Leita í fréttum mbl.is

Bílalánamál tapast

Í dag gekk dómur í máli SP Fjármögnunar gegn lánataka, þar sem tekist var á um lögmæti gengistryggðra lána.  Dómurinn féll SP Fjármögnun í vil.  Mér er sagt að dómnum verði áfrýjað.

Dóminn er að finna á vef Héraðsdóms Reykjavíkur undir máli nr. E-4501/2009.  Ákaflega fróðlegt er að skoða ályktanir dómara, þar sem í þeim eru hreinar rangfærslur, svo ekki sé meira sagt, miðað við það sem Eyvindur G. Gunnarsson sagði í erindi sínu á fundi Orators í síðasta mánuði.

Skoðum nokkur atriði úr dómsorðum:

Kjartan sagði að SP-fjármögnun hf. fjármagnaði útlán sín með lántökum hjá Landsbankanum.  Þegar SP-fjármögnun hf. lánaði út dollara þá tæki félagið lán í dollurum.  Ef félagið lánaði japönsk jen þá tæki það lán í japönskum jenum.  Kjartan sagði að erlendar lántökur væru 80 til 90% í starfsemi félagsins, eða hefðu verið það fyrir hrun.  Nú stæði ekki erlend mynt til boða.  Allir nýir samningar í dag væru í íslenskum krónum.

Hér stangast orð Kjartans G. Gunnarssonar á við upplýsingar sem hann hefur veitt í öðru máli.  Þar hefur komið fram að lántökum er veitt lán úr einhvers konar sjóði sem stofnaður er.  Sjóðurinn samanstendur af mynteiningum og tekur breytingum eftir breytingum á myntinni.  Að halda því svo fram í héraðsdómi, að framlánað sé lán frá Landsbankanum kallar á nánari skýringar út af öðrum málum.  Annað í þessu er að það kemur lántaka ekkert við hvernig SP Fjármögnun fjármagnar sig ekkert frekar en það kemur honum við hvaða laun einhverjir starfsmenn fá.

Næst er kostulegur kafli um skyldur SP fjármögnunar gagnvart gjaldeyrisjöfnuði:

Kjartan sagði að félagið væri bundið almennum reglum um að hafa jafnvægi í erlendri mynt í eignum og skuldum.  Farið væri eftir ákveðnum reglum í því sambandi.  Eignir og skuldir verði að standast á.  Óheimilt sé að taka gengisáhættu.  Ef lánað er út í dollurum þá verði félagið að skulda í dollurum.  Ef lánað er út í íslenskum krónum þá verði að taka lán í íslenskum krónum.  Ekki megi taka lán í erlendri mynt og lána út í íslenskum krónum til að ná gengishagnaði.

Þessi kafli kemur málinu nákvæmlega ekkert við.  Ekkert frekar en kaflinn þar á eftir um hverjir sátu eða sitja í stjórn félagsins.  Málið snýst ekki um rekstur SP Fjármögnunar heldur lögmæti gjörningsins að lána út með gengistryggingu.

En þá að ályktunum dómara:

Óskar Sindri byggir í fyrsta lagi á því að óheimilt hafi verið af SP-fjármögnun hf. að binda afborganir lánsins við gengi japansks jens og svissneska franka gagnvart íslenskri krónu samkvæmt ákvæðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Í öðru lagi á því að forsendur samningsins hafi brostið og megi SP- fjármögnun hf. því ekki byggja á honum eins og nú stendur á.  Í þriðja lagi byggir Óskar Sindri á því að ákvæði 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eigi hér við, enda sé, eins og nú standi á, ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að SP-fjármögnun hf. beri hann fyrir sig.

            Ætla verður að heimilt hafi verið að binda afborganir lánsins í íslenskum krónum við gengi krónunnar gagnvart japönsku jeni og svissneskum frönkum eins og gert var.  Ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 banna heldur ekki fortakslaust að miða lán við gengi erlendra gjaldmiðla.  Í 13. gr. segir m.a. að ákvæði um verðtryggingu gildi um skuldbindingar er varða lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar, en með verðtryggingu sé átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu.  Þá segir að með verðtryggingu fari samkvæmt 14. gr. nema lög kveði á um annað.  Í 14. gr. segir m.a. að heimilt sé að verðtryggja lánsfé samkvæmt 13. gr. sé grunvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði.

            Viðskipti sem mál þetta snýst um eru í erlendri mynt.  SP-fjármögnun hf. tók erlent lán sem félagið lánaði síðan Óskari Sindra.  Á félaginu hvílir skylda samkvæmt reglum Seðlabanka Íslands að eiga á móti skuldbindingum sínum í erlendum lánum nokkurn veginn sömu fjárhæð í kröfum.  Skuldbinding Óskars Sindra er í jenum og svissneskum frönkum samkvæmt samningi aðila.  Engu breytir þó að erlenda myntin sé umreiknuð í íslenskar krónur við afborgun í hverjum mánuði og greitt hafi verið með íslenskum krónum, enda er til þess að líta að krónan er lögeyrir þessa lands.  SP-fjármögnun hf. seldi erlenda mynt og fékk íslenskar krónur, sem notaðar voru til að greiða fyrri eiganda bifreiðarinnar.  Óskari Sindra var í sjálfsvald sett hvort hann greiddi SP-fjármögnun hf. með íslenskum krónum eða með jenum og svissneskum frönkum.  Erlent fé var lánað.  Lög standa ekki í vegi fyrir að hægt sé að krefjast skila á sambærilegu verðmæti og lánað var.

 (Feitletrun mín.)

Það er einmitt þessi feitletraði texti sem er rangur í dómsorðinu.  Í lögum nr. 38/2001 segir í 2. gr.:

Ákvæði II. og IV. kafla laga þessara gilda því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum. Einnig verður vikið frá öðrum ákvæðum laganna að því marki sem þar er kveðið á um. Þó er ávallt heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara.

Þarna segir að ekki megi víkja frá innihaldi 13. og 14. gr. nema  "að því marki sem þar er kveðið á um".  Athugasemd með 13. og 14. gr. í frumvarpinu segir berum orðum:  "Í 1. mgr. [13. gr.] er lagt til að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla verði felldar niður." Og síðar segir: "Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi." Hvað er hægt að hafa hlutina skýrari?

Samkvæmt grein Gunnlaugs Kristinssonar, löggilts endurskoðanda, sem birtist á eyjan.is síðast liðinn föstudag, þá vísar hann til nokkurra lagatexta þar sem bent er á, að viðskipti á Íslandi milli íslenskra lögaðila geti lögum samkvæmt bara átt sér stað í íslenskum krónum, enda sé krónan (samkvæmt athugasemd með frumvarpi að lögum nr. 22/1968 um gjaldmiðil Íslands) "eini lögmæti gjaldmiðillinn á Íslandi".  Gunnlaugur vitnar næst í athugasemd við frumvarp að lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, en þar segir:  „Rétt er að vekja athygli á því að það fer eftir búsetu útgefanda hvort verðbréf eru flokkuð sem innlend eða erlend en ekki myntinni sem verðbréfið er gefið út í…….Svipað gildir um erlend lán. Í samræmi við notkun hugtaka í þessu frumvarpi er um að ræða erlent lán þegar innlendur aðili fær lán hjá erlendum aðila. Mynt lánsins ræður hér engu um. Í þeim tilvikum, þegar innlendur aðili tekur lán hjá erlendum aðila og endurlánar lánsféð öðrum innlendum aðila, telst fyrra lánið erlent lán en hið síðara innlent“ (feitletrun Gunnlaugs)  Samkvæmt þessum orðum, þá eru engin "erlend lán" veitt hér á landi.  "Erlend lán" eru eingöngu tekin erlendis og öll lán tekin hér á landi eru "innlend lán" og "innlend lán" eru þá samkvæmt lögum í íslenskum krónum.

Mér virðist sem Páll Þorsteinsson, dómari í málinu, hafi leitað leiða til að sneiða framhjá hinum raunverulega ágreiningi í málinu.  Hann leiðir hjá sér augljósar staðreyndir, samanber grein Gunnlaugs Kristinssonar, um að "skuldbinding milli tveggja innlendra aðila er alltaf í íslenskum krónum"!  Hvernig SP Fjármögnun fjármagnar sig, er lántaka algjörlega óviðkomandi.  Að lántaki hafi óskað eftir láni í gengiskörfu, er málinu líka óviðkomandi.  Málið snýst um hvort SP Fjármögnun hafi haft heimild í lögum til að veita þessi lán.  Um það snýst málið og ekkert annað.  Mér virðist af málflutningi mér vitrari manna, að lög nr. 22/1968, nr. 87/1992 og nr. 38/2001 taki af öll tvímæli.  Ég skil ekki hvernig Páll Þorsteinsson getur tekið afstöðu til málsins án þess að skoða ákvæði tveggja fyrrnefndu laganna, þar sem þau eru grunnurinn að því að "erlend lán" verði ekki veitt á Íslandi og þá virka varnir 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um að eingöngu megi tengja íslensk lán við vísitölu neysluverðs eða innlenda eða erlenda hlutabréfavísitölur.

Niðurlag dómsorðs er ótrúlegt:

Ekki veldur sá er varar er almennt talið.

SP Fjármögnun varaði stefnda ekki við því að nokkur lög í landinu bönnuðu þann lánsamning sem hér um ræðir.  Fyrirtækið var að bjóða ólöglegan varning.  Fyrst þegar þessi varningur var boðinn, þá var það almennt gert í bakherbergjum og farið leynt með.  Það var eins og verið væri að selja smygl eða ólögleg vímuefni. Ég get ekki annað sagt, en að mér finnst þessi orð dómarans sorgleg.  Mér finnst líka sorglegt að sjá hann gjörsamlega líta framhjá fjölda lagaákvæða sem hrekja rökstuðning hans fyrir dómnum, en sorglegast finnst mér tvær ályktanir hans þ.e. "[á]kvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 banna heldur ekki fortakslaust að miða lán við gengi erlendra gjaldmiðla"  og"[v]iðskipti sem mál þetta snýst um eru í erlendri mynt".  Hvernig hann kemst að þessu tvennu er mér gjörsamlega óskiljanlegt og þætti mér vænt um að fá nánari skýringu búi einhver yfir henni.


mbl.is Gert að greiða myntkörfulán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Guðjónsson

Dómurinn verður að byggja á gögnum málsins. Hafi engin bent á að forstjórinn er margsaga þá vantar upp á vörnina. Eins og málið lítur út fyrir dómaranum þá hefur SP fengið lánaða  dollara og endurlánað þá Óskari. Í tilfelli bankanna þá er hægt að sanna að þeir áttu ekki þá útlendu peninga sem þeir ´´ endur´´ lánuðu.

Einar Guðjónsson, 3.12.2009 kl. 16:03

2 Smámynd: Jóhannes H. Laxdal

merkileg niðurstaða...  bara vonandi að það komi eitthvað almennilegt útúr þessu í hæstarétti en ekki rangfærslur einsog virðist vera málið hérna.

Jóhannes H. Laxdal, 3.12.2009 kl. 16:04

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þetta er sorgleg niðurstaða, þarna er dómurinn að leggja blessun sína yfir að fyrirtæki hagnist á ólöglegum fjármálagjörningum. Vonandi verður þessu áfrýjað til hæstaréttar.

Guðmundur Ásgeirsson, 3.12.2009 kl. 16:08

4 Smámynd: Jóhannes H. Laxdal

Einar ..  Ef ég er að skilja þetta rétt, þá skiptir ekki máli að SP Banki hafi fengið dollara (eða whatever) lánaðar eða keypt annarsstaðar frá og svo endurlánað þær aftur til lántakenda, heldur er málið það að allt ferlið var/er? ólöglegt,  bankinn mátti aldrei lána neitt í erlendri mynt heldur eingöngu í Íslenskum krónum.  Því mátti/má? ekki binda lánið við gengi erlendra gjaldmiðla heldur einungis verðtryggðar eða óverðtryggðar íslenskar krónur.

Annars kemur gandri með dálítið góðan punkt í þessu myntkörfupælingum..   http://gandri.wordpress.com/2009/10/20/or%C3%B0-dagsins-jafnvir%C3%B0i/

Jóhannes H. Laxdal, 3.12.2009 kl. 16:19

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það var aldrei um nein "erlend" lán að ræða, heldur voru þetta í flestum tilvikum krónulán með gengisviðmiði. Samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu er það hinsvegar óheimilt, eins og segir í athugasemdum löggjafans með frumvarpinu en þar stendur meðal annars:

Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.

Guðmundur Ásgeirsson, 3.12.2009 kl. 17:41

6 Smámynd: Einar Guðjónsson

Jóhannes, Þessi mál eiga eftir að fara allavega uns Hæstiréttur tekur af skarið. Að mínu viti er munur á því hvort banki er að lána beint eða í gegnum önnur þjófagengi sem bankinn ræður ekki yfir einn.

Einar Guðjónsson, 3.12.2009 kl. 19:23

7 identicon

Já, ég sé að bjartsýni mín hvað varðar niðurstöður dómsstóla í þessum málum, var innistæðulaus. Amk enn sem komið er.  Þessi dómur er dálítið nötursleg lesning, en það er eitt sem ég hefta mig við í niðurlagi dómsins og það er þetta:

"Gengisþróun hefur orðið flestum Íslendingum undanfarið ákaflega óhagfelld. Á þeirri þróun getur SP-fjármögnun hf. hins vegar ekki borið ábyrgð".

Mér finnst það sem leikmanni vera hæpið að byggja rökstuðning með dómsniðurstöðunni á ósannaðri fullyrðingu. Það kann vel að vera að það sé ekki sannað að SP hafi verið hluti af skipulagðri stöðutöku gegn krónunni, en það er heldur ekki sannað að svo hafi ekki verið. Ég á ekki von á að dómarinn sé í aðstöðu til þess að fullyrða neitt um það.

Eitt af því sem sannleiksnefndin mun væntanlega þurfa að koma inn á er hvort að t.d. kaupleigufyrirtæki eins og SP hafi verið notuð til þess að tryggja eigendum bankanna stöðu gegn krónunni. Ef það er rétt sem marga grunar, þá er þessi setning í dómnum einkennilega innistæðulaus. Hún hefði væntanlega mátt missa sín án þess að það hefði endilega þurft að hafa áhrif á niðurstöðuna þó það hefði vissulega veikt hana.

Það er væntanlega mikið verk framundan að undirbúa komandi málarekstur bæði í nýjum málum og svo í þessu máli fyrir hæstarétti. Maður saknar þess verulega að fleiri lögfræðingar skuli ekki finna það sem sýna köllun að vinna almenningi gott til í þessum málum.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 20:11

8 identicon

Þetta er vægast sagt undarlegur dómur.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 20:37

9 Smámynd: Maelstrom

Mér sýnist þetta vera alveg eftir bókinni.  Mál verjanda gengur út á að bannað sé að gengisbinda lán í íslenskum krónum.  Mér sýnist aftur á móti málflutningur verjanda ekki koma sérstaklega inn á eða reyna að rökstyðja á neinn hátt að lánið sé veitt í íslenskum krónum.

Dómarinn kemst síðan eðlilega að því að lánið sé í erlendri mynt og þá eiga 13. og 14. gr. 38/2001 alls ekki við.  Þær eiga aðeins við lán í íslenskri mynt.

Marinó, þú segir sífellt að ekki megi veita lán í erlendri mynt.  Ég sé ekki að það sé rétt.  13. greinin segir einfaldlega að kafli IV eigi aðeins við lán í íslenskum krónum.  14. greinin segir hvernig megi verðtryggja þessi lán í íslensku krónum.

2. greinin segir að það MEGI víkja frá kafla II og IV, sérstaklega ef það er til hagsbóta fyrir skuldara.  Þú segir sífellt að 2. gr banni það en mér sýnist einmitt að hún sé að leyfa frávik.

Ég þarf að fara og lesa þessi lög aftur.  Er alveg kominn í hring núna.

Maelstrom, 3.12.2009 kl. 21:12

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Maelstrom, nú ert þú að lesa eitthvað út úr mínum skrifum sem ég hef ekki sagt að ekki megi lána í erlendri mynt.  Það má veita lán í hvaða mynt sem er, en lánið er íslenskt ef lögheimili útgefanda er íslenskt og þar með má lánið ekki taka breytingu samkvæmt dagsgengi erlendra gjaldmiðla.

Greinar 13 og 14 eru hvorki í II né IV kafla heldur þeim VI.  Það þýðir að EINGÖNGU má tengja íslenska fjárskuldbindingu við vísitölu neysluverðs eða hlutabréfavísitölu innlenda eða erlenda.  Það má ekki tengja við neina aðra vísitölu og þar með vísitölu sem byggir á dagsgengi erlendra gjaldmiðla.

Marinó G. Njálsson, 3.12.2009 kl. 21:29

11 Smámynd: Offari

Einhvernveginn finnst mér að bankarnir hafi tapað.   Ég hef enga trú á að vilji greiðanda haldist ef lögin hjálpa þeim ekkert.

Offari, 3.12.2009 kl. 21:56

12 Smámynd: Theódór Norðkvist

Niðurstaða Héraðstóms er út í hött.

Við henni er aðeins eitt svar:

http://www.heimilin.is/varnarthing/aegerdir-greidsluverkfall

Theódór Norðkvist, 4.12.2009 kl. 00:59

14 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Frábær úttekt hjá þér Marínó.

Alveg er það óskiljanlegt hvernig hægt er að lesa nokkuð annað út úr þessum lagabókstaf en það sem þú bendir á.

Dómurinn er ruglingslega orðaður, útbíaður í sleggjudómum um SP/Landsbankann sem dómarinn er ekki í stöðu til að kveða upp úr um.

Þessu máli þarf að fylgja gaumgæfilega í gegnum hæstaréttarmeðferð upp á ameríska móðinn, með stanslausum fréttaflutningi, skýringum og umfjöllun um laganna bókstaf. Þetta mál er eitt hinna mikilvægustu fyrir Íslendinga fyrr og síðar í raun, þ.s. gríðarlega umfangsmikilla leiðréttinga er þörf í kerfinu og það er alveg hægt að byrja á leiðréttingum á gengislánum eins og öðrum.

Rúnar Þór Þórarinsson, 4.12.2009 kl. 05:49

15 Smámynd: Einnar línu speki

Samsæriskenning: Dómurinn þorði ekki annað en að dæma SP í vil, annað hefði kallað á skriðu af kærum...

Einnar línu speki, 4.12.2009 kl. 10:25

16 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Takk fyrir góða greiningu.

Þórður Björn Sigurðsson, 4.12.2009 kl. 11:10

17 identicon

Þessir svokölluðu dómarar munu aldrei dæma fólkinu í hag,hvorki hjá héraðsdómi né hæstarétti,þeir eru svo innvinklaðir í svínaríið að þeir munu aldrei þora því,alveg sama þó það sé ritað með eldi í lögbókum að þetta er ÓLÖGLEGT

magnús steinar (IP-tala skráð) 4.12.2009 kl. 12:21

18 Smámynd: Billi bilaði

Hinn afar háttvirti hæstaréttardómari er greinilega þjóðarsómi.

Frábær grein annars, Marínó.

Billi bilaði, 4.12.2009 kl. 13:28

19 identicon

Ég vil þakka Marinó fyrir þessa greiningu á dómnum. Ég er með nákvæmlega eins lán og þessi aðili hvers mál var dæmt í gær á alveg stórfurðulegan hátt, og var vægast sagt vonsvikinn með dóminn. Er ekkert réttlæti til?!!

Benedikt Helgason segir í sínum ummælum að: "Það kann vel að vera að það sé ekki sannað að SP hafi verið hluti af skipulagðri stöðutöku gegn krónunni, en það er heldur ekki sannað að svo hafi ekki verið." SP segir hinsvegar í ársreikningi sínum frá 2007 að þeir verji sig gegn gengisáhættu með framvirkum gjaldmiðlasamningum. Er það ekki skortstaða? Ef að SP er með gengistryggð lán hversvegna þurfa þeir framvirka gjaldmiðlasamninga til að verjast gengisáhættu? Ég velti fyrir mér hvenær SP kaupi þá erlendu gjaldmiðla sem um ræðir, fyrir sín gengistryggðu lán. Er það gert sama dag og greiðsluseðillinn er myndaður eða síðar? Er SP að kaupa gjaldmiðla einhvern tímann á tímabilinu frá útgáfu greisðluseðils til gjalddaga hans og eiga þar með möguleika á gengismun sem fer/fór hugsanlega beint í vasa Landsbankans aftur sem eiganda SP? Þar fá þeir gengisáhættu sem þeir verjast með skortstöðu gegn krónunni eða hvað? Ef þeir gerðu þetta sama dag og greiðsluseðlar eru myndaðir væri engin gengisáhætta þar sem keyptir væru gjaldmiðlar fyrir þá upphæð sem rukkuð er.

Erlingur (IP-tala skráð) 4.12.2009 kl. 15:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 1678172

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband