Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Gloppa í úrræðum ríkisstjórnarinnar - Leiðrétting lána þarf að vera almenn og víðtæk

Með dómi héraðsdóms Suðurlands um að skuldbindingar ábyrgðarmanna haldi, þó lántaki fari í greiðsluaðlögun, þá er höggvið ansi stór skarð í þær varnir sem greiðsluaðlögunarlögin áttu að vera.  Vissulega verður lántakinn ekki eltur og hann því kominn í skjól, en ábyrgðarmenn sitja eftir í súpunni.

Við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna höfum ítrekað bent á, að gera þurfi meira fyrir heimilin í landinu, en felst í liknardeildarúrræðum stjórnvalda.  Heimilin í landinu eru mjög mörg að komast á vonarvöl, ef þau eru það ekki nú þegar.  Á málstofu Seðlabanka Íslands í gær kom fram að 34,5% heimila nái annað hvort ekki endum saman eða gera það með naumindum.  Hafa skal þann vara á niðurstöðum SÍ að bankinn miðar við naumhyggjuframfærslu sem varla nokkur maður getur brauðfætt sig á.  Því má gera ráð fyrir að þessi hópur sé mun stærri og giskaði ég á í færslu í gær, að hópurinn væri a.m.k. rúmlega 43%, líklegast um 50% og allt upp í 60%.  Ég verð að viðurkenna, að það er skammarlegt að fjölmiðlar hafi ekkert vakið athygli á niðurstöðum Seðlabankans.


mbl.is Lög afnámu ekki sjálfskuldarábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðuleg villa í Skýrslunni

Ég tók eftir því í umfjöllun RÚV um Skýrsluna, að þar var ótrúleg rangfærsla um áhrif breytinga á húsnæðislánakerfi Íbúðalánasjóðs á íslenska hagkerfið.  Þarna létu menn greinilega mata sig af röngum upplýsingum og má spyrja sig af hverju það var gert.  Hvernig getur forstöðumaður hagfræðisviðs Seðlabanka Íslands komið með svona rugl eins og hann gerir, vekur furðu mína.  Hallur Magnússon hefur margoft hrakið öll þessi rök aftur til föðurhúsanna og ég sé að hann var fljótur til í dag.

Þórarinn G. Pétursson hefði betur skoðað tölulegar staðreyndir sem birtar eru í töflum Seðlabankans.  Þar kemur nefnilega fram, að útlán Íbúðalánasjóðs drógust saman frá 2004 til 2008.  Hvernig getur samdráttur í útlánum ÍLS leitt til þenslu?  Mér er gjörsamlega ómögulegt að skilja þetta.  Á sama tíma jukust húsnæðislán bankanna um meira en tvöfalda þá tölu sem lán ÍLS drógust saman um.

Ég er svo sem ekki búinn að lesa mikið í Skýrslunni, en ég hef ekkert heyrst minnst á áhrif Basel II regluverksins á útlánaþenslu bankanna.  Hver sem vill getur séð, að útlán bankanna byrjuðu að aukast um leið og Basel II reglurnar tóku gildi hér á landi og samhliða því að bindiskylda bankanna var minnkuð um helming árið 2003.  Kannski er þetta skoðað, ég bara veit það ekki enn, en fyrst ekki hefur verið minnst á það í skýringum, þá hefur nefndin líklegast ekki tekið á áhrifum Basel II.  Reglurnar koma nefnilega aftur við sögu í mars 2007.  Ég heyrði einn nefndarmann gagnrýna skattalækkun til heimilanna 1. mars 2007, en ekki nefna einu orði breytinguna á Basel II reglunum daginn eftir.  Þenslan sem varð um sumarið 2007 varð vegna aukinna útlána bankanna, þar sem útlánageta þeirra var aukin um 42% 2. mars 2007.  Að heimilin hafi haft 3% meira umleikis skýrir ekki 14% verðbólgu í ágúst/september 2007.  Sá sem heldur því fram að 3% lækkun matarverðs hafi meiri áhrif en 42% aukningu á útlánagetu, þarf að skerpa á stærðfræðikunnáttunni.

Viðbót 13.4.2010 kl. 11:00

Hér fyrir neðan er línurit sem sýnir útlánaþróun í lánakerfinu frá aldamótum fram til hruns bankanna.  Efsta línan er heildarútlán, þá eru það útlán til atvinnuveganna, heimilanna (er skipt í lán frá Íbúðalánasjóði og lán frá öðrum frá og með 3. ársfjórðungi 2003; ÍLS er appelsínugula línan (neðri)) og loks lán til opinberra aðila.  Á þessu línuriti sést að útlán ÍLS til heimilanna stendur nánast í stað á þessu tímabili.  Raunar eru útlán ÍLS til heimilanna 444 milljarðar kr. í lok 2. ársfjórðungs 2004 og standa í 455 milljörðum kr. í lok 3. ársfjórðungs 2008.  Í millitíðinni voru útlánin ALLTAF vel fyrir neðan þessar tölur og fóru lægst í 342 milljarða kr. í lok 1. ársfjórðungs 2006.  Líklegast má rekja hluta "útlánaaukningarinnar" frá þeim tíma til verðbóta á lán, en ekki svo mikið til nýrra lána.

utlan_fra_aldamotum.jpg Nú vilja örugglega einhverjir halda því fram að tilkynning ÍLS um að fara í 90% lán sé það sem skiptir máli.  Tölurnar segja annað.  Það var fyrst og fremst innleiðing FME á Basel II reglunum sem orsökuðu þensluna og algjör dómgreindarskortur Seðlabankans að bregðast ekki við hinni auknu útlánagetu sem í því fólst með mótvægisaðgerðum, eins og t.d. að auka á bindiskylduna í staðinn fyrir að draga úr henni, að hækka stýrivexti verulega eða bara eitthvað annað en að lækka bindiskyldu.  Hagstjórnarmistök Seðlabankans eru því æpandi í þessu máli og er bara eðlilegt að núverandi yfirhagfræðingur bankans reyni að beina umræðunni í annan farveg.


mbl.is Rangfærslur í skýrslunni varðandi húsnæðislánamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt að helmingur heimila nær ekki endum saman með tekjum

Í skjóli birtingar skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis voru birtar ekki síður merkilegar upplýsingar í málstofu Seðlabanka Íslands.  Málstofan var undir heitinu "Hvernig hefur staða heimilanna breyst á undanförnum misserum og hverju fá aðgerðir í þágu heimila áorkað?".  Þar voru birtar niðurstöður rannsóknar tveggja hagfræðinga Seðlabankans, Karenar Á Vignisdóttur og Þorvarðar Tjörva Ólafssonar, á gögnum úr bankakerfinu, tekjuupplýsingar og fleira varðandi afkomu heimilanna.

Niðurstöður Karenar og Tjörva eru að mjög forvitnilegar og er ferlegt að þær munu núna drukkna í uppfjöllun um Skýrsluna.  Mig langar hér að skoða forsendur og helstu niðurstöður og koma loks með mína túlkun á öllu.

Tilgangur og forsendur

Tilgangur rannsóknar Seðlabanka Íslands var að leggja mat á getu íslenskra heimila til að standa undir aukinni greiðslubyrði við skilyrði minnkandi tekna og atvinnu.

Skoðuð var greiðslubyrði allra lána heimilanna nema námslána.  Þar sem námslánin vantar eru afborganir lána líklegast vanmetnar um 20 - 40 þúsund á mánuði á heimili, þar sem tveir fullorðnir eru að greiða af námslánum.  Tekið var tillit til frystinga lána og úrræða sem þegar hefur verið boðið upp á.  Á tekjuhliðinni eru allar tekjur taldar til, sem á annað borð eru þekktar, þar með talið vaxtabætur og barnabætur.  Á framfærsluhliðinni er notast við naumhyggjuframfærsluviðmið Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, en þau viðmið eru langt undir tölum Hagstofunnar um meðalframfærslu hvers viðmiðunarhóps fyrir sig.  Þannig er í tölu Ráðgjafarstofunnar gert ráð fyrir að hjón með tvö framfleyti fjölskyldunni með 153.500 á mánuði fyrir utan rekstur bifreiðar, síma, áskrifta, fasteignagjalda, trygginga og dagvistar.  Forstöðukona Ráðgjafarstofunnar greindi frá því á málstofunni, að Ráðgjafastofan notaði eingöngu þetta viðmið vegna þess að ekkert annað stæði til boða.  Ráðgjafastofan teldi þetta viðmið vera algjör neyðarframfærsla, mjög þröngt sniðin, og ekki ætluð til nema fárra ára.  Samkvæmt upplýsingum frá Arion banka, Landsbanka og Íslandsbanka nota allir þrír mun hærri framfærsluviðmið og nýlegu frumvarpi um greiðsluaðlögun einstaklinga er gert ráð fyrir "eðlilegri" framfærslu.  Þorvarður Tjörvi viðurkenndi að viðmið Seðlabankans væru líklega 50 - 100 þúsund kr. of lág á mánuði.  Á hinn bóginn væri ekki reiknað með úttöku séreignarsparnaðar, sem hagfræðingar Seðlabankans töldu sem sjálfsagða leið til að mæta útgjöldum heimilisins.  En þetta eru forsendurnar, þá eru það niðurstöðurnar.

Framfærsla og greiðslugeta

Gerður er ítarlegur útreikningur á greiðslugetu heimilanna.  Áður en ég fer ofan í þá útreikninga vil ég skoða tvær myndir:

Staða ólíkra fjölskylduhópa - Mynd 1(Til að sjá myndina í betri gæðum er smellt á hana og síðan aftur á myndina sem þá birtist.)

Staða ólíkra fjölskylduhópa - Mynd 2Þegar þessar myndir eru skoðaðar, þá sést á þeirri fyrri, að Seðlabankinn metur að 14% heimila nái ekki endum saman, 8% heimilanna eigi 0 - 50 þús. kr. í afgang í hverjum mánuði, 13% eigi 50 - 100 þús. kr. í afgang í hverjum mánuði og 66% eigi meira en 100 þús. kr. í afgang.  En höfum í huga að þarna er miðað við naumhyggjuframfærslu og námslán vantar.  Vissulega telur SÍ að hjón með börn þurfi 100 þúsund kr. til viðbótar á mánuði og aðrir 50 þús. kr. og bæta síðan við kostnaði við rekstur bifreiðar.  Er það mat mitt, að þarna vanti umtalsvert meira inn í framfærslukostnað heimilanna.  Svo tekið sé mið af tölum Hagstofunnar, þá vantar líklegast 50 þúsund kr. hjá þeim heimilum, þar sem ekki eru börn og a.m.k. 100 þús. kr. þar sem börn eru.  Auk þess vantar 20 - 40 þúsund kr. vegna afborgana námslána.  Ef við skoðum neðri myndina, þá sést að SÍ metur að 34,5% heimila annað hvort nái ekki endum saman eða eigi allt að 100 þúsund kr. í afgang.  Er það mitt mat, að allur þessi afgangur fari í þau föstu útgjöld sem áður hafa verið nefnd, en þá vantar að leiðrétta grunnframfærsluna og bæta við námslánunum.  Mér sýnist sem bæta megi góðum hluta af þeim 25,6% sem eru í súlunum 100-150 þ.kr./mán. í afgang og 150-200 þ.kr./mán. í afgang.  Bæti ég tölunni í heild, fæ ég 60,1%, en sé hjónum á barna og einstaklingum sleppt, þá fæ ég 42,9%.

Nú mótmælir einhver og segir að fólk sé að nota séreignasparnað.  Fyrst skal nefna, að séreignasparnaður telst seint til tekna, heldur er hann sparnaður.  Þeir sem eru að taka út séreignarsparnaðinn eru að ganga á sparnað sem ætlað var að nota þegar fólk væri komið á eftirlaun.  Það er hreint og beint lúalegt að etja fólki út í það að nýta hann núna til að borga fyrir sukk bankamanna.

Ég vil taka það fram, að tölur Seðlabankans eru mun betur unnar núna en í síðustu tvö skipti.  Hefur verið tekið tillit til margs konar gagnrýni, sem kom fram (m.a. frá mér) á fyrri framsetningu.  Einnig er meira lagt í að fullvinna gögnin.

Eiginfjárstaða

Hagfræðingar Seðlabankans meta eiginfjárstöðu heimilanna og eru þær niðurstöður vægast sagt áhugaverðar.  Eðlilegt er að nefna forsendur SÍ, en í fyrsta lagi notað fasteignamat frá desember 2008, virði eigna er látið þróast í takt við þróun íbúðarverðs (sem verður að teljast vafasamt)og tekin eru öll lán með veði í húsnæði alls að verðmæti 1.510 milljarðar kr.  Frumniðurstöður SÍ eru að í janúar 2008 hafi 11% heimila verið í neikvæðri eiginfjárstöðu í húsnæði.  Þetta hlutfall stóð í 20% í október 2008, en er komið í 38-39% í febrúar á þessu ári.  Um 28 þúsund heimili voru í febrúar á þessu ári í neikvæðri eiginfjárstöðu í húsnæði.  Seðlabankinn skoðar hvernig þetta er eftir myntsamsetningu lánanna og þar kemur í ljós að 36% heimila með lán eingöngu í íslenskum krónum eru í neikvæðri eiginfjárstöðu í húsnæði, 47% sem eru bara með gengistryggð lán og 57% þeirra sem voru með blönduð lán.  Verst er þó staða ungs barnafólks (skýrt sem barnafólk, þar sem allt heimilisfólk er yngra 40 ára).  Meðal þessa hóps er 65% heimila með neikvæða eiginfjárstöðu í húsnæði.  Þetta verður ekki lagað með því að laga greiðsluaðlögunina eða sérstæka skuldaaðlögun.

Þeir sem þurfa frekari úrræði

Seðlabankinn leggur síðan mat á það hverjir þurfa frekari úrræði/aðgerðir.  Í glærum bankans segir:

  • Það er ekki einsýnt hvernig skuli meta hvaða heimili eru í vanda við að standa undir greiðslubyrði lána og framfærslu.
  • Sé tekið mið af niðurstöðunum hér að framan og þau heimilin tekin út sem ná ekki endum saman eða eru á mörkum þess að geta staðið undir greiðslum og framfærslu fæst hópur heimila sem telur tæp 24 þúsund heimili sem er líklegur til að þurfa á frekari aðgerðum að halda. 

 

Niðurstöðurnar eru teknar saman á eftirfarandi mynd:

hopar_i_vanda.jpg  Og þegar þetta er skoðað eftir búsetu, þá kemur í ljós að verst er staðan á Reykjanesi, þar sem 31% heimila eru í vanda, 28% á Suðurlandi og 24% þeirra sem eru á"ytri hring" höfuðborgarsvæðisins.

Ef þetta er skoðað eftir aldri elsta fjölskyldumeðlims, þá er 47% innan yngsta hópsins (18-24 ára) í vanda, 32% í hópi 24-29 ára, 26% í hópi 30 - 39 ára, 23% í hópi 40 - 49 ára, 19% í hópi 50 - 59 ára, 16% í hópi 60 - 69 ára og loks 13% í hópi 70 ára og eldri.

Sé þetta skoðað eftir fjölskyldugerð, þá er 25% einhleypinga í vanda, 35% einstæðra foreldra, 27%  hjóna með börn, en aðeins 14% barnlausra hjóna (þ.e. hjón með ekkert barn undir 18 ára á heimili).

Sé skoðað eftir gerð lána, þá er 36% heimila í vanda sem eru að hluta eða öllu leiti með gengistryggð lán, en eingöngu 16% þeirra sem eingöngu eru með lán í íslenskum krónum.

Hafa skal í huga að ofangreindar tölur SÍ eru með sömu skekkju og áður, þ.e. að fjöldi heimila í vanda er vanmetinn þar sem framfærslukostnaður er vanmetinn og afborgun námslána vantar.

Niðurlag

Það er gott að sjá þessar upplýsingar frá Seðlabankanum.  Þær staðfesta það sem ég og Hagsmunasamtök heimilanna höfum haldið fram í meira en ár.  Raunar er málið, að Seðlabankinn er að sumu leiti að komast að sömu niðurstöðu og ég komst að með lestur talna bankans, sem hann birti í júní!  Þá hélt ég því fram að Seðlabankinn hafi ofmetið greiðslugetu tekjulægstu hópanna og vanmetið greiðslugetu þeirra tekjuhæstu.

Búast má við því að Jóhanna og Steingrímur grípi á lofti að samkvæmt tölu SÍ eru eingöngu 14% heimila sem ekki ná endum saman.  Þær tölur gefa bara kolranga mynd og eru hreinlega vitlausar.  Áður en þau draga þessa ályktun, þá skulu þau skoða að þrátt fyrir allt sem gert hefur verið, þá er það mat SÍ að allar aðgerðirnar hafa eingöngu fækkað þeim heimilum, sem ekki ná endum saman, úr rúmum 26% í 21,8%.   (Og þá er vitleysan með framfærslunni inni.)


Þrjú frumvörp um greiðsluaðlögun og umboðsmann skuldara

Jæja, þá er ég snúinn aftur úr bloggfríi.  Vonandi hafið þið ekki saknað mín of mikið Smile

Lögð hafa verið fram þrjú frumvörp á Alþingi.  Eitt um breytingu á lögum um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, annað er að nýjum lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga og þriðja frumvarpið er að lögum um umboðsmann skuldara.  Í öllum þessum frumvörpum felst mikil réttarbót fyrir lántaka, þó svo að þau séu vissulega þeim annmarka háð, að hvergi er gerð nokkur tilraun til að viðurkenna þann forsendubrest sem orðið hefur.

Breytingarnar á lögum um tímabundna greiðsluaðlögun eru margþættar.  Í fyrsta lagi er tekið á lánsveðum og þau felld undir greiðsluaðlögun lántakans.  Þetta er fyrst og fremst réttarbót fyrir þann, sem lánaði veð í fasteign sinni.  Ég er þó ekki alveg viss hvort og þá hvernig er tekið á því þegar lánið er líka fengið í gegn um þriðja aðila.  Verið getur að slíkt verði túlkað sem lánsveð og meðhöndlað eftir því.  Í öðru lagi er mikill bálkur sem fjallar um úrræði fyrir þá sem eiga tvær eignir og hafa ekki getað selt aðra.  Þetta úrræði nær einhverra hluta vegna eingöngu til eigna sem keyptar eru fyrir 8. október 2008 og skilur því útundan, ef svo má að orði komast, fólk sem er að skipta um sambúðarform (hvort heldur að skilja eða hefja sambúð) og neyðist til að minnka eða stækka við sig.  Margt er mjög gott í þessum hluta frumvarpsins, en mér sýnist ýmislegt megi gera til að bæta textann enn frekar.  Bálkurinn um tvær eignir hefur takmarkaðan gildistíma, þannig að það er eins gott að frostið á fasteignamarkaðnum haldist ekki fram yfir þann tíma sem er 31.12.2011.

Frumvarp að lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga færir greiðsluaðlögun einstaklinga út úr lögum um gjaldþrotaskipti yfir í sérlög.  Lagatextinn er auk þess lagaður að þeirri breytingu sem á sér stað við stofnun umboðsmanns skuldara og þau úrræði sem hann mun hafa.  T.d. verður greiðsluaðlögunarferlið fært inn til embættis umboðsmanns skuldara.  Hjá umboðsmanninum verður alltaf fyrst reynt að ná frjálsum samningum um greiðsluaðlögunina, en takist það ekki verður það hlutverk dómara að koma á þvingaðri greiðsluaðlögun.  Of langt mál er að fara í alla þætti frumvarpsins, en að mínu mati er hér mikið framfaraskref.

Loks er það frumvarp um umboðsmann skuldara.  Vissulega vildi ég frekar, miðað við hlutverk embættisins, að það væri kallað umboðsmaður lántaka, þar sem umboðsmanninum er m.a. ætlað að hafa eftirlit með ýmsu í lánastarfsemi.  Á vissan hátt má segja að hér sé verið að færa Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna í nýja búning, en nákvæmara er að segja, að ráðgjafastofan sér færð undan forræði fjármálafyrirtækjanna til aðila, sem á að hafa skoðun og taka afstöðu með lántakanum.  Lántakar eru því að fá málsvara með nokkuð mikil völd.  Hér er því annað mjög mikið framfaraskref fyrir almenning.

Í þessu öllu er þó enn og aftur verið að taka á einkennum þess sjúkdóms sem sýkt hefur stóran hluta þjóðlífsins.  Þá á ég við stökkbreytingu höfuðstóls lána í kjölfar gengishrunsins 2008.  Öll eru þessi úrræði góðra gjalda verð, en betra hefði verið, ef ráðist á sjúkdóminn sjálfan.  Hann grasserar ennþá af fullum þunga og krefst sífellt fleiri fórnarlamba.  Fyrir þau er búið að útbúa þessa fínu líknardeild með góðum tækjum og fullt af starfsfólki.  En það er löngu tímabært að finna lækningu við sjúkdómnum og varna því þannig að fólk rati inn á líknardeild.  Fjármálakerfið verður að taka á sig hina miklu leiðréttingu sem þarf að eiga sér stað.  Það gengur ekki lengur, að almenningur þurfi að borga fyrir mistök manna sem höfðu greinilega ekki hundvit á viðskiptum.


« Fyrri síða

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 1678172

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband