Leita í fréttum mbl.is

80 ára leyndarákvæðið hefur, sem betur fer, nánast engin áhrif

Lagt hefur verið fram frumvarp á Alþingi um meðferð skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis vegna bankahrunsins.  Í frumvarpinu er lagt til að um leynd upplýsinga fari eftir 3. mgr. 8. gr. laga nr. 50/1996 Upplýsingalaga (sjá skýringu með 2. gr. frumvarpsins), en þar segir:

Veita skal aðgang að öðrum gögnum sem 4.–6. gr. taka til þegar liðin eru þrjátíu ár frá því að gögn urðu til, að frátöldum upplýsingum er varða einkamálefni einstaklinga, en aðgang að þeim skal fyrst veita að áttatíu árum liðnum frá því að þau urðu til. …2)

 

Hér er því verið að því virðist að leggja til 80 ára leynd á tilteknar upplýsingar sem rannsóknarnefndin hefur safnað í "þá gagnagrunna sem orðið hafa til í störfum hennar", eins og segir í 2.mgr. 2. gr. frumvarpsins.  Þarna er því ekki verið að tala um skýrslu nefndarinnar, enda telst hún seint vera gagnagrunnur.  En hvaða upplýsingar falla þá undir 80 ára leyndina? 

Skoðum Upplýsingalögin betur.  Í 4. gr. er eingöngu fjallað um upplýsingar frá stjórnvöldum og hún á því ekki við.  Og í 6. gr. fjallað um takmarkanir á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna, sem 80 ára reglan nær heldur ekki til.  Það er því eingöngu 5. gr. Takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna sem virðist eiga við.  Greinin hljóðar sem hér segir:

Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.

Fyrri setning málgreinarinnar fjallar um "einkamálefni einstaklinga" og því þarf að skoða hana betur.  Þar segir:  "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari..".  Það er þetta "sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari" sem skiptir hér mestu máli.  Ég get skilið (og tel mig hafa stoð í athugasemdum með frumvarpi að upplýsingalögum) að upplýsingar sem falla undir friðhelgi einkalífsins skuli fara leynt, en þær upplýsingar sem lúta að störfum einstaklinga fyrir stjórnvöld, opinbera aðila eða fjármálafyrirtæki, þá falli þær ekki undir 5. eða 8. gr. upplýsingalaga.  T.d. ef í ljós kemur að æðstu starfsmenn bankanna hafi verið í einhvers konar bræðralagi sem gekk út á að ná sem mestum peningi út úr vinnuveitanda sínum, þá verði ekki hægt að skýla sér bak við um gögn "um einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga" sé að ræða.  Sama á við um afkastatengdar launagreiðslur, sem ýttu undir áhættusækni.  Föst laun gætu aftur fallið undir þennan lið hjá starfsmönnum einkarekinna fjármálafyrirtækja, meðan heildarlaun seðlabankastjóra falla undir leyndina.

Mér sýnist sem frumvarp Rannsóknarnefndar Alþingis gangi hóflega fram í að takmarka aðgang almennings að þeim gögnum, sem sanngjarnt og eðlilegt sé að hann hafi aðgang að.  Til þess að haft sé það sem sannara reynist, þá eru engin leyndarákvæði í frumvarpinu, sem ekki er þegar í íslenskum lögum, og það er ekkert ákvæði sem heftir á einn eða neinn hátt aðgang almennings, að þeim upplýsingum sem munu birtast í skýrslu nefndarinnar.  2. gr. frumvarpsins nær eingöngu til þeirra "gagnagrunna sem orðið hafa til í störfum" nefndarinnar, þ.e. persónugreinanlegra einka- og fjárhagsupplýsinga sem "sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari".  Það ætti því ekkert að vera útstrikað í skýrslunni, þegar hún birtist almenningi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Það er nú ýmislegt hægt að fela undir þessum lið um einka- og fjárhagsupplýsingar.  Þetta verður sennilega til þess að enginn verður gerður ábyrgur í öllu þessu hruni og eftir 80 ár eru allar saki fyrndar og flestir dauðir, sem nefndin telur að hafi brotið lög.

Jakob Falur Kristinsson, 2.12.2009 kl. 14:15

2 Smámynd: Jóhannes Birgir Jensson

RAAL eru með upplýsingar um hvert einasta mannsbarn síðustu árin, öll lán og tekjur og fleira. Það er það sem verður "haldið leyndu", lesist sem verndar friðhelgi almennra borgara, þar á meðal ykkar tveggja.

Jóhannes Birgir Jensson, 2.12.2009 kl. 14:26

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Konltrólfríkin í forsætisnefnd þingsins munu ganga eins langt og þarf til að takmarka skaða fjórflokksins af þeim upplýsingum sem skýrsla ranssóknarnefndarinnar inniheldur.  En væntanlega er ekki hægt að halda öllum upplýsingum frá almenningi sérstaklega ef mál verða höfðuð á grundvelli þessarar skýrslu

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 2.12.2009 kl. 14:44

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jóhannes Birgir, þú gerir ekkert annað en að taka undir það sem ég segi.  Verndin er nánast engin umfram það sem er í persónuverndarlögum og snýst því nánast eingöngu um friðhelgi einkalífs.  Gagnrýnin sem komið hefur á þetta ákvæðið hefur byggst á þeim misskilningi að verndin nái til innihalds skýrslunnar, en hún gerir það ekki.

Marinó G. Njálsson, 2.12.2009 kl. 15:49

5 Smámynd: Björn Heiðdal

Ég hreinlega skil ekki tilganginn með gerð skýrslunnar ef eitthvað þarf að laga eða breyta áður en hún kemur fyrir sjónir almennings.  Nema þetta sé bara innanhúsplagg stjórnvalda en þá hefði ekki átt að auglýsa gerð skýrslunnar í öllum fréttatímum.

Björn Heiðdal, 3.12.2009 kl. 09:21

6 Smámynd: Maelstrom

Ég held að þessi skýrsla geti orðið mikill skaðvaldur ef ekki er farið varlega.  RAAL er búin að fá ótrúlegt magn upplýsinga í hendurnar þar sem persónuvernd, bankaleynd og öllu slíku var vikið til hliðar.  Af þeim sökum held ég að ekkert af þeim upplýsingum sem aflað var með þessum hætti geti orðið grunvöllur sakamála.

Það er því spurning hvort ekki sé verið að spilla sakamálum með því að birta ákveðnar upplýsingar í þessari skýrslu.  Sakborningar munu þá benda á þessa skýrslu og segja gögnin fengin með ólöglegum hætti.

Af þessum orsökum held ég að þessi skýrsla verði ekkert annað en einhver hvítþvottur.  Yfirborðskennt bull sem skauti yfir þetta allt og segi ekkert concrete um nokkurn skapaðan hlut.

Sjáið t.d. Forseta Íslands.  Hann er búinn að afhenda einhver bréf til RAAL en neita öðrum um aðgang og vill 30 ára trúnað.  Það hlýtur að byggja á því að RAAL sé ekki að fara að birta neitt af þeim gögnum sem nefndin fékk því annars væri þessi neitun forsetans mjög undarleg.  Það verður kannski sagt yfirborðskennt frá því í skýrslunni að forsetinn hafi sent einhver bréf og síðan kemur 20 síðna babl um að ekkert markvert hafi verið sagt í þessum bréfum. 

Maelstrom, 3.12.2009 kl. 14:21

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Við skulum ekki rugla saman skýrslunni og undirliggjandi gögnum.  Það segir hvergi í lögunum, að eitthvað í skýrslunni muni njóta leyndar.  Lögin ganga út á að verja gagnasöfnin sem RAAL lét útbúa og hafði til ráðstöfunar vegna vinnu sinnar.  Það er sérstaklega talað um gagnagrunna.  Vissulega er það skilgreiningaratriði hvað telst vera gagnagrunnur, en skýrslan sjáf er það örugglega ekki.

Marinó G. Njálsson, 3.12.2009 kl. 14:37

8 Smámynd: Offari

Ég á nú bágt með að skilja tilhvers var verið að eyða pening í þessa rannsókn fyrst niðurstaða á ekki að koma í ljós fyrr en eftir áttatíu ár. Það hefði þá þessvegna allveg mátt fresta ransóknini í áttatíu ár.

Offari, 3.12.2009 kl. 14:42

9 Smámynd: Maelstrom

Niðurstaðan mun liggja fyrir þegar skýrslan er birt.  Eftir 80 ár geturðu síðan farið og skoðað hreyfingar á einstökum bankareikningum, t.d. eins og launareikninginn þinn o.s.frv.  Barnabörnin þín geta skemmt sér yfir því að skoða einstakar færslur á VISA yfirliti afa og ömmu eða hvar pabbi og mamma straujuðu debetkortið sitt mánuðinn sem getnaður átti sér stað.

Það er alger óþarfi að birta þetta allt í skýrslunni, en nefndin gæti aftur á móti verið með þessi gögn.  Þessi gögn verða því opinber eftir 80 ár.

Maelstrom, 3.12.2009 kl. 14:53

10 Smámynd: Halldór Bjarki Christensen

Þessi bloggfærsla er einstaklega yfirveguð, upplýst og skýr. Takk fyrir það.

Halldór Bjarki Christensen, 10.12.2009 kl. 09:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 276
  • Frá upphafi: 1680564

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband