósendur viðkomandi flokks eru tilbúnir að taka þátt í því. Samkvæmt núgildandi kosningalögum get ég endurraðað á lista þess flokks sem ég kýs. Eins og ég skil frumvarpið, þá er þetta enn ein aðferð flokkanna til að ráðskast með kjósendur og ríghalda í völdin. Flokkarnir óttast að missa völdin til fólksins. Með þessu frumvarpi er líka verið að gefa lýðræðisumbótum langt nef. Vonandi hafa kosningarnar um síðustu helgi bent forystusauðum stjórnflokkanna á, að eina leiðin fyrir þau til að komast inn á þing eftir næstu þingkosningar er að kjósendur geti valið frambjóðendur þvert á lista.
![]() |
Lýðræðistal hjóm eitt" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Í Morgunblaðinu í dag (fimmtudag) er rætt við formenn þingflokkanna og síðan Þór Saari og þeir spurðir hvaða verkefni séu mikilvægust það sem eftirlifir þings. Mig langar að vekja athygli á svari Gunnars Braga Sveinssonar, þingflokksformanns Framsóknarflokksins:
"Það sem mestu máli skiptir er að ná fram frumvarpi sem Eygló Harðardóttir flytur um vexti og verðtryggingu," segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknar. Í frumvarpinu felast breytingar á ákvörðun vaxta og hömlur á verðtryggingu lána og sparifjár.
"Hugmyndin er að menn nái tökum á þeirri verðbólgu sem nú er og megininntakið er að menn hætti að nota verðtrygginguna eins frjálslega og gert hefur verið," segir Gunnar Bragi.
Ég held ég geti ekki verið meira sammála nokkrum þingmanna á þessari stundu. Krafan um 4% þak á verðbætur húsnæðislána er kjarninn í kröfum Hagsmunasamtaka heimilanna. Samtökin vilja að þetta þak sé afturvirkt til 1.1.2008 og verði notað til að leiðrétta forsendubrestinn sem orðið hefur á verðtryggðum húsnæðislánum heimilanna. Auk þess sjá samtökin ýmsa kosti við það að setja svona þak.
Fjármálafyrirtæki og fjármagnseigendur hafa alla tíð verið nokkuð stikkfrí í baráttunni fyrir stöðugleika. Ástæðuna má rekja til þess að þessir aðilar hafa fengið stóran hluta verðbólgutjóns síns bætt strax í formi verðbóta á verðtryggðar eignir sínar. Hagsmunasamtök heimilanna sjá fyrir sér að með 4% þaki á árlegar verðbætur vegna verðtryggingarákvæða, þá muni þessi hópur, þ.e. fjármálafyrirtæki og fjármagnseigendur, sjá hag sínum best borgið með því að halda verðbólgu lágri. Það er nefnilega þannig, að sé verðbólga undir 4%, þá eru fjármálafyrirtækin og fjármagnseigendur ekki að tapa neinu á þakinu.
Mér finnst það alvarlegur hlutur, að viðskiptanefnd hefur ekki tekið frumvarp Eyglóar Harðardóttur til efnislegrar umræðu. Frumvarpið var lagt fram snemma á haustþingi, en síðan hefur ekkert verið gert. Vissulega var haldinn opinn fundur um verðtrygginguna um miðjan maí, en það er bara ekki nóg. Vil ég sjá frumvarp Eyglóar fara í gegn áður en þing fer í sumarfrí.
Maður getur ekki annað en velt því fyrir sér hvort frumvarpið væri komið lengra í umræðunni, ef flutningamaðurinn væri vinstra megin við miðju. Sé það ástæðan, þá held ég að niðurstöður sveitastjórnarkosninganna ættu að vera næg áminning fyrir stjórnvöld að almenningu vill ný vinnubrögð. Vinnubrögð þar sem málefnin eru í fyrirrúmi, en ekki hver átti hugmyndina. Bara svo það sé á hreinu, þá áttu Hagsmunasamtök heimilanna hugmyndina að þakinu og er samtökunum alveg sama um það hverjir það eru inni á þingi sem koma tillögum þeirra á framfæri.
Nú hefur seðlabankastjóri, Már Guðmundsson, sagt að gjaldeyrishöftum verði líklegast aflétt eftir þriðju endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlun sjóðsins og íslenskra stjórnvalda. Reikna má með því að krónan taki dýfu, þegar höftin verða afnumin. Slík dýfa mun hafa í för með sér, a.m.k. tímabundna hækkun innfluttrar vöru með tilheyrandi hækkun vísitölu neysluverðs. Við vitum öll hvaða áhrif það hefur á verðtryggð lán. Með því að setja á 4% þak á árlegar verðbætur, þá fer þessi aðgerð Seðlabankans ekki verðtryggð húsnæðislán landsmanna. Komið verður í veg fyrir frekari samdrátt í neyslu og þar með skatttekna ríkisins. Komið verður í veg fyrir að eigið fé húsnæðiseigenda rýrni meira en þegar er gert. Með því að hafa þetta þak síðan afturvirkt til 1.1.2008, þá fá húsnæðiseigendur jafnframt bættan forsendubrest lánanna.
Byrjum á því að fá þak á framtíðar verðbætur húsnæðislána og notum það til að breyta lánakerfinu og jafnframt koma á stöðugleika í þjóðfélaginu. Það er fullreynt að ná þessum breytingum fram að frumkvæði fjármálafyrirtækjanna og því verður löggjafinn að grípa inn í. Einhverjir munu berjast um á hæl og hnakka, en með fullri virðingu, þá er engin skynsemi í því að ríghalda í núverandi verðtryggingarkerfi. Það hefur reynst illa, svo einfalt er það, fyrir alla nema þá sem eru með peningana sína verðtryggða einhvers staðar. Sjálfur togast ég á milli þess hvort sé betra að afnema verðtryggingu með öllu á húsnæðislánum eða innleiða svona þak. Ef þetta þak er rétt stillt og lækkar síðan samhliða auknum stöðugleika, þá hallast ég á að það gæti verið alveg jafn góð lausn og afnema verðtrygginguna með öllu. En hvor leiðin sem farin er, þá verður að tryggja, að fjármálastofnanir hækki ekki vexti lánanna upp úr öllu valdi í staðinn. Það væru hin dæmigerðu viðbrögð fjármálafyrirtækjanna. Ég vil ekki gera fyrirtækjunum upp viðbrögð og kannski, já kannski, eru renna upp nýir tímar með nýjum skipstjórum. Þar til annað kemur í ljós, þá ætla ég að reikna með því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.6.2010 | 23:44
Skýrsla Seðlabankans vanmetur erfiðleika heimilanna
12. apríl sl. hélt Seðlabankinn málstofu, þar sem hagfærðignar hans kynntu þær niðurstöður, en hér eru kynntar. Þá viðurkenndi Þorvarður Tjörvi Ólafsson, annar höfunda rannsóknar Seðlabankans að ýmislegt vantaði í tölurnar. Hér fyrir neðan er færsla sem ég skrifaði daginn eftir. Einnig hef ég endurbirt færslu sem ég skrifaði þann sama dag og má finna hana hér: Staða heimilanna er mjög alvarleg.
13.4.2010 | 11:58
Stórfréttin sem hvarf - Um helmingur heimila nær varla endum saman
Mig langar að vekja aftur athygli á niðurstöðum rannsóknar Seðlabanka Íslands á skuldavanda heimilanna. Ég skrifaði færslu um þetta í gær, Allt að helmingur heimila nær ekki endum saman með tekjum, en hún hefur nákvæmlega enga athygli vakið. Allt tal snýst um Skýrsluna, sem gerir lítið annað en að staðfesta það sem hafði komið fram.
Hér eru nokkur atriði úr færslunni minni frá því í gær:
- 34,5 % heimila ná, miðað við naumhyggjuframfærsluviðmið, varla endum saman um hver mánaðarmót. Miðað við eðlilega framfærslu hækkar þessi tala í allt að 60%.
- Hátt í 40% heimila (eða 28 þús. heimili) voru í febrúar á þessu ári í neikvæðri eiginfjárstöðu í húsnæði. Þegar eingöngu er litið til ungs barnafólks (þ.e. elsti heimilismaður er innan fertugs), þá hækkar þessi tala í 60%.
- 80% þeirra sem eru með ráðstöfunartekjur undir 150 þús. kr. á mánuði eru í það miklum vanda að frekari úrræða er þörf og 30% þeirra sem eru með ráðstöfunartekjur á bilinu 150 - 250 þús. kr. Aftur skal hafa í huga að miðað er við naumhyggjuframfærsluviðmið.
- A.m.k. 35% einstæðra forelda og 27% hjóna með börn þurfa frekari úrræði (báðir hópar líklega mun stærri, þar sem framfærsluviðmið SÍ eru kolröng).
- Úrræði sem boðið hefur verið upp á hafa lítið slegið á vanda þeirra verst settu. Í þeim hópi hefur eingöngu fækkað úr 26,1% heimila í 21,8% miðað við naumhyggjuframfærsluviðmiðin.
Það var kannski markmið Seðlabankans og stjórnvalda að boða þessar slæmu fréttir þegar athygli fjölmiðla og almennings var annars staðar. A.m.k. tókst þeim vel upp í því að beina kastljósinu annað. Ég auglýsi aftur á móti eftir ábyrgum fjölmiðlamönnum, sem vilja taka þetta mál upp.
![]() |
Staða heimilanna afar slæm |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2010 | 23:35
Staða heimilanna er mjög alvarleg
Þær tölur sem Seðlabankinn birtir í riti sínu Fjármálastöðugleika voru birtar 12. apríl sl. Þann dag var einnig birt skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis og hurfu því þessar upplýsingar í þeirri flóðbylgju frétta sem þeirri skýrslu fylgdu. Vil ég því endurbirta færslu mína frá því þennan sama dag.
12.4.2010 | 22:20
Allt að helmingur heimila nær ekki endum saman með tekjum
Í skjóli birtingar skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis voru birtar ekki síður merkilegar upplýsingar í málstofu Seðlabanka Íslands. Málstofan var undir heitinu "Hvernig hefur staða heimilanna breyst á undanförnum misserum og hverju fá aðgerðir í þágu heimila áorkað?". Þar voru birtar niðurstöður rannsóknar tveggja hagfræðinga Seðlabankans, Karenar Á Vignisdóttur og Þorvarðar Tjörva Ólafssonar, á gögnum úr bankakerfinu, tekjuupplýsingar og fleira varðandi afkomu heimilanna.
Niðurstöður Karenar og Tjörva eru að mjög forvitnilegar og er ferlegt að þær munu núna drukkna í uppfjöllun um Skýrsluna. Mig langar hér að skoða forsendur og helstu niðurstöður og koma loks með mína túlkun á öllu.
Tilgangur og forsendur
Tilgangur rannsóknar Seðlabanka Íslands var að leggja mat á getu íslenskra heimila til að standa undir aukinni greiðslubyrði við skilyrði minnkandi tekna og atvinnu.
Skoðuð var greiðslubyrði allra lána heimilanna nema námslána. Þar sem námslánin vantar eru afborganir lána líklegast vanmetnar um 20 - 40 þúsund á mánuði á heimili, þar sem tveir fullorðnir eru að greiða af námslánum. Tekið var tillit til frystinga lána og úrræða sem þegar hefur verið boðið upp á. Á tekjuhliðinni eru allar tekjur taldar til, sem á annað borð eru þekktar, þar með talið vaxtabætur og barnabætur. Á framfærsluhliðinni er notast við naumhyggjuframfærsluviðmið Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, en þau viðmið eru langt undir tölum Hagstofunnar um meðalframfærslu hvers viðmiðunarhóps fyrir sig. Þannig er í tölu Ráðgjafarstofunnar gert ráð fyrir að hjón með tvö framfleyti fjölskyldunni með 153.500 á mánuði fyrir utan rekstur bifreiðar, síma, áskrifta, fasteignagjalda, trygginga og dagvistar. Forstöðukona Ráðgjafarstofunnar greindi frá því á málstofunni, að Ráðgjafastofan notaði eingöngu þetta viðmið vegna þess að ekkert annað stæði til boða. Ráðgjafastofan teldi þetta viðmið vera algjör neyðarframfærsla, mjög þröngt sniðin, og ekki ætluð til nema fárra ára. Samkvæmt upplýsingum frá Arion banka, Landsbanka og Íslandsbanka nota allir þrír mun hærri framfærsluviðmið og nýlegu frumvarpi um greiðsluaðlögun einstaklinga er gert ráð fyrir "eðlilegri" framfærslu. Þorvarður Tjörvi viðurkenndi að viðmið Seðlabankans væru líklega 50 - 100 þúsund kr. of lág á mánuði. Á hinn bóginn væri ekki reiknað með úttöku séreignarsparnaðar, sem hagfræðingar Seðlabankans töldu sem sjálfsagða leið til að mæta útgjöldum heimilisins. En þetta eru forsendurnar, þá eru það niðurstöðurnar.
Framfærsla og greiðslugeta
Gerður er ítarlegur útreikningur á greiðslugetu heimilanna. Áður en ég fer ofan í þá útreikninga vil ég skoða tvær myndir:
(Til að sjá myndina í betri gæðum er smellt á hana og síðan aftur á myndina sem þá birtist.)
Þegar þessar myndir eru skoðaðar, þá sést á þeirri fyrri, að Seðlabankinn metur að 14% heimila nái ekki endum saman, 8% heimilanna eigi 0 - 50 þús. kr. í afgang í hverjum mánuði, 13% eigi 50 - 100 þús. kr. í afgang í hverjum mánuði og 66% eigi meira en 100 þús. kr. í afgang. En höfum í huga að þarna er miðað við naumhyggjuframfærslu og námslán vantar. Vissulega telur SÍ að hjón með börn þurfi 100 þúsund kr. til viðbótar á mánuði og aðrir 50 þús. kr. og bæta síðan við kostnaði við rekstur bifreiðar. Er það mat mitt, að þarna vanti umtalsvert meira inn í framfærslukostnað heimilanna. Svo tekið sé mið af tölum Hagstofunnar, þá vantar líklegast 50 þúsund kr. hjá þeim heimilum, þar sem ekki eru börn og a.m.k. 100 þús. kr. þar sem börn eru. Auk þess vantar 20 - 40 þúsund kr. vegna afborgana námslána. Ef við skoðum neðri myndina, þá sést að SÍ metur að 34,5% heimila annað hvort nái ekki endum saman eða eigi allt að 100 þúsund kr. í afgang. Er það mitt mat, að allur þessi afgangur fari í þau föstu útgjöld sem áður hafa verið nefnd, en þá vantar að leiðrétta grunnframfærsluna og bæta við námslánunum. Mér sýnist sem bæta megi góðum hluta af þeim 25,6% sem eru í súlunum 100-150 þ.kr./mán. í afgang og 150-200 þ.kr./mán. í afgang. Bæti ég tölunni í heild, fæ ég 60,1%, en sé hjónum á barna og einstaklingum sleppt, þá fæ ég 42,9%.
Nú mótmælir einhver og segir að fólk sé að nota séreignasparnað. Fyrst skal nefna, að séreignasparnaður telst seint til tekna, heldur er hann sparnaður. Þeir sem eru að taka út séreignarsparnaðinn eru að ganga á sparnað sem ætlað var að nota þegar fólk væri komið á eftirlaun. Það er hreint og beint lúalegt að etja fólki út í það að nýta hann núna til að borga fyrir sukk bankamanna.
Ég vil taka það fram, að tölur Seðlabankans eru mun betur unnar núna en í síðustu tvö skipti. Hefur verið tekið tillit til margs konar gagnrýni, sem kom fram (m.a. frá mér) á fyrri framsetningu. Einnig er meira lagt í að fullvinna gögnin.
Eiginfjárstaða
Hagfræðingar Seðlabankans meta eiginfjárstöðu heimilanna og eru þær niðurstöður vægast sagt áhugaverðar. Eðlilegt er að nefna forsendur SÍ, en í fyrsta lagi notað fasteignamat frá desember 2008, virði eigna er látið þróast í takt við þróun íbúðarverðs (sem verður að teljast vafasamt)og tekin eru öll lán með veði í húsnæði alls að verðmæti 1.510 milljarðar kr. Frumniðurstöður SÍ eru að í janúar 2008 hafi 11% heimila verið í neikvæðri eiginfjárstöðu í húsnæði. Þetta hlutfall stóð í 20% í október 2008, en er komið í 38-39% í febrúar á þessu ári. Um 28 þúsund heimili voru í febrúar á þessu ári í neikvæðri eiginfjárstöðu í húsnæði. Seðlabankinn skoðar hvernig þetta er eftir myntsamsetningu lánanna og þar kemur í ljós að 36% heimila með lán eingöngu í íslenskum krónum eru í neikvæðri eiginfjárstöðu í húsnæði, 47% sem eru bara með gengistryggð lán og 57% þeirra sem voru með blönduð lán. Verst er þó staða ungs barnafólks (skýrt sem barnafólk, þar sem allt heimilisfólk er yngra 40 ára). Meðal þessa hóps er 65% heimila með neikvæða eiginfjárstöðu í húsnæði. Þetta verður ekki lagað með því að laga greiðsluaðlögunina eða sérstæka skuldaaðlögun.
Þeir sem þurfa frekari úrræði
Seðlabankinn leggur síðan mat á það hverjir þurfa frekari úrræði/aðgerðir. Í glærum bankans segir:
- Það er ekki einsýnt hvernig skuli meta hvaða heimili eru í vanda við að standa undir greiðslubyrði lána og framfærslu.
- Sé tekið mið af niðurstöðunum hér að framan og þau heimilin tekin út sem ná ekki endum saman eða eru á mörkum þess að geta staðið undir greiðslum og framfærslu fæst hópur heimila sem telur tæp 24 þúsund heimili sem er líklegur til að þurfa á frekari aðgerðum að halda.
Niðurstöðurnar eru teknar saman á eftirfarandi mynd:
Og þegar þetta er skoðað eftir búsetu, þá kemur í ljós að verst er staðan á Reykjanesi, þar sem 31% heimila eru í vanda, 28% á Suðurlandi og 24% þeirra sem eru á"ytri hring" höfuðborgarsvæðisins.
Ef þetta er skoðað eftir aldri elsta fjölskyldumeðlims, þá er 47% innan yngsta hópsins (18-24 ára) í vanda, 32% í hópi 24-29 ára, 26% í hópi 30 - 39 ára, 23% í hópi 40 - 49 ára, 19% í hópi 50 - 59 ára, 16% í hópi 60 - 69 ára og loks 13% í hópi 70 ára og eldri.
Sé þetta skoðað eftir fjölskyldugerð, þá er 25% einhleypinga í vanda, 35% einstæðra foreldra, 27% hjóna með börn, en aðeins 14% barnlausra hjóna (þ.e. hjón með ekkert barn undir 18 ára á heimili).
Sé skoðað eftir gerð lána, þá er 36% heimila í vanda sem eru að hluta eða öllu leiti með gengistryggð lán, en eingöngu 16% þeirra sem eingöngu eru með lán í íslenskum krónum.
Hafa skal í huga að ofangreindar tölur SÍ eru með sömu skekkju og áður, þ.e. að fjöldi heimila í vanda er vanmetinn þar sem framfærslukostnaður er vanmetinn og afborgun námslána vantar.
Niðurlag
Það er gott að sjá þessar upplýsingar frá Seðlabankanum. Þær staðfesta það sem ég og Hagsmunasamtök heimilanna höfum haldið fram í meira en ár. Raunar er málið, að Seðlabankinn er að sumu leiti að komast að sömu niðurstöðu og ég komst að með lestur talna bankans, sem hann birti í júní! Þá hélt ég því fram að Seðlabankinn hafi ofmetið greiðslugetu tekjulægstu hópanna og vanmetið greiðslugetu þeirra tekjuhæstu.
Búast má við því að Jóhanna og Steingrímur grípi á lofti að samkvæmt tölu SÍ eru eingöngu 14% heimila sem ekki ná endum saman. Þær tölur gefa bara kolranga mynd og eru hreinlega vitlausar. Áður en þau draga þessa ályktun, þá skulu þau skoða að þrátt fyrir allt sem gert hefur verið, þá er það mat SÍ að allar aðgerðirnar hafa eingöngu fækkað þeim heimilum, sem ekki ná endum saman, úr rúmum 26% í 21,8%. (Og þá er vitleysan með framfærslunni inni.)
![]() |
Staðan verst á suðvesturhorninu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2010 | 12:14
Niðurstaða héraðsdóms kallar á umbyltingu meðferðar skattalagabrota
Héraðsdómur Reykjavíkur sendir skýrskilaboð, hversu sátt sem við erum við þau: Ekki verður dæmt tvisvar í sama broti, þó refsirammi fyrri dómsins (úrskurðar skattsins) hafi ekki tekið til hegningalagahluta brotsins. Afleiðing af þessu er, að héðan í frá verður meiriháttar skattalagabrotum vísað til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og þau sótt af saksóknara, en ekki skattstjórum. Svo sem ekkert nema allt gott um það að segja.
Það er visst áfall fyrir þá sem hefðu viljað sjá þessa kóna bak við lás og slá. Þó þeir sleppi í þetta sinn, þá er af nógu að taka og reikna má með því að þeir fái sinn dóm síðar. Það jákvæða við úrskurðinn er, að nú þarf að taka til í þessum þætti laganna og búa til heilstæðan refsiramma. Í leiðinni má örugglega taka inn ýmis hvítflibbabrot, sem ekki hefur verið hægt að fá menn dæmda fyrir.
![]() |
Meintum brotum vísað frá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.6.2010 | 02:15
Nú á nota fasteignir heimilanna til að endurreisa lífeyrissjóðina - Sjálfstæði Seðlabankans fer fyrir lítið
Ég verð að taka undir með greiningu Íslandsbanka að trúverðugleiki Seðlabankans beið hnekki. Þetta var að vísu heldur illa varðveitt leyndarmál, að lífeyrissjóðirnir ættu að fá þessi skuldabréf. A.m.k. hef ég vitað af því í nokkurn tíma. Mánuð til að vera nákvæmari. Mér var líka sagt að lífeyrissjóðirnir ættu að fá íbúðalánin á gjafvirði, en þeir myndu síðan innheimta þau að fullu! Ég er alveg hættur að fatta þetta lið sem stjórnar landinu. Heldur það virkilega, að heimilin geti reddað öllum sem klúðrað hafa sínum málum.
Annars er fróðlegt að lesa réttlætingu Seðlabankans fyrir því að farin var sú leið, sem ákveðin var af fjármálaráðherra fyrir langa löngu. Höfum í huga að fyrir nokkrum dögum átti að fara í opið útboð, en það var ekki hægt "vegna flókinna skilyrða og fyrirvara sem fylgja sölunni, svo sem varðandi óvissa afhendingu". Ég geri meiri kröfu til Seðlabankans en að menn hafi ekki vitað fyrir fáeinum dögum að skilyrði væru flókin og sölunni fylgdu fyrirvarar. Nei, þetta mál er sýndarmennska, sem eykur hvorki trúverðugleika Seðlabankans né ríkisstjórnarinnar. Af hverju geta menn ekki bara komið hreint fram og sagt sannleikann? Af hverju þarf að pakka þessu djóki inn í umbúðir "lokaðs útboðs"? Merkilegt að 26 lífeyrissjóðir hafi náð að sammælast um þetta tilboð á innan við 10 dögum, þegar þeir hafa ekki getað sammælst um atvinnuskapandi verkefni síðustu 18 mánuði eða svo. Enda tók það ekki nokkra daga. Þetta er búið að vera marga mánuði í undirbúningi. Það má bara ekki líta þannig út. Halda menn virkilega að Seðlabankinn hafi farið í samninga við seðlabanka Lúxemborgar án þess að vita hvað yrði af bréfunum, þegar þau kæmust í hendur SÍ.
Er það nema von, að Besti flokkurinn og önnur óflokksbundin framboð hafi unnið marga stóra sigra í sveitastjórnakosningunum. Það er vegna þess að þeir sem kenna sig við "alvöru stjórnmál" eru ekki trúverðugir í því sem þeir taka sér fyrir hendur komist þeir til valda. Trúðsháttur er það sem kemur mér í huga og nú er búið að draga Seðlabankann og lífeyrissjóðina inn í þennan sirkus.
Ég vona innilega, að það skilyrði hafi verið sett inn í samninginn við lífeyrissjóðina, að þeir veiti Íbúðalánasjóði góðan afslátt af íbúðabréfunum. Fyrst ÍLS fékk ekki að kaupa til baka bréfin sín með góðum afslætti, þá er lágmark að lífeyrissjóðirnir veiti ÍLS hluta af þeim afslætti sem þeir fengu fyrir algjöra tilviljun hjá Seðlabankanum. Þá vona ég að sams konar skilyrði séu inni gagnvart heimilunum í landinu.
Það sem er samt alvarlegast í þessu, er að sjálfstæði Seðlabankans er orðin tóm. Bankinn tekur við fyrirmælum frá fjármálaráðuneytinu, forsætisráðuneyti og efnhags- og viðskiptaráðuneyti. Halda menn virkilega að fólk sjái ekki í gegn um þetta sjónarspil? Annað hvort er Seðlabankinn sjálfstæður og hann tekur sínar ákvarðanir út frá fjárhagslegum og efnahagslegum hagsmunum eða hann er ekki sjálfstæður og dansar eftir einhverri pólitískri línu. (Ah, það er náttúrulega það sem Seðlabankinn hefur alltaf gert, en átti það ekki að breytast?)
Í þjóðfélaginu hafa verið upp sterkar kröfur um siðbót, gegnsæi og breytta stjórnsýslu. Steingrímur J. hefur haft uppi stór orð um að einstaklingar innan VG séu trúir sannfæringu sinni. Hann talaði fjálglega um það í Silfrinu á sunnudag, að Sóley Tómasdóttir og Svandís Svavarsdóttir láti ekki ágjöf hrekja sig af leið. Sjálfur virðist hann gjörsamlega búinn að tapa öllum hugsjónum sínum um betra samfélag. Gagnrýni hans á fyrri valdhafa er hjákátleg í dag og sýnir að völd fá menn til að gera furðulegustu hluti.
Það getur vel verið að þessi samningur sé mjög góður fyrir alla og besti leikurinn í stöðunni. Það er ekki málið. Verið er að stilla upp einhverju leikriti, þar sem Seðlabankinn er látinn taka u-beygju og í leiðinni tapa trúverðugleika sínum. Fyrst að þessi niðurstaða var fyrir löngu ljós, af hverju mátti ekki bara segja það um daginn? Ég efast um að nokkrum hefði þótt það óeðlilegt. Nei, í staðinn er grafið undan Seðlabankanum. Hefur Seðlabankinn virkilega efni á því að trúverðugleiki hans bíði frekari hnekki?
![]() |
Trúverðugleiki tilkynninga Seðlabanka beið hnekki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (31.8.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 20
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 18
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði